Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 42

Töfrasýning fjölskyldunnar í Haukadal

Einn skemmtilegasti töframaður landsins verður með töfrasýningu í Kómedíuleikhúsinu Haukadal laugardaginn 14. september kl. 15:00. Þetta er fjölskyldusýning sem allir hafa gaman af!

Ný töfrabrögð, þar sem hlutir fljúga, birtast og hverfa!

Jón Víðis hefur skemmt landanum frá aldamótum með töfrabrögðum sem fá fólk til að taka andköf og brosa svoldið!

– Að sögn töframannsins var töfrasýning hans einn af 23 skemmtilegustu viðburðunum á Actinu í ár enda þekktur fyrir hógværð! Nú mætir hann með ný töfrabrögð, tilbúinn að koma fólki á óvart og kitla hláturtaugarnar!

Sýning sem allir hafa gaman af!

Það er ekkert gaman nema það sé skemmtilegt segir töframaðurinn

Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning 

Þriðjudaginn 17. september 2024 kl. 16:00 er á dagskrá hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða umfjöllun um vesturíslenskt mál og menningu í sal hjá Háskólasetri Vestfjarða.

Fluttir verða þrír fyrirlestrar undir yfirskriftinni: Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning 

Birna Arnbjörnsdóttir: Íslensk arfleifð í Vesturheimi, 150 ár frá upphafi vesturferða. 

Höskuldur Þráinsson: Hvað vitum við núna um vesturíslensku og hvað er svona merkilegt við það? 

Úlfar Bragason: „Hann er alveg hættur að skrifa og sokkinn í „þjóðahafið“.“ 

Þau Birna, Höskuldur og Úlfar, sem eru öll prófessorar á eftirlaunum, segja frá rannsóknum á vesturíslensku máli og menningu.

Þau hafa nýlega ritstýrt tveim greinasöfnum um þetta efni. Annað þeirra nefnist Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning og kom út hjá Háskólaútgáfunni 2018. Hitt heitir Icelandic Heritage in North America og kom út hjá University of Manitoba Press í Winnipeg 2023. Greinasöfnin byggja að verulegu leyti á rannsóknum sem voru styrktar af Rannsóknasjóði Íslands (RANNÍS). 

Ljósvíkingar: fimm aukasýningar

Aðalpersónurnar á Tjöruhúsinu (leikarar frá vinstri: Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Vigdís Hafliðadóttir, Björn Jörundur og Arna Magnea).

Kvikmyndin Ljósvíkingar eftir Snævar Sölvason hefur verið sýnd fyrir fullu húsi í Ísafjarðarbíó síðustu daga og hafa nú þegar 850 manns séð myndina. 

Steinþór Friðriksson býst við að gömul aðsóknarmet muni falla en metin eiga Mamma Mia og Titanic sem fóru í u.þ.b. 1000 manns, og hefur því verið bætt við sýningum næstu daga. Þess skal getið að einnig verða sýningar með enskum texta vegna fjölda fyrirspurna.

Ljósvíkingar er gamansöm mynd sem fjallar um tvo æskuvini á Ísafirði sem reka fiskveitingastað og er myndin að nær öllu tekin upp á Ísafirði og nágrenni. 

Hægt er að panta miða á facebook-síðu Ísafjarðarbíós og eru nýir sýningartímar eftirfarandi:

Fimmtudagur 12.sept kl. 8

Föstudagur 13.sept kl. 8

Sunnudagur 15.sept kl. 5

Mánudagur 16.sept kl. 8

Þriðjudag 17.sept kl. 8

Stakir borgarísjakar út af Vestfjörðum

Enginn samfelldur hafís er á Grænlandssundi en nokkuð er af stökum borgarísjökum á svæðinu og því ættu sæfarendur að vera á varðbergi vegna þeirra.

Í gær var vart við borgarísjaka um 3 km útaf Reykjarnesströnd sem er á milli Reykjarneshyrnu og Gjögurflugvallar. Virðist reka hægt inn Húnaflóa.

Vesturbyggð: áhyggjur af Dynjandisheiði

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar segir í ályktun sem samþykkt var á fundi þess á þriðjudaginn að það lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. „Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.“

Þá lýsti það áhyggjum af frestum framkvæmda í Gufudalssveit og segir mikilvægt að flýta framkvæmdum í Arnarfirði um Bíldudalsveg 63.

Bæjarstjóra var falið að kalla eftir svörum stjórnvalda.

Ályktunin í heild:

„Rætt um vegaframkvæmdir á svæðinu og fyrirsjáanlegar tafir á þeim.

Um leið og bæjarráð Vesturbyggðar fagnar þeim samgöngubótum sem orðið hafa á svæðinu undanfarin ár þá er mikið verk enn óunnið og staða í vegamálum í miklu ólagi.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.

Bæjarráð lýsir jafnframt yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.

Mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.

Bæjarráð skorar á stjórnvöld að taka samgönguáætlun til afgreiðslu á fyrstu dögum haustþings þar sem ólíðandi er að ekki sé til staðar gildandi framkvæmdaáætlun í samgöngumálum.“

Krambúðin á Hólmavík býður betri kjör á nauðsynjavörum fyrir heimafólk

Íbúum á Laugarvatni, Flúðum, Hólmavík og Mývatni bjóðast nú betri kjör af 270 vörum í Krambúðinni í þeirra heimabyggð með nýrri lausn í Samkaupa-appinu. Innleidd hefur verið ný viðbót við Samkaupa-appið, en með því að velja „þína verslun“ í appinu bjóðast betri kjör á helstu nauðsynjavörum í þessum tilteknu Krambúðum á landsbyggðinni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkaupum.

Afurð samtals við nærsamfélög

Lausnin var innleidd til prófunar í Krambúðinni í Búðardal í maí á þessu ári, og er nú aðgengileg fyrir allar Krambúðir sem staðsettar eru á landsbyggðinni. Þessi auka afsláttur í formi inneignar er hluti af aðgerðum til að koma til móts við íbúa í heimabyggð og er afrakstur samtals og samvinnu við viðskiptavini um hvernig hægt er að mæta óskum um lægra vöruverð.

„Lausnin hefur reynst vel í Dalabyggð síðustu mánuði og hafa íbúar í auknum mæli valið að kaupa nauðsynjavörur í heimabyggð á þessum sérkjörum. Við höfum lengi leitast við að eiga opið samtal við íbúa á landsbyggðinni og í þeim nærsamfélögum sem við störfum í um rekstrarumhverfi í smærri bæjarfélögum, og erum stolt af þessari lendingu,” segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúðarinnar.

Afsláttur í formi inneignar í verslunum Samkaupa

Með því að skanna appið þegar greitt er fyrir vörurnar í búðinni fá viðskiptavinir afsláttinn greiddan í formi inneignar sem hægt er að nota í öllum verslunum Samkaupa. Vörurnar eru sérstaklega merktar í búðinni með grænum hringlaga miða utan um hillumiðann.

„Verslanarekstur á landsbyggðinni er erfiðari en í fjölmennari byggðum og það hefur sett okkur ákveðinn ramma, því hverja verslun verður að reka á eigin forsendum. En með því að nýta vildarkerfið okkar getum við komið til móts við íbúa í nágrenni Krambúða á landsbyggðinni með þessum hætti. Við höfum verið með appið í þróun í nokkurn tíma og sambærileg fyrirbæri hafa gefið góða raun á Norðurlöndunum. Með því að skanna appið í hverri innkaupaferð safna viðskiptavinir inneign sem hægt er að nota við næstu innkaup. Þannig tryggjum við gagnkvæma hagsmuni verslunar og samfélags og getum viðhaldið rekstri í minni byggðarlögum,” segir Kristín.

Míla með ljósamastur á Þingeyri

Þigeyrarhöfn í júlí. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Gerður hefur verið samningur milli Hafna Ísafjarðarbæjar og Mílu um fjarskiptastöð á Þingeyri. Míla fær aðstöðu fyrir loftnet, sendabúnað og tækjaskáp á og við ljósamastur í Þingeyrarhöfn. Samningurinn er til fimm ára og endurnýjast hann sjálfkrafa um ár í senn ef ekki kemur til uppsagnar. Ársleigan er 350.000 kr. Míla mun greiða kostnað við rafmagn fyrir tækjabúnað á sínum vegum.

Búnaðurinn sem fer í notkun þarna mun stórbæta 4G og 5G á svæðinu fyrir fólk og fyrirtæki samkvæmt upplýsingum frá Mílu. 

Sameiginleg brunavarnaráætlun fyrir norðanverða Vestfirði

Bílafloti slökkviliðsins fyrir nokkrum árum.

Í bréfi Sigurðar Arnars Jónssonar, slökkviliðsstjóra Ísafjarðarbæjar til bæjarráðs kemur fram að vinna við nýja brunavarnaráætlun fari að hefjast á haustdögum. Starfsmenn slökkviliðsins munu sjá um þessa vinnu.

Ákveðið hafi með stuðningi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að gera eina sameiginlega áætlun, fyrir Ísafjarðarbæ, Súðavík og Bolungarvík í stað þriggja.

Sú áætlun sem er í gildi rennur út í júní 2025 hjá Ísafjarðarbæ en ekki hefur verið gerð áætlun í mörg ár, hvorki fyrir Súðavík né Bolungavík.

Slökkviliðið þurfi samþykki bæjarráðs fyrir þessari vinnu þar sem um eina sameiginlega brunavarnaráætlun er að ræða á svæði slökkviliðsins. Kostnaður er minniháttar segir slökkviliðsstjóri en verður einhver með aðkeyptri aðstoð brunatæknifræðinga og aðra sérfræðinga.

„Það er skylda hvers slökkviliðs að gera brunavarnaráætlun fyrir sitt svæði, þar kemur fram hvernig slökkvilið er statt til að takast á við lögbundin verkefni í sveitarfélaginu. Bæði um bruna, eiturefni ef einhver eru og einnig dælugeta til að takast á við rigningarvatn og sjávarflóð. Brunaslöngulagnir í metrum, tegund á brunabílum, árgerð og útbúnaður á bílum og einnig hvort að körfubíll sé til taks og hversu hátt hann fer.“

Bæjarráðið tók ekki afstöðu til erindisins en vísaði málinu til kynningar í skipulags- og mannvirkjanefnd.

Fiskeldisgjald: hækkun boðuð eða ekki

Teitur Björn Einarsson, alþm.
Teitur Björn Einarsson, alþm. í ræðustól á Fjórðungsþingi Vestfirðinga.

Í fjarlagafrumvarpi ríkisstjornarinnar er boðið hækkun á fiskeldisgjaldi af sjókvíaeldi úr 4,3% í 5% af alþjóðlegu meðalverði á eldislaxi. Þar segir að gert hafði verið ráð fyrir að hækka gjaldið úr 3,5% í 5% í fjárlögum ársins 2024, „en ákveðið var að áfangaskipta hækkuninni. Því kemur seinni áfanginn til framkvæmda í fjárlögum ársins 2025 og er gert ráð fyrir að tekjur aukist um 300 m.kr. vegna breytingarinnar.“

Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar frá desember 2023 þegar afgreiddar voru lagabreytingar tengdar fjárlögum yfirstandandi árs segir að fara þurfi hægar í sakirnar varðandi hækkun fiskeldisgjaldsins og „miðað við þær tekjuáætlanir sem birtast í fjármálaáætlun sé rétt að hækka gjaldið um 0,8 prósentustig en ekki 1,5 prósentustig eins og lagt er til í frumvarpinu. Leggur meiri hlutinn til breytingu til samræmis við framangreint.“

Ekki frekari hækkun

Bæjarins besta innti Teit Björn Einarsson alþm, formann þingnefndarinnar, eftir því hvort það hafi verið niðurstaðan meirihluta nefndarinnar í fyrra að hækka gjaldið í áföngum og að nú ætti að hækkað það í 5%.

„Nei það er alveg skýrt að við afgreiddum þetta sem endanlega hækkun, það var enginn umræða um að þetta væri áfangaskipt og seinni hluti kæmi þá fram að ári.“

Teitur Björn bætti því við að það sem var horft til, „og sem ein rök fyrir að draga úr hækkuninni (úr 5% í 4,3%), var að von væri á tillögu um nýtt fyrirkomulag gjaldtöku, sem kom svo fram í frumvarpi sl vor. Þetta skýtur því skökku við, og það á sam tíma og enn er rætt um hvernig móta eigi nýtt gjaldtökufyrirkomulag skynsamlega.“

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp með fjárlagafrumvarpinu þar sem tilgreindar eru lagabreytingar sem grípa þarf til vegna fjárlaganna. Þar er ekki að finna tillögu um frekari hækkun fiskeldisgjaldsins.

Fiskeldisgjaldið var sett á með lögum frá 2019 sem 3,5% og verður innleitt í sjö áföngum og gjaldið hækkar því um 1/7 á hverju ári fram til 2026 þegar það verður komið að fullu til framkvæmda. Hækkunin í fyrra í 4,3% eykur á árlega hækkun. Á næsta ári verður hækkun og það verður 6/7 hlutar gjaldsins komið á.

Á árinu 2024 er gjald á hvert kílógramm slátraðs lax 37,80 kr. og gjald á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs 18,90 kr. Hækkaði gjaldið um 106% milli ára, en það var 18,33 kr/kg árinu áður.

Til samanburðar er veiðigjald 2024 af óslægðum þorski 26,66 kr/kg.

Uppfært kl 11.22. leiðrétt var fjárhæð fiskeldisgjaldsins. Það er 37,80 kr/kg eftir hækkunina úr 3,5% í 4,3% sem tilkynnt var 29.12. 2023. Áður hafði 1. desember verið tilkynnt að gjaldið væri 30,77 kr./kg.

Súgandafjarðargöngin: breikkun nauðsynleg en ekki næsta framkvæmd

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu á Suðureyri segir að breikkun Súgandafjarðarhluta Vestfjarðaganga sé nauðsynleg, en segist hafa skilning á því að aðrar framkvæmdir á Vestfjörðum séu brýnni og nefnir sérstaklega breikkun Breiðadalshluta ganganna og Súðavíkurgöng. Hann segir að það sé ekki gott að hafa einbreið göng til Suðureyrar en það hindri þó ekki búsetu í Súgandafirði.

Elías Guðmundsson framkvæmdastjóri Fisk Club á Suðureyri tekur í svipaðan streng. Hann telur umferðastjórn með ljósum geta leyst úr hluta vandans í Vestfjarðagöngum. Elías telur áríðandi að vegurinn um Súgandafjörð verði mokaður betur yfir vetrartímann svo fólk komist í göngin. „Það er alls ekki svo gott. Þjónusta við snjómokstur hefur farið mikið aftur undanfarin ár. Svo er vegurinn um Súgandafjörð frá Botni og út fjörð orðinn um 40 ára gamall, ekki í fullri breidd, holóttur og með handónýtu malbiki. Það væri amk rétt að byrja á því að laga veginn að göngum fyrst að mínu mati.“

Samkvæmt umferðartölum frá Vegagerðinni er ársdagsumferðin um Súgandafjarðarhluta Vestfjarðaganga 280 bílar og 580 bílar að meðaltali á hverjum degi um Breiðadalslegg ganganna. Til Ísafjarðar er ársdagsumferðin 790 bílar.

Ársdagsumferðin í Ögri í Ísafjarðardjúpi er 240 bílar en búist er við því að stór hluti þeirrar umferðar fari vestur um Vestfjarðargöng eftir að vegarbótum á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit verður lokið.

Til samanburður er ársdagsumferðin um Bolungavíkurgöng 1.200 bílar.

Nýjustu fréttir