Mánudagur 28. október 2024
Síða 4

Þingeyri: samið um snjómokstur við Kjarnasögun

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samið verði við Kjarnasögun ehf um snjómokstur í Dýrafirði þar sem það sé hagkvæmasta tilboðið. Samningstímbilið er frá 1. október 2024 til 30. apríl 2027.

Þrjú tilboð bárust og bauð Kjarnasögun lægst tímagjald 11.935 kr. Einnig buðu Keyrt og mokað ehf sem bauð 20.161 kr. og Ragnar Örn Þórðarson, en tilboð hans var 14.500 kr.

Tilboðin voru einnig metin út frá moksturstæki og vélarafli þess og gefin stig fyrir hvern þátt. Kjarnasögn ehf var með flest stig 157 samtals. Ragnar Örn Þórðarson fékk 133 stig og Keyrt og mokað ehf 104 stig.

Gerður er fyrirvari um að tilboðsgjafinn uppfylli kröfur sem settar eru fram í útboðsgögnum.

Viðreisn: Flateyringurinn María Rut í efsta sæti

María Rut Kristinsdóttir.

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á fundi landshlutaráðs flokksins í gærkvöldi með öllum greiddum atkvæðum.

María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, leiðir listann. Í öðru sæti er Edit Ómarsdóttir, deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Advania. Þriðja sætið skipar Ragnar Már Ragnarsson, byggingafulltrúi Snæfellsbæjar og í fjórða sæti er Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. 

Fimm Vestfirðingar á listanum

Fimm Vestfirðingar eru á framboðslistanum. Auk Maríu Rutar og Gylfa er í sjöunda sæti Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, Patreksfirði, Magnús Einar Magnússon Flateyri er í 8. sæti og í 10. sæti er Sigþór Snorrason, Ísafirði.

María Rut segist stolt af því að leiða lista Viðreisnar í kjördæminu. Hún hlakkar til komandi kosningabaráttu.

„Við teflum fram glæsilegum lista. Hann er stútfullur af reynslumiklu og björtu fólki sem þekkir hvern krók og kima kjördæmisins. Hjarta mitt slær fyrir Norðvesturkjördæmi og ég hlakka til að hitta fólk og heyra hvað það er sem því liggur á hjarta. Ég hef öðlast mikla reynslu á síðustu árum bæði sem aðstoðarmaður formanns Viðreisnar og sem varaþingmaður. Stóra verkefnið fram undan er að létta fólki róðurinn. Bæði hvað varðar efnahagsástandið en einnig þegar kemur að andlegri líðan. Í Norðvesturkjördæmi er einnig mikið ákall um bættar samgöngur, atvinnuuppbyggingu og þjónustu. Þar er verk að vinna og við erum svo sannarlega tilbúin að hefjast handa.“

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi:

  1. María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar. Flateyri
  2. Edit Ómarsdóttir, deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Advania. Akranesi
  3. Ragnar Már Ragnarsson, byggingafulltrúi Snæfellsbæjar. Stykkishólmi
  4. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Ísafirði
  5. Ragnheiður Ásta Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri fjárfestingaverkefna hjá Norðuráli. Akranesi
  6. Alexander Aron Guðjónsson, Lýsingahönnuður og rafvirki. Akranesi
  7. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri. Patreksfirði
  8. Magnús Einar Magnússon, stálsmíðameistari. Flateyri
  9. Maggý Hrönn Hermannsdóttir, kennari á eftirlaunum. Ólafsvík
  10. Sigþór Snorrason, kennari. Ísafirði
  11. Alma Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður á heimili fatlaðs fólks. Blönduósi
  12. Gísli Karel Halldórsson, verkfræðingur. Borgarnesi
  13. Sunna Gylfadóttir, kennari. Varmahlíð
  14. Sigurbjörn Sveinsson, læknir. Reykjavík

Örnólfsdalsárbrú

Örnólfsdalsárbrú er elsta hengibrú landsins sem enn stendur. Hún var byggð árið 1899 en gerð upp af miklum myndugleik af Vegagerðinni árið 2011.

Nýverið voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.

Í lok 19. aldar lágu helstu leiðir í Borgarfirði sunnan Hvítár um brú hjá Kljáfossi og um Grjótháls yfir í Norðurárdal. Þá var Örnólfsdalsá, sem er dragá, brúarlaus og oft slæm torfæra á þessari mikilvægu póstleið. Það þóttu því nokkur tímamót þegar brúin yfir Örnólfsdalsá var byggð árið 1899 og vígð með viðhöfn 4. október sama ár. Brúin er 33 m löng og 2,74 m á breidd, byggð úr stáli, og er elsta uppistandandi hengibrú landsins.

Sex hengibrýr af sambærilegri gerð voru byggðar á Íslandi á árunum 1891 til 1905 og mörkuðu þær byltingu í samgöngum um landið. Fyrsta brúin var Ölfusá við Selfoss, byggð árið 1891. Þjórsá var brúuð árið 1895 og síðan Örnólfsdalsá. Fjórða brúin yfir Hörgá í Eyjafirði árið 1901 og árið 1905 sams konar brýr yfir Sog og Jökulsá í Öxarfirði.

Örnólfsdalsábrú var hönnuð og byggð vel fyrir bílaöld og því ekki gerð fyrir þá þungu umferð sem síðar kom á hana. Þrátt fyrir það var hún í fullri notkun fram til ársins 1966, eða í 67 ár, þar til ný steinsteypt brú neðar á ánni tók við hlutverki hennar.

Í upphafi þessarar aldar var ljóst að endurbyggingar væri þörf til að vernda þetta menningarverðmæti. Endurgerð brúarinnar, þar sem stál burðarvirki var endurbyggt, timburgólf endurnýjað og síðari tíma steypa hreinsuð utan af einstökum hlöðnum stöplunum, lauk árið 2011. Þá var aðkoman að norðan einnig færð í upprunalegt horf.

Í lok sumars voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.

Af síðu Vegagerðarinnar vegagerdin.is

Ný bók – Kallaður var hann kvennamaður

Sigurður Breiðfjörð skáld og samtímamenn hans er viðfangsefni Óttars Guðmundssonar geðlæknis í þessari bók.

Sigurður fæddist í lok 18. aldar í Rifgirðingum í mynni Hvammsfjarðar. Hann var um árabil vinsælasta og mest lesna skáld þjóðarinnar.

Drykkjuskapur og kæruleysi spilltu þó mjög fyrir skáldinu.
Hann lenti í útistöðum við réttvísina vegna tvíkvænismáls sem lagði að lokum líf hans í rúst. Helsti andstæðingur Sigurðar var þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sem réðist harkalega gegn honum í Fjölni. Örlög Sigurðar og Jónasar eru samofin.

Báðir voru þeir undrabörn í skáldskap en dóu úr alkóhólisma og vesaldómi á besta aldri.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst á föstudag

Rjúpnaveiðitímabilið hefst þann 25. október og er veiði heimil föstudaga til þriðjudaga (báðir dagar meðtaldir) innan veiðitímabils. Því er ekki heimilt að veiða miðvikudaga og fimmtudaga.

Veiðidagar eru heilir (það má veiða allan daginn). Hafa ber í huga að sala á rjúpu er bönnuð. Upphaf þessa tímabils mætti sennilega flokka sem byrjun á undirbúningi jólanna á einhverjum íslenskum heimilum þar sem Rjúpan er ómissandi partur að jólamatnum. 

Rétt er að taka fram að enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Jafnframt má enginn fara á veiðar nema hafa gilt skotvopnaleyfi og hafa meðferðis gilt veiðikort.

Þá eru skotveiðimenn einnig hvattir til að kynna sér vel aðstæður og mikilvægt að hafa í huga að enginn ætti að fara á fjall nema aðrir séu upplýstir um líklega tímaáætlun og ferðatilhögun.

Guðmundur Hrafn í framboð fyrir Sósíalista í Norðvesturkjördæmi

Bolvíkingurinn Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, verður oddviti Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi í þingkosningum í næsta mánuði.

Þessu greinir Guðmundur Hrafn frá í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Það er gríðarleg deigla hjá sósíalistum sem hafa lagt fram trúverðuga stefnu í öllum helstu hagsmunamálum almennings. Það er mér heiður að fá tækifæri til þess að vinna henni fylgis,“ segir Guðmundur Hrafn í færslu sinni.

„Öryggi og velferð fyrir alla, en ekki ótta, örbirgð né frekari hnignun innviða.“

Kerecisvöllurinn Torfnesi: vilja byggja við stúku

Ísafjarðarbæ hefur borist erindi frá knattspyrnudeild Vestra, barna- og unglingastarfi, þar sem sem óskað er eftir samþykki og aðstoð við að koma af stað viðbyggingu ofan á viðbyggingu Skotís við áhorfendastúkuna á Kerecis knattspyrnuvellinum á Torfnesi.

Ekki er farið fram á fjárhagslegri aðstoð. Leki er vandamál í viðbyggingu Skotís og er vonast til þess að komast í veg fyrir það með þessari nýju byggingu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók jákvætt í erindi fulltrúa Vestra varðandi viðbyggingu við stúku Ísafjarðarbæjar og fól bæjarstjóra að ræða við bréfritara um útfærslu verkefnisins.

Cruise Iceland: mótmælir fyrirhuguðu innviðagjaldi á skemmtiferðaskip

Cruise Iceland eru samtök 25 hafna og 11 þjónustufyrirtækja á landinu. Meðal þeirra eru Ísafjarðarhafnir, Vesturbyggð og Vesturferðir. Samtökin hafa sent Fjármála- og efnahagsráðuneytinu harðorð bréf þar sme mótmælt er áformum tengdum fjárlögum næsta árs að taka upp sérstakan skatt um áramótin, innviðagjald 2500 kr.á hvern farþega á skemmtiferðaskipi fyrir hvern byrjunardag sem skip dvelur við Ísland.

Segir í bréfinu að innviðagjaldið verði verður sértæk skattlagning á farþegaflutninga til landsins sem aðrir mátar farþegaflutninga til og frá Íslandi verða undanskildir.
„Upphæðin er fimm sinnum hærri en gistináttaskatturinn sem er aflagður og er einnig án nokkurra fordæma á heimsvísu hjá öðrum þjóðum fyrir hverjar 24 stundir sem skip er innan efnahagslögsögu.“

Innviðagjaldið mismuni félögum í ferðaþjónustu með þeim hætti að aðeins farþegar skemmtiferðaskipa verða látnir greiða innviðagjald. Þannig verði gjaldið ekki lagt á þá ferðamenn sem koma fljúgandi til landsins, gilsti á höfuðborgarsvæðinu og ferðist með bílum eða rútum innanlands á ýmsa ferðamannastaði og fljúgi svo aftur út.

Samtökin segja að verði innviðagjaldið lagt á með þessum hætti muni það líklega hafa miklar afleiðingar
fyrir starfsemi skemmtiferðaskipa við Ísland. Þetta skapi sérstaka áhættu fyrir minni samfélög á landsbyggðinni sem reiða sig að miklu leyti á tekjur frá skemmtiferðaskipum og sé í raun landsbyggðarskattur.

Íslenskar rannsóknir sýni að farþegar skemmtiferðaskipa skapa miklar tekjur fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni án þess að valda umtalsverðu álagi á innviði. Hótelnætur, millilandaflug, eldsneytiskaup, flutningar, matarkaup og önnur þjónusta sem er keypt dreifist víða um landið og sérstaklega í
byggðalögum utan alfaraleiðar þar sem margir rekstraraðilar reiða sig alfarið á tekjur af skemmtiferðaskipum.

Heildarfarþegafjöldi þeirra sem koma til Íslands í tengslum við skemmtiferðaskip hafi verið 315 þúsund talsins á síðasta ári, sem geri um 12-14% af öllum farþegum sem til Íslands koma. Siglt er með þessa ferðamenn hringinn í kringum landið og því séu innviðir landsins takmarkað nýttir af skipunum.

Cruise Icland segir að ekkert bendi til þess að aðgerðin muni hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu eða íslenskan efnahag, þvert á móti muni áhrifin verða neikvæð þar sem hætt er við að skemmtiferðaskipin muni stytta dvöl sína innan íslenskrar lögsögu eða jafnvel hætta við að koma.

Vegna greinar Gunnlaugs Sighvatssonar: Uppbygging atvinnulífs í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri. Mynd: visir.is

Gunnlaugur Sighvatsson, ráðgjafi og stjórnarmaður í Vilja fiskverkun ehf., skrifar grein í bb um síðastliðna helgi.  Það er alltaf gott að fá fram ólík sjónarmið og í þessu tilviki koma þau frá einstaklingi sem þekkir vel atvinnulíf á Ströndum og í Strandabyggð.  En, það eru hins vegar nokkur atriði í greininni sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Fyrst er þó rétt að taka undir með Gunnlaugi, að atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd hefði vel mátt vera virkari.  Er þar fyrst og fremst um að kenna mannabreytingum í formennsku nefndarinnar og tómarúmi sem myndast við þær.  Og enn verða breytingar í formennsku þessarar nefndar, þar sem síðasti formaður hefur nú óskað lausnar frá störfum í sveitarstjórn.  En við munum manna formannssætið að nýju og auka tíðni funda.  Hins vegar er rétt að undirstrika, að þó nefndin hafi ekki fundað reglulega, þá hefur mikil og góð umræða farið fram innan sveitarstjórnar um atvinnumál og atvinnuuppbyggingu og er ávallt reynt að miðla þeirri umræðu til íbúa.

Og auðvitað erum við öll sammála Gunnlaugi um að Strandabyggð á sér að sjálfsögðu viðreisnar von og það er alger óþarfi að tala um brotna byggð. Íbúar eiga betra skilið.  Strandabyggð hefur vissulega gengið í gegnum mikla erfiðleika og áföll sem tengjast atvinnulífinu, en ávallt risið upp aftur. 

Lögbundin starfsemi eða styrkir

Það er svo, að kjörnir fulltrúar verða, samkvæmt sveitarstjórnarlögum, að huga að heildarhagsmunum og hafa það í huga við ákvörðunartöku um ráðstöfun fjármagns.  Í því felst ekkert tilfinningalegt mat á hin og þessi verkefni, heldur einfaldlega sá lagarammi sem okkur ber að starfa innan.  Og það er ekki alltaf auðvelt að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármagns, en við erum engu að síður kosin til þess að taka slíkar ákvarðanir.  Það er ljóst að íbúar hafa skoðanir á þeim ákvörðunum sem teknar eru og líta þá yfirleitt til þess hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið, í ljósi aðstæðna á hverjum tíma.  Í lýðræðissamfélagi eru slíkar skoðanir eðlilegar og réttmætar.

Mikið hefur verið skrifað um Galdrasafnið og Sauðfjársetrið og þá styrki sem þessi söfn hafa þegið frá sveitarfélaginu sl tvo áratugi eða svo.  Og menn geta og meiga hafa ólíkar skoðanir á því.  Þannig virkar lýðræðið.  En hitt ættum við hins vegar öll að geta verið sammála um, að mikilvægi þessara safna fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í Strandabyggð, á Ströndum og á Vestfjörðum, er óumdeilt.  Þar hafa einstaklingar unnið og vinna enn mikið og gott starf og það er mikilvægt að við hlúum að því starfi með jákvæðni.  Um mikilvægi þessara safna hefur aldrei verið efast eða deilt, amk ekki af hálfu meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar.

Lokun Hólmadrangs og byggðakvóti

Það var mikið áfall þegar Hólmadrangur lokaði.  Um og yfir tuttugu manns misstu þar með vinnuna.  Það er rétt að það komi fram að sveitarstjórn Strandabyggðar, þingmenn kjördæmisins, Vestfjarðastofa og Gunnlaugur Sighvatsson, þá sem ráðgjafi eigenda Hólmadrangs, mynduðu eins konar neyðarhóp sem tók strax til starfa og leitaði leiða til að finna eða búa til ný störf.  Þarna unnu allir saman að því að finna lausn.

Eitt af því sem strax var rætt var, sértækur byggðakvóti.  Fyrsti þingmaður kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson, studdi okkur mikið í þessari vinnu og talaði fyrir slíkum kvóta innan Byggðastofnunar.  Þann 4. október 2023, sendi sveitarstjórn Strandabyggðar, Byggðastofnun „beiðni um viðræður um úthlutun sértæks byggðakvóta til Strandabyggðar, í kjölfar lokunar Hólmadrangs og áhrifa þess á atvinnulíf í Strandabyggð“.  Í framhaldinu fór oddviti fór sérstaka ferð á Sauðárkrók til fundar með forstjóra og starfsmönnum Byggðastofnunar vegna málsins.  Framhaldið var síðan að úthlutað var hingað 500 tonnum af sértækum byggðakvóta.  Þarna unnu allir saman og sveitarstjórn og sveitarstjóri beittu sér sérstaklega fyrir því að fá hingað kvóta og tryggja uppgang veiða og vinnslu.  Sé síðan stiklað á stóru, var auglýst aftur á þessu ári eftir umsóknum um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar og niðurstaðan varð sú að Vilji fiskverkun ehf fékk sértækan byggðakvóta til næstu ára.  Því fögðuðu allir, enda gríðarlega mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnulífs í Strandabyggð.

Það er því rangt af Gunnlaugi að halda því fram í sinni grein, að sveitarstjóri hafi unnið markvisst gegn því að hópur heimamanna fengi úthlutun.  Þetta eru alvarlegar ásakanir sem ekki er hægt að sitja undir.  Það var skýr krafa sveitarstjórnar og sveitarstjóra í allri umræðu um sértækan byggðakvóta til Strandabyggðar, að hann færi til heimamanna.  Aldrei var reynt á nokkurn hátt að koma þeim kvóta út úr sveitarfélaginu, enda sá lagarammi sem Byggðastofnun styðst við hvað úthlutun hans varðar, nokkuð skýr hvað það varðar.  Hins vegar var í umræðunni hugsanlegt samstarf við stórt fiskvinnslufyrirtæki frá Grindavík, Stakkavík og töldum við það mjög áhugavert og æskilegt í ljósi stærðar, getu og áhuga þess fyrirtækis á að byggja hér upp fiskvinnslu. Var talað um að Stakkavík myndi leggja til viðbótar kvóta jafnvel 1500-2000 tonn og það hljóta allir að sjá hvaða þýðingu það hefði haft í för með sér fyrir sveitarfélagið.  Eins spiluðu aðstæður í Grindavík á þeim tíma þarna inn í og litum við því á þetta sem mikið, en sjálfsagt tímabundið tækifæri.  En svo það sé alveg skýrt; umræðan um aðkomu þeirra var alla tíð sett fram sem samstarf við heimamenn, ekki án þeirra.  Allt tal um annað er einfaldlega ekki rétt.

Öll aðkoma sveitarstjóra var með vitund Byggðastofnunar, sem taldi ekkert óeðlilegt við það að sveitarstjóri tæki þátt í umræðunni, enda um að ræða eitt mesta hagsmunamál þessa sveitarfélags í atvinnumálum í áratugi.  Og það hefði án efa heyrst kvartað einhvers staðar í okkar ágæta sveitarfélagi, ef sveitarstjórn eða sveitarstjóri hefði ekki sýnt málinu áhuga. 

Það er vonandi að þessi samantekt leiðrétti þessi ósannindi, eða misskilning í grein Gunnlaugs

Viljayfirlýsingar, hótel og aðrar fjárfestingar

Það er erfitt að skilja skrif Gunnlaugs í greininni öðruvísi en svo, að hann hafi ekki trú á þessum verkefnum og telji tíma sveitarstjóra illa varið í slíkar viðræður og undirbúning.  Á sama tíma er kvartað yfir stefnuleysi í atvinnumálum.  Þarna fara ekki sama hljóð og mynd.

Það liggur fyrir viljayfirlýsing Strandabyggðar og  Fasteignaumsýslunar ehf um byggingu hótels á Hólmavík.  Hótelið er komið inn á aðalskipulag og verið er að vinna deiliskipulagslýsingu. Framundan er kynning á verkefninu meðal íbúa.  Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjst snemma næsta árs og að hótelið verið opnað síðla árs 2026.  Ef það er ekki liður í atvinnusköpun að reyna að fá til Hólmavíkur 20-25 manna vinnustað, með tilheyrandi tekjum fyrir sveitarfélagið, þá er bleik brugðið.

Og síðan liggur fyrir viljayfirlýsing við Íslensk Verðbréf um aðkomu þeirra og tengdra fyrirtækja að haftengdri uppbyggingu í Steingrímsfirði.  Unnið hefur verið að því að fá leyfi fyrir burðarþolsmati í Steingrímsfirði, m.a. vegna þararæktunar og hefur oddviti fundað með matvælaráðherra vegna þessa.  Eins er þrýst á að stjórnvöld tryggi fjármögnun á heitavatnsleit á Gálmaströnd til að hægt sé að kanna forsendur landeldis á regnbogasilungi í Steingrímsfirði.  Allt hefur þetta tekið tíma, m.a vegna þess að frumvarp matvælaráðherra um Lagareldi er í óvissu og eins vegna þess að boranir á Gálmaströnd liggja niðri. 

Í vinnu svokallaðrar Strandanefndar eru tillögur frá Strandabyggð um verkefni sem myndu efla atvinnu í sveitarfélaginu.  Þar á meðal er tillaga um framlengingu á verkefninu Brothættar byggðir, tillaga um fjármögnun lokaframkvæmda við heitavatnsleit á Gálmaströnd ofl.  Hvort þessar tillögur ná fram að ganga er óvíst og ekki í okkar höndum.  Mikil óvissa ríkir nú um stjórn þessa lands eftir kosningar og afdrif þeirra verkefna sem nú liggja fyrir.  En, við verðum að reyna og vona að þetta gangi eftir.

Við ættum að taka höndum saman um að tala þessi verkefni upp, í stað þess að gera lítið úr þeim. 

Niðurlag

Atvinnuuppbygging er langtímaverkefni sem kallar á úthald, framsýni og þor til að leita nýrra leiða.  Það teljum við okkur í meirihluta sveitarstjórnar hafa gert og raunar sveitarstjórn öll, þó spjótin standi á meirihlutanum í grein Gunnlaugs.  Viljayfrlýsingar eru oft fyrsta skref slíkrar uppbygginar.  Stundum ganga verkefnin eftir, stundum ekki.  En það er öruggt mál, að ef við gerum ekkert, gerist ekkert.

Það er gott að fá reynslumikla menn inn í atvinnulífið hér í Strandabyggð og við fögnum því, um leið og við köllum eftir samstarfi og auknum samskiptum um okkar sameiginlegu hagsmuni.

Þorgeir Pálsson

Oddviti Strandabyggðar

Fjórðungsþing: þrjár vegaframkvæmdir í forgang

Unnið að vegagerð á Dynjandisheiði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga, sem haldið var um síðustu helgi, lýsti yfir „miklum vonbrigðum með frestun útboða á árinu 2024, verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar og ítrekuð loforð innviðaráðherra um samhangandi framkvæmdir á Dynjandisheiði og Gufudalssveit.“

Þingið skoraði á innviðaráðherra og Alþingi setja í forgang eftirfarandi þrjú verkefni:

  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að ljúka við næsta áfanga í vegagerð um
    Dynjandisheiði og verkefninu verði lokið á árinu 2025.
  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að hefja útboð til brúarsmíði yfir Gufufjörð
    og Djúpafjörð á árinu 2025 og miðað við að verkefninu sé lokið 2026.
  • Tryggt verði fjármagn til endurbóta og nýframkvæmda á Strandavegi norður í
    Árneshrepp, minnt er hér á fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Í annarri ályktun þingsins er því beint til stjórnvalda að fjármagn verði tryggt til vegaframkvæmda í samræmi við framkvæmdaáætlun um Bíldudalsveg nr. 63 niður Trostansfjörð að Bíldudalsflugvelli, og að sú framkvæmd verði í beinu framhaldi af næsta áfanga um Dynjandisheiði.

Nýjustu fréttir