Síða 40

HHF: mikil gróska í íþróttastarfinu

Bogfimi er ný íþrótt innan Harðar á Patreksfiði.

Mikil gróska er á sunnanverðum Vestfjörðum í íþróttastarfinu en í lok ársins 2024 voru stofnaðar tvær nýjar deildir innan aðildarfélaga HHF. Mikil ánægja er með aukið framboð í íþróttastarfi á svæðinu og eykur það líkur á að börn og unglingar finni sér íþrótt við hæfi.

Íþróttafélag Bílddælinga stofnaði Rafíþróttadeild ÍFB og í desember var haldið kynningarnámskeið en æfingar byrjuðu svo af fullum krafti í janúarmánuði. Mikil ánægja er með aukna starfsemi og framboð fyrir börn á Bíldudal. Samtals hefur verið safnað fyrir 6 stöðvum og mikill áhugi er fyrir starfseminni, það verður gaman að fylgjast með deildinni í framtíðinni vaxa og dafna.

Einnig var stofnuð Bogfimideild ÍH hjá Íþróttafélaginu Herði á Patreksfirði í samstarfi við Bogfimisamband Íslands. Boðið var upp á kynningarnámskeið í desember þar sem tveir aðilar frá Bogfimisambandinu komu og kynntu íþróttina fyrir íbúum bæjarins. Námskeiðið var virkilega vel sótt og mikill áhugi hefur skapast á svæðinu. Æfingar hófust í janúarbyrjun og er aðsóknin framar vonum, en alls hafa 38 einstaklingar, bæði börn og fullorðnir, skráð sig á æfingar. Svo mikil er aðsóknin að allir tímar eru fullir og lokað hefur verið fyrir skráningu og byrjað að skrá á biðlista.

Í báðum tilvikum fengu íþróttafélögin góða styrki til þess að koma nýjum deildum á laggirnar, og vilja íþróttafélögin þakka kærlega fyrir veittan styrk til uppbyggingar íþróttastarfs á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bina Hannesdóttir, formaður HHF

Rafíþróttadeild innan HHF var stofnuð í fyrra.

Ágæti samgönguráðherra, hvenær klippir þú á borðann?

“Þegar ég var lögfræðingur Skipulagsstofnunar árin 2000–2006 var Teigsskógur á mínu borði og það er alveg klárt mál að það er gríðarlega mikilvægt að framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit tefjist ekki frekar. Það er þegar búið að bíða í rúm 20 ár eftir þessi vegur klárist.”

Þessi frómu orð lét núverandi Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólfur Ármannsson, 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis, falla  þann 10. október 2023 í umræðum á Alþingi um tillögu að Samgönguáætlun. Segja má að þessi ummæli hafi orðið að áhrínisorðum og meirihluti fjárlaganefndar rammaði þessa hugsun inn í nefndarálit sitt með þessum hætti:

    “Fyrir liggur forgangsröðun í gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 sem dregist hefur að ljúka. Þar liggja fyrir tillögur um framkvæmdir varðandi vegi, flugvelli og hafnir. Þar að auki liggur fyrir langtímasamgönguáætlun til ársins 2034. Ekkert er því til fyrirstöðu að Vegagerðin, í samráði við innviðaráðuneyti, geti gert samninga við verktaka eins og í hefðbundnu árferði. Heildarframlög til nýframkvæmda á vegakerfinu hækka milli ára og nema 27,4 ma.kr. á næsta ári. Veigamestu framkvæmdir verða á Vestfjörðum, m.a. á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, á Reykjanesbraut og á hringvegi um Hornafjarðarfljót. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að þeim framkvæmdum ljúki að mestu árið 2025 og því verði aukið svigrúm til nýrra verkefna árið 2026. Nefndin gerir ráð fyrir því að þá liggi fyrir samþykkt samgönguáætlun til fimm ára.”

“Meira að segja í myrkri”

Þetta var býsna skýrt og í samræmi við málflutning núverandi samgönguráðherra. Það eru út af fyrir sig ekki sérstök tíðindi. Ég leyfi mér amk að fullyrða að mikill stuðningur er við að lúka  framkvæmdum í Gufudalssveitinni, svo fljótt sem tæknilega megi. Segja má að okkar nýi samgönguráðherra hafi undirstrikað þetta þann 30. janúar sl. í viðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2, þegar hann sagði:

„Aðalatriðið er að klára Dynjandisheiði, klára Gufudalssveitina. Þetta eru stórhættulegir vegir og ég hef keyrt þetta margoft sjálfur, meira að segja í myrkri.” – Þessum orðum ber sannarlega að fagna og eru þau algjörlega í samræmi við við framangreindar yfirlýsingar við afgreiðslu fjárlaga.

En hvenær lýkur framkvæmdunum?

Það jók bjartsýni okkar margra að fregna þau tíðindi af Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins að í næsta mánuði, verði boðnar út framkvæmdir við tvær brýr í Gufudalssveitinni; annars vegar 130 metra brú í Gufufirði og 58 metra brú í Djúpafirði. Ennfremur að ætlunin sé að fara í útboð á 230 til 260 metra brú í Djúpafirði, auk fleiri verkefna eins og þar sagði. Það skyggir hins vegar talsvert á gleðina, að þetta útboð er ekki fyrirhugað fyrr en á haustdögum, sem veldur áhyggjum um að verklok verði seint og um síðir. – Enda er það svo að margföld reynsla er af því að hugtakið “haust” getur verið ansi loðið og teygjanlegt þegar svo ber undir !!

Þess vegna er mikilvægt að upplýst sé hið fyrsta um hvenær ætla megi að þessum ofangreindu framkvæmdum ljúki. Í ljósi sögunnar og þeirra dæmalausu tafa sem hafa orðið á framkvæmdum á þessari leið, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdahraðinn sé eins mikill og frekast er tæknilega unnt.

Með skírskotun til þeirra  ummæli sem samgönguráðherra lét  falla í ræðu sinni um Samgönguáætlun og fyrr er til vitnað langar mig að beina spurningum til hans í mikilli vinsemd.  Enda treysti ég  því, með skírskotun til fyrri orða hans, sbr hér að ofan,  að hann muni  einskis láta ófreistað svo að lokið verði við þessar framkvæmdir svo fljótt sem verða má af tæknilegum ástæðum.

Þrjár einfaldar spurningar

Því leyfi ég mér ágæti Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra að spyrja þig einfaldra spurninga og veit að þú munt svara þeim af einurð og hreinskilni:

  1. Er lagt upp með við útboð framkvæmdanna í Gufudalssveitinni að þeim verði lokið jafn skjótt og tæknilega telst unnt ?
  2. Hvenær má þess vænta að unnt verði að aka ofangreinda leið yfir Gufufjörð og Djúpafjörð?
  3. Sum sé, kæri samgönguráðherra: Hvenær kemur þú vestur, mundar skærin, klippir á borðann og lýsir því yfir að langþráðum framkvæmdum við þennan umtalaða veg sé lokið?

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Norðvesturkjördæmis

Vestfirðir: ófærir vegir eða óvissa um færð

Vont veður er á Vestfjöðum og vindur mikill. Vegir eru lokaðir yfir Kleifaheiði og Dynjandisheiði og vegurinn í Súgandafirði er lokaður. Þá er vegurinn lokaður á Kambsnesi milli Álftafjarðar og Seyðisfjarða í Ísafjarðardjúpi vegna flutningabíls sem þverar veginn.

Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði. Víða er óvissa um færð vegna veðurs. Það á við um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda, Hálfdán, Mikladal og Klettsháls. Getur því þar komið til lokana með stuttum fyrirvara.

Simens sími

Simens telephone Fg tist 127 da – Innanhússsímkerfi Framleitt í Þýskalandi á árunum 1928 til 1953. 

Þetta er raðsími úr raðkerfi 2/10. Var fyrir lítil fyrirtæki sem komust af með  þetta sem móðurtæki og 11 önnur símtæki. Öll gátu þau tekið utanhússlínuna og hringt sjálf út í bæ. Þetta tæki hefur verið hjá símaverði (Símastúlku ) sem gat sent símtöl áfram. Þessar gerðir eru aðeins fyrir púlsval og elstu gerðir sjálvirkra símstöðva.

Þór Gunnarsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar er lærður loftskeytamaður og útskrifaðist úr því fagi árið 1961,  þaðan kemur áhugi hans fyrir útvarpstækjunum. Hann starfaði aldrei sem loftskeytamaður því beint eftir útskrift hóf hann störf hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar þar sem hann starfaði í rúm 40 ár. Þór fór að safna útvörpum upp úr 1980 með það í huga að endurbyggja gömul tæki þegar hann kæmist á eftirlaun.

Árið 2006 færði Þór Byggðasafni Hafnarfjarðar safn sitt sem hefur að geyma mörg hundruð tæki; útvarpsviðtæki, sjónvörp, plötuspilara, segulbandstæki, talstöðvar, bátastöðvar, íhluti og ýmislegt annað.

Af vefsíðunni sarpur.is

Rúma 450 milljónir til sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað

Fiskeldissjóður starfar á grundvelli 7. gr. laga nr. 89/2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Sjóðnum er ætlað að veita sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.

Til úthlutunar úr sjóðnum á þessu ári eru 456.100.000 kr.

Við úthlutun styrkja úr sjóðnum er sérstaklega horft til verkefna sem snúa að:

  • Styrkari samfélagsgerð
  • Uppbyggingu innviða
  • Loftslagsmarkmiðum og umhverfisvernd
  • Tengingu við sjókvíaeldi
  • Nýsköpun hverskyns, tengd ofangreindum þáttum

Sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað eru hvött til að sækja um.

Kindakjötsframleiðsla í sögulegu lágmarki

Framleiðsla á alifuglakjöti náði nýjum methæðum árið 2024 og fór í fyrsta skiptið yfir 10 þúsund tonn. Svínakjötsframleiðsla nam 6.756 tonnum sem gerir árið að fjórða stærsta framleiðsluári frá upphafi. Nautakjötsframleiðslan dróst lítillega saman en hefur haldist yfir 4.800 tonnum síðustu fjögur ár. Frá árinu 2008 hefur nautakjötsframleiðsla verið í nær stöðugum vexti.

Kindakjötsframleiðsla var hins vegar í sögulegu lágmarki og hefur aðeins einu sinni verið minni síðustu 40 ár eða árið 1997. Fjöldi sláturfjár var 447 þúsund og hefur ekki verið minni síðan 1954, þegar hann var 321 þúsund. Þrátt fyrir fækkun sláturfjár hefur meðalkjötmagn eftir hvern sláturgrip (fallþungi) aukist um 22% á sama tímabili.

Útflutningur á kindakjöti nam 2.048 tonnum, sem er lítillega meira en árið 2023, en er engu að síður næst minnsti útflutningur síðan árið 2008. Þá voru 331 tonn af hrossakjöti flutt út árið 2024.

Nýr vefur fyrir veðurspár í loftið í dag

óhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra setur nýjan vef í loftið í dag ásamt Hildigunni H.H. Thorsteinsson, forstjóra Veðurstofu Íslands. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Haukur Hauksson).

Fyrsti hluti af nýjum vef Veðurstofunnar fór í loftið í dag.

Þetta er fyrsta skrefið í umfangsmiklu verkefni sem snýr að endurnýjun á vefnum og öllu tækniumhverfi vefsins.

Nýi vefurinn fyrir veðurspár er undir slóðinni gottveður.is

Vefurinn er enn þá í þróun en þegar endurnýjun á núverandi vef lýkur munu nýju veðursíðurnar færast á vefslóðina vedur.is

Í þessum fyrsta áfanga er lögð áhersla á upplýsingar sem flestir sækja daglega, en það eru veðurspár fyrir tiltekinn stað.

Fyrir utan bætta framsetningu á staðarspám hefur stöðum sem hægt er að fletta upp til að fá veðurspá verið fjölgað verulega og smám saman mun þeim stöðum fjölga enn frekar.

„Núverandi vefur hefur þjónað okkur dyggilega í næstum 20 ár og því eru þetta mikil tímamót í dag“, segir Hildigunnur H.H. Thorsteinsson forstjóri Veðurstofu Íslands. „Það að vefurinn hafi dugað nánast óbreyttur þetta lengi er til marks um gæði hans á sínum tíma, en engu að síður vorum við komin í tækniskuld með vefinn og upplýsingatækniumhverfið sem tengist honum“.

„Það sem birtist í dag má segja að sé toppurinn á ísjakanum í algjörri endurnýjun á vefumhverfinu“.

„Mestu breytingarnar sem notendur taka sennilega eftir er að það er miklu betra að nota nýja vefinn í farsíma“, segir Hildigunnur.

Alþingi sett á morgun

Alþingi verður sett þriðjudaginn 4. febrúar. Þingsetningarathöfnin hefst kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni. Forseti Íslands, biskup Íslands, starfsaldursforseti Alþingis, ráðherrar og alþingismenn ganga fylktu liði til kirkjunnar úr Alþingishúsinu.

Biskup Íslands, séra Guðrún Karls Helgudóttir, þjónar fyrir altari ásamt séra Elínborgu Sturludóttur dómkirkjupresti. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna og prófastur í Suðurprófastsdæmi, prédikar. Guðmundur Sigurðsson dómorganisti stjórnar Kammerkór Dómkirkjunnar og leikur á orgel. Sigurður Flosason leikur á saxófón.

Að guðsþjónustu lokinni er gengið aftur til þinghússins og forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, setur Alþingi, 156. löggjafarþing. Strengjakvartett skipaður fiðluleikurunum Auði Hafsteinsdóttur og Matthíasi Stefánssyni, Þórhildi Magnúsdóttur víóluleikara og Örnólfi Kristjánssyni sellóleikara sér um tónlistarflutning við þingsetninguna.

Hlé verður gert á þingsetningarfundi til kl. 16:00 og þá verða m.a. flutt minningarorð, gerð grein fyrir áliti kjörbréfanefndar, kosinn forseti Alþingis og varaforsetar, kosið í fastanefndir og alþjóðanefndir og hlutað um sæti þingmanna.

Hljóðútsending verður frá messu og sjónvarpsútsending frá þingsetningarfundi á sjónvarpsrás og vef Alþingis. Sjónvarpsútsending verður einnig frá þingsetningarfundi á RÚV. Útvarpsútsending verður frá messu og þingsetningu á Rás 1.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða miðvikudagskvöldið 5. febrúar.

Alþingiskosningar fóru fram 30. nóvember á síðasta ári og verða á morgun liðnir 66 dagar frá kosningunum. Samkvæmt stjórnarskrá skal nýkjörið Alþingi koma saman eigi síðar en tíu vikum eftir almennar alþingiskosningar þ.e. 70 dögum.

Byggðakvóti Flateyri

Á síðasta fundi Bæjarráðs Ísafjarðarbæjar var lagt til við bæjarstjórn að sérreglum um byggðakvóta verði óbreyttar frá árinu 2023-24. Á fiskveiðiárinu 2023-2024 lögðust niður nokkur störf hjá Walvis Ehf sem séð hefur um löndun og slægingu á Flateyri vegna hráefnisskorts, minnir að starfsemin hafi endanlega verið stöðvuð september 2024.

Nú er Byggðakvóti Flateyrar 2024-25 285 tonn eitthvað færist á milli ára þannig að hann er rúm 400 tonn. Nú er engin starfandi fiskvinnsla á Flateyri og engin löndunar þjónusta, hvað veldur jú meðal annars þessar sérreglur. Ef sett væri á löndunarskilda á þau skip sem ætluðu að nýta sé byggðakvótann á Flateyri og ekki frá því hvikað myndi það þýða að það þyrfti að landa rúmlega 800 tonnum á Flateyri það væri eitthvað til að hjálpa til við atvinnuuppbyggingu á Flateyri sem hlýtur að vera hlutverk Bæjarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að gæta að atvinnustarfsemi í ÖLLUM byggðarlögum bæjarins.

Því til viðbótar mætti alveg setja löndunarskildu á Byggðastofnunarkvótann þar eru 400 tonn.  Flateyri er ekki Grímsey.

Það sætir mikillar furðu hjá mér að þrátt fyrir að það séu nokkrir bæjarfulltrúar úr Önundarfirði og að núverandi bæjarstjóri hafi búið og starfað í firðinum að það skuli ekki einusinni vera tekið samtalið um þetta og leitað lausna.

Ég skora hér með á alla bæjarfulltrúa og bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar að funda á Flateyri um þetta mál áður en endanleg ákvörðun verður tekin, það gengur ekki lengur að það sem ætlað er til að skapa atvinnu á Flateyri geri það ekki.

Gísli Jón Kristjánsson

Ísafjarðarbær: 947 tonna byggðakvóti og óbreyttar reglur

Þigeyrarhöfn í júlí í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælaráðuneytið hefu tilkynnt Ísafjarðarbæ að til byggðalaga í sveitarfélaginu hafi verið úthlutað 947 tonnum af botnfiski í byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári, ayk 169 tonna sem eru eftistöðvar af byggðakvóta síðasta árs, samtals 1.116 tonnum.

Bæjarráðið ákvað að sérreglur byggðakvóta Ísafjarðarbæjar verði eins fyrir árið 2024-2025, eins og þær voru 2023-2024.

Eftir því sem næst verður komist voru þær eins og reglurna fyrir fiskveiðiárið 2022/2023. Úthlutað er 1 tonni til hvers báts með frístundaveiðileyfi og því sem þá er eftir er skipt milli annarra báta sem til greina koma þannig að 40% er skipt jafnt og eftirstöðvum er skipt hlutfallslega milli báta eftir lönduðum afla á árinu 2021/2022.

Nýjustu fréttir