Ég hef nú verið framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu í sex og hálft viðburðaríkt ár. Það má segja að í vinnunni sé ég að sinna nokkrum af mínum mestu áhugamálum sem er efling samfélags og atvinnulífs á Vestfjörðum. Á Vestfjarðastofu vinna nú 14 starfsmenn á þremur starfsstöðvum, hér á Ísafirði, á Patreksfirði og Hólmavík.
Vestfjarðastofa var stofnuð 1. desember 2017 með sameiningu skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Undir hatt Fjórðungssambandsins hafði áður verið sett Markaðsstofa Vestfjarða og Menningarfulltrúi Vestfjarða. Það var trú þeirra sem stóðu að sameiningunni að með henni yrði hægt að ná meiri slagkrafti í hagsmunagæslu, atvinnu og byggðaþróun fyrir Vestfirði. Í vinnunni hjá Vestfjarðastofu eru í raun engir tveir dagar eins og verkefnin ótrúlega fjölbreytt og starfsmannahópurinn líka.
Ég er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði árið 1967, frumburður ungra foreldra. Mamma var fædd og uppalin í Bolungarvík og pabbi í Hnífsdal. Ég bjó í Bolungarvík fyrstu sex mánuðina en foreldrar mínir keyptu Bakkaveg 15 og fluttu þangað fyrir jólin 1967 og hafa búið þar síðan. Ég á þrjú yngri systkini og það kann að heyra til tíðinda að við búum öll hér á Ísafirði, þrjú okkar meira að segja í sömu götu.
Ég er semsagt uppalin Hnífsdalingur en alin upp við að enginn staður sé samt fallegri en Bolungarvík, séð úr Hólunum. Í uppvextinum fórum við mikið til Bolungarvíkur, þar bjuggu amma og afi og öll systkini mömmu og mikill samgangur var á milli systkinanna. Ég var til dæmis alltaf í Bolungarvík á Gamlárskvöld og á 17. júní þegar ég var barn. Ég hugsa stundum um allar ferðirnar um Óshlíðina í allskonar veðrum sem foreldrar mínir fóru með fullan bíl af börnum.
Æskan í Hnífsdal var ljúf og góð og blessunarlega tíðindalítil. Ég byrjaði nokkuð snemma að vinna í Hraðfrystihúsinu og var farin að tína orma og skera úr beinagarða fyrir 12 ára aldur. Ég held að ég hafi verið sex eða sjö sumur í vinnu í frystihúsinu og fór þaðan í Hamraborg til Ínu og Úlfars og vann svo að ég held eitt sumar á Sjómannastofunni hjá Magga Hauks og Rönku. Í Hnífsdal var ég í Barnaskólanum í Hnífsdal frá 7-12 ára aldurs en eftir það tók Gagnfræðaskólinn á Ísafirði við. Eftir Gagnfræðaskólann fór ég í Samvinnuskólann á Bifröst sem þá var menntaskóli og tók þaðan verslunarpróf og stúdentspróf frá framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík. Á milli fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna og fór þá úr 80 manna skóla á Bifröst í 1700 manna skóla í Wheeling, Illinois. Það var frekar ögrandi en afar þroskandi reynsla sem ég held að ég búi ennþá að þó það séu komin nærri 40 ár síðan!
Að loknu stúdentsprófi var ég ekki viss um hvaða leið ég vildi fara og fékk þá vinnu í Búvörudeild Sambandsins í Reykjavík þar sem ég vann í rétt rúmlega hálft ár. Þurfti þá að velja um að hætta eða andast úr leiðindum. Ég hætti þá og kom vestur og fékk vinnu við að þjóna til borðs á Hótel Ísafirði hjá þeim ágætu hjónum Áslaugu Alfreðsdóttur og Ólafi Erni Ólafssyni. Það var mikið gæfuspor og ég vann hjá þeim hjónum á Hótel Ísafirði og síðar Vesturferðum í nærri 13 ár með hléum.
Ég vann í tæp tvö ár fyrst og safnaði mér peningum til að geta farið í Hótelskóla til Sviss. Ég var í Neuchatel í Sviss í tvö ár og kom þá heim og fór í Tækniskólann og lauk þaðan námi í Iðnrekstrarfræði. Árið 1993 voru Vesturferðir stofnaðar og ég tók að mér að reka þá skrifstofu sem fyrst var bara opin yfir sumartímann og ég var í alls konar verkefnum yfir veturinn þessi fyrstu ár. Ég rak Vesturferðir til ársins 2002 og á þeim árum lauk ég B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Ég bætti síðan við mig M.Sc. gráðu í forystu og stjórnun frá sama skóla árið 2016. Mér telst til að ég hafi útskrifast fjórum sinnum frá Bifröst eða tengdum skólum.
Árið 2000 kynntist ég manninum mínum, Sigurði Arnórssyni og hann var til í að koma hingað vestur og prófa að búa hér í smá tíma sem varð 22 ár. Við bjuggum fyrst í Hnífsdal en fluttum á Ísafjörð 2015. Við eignuðumst tvö börn saman, hana Guðrúnu Helgu sem er 18 ára og Jón Sigmar sem fæddist andvana árið 2008. Siggi barðist við krabbamein í nærri fimm ár og tapaði þeirri baráttu og lést í lok ágúst í fyrra.
Þegar ég hætti hjá Vesturferðum fór ég að vinna með manninum mínum í verkefnum sem tengdust gerð vefsíðna og markaðssetningu á netinu. Ég tók að mér ýmis verkefni á þessum tíma og vann í hlutastarfi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólasetri Vestfjarða.
Árið 2007 bauðst mér vinna hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem þá var að setja upp starfsstöð hér á Ísafirði og hóf ég störf þar í byrjun janúar 2008. Það var skemmtileg og fjölbreytt vinna og verkefnin voru um allt land. Ég lærði ótrúlega margt á þeim tíu árum sem ég vann hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hætti þar til að fara á Vestfjarðastofu.
Ég hef í öllum þeim störfum sem ég hef tekið að mér verið ótrúlega heppin með yfirmenn og samstarfsfólk. Það er ekki undantekning á því á Vestfjarðastofu þar sem ég vinn í hópi frábærra sérfræðinga sem eru líka alveg dásamlegt fólk.
Ég hef komið að ýmsum skemmtilegum verkefnum sem eru beint og óbeint tengd vinnunni eins og að sitja í skólanefnd Menntaskólans á Ísafirði og stjórn Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða. Ég hef mikinn áhuga á eflingu menntunar og nýsköpun sem ég tel hvort tveggja vera forsendur fyrir jákvæðri þróun byggðar.
Þegar kemur að áhugamálum þá hef ég mikinn áhuga á pólitík og samfélagsmálum almennt. Ég hef í gegnum tíðina alltaf lesið mikið, reyndar hlusta ég meira þessa dagana en ég les bækur. Ég geng mikið og í sumar fór ég í fyrsta sinn í skipulagt göngufrí sem var svo skemmtilegt að það er alveg á hreinu að ég geri það aftur. Ég er frekar kvöldsvæf en vakna yfirleitt snemma og reyni að byrja hvern morgun á einhverri hreyfingu sem oftast er svona klukkutíma ganga. Um helgar fer ég stundum aðeins lengri gönguferðir. Ég hef afar gaman af því að ferðast og hyggst gera meira af því á næstu árum.