Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 42

Vikuviðtalið: Nanný Arna Guðmundsdóttir

Ég er fædd á Ísafirði, í ágúst 1970. Foreldrar mínir eru Jónína Sturldutóttir og Guðmundur Gunnar Jóhannesson. Fyrstu mánuði lífs míns bjuggum við mamma hjá ömmu Rebekku og afa Dúlla á Hlíðarvegi 37. Það var mjög fínt því á Hlíðarvegi 35 bjuggu föðuramma mín og afi, þau Steinunn Jóhannesdóttir og Jóhannes Björnsson. Á Hlíðarveginum bjuggu líka nánast allir mínir ættingjar, Jóna langamma frá Horni, Addi og Malla, Sella og Óli, Stígur Stóri og Lilja og Mummi. Hlíðarvegurinn iðaði af lífi á þessum árum, stutt í fjallið og fjöruna og fullt af krökkum sem urðu ævarandi vinir, unglingar sem ég óttaðist og vinkonur ömmu sem kíktu reglulega í kaffi og sígó og spjölluðu um allt og ekkert sem lítil eyru elskuðu að hlusta á.

Í dag á ég tvö foreldrasett, pabbi og konan hans Eva Lillerud búa í Þrándheimi og móðir mín og stjúpfaðir Helgi Jónsson búa á Akureyri og svo á ég tvö yndisleg systkini. Fjölskyldan fluttist til Akureyrar 1982, þá var stjúpfaðir minn alveg búin að fá nóg af faðmi fjalla blárra, enda ættaður af Melrakkasléttu. Ég kláraði „Gaggan“ á Akureyri og hóf nám í MA, sem entist mjög stutt. Mér leið ekki vel á Akureyri. Það var erfitt fyrir unglingsstelpu að komast inn í fullmótaða vinahópa, þekkja hvorki helstu kennileiti né staðhætti og vita ekkert um Þór eða KA. Á sumrin kom á ég heim á Ísafjörð, vann í Íshúsinu fyrst í grálúðu og svo fljótlega komin á bónusborðin að skera úr í akkorði.

Ísafjörður hefur alltaf verið heim og heimili ömmu og afa mitt annað heimili. Hjá þeim fylgdist ég með afa í pólitíkinni en hann var mikill Alþýðuflokksmaður, virkur í Kiwanis og vann á höfninni. Afi vildi ekki stelpur til sjós, alveg sama hvað ég nauðaði í honum um að redda mér sumarplássi þá var það alltaf þvert nei. Ég fékk samt að koma með honum á lóðsbátinn endrum og sinnum og halda í spotta. Amma vann á sjúkrahúsinu hálfan daginn. Hún sagði sjálf að hún væri kommúnisti en föðurfólk mitt er allt meira og minna framsóknarfólk svo ætli það megi ekki segja að ég sé pólitísk samsuða og hef þess vegna fundið mig vel heima í Í-listanum.

Mér hefur alltaf fundist gaman að vinna og nýt mín best í miklu ati. Ég var önnur stelpan til að vinna í Áhaldahúsinu. Þorbirni „Dodda“ fannst nú ekkert tiltökumál að ráða stelpu til starfa og kallarnir þar tóku mér vel. Það var mikill lærdómur fyrir unga stelpu að kynnast öllu þeim verkefnum sem þurfti að leysa úr. Á þessum árum var verið að mæla út fyrir Tunguhverfinu og taka út væntanlega gangnamuna undir Breiðadals- og Botnsheiði auk þess almenn störf eins og að losa skítastíflur, moka skurði til að laga vatnslagnir og leggja gangstéttar. Í áhaldahúsinu kynntist ég líka verðandi tengdaföður mínum.

Ég var á nítjánda ári þegar frumburðurinn minn Örvar Dóri fæddist. Við vorum tvö saman fyrstu fjögur árin. Ég kynntist manninum mínum Rúnari Óla Karlssyni á Ísafirði. Hann er sonur Rannveigar Hjaltadóttur og Karls Geirmundssonar. Við bættum tveimur dætrum í barnahópinn, Regínu Sif og Kolfinnu Írisi. Barnabörnin eru þrjú og tengdabörnin þrjú.

Ég nýt þess að vera úti að leika mér. Ætli ég hafi ekki verið pínu ofvirk sem krakki sem kom ekki að sök þá því börn æsku minnar voru alltaf úti að leika. Það er gott fyrir líkama og sál að vera úti, finna fyrir náttúrunni sem við höfum svo mikið af hér fyrir vestan. Pabbi minn var og er ennþá mikill skíðamaður og smitaði mig af skíðabakteríunni þegar ég var mjög ung. Ég nýt þess að skíða hvort sem það er á gönguskíðum, svigskíðum, fjallaskíðum eða utanbrautraskíðum. Svo hjóla ég, það er nýja sportið. Skemmtilegast er að nota hjólið sem ferðamáta. Hjóla á milli staða, finna ylminn af náttúrunni og skoða landslagið frá nýju sjónarhorni. Ég hef ferðast mikið og reyni alltaf að koma hjólaferðum inni í ferðaplanið. Það má segja að ferðalög séu þriðja áhugamálið mitt. Við hjónin förum á hverju ári í langt haustfrí og veljum lönd þar sem hitastigið er á pari við vestfirskan sumarhita, því við missum svo oft af sumrinu vegna vinnu.

Við hjónin eigum og rekum ferðaþjónustufyrirtækið Borea Adventures. Fyrirtækið sérhæfir sig í afþreyingaferðum hverskonar, í kringum Ísafjörð og á Hornströndum. Við bjóðum upp á kajakferðir, gönguferðir, hjólaferðir, skíðaferðir og ljósmyndaferðir. Þetta geta verið allt frá tveggja tíma ferðum upp í sex daga ferðir. Við erum líka með tvo farþegabáta í rekstri, bátana Sif og Írisi, svo nú er ég með útgerð þó ég hafi aldrei unnið til sjós. Ferðaþjónusta á Vestfjörðum hefur tekið miklum breytingum frá því við byrjuðum. Sumartímabilið hefur lengst, fjölbreytni orðið meiri og framboð á veitingahúsum og gistingu aukist. Í dag byrjar tímabilið hjá okkur í janúar og endar í lok september. Við erum með þrjátíu manns í vinnu yfir hásumarið, en átta í heilsársstörfum. Við leggjum mikla áherslu á að hafa heimafólk í vinnu. Við ráðum stelpur jafnt sem stráka sem leiðsögumenn en það var fáttítt þegar við byrjuðum. Ég ákvað að taka Dodda mér til fyrirmyndar og ráða frekar eftir dugnaði og reynslu, heldur en kyni.

Ferðaþjónusta er vaxandi á Vestfjörðum, umdeild og í stöðugri þróun, enda erum við einstakt landsvæði, ríkt af menninngu, sögu og náttúrufegurð. Umræða um skemmtiferðaskip stingur reglulega upp kollinum, sem ein tegund massatúrisma og hvort Vestfirðir ættu að einbeita sér frekar að næðisferðum þ.e. minni hópum og meiri gæðum. Ég held að þetta geti allt farið saman. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa stefnu, móta áætlun og horfa til framtíðar. Móttaka skemmtiferðaskipa hjá Ísafjarðarbæ hefur gengið vel, gestirnir eru ánægðir og dreifast víða. Ég hlakka til að halda áfram að taka þátt í að móta stefnu fyrir Ísafjarðarbæ hvort sem það er sem ferðaþjónn, íbúi eða pólitíkus.

Hér á ég heima og hér vil ég vera.

Bolafjall: framkvæmdir hafnar við bílastæði

Frá framkvæmdunum við bílastæðin í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Framkvæmdir eru hafnar við gerð bílastæða á Bolafjalli. Það er Bolungavíkurkaupstaður sem stendur fyrir framkvæmdunum. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjói segir að stefnt sé að því að nýju bílastæðin verði tekin í notkun fyrir lok þessa mánaðar.

Það er Þotan ehf sem annast framkvæmdir og er gert ráð fyrir að kostnaður verði 10- 15 m.kr. við að móta stæðin og leggja út unnið efni í yfirborði sem er svipað og vonast er til að innheimta bílastæðagjalda sumarsins skili í tekjur. Innheimta hófst 4. júní sl.

Í gær voru öflugir vörubílar að keyra efni upp á fjall frá náminnu á Skálavíkurheiðinni og virist verkið ganga vel.

Af útsýnispallinum á Bolafjalli var í gær útsýni með besta móti og sést vel yfir Djúpið yfir í nafla alheimsins, Grunnavík.

Mansavinir Suðureyri: 37. keppnin á morgun

Ungir mansaveiðimenn í keppninni í fyrra.

Á morgun laugardaginn 13. júlí fer fram á Suðureyri 37. keppnin í veiðum á marhnút. Ævar Einarsson er helsti hvatamaðurinn að keppninni og hefur staðið fyrir henni öll árin frá fyrstu keppni 1988.

Keppnin fer fram á höfninni á Suðureyri og hefst kl 15:15. Keppendur mæti heldur fyrr eða kl 14:30 til skráningar og fara yfir keppnisreglur. Hver mætir með sína veiðistöng.

Keppnin felst í veiðum á marhnút og eru veitt vegleg verðlaun sem Klofningur ehf gefur.

Veitt verða 1. , 2. og 3. verðlaun fyrir mest magn af afla, samanlagt af marhnút og öðrum afla. Einnig eru veitt verðlaun fyrir stærsta og minnsta marhnútinn og furðulegustu veiðina.

Öll verðlaun eru til eignar nema farandbikar fyrir mestan afla.

Það er félagsskapurinn Mansavinir sem halda keppnina og einkum er það yngsta kynslóðin sem er áhugasöm um að taka þátt.

Ævar sagði að keppnin hafi verið haldin samfleytt frá fyrstu keppni og aldrei fallið úr ár, ekki einu sinni í kovid tímabilinu. Eitt árið á þeim tíma voru að vísu eingöngu heimamenn sem tóku þátt og allir voru með grímu, en þannig tókst að halda keppnina.

Ævar Einarsson mansavinur.

Frá keppnishaldinu í fyrra.

Verðlaunagripirnir eru veglegir.

Þjóð­há­tíðar- og fossa­ganga í Vatnsdal 

Vatnsdalur. Mynd: Úlfar Thoroddsen.

Í ár eru liðin 50 ár frá því að þjóðhátíð var haldin í Vatnsfirði helgina 13.-14. júlí árið 1974. Í tilefni þess mun landvörður í friðlandinu leiða fossagöngu um Vatnsdal laugardaginn 13. júlí kl. 10:00–13:00.

Í dalnum er fjöldi fagurra fossa sem þáttakendur munu þræða á göngu sinni um dalinn. Gengið verður um grösugar flatir, í þéttum birkiskógi og á gljúfurbökkum.

Þátttakendur hittast á bílastæði við Lómatjarnir við Vatnsdalsvatn þar sem sameinast verður í bíla áður en keyrt er inn í Vatnsdal. Gangan hefst við bílastæði í botni dalsins.

Vegalengd: 6 km

Söngbók séra Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýrafirði komin út

Séra Ólafur Jónsson (um 1560–1627), prestur á Söndum í Dýrafirði, var á meðal vinsælustu skálda á sinni tíð. Kvæði og sálmar annarra skálda eru yfirleitt varðveitt hér og þar í handritum en séra Ólafur safnaði kveðskap sínum saman í eina bók sem kölluð hefur verið Kvæðabók. Hún er merkilegt framlag til íslenskra bókmennta en hún er ekki hvað síst mikilvæg heimild um tónlist á Íslandi á 17. og 18. öld.

Lögin við Kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum eru merkur þáttur í tónlistarsögu Íslands á 17. öld. Ekkert annað skáld, að undanskildum séra Oddi Oddssyni á Reynivöllum, orti svo marga sálma og kvæði við lög sem annars voru ekki kunn og sem fengu í flestum tilvikum ekki útbreiðslu nema við þann kveðskap sem Ólafur hafði klætt þau í. Tengslin við þýska tónmenningu eru einkar áhugaverð og er það verðugt rannsóknarefni fyrir fræðimenn framtíðarinnar að grennslast frekar fyrir um fyrirmyndir þeirra laga sem enn er óvíst hvaðan komu. Þá er Kvæðabók Ólafs á Söndum mikilvæg áminning um það að kvæði og sálmar voru almennt ekki lesin heldur sungin fyrr á öldum, eins og nótur og lagboðar eru til vitnis um.

Þessi útgáfa kvæðanna með nótum, sem hér er kölluð Söngbók séra Ólafs Jónssonar á Söndum, er bæði ætluð fræðimönnum og áhugafólki um tónlist og sögu íslenskrar tónlistar.

Textar kvæðanna eru með nútímastafsetningu en beygingarmyndum haldið. Skýringar eru við torskilin orð í kvæðunum. Fremst í ritinu eru yfirlitsgreinar um skáldskap Ólafs á Söndum og tónlistina við kvæði hans og aftast í því er lesbrigðaskrá og lýsingar á handritum.

Árni Heimir Ingólfsson, Johnny F. Lindholm, Margrét Eggertsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir bjuggu ritið til prentunar. Ritstjóri er Jóhannes B. Sigtryggsson.

Erlendum ríkisborgurum fjölgar um 4478 en íslenskum um 827

Alls voru 78.901 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. júlí sl. og fjölgaði þeim um 4.478 einstaklinga frá 1. desember 2023 eða um 6%. Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 827 einstaklinga eða um 0,3%.

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði um 572 eða 14,5% og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 212 eða 39,4%. Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um 723 og eru nú 26.335 pólskir ríkisborgarar með skráð lögheimili á Íslandi.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 827 einstaklinga eða um 0,3%.

Una Torfa á Vagninum á Flateyri 17. júlí

Söngvaskáldið Una Torfa er fædd árið 2000. Una semur og spilar ljúfsár lög á íslensku um ástina og lífið og gaf hún út sína fyrstu plötu í júní árið 2022. Textar Unu eru fjölbreyttir og taka á ýmsum hliðum margslunginna tilfinninga. Hún fangar nákvæmar tilfinningar og kemur þeim í orð, finnur lítil augnablik og hverfular hugmyndir og festir þær í textum.

Una gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Sundurlaus samtöl. „Þessi plata er full af lögum sem ég hef átt lengi og spilað oft. Að vissu leyti er ég að reyna að heiðra nokkrar fortíðar útgáfur af sjálfri mér.”

Una ferðast nú um landið með gítarleikaranum og kærasta sínum, Hafsteini Þráinssyni, og flytja plötuna í einföldum og fallegum búningi.
„Draumurinn er að Sundurlaus samtöl fái að lifa góðu lífi og festa rætur. Ég opnaði dagbókina og hjartað og ég vona svo innilega að vangaveltur unglings-Unu og mínar og allra sem hjálpuðu mér og henni rati á rétta staði.”

Mast: allt að 5.196 eldisfiskar sluppu í Öxarfirði

Eldisstöð Samherja í Öxarfirði. Mynd: Bændablaðið.

Niðurstöður Matvælastofunar eru að allt að 5.196 eldisfiskar hafi sloppið úr landeldi Samherja í Öxarfirði, en talið er að atvikið hafi átt sér stað 2. maí þegar vatnsyfirborð hækkaði í seiðakari með þeim afleiðingum að fiskur sogaðist út um yfirfallsop og yfir í frárennsliskassa. Seiðin voru u.þ.b. 70-80 gr. og ósmoltuð. Ekki var hægt að útiloka að seiðin hafi smoltast í settjörn og komist út í sjó. Samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðila fundust 868 seiði utan kers en óljóst var á þeim tímapunkti hversu mörg seiði struku í heild.

Í kjölfar tilkynningarinnar tók Matvælastofnun málið til rannsóknar og óskaði eftir frekari upplýsingum frá rekstrarleyfishafa meðal annars um aðgerðir hans við endurheimt þeirra seiða sem sluppu og nánari upplýsingum um fjölda þeirra. Rekstrarleyfishafi brást við og hóf veiðar í settjörn en Matvælastofnun hefur ekki fengið staðfest að öll seiði hafi náðst úr settjörninni.

Í tilkynningu Matvælastofnunar í dag segirað við rannsókn málsins hafi komið í ljós að rekstraraðili gat ekki gert grein fyrir 5.196 fiskum og dregur Matvælastofnun þá ályktun að það sé sá fjöldi seiða sem mögulega hafi smoltast í settjörn og strokið út í sjó.

Matvælastofnun setti alvarleg frávik í eftirlitsskýrslu sem birt hefur verið á mælaborði fiskeldis á heimasíðu stofnunarinnar þar sem ljóst er að fiskeldisstöðin var ekki útbúin eldisbúnaði sem var nægjanlega fiskheldur. Þá var fiskeldisstöðin ekki útbúin nægjanlega fínofnum netum til að fanga þau seiði sem struku úr stöðinni. Matvælastofnun mun hafa eftirlit með að unnið hafi verið úr alvarlegum frávikum.

Flateyri: þrjár myndlistarsýningar opnaðar á laugardaginn

Hrafnkell Sigurðsson og Hrafnhildur Arnardóttir. Mynd:VÍSIR/VILHELM

Næsta laugardag verða þrjár myndlista opnanir á Flateyri. Þrír myndlistarmenn opna sýningar á verkum sínum laugardaginn 13. júlí 2024.

Kl. 16.00 opnar Hrafnhildur Arnardóttir, einnig þekkt sem Shoplifter, sýningu sína Gátt, í galleríinu „Undir brúnni“. Líklega er um að ræða eitt minnsta gallerí landsins, undir gömlu brúnni fyrir ofan Tankinn á Sólbakka.

Kl. 16.30 opnar Kristján Björn Þórðarson innsetningu sína Endurlit, í Tankinum.

Þá opnar Hrafnkell Sigurðsson sýninguna Innhverfingar, kl. 17.00 í gömlu slökkvistöðinni á Brimnesvegi. Um er að ræða ný ljósmyndaverk sem byggja á verki Hrafnkels sem sýnt var undir brúnni í fyrra.

Sýning Hrafnkels verður opin til og með 21. júlí, sýning Kristjáns Björns verður opin til og með 6. ágúst og sýning Shoplifter undir brúnni mun standa út sumarið.

Allir velkomnir.

Tankuirnn Flateyri. Þaar verður Kristján Björn með sýningu.

Vesturbyggð: sviðsstjóri fjármála og stjórnsýslusviðs ráðinn tímabundið

Nanna Lilja Sveinbjörnsdóttir.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt samhljóða að ráða Nönnu Lilju Sveinbjörnsdóttur tímabundið í starf sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs Vesturbyggðar fram að fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar vorið 2026.

Í starfinu er Gerður Björk Sveinsdóttir, en hún hefur verið ráðin sem bæjarstjóri. Gerður staðfestir við Bæjarins besta að hún muni eiga þess kost eftir tvö ár ef aðstæður verða þannig að ganga til baka í sitt fyrra starf.

Nýjustu fréttir