Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 4

Úrgangsráð Vestfjarða

Frá Fjórðungsþingi í október sl.

Í framhaldi af samþykki allra sveitarfélaga á Vestfjörðum á Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum er nauðsynlegt að skipa Úrgangsráð Vestfjarða.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fjallaði um málið á fundi sínum í desember sl.

Ákveðið var að senda sveitarfélögunum bréf og að það komi fram eftirfarandi um val á fulltrúum í ráðið:

„Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga vekur athygli sveitarfélaga á að úrgangsráðið er vinnuhópur og hefur ekki umboð til að taka bindandi ákvarðanir fyrir sveitarfélögin eða samstarf þeirra. Því vill stjórn Fjórðungssambandsins beina því til sveitarfélaga að í hópinn veljist fulltrúar sem treysta má að geti fylgt málum eftir í sínu sveitarfélagi og hafi umboð til að tala máli sveitarfélagsins í úrgangsmálum innan Úrgangsráðs Vestfjarða.“

Á fundinum var staðfest að áheyrnarfulltrúi Árneshrepps í stjórn FV er Arinbjörn Bernharðsson og að Matthías Sævar Lýðsson er áheyrarfulltrúi Strandabyggðar.

Súðavík: áform um aukið gistirými

Melrakkasetur Íslands í Súðavík.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt umsókn Melrakka gistingar ehf um deiliskipulagsbeytingu sem heimilar að byggja sex smáhýsi auk þjónustuhúss á lóð Eyrardals 7 innan og ofan til við Melrakkasetrið.

Markmiðið er að auka framboð af heilsárs gistirýmum fyrir ferðamenn í Súðavík.

Ísafjarðarbær : Jafnlaunakerfi stenst staðal

Æðstu stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafa rýnt árangur jafnlaunakerfis sveitarfélagsins og komist að þeirri niðurstöðu að kerfið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar. Ekki er þörf á aðgerðum.

Að niðurstöðunni standa bæjarstjóri, mannauðsstjóri og fjórir sviðsstjórar.

Launagreining gerð á launum októbermánaðar leiddi i ljós að launamunur er 0,96% konum í vil sem er vel innan markmiða um 3,5% mun.

Vakin er athygli á því að kynjahlutfall sé mjög skakkt hjá Ísafjarðarbæ og huga þurfi að því hvernig megi jafna það.

Malið var lagt fyrir bæjarráð á mánudaginn og bókað að

„Með hliðsjón af viðhaldsúttekt iCert, innri úttekt, launagreiningu og rýni stjórnenda á jafnlaunakerfi Ísafjarðarbæjar, auk þess að Jafnlaunastofa hefur gefið út nýja heimild til að nota jafnlaunamerkið til 22.06.2026, er ályktað að Jafnlaunakerfi Ísafjarðarbæjar standist kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.“

Lognmolla í ólgusjó

Lognmolla í ólgusjó er bók sem kom út nýlega og leiðir lesendur í ferðalag um íslensk stjórnmál.

Hér leita höfundar svara við spurningum sem gjarnan eru ræddar í heitum pottum landsins:

Hvað gæti ráðið mestu um hvað fólk kýs? Er eitthvað að marka fylgiskannanir? Hafnar unga fólkið hefðbundnum stjórnmálum? Er gjá milli frambjóðenda og kjósenda? Er neikvæðni í kosningabaráttu að aukast? Og hvernig hefur þetta allt verið að breytast á undanförnum árum og áratugum?

Árið 2021 lék heimsfaraldur heiminn grátt en í íslenskum stjórnmálum ríkti loks lognmolla eftir óróleika eftirhrunsáranna. Með einstökum gögnum Íslensku kosningarannsóknarinnar eru alþingiskosningarnar 2021 notaðar sem útgangspunktur til að skoða stjórnmálaþróun síðustu áratuga og hvers megi vænta í þróun lýðræðis á næstu árum.

Höfundar bókarinnar eru sérfræðingar í íslenskum stjórnmálum og eru mörgum lesendum kunnir fyrir skýringar sínar á stjórnmálum í fjölmiðlum um árabil.

Stofnvísitala þorsks svipuð en meðalþyngd lægri

Stofnvísitala þorsks er svipuð og undanfarin þrjú ár og er yfir meðaltali áranna 1996-2024.

Í samantekt Hafrannsóknastofnunar kemur fram að yngsti árgangur þorsks mælist undir meðalstærð í fjölda en eins árs þorskur er hins vegar nálægt langtímameðaltali. Meðalþyngdir flestra árganga þorsks mældust undir meðaltali áranna 1996–2024.

Stofnvísitala ýsu er há líkt og tvö síðustu á og sýnir hraða stækkun stofnsins í kjölfar góðrar nýliðunar. Árgangar ýsu sem nú eru 3–5 ára mælast yfir meðalstærð en árgangar 0–3 ára undir meðalstærð í fjölda.

Líkt og hjá þorski mælast meðalþyngdir flestra árganga undir meðaltali. Vísitala grálúðu er undir langtímameðaltali en vísbendingar eru um bætta nýliðun. Vísitala gullkarfa lækkaði frá því í fyrra en vísitala djúpkarfa er hærri en árin tvö á undan. Nýliðun þessara tveggja stofna hefur verið lítil sem engin um árabil.

Vísitala ufsa er undir langtímameðaltali. Vísitala blálöngu er undir langtímameðaltali en vísitala gulllax mælist há og langt yfir meðaltali áranna 1996-2024.

Litlar breytingar eru í vísitölum ýmissa annarra nytjategunda frá því í fyrra og má þar nefna þykkvalúru, steinbít, hlýra, löngu og keilu. Vísitala hlýra er enn langt undir langtímameðaltali. Vísitala ýmissa kaldsjávartegunda heldur áfram að lækka og er áberandi lág í nokkrum tegundum.

Síðustu ár hefur botnhiti sjávar á grynnstu stöðvunum (1–200 m) hækkað fyrir vestan og sunnan, en farið lækkandi fyrir norðvestan og norðaustan. Greina má lítils háttar hækkun á meðalhita við botn í kalda djúpsjónum (> 400 m) fyrir norðvestan og norðaustan land.

Magdalena Tatala ráðin forstöðumaður hjá Arctic Fish

Magdalena Tatala hefur verið ráðin sem forstöðumaður í fóðurmiðstöð Arctic Fish.

Magdalena hefur verið starfsmaður fóðurmiðstöðvarinnar frá því í apríl 2023 en tekur nú við forstöðu þar. Hún tekur við af Bernharði Guðmundssyni sem lætur af störfum hjá Arctic Fish í lok mánaðar en hann er einn af fyrstu starfsmönnum félagsins og verður mikil eftirsjá af honum.

Í fóðurmiðstöðinni eru níu starfsmenn. Þar er allri fóðrun félagsins stýrt en að auki er öryggiseftirlit með fiski félagsins og starfsfólki að störfum við kvíar.

Samhliða vinnu hjá Arctic Fish hefur Magdalena lokið námi í Fisktækniskóla Íslands og leggur nú stund á nám í fiskeldisfræði við Háskólann á Hólum.

Magdalena er í sambúð með Rafael Tatala sem einnig starfar hjá félaginu og búa þau á Þingeyri með tveimur börnum sínum sem eru sjö og fjögurra ára.

“Frá því að ég hóf störf í fóðurmiðstöðinni hjá Arctic Fish fann ég að þetta var vinnustaður þar sem að ég vildi þróast í starfi. Í fóðurmiðstöðinni er ég hluti af frábæru lið sem hefur mikla reynslu sem þau hafa geta miðlað af. Það hefur gefið mér mikið og kveikt áhuga minn á fiskeldi. Þetta hefur verið skemmtilegt ferðalag fram að þessu og ég er spennt að takast á við þetta nýja hlutverk, halda áfram að læra, leggja mitt af mörkum og vaxa með þessu hæfileikaríka og styðjandi teymi.“ segir Magdalena

Ísfirðingafélagið 80 ára

Ísfirðingafélagið var stofnað í Reykjavík 22. apríl 1945.  Tilgangur félagsins er að viðhalda kynningu milli brottfluttra Ísfirðinga og efla tryggð þeirra við átthagana.  Ísfirðingafélagið stendur fyrir útgáfu Vestanpóstsins árlega.  Auk þessu eru nokkrir fastir liðir í starfsemi þess s.s. Sólarkaffið, kirkjukaffi og Sólkveðjuhátíð.

Ísfirðingafélagaið fagnar því 80 ára afmæli í ár og býður til tónlistarveislu í Gamla Bíó, laugardaginn 1. febrúar 2025.

Hljómsveitin Albatross verður í hlutverki gestgjafa og tekur á móti góðum gestum, m.a. Helgi Björns, Bjarni Ara, Stefanía Svavars, Sverrir Bergmann og mörg fleiri.

Ísfirðingurinn knái Halldór Smárason er fremstur í flokki hljómsveitarinnar, og Hnífsdælingurinn geðþekki Kristján Freyr Halldórsson verður veislustjóri kvöldsins.

Að þessu sinni verður ekki boðið upp á matarveislu heldur tónlistarveislu, en við getum auðvitað ekki sleppt hinum mjög svo nauðsynlegu pönnukökum segir í tilkynningu frá félaginu en nánari upplýsingar eru á vef Ísfirðingafélagsins https://isfirdingar.is 

Aðalskipulag Strandabyggðar 2021-2033 auglýst

Skipulagstofnun hefur auglýst tillögu að aðalskipulagi fyrir Strandabyggð árin 2021 – 2033.

Um er að ræða heildarendurskoðun gildandi Aðalskipulags Strandabyggðar 2010-2022. 
Sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga þann 10.september 2024.

Að lokinni athugun Skipulagstofnunar fyrir auglýsingu var tillagan aftur samþykkt í sveitarstjórn 12. nóvember 2024 með minniháttar lagfæringum til að bregðast framkomnum ábendingum Skipulagsstofnunar.

Unnt er að senda inn athgasemdir við tillöguna til 14. febrúar 2025.

Fram kemur í greinargerð að gildistími gildandi aðalskipulags Strandabyggðar 2010-2022 er á enda og því er heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins tímabær.

Breytingar sem gerðar hafa verið á gildandi Aðalskipulagi Strandabyggðar:
Stækkun íbúðarbyggðar við Kópnesbraut og Víkurtún, Hólmavík
Athafnasvæði A8, Fiskislóð 1.
Þéttbýlið á Hólmavík, nýtt verslunar- og þjónustusvæði.

Helstu breytingar sem gerðar eru við heildarendurskoðun aðalskipulags frá gildandi aðalskipulagi eru m.a.:
Afmörkun landnotkunarreita leiðrétt og reitir fá ný númer.
Skilmálar við landnotkunarreiti uppfærðir og stærð og byggingarmagni bætt.
Stækkun og breytingar á nýju íbúðarsvæði í Brandskjólum.
Niðurfelling á íbúðarsvæði.
Auknar heimildir fyrir landbúnaðarsvæði og landbúnaðarland flokkað.
Vegir í náttúru Íslands flokkaðir og vegaskrá útbúin.
Kvíslatunguvirkjun bætt við í aðalskipulag.
Nýtt varúðarsvæði skilgreint.
Ný athafnasvæði á Hólmavík
Ný iðnaðarsvæði: Austurgilsvirkjun, Kvíslatunguvirkjun.

Gettu betur: MÍ úr leik eftir naumt tap

Keppendur MÍ í Gettu betur 2025 ásamt þjálfurum.

Menntaskólinn á Ísafirði keppti við Menntaskólann á Laugarvatni í gærkvöldi í Gettu betur keppninni. Viðureignin fór fram á ruv.is.

Svo fór að Laugvetningar báru sigur úr býtum og fengu 14 stig gegn 12 stigum Ísfirðinga.

Lið MÍ í árið 2025 var skipað þeim Guðbjörgu Ósk Halldórsdóttur, Grétari Loga Sigurðssyni og Soffíu Rún Pálsdóttur. Aðalþjálfari liðsins var Signý Stefánsdóttir og umsjónamaður og aðstoðarþjálfari Guðríður Vala Atladóttir. Upphaflega sóttu 14 nemendur um þátttöku í liðinu en eftir fyrstu æfingar var fækkað niður í 6. Að sögn Guðríðar Völu sem skipar embætti Málfinns MÍ í vetur gengu æfingar vel en krefjandi reyndist að velja aðeins þrjá keppendur þar sem margir efnilegir nemendur komu til greina. 

Metár í fiskeldi: útflutningsverðmæti 54 milljarðar króna

Fram kemur í Radarnum, fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, að útflutningsverðmæti eldisafurða á nýliðnu ári hafi verið tæplega 54 milljarðar króna og hefur aldrei áður verið meira.

Það er rúmlega 16% aukning frá árinu 2023, bæði á breytilegu og föstu gengi. Útflutningsverðmæti eldisafurða var rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls. Þau hlutföll hafa heldur aldrei verið hærri.

Eldislax næstverðmætasta fisktegundin

Samhliða bráðabirgðatölum fyrir desember birti Hagstofan einnig ítarlegri tölur fyrir nóvember þar sem sjá má sundurliðun niður á tegundir fiskeldis í mánuðinum. Þar sést að útflutningsverðmæti eldislax var komið í rúma 40 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024. Það er um 19% aukning frá sama tímabili árið 2023. Laxinn skilaði jafnframt næstmestu útflutningsverðmæti á fyrstu ellefu mánuðum ársins af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi, en þar er þorskurinn vitaskuld í fyrsta sæti. Útflutningsverðmæti af laxi voru 30% umfram verðmæti af ýsu sem var í þriðja sæti í þessari upptalningu. Laxinn er þar með í yfirburðastöðu í öðru sæti og miðað við framleiðsluhorfur má ætla að bilið breikki enn frekar á næstu árum segir í fréttabréfinu.

Nýjustu fréttir