Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 41

Ljúfar móðurminningar 

Þann 8.júlí síðastliðin varð frumburðurinn minn 45 ára – ótrúlegt hvað tíminn líður !

Ég er vön að senda dætrum mínum smá minningarbrot frá bernskudögum þeirra með afmæliskveðjunum sem þær kunna vel að meta. 

Þessar kveðjur hræra gjarnan upp í minningarbankanum svo mér datt í hug að setja nokkrar niður á blað og deila með ykkur.

Dæturnar eru fjórar fæddar á tæpum sex árum.

Þetta eru skynugar stelpur og það kom snemma í ljós að þær voru ákaflega starfsamar og höfðu ríka sjálfsbjargarviðleitni. Þær vildu öðru fremur sanna að þær gætu gert hlutina upp á eigin spýtur. – Ég skal ! sögðu þær og það voru allavega aðferðir notaðar við að reima á sig skóna – krummafótur var aukaatriði – það sem skipti máli var að hafa „faglega“ hnýtta skó á báðum.

Þær voru ósköp góðar þegar þær voru litlar og léku sér saman í mesta bróðerni undir forystu þeirra elstu. Þær voru alveg lausar við rell og suð en gátu átt það til að vera uppátækjasamar – sérstaklega þær eldri.

Stundum var allt undirlagt meira að segja salernið svo tipla varð á tám milli opinberra stofnana og einkaframtaksins ef komast átti klakklaust um í þeirra litlu veröld.

Við bjuggum á Eyrarbakka þegar þriðja systirin fæðist og hún segir mér elsta dóttirin að það sé með hennar fyrstu minningum þegar þær tvær eldri fengu að fara með pabba að heimsækja mömmu á fæðingardeildina til að sjá litlu systur.

Litla lubbastelpan okkar var svo skýrð í Eyrarbakkakirkju á sjómannadegi. Öll fjölskyldan að sjálfsögðu mætt til kirkju ásamt nokkrum ættingjum – með allan hugan við við væntanlega athöfn og afann sem átti að halda barninu undir skírn. Þær stuttu voru ekki lengi að notfæra sér það og áður en nokkur vissi af voru þær komnar upp að altarinu og farnar að tína blómin af kransinum sem átti að fara á leiði óþekkta sjómannsins. Það er þá tekin sú ákvörðun að senda eina frænkuna með þær heim því þær voru líka komnar með meiri áhuga fyrir kirkjugestunum sem hlógu af uppátæki þeirra heldur en því sem í vændum var. Þegar heim var komið komust þær í annað sem þeim þótti ekki minna spennandi en blómin – það voru terturnar sem þær auðvitað þurftu að kanna aðeins – þá sérstaklega skrautið.

Þegar við komum svo heim að athöfn lokinni ásamt presti sem hafði verið boðið í kaffi var hlaupin smá galsi í stelpurnar – sjálfsagt af öllu kökuskrautinu svo þær voru hlaupandi um á meðan gestir gæddu sér á kaffi og kökunum sem þær höfðu tekið forskot á og það endar með því að að önnur þeirra sú yngri hleypur í fangið á presti og þegar hún áttar sig á fyrirstöðunni lítur hún upp á hann og segir – jesús minn guð ! og svo var hún rokin.

Litla systir var með eindæmum rólegt barn – sat þar sem hún var sett niður og lét sér nægja það sem henni var fært til dundus oft í félagsskap Óla páfagauks sem þótti ekki verra þegar buglis eða ceerios var á boðstólnum. Hún virtist ekki hafa nokkurn áhuga fyrir því að tæta og rífa né að kynna sér veröldina með bragðlaukunum eins og barna er siður. Ef hún fór á stjá þá voru það helst stríðsárabækurnar sem voru í hættu – henni tókst að rífa þær niður gólf þó miklir hlunkar væru og horfði svo sigrihrósandi á mömmu sína – aðrar bækur lét hún lét hún eiga sig – henni virtist bara í nöp við þessar – enda friðelskandi manneskja allar götur.

Sú yngsta var nýfædd þegar við flytjum á Ísafjörð. Hún var vart farin að standa í fæturna þegar hún  var innrituð í skólann sem starfræktur var á efri hæðinni á Seljarlandsveginum allt árið um kring með smá hléum þó – hún því orðin fluglæs fimm ára. Skólastarfsemi fléttaðist inn í svo marga leiki hjá þeim systrum – þær eldri miðluðu þá kunnáttu sinni til þeirra yngri.

Það var til mikið safn af barnabókum á heimilinu – það vantaði þó eina og eina blaðsíðu í sumar sem höfðu verið notaðar sem jólapappír þegar slegið hafði verið upp jólum kannski á miðju sumri í einhverjum þykjustuleiknum.

Eftir að við fluttum á Hnífsdalsveginn setti sú yngsta upp bráðamóttöku fyrir vængjuð og ferfætt fórnarlömb heimiliskattarins og búið var um þau í rúmfataskúffunni – en fyrir gat komið að þau sem enn voru rólfær færu á stjá við lítinn fögnuð. En stelpan var orðin ansi lunkin við að góma skepnurnar þó fullfrískar væru og ríkti því stundum stríðsástand á milli hennar og kattarins því hann var engan vegin sáttur við þetta björgunarstarf.

Einu sinni eftir að bráðamóttakan hafði verið lögð niður lét hún sig hafa það að hlaupa á náttfötunum seint um kvöld niður í fjöru með eina í lófanum til að bjarga henni frá kettinum.

Þær hafa alltaf verið samrýmdar systur og stutt hvor aðra þegar eitthvað hefur á bjátað – fyrir það er ég endalaust þakklát. En það gat enga að síður kastast í kekki þeirra í milli á stundum sérstaklega eftir á gelgjuskeiðið var komið. Seinni fréttir herma að þá hafi símaskráin fengi að kenna á því – það var þá komin skýring á því afhverju hún var alltaf svona ræfilsleg þrátt fyrir árlega endurnýjun – sem og lokið af óhreinatauskörfunni.

Símaskráin var sem sé notuð til að leggja áherslu á hlutina í misklíðarmálum og sú sem átti í vök að verjast notaði þá lokið af óhreinatauskörfunni sem skjöld. Fyrir gat komið að eitthvað innanstokks yrði fyrir hnjaski í átökunum – en takmarkaðar skýringar fengust þegar gengið var eftir þeim – ásakanir vildu þá ganga á víxl – það var því sagt með áherslu þegar bíllinn lenti hálfur inn um herbergisglugga hjá okkur fyrir margt löngu – ég gerði þetta ekki ! – Drífa gerði þetta ! – Edda ætlaði sko ekki að láta kenna sér um þessi ósköp – Alda og Brynja voru þá ekki heima.

Edda sem augnabliki áður hafði yfirgefið herbergið og lokað því á eftir sér áttaði sig ekki á hvað hafði í raun skeð. Hún var í tölvuleik og sat alveg upp við gluggann – hún stendur upp, labbar út og lokar á eftir og er rétt komin fram á miðjan gang þegar ósköpin dynja yfir – þarna munaði aðeins örfáum sekundum. Merkilegt að hún skuli hafa lokað á eftir sér þar sem þetta herbergi stóð alltaf opið því þar var talvan sem allir höfðu aðgang að.

Það var mikil blessun að enginn skuli hafa slasast – hvorki innandyra né úti.

Systur eru allar mjög duglegar og atorkusamar enda oft fengið lof frá sínum vinnuveitendum fyrir dugnað og ósérhlífni og Drífa mín eitt sinn leyst út með kitchenaid hrærivél af vinnuveitanda sem sagðist kunna að meta góða starfskrafta.

Þær hafa allar sótt sér góða menntun og starfa við það sem þær hafa menntað sig til.

Þær hafa spjarað sig vel þó á móti hafi blásið og komist áfram á eigin verðleikum.

Þær hafa þurft að hafa fyrir hlutunum og oft saknað þess sem öðrum þykir svo eðlilegt og sjálfsagt – því þrátt fyrir góða eiginleika þykir gott að hafa þá sem kærastir eru sér til halds og trausts þegar gengið er til móts við nýjar áskoranir í lífinu – ekki bara að hálfu leyti – heldur öllu.

Ákvarðanir og afskipti annarra óviðkomandi geta svo sannarlega haft áhrif á líf þeirra sem síst skyldi.

Ég er stolt af stelpunum mínu og sakna þeirra endalaust – meigi guð og góðar vættir vaka yfir þeim sem og ykkur á þessum válegu tímum.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Fossavatnsgangan: sækir um heimild fyrir starfsmannahúsi á Breiðadalsheiði

Afstöðumynd af staðsetningu hússins.

Fossavatnsgangan hefur óskað eftir leyfi fyrir því að setja niður starfsmannahús á gatnamótum
Breiðadals-og Botnsheiði.


Í erindinu segir að undanfarin ár hafi verið farið með starfsmannahús upp á heiði sem notað er eingöngu fyrir gönguna í skamman tíma. Þetta „hefur skapað mikla vinnu og óhagræði fyrir okkur og nú þegar vegurinn er orðinn mjög slæmur þá er þetta að verða nánast ómögulegt.
Við ákváðum að taka kofann ekki niður núna eftir síðustu göngu heldur freista þess að fá leyfi bæjaryfirvalda til að fá að setja húsið á staurastöpla á gatnamótin.
Ekki er um það að ræða að tengja hvorki vatn né rafmagn að þessum kofa heldur eingöngu hugsaður sem
afdrep fyrir starfsmenn á meðan göngu stendur.“

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar bendir á að um er að ræða framkvæmd sem fellur ekki undir stöðuleyfi, heldur byggingarheimild. Umsóknaraðila var bent á að sækja um byggingarheimild til byggingarfulltrúa.

Teikning af húsinu. það er 21.7 fermetrar að grunnfleti.

Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum

Arnlín segir fundarmönnum skilmerkilega frá öllu því sem fyrir augum ber. Mynd Lilja Magnúsdóttir

Aðalfundur Félags skógarbænda á Vestfjörðum var haldinn á handverksmarkaði Össu Króksfjarðarnesi laugardaginn 29. júní 2024. Mættir voru 13 félagar. Naomi Bos formaður fór yfir starfið á árinu. Breytingar urðu á stjórn frá fyrra ári þannig að í stað Naomi og Mörtu Guðrúnar Jóhannesdóttur í aðalstjórn voru kjörin þau Lilja Magnúsdóttir og Dagbjartur Bjarnason.

Stjórnin skipti með sér störfum á þá leið að Lilja Magnúsdóttir er formaður, Arnlín Óladóttir er gjaldkeri og Dagbjartur Bjarnason ritari. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var rætt um fyrirhugað málþing á Laugum í Sælingsdal þann 12. október í haust og drög að dagskrá sem lágu fyrir fundinum. Áhugi er fyrir því að fá formenn og stjórnir annarra skógarbændafélaga til skrafs og ráðagerðar um að sameina krafta skógarbænda og ræða sameiginlega framtíðarsýn. Var nýrri stjórn falið að vinna þessar hugmyndir áfram og mun nýkjörin stjórn skógarbænda á Vestfjörðum setja sig í samband við kollega sína í öðrum landshlutum til að fá þá í lið með sér við þessa umræðu.

Mikill áhugi var fyrir málþinginu í haust og mun ný stjórn vinna áfram með drög að dagskránni og koma henni á framfæri sem allra fyrst.

Eftir fund var gengið um Skóga í Þorskafirði undir handleiðslu Halldórs Þorgeirssonar og Eyglóar Gísladóttur ásamt Arnlín Óladóttur sem sögðu frá þessum fallega og sérstaka skógi. Jörðin Skógar eru í eigu Bahá‘í samfélagsins á Íslandi og hefur mikil vinna verið lögð þar í gróðursetningu og fegrun umhverfisins með stígagerð og auðveldara aðgengi.

Stjórn Skógarbænda á Vestfjörðum skipa nú Lilja Magnúsdóttir, formaður, skógarbóndi í Tálknafirði, Dagbjartur Bjarnason, ritari, skógarbóndi í Dýrafirði og Arnlín Óladóttir, gjaldkeri, skógarbóndi í Bjarnarfirði á Ströndum.

 Kílómetragjald á öll ökutæki árið 2025

Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp á haustþinginu um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025.

Með frumvarpinu er áformað að greitt verði kílómetragjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð því í hvaða flokki ökutækið er í.

Lagt er til að kíló­metra­gjald verði föst krónu­tala fyr­ir hvern ek­inn kíló­metra af öku­tækj­um með leyfða heild­arþyngd 3.500 kg. eða minna, en fyr­ir ligg­ur að þau öku­tæki valda al­mennt áþekku vegsliti.

Ef leyfð heild­arþyngd öku­tæk­is er um­fram 3.500 kg. mun fjár­hæð kíló­metra­gjalds taka mið af heild­arþyngd út frá út­reikn­ingi á til­tekn­um þyngd­arstuðli. Gjaldið fer því hækk­andi með auk­inni þyngd tæk­is­ins.

Kíló­metra­gjaldið á að koma í stað olíu- og bens­íngjalda sem eru greidd við kaup á jarðefna­eldsneyti. Þau gjöld verða felld á brott sam­hliða upp­töku kíló­metra­gjalds­ins.

Gjaldið á að greiða mánaðarlega út frá áætl­un um meðalakst­ur á mánuði og gert upp þegar ný kíló­metr­astaða öku­tæk­is er skráð á Ísland.is eða hjá fag­giltri skoðun­ar­stofu.

Inn­heimta gjalds­ins verði þannig með áþekk­um hætti og tíðkast fyr­ir orku­reikn­inga veitu­fyr­ir­tækja.

Allar heimastjórnir í Vesturbyggð hafa tekið til starfa

Ráðhús Vesturbyggðar.

Heima­stjórnir Arnar­fjarðar, Tálkna­fjarðar, Patreks­fjarðar og fyrrum Barða­strand­ar­hrepps og Rauðasands­hrepps hafa nú allar tekið til starfa og lokið sínum fyrstu fundum.

Lilja Magnúsdóttir hefur verið ráðinn ritari heimastjórna og hóf hún störf í júní. Hún heldur utan um störf heimastjórna, ritar fundargerðir og fylgir málum þeirra eftir.

Lilja er skógfræðingur að mennt, hefur haldgóða reynslu af sveitarstjórnarmálum, meðal annars sem oddviti sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps, og hefur starfað í ýmsum ráðum og nefndum.

Heima­stjórnir eru fasta­nefndir innan sameinaðs sveit­ar­fé­lags sem starfa í umboði sveit­ar­stjórnar. Mark­miðið með heima­stjórnum er að heima­menn hafi aðkomu að ákvörð­unum sem varða nærum­hverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkom­andi byggð­ar­lagi og komið málum á dagskrá bæjar­stjórnar. Í hverri heima­stjórn eru þrír full­trúar, tveir sem kosnir eru sérstak­lega samhliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ingum og einn bæjar­full­trúi.

Slæm veðurspá næstu tvo daga

Lögreglan á Vestfjörðum vill vekja athygli á slæmri veðurspá næstu tvo sólarhringana. Gul veðurviðvörun er í gildi, aðallega á sunnan og norðanverðum Vestfjörðum.

Spáin gerir ráð fyrir því að úrkoman verði einna mest á svæðinu frá Reykhólum og að Látrabjargi/Patreksfirði.

Vegfarendur sem ætla að aka milli landshluta eru hvattir til að gæta að veðurspá og veðuraðstæðum inn á umferðin.is

Eins að gera viðvart í síma Vegagerðarinnar, 1777 ef vart verður við grjóthrun á vegi.

Bretland: vilja auka sölu á eldislaxi til Evrópusambandsins

Viðskiptaráðherrann Jonathan Reynolds. Mynd: Sky News

Viðskiptaráðherrann Jonathan Reynolds í nýju ríkisstjórn Verkamannaflokksins, sem tók við eftir kosningarnar 4. júlí vill ná samningum við Evrópusambandið um aukna sölu á skoskum eldislaxi. Reynolds sagði í viðtali við Sky news að ríkisstjórnin væri staðráðin í því að nýta möguleika um samninga við ESB til þess að auka sölu á skoskum eldislaxi á þann markað.

IntraFish vefurinn greinir frá þessu.

Samtök eldisframleiðenda í Skotlandi lögðu áherslu á það í aðdragandi kosninganna til breska þingsins að stjórnmálaflokkarnir ynnu að auknum viðskiptum milli Bretlands og ESB sem myndu auka útflutning á breskri vöru til Evrópusambandsins. Tavish Scott forseti sölusamtakanna Salmon Scotland fagnaði ummælum ráðherrans og lagði áherslu á að mikil sóknarfæri væru í því að auka útflutning frá Skotlandi og þar með að auka framleiðsluverðmæti með bættum samskiptum við ESB.

Besta deildin: KA í heimsókn á sunnudaginn

Á sunnudaginn verður heimaleikur í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kerecisvellinum á Torfnesi þegar KA frá Akureyri kemur í heimsókn og hefst leikurinn kl 14.

Er þetta fjórði heimaleikur Vestra í deildinni, tveir fyrstu töpuðust en um síðustu helgi gerði Vestri jafntefli við Breiðablik frá Kópavogi.

Greinilegt er að liðið er að ná betri tökum á því að spila á nýja gervigrasvellinum og sýndi það í leiknum gegn Breiðablik að það getur staðið bestu liðunum í deildinni á sporði.

Leikurinn gegn KA er afar þýðingarmikill þar sem Akureyringarnir eru aðeins með einu stigi meira en Vestri eftir þrettán umferðir af 22 og eru í 10. sæti og Vestri í 11. sæti. Með sigri myndi Vestri fara upp fyrir KA og upp úr fallsæti.

KA er hins vegar sýnd veiði en ekki gefin. Liðið hefur byrjað brösuglega en vann Val um daginn í undanúrslitum bikarkeppninnar og sýndi þar að liðið er gott og getur eins og Vestri velgt öllum liðum undir uggum.

Nú er lagt fyrir Vestfirðinga að fjölmenna á völlinn á sunnudaginn og hvetja okkar menn til fyrsta sigurs á heimavelli.

Reykhólar : 12 nýjar íbúðir á árinu

Unnið við grunn eins raðhússins. Myndir: Hrafnkell Guðnason.

Framkvæmdir standa yfir við byggingu þriggja raðhúsa á Reykhólum. Fjórar íbúðir verða í hverju þeirra. Um er að ræða einingahús og segist Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti Reykhólahrepps gera ráð fyrir að hægt verði að flytja inn í þær í haust.

Allt eru þetta leiguíbúðir sem þrjú félög standa að. Íbúðaleigufélögin Bríet og Brák byggja hvor sitt raðhúsið og Tekta byggir eitt.

Hún segir mikinn húsnæðisskort vera í sveitarfélaginu og hafi staðið ráðningu fólks fyrir þrifum. Það vanti húsnæði fyrir skólastjóra og kennara og eins þurfi Þörungaverksmiðjan húsnæði fyrir starfsmenn sína. Jóhanna segist vonast til þess að þessi mikla innskýtingu dugi til þess að mæta knýjandi þörf en ljóst sé að huga þurfi að byggingu fleiri íbúða.

tvær íbúðir í Barmahlíð

Auk þess verður um 100 fermetra svæði á efri hæð Barmahlíðar innréttað á þessu ári og þar verða tvær íbúðir sem henta eiga fyrir eldri borgara. Það er sveitarfélagið sme stendur fyrir þeim framkvæmdum.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti Reykhólahrepps.

Framkvæmdir við grunn raðíbúðanna.

Hvalárvirkjun: hefja framkvæmdir eftir tvö ár

Vesturverk ehf sem vinnur að Hvalárvirkjun gerir ráð fyrir í sínun áætlunum að hefja virkjunarframkvæmdir eftir tvö ár eða á árinu 2026. Áformað er að umsókn um virkjunarleyfi verði lögð inn snemma árs 2025 og undirbúningsframkvæmdir fari fram um sumarið. Framkvæmdaleyfið fáist á fyrri hluta árs 2026 og framkvæmdir hefjist þá um sumarið. Rekstur virkjunarinnar hefst samkvæmt þessum áætlunum á árinu 2030.

Þegar hefur verið undirritaður samningur um greiðslutryggingu Vesturverks fyrir kostnaði Landsnets við undirbúning tengilagnar. Um er að ræða kostnað að upphæð 295 m.kr. og verða 107 m.kr. greiddar á þessu ári og lokagreiðsla verður á árin u 2026.

Í reynd er um að ræða fyrirframgreiðslu á tengigjaldi/kerfisframlagi þar sem tryggingarfjárhæðin með vöxtum gengur upp í endanlegt tengigjald.

Landsnet hefur þegar á þessu ári undirbúning að umhverfismati fyrir línulögn og verkhönnun háspennulína- og strengja hefst. Umhverfismatið hefst svo á næsta ári og verði lokið 2027. Framkvæmdir hefjist 2028 og verði lokið tímanlega fyrir gangsetningu virkjunarinnar 2030.

Nýjustu fréttir