Síða 4

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: 191 m.kr. aukning til Ísafjarðarbæjar – en mikil skerðing hjá öðrum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ætlað er að  „stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.“

Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar frá 10. mars 2023 til 30. mars 2023 og var lagt fyrir 154. löggjafarþing Alþingis 2023-2024 en náði ekki fram að ganga. Ráðherra fól ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í janúar sl. að ganga frá endanlegum tillögum um breytingar á starfsemi og regluverki sjóðsins og er nú áformað er að leggja frumvarpið aftur fram með nokkrum breytingum.

Lögð er nú aukin áhersla á að líkanið styðji við sveitarfélög sem hafa stór þjónustusóknarsvæði og fjölbreytt byggðamynstur og hafa af þeim sökum miklar og flóknar útgjaldaþarfir. Þá er stefnt að því að dregið sé úr neikvæðum hvötum til sameininga. Enn fremur eru lagðar til aðrar breytingar á líkaninu sem hafa m.a. það markmið að koma í veg fyrir að líkanið hamli sameiningu mjög stórra sveitarfélaga og að líkanið styðji betur við sveitarfélög með stór þjónustusvæði og fjölbreytt byggðamynstur.

2,4 milljarðar króna til Vestfjarða

Samkvæmt töflu um breytingar á úthlutun sjóðsins til einstakra sveitarfélaga myndu renna um 2.360 m.kr. til sveitarfélaganna á Vestfjörðum eftir breytingar sem er nánast sama fjárhæð og er samkvæmt gildandi úthlutunarreglum. Hins vegar verða verulegar breytingar á úthlutun einstakra sveitarfélaga. Framlög til Ísafjarðarbæjar munu aukast um 191 m.kr. og um 31 m.kr. til Bolungavíkur. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur, sem nú hafa sameinast, munu fá samtals óbreytt framlag. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum munu tapa á breytingunum.

Reykhólahreppur fær 70 m.kr. minna en nú, Súðavík 63 m.kr. minna og Strandabyggð 49 m.kr. lægri framlög eins og sést í töflunni að neðan.

höfuðstaðaálag

Meðal nýmæla í frumvarpsdrögunum er að greitt verði framlag vegna sérstakra áskorana vegna höfuðstaðarálags, sem úthlutað skal til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, og skulu nema allt að 2,5% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 2. gr.,. Framlagið skiptist þannig að einu prósentustigi þess skal skipta
jafnt á milli sveitarfélaganna tveggja og 1,5 prósentustigi skal skipta eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert.

Fær Reykjavíkurborg 400 m.kr. í aukin framlög vegna þessa og Akureyri 157 m.kr. Hingað til hefur Reykjavíkurborg fengið óveruleg framlög úr Jöfnunarsjóðnum enda ekki talin þörf á því.

Vestfirðir: íbúum fjölgaði um 10,4% á fjórum árum

Frá Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Frá 1.desember 2020 til 1. mars 2025 fjölgaði íbúum á Vestfjörðum úr 6.830 í 7.541 eða um 10,4%. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 9,9%. Á þessum rúmum fjórum árum varð því ívið meiri íbúafjölgun á Vestfjörðum en á landsvísu. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á sama tíma um 10,2%, sem er aðeins minni fjölgun en varð á Vestfjörðum.

Lítil fjölgun síðustu þrjá mánuði

Síðustu þrjá mánuði hefur verið lítil íbúafjölgun á landinu, aðeins 698 manns sem er 0,2%. Hefur hægt mikið á fjölguninni sem verið hefur síðustu ár. Umtalsverð fækkun varð á Suðurnesjum og Austurlandi og einng varð fækkun á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Fjölgun varð á Suðurlandi um 0,4% og höfuðborgarsvæðinu um 0,3%.

Óbreytt staða var á Vestfjörðum. Fækkun varð í Ísafjarðarbæ um 29 manns, en fjölgun í Vesturbyggð um 14 og um 6 í Súðavík.

Eldislax: metútflutningur til Bandaríkjanna í janúar

Aldrei áður hefur eins mikið af eldisafurðum verið flutt út til Bandaríkjanna í einum mánuði og í janúar í ár. Laxaafurðir eru um 95% af útflutningnum þangað. Verðmætið nam 2,3 milljörðum króna og er það langtum meira en í janúar 2024. 

Bandaríkin eru þar stærst í útflutningi á eldisafuðum á þessu ári en næst mest af eldisafurðum var selt til Hollands eða fyrir um 1,6 milljarða króna. Því næst kemur Danmörk með um 900 milljónir króna. Athygli vekur að útflutningur til Þýskalands vex stórum og slagar hann nú í hálfan milljarð. Þetta má lesa úr tölum Hagstofunnar sem nýlega voru birtar.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

14,6 milljarða króna í janúar og febrúar

Útflutningsverðmæti eldisafurða fystu tvo mánuði þessa árs námu 14,6 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri. Í fyrra var flutt út fyrir 13,1 milljarð króna reiknað á föstu verðlagi. Árið 2019 voru útflutningsverðmæti 4,7 milljarðar króna. Aukingin frá þeim tíma er liðlega þreföldun eða nákvæmlega 211%.

Ef litið er nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2019, kemur í ljós að hlutfall eldisafurða af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar og febrúar hefur aukist umtalsvert, úr 10% í 26%. Bara frá árinu 2022 hefur það rúmlega tvöfaldast.

Bíldudalur: Varnargarður beytti engu um snjóflóðahættu

Kort sem sýni fyrirhugaðan varnargarð. Þverlínan A sýnir mörkin við Litlu Eyri.

Vesturbyggð hefur stytt varnargarð ofan og innan við byggðina á Bíldudal úr 1000 metrum í 800 metra þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur um að garðurinn nái inn á land Litlu Eyrar. Landeigendu benda á að garðurinn hefði haft óveruleg áhrif á snjóflóðahættu og því ekki breytt hættumati á þessu svæði. Veðurstofan segir á að einungis megi reisa íbúðarhús neðan A línu og garðurinn hafi því ekki áhrif á mögulega landnýtingu svæðisins.

Fulltrúi landeigenda segir að hefði garðurinn verið ætlaður til varnar snjóflóðum og byggð hefði verið sjálfsagt að heimila hann. En ekki sé vilji til þess að láta land undir garð með afar takmörkuðum notum sem spillir verulega ásýnd hlíðarinnar upp af túninu (ofan þjóðvegarins – Dalsbrautar) og skerðir búsetusvæði margra fuglategunda, gæsa, anda, stelka, jaðrakana og mófugla.

Í bréfi Veðurstofunnar kemur fram að varnargarðurinn gagnist fyrst og fremst sem vörn fyrir aurskriður, grjóthrun, vatnsflóð og lítil krapaflóð og dragi úr óþægindum og tjóni sem slíkt kynni að valda.

Úr bréfi Veðurstofunnar 19. desember 2024 til Umhverfis-, orku- ogloftlagsráðuneytisins.

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Nú eru það engin ný sannindi að oft er erfitt að fá þjónustu í íslensku; einkum innan veitingahúsageirans og innan ferðamannaiðnaðarins (örugglega fleiri staðir). Margir álíta það ekki vandamál fyrir sig. Þeir séu svo forframaðir og sigldir að þeir geti vel notast við engilsaxnesku enda svo sem ekki beint náðarsamlegt gustukaverk að panta eins og einn kaffi á ensku. Slíkt má örugglega til sanns vegar færa. Það er ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan á ensku hvað þetta varðar. Það væri meira að segja ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan undir þessum kringumstæðum þótt viðkomandi væri í landi þar sem þjónustuaðilinn talar enga ensku (já, þau lönd fyrirfinnast á kúlunni). Kaffiþyrstur maður eða svangur finnur alltaf leið. Því er manni spurn hví má ekki nálgast slíkar aðstæður með svipuðu hugarfari, bara með öfugum formerkjum á Íslandi hafi maður íslensku að móðurmáli eða kunni íslensku einkar vel og noti hana almennt í íslensku samfélagi. En það er önnur saga og ekki beint það sem koma skal inn á hér.

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Meginvandkvæðin eru nefnilega ekki skortur á íslensku fyrir þann sem kann hana, þrautin þunga er ekki, eða ætti ekki endilega að vera málhafans megin, þótt hann kunni að ergja sig yfir því að mál hans sé ekki brúkað þegar hann vill panta sér eitthvað. Má þó vel hafa skilning á kergjunni sem kann að myndast. Auðvitað! Stóra vandamálið er að þá geta þeir sem læra málið, eru kannski að byrja að læra það, ekki notað þá grunníslensku sem þeir hafa tileinkað sér. Því einhvers staðar þarf maður að byrja og ef skilaboðin eru sínkt og heilagt: Sorry I don´t speak any Icelandic þá er erfitt að sjá fyrir sér að sá aðili fái á tilfinninguna að hann þurfi mikið á íslensku að halda og alveg örugglega ekki til þess hvetjandi að spreyta sig á erfiðari hlutum. Viðkomandi fær þá ekki þá nauðsynlegu æfingu sem til þarf til að læra málið skref fyrir skref og þá alls ekki þá árangurstengdu tilfinningu (frammistöðugleði) sem oftlega hlýst af því að hafa gert sig skiljanlegan á markmálinu.

Þetta er vandamál sem þarf að tækla sé vilji fyrir því að fólk komist inn í íslenskt (mál)samfélag. Þetta er vandamál sem yfirvaldið á að tækla en einnig getur almenningur vissulega lagt sín lóð á vogarskálina. Það er einfaldast með því að tala bara íslensku, vandaða og skiljanlega. Það er alltént ekki úr vegi að hafa þetta í huga gott fólk.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Höfundur kennir íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands

Bíldudalur: ofanflóðavarnir styttar um 200 metra

Tillögu að deiliskipulagi fyrir ofanflóðavarnir á Bíldudal hefur verið breytt. Þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur um varnir í landi Litlu-Eyrar hefur skipulagsgögnum verið breytt eftir auglýsingu þannig að skipulagssvæði og varnargarður hefur verið styttur þannig að varnir gangi ekki inn á land Litlu Eyrar, Vegbútur sem Minjastofnun benti á er því utan skipulagssvæðis. Heildarlengd garðsins fer úr 1000m í 800m og breytast því deiliskipulagsmörk, garður, vinnuvegir, stígar, áningarstaðir o.fl. í samræmi við það.

Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 4. mars 2025. Engar athugasemdir bárust frá almenningi en fyrir liggja umsagnir frá Minjastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt leiðréttum skipulagsgögnum. 

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn Arnarfjarðar að tillagan verði samþykkt.

Í lýsingu á tillögunni kemur eftirfarandi fram:

Heildarlengd varna er um 800 m. Gert er ráð fyrir að vatn eigi greiða leið í gegnum varnirnar og til sjávar en snjóflóð, krapaflóð, aurflóð og grjóthrun stöðvist á vörnunum.
Gert er ráð fyrir bröttum, 8-14 m háum þvergörðum neðan farvega þar sem hætta er talin á snjóflóðum.
Varnargarðarnir eru staðsettir nálægt byggð svo flóð nái að hægja á sér lítillega áður en þau lenda á
varnargörðum og aurkeilur neðan giljanna verði til þess að flóðin breiðist út áður en þau lenda á görðunum. Brött flóðhlið verður byggð upp með jarðvegsstyrkingakerfi. Gert er ráð fyrir að varnargarðurinn verji 26 íbúðarhús sem standa innan hættusvæða B og C. Við hönnun er gert ráð fyrir hreinsun krapa, aurs og grjóts úr skeringarrásum ofan garða og einnig hreinsun grinda við ræsi.

Ísafjörður: 80 m fyrirstöðugarður við Suðurtanga

Hafnastjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að láta gera 80 metra langan fyrirstöðugarð við Suðurtanga sem kæmi í framhaldi af garði sem var gerður 2023.

Þar sem sandur er farinn að færast út í sundin frá víkinni þar sem sandinum var dælt telur hafnarstjóri nauðsynlegt að gera fyrirstöðugarð í framhaldi af garðinum sem gerður var 2023.
Grafa á upp garð sem er til staðar og setja hann út á nýjum stað.

Málið fer nú til bæjarstjórnar þar sem hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun hafna Ísafjarðarbæjar vegna málsins.

Landsnet: Innviðaskuldin 86 milljarðar

Frá ársfundinum, sem haldinn var í Hörpu. Mynd: Landsnet.

Ársfundur Landsnets var haldinn í vikunni, en fyrirtækið er 20 ára um þessar mundir. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets flutti sitt síðasta erindi sem forstjóri á fundinum en hann lætur af störfum í haust. Ragna Árnadóttir mun taka við stöðu forstjóra þann 1. ágúst næstkomandi.  

Guðmundur fór yfir árangurinn sem náðst hefur síðustu 20 árin.  

„Það eru þrír drifkraftar sem knýja á breytingar í orkumálum þjóðarinnar, orkuöryggi, orkusjálfstæði og orkuskipti. Þessir drifkraftar tengjast nánum böndum, því ef við náum árangri í orkuskiptum, meðal annars með því að byggja upp flutningskerfið, þá náum við árangri í orkuöryggi og tryggjum betur orkusjálfstæði Íslands.”

Orkuskiptin munu spara um 160 milljarða króna á ári í innflutningi mengandi orkugjafa og til að tryggja að árangri í þessum stóru málum þarf Landsnet að fjárfesta fyrir 200 milljarða króna á næstu 10 árum, sem er tvöföldun á efnahagsreikningi. Það eru blikur á lofti að okkur takist þetta sem þjóð í núverandi umhverfi leyfisveitingaferla.

Guðmundur fór einnig yfir að innviðaskuld þjóðarinnar í flutningsmannvirkjum væri orðin 86 milljarðar og færi einungis hækkandi ef frekari tafir yrðu á lykilframkvæmdum. Staðan er orðin þannig að ekki væri ávinningur af því að virkja frekar á Norður- og Austurlandi, þar sem veikleikar í byggðalínunni muni einungis leiða til meiri  flutningstakmarkana.

Flutningstakmarkanirnar í dag kosta þjóðina 11-15 milljarða á ári í formi vannýttrar orku, aukins kostnaðar vegna flutningstapa, skerðinga og loftlagsskuldbindinga. Í þessa upphæð vantar töpuð tækifæri, sem eru jafnvel hærri upphæð sagði Guðmundur.

Guðmundur fór einnig yfir að núverandi viðskiptaumhverfi orkumála er barn síns tíma og ekki tækt til að takast á við þær breytingar sem eru hafnar og eru fram undan í orkukerfinu. Uppfæra þarf viðskiptakerfið, þannig að það sé gagnsærra og tryggi orkuöryggi þjóðarinnar og heimilanna betur ásamt því að tryggja hagkvæmasta orkuverð á hverjum tíma.

“Núverandi orkumarkaður getur ekki tekist á við breytingarnar sem eru byrjaðar og eru fram undan í orkumálum. Lítil hvatning er til nýsköpunar og orkunýtni í núverandi markaðsumhverfi. Það þarf að taka upp kerfi sem nýtir orkuna sem við framleiðum og flytjum, því það er ekki einungis hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga, heldur er það einnig ein besta umhverfisaðgerð sem við getum ráðist í.”

Vertíðarskrína

Þessa vertíðarskrínu átti Ásgeir Guðjón Ingvarsson á Ísafirði (1857-1897), sem fórst í sjóróðri með Elíasi Halldórssyni í Hnífsdal 4. nóvember 1897.

Eftir að Ásgeir Guðjón drukknaði fór sonur hans Ingvar Ásgeirsson (1886-1956) að Skjaldfönn á Langadalsströnd og var þar næstu árin. Hann hafði grænmálaða skrínuna með sér þangað og varðveitti hana alla tíð vel í búi sínu, lengst af á Lyngholti á Snæfjallaströnd.

Eftir að ekkja Ingvars, Salbjörg Jóhannsdóttir (1896-1991) flutti frá Lyngholti 1987 var skrínan varðveitt á Hólmavík þar til hún var aftur flutt að Lyngholti 2012.

Af sarpur.is

Tangi frá Vestri-Reyni  „Besta naut árgangs 2018“ 

Viðurkenninguna hlaut Tangi frá Vestri-Reyni undir Akrafjalli

Nautastöð Bændasamtaka Íslands veitti viðurkenningu fyrir „Besta naut árgangs 2018“ á deildarfundi Nautgripabænda, þann 27. febrúar sl.

Var þetta í 41. skipti sem viðurkenningin var veitt en um er að ræða æðstu verðlaun íslenskrar nautgriparæktar.

Fagráð í nautgriparækt sér um valið en eftir innleiðingu erfðamengisúrvals eru verðlaunin veitt á grunni erfðamats og afkvæmaprófunar.


Ræktendur Tanga eru þau Haraldur Benediktsson og Lilja Guðrún Eyþórsdóttir og tóku þau á móti verðlaununum.

Tangi er rauðbrandskjöldóttur, kollóttur. Er hann undan Lúðri (10067) frá Brúnastöðum í Flóa og var móðurfaðir hans Kambur (06022) frá Skollagróf í Hrunamannahreppi. Í umsögn um dætur Tanga kemur fram að dætur Tanga eru nokkuð mjólkurlagnar með hátt hlutfall verðefna í mjólk. Dæturnar eru heldur yfir meðallagi að stærð, meðalháfættar, boldjúpar og útlögumiklar með bein yfirlínu. Malirnar eru breiðar, beinar og þaklaga. Fótstaða er sterkleg og meðalgleið. Júgurgerðin er góð, júgurfesta mikil og júgrin vel borin en júgurband lítt áberandi. Spenar eru hæfilegir að lengd, frekar þykkir og vel settir. Mjaltir eru meðalgóðar og lítið um mjaltagalla. Skap er meðalgott og skapgallaðir gripir fáir í dætrahópnum.

Nýjustu fréttir