Miðvikudagur 26. mars 2025
Síða 40

Hver fær Kuðunginn

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári eru þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2024. Kuðungurinn er veittur fyrir heildarframmistöðu fyrirtækis í umhverfismálum á liðnu ári, ekki fyrir eitt stakt verkefni.

Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við Dag umhverfisins og hefur sú breyting verið gerð á að tilnefningaflokkarnir eru nú tveir, fyrir stærri og minni fyrirtæki.

Óskað er eftir því að greinargerð fylgi með tilnefningunni, en við mat á viðurkenningarhöfum er horft til eftirfarandi þátta: Umhverfisstjórnunar, innleiðingar nýjunga í umhverfisvernd, losun gróðurhúsalofttegunda, minni efnanotkunar, lágmörkunar úrgangs, mengunarvarna, umhverfisvænni þróun á vöru eða þjónustu, framlags til umhverfismála, samstarfs í umhverfismálum og vinnuumhverfis.

Fyrirtæki og stofnanir geta bæði tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Tillögur skulu berast umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu eigi síðar en 10. mars nk.

Á síðasta ári hlutu fyrirtækin Sorpa og Bambahús viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu 2023.

Lýsa áhyggjum af áfengissölu og neyslu á íþróttaviðburðum

Frá leik í knattspyrnu á Torfnesi í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) hefur sent frá sé ályktun og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum á Íslandi.

FÍÆT bendir á að áfengissala á íþróttaviðburðum stuðli að aukinni hættu á óviðeigandi hegðun áhorfenda, neikvæðum áhrifum á fjölskylduvænt umhverfi og grafi undan þeim gildum sem íþróttir standa fyrir, svo sem jákvæðum félagsþroska og heilbrigðum lífsstíl. Fyrirmyndir barna og ungmenna eru bæði innan vallar en líka í stúkunni og mikilvægt er að fyrirmyndir í stúkunni séu líka til fyrirmyndar.

FÍÆT leggur áherslu á að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir öll sem taka þátt í íþróttastarfi á Íslandi. Að þessu sögðu, skorar FÍÆT á stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasérsambönd, íþróttafélög og skipuleggjendur íþróttaviðburða að standa vörð um gildi íþróttahreyfingarinnar og tryggja að ekki verði selt áfengi á íþróttaviðburðum.

Ályktunin var lögð fram og rædd á fundi skóla-, íþrótta- og tómstundanefnda Ísafjarðarbæjar.

Nefndin bókaði að hún taki undir áhyggjur Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi varðandi áfengisneyslu og sölu á íþróttaviðburðum.

Opinn fundur um Reykjavíkurflugvöll

Flugmálafélag Íslands boðar til opins fundar í dag frá kl 17 – 19 um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Fundurinn verður sendur út á netinu. Fundastjóri veður Ísfirðingurinn Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugmaður. Hlekkur á streymið er  https://streymi.syrland.is/

Í kynningu frá Flugmálafélaginu segi að Reykjavíkurflugvöllur gegni lykilhlutverki í íslensku flugsamgöngukerfi, fyrir innanlandsflug, millilandaflug, sjúkraflug, almanna- og kennsluflug. Þróun hans og framtíð hafi verið mikið til umræðu á síðustu misserum og árum en Flugmálafélagið kalli eftir upplýstri og faglegri umræðu um málefni hans.

Á fundinum munu sérfræðingar fjalla um stöðu vallarins, helstu áskoranir í rekstri hans og horfur til framtíðar. Þá munu samgönguráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur ávarpa fundinn og taka þátt í pallborðsumræðum þar sem tækifæri gefst til að ræða stöðu mála.

Á fundinum verða eftirtaldir með erindi og taka þátt í pallborði:
Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands
Kári Kárason, flugstjóri og yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair
Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair
Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og flugstjóri hjá Icelandair.

Fundarstjóri verður Matthías Sveinbjörnsson, Forseti Flugmálafélags Íslands og stjórnandi pallborðs verður Ísfirðingurinn Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugstjóri og stjórnandi Flugvarpsins.

🔹 Hvenær? 6.febrúar kl. 17-19
🔹 Hvar? Hótel Reykjavík Natura (Hótel Loftleiðir) – Salur 2
🔹 Bein útsending: Fundurinn verður einnig sendur út í beinni útsendingu á netinu.
🔹 Opinn öllum – velkomin til að taka þátt í mikilvægu samtali um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Tónleikar laugardaginn 8. febrúar í Ísafjarðarkirkju

Í tilefni af degi tónlistarskólanna verður Tónlistarskólinn á Ísafirði með tónleika í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 8. febrúar kl.14:00

Efniskráin er fjölbreytt en í lok tónleikana verðu kennt og flutt lag Gylfa Ólafssonar – pönnukökulagið – sem frumflutt var í Grunnskólanum á Ísafiði í janúar sl.

Íbúafjölgun á Vestfjörðum jöfn landsfjölgun

Frá Patreksfirði.

Síðustu tvo mánuði hefu íbúum á Vestfjörðum fjölgað um 0,1% sem er það sama og landsmönnum hefur fjölgað á sama tíma. Fjölgunin á Vestfjörðum varð um 6 íbúa en 490 á landinu öllu.

Íbúum fækkaði á fjórum landssvæðum frá 1.desember 2024 til 1.febrúar 2025. Á Suðurnesjum fækkaði um 0,5% og um 0,2% á Norðurlandi vestra og einnig á Austurlandi. Á Vesturlandi var einnig um fækkun að ræða eða um 7 íbúa en það mælist innan við 0,1% fækkun.

Fjölgun varð á fjórum landssvæðum. Auk Vestfjarða, varð smávægileg fjölgun á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu eða um 0,2% á hvoru svæði og um 0,1% á Norðurlandi eystra.

Á Vestfjörðum fjölgaði mest í Vesturbyggð eða um 10 manns. Í Súðavík fjölgaði um 6 manns og um 4 í Bolungavík og einnig í Kaldananeshreppi.

Fækkun varð í Ísafjarðarbæ og Strandabyggð.

Þingeyri: flotbryggja losnaði

Björgunarsveitin Dýri á Þingeyri var kölluð út í nótt til þess að festa flotbryggju í höfninni sem hafði losnað og rak yfir á flotbryggjuna við hliðina. Ekki varð af alvarlegt tjón að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.

Ekki voru önnur útköll í nótt á Vestfjörðum. Af öryggisástæðum var veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað í gærkvöldi þegar snjóflóðahætta varð meiri. Tveir vegfarendur, á leið til Bolungarvíkur, urðu innlyksa í Súðavík rétt um miðnættið. Fulltrúar í sameiginlegri almannavarnanefnd Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar, skutu skjólshúsi yfir þá.

Frá aðgerðunum í nótt. Myndi: aðsendar.

Galdrafár á Ströndum í byrjun maí 

Búið er að opna fyrir sölu á miðum á menningar- og listahátíðina Galdrafár á Ströndum sem verður haldin á Hólmavík dagana 1.-4. maí. Meginþemað eru galdrar og fornnorræn menning. Dagskráin samanstendur af tónlistadagskrá, húðflúrráðstefnu, víkingaþorpi, vinnustofum, listviðburðum, fyrirlestrum og markaði. 

Það er fjölþjóðlegur hópur lista- og fræðifólks sem kemur að hátíðinni, en þátttakendur koma frá samtals 15 löndum. Sá sem kemur lengst að er húðflúrlistamaður frá Nýja-Sjálandi. Galdrafár var haldin í fyrsta sinn á Hólmavík í apríl 2024 og tókst frábærlega. Voru gestir þá í kringum 300 manns. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir húðflúrlistakona með meiru og Anna Björg Þórarinsdóttir framkvæmdastýra Galdrasýningar á Ströndum. Til að fræðast meira um hátíðina og kaupa miða er bent á heimasíðuna: https://www.sorceryfestival.is/

Frá skrúðgöngu og listagjörningi sem var á seinustu hátíð.

Ísafjarðarbær : 15 m.kr. í uppbyggingarsamninga

Golfíþróttin fær styrk frá Ísafjarðarbæ líkt og fleiri íþróttagreinar.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar fékk sex umsóknir frá aðildarfélögum HSV um uppbyggingarsamning fyrir 2025.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd leggur til við bæjarstjórn að gerðir verði uppbyggingarsamningar við félögin. Heildarupphæð úthlutunar er 15.000.000 kr.


Nefndin leggur til að upphæðin skiptist eftirfarandi:

Golfklúbburinn Gláma: Upphæð 895.748 kr. Bætt aðstaða, smíð á palli um húsið. Sótt var um 2 m.k. styrk.

Skotíþróttafélag Ísafjarðar: Upphæð 5.329.252kr. Skipta út ljósum, mála veggi og gólf með epoxy og endurnýja varmadælu. Sótt var um 6.871.452 kr.

Skíðafélag Ísfirðinga- Alpagreinar: Upphæð 1.500.000 kr. Aðstaða við Miðfellslyftu, innréttingar í nýja aðstöðu félagsins. Skíðafélagið sótti um 1,5 m.kr.

Skíðafélag Ísfirðinga sótti um 1,2 m.kr. vegna skíðagöngu: Upphæð 1.200.000 kr. Kaup á tromlu og spora fyrir snjósleða.

Knattspyrnudeild Vestra: Upphæð 2.575.000 kr. Fyrsti hluti sjoppubyggingar á stúku við Torfnes. Sótt var um 5.075.000 kr.

Golfklúbbur Ísafjarðar: Upphæð 3.500.000 kr. Lagfæra og bæta við stíga. Golfklúbburinn sótti um 6.000.000 kr.

Grammófónn

Grammófónn í brúnum viðarkassa. Inni í kassanum eru þrír pakkar af nálum og tvær hljómplötur.

Önnur hljómplatan er danska platan Polyphon, öðru megin er lagið Moonlight and shadows. Musik: Fr. Hollander – Text: Robin, Hallbjörg Bjarnadottir med Elo Magnussen Srygekvintet. Hinu megin er lagið Jeg har elset dig, saalænge jeg kan mindes. Musik: Kai Normann Andersen – Text: Mogens Dam, Hallbjörg Bjarnadóttir med Elo Magnussen Srygekvintet.

Hin hljómplatan er Cupol, öðru megin er lagið Flottarkarlek, visa (Hugo Lindh) ,,Snoddas,, Nordgren, Carl Julabos kvartett. Hinu megin er svo lagið Charlie Truck, Hum, visa (L. Dahlqvist – H. Iseborg) ,,Snoddas,, Nordgren, Carl Julabos kvartett.

Af sarpur.is

Íbúar Vestfjarða eru 7550

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 248 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2024 til 1. febrúar 2025 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 37 íbúa. Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 19 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fækkað um 21 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 59 íbúa.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði um 18 og um 3 í Strandabyggð. Í Vesturbyggð fjölgaði um 10 um 6 í Súðavík 4 í Bolungarvík um 1 í Reykhólahreppi 2 í Árneshreppi og 4 í Kaldrananeshreppi.

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Kjósarhrepps fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2024 um 3,9% en íbúum þar fjölgaði um 12 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Árneshreppi og Kaldraneshreppi eða um 3,4%.  Af 62 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 24 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 38 sveitarfélögum. 

Íbúum Grindavíkurbæjar fækkar um 214 á tímabilinu eða um 15,2%.

Nýjustu fréttir