Sunnudagur 1. september 2024
Síða 4

Matvælastofnun kærir aðdróttun um mútuþægni

Hrönn ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Forstjóri og tveir starfmenn Matvælastofnunar hafa sent kæru á hendur einstaklingi til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Kæran er send vegna greinar sem birtist á vefmiðli Vísis, visir.is, 16. júlí síðastliðin. Í greininni segir að starfsfólk stofnunarinnar skaki sér í skrifstofustólum svo skrjáfi í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafi stungið í vasa þeirra um leið og þeir skrifi upp á rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar.

Í frétt á vefsíðu Matælastofnunar segir að stofnunin vinni faglega að umsóknum um rekstraleyfi til fiskeldis og veiti rekstrarleyfi til fiskeldis ef umsóknir uppfylla skilyrði laga og reglugerða, samkvæmt hlutverki stofnunarinnar. Forstjóri stofnunarinnar og starfsmenn sem komu að meðferð og útgáfu rekstrarleyfisins telja að með framkominni aðdróttun sé alvarlega vegið að heiðri og æru þeirra og því verði ekki komist hjá öðru en að kæra skrifin til lögreglu.

Bæjarins besta vakti athygli á umræddri grein Esterar Hilmarsdóttur sem heitir Af Glyðrugangi eftirlitsstofnana og leitaði eftir viðbrögðum Hrannar Ólínu Jörundsdóttur, forstjóra Matvælastofnunar. Þar sagði Hrönn :

„Við erum jafnframt að skoða rétt okkar og hvort höfundur hafi með þessum ásökunum brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga varðandi að saka opinbera starfsmenn um refsiverða háttsemi. Við tökum þessu máli mjög alvarlega.“

Nú hafa þessi ummæli veri kærð til lögreglu.

Á sama tíma voru fleiri sem sóttu að Matvælastofnun. Þar á meðal var Jón Kaldal, talsmaður IWF, íslenska náttúruverndarsjóðsins í viðtali á Vísi vék hann að persónulegri ábyrgð starfsmanna Mast á leyfisveitingu til Arnarlax í Ísafjarðardjúpi og sagði orðrétt:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir, sem barist hefur gegn laxeldií Ísafjarðardjúpi sagði í sama viðtali að hún taki undir með Jóni sem bendir á að það sé fólk á bak við hverja ákvörðun og það eigi ekki á láta það viðgangast að gefa út leyfi í andstöðu við lög.

„Því ber einfaldlega skylda sem opinberir starfsmenn til að gera betur en svo.“ ef haft orðrétt eftir Katrínu.

Polar Seafood og Brim eignast hlut í rækjuverksmiðjunni Kampa

Fréttatilkynning:

Stærstu hluthafar Kampa ehf. annarsvegar og Polar Seafood í Danmörku og Brim hf. hinsvegar hafa komist að samkomulagi um að félag sem Polar Seafood og Brim standa að eignist hlut í Kampa ehf.  Viðræður hafa staðið yfir í sumar um þessi viðskipti sem hafa verið samþykkt í stjórnum fyrirtækjanna. 

Polar Seafood hefur góðan aðgang að frystri rækju sem pilluð verður af Kampa ehf. á Ísafirði og stefnt er að því að verksmiðjan geti pillað yfir 10.000 tonn af rækju á ári.  Kampa ehf. var lokað í rúmar 3 vikur í sumar þegar frystikerfi verksmiðjunnar og hluti framleiðslunnar voru uppfærð til að auka framleiðslugetu fyrirtækisins.  Hjá rækjuverksmiðjunni Kampa ehf. starfa um 40 manns og vonast er til að starfsemin eflist og dafni með þessum viðskiptum.  Rækjan sem unnin verður hjá Kampa ehf. kemur aðallega frá skipum sem eru við veiðar í Barentshafi en einnig verður unnin fersk rækja af Íslandsmiðum eftir því sem aðstæður leyfa. 

Árni Stefánsson

Framkvæmdastjóri

Dynjandisheiði lokuð vegna klæðningar

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að vegna klæðingarvinnu muni Dynjandisheiði verða lokað sem hér segir:

  • frá kl. 22:00 á mánudagskvöldi 2. september, til kl. 7:00 á þriðjudagsmorgni 3. september.
  • svo að nýju kl. 22 á þriðjudagskvöldi 3. september, til 7:00 á miðvikudagsmorgni 4. september.

Hjáleið mun verða um Djúpveg (61).

Ferðafélag Ísfirðinga: Gíslaganga og Sambatal í Selárdal 

– Gönguferð og sögustund – 1 skór
Laugardaginn 31. ágúst

Skráning óþörf, bara mæta.

Gönguformaður og sögumaður: Elfar Logi Hannesson.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði og við Selárdalskirkju kl. 13:00.
Gengið verður frá Selárdalskirkju að síðasta bænum í dalnum, nefnilega hinum þekkta bæ
Uppsölum hvar bjó hinn einstaki Gísli Oktavíus Gíslason. Sagðar verða Gíslasögur á sögustað og það verður sko enginn lurkur. Að göngu lokinni verður skundað í Dimmalimm, íbúðarhús Samúels í Selárdal er kallaður var Sambi. Þar verður hægt að gæða sér á hinni þekktu hjónabandssælu listakonunnar Billu.
Vegalengd: 3 km alls, áætlaður göngutími: á áætlun,  hækkun: tekur ekki að nefna hana.

Verð fyrir félagsmenn FFÍ: 2.800 kr., verð fyrir aðra: 3.500 kr.

Kaffiveitingar á sanngjörnu verði.

Hvalárvirkjun: sérstök sjálfbærniúttekt i haust

Yfirlitsmynd af virkjunarsvæði. Glæra frá kynningarfundinum.

Vesturverk ehf hefur samið við sænska fyrirtækið Sweco Internationa AB sem tekur að sér að framkvæma í haust svonefnda Hydropower Sustainability Standard úttekt, HSS, sem ætluð er til þess að tryggja að verkefnið sé undirbúið á þann hátt að það gagnist ólíkum hagaðilum og lágmarki neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Sjálfbærnistaðall er það nefnt í gögnum Vesturverks.

Úttektin í haust mun styrkja verkefnið og um leið vera leiðbeinandi um hvað betur megi faraáður en eiginlegar framkvæmdir hefjast segir í kynningu fyrirtækisins.

Þrír matsmenn frá Sweco í Svíþjóð verða á landinu dagana 2.-11. september 2024 til að gera athuganir á vettvangi og funda með ólíkum hagaðilum s.s. hönnuðum, eftirlitsaðilum, hreppsnefnd og fleirum.

HSS er viðbót við mat á umhverfisáhrifum einkum hvað varðar sjálfbærni og ástandsmælingar, samfélagsáhrif og samfélagsábata, samskipti og upplýsingagjöf. HSS matið metur einnig þróun verkefnisins frá því að umhverfismatið fór fram.

Fram kom á kynningarfundi Vesturverks í Árneshreppi með íbúum á mánudaginn að gert er ráð fyrir að sækja um virkjunarleyfi snemma næsta árs og hefja undirbúningsframkvæmdir. Virkjunarframkvæmdir hefjast 2026 og virkjunin verði gangsett og hefji fullan rekstur 2029/2030.

Sjótækni og Arnarlax gera samstarfssamning

Rolf Orjan Nordli framkvæmdastjóri seiða- og sjóeldis hjá Arnarlaxi, Sif Huld Albertsdóttir Aðstoðarframkvæmdastjóri          Sjótækni og Guðbjartur Ásgeirsson Verkefna- og þjónustustjóri Sjótækni.

Langtímasamningur hefur verið gerður milli Sjótækni og Arnarlax um áframhaldandi þjónustu við fiskeldisbúnað félagsins á Vestfjörðum til næstu fjögurra ára hið minnsta.

Sjótækni mun m.a sjá um köfun, þvott og skoðun á fiskeldisbúnaði í sjó. Einnig er samstarf um vinnubáta í margskonar verkefni fyrir félagið.

„Við erum stolt af því að gera langtímasamning við Arnarlax. Það er metnaður okkar í Sjótækni að vaxa með þeim fyrirtækjum sem starfa í greininni.  Við höfum til fjölda ára veitt fyrirtækinu ýmsa þjónustu og það er gott að finna fyrir ánægju og trausti með þjónustu okkar. Samhliða þessum samningi munum við fjárfesta í vinnubát með öflugum tækjabúnaði sem mun sjá um þvott á búnaði og skoðun.“ Þá munu viðkomandi samningur styrkja félagið til frekari vaxtar og framþróunar á Íslandi, segir Kjartan J. Hauksson, framkvæmdastjóri og annar af tveimur eigendum Sjótækni.

„Við erum ánægð með áframhaldandi samstarf með Sjótækni sem við höfum starfað ánægjulega með síðustu ár. Það er okkur mikilvægt að geta gert samning við fyrirtæki á svæðinu og erum við afar stolt af þessu samstarfi sem hefur jákvæð samfélagsleg áhrif“ segir Rolf Orjan Nordli framkvæmdastjóri seiða- og sjóeldis hjá Arnarlaxi.

Sjótækni þjónustar laxeldi Arnarlax.

Myndir: aðsendar.

Matvælaráðherra heimsækir landsbyggðina

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra mun heimsækja Patreksfjörð, Raufarhöfn og Þórshöfn dagana 2.-7. september.

Heimsóknirnar eru gerðar með það að markmiði að íbúar byggðarlagana geti hitt ráðherra og átt milliliðalausar samræður um þau málefni sem heyra undir ráðherra.

„Ég tel það skyldu okkar sem störfum í þágu þjóðarinnar að eiga bein samskipti við fólkið í landinu, ekki síst í hinum dreifðari byggðum“ segir matvælaráðherra. „Það er mikilvægt að við fáum að kynnast þeirra sjónarmiðum, besta leiðin til þess er í gegnum samtal“.
Hægt er bóka fund með því að senda póst á mar@mar.is eða bjarki.hjorleifsson@mar.is

Bjarkey mun heimsækja eftirtalin byggðarlög:

  • Patreksfjörður – Mánudaginn 2. september – Ráðhúsinu, Aðalstræti 75
  • Þórshöfn á Langanesi – Fimmtudaginn 5. september – Kistunni, Fjarðarvegi 5
  • Raufarhöfn – Föstudaginn 6. september – Ráðhúsinu, Aðalbraut 23

Myndbirtingin af lögregluaðgerðum í Bolungarvík ámælisverð

Bolungarvík

Siðanefnd Blaðamanna­fé­lags Íslands hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að frétta­vef­ur­inn Vís­ir hafi brotið gegn siðaregl­um fé­lags­ins með með birt­ingu mynd­ar af húsi i Bol­ung­ar­vík með frétt um lög­regluaðgerð á staðnum, sem birt var á vef Vís­is 27. maí og telur siðanefnd­in brotið ámæl­is­vert.

Kærandi er sonur manns sem fannst látinn á heimili sínu í Bolungarvík. Hin kærða mynd er
skjáskot af vefsíðunni ja.is af húsi í Bolungarvík, sem birt var á Vísi kl.23:00.


Í kærunni kemur fram að lögregla hafi komið kl.22:53 á heimili kæranda og tilkynnt honum að faðir hans og eiginkona hafi fundist látin á heimili sínu í Bolungarvík. Lögreglumaðurinn hafi farið um kl.23:15.

Um kl.23:30 hafi kærandi séð frétt á vefmiðinum Vísi þar sem fram kom að lögreglan væri að rannsaka andlát í húsi við Hlíðarveg í Bolungarvík og mynd birt af húsinu.
Kærandi kveður að við Hlíðarveg séu 7 hús og fljótgert sé að fletta því upp hverjir búa í húsinu.
Kærandi segir að flestir aðstandendur hafi frétt af andlátinu í gegnum Vísi enda hafi þeir þekkt húsið um leið. Kærandi segist hafa hringt í Vísi rétt fyrir miðnætti og kvartað yfir fréttaflutningi og myndbirtingu, en aðeins verið sagt að það væri leitt að þetta færi fyrir brjóstið á fólki.

Myndin hafi ekki verið tekin úr birtingu fyrr en undir hádegi daginn eftir. Kærandi segir myndbirtinguna persónurekjanlega, blaðamennirnir virði ekki friðhelgi einkalífsins, engir almannahagsmunir styðji myndbirtingu og tillitssemi sé ekki gætt í fréttinni.

Í umfjöllun Siðanefndar segir að umrædd mynd sé skjáskot af ja.is og hefur því ekkert sjálfstætt fréttagildi. Að matiSiðanefndar var það ósanngjarnt gagnvart kæranda og öðrum aðstandendum að birta myndina á þeim tíma sem það var gert, í ljósi alvarleika málsins. Myndin var tekin úr birtingu daginn eftir, en þess ekki getið í fréttinni að myndin hafi verið tekin út, né beðist velvirðingar á því. Að mati Siðanefndar eru það ekki sanngjörn eða heiðarleg vinnubrögð.

Meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum

Sveitarfélögin á Vestfjörðum vinna nú að sameiginlegri svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í samræmi lög sem sett hafa verið.

Við gerð svæðisáætlunarinnar var lögð áhersla á að sveitarstjórnir tækju sem virkastan þátt í mótun stefnunnar, enda er hér um að ræða stefnumótun fyrir öll sveitarfélögin á svæðinu, sem öðlast ekki gildi fyrr en allar sveitarstjórnirnar hafa samþykkt hana.
Fjórðungssamband Vestfirðinga og Vestfjarðastofa aðstoðuðu við að útvega gögn, kalla eftir tilnefningum sveitarstjórnanna í vinnuhóp og skipuleggja sameiginlega fundi í vinnuhópnum og með stjórnendum sveitarfélaganna.

Tillaga að svæðisáætlun, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana liggur nú fyrir. Höfundur skýrslunnar er Stefán Gíslason hjá Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.

Gefst nú almenningi sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri áður en áætlunin er afgreidd af viðkomandi sveitarstjórnum.

Þjón­ustu­könnun Byggða­stofn­unar

Reykholabúðin

Hvaða þjón­ustu nota íbúar og hvert fara þeir til að sækja þá þjón­ustu? Hvaða þjón­ustu þarf helst að bæta við eða efla? Hvaða þjón­ustu óttast íbúar helst að missa úr heima­byggð?

Þetta eru spurningar sem Byggðastofnun vill fá svör við meðal íbúa utan höfuðborgarsvæðisins vegna rannsókna á þjónustusókn og væntingum til breytinga á þjónustu.

Könnunin er liður í að skilgreina þjónustusvæði og fá mynd af viðhorfum íbúa mismunandi svæða til breytinga á þjónustu. Út frá sjónarmiði byggðamála og landshlutanna er þátttaka íbúa í könnuninni mjög mikilvæg.

Sérstaklega er mikilvægt að fá svörun úr dreifðum byggðum landsins svo unnt verði að vinna með niðurstöðurnar þannig að sem réttust mynd fáist einnig af þjónustusókn íbúa í fámennum byggðarlögum. Niðurstöður munu nýtast í vinnu við eflingu byggða um land allt.

Könnunin er aðgengileg á vef Byggðastofnunar

Nýjustu fréttir