Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár, sem lagt var fram í gær kemur fram að framlög til framkvæmda í samgönguframkvæmda nemi 38,3 milljarða kr. og aukist um 5,7 milljarða kr. milli ára.
3/4 hlutar aukningarinnar til höfuðborgarsvæðisins
Þar vega þyngst aukin framlög til Betri samgangna um 4,2 ma.kr. í samræmi við uppfærðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Uppfærð framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að heildarkostnaður verkefnisins muni nema 311 milljarða kr. fram til ársins 2040.
Þá er aukið í fjárheimildir til nýframkvæmda og viðhalds á vegakerfinu um 3 milljarða kr. en á móti fellur niður 1,5 milljarða kr. tímabundnar fjárheimildir til sömu mála.
Ekki kemur fram í frumvarpinu heildstætt yfirlit um það hvernig fénu verður skipt milli framkvæmda en vísað er til fjármálaáætlunar.
Til samgöngumála í heild er veitt 62,3 milljarðar króna og hækkar fjárveitingin um 9 milljarða króna frá fjárlögum 2024.
Hluti af aukningunni er 1 milljarður króna sem fer til þess að auka við viðhald vega til þess að koma til móts við aukna umferð, bæði í fjölda ökutækja og þungaflutningum.
Þá verður aukið við um 2 milljarða króna til að auka öryggi á stofnvegum í kringum höfuðborgarsvæðið með aðskilnaði akstursstefna á Suðurlandsvegi við Gunnarshólma, Vesturlandsvegi á Kjalarnesi og Reykjanesbraut við Straumsvík.
Í þriðja lagi er bætt við 4 milljörðum króna vegna uppbyggingu samgönguinnviða allra ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við framkvæmdaáætlun samgöngusáttmála. Meðal framkvæmda sem unnið verður að er brú yfir Fossvog, Arnarnesvegur, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðarstýringu.
Loks eru settar 2,2 milljarðar króna í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við ákvæði samgöngusáttmálans „til að mæta 33% ábyrgð ríkisins á rekstri Strætó bs. samkvæmt samkomulagi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tengt endurnýjuðum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“
unnið að framkvæmdum á Vestfjarðavegi
Í greinargerð með frumvarpinu segir að áfram verði unnið að styttingu leiða á vegum, m.a. með framkvæmdum við Hornafjarðarfljót og nýja brú og veg yfir Ölfusá. „Þá verður unnið að framkvæmdum á Vestfjarðavegi um Gufudalssveit sem samanlagt mun stytta leiðina um 21,6 km, ásamt því að auka öryggi til muna.“ Um þetta segir að verkefnin séu samvinnuverkefni og innan ramma og að fjárveitingar séu óbreyttar.
Ekkert er minnst á lokaáfanga á Dynjandisheiði.