Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 41

Ísafjörður: Kviknaði í rútu í Tungudalnum – enginn slasaðist

Rútan brennur. Mynd: aðsend.

Fyrir skömmu kviknaði í fólksflutningarútu í Tungudal og verið er að slökkva í henni. Mikill fjöldi bíla bíður eftir því að komast leiðar sinnar.

Ekki hefur náðst í lögregluna á Vestfjörðum til þess að afla nánari upplýsinga um atburðinn.

Uppfært kl 15:37. Lögreglan upplýsti fyrir fáum mínútum að allir farþegar komust út óslasaðir og voru fluttir af vettvangi með annarri hópbifreið.

Veginum hefur verið lokað á meðan að unnið er að slökkvistarfi og vettvangsrannsókn.

Flamenco og salsa á Patreksfirði

Fræðslumiðstöð Vestfjarða er með námskeið um næstu helgi fyrir alla þá sem finnst gaman að dansa og langar að kynnast flamenco og salsa.

Á námskeiðinu verður farið yfir grunnatriði þessara kraftmiklu og grípandi dansa.

Námskeiðið er kennt bæði laugardag og sunnudag, tvo tíma í senn. Þátttakendur eru beðnir um að hafa með sér þægilega íþróttaskó.

Kennari á námskeiðinu er Alejandra De Avila. Alejandra hefur bakgrunn í tónlist og leikhúsi og hún er menntaður kennari í tónlistar- og hreyfifræðslu.

Hún hefur starfað sem kennari við Listaháskóla Íslands, unnið með og sett upp sýningar bæði með atvinnumönnum og áhugafólki og verið með námskeið og fræðslu víða um heim.

Síðustu  ár hefur hún starfað sem kennari við Tónlistarskóla Vesturbyggðar.

Nánar um þetta á frmst.is

Hnúfubak bjargað úr veiðarfærum í Steingrímsfirði

Björgunarsveitir frá Drangnesi og Hólmavík losuðu á miðvikudag hnúfubak sem hafði fest sig í veiðarfærum í Steingrímsfirði.

Tilkynning um hvalinn barst eftir hádegi til Matvælastofnunar og var hann þá talinn dauður.

Myndir úr dróna samtakanna Whale Wise staðfestu hinsvegar að dýrið væri lifandi en samtökin hafa verið við hvalarannsóknir á svæðinu. Var þá ráðist í björgunaraðgerðir að fengnu samþykki matvælaráðherra sem fer með málefni sjávarspendýra.

Viðbragðsteymið „Hvalir í neyð“ var kallað kallað saman en teymið samanstendur af sérfræðingum og fulltrúum frá Matvælastofnun, Landhelgisgæslunni, almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Í samstarfi við Háskóla Íslands rannsaka Whale Wise umfangið á sjáanlegum ummerkjum og örum á hvölum sem flækjast í veiðarfærum. Umræddur hnúfubakur hefur verið nefndur „Bird“ í rannsóknum samtakanna. Bird er tæplega níu metra langur og hefur sést á svæðinu síðan um miðjan ágúst sl. en hefur sést á Skjálfandaflóa fyrri ár. Bird er talinn vera unghveli en kyn er enn óljóst.

Eftir að hvalurinn hafði losnað við veiðarfærin kvaddi hann með kröftugu sporðaslagi og sást stefna til hafs og út á Húnaflóa.

Gígabit í Súðavík

Áfltaver í Súðavík þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru.

Íbúar í Súðavík eiga nú kost á Gígabit ljósleiðara frá Snerpu. Þeir notendur sem þegar voru komnir með 500 Mbps voru færðir sjálkrafa á gígabit en notendur með 100 Mbps endabúnað geta jafnframt óskað eftir stækkun á sínu netsambandi og mun þá Snerpa heimsækja þá og skipta um endabúnað þeim að kostnaðarlausu.

Skelfiskræktun og vinnsla

Kræklingarækt hefur verið reynd hér við land en átt erfitt uppdráttar. Áhugi stjórnvalda hefur verið dræmur og lýsir sér best í hvað regluverk um ræktun af þessu tagi hefur verið veikburða og ófullnægjandi. Víða um heim er slík ræktun í blóma og það er ekkert sem segir að það sama geti átt við á Íslandi, en umgjörð stjórnvalda þarf að styðja við framleiðsluna svo að hægt sé að tryggja hámarksábata til framleiðenda og samfélagsins.. Náttúran er ekki til fyrirstöðu, en sjórinn við Ísland er mjög frjósamur og getur vaxtahraði kræklings hér við land verið álíka og það sem þekkist í Evrópu.

Kræklingur

Kræklingaræktun er lífræn og umhverfisvæn starfsemi. Engin fóðrun á sér stað og ekki eru notuð nein efni við ræktunina. Aðeins búnaðurinn sjálfur hefur áhrif á umhverfið en öll framkvæmdin er afturkræf og sjónræn áhrif hennar eru haldin í lágmarki. Þó þarf að hafa varann á þar sem ræktun í of miklum mæli getur haft neikvæð áhrif á þörunga, enda nærast skeldýr á þeim.

Undirrituð óskaði eftir skýrslu frá matvælaráðherra á vordögum um skeldýrarækt, umfang hennar frá árinu 2011 og samanburð á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd. Skýrslan var birt í byrjun þessa mánaðar.

Ræktun og veiðar skeldýra eru einungis heimilar á ræktunarsvæðum sem Matvælastofnun hefur viðkennt á grundvelli heilnæmiskannana. Á útgefnum leyfum má sjá að framleiðsla hefur farið fram í fjörðum víða um land, að undanskildu Suðurlandinu.

Lög og reglur

Um ræktun á skeldýrarækt gilda lög nr. 90/2011 og voru það fyrstu heildarlögin á Íslandi um skeldýrarækt. Samkvæmt mati matvælaráðuneytisins er erfitt að meta áhrif lagasetningunnar á ræktun á kræklingi á Íslandi, en fyrstu árin eftir lagasetninguna jókst ræktun hér við land allt til ársins 2018. Þá fór að halla undir fæti.

Nokkur vinna hefur farið fram í undirbúningi að setningu reglugerðar um skeldýrarækt með stoð í áðurnefndum lögum en meðgangan hefur tekið á og engin afurð litið dagsins ljós né er hún í sjónmáli.

Samanburður á starfsumhverfi

Hér á landi fellur allur kostnaður við sýnatökur og greiningar á þann ræktanda sem hyggst setja krækling á markað. Er það í samræmi við framleiðslu matvæla almennt. En þegar er litið á umfang kræklingaræktunar hér við land verður þetta að segja að kröfurnar eru umtalsverðar. Því almennt vantar mikið upp á rannsóknir og stefnu stjórnvalda varðandi þessa starfsemi. Það hefur letjandi áhrif og vinnur gegn framþróun í starfsgeiranum. Í sumum löndum Evrópu hafa stjórnvöld ákveðið að standa alfarið straum af kostnaði við eftirlit og vöktun á ræktunarsvæði kræklings. Þarna ráða hagsmunir um almannaheill, þar sem sýkingar og eitrun geta komið upp og skiptir því miklu máli að heilnæmi vörunnar skili sér til neytenda. Það á að vera stefna stjórnvalda að styðja við frumkvöðla á þessu sviði hér við land, því sú ræktun sem farið hefur fram hér er enn að slíta barnsskónum og ræktun hvers fyrirtækis er í smáum stíl. Ávinningur að rannsóknum, eftirliti og vöktun fyrir ríkið er mikill m.a. þar sem mikilvægt er að byggja undir stefnu og regluverk um greinina til framtíðar.

Byggðamál

Uppbygging atvinnu um allt land skiptir máli. Það skiptir líka máli að byggt sé undir fjölbreytni og sjálfbæra nýting auðlinda. Það er staðreynd að þessi starfsemi getur þrifist á þeim svæðum þar sem byggðir hafa farið halloka í atvinnumálum og getur því reynst mikilvæg hvað varðar styrkingu byggða um landið.

Matvælaráðherra hefur þegar sett á stað stefnumótun er varðar skeldýrarækt og er hún hluti af stærri stefnumótun um nýtingu þangs og þara. Það er ánægjulegt að sjá aukin áhuga stjórnvalda á málaflokknum. En það er ljóst að hraða þurfi setningu regluverks í kringum greinina. Það hefur nú þegar farið fram vinna í þeim undirbúningi og greinin kallar sterkt eftir föstum grunni til að byggja sína starfsemi á. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að kræklingarækt þróist og vaxi, enda höfum við aflað mikillar þekkingar í þessum efnum á undanförnum árum og hún má ekki tapast.

Halla Signý Kristjánsdóttir

þingmaður Framsóknar

Patreksfjörður: 25 skemmtiferðaskip og 7.000 farþegar

Skilti sett á Schengen gáminn í Patrekshöfn fyrir móttöku á ferðamönnum með skemmtiferðaskipum. Mynd: Patrekshöfn.

Í sumar komu 25 skemmtiferðaskip til Patreksfjarðar og segir Elfar Steinn Karlsson, hafnarstjóri að með þeim hafi komið um 7.000 farþegar.

Það er ekki búið að gefa út reikninga fyrir síðustu skipunum en tekjur hafnarsjóðs eru áætlaðar um 13 milljónir króna.

Ný flotbryggja í Patrekshöfn er komin í gagnið og þar er aðstaða fyrir farþega skemmtiferðaskipa sem koma í land með léttabátum. Við bryggjuna mun einnig liggja Björgunarskipið Vörður.

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti í vikunni viðauka 3 við fjárhagsáætlun ársins að upphæð 5 m.kr. vegna uppsetningar á strengjum og endurnýjun á rafmagnstöflum við smábátahafnir við Patrekshöfn.

Framkvæmdir hafnasjóðs verða eftir viðaukann þá á árinu 112.6 m.kr. Stærst eru kaup hafnasjóðs á Vatneyrarbúð af bæjarsjóði fyrir 78 m.kr. og er ætlunin að reka þar þekkingarmiðstöð fiskeldis, enda verði þar rekin starfsemi sem tengist rannsóknum og eftirliti með hafsækinni starfsemi.

Vikuviðtalið: Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

Sigríður Ólöf ásamt Guðrúnu Helgu dóttur sinni í Vínarborg.
Sigríður Ólöf ásamt Guðrúnu Helgu dóttur sinni í Vínarborg.

Ég hef nú verið framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu í sex og hálft viðburðaríkt ár. Það má segja að í vinnunni sé ég að sinna nokkrum af mínum mestu áhugamálum sem er efling samfélags og atvinnulífs á Vestfjörðum. Á Vestfjarðastofu vinna nú 14 starfsmenn á þremur starfsstöðvum, hér á Ísafirði, á Patreksfirði og Hólmavík.

Vestfjarðastofa var stofnuð 1. desember 2017 með sameiningu skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Undir hatt Fjórðungssambandsins hafði áður verið sett Markaðsstofa Vestfjarða og Menningarfulltrúi Vestfjarða. Það var trú þeirra sem stóðu að sameiningunni að með henni yrði hægt að ná meiri slagkrafti í hagsmunagæslu, atvinnu og byggðaþróun fyrir Vestfirði. Í vinnunni hjá Vestfjarðastofu eru í raun engir tveir dagar eins og verkefnin ótrúlega fjölbreytt og starfsmannahópurinn líka.

Ég er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði árið 1967, frumburður ungra foreldra. Mamma var fædd og uppalin í Bolungarvík og pabbi í Hnífsdal. Ég bjó í Bolungarvík fyrstu sex mánuðina en foreldrar mínir keyptu Bakkaveg 15 og fluttu þangað fyrir jólin 1967 og hafa búið þar síðan. Ég á þrjú yngri systkini og það kann að heyra til tíðinda að við búum öll hér á Ísafirði, þrjú okkar meira að segja í sömu götu.

Ég er semsagt uppalin Hnífsdalingur en alin upp við að enginn staður sé samt fallegri en Bolungarvík, séð úr Hólunum.  Í uppvextinum fórum við mikið til Bolungarvíkur, þar bjuggu amma og afi og öll systkini mömmu og mikill samgangur var á milli systkinanna. Ég var til dæmis alltaf í Bolungarvík á Gamlárskvöld og á 17. júní þegar ég var barn. Ég hugsa stundum um allar ferðirnar um Óshlíðina í allskonar veðrum sem foreldrar mínir fóru með fullan bíl af börnum.

Æskan í Hnífsdal var ljúf og góð og blessunarlega tíðindalítil. Ég byrjaði nokkuð snemma að vinna í Hraðfrystihúsinu og var farin að tína orma og skera úr beinagarða fyrir 12 ára aldur. Ég held að ég hafi verið sex eða sjö sumur í vinnu í frystihúsinu og fór þaðan í Hamraborg til Ínu og Úlfars og vann svo að ég held eitt sumar á Sjómannastofunni hjá Magga Hauks og Rönku. Í Hnífsdal var ég í Barnaskólanum í Hnífsdal frá 7-12 ára aldurs en eftir það tók Gagnfræðaskólinn á Ísafirði við. Eftir Gagnfræðaskólann fór ég í Samvinnuskólann á Bifröst sem þá var menntaskóli og tók þaðan verslunarpróf og stúdentspróf frá framhaldsdeild Samvinnuskólans í Reykjavík. Á milli fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna og fór þá úr 80 manna skóla á Bifröst í 1700 manna skóla í Wheeling, Illinois. Það var frekar ögrandi en afar þroskandi reynsla sem ég held að ég búi ennþá að þó það séu komin nærri 40 ár síðan!

Að loknu stúdentsprófi var ég ekki viss um hvaða leið ég vildi fara og fékk þá vinnu í Búvörudeild Sambandsins í Reykjavík þar sem ég vann í rétt rúmlega hálft ár. Þurfti þá að velja um að hætta eða andast úr leiðindum. Ég hætti þá og kom vestur og fékk vinnu við að þjóna til borðs á Hótel Ísafirði hjá þeim ágætu hjónum Áslaugu Alfreðsdóttur og Ólafi Erni Ólafssyni. Það var mikið gæfuspor og ég vann hjá þeim hjónum á Hótel Ísafirði og síðar Vesturferðum í nærri 13 ár með hléum. 

Ég vann í tæp tvö ár fyrst og safnaði mér peningum til að geta farið í Hótelskóla til Sviss. Ég var í Neuchatel í Sviss í tvö ár og kom þá heim og fór í Tækniskólann og lauk þaðan námi í Iðnrekstrarfræði. Árið 1993 voru Vesturferðir stofnaðar og ég tók að mér að reka þá skrifstofu sem fyrst var bara opin yfir sumartímann og ég var í alls konar verkefnum yfir veturinn þessi fyrstu ár. Ég rak Vesturferðir til ársins 2002 og á þeim árum lauk ég B.Sc gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Ég bætti síðan við mig M.Sc. gráðu í forystu og stjórnun frá sama skóla árið 2016. Mér telst til að ég hafi útskrifast fjórum sinnum frá Bifröst eða tengdum skólum. 

Árið 2000 kynntist ég manninum mínum, Sigurði Arnórssyni og hann var til í að koma hingað vestur og prófa að búa hér í smá tíma sem varð 22 ár. Við bjuggum fyrst í Hnífsdal en fluttum á Ísafjörð 2015. Við eignuðumst tvö börn saman, hana Guðrúnu Helgu sem er 18 ára og Jón Sigmar sem fæddist andvana árið 2008. Siggi barðist við krabbamein í nærri fimm ár og tapaði þeirri baráttu og lést í lok ágúst í fyrra.

Þegar ég hætti hjá Vesturferðum fór ég að vinna með manninum mínum í verkefnum sem tengdust gerð vefsíðna og markaðssetningu á netinu. Ég tók að mér ýmis verkefni á þessum tíma og vann í hlutastarfi hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólasetri Vestfjarða.

Árið 2007 bauðst mér vinna hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem þá var að setja upp starfsstöð hér á Ísafirði og hóf ég störf þar í byrjun janúar 2008. Það var skemmtileg og fjölbreytt vinna og verkefnin voru um allt land. Ég lærði ótrúlega margt á þeim tíu árum sem ég vann hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og hætti þar til að fara á Vestfjarðastofu.

Ég hef í öllum þeim störfum sem ég hef tekið að mér verið ótrúlega heppin með yfirmenn og samstarfsfólk. Það er ekki undantekning á því á Vestfjarðastofu þar sem ég vinn í hópi frábærra sérfræðinga sem eru líka alveg dásamlegt fólk.

Ég hef komið að ýmsum skemmtilegum verkefnum sem eru beint og óbeint tengd vinnunni eins og að sitja í skólanefnd Menntaskólans á Ísafirði og stjórn Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða. Ég hef mikinn áhuga á eflingu menntunar og nýsköpun sem ég tel hvort tveggja vera forsendur fyrir jákvæðri þróun byggðar.

Þegar kemur að áhugamálum þá hef ég mikinn áhuga á pólitík og samfélagsmálum almennt. Ég hef í gegnum tíðina alltaf lesið mikið, reyndar hlusta ég meira þessa dagana en ég les bækur. Ég geng mikið og í sumar fór ég í fyrsta sinn í skipulagt göngufrí sem var svo skemmtilegt að það er alveg á hreinu að ég geri það aftur. Ég er frekar kvöldsvæf en vakna yfirleitt snemma og reyni að byrja hvern morgun á einhverri hreyfingu sem oftast er svona klukkutíma ganga. Um helgar fer ég stundum aðeins lengri gönguferðir. Ég hef afar gaman af því að ferðast og hyggst gera meira af því á næstu árum.

Vigur: báturinn nærri sokkinn

Í óveðrinu á fimmtudaginn í síðustu viku var báturinn í Vigur nærri sokkinn. Hann var við bryggju og gekk veðrið og sjórinn yfir hann. Var kallað á Kobba Láka, björgunarbát björgunarsveitarinnar Ernis í Bolungavík til aðstoðar. Gengu björgunaraðgerðir að sögn Birgis Lofts Bjarnasonar vel og var báturinn dreginn til Súðavíkur.

Bátarnir komnir inn í Álftafjörðinn.

Myndir: aðsendar.

Málþing í Menntaskólanum á Ísafirði

Frá málþinginu. Mynd: M.Í.

Í gær tóku dagskólanemendur og starfsfólk MÍ þátt í málþingi í Edinborgarhúsinu sem bar yfirskriftina Við öll í MÍ.

Málþingið hófst kl. 9 með stuttu innslagi frá Villa Neto um mikilvægi þess að það þurfi ekki að tala fullkomlega til að skiljast eða eins og hann sagði beint – þeir skilja sem vilja! Síðan stýrðu þær Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag.  Áhugaverðar umræður sköpuðust í vinnustofunum um fordóma, inngildingu og fjölmenningu svo fátt eitt sé nefnt.

Alls voru þátttakendur á námskeiðinu hátt í 250. Vel fór um þennan stóra hóp í Edinborgarhúsinu og í hádeginu var öllum hópnum síðan boðið í hamborgaraveislu á Edinborg Bistro.

Það er von okkar í MÍ að málþingið hafi verið öllum þátttakendum til gagns. Málefnin sem til umfjöllunar voru eru flókin en mikilvæg og nauðsynlegt fyrir okkur öll að halda umræðunni áfram. Munum að við í MÍ erum allskonar og við fögnum fjölbreytileikanum!

Málþingið hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála.

Tólfti september – Freymóður Jóhannsson

Freymóður Jóhannsson, málarameistari, listmálari og tónskáld, fæddist 12. september 1895, enda notaði hann höfundarnafnið -Tólfti september- á lög sín. Freymóður fæddist í Stærra-Árskógi, sonur Jóhanns T. Þorvaldssonar og Hallfríðar Jóhannsdóttur.

Freymóður lauk gagnfræðaprófi á Akureyri, stundaði málaranám hjá Ástu málara, framhaldsnám í Kaupmannahöfn, nám við Teknisk Selskabs Skole og í Kunstakademiet, listmálaranám á Ítalíu og í Danmörku og nám í leiktjaldagerð við Konunglega leikhúsið i Kaupmannahöfn. Hann var málarameistari á Akureyri, listmálari í Óðinsvéum 1936-39 og vann síðan við Hagstofuna í Reykjavík.

Málverk Freymóðs voru yfirleitt landslagsmyndir í súper-realískum stíl enda var honum meinilla við aðrar stefnur, einkum abstraktverk. Sem fyrsti sérmenntaði leiktjaldamálari Leikfélags Reykjavíkur vann hann mjög raunsæjar útimyndir á sviði. Margir lofuðu Freymóð fyrir vikið, en aðrir gagnrýndu hann fyrir glansmyndir sem drægju athygli frá leiknum. Deilur um leiktjöld LR hörðnuðu síðan er Lárus Ingólfsson kom heim frá leiktjaldanámi með nýjar hugmyndir árið 1933.

Freymóður var bindindismaður  (límonaðidrengur)  og frumkvöðull að hinum frægu dægurlagakeppnum SKT sem haldnar voru í Gúttó og Austurbæjarbíói á sjötta áratugnum.

Freymóður samdi texta og melódísk og grípandi dægurlög sem sum hver urðu afar vinsæl. Meðal þekktustu laga hans eru Frostrósir; Draumur fangans; Litla stúlkan við hliðið og Litli tónlistarmaðurinn.

Freymóður og Kristján Albertsson gagnrýndu harkalega sænsku kynlífsfræðslumyndina Táknmál ástarinnar, sem sýnd var í Hafnarbíói um 1970. 68-kynslóðin kunni ekki að meta þessa siðvendni og hafði skoðanir þessara öldnu menningarforkólfa í flimtingum. En þeir voru hins vegar ýmsu vanir á langri og stormasamri ævi.

Freymóður lést 6.mars 1973.

Af vefsíðunni thingeyri.is

Nýjustu fréttir