Síða 4

Gunnar Atli einn eigenda Landslaga

Lögmaðurinn Gunnar Atli Gunnarsson frá Ísafirði hefur gengið til liðs við eigendahóp Landslaga.

Gunnar Atli lauk meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2015. Hann öðlaðist réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi 2017 og útskrifaðist með LL.M gráðu frá University of California, Berkeley, í desember 2021. Hann hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2021 og var skipaður aðjúnkt við deildina árið 2024. Gunnar Atli starfaði áður sem aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands.

Hann er jafnframt í stjórn Arctic Fish Holding AS (móðurfélag Arctic Fish). 

Landsnet í Reykjavík

Frá ársfundi Landsnets, sem haldinn var í Hörpu fyrir fáum dögum. Mynd: Landsnet.

Tilkynnt var í gær um nýja stjórn Landsnets, fyrirtækis í eigu ríkisins sem annast flutning á raforku um landið. Allri stjórn fyrirtækisins var skipt út og nýir stjórnarmenn tóku sæti. Alls eru fimm stjórnarmenn og tveir til vara.

Athygli vekur af sjö nýjum stjórnar- og varastjórnamönnum eru sex þeirra búsettir á höfuðborgarsvæðinu, flestir í Reykjavík. Aðeins einn stjórnamanna er búsettur utan höfuðborgarsvæðisins. Það er Harpa Þ. Böðvarsdóttir sem er til heimilis í Þorlákshöfn.

Í tilkynningu Landsnets segir að stjórn Landsnets hafi verið valin „á grunni nýs verklags um val á einstaklingum til stjórnarsetu í fyrirtækjum sem eiga að tryggja að tilnefndir stjórnarmenn veljist á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu. Þar er líka kveðið á um að stjórnarmenn skulu vera óháðir fyrirtækinu og stjórnendum þess, séu hvorki starfsmenn fyrirtækisins né kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í sveitarstjórnum.“

Sjúkrahúsið á Ísafirði: ekki hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrir kl 8 að morgni

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa að þau svör fengust á sjúkrahúsinu á Ísafirði að ekki væri hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrr en kl 8 að morgni. Tveir slasaðir sjómenn af Sólborgu RE 27 voru þó fluttir þangað þann 5. september 2024. Mbl.is vekur athygli á þessu í morgun.

„Hinn meira slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði með sjúkrabílnum en sá sem var minna slasaður var keyrður af lögreglu á sjúkrahúsið. Þegar þangað kom taldi sá er var á vakt á sjúkrahúsinu sig ekki geta skráð þá inn og lagði til að lögreglan hýsti mennina til morguns sem lögreglan hafnaði. Mönnunum var því komið fyrir í herbergi á sjúkrahúsinu með tveimur rúmum og fengu þeir að vera þar til morguns. Um morguninn kom enginn að vitja þeirra og að lokum fór sá sem var minna slasaður fram og kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim.“

Í skýrslunni er í lokin sú tillaga að

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggir að sjómenn sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings fái tilskylda umönnun.“

Fjármálaáætlun: ekkert fé í jarðgöng

Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra kynnir fjármálaáætlunina.

Ekki er gert ráð fyrir neinu fé úr ríkissjóði til þess að gera jarðgöng í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026 – 2030 sem kynnt var í gær. Í sérstakri umfjöllun um nýjar leiðir til fjármögnunar til að flýta samgönguframkvæmdum segir að vegna þröngrar stöðu ríkisfjármála liggi fyrir að afar takmarkað svigrúm verði til að ráðast í slíkar stórframkvæmdir á næstu árum á grundvelli beinna framlaga úr ríkissjóði samkvæmt samgönguáætlun.
Þá segir :“Ef rjúfa á þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í jarðgangagerð hér á landi, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er því mikilvægt að leita nýrra leiða til að fjármögnunar sem einnig gætu nýst til að flýta öðrum mikilvægum samgönguverkefnum.“

Til greina komi að fylgja fyrirmynd nágrannalandanna sem sum hafa stofnað sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sér um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda.

Innviðafélag um samgönguframkvæmdir

Þessi hugmynd er skýrð frekar á þennan hátt:

„Slíkum aðila mætti leggja til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Mögulegt væri að veita slíkum aðila heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum en þó þannig að það valdi ekki óásættanlegri áhættu fyrir ríkissjóð. Þannig mætti t.a.m. hvetja til aukinnar aðkomu lífeyris sjóða og annarra fjárfestingarsjóða að innviðafjárfestingum.“

Boðuð er skoðun á lögum um samvinnuverkefni eða samstarfi milli ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila við innviðauppbyggingu. Meginmarkmiðið með samvinnuverkefnum væri að flýta fjárhagslega sjálfbærum framkvæmdum með aðkomu einkaaðila ásamt því að yfirfæra áhættu af byggingu og rekstri slíkra fjárfestinga frá ríkinu.

Ýmist myndi umferðin greiða allan kostnað við framkvæmdina eða viðhafa blandaða fjármögnunarleið með „skuggagjöldum“ frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarksumferð eða fastar reiðugreiðslur til að einkaaðili sé reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að byggja og reka mannvirkið yfir tiltekinn tíma.
Væri ráðist í stofnun félags um stærri samgönguframkvæmdir væri um að ræða mikla breytingu á utanumhaldi um slíkar framkvæmdir.

Í lok umfjöllunar um samgönguframkvæmdir í fjármálaáætluninni segir að mikilvægt sé að víðtæk umræða eigi sér stað um þessar hugmyndir með samráði á vettvangi stjórnmálanna. Fram kom í máli ráðherra að vonast væri til þess að niðurstaða liggi fyrir um þessa leið fyrir lok yfirstandandi árs.

Vesturbyggð: óska eftir tilnefningum til bæjarlistamanns 2025

Birta Ósmann Þórhallsdóttir og Valgerður María Þorsteinsdóttir við afhendingu verðlaunanna í fyrra. Mynd: Vesturbyggð.

Vesturbyggð hefur óskað eftir tilnefn­ingum til bæjarlista­manns Vest­ur­byggðar árið 2025. Frestur til að senda inn tillögu er til mánu­dagsins 5. maí næst­kom­andi.

Viðurkenningin verður afhent þann 17. júní næstkomandi. Henni er ætlað að koma verkum bæjarlistamannsins á framfæri og upphefja hans góðu störf í þágu listarinnar í bæjarfélaginu. Hún var fyrst veitt Rannveigu Haraldsdóttur árið 2021, síðan Signýju Sverrisdóttur árið 2022, Guðnýju Gígju Skjaldardóttur árið 2023, og síðast Birtu Ósmann Þórhallsdóttur árið 2024 en það var í fyrsta skipti sem verðlaunin voru veitt í sameinuðu sveitarfélagi.

Allir geta sent inn tilnefningar og tilnefna má listamenn úr öllum listgreinum, til dæmis hannyrðum, myndlist, útskurði, ritlist, leiklist, tónlist eða öðru. Tilnefningum má gjarnan fylgja rökstuðningur og upplýsingar um störf listamannsins en ekki er gerð krafa um slíkt.

Sérstök valnefnd mun velja hver hlýtur viðurkenninguna. Hún mun hafa innsendar tillögur til hliðsjónar við valið en er heimilt að veita viðurkenninguna listamanni sem var ekki tilnefndur.

Tilnefningar og ábendingar berist í tölvupósti til Valgerðar Maríu Þorsteinsdóttur, menningarfulltrúa, á netfangið muggsstofa@vesturbyggd.is.

Strandveiði: endurvigtun verði hætt

Frá löndun úr strandveiðibát í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Í gær voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerðarbreytingu um vigtun og skráningu á sjávarafla. Lagt er til að aflaskráningu strandveiðibáta verði lokið á hafnarvog.

Í kynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að með þeirri breytingu muni endurvigtunum fækka um þúsundir árlega með minni líkum á mistökum við innslátt upplýsingum. Þá muni breytingin einnig draga verulega úr möguleikum á rangri skráningu á ís í afla.

Breytingin er eftirfarandi: Á eftir 3. mgr. 11. gr kemur ný málsgrein svohljóðandi:

„Allan strandveiðiafla skal vigta á hafnarvog. Vigtarmaður skal draga 3% frá vegnum afla vegna áætlaðs íss í afla eftir að hafa gengið úr skugga um að aflinn sé ísaður“.

Rúmlega helmingur allra landana dagróðrabáta kemur frá strandveiðiflotanum og segir ráðuneytið að í framhaldi af reynslu af breytingunni verði skoðað hvort ástæða sé til að ljúka allri vigtun dagróðrabáta á hafnarvog við löndun.

„Breytingin er mikilvægt skref til að auka traust, trúverðugleika og öryggi í fiskveiðistjórnun og muni stuðla að hagkvæmari ferlum við skráningu sjávarafla“ segir í greinargerð ráðuneytisins með breytingartillögunni.

Nýr samn­ingur um Vakt­stöð sigl­inga

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, skrifuðu í síðustu viku undir samning í tengslum við rekstur Vaktstöðvar siglinga.

Samningurinn er til tíu ára og fjallar um miðstöð fyrir mannaða vöktun Vaktstöðvarinnar sem rekin er allan sólarhringinn alla daga ársins. Vaktstöðin verður rekin í samstarfi við mannaða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en tæknilegur hluti Vaktstöðvarinnar (upplýsinga- og fjarskiptakerfi) er hins vegar í höndum Neyðarlínunnar.

Vegagerðin er ábyrg fyrir starfsemi Vaktstöðvar siglinga og fer með fjárhagslegt og faglegt eftirlit með Vaktstöðinni og verkefnum hennar.

Markmið samningsins er að uppfylla ákvæði laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 en markmið laganna er að tryggja öryggi og skilvirkni siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, eftirliti með umferð skipa og upplýsingaskiptum í þágu siglingaöryggis, öryggi skipa, farþega og áhafna og siglingavernd. Auk þess að efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum, greiða fyrir flutningum á sjó og draga úr stjórnsýslubyrði skipafélaga.

Meðal helstu verkefna sem Vaktstöð siglinga sinnir er vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningakerfis skipa (STK), þ.m.t. sjálfvirks alþjóðlegs auðkenningarkerfis skipa (AIS), móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttaka og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó.

Vinsælustu nöfnin 2024

Þjóðskrá hefur birt upplýsingar um vinsælustu nöfnin árið 2024.

Emil og Jökull voru vinsælustu fyrstu eiginnöfn meðal nýfæddra drengja á síðasta ári en 31 drengjum var gefið nafnið Emil og 31 drengjum nafnið Jökull. Næst vinsælustu nöfnin meðal drengja voru Óliver og Matthías.
Aþena og Embla voru vinsælustu nöfnin meðal nýfæddra stúlkna sem fyrsta eiginnafn, en 22 stúlkum var gefið nafnið Aþena og jafnmörgum nafnið Embla. Nöfnin Emilía, Birta og Sara koma þar á eftir en 20 stúlkum var gefið hvert nafn.

Fjöldi einstaklinga sem fæddust árið 2024 og var gefið annað eiginnafn voru 3.510 einstaklingar eða 81% af heildinni.
Þór var vinsælasta nafnið meðal drengja en þar á eftir eru það nöfnin Leó og Logi. Vinsælasta nafnið meðal stúlkna var Sól og næst vinsælasta nafnið var Rós. Síðan koma nöfnin Ósk og María.

Ef horft er á samanburð á milli ára má sjá að drengjanöfnin Emil og Jökull taka fyrsta sætið af Birni. Matthías tekur stökk úr 41. sæti í fjórða og Birkir hækkar einnig verulega. Hvað stúlkurnar varðar má sjá að Aþena og Embla taka fyrsta sætið af Emilíu. Nöfnin Emilía, Birta og Sara raða sér í sætin þar á eftir. Hástökkið á topp 10 listanum er nafnið Júlía sem fer úr 33. sæti í það 7. – 10.

Algengustu fyrstu eiginnöfnin á landinu má sjá hér að neðan og er röðun nafna lítillega breytt á milli ára. Með algengustu fyrstu eiginnöfnin er átt við alla núlifandi Íslendinga búsetta hér á landi.
Fjöldatölur miðast við 27. mars 2025.

Púkahátíðin hefst í dag

Í dag hefst Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða. Það er einstakt gleðiefni að geta boðið vestfirskum börnum upp á skemmtilega menningarviðburði heima í héraði og leyfa þeim að kynnast ólíkum listgreinum. Hryggjarstykki hátíðarinnar í ár eru leiklistarsmiðjur með Birgittu Birgisdóttur og var öllum grunnskólum á svæðinu boðið að þiggja slíkt fyrir nemendur á miðstigi.

Unnið verður með aðferðafræði Theatre of the oppressed sem stuðlar að valdeflingu, samkennd og lausnaleit í gegnum leik og samtal. Í smiðjunum fá nemendur að kanna eigin rödd, tjá sig í gegnum leiklist og takast á við raunveruleg viðfangsefni á kraftmikinn og skapandi hátt.

Birgitta Birgisdóttir hefur gert garðinn frægan sem leikkona og nú í seinni tíð einnig sem leikstjóri. Hennar síðasta verkefni var einmitt að leikstýra krökkunum í Menntaskólanum á Ísafirði í hreint stórkostlegri uppfærslu á söngleiknum GREASE.

Ungmennaráð Vestfjarða valdi þema fyrir Púkann í ár sem er vestfirskar þjóðsögur og er það mjög sýnilegt í flestum þeirra viðburða sem Púkinn styrkti fyrr á árinu.

Ungmennaráðið hefur einnig valið þema fyrir Púkann 2026 sem haldinn verður dagana 27.apríl-8.maí og verður þá unnið með hafið sem viðfangsefni.

Dagskrá hátíðarinnar.

Útflutningsverðmæti fiskeldis 54 milljarðar árið 2024

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar ver heildarframleiðsla fiskeldisafurða tæp 54,8 þúsund tonn á árinu 2024 sem er 10% aukning frá árinu 2023.

Langmest var framleitt af laxi eða tæplega 49,3 þúsund tonn. Magn bleikju var 4,8 þúsund tonn og dróst saman um 9% en aðrar tegundir voru undir 1000 tonn.

Útflutningsverðmæti allra fiskeldistegunda jókst um 17% á milli ára og var 53,8 milljarðar króna árið 2024, þar af voru laxaafurðir um 47,7 milljarðar.

Gögn um fiskeldisframleiðslu í Evrópu ná til ársloka 2023 og sýna að Noregur var langstærsti framleiðandi á laxi með rúm 1,5 milljón tonna, tíu sinnum meira en næsta þjóð, Skotland (Bretland). Færeyjar og Ísland komu þar á eftir. Ísland framleiðir mest af bleikju, 5.248 tonn. Eldi regnbogasilungs er orðið lítið á Íslandi en Ítalía, Frakkland, Spánn, Danmörk og Finnland hafa verið með stöðuga framleiðslu á regnbogasilungi síðustu ár.

Nýjustu fréttir