Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 40

Ákall um aðgerðir !

Það þarf oft alvarlega atburði svo stjórnvöld vakni við og grípi til aðgerða og sá alvarlegi atburður sem varð þegar farþega rúta brann rétt utan við gangnamunna Vestfjarðarganga hlýtur að vekja stjórnvöld við og að ráðist verði í viðunandi ráðstafanir í Vestfjarðargöngum sem eru orðin eins og rússnesk rúlletta með mikilli umferð og einbreiðum göngum að stærstum hluta.

Gera þarf áhættumat miðað við mikla farþegaflutninga og þungaflutninga

Það má kalla guðsmildi að farþegarútan sem brann rétt fyrir utan göngin hafi ekki verið inn í göngunum og að farþegar hafi komist út og slökkvilið Ísafjarðarbæjar hafi getað athafnað sig og sjúkrabílar komist á staðinn og að hægt var að stöðva aðra umferð sem var mikil á föstudegi.

Eins og aðstoðarslökkviliðsstjóri komst að orði „að hann vildi ekki hugsa þá hugsun til enda ef eldurinn hefði kviknað í einbreiðum göngunum „

Einbreið göng rússnesk rúlletta

Rútan sem brann var í samfloti með fjörum öðrum rútum með alls um 300 farþega og auk þess mikil umferð annara bíla á föstudegi. Það hefði verið óvinnandi vegur að athafna sig í einbreiðum hluta gangnanna ,göngin hefðu fyllst af baneitruðum reyk mikill eldsmatur í klæðningu gangnaveggja og blásturskerfið magnar eldinn og engin flóttaleið. Nei ég held að enginn vilji hugsa þessa hugsun til enda en við þurfum samt að gera það.

Getum ekki beðið

Koma þarf inn í samgönguáætlun strax áformum um breikkun einbreiðra ganga og þá hvortveggja Breiðadals og Súgandafjarðarleggsins en ráðmenn hafa ekki barist fyrir því sem skyldi en þessi atburður vekur menn vonandi. Það koma um 200 skemmtiferðarskip til Ísafjarðar ár hvert með þúsundir farþega og miklir farþegaflutningar eru með rútum í skoðunarferðir í hverri viku um svæðið og í gegnum Vestfjarðargöng og ekki síður í gegnum Súgandafjarðarafleggjarann ásamt miklum fiskflutningum.

Þú byrgir ekki brunninn eftir á

Þessi alvarlegi atburður kallar á aðgerðir og má ekki verða sópað undir teppið. Hér fá stjórnvöld alvarlega viðvörun um atburði sem hefðu getað orðið hörmulegir ef þeir hefðu gerst nokkrum mínútum fyrr og tækifæri á að áhættuminnka afleiðingar slysa sem geta orðið í stórhættulegum einbreiðum göngum sem eru ólögleg í dag.

Strax þarf að gera þær ráðstafanir sem draga úr slysahættu og koma breikkun einbreiðra Vestfjarðargangna á dagskrá í nútíma en ekki í fjarlægri framtíð það getur orðið dýrkeypt.

Lilja Rafney Magnúsdóttir

varaþingmaður Suðureyri Súgandafirði.

Ísafjarðarbær: ný slökkvistöð kostar 300 – 361 m.kr.

Núverandi slökkvistöð.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar sem lagt var fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd kemur fram að þarfagreining bendi til þess að ný slökkvistöð Ísafjarðarbæjar þurfi að vera um 650-785 fermetrar að stærð til að mæta núverandi starfsemi og tryggja öryggi og skilvirkni. Nýtt húsnæði muni bæta viðbragðstíma, auka vinnuþægindi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði til lengri tíma.

Um helmingur stærðarinnar er til þess að hafa pláss fyrir slökkvibíla, sjúkrabíla og annan búnað sem þarf að geyma innandyra, ásamt aðstöðu til að viðhalda slökkvibílum.

Byggingarkostnaður er áætlaður 299 m.kr. til 361.1 m.kr. og er háður niðurstöðum útboðs og tegundar mannvirkis.

Lagt er til að farið verði í hönnun á árinu 2025 og að gert verði ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlun.

Skipulags- og mannvirkjanefndin tekur undir þá tillögu og leggur til við bæjarstjórn að farið verði í hönnun á árinu 2025 og að gert verði ráð fyrir hönnunarkostnaði í komandi fjárhagsáætlun.

Suðureyrarhöfn : 456 tonn í ágúst

Suðureyrarhöfn í síðustu viku. Mynd: Suðureyrarhöfn.

Alls var landað 456 tonnum af bolfiski í Suðureyrarhöfn í ágústmánuði, síðasta mánuði kvótaársins. Þrír línubátar komu með 300 tonn að landi. Einar Guðna ÍS var þeirra aflahæstur með 220 tonn. Hrefna ÍS var með 56 tonn og Eyrarrósin ÍS landaði 24 tonnum.

Leynir ÍS var á dragnót og landaði 67 tonnum. Um fimmtán handfærabátar reru frá Suðureyri og voru ásamt sjóstangveiðibátum með 89 tonna afla.

Patrekshöfn: 201 tonn

Aflabrögð voru með rólegra móti í Patrekshöfn í ágúst. Alls var landað 201 tonni af botnfiski. Núpur BA var á línuveiðum og landaði 144 tonnum. Auk hans voru 9 handfærabátar sem lögðu upp í Patrekshöfn og voru þeir með 57 tonn.

Patrekshöfn í byjun september. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lýðskólinn á Flateyri settur á laugardaginn

Nemendur í Flateyrarkirkju. Myndir: aðsendar.

Lýðskólinn á Flateyri var settur á laugardaginn við hátíðlega athöfn í Flateyrarkirkju. Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Lýðskólans sagði í samtali við Bæjarins besta aðskólinn væri fullsetinn á haustönninni og sagðist lítast vel á nemendahópinn. Tvær námsbrautir eru við skólann og verður önnur þeirra kennd á ensku. Um áramótin verður opnað fyrir erlenda nemendur.

Fjórtán íbúðir eru í nemendagörðunum nýju og auk þess er aðstaða fyrir 6 – 8 nemendur í gamla dvalarheimilinu.

Skólastjóri er Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Í setningarræðunni lagði Runólfur áherslu á hamingju, frelsi og ábyrgð og brýndi fyrir nemendum að nota námið til að þroska sig.

„Við í Lýðskólanum viljum vera öðruvísi samfélag. Við viljum vera samfélag hinna félagslegu töfra. Hér kynnist fólk og þroskast með samveru, sjálfsskoðun, sjálfsrækt og lífsleikni þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum ásamt því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þátttöku sinni í námi og samfélagi.

Forsenda þess er samábyrgð, meðvitund og virkni. Hér berum við því virðingu fyrir þörfum annarra um leið og við leyfum sjálfum okkur að njóta okkar. Það er á okkar ábyrgð að þetta samfélag blómstri. Hér í skólanum gefum við bæði og þiggjum.

Þetta langar mig að segja við ykkur aftur: Hér í skólanum bæði gefum við og þiggjum.“

Runólfur Ágústsson flytur skólasetningaræðuna.

Ísafjarðarbær: eldsvoðinn ræddur í bæjarráði

Rútan brann til kaldra kola. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bruninn á rútu í Tungudalnum á föstudaginn verður ræddur í bæjarráði Ísafjarðarbæjar nú fyrir hádegið. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs staðfestir það. Hann segir að bæjarráðið vilja fá frá fyrstu hendi greinargóða frásögn af atburðunum eins og þeir horfa við slökkviliði Ísafjarðar, hvaða viðbúnað það er með og upplýsa um verkaskiptingu gagnvart Vegagerðinni. Sigurður A Jónsson, slökkviliðsstjóri mætir á fundinn.

Jarðgöngin dauðagildra

Hverfisráð Súgandafjarðar hefur efnt til undirskriftarsöfnunar á netinu vegna eldsvoðans. Þar segir eftirfarandi:

„Þessi listi er til þess að krefjast þess að bæði Isafjarðarbær og ríkið taki því alvarlega hversu mikið dauðagildra göngin eru. Bæði vegna þess að þau eru einbreið í tveimur afleggjurum og vegna klæðningar sem þar er. Ef eldur læsir sig í þessar klæðningar þá voðinn vís. Við tryggjum ekki eftirá.“

Ólöf Birna Jensen formaður hverfisráðsins segir í færslu á facebook :

„viljum við í hverfisráði Súgandafjarðar vekja athygli á alvarleika málsins, segjum sem svo að eldurinn hafi kviknað í rútunni inn í göngunum. Hefðu þessir ferðamenn komist lífs af? Hefði eldurinn læst sig í klæðningunni inn í göngunum? Hefðu hinar rúturnar geta snúið við til að komast til baka út Súgandafjarðar megin eða Önundarfjarðar megin? Hvað með fólkið sem var á einkabílum? Við erum að tala um 4 rútur af ferðamönnum sem gera ca 200 manns við erum að tala um ca 8 einkabíla og 1 smárútu sem sjá má á myndum með fréttunum af atvikinu. Fyrir mér eru það aðeins of mörg líf til að hugsa út í ef þetta hefði ekki farið svona vel. Hvað ef þetta fer ekki svona vel næst? Hver ber þá ábyrgð? Er það Ísafjarðarbær? Er það ríkið? Er það ferðaþjónustan?“

Í gærkvöldi höfðu 255 skrifað undir.

Strandabyggð: 7,5 m.kr. í nýja rétt í Kollafirði

Nýja réttin í byggingu. Mynd: Strandabyggð.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt að hækka fjárveitingu til smíði nýrrar réttar í Kollafirði úr 4 m.kr. í 7,5 m.kr.

Þorgeir Pálsson oddviti rakti á fundinum forsögu málsins. Auglýst var eftir tillögum að réttarstæði og umfangi, auk þess sem auglýst var tvisvar eftir verktökum í réttarsmíðina.  Í bæði skiptin barst óraunhæft tilboð frá sama aðila. Eftir að sú staða blasti við að líklega yrði ekkert af réttarsmíði í ár, buðust hjónin í Steinadal til að taka að sér verkið. Náðist samkomulag þar um og er nú komin sterkleg og góð rétt á fínum stað í landi Litla-Fjarðarhorns. Oddviti fagnaði áhuga bænda á svæðinu hvað þessa réttarsmíði varðar.  Með þessari rétt, ætti réttarsmíði í Strandabyggð að vera lokið og aðeins hefðbundið viðhald framundan.

Rútubruninn í Tungudal : hvað ef brennur í Vestfjarðagöngunum?

Rútan brennur. Mynd: aðsend.

Rútubruninn í Tungudal í gær var alvarlegur atburður. Þegar rúta með 60 manns innanborðs brennur getur hæglega farið illa.

En rétt er að árétta að svo fór ekki varðandi farþegana. Þeir sluppu allir ómeiddir. Bílstjórinn brást rétt við eftir því sem best verður séð. Hann kom öllu farþegunum út tímanlega. Slökkviliðið stóð sig vel og brást skjótt við.

En það munaði mjóu. Rútan var rétt komin út úr göngunum þegar eldurinn kom upp. Það hefur varla verið liðin meira en mínúta frá því að rútan var inn í göngunum. Hvað ef þetta hefði gerst 1 – 2 mínútum fyrr þá hefði rútan verið inni í göngunum og hvað ef hún hefði verið í einbreiða hlutanum?

Þessar spurningar vakna óhjákvæmilega og Bæjarins besta hefur sent bæði lögreglustjóranum á Vestfjörðum og slökkvistjóranum á Ísafirði fyrirspurn um það hvernig slökkviliðið og lögreglan eru í stakk búin við  að takast á við eld  inn í Vestfjarðagöngunum.

Þetta þarf að skýra og vinna að úrbótum ef með þarf. Hver er viðbragðsáætlunin og er það til staðar sem þarf og skiptir máli hvort göngin eru einbreið eða tvíbreið.

Nú er rétt að fara yfir alla öryggisþætti málsins.

-k

Rútan er gerónýt.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Misfarið með byggðakvóta

Sigurjón Þórðarson.

Hér er einn angi af árangri úthlutunar á byggðakvóta Byggðastofnunar og almenna byggðakvótans þ.e. til Flateyrar.  Það sem er stórmerkilegt er Ríkisendurskoðun hefur nýlega fjallað um úthlutun á byggðakvóta . Það er ljóst að finna má nokkur hliðstæð dæmi um hvernig misfarið er með þessi gæði og nokkuð ljóst að þeir sem fá þau frá Byggðastofnun hafa greiðari leið inn í stjórnkerfið en aðrir. 

Hringavitleysan á Flateyri

Flateyri er því miður ekki einsdæmi um brothætta byggð sem fær úthlutað veiðiheimildum sem ekki er landað í viðkomandi sjávarbyggð, heldur er aflanum landað jafnvel í öðrum landsfjórðungi https://www.visir.is/g/20242620624d/manngerdar-hormungar-a-flateyri

Á FB-síðunni Flateyri og Flateyringar er stutt grein eftir Þorgils Þorgilsson, sem rekið hefur löndunarþjónustu í þorpinu. Hann greinir skilmerkilega frá því að hann sé að hætta þeirri þjónustu vegna þess að það skilar sér ekki einn sporður á land á Flateyri af þeim 500 tonnum sem þorpið fær úthlutað frá Byggðastofnun og það sama á við um þau 400 tonn sem koma í hlut Flateyrar á grundvelli almenna byggðakvótans.

Hafa ber í huga að hér er verið að úthluta aðilum verðmætum sem meta má allt að hálfum milljarði árlega á grundvelli eflingu sjávarútvegs á Flateyri, án þess það sé nokkur lifandi leið að átta sig á því hvernig það nýtist byggðinni.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er fyrst og fremst bergmál innan úr kerfinu þ.e. þeirra sem staðið hafa að núverandi úthlutun og þeirra sem héldu á penna við gerð skýrslu Auðlindarinnar okkar, en tekur ekki tillit til gagnrýni sem komið hefur utan kerfisins, þrátt fyrir að um sé að ræða skýra og vel rökstudda gagnrýni.

Ríkisendurskoðun fjallar ekki um þann þátt málsins sem gagnrýndur hefur verið m.a. á Alþingi að byggðakvótar sem nefndir hafa verið félagsleg úrræði til að bregst við áhrifum samþjöppunar, renna að stórum hluta til stórútgerðarinnar og jafnvel til útgerða sem komnar eru upp fyrir lögbundið kvótaþak.

Ríkisendurskoðun fjallaði ekki um þann þátt sem snýr að félagslegum undirboðum í þeim þorpum sem byggðakvóta Byggðastofnunar hefur verið ætlað að styrkja. Þeir sem hafa fengið samning frá Byggðastofnun hafa í framhaldinu gert verktakasamninga við litlar útgerðir í þorpunum sem teljast ekkert annað en félagsleg undirboð.

Mörg dæmi eru um að handhafi samnings í brothættri byggð búi ekki í plássinu og sé komin í forréttinda og yfirburðastöðu gagnvart þeim sem stunda útgerð í byggðinni.

Með þetta dæmi fyrir framan sig um meðferð á bæði almenna og sértæka byggðakvótans fyrir  Flateyri og víðar, þá hlýtur Ríkisendurskoðun að íhuga að endurvinna fyrri skýrslu og a.m.k. fjalla um þá gagnrýni sem komið hefur fram m.a. á Alþingi. 

Sigurjón Þórðarson

varaþingmaður Flokks fólksins.

Með harðfisk og hangikjöt að heiman

Í bókinni Með harðfisk og hangikjöt að heiman fjallar Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður og sagnfræðingur um undirbúning og þátttöku Íslands á sumarólympíuleikunum í London árið 1948.

Bókin byggir að stofninum til á BA-ritgerð Þorkels í sagnfræði við Háskóla Íslands en það er Sögufélagið sem gefur bókina út. 
 
Í bókinni er farið yfir áhugaverðan tíma í íslenskri íþróttasögu í alþjóðlegu samhengi. Margir frægir Íslendingar koma við sögu, eins og til dæmis Gunnar Huseby, kúluvarpari, sem fór ekki á leikana og Jón Leifs, tónskáld, sem keppti í listasamkeppni Ólympíuleikanna.


Ólympíuleikarnir í London árið 1948 voru merkilegir fyrir margra hluta sakir. Vegna seinni heimsstyrjaldarinnar höfðu ekki verið haldnir Ólympíuleikar í 12 ár, en aðstæður í London voru erfiðar svona stuttu eftir stríð og stundum er talað um „meinlætaleikana“ af þeim sökum. Þetta voru líka fyrstu sumarleikarnir sem Ísland keppti á eftir lýðveldisstofnun og Íslendingar höfðu metnað til að standa sig vel. Ísland sendi því stóran flokk á leikana og íslenskar konur þreyttu frumraun sína á Ólympíuleikum. 

Undirbúningur Íslendinga gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Íslendingar glímdu við gjaldeyrisskort, í Bretlandi var matur af skornum skammti og ólympíuflokkurinn tók því um 100 kíló af íslenskum mat með í nesti. Að mörgu þurfti að huga, bæði varðandi þjálfun og aðstöðu keppenda, mikill hiti og erfiðar aðstæður í London settu strik í reikninginn og árangur Íslendinganna olli vonbrigðum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki – áhersla lögð á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils

Bolafjall er meðal staða sem fengið hafa úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Mynd: Haukur Sigurðsson

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða auglýsir eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2025.

Sjóðurinn fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel þau lög og reglur sem um sjóðinn gilda og vanda umsóknir sínar í hvívetna. Umsækjendum er bent á að kynna sér gæðaviðmið sjóðsins.

Í úthlutuninni í ár er lögð áhersla á minna sótt svæði og lengingu ferðatímabils.

Nýjustu fréttir