Miðvikudagur 4. september 2024
Síða 40

Veiðitímabil rjúpu 2024

Umhverfisstofnun hefur sent inn veiðistjórnunartillögur fyrir rjúpu árið 2024 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

Samkvæmt drögum að nýrri stjórnunar og verndaráætlun rjúpu skulu veiðidagar vera heilir og veiði hefjast fyrsta föstudag á eða eftir 20. október.

Veiði er heimil frá og með föstudegi til og með þriðjudags innan tímabilsins. Því er óleyfilegt að veiða rjúpu miðvikudaga og fimmtudaga. 

Niðurstöður fjölþátta stofnlíkana (IPM) um hámarksfjölda veiðidaga og tillögur Umhverfisstofnunar að fjölda veiðidaga (veiðitímabili) eru eftirfarandi: 

Austurland:    45(25. okt – 22. des) 
Norðausturland:     20 (25. okt – 19. nóv)
Norðvesturland:     20 (25. okt – 19. nóv)
Suðurland:      20 (25. okt – 19. nóv)
Vesturland:      20 (25. okt – 19. nóv)
Vestfirðir:      25 (25. okt – 26. nóv)

Tillögurnar eru byggðar á nýjum samþættum stofnlíkönum sem hafa verið þróuð samhliða stjórnunar- og verndaráætluninni af Dr. Fred Johnson, bandarískum sérfræðingi í stofnlíkanagerð og veiðistjórnun. Áætlunin er afurð samstarfs viðeigandi hagsmunaaðila og í henni er nýtt veiðistjórnunarkerfi kynnt.

Í nýja veiðistjórnunarkerfinu er landinu skipt upp í sex svæði. (sjá mynd). Veiðitímabil hvers svæðis er ekki háð öðrum svæðum heldur stjórnast af ástandi stofnsins innan svæðisins.

Aflamark Byggðastofnunar forsenda fiskvinnslu á Hólmavík

Frá Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun telur að úthlutun upp á 500 þorskígildistonn á yfirstandandi fiskveiðiári til Hólmavíkur hafi þegar leitt til þess að heimaaðilar hafa komið upp fiskvinnslu á staðnum.

Eins og kunnugt er var rækjuvinnslu hætt á Hólmavík í sumarbyrjun 2023 og misstu þá 20 manns vinnuna. Í framhaldi af erindi frá Strandabyggð ákvað Byggðastofnun að auglýsa eftir samstarfsaðilum um nýtingu á allt að 500 þorskígildistonnum á þessu fiskveiðiári. Í vor voru svo auglýst 500 tonn til næstu sex fiskveiðiára.

Sú hvatning sem þessi úthlutun felur í sér hefur nú leitt til þess að stærstur hluti útgerðaraðila á staðnum hefur sameinast um nýtingu þessa aflamarks til veiða og vinnslu.

Úthlutunin er skilyrt vinnslu á staðnum og þannig er stuðlað að því að sem stærstur hluti virðiskeðjunnar sé staðsettur í byggðarlaginu. Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum eru þegar 12 starfsmenn í vinnslunni auk þess sem úthlutunin styrkir stoðir útgerðar á staðnum.

Ísafjarðarbær: ný gjaldskrá fyrir leikskóla

Sólborg Ísafirði. Mynd: Tinna Ólafsdóttir.

Bæjarráð ísafjarðarbæjar samþykkti í morgun nýja gjaldskrá fyrir leikskóla og uppfærðar reglur um innritun og dvöl barna. Tekur nýja gjaldskráin gildi um næstu mánaðamót 1. ágúst.

Mánaðargjald hefur verið lækkað með tillit til þess að nú eru innifaldir í því 204 skóladagar í stað 212. Átta dagar eru því skilgreindir sem skráningardagar og þarf að greiða aukalega af því. Ekki verður veittur systkinaafsláttur af skráningargjaldi.

Viðmiðunargjald vistun og fæði, fyrir einn mánuð verður eftirfarandi:
Leikskólagjald kl. 8-14, mánaðargjald 32.508 kr.
Leikskólagjald kl. 8-15, mánaðargjald 40.528 kr.
Leikskólagjald kl. 8-16, mánaðargjald 44.218 kr.
Leikskólagjald kl. 7:45-16:15, mánaðargjald 47.908 kr.

Mánaðargjald fyrir hádegisverð er kr. 6.680, morgunhressing 4.330 kr. og sama fyrir síðdegishressingu. Fullt fæði mun kosta 15.340 kr.

Vistunargjald án fæðis er mismunurinn á viðmiðunargjaldi með vistun og fæði og fæðisgjaldinu.

40% afsláttur af vistunargjaldi er veittur einstaklingum með mánaðartekjur allt að 750.000 kr. og foreldrum í sambúð með mánaðartekjur allt að 750.000 kr. Afsláttur er ekki veittur af hádegisverði og hressingu.

Systkinaafsláttur er 40% með öðru barni og frítt fyrir þriðja barn af leikskólagjaldi/dagvistargjaldi
og hálfu aukagjaldi (8,5 tímar). Afsláttur gildir milli dagvistunaraðila/skóla og skólastiga. Afsláttur
er ekki veittur af skráningardegi, hádegisverði og hressingu.

Hörður með tveggja marka sigur á Hellissandi

Hörður Ísafirði gerði góða ferð á Hellissandi á laugardaginn og vann þar 2-0 sigur á heimamönnum í Reyni í 5. deild karla.

Jóhann Samuel Rendall skoraði fyrsta mark Harðar á 40 mínútu en Guðmundur Halldórsson bætti við seinna marki Harðar á 70 mínútu.

Eftir 10 leiki er Hörður í 4. sæti c-riðils með 19 stig. Næsti leikur liðsins er á móti toppliði riðilsins, Knattspyrnufélagi Rangæinga, næstkomandi laugardag á Kerecis-vellinum á Ísafirði.

Ögurball laugardaginn 20. júlí

Hið árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp laugardaginn 20. júlí nk. Aðgöngumiða fylgir tjaldsvæði, aðgangur að sveitaballinu og samkvæmt hefð heimagerður rabarbaragrautur með rjóma. Gestir ballsins eru frá 18-88 ára og þess vegna eru ýmis dagskráratriði sem höfða til mismunandi aldurshópa.


Dagskráin hefst með skötuveislu í hádeginu föstudag 19. júlí. Um kvöldið verður barsvar „pub quiz“. Á laugardagsmorgun verður söguganga um svæðið sem endar með messu í Ögurkirkju. Um miðjan dag verður “beer pong” mót og Ögurballið sjálft fer svo fram um kvöldið í samkomuhúsinu í Ögri, þar sem hljómsveitin Fagranes spilar fyrir dansi.

Húsið var byggt 1925 og styttist því í aldarafmæli ballsins sem fjölskyldan í Ögri stendur fyrir. Á hverju ári velja skipuleggjendur Andlit Ögurballsins einstakling sem hefur tengingu við ballið og tekur þátt í kynningu þess. Ísfirðingurinn Helgi Bergsteinsson er andlit Ögurballsins í ár en hann hefur verið tíður gestur á ballinu, mikill stemningsmaður og vel tengdur í sínar rætur í Djúpinu.


Guðrún Helga Hafliðadóttir, ein af skipuleggjendum ballsins segir; „Það er gömul hefð að bjóða
rabarbaragraut með rjóma á ballinu. Þegar ballið var haldið fyrst fyrir tæpri öld kom fólk alls staðar að úr Djúpinu, flestir sjóleiðina og sumir ríðandi eða gangandi. Svo var dansað til morguns. Til að hjálpa gestum að skerpa athyglina fyrir heimferðina var tekið upp á því að bjóða upp á dísætan rabarbaragraut með hnausþykkum rjóma. Við höldum í hefðina og grautinn geri ég eftir uppskrift ömmu minnar Maju í Ögri, rjómann fáum við frá Erpsstöðum. Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt, stórfjölskyldan skipuleggur sumarfríið út frá þessari helgi. Vinir og vandamenn eru farnir að gera það sama til að hjálpa okkur, og það er svo frábært að sjá sama fólkið koma ár eftir ár”.

Ögurballið er einn vinsælasti viðburður sumarsins á Vestfjörðum, á ballið er að sjálfsögðu 18 ára aldurstakmark, og enginn yngri má koma á svæðið nema í fylgd foreldra.

Myllumerki ballsins er #ogurball og má finna á Facebook og Instagram.

Reykhólahöfn: framkvæmdir við nýja þekju

Framkvæmdir standa yfir við nýja þekju og lagnir á Karlsbryggju á Reykhólum og gengur verkið samkvæmt áætlun.

Það er Geirnaglinn ehf á Ísafirði sem annast verkið. Fyrirtæki varð lægstbjóðandi í útboði og bauð rúmar 96 m.kr. sem er 18% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Helstu verkþættir eru að steypa nærri 1.400 fermetra þekju, leggja vatnslögn og steypa upp rafbúnaðarhús og stöpla undir 3 ljósamöstur.

Verkinu skal lokið eigi síðar en 30. nóvember 2024.

Verkið er hluti af umfangsmiklum endurbótum á höfninni sem munu kosta liðlega 300 m.kr. þegar þeim verður lokið. Búið er að reka niður nýtt stálþil sem stækkaði bryggjuna umtalsvert.

Undir lok júlí 2022 hrundi niður stór hluti bryggjunnar á Reykhólum. Þá hafði lengi legið fyrir að bryggjan væri komin á tíma, en hún er síðan 1974. 

Teikning af endurbótunum.

Frá framkvæmdunum sem nú standa yfir.

Myndir: Hrafnkell Guðnason.

Mimi með tvö mörk í fyrsta sigri Vestra

Kvennalið Vestra á æfingu. Mynd: Vestri.

Mimi Eiden skoraði tvö mörk þegar Vestri sigraði Álftanes í 2. deild kvenna á laugardaginn.

Þetta var fyrsti sigur Vestra í sumar en liðið er nú í 10. sæti með 5 stig eftir 10 leiki.

Vestrakonur tóku forustuna á 7 mínútu með marki Mimi og stóðu leikar 1-0 í hálfleik.

Á 60 mínútu jafnaði Ásthildur Lilja Atladóttir fyrir Álftanes en Mimi bjargaði deginum þegar hún skoraði úr víti á 86 mínútu.

Næsti leikur Vestra er á móti Dalvík/Reynir og fer fram á Dalvíkurvelli næstkomandi sunnudag.

Mansakeppnin: Sigmar Ingi Snorrason aflakóngur

37. Mansakeppnin var haldin í Suðureyrarhöfn laugardaginn 13.júlí í sannkölluðum sudda. En þó að veðrið hafi ekki verið betra þá veiddist nokkuð vel bæði mansar, kolar, þorskar og ufsar að sögn Ævars Einarssonar.

Mansavinir standa fyrir keppninni sem byrjaði sumarið 1988 með „Mansaveiðikeppni“ barna 12 ára og yngri sem var haldin á sjónvarpslausum fimmtudegi. „Markmiðið með keppninni var og er að kenna börnunum að bera virðingu fyrir dýrum þó það sé ekki annað en marhnútur. Alltaf frá byrjun hefur öllum fiski verið haldið lifandi í sjókörum og verið sleppt að keppni lokinni.“

⁸Minnsta mansann 55 gr. veiddi Davion Aves.

Stærsta mansann 432 gr. veiddi Sóldís Líf Ágústsdóttir.

1. mesta mansa aflann 2.123gr. veiddi Viggó Jóhannsson.

2. mesta mansa aflann 920 gr. veiddi Davion Aves.

3. mesta mansa aflann 615. gr. veiddi Guðmundur Jörgen Sveinsson.

1. mesta heildaraflann 2.290 gr. veiddi Sigmar Ingi Snorrason.

2. mesta heildaraflann 2.237 gr. veiddi Viggó Jóhannsson.

3. mesta heildaraflann 920. gr. veiddi Davion Aves.

Furðulegustu veiðina: hárkolla m/óværu veiddi Vilborg Guðmundsdóttir.

Aflakóngur er Sigmar Ingi Snorrason og fær hann til varðveislu áletraðan farandbikar í eitt ár.

Mansavinir vilja þakka Klofningi ehf. fyrir ómetanlegan stuðning og kaup á verðl.gripum. Bjarka Rúnari og Rúnari Karvel fyrir sjó-dælingu. Guðna Albert fyrir vigtunina. Einari Dapo og Monu Marinu fyrir skráningu. Sturlu Páli fyrir frábæra grillveislu í lok keppninnar. Tristan Erni og Möndu Malindu fyrir aðstoðina.

Glaðir verðlaunahafar.

Ungir og knáir veiðimenn.

verðlaunafhending í undirbúningi.

Myndir: mansavinir/Ævar Einarsson.

Bolungavík: nýr vatnstankur á lokastigi

Það er Þotan ehf sem byggir vatnstankinn. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Bygging á nýjum 2,7 milljón lítra vatnstanki í Hlíðardal er á lokastigi. Búið er að opna tilboð í tengingu vatnstanksins við lagnakerfi vatnsveitunnar og mun bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar taka tilboðin til afgreiðslu á morgun, þriðjudag.

Tvö tilboð bárust og voru þau frá Rörás ehf og Ístækni ehf bæði á Ísafirði. Ístækni bauð lægra eða 74 m.kr. Kostaðaráætlun var 65 m.kr.

Stefnt er að því að nýja vatnsveitan verði tekin í notkun í haust og verður allt vatn borholuvatn í og leysir af hólmi vatnsveitu með yfirborðsvatni.

Þegar hafa verið boraðar nokkrar holur og fengist gott vatn, en ekki nægilegt magn og verða fleiri holur boraðar síðar í sumar.

Heildarkostnaður við vatnsveituna er áætlaður um 300 m.kr.

Vatnstankurinn er gríðarstór en fellur vel inn í landslagið.

Golf: Minningarmót um Birgi Valdimarsson

Birgir Valdimarsson.

Fyrirhugað er golfmót til minningar um Birgi Valdimarsson á Tungudalsvelli 28. júlí næstkomandi, en Birgir hefði orðið 90 ára þann 30. júlí, en lést í janúar sl. 

Það er fjölskylda Birgis sem sér um skipulagningu mótsins en allur ágóði rennur til styrktar Golfklúbbs Ísafjarðar. Birgir var meðlimur klúbbsins í 40 ár og vann ötullega í þágu hans.

Leikið verður eftir fyrirkomulaginu Betri bolti (tveir saman í liði).
Veitt verða verðlaun á öllum par 3 brautum ásamt verðlaunum fyrir efstu sætin og úrdráttarverðlaun.


Mótið er opið öllum og eru áhugasamir hvattir til þess að skrá sig!


Fjöldi fyrirtækja hefur styrkt mótið um vinninga sem eru eftirfarandi:

Fatnaður frá 66 Norður
Drykkir frá Ölgerðinni
Gjafabréf frá Icelandair
Gjafabréf frá PLAY
Fiskur frá Jakobi Valgeir
Gjafabréf frá Berjaya hótelum
Kvöldverður fyrir fjóra á Tjöruhúsinu 

Gjafabréf á Snaps
Vörur frá Kerecis
Ferð fyrir tvo á Hesteyri með Sjóferðum
Vörur frá Innnes

Styrktaraðilar eru:

Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Fanney Kristín Hermannsdóttir, 66 Norður. Ölgerðin, Icelandair, Play, Arnarlax, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Jakob Valgeir, Berjaya hótel, Snaps, Kerecis, Sjóferðir og Innnes.

Nýjustu fréttir