Síða 4

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Nú eru það engin ný sannindi að oft er erfitt að fá þjónustu í íslensku; einkum innan veitingahúsageirans og innan ferðamannaiðnaðarins (örugglega fleiri staðir). Margir álíta það ekki vandamál fyrir sig. Þeir séu svo forframaðir og sigldir að þeir geti vel notast við engilsaxnesku enda svo sem ekki beint náðarsamlegt gustukaverk að panta eins og einn kaffi á ensku. Slíkt má örugglega til sanns vegar færa. Það er ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan á ensku hvað þetta varðar. Það væri meira að segja ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan undir þessum kringumstæðum þótt viðkomandi væri í landi þar sem þjónustuaðilinn talar enga ensku (já, þau lönd fyrirfinnast á kúlunni). Kaffiþyrstur maður eða svangur finnur alltaf leið. Því er manni spurn hví má ekki nálgast slíkar aðstæður með svipuðu hugarfari, bara með öfugum formerkjum á Íslandi hafi maður íslensku að móðurmáli eða kunni íslensku einkar vel og noti hana almennt í íslensku samfélagi. En það er önnur saga og ekki beint það sem koma skal inn á hér.

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Meginvandkvæðin eru nefnilega ekki skortur á íslensku fyrir þann sem kann hana, þrautin þunga er ekki, eða ætti ekki endilega að vera málhafans megin, þótt hann kunni að ergja sig yfir því að mál hans sé ekki brúkað þegar hann vill panta sér eitthvað. Má þó vel hafa skilning á kergjunni sem kann að myndast. Auðvitað! Stóra vandamálið er að þá geta þeir sem læra málið, eru kannski að byrja að læra það, ekki notað þá grunníslensku sem þeir hafa tileinkað sér. Því einhvers staðar þarf maður að byrja og ef skilaboðin eru sínkt og heilagt: Sorry I don´t speak any Icelandic þá er erfitt að sjá fyrir sér að sá aðili fái á tilfinninguna að hann þurfi mikið á íslensku að halda og alveg örugglega ekki til þess hvetjandi að spreyta sig á erfiðari hlutum. Viðkomandi fær þá ekki þá nauðsynlegu æfingu sem til þarf til að læra málið skref fyrir skref og þá alls ekki þá árangurstengdu tilfinningu (frammistöðugleði) sem oftlega hlýst af því að hafa gert sig skiljanlegan á markmálinu.

Þetta er vandamál sem þarf að tækla sé vilji fyrir því að fólk komist inn í íslenskt (mál)samfélag. Þetta er vandamál sem yfirvaldið á að tækla en einnig getur almenningur vissulega lagt sín lóð á vogarskálina. Það er einfaldast með því að tala bara íslensku, vandaða og skiljanlega. Það er alltént ekki úr vegi að hafa þetta í huga gott fólk.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Höfundur kennir íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands

Bíldudalur: ofanflóðavarnir styttar um 200 metra

Tillögu að deiliskipulagi fyrir ofanflóðavarnir á Bíldudal hefur verið breytt. Þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur um varnir í landi Litlu-Eyrar hefur skipulagsgögnum verið breytt eftir auglýsingu þannig að skipulagssvæði og varnargarður hefur verið styttur þannig að varnir gangi ekki inn á land Litlu Eyrar, Vegbútur sem Minjastofnun benti á er því utan skipulagssvæðis. Heildarlengd garðsins fer úr 1000m í 800m og breytast því deiliskipulagsmörk, garður, vinnuvegir, stígar, áningarstaðir o.fl. í samræmi við það.

Tillagan var auglýst með athugasemdafresti til 4. mars 2025. Engar athugasemdir bárust frá almenningi en fyrir liggja umsagnir frá Minjastofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt leiðréttum skipulagsgögnum. 

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn Arnarfjarðar að tillagan verði samþykkt.

Í lýsingu á tillögunni kemur eftirfarandi fram:

Heildarlengd varna er um 800 m. Gert er ráð fyrir að vatn eigi greiða leið í gegnum varnirnar og til sjávar en snjóflóð, krapaflóð, aurflóð og grjóthrun stöðvist á vörnunum.
Gert er ráð fyrir bröttum, 8-14 m háum þvergörðum neðan farvega þar sem hætta er talin á snjóflóðum.
Varnargarðarnir eru staðsettir nálægt byggð svo flóð nái að hægja á sér lítillega áður en þau lenda á
varnargörðum og aurkeilur neðan giljanna verði til þess að flóðin breiðist út áður en þau lenda á görðunum. Brött flóðhlið verður byggð upp með jarðvegsstyrkingakerfi. Gert er ráð fyrir að varnargarðurinn verji 26 íbúðarhús sem standa innan hættusvæða B og C. Við hönnun er gert ráð fyrir hreinsun krapa, aurs og grjóts úr skeringarrásum ofan garða og einnig hreinsun grinda við ræsi.

Ísafjörður: 80 m fyrirstöðugarður við Suðurtanga

Hafnastjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að láta gera 80 metra langan fyrirstöðugarð við Suðurtanga sem kæmi í framhaldi af garði sem var gerður 2023.

Þar sem sandur er farinn að færast út í sundin frá víkinni þar sem sandinum var dælt telur hafnarstjóri nauðsynlegt að gera fyrirstöðugarð í framhaldi af garðinum sem gerður var 2023.
Grafa á upp garð sem er til staðar og setja hann út á nýjum stað.

Málið fer nú til bæjarstjórnar þar sem hafnarstjórn leggur til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun hafna Ísafjarðarbæjar vegna málsins.

Landsnet: Innviðaskuldin 86 milljarðar

Frá ársfundinum, sem haldinn var í Hörpu. Mynd: Landsnet.

Ársfundur Landsnets var haldinn í vikunni, en fyrirtækið er 20 ára um þessar mundir. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets flutti sitt síðasta erindi sem forstjóri á fundinum en hann lætur af störfum í haust. Ragna Árnadóttir mun taka við stöðu forstjóra þann 1. ágúst næstkomandi.  

Guðmundur fór yfir árangurinn sem náðst hefur síðustu 20 árin.  

„Það eru þrír drifkraftar sem knýja á breytingar í orkumálum þjóðarinnar, orkuöryggi, orkusjálfstæði og orkuskipti. Þessir drifkraftar tengjast nánum böndum, því ef við náum árangri í orkuskiptum, meðal annars með því að byggja upp flutningskerfið, þá náum við árangri í orkuöryggi og tryggjum betur orkusjálfstæði Íslands.”

Orkuskiptin munu spara um 160 milljarða króna á ári í innflutningi mengandi orkugjafa og til að tryggja að árangri í þessum stóru málum þarf Landsnet að fjárfesta fyrir 200 milljarða króna á næstu 10 árum, sem er tvöföldun á efnahagsreikningi. Það eru blikur á lofti að okkur takist þetta sem þjóð í núverandi umhverfi leyfisveitingaferla.

Guðmundur fór einnig yfir að innviðaskuld þjóðarinnar í flutningsmannvirkjum væri orðin 86 milljarðar og færi einungis hækkandi ef frekari tafir yrðu á lykilframkvæmdum. Staðan er orðin þannig að ekki væri ávinningur af því að virkja frekar á Norður- og Austurlandi, þar sem veikleikar í byggðalínunni muni einungis leiða til meiri  flutningstakmarkana.

Flutningstakmarkanirnar í dag kosta þjóðina 11-15 milljarða á ári í formi vannýttrar orku, aukins kostnaðar vegna flutningstapa, skerðinga og loftlagsskuldbindinga. Í þessa upphæð vantar töpuð tækifæri, sem eru jafnvel hærri upphæð sagði Guðmundur.

Guðmundur fór einnig yfir að núverandi viðskiptaumhverfi orkumála er barn síns tíma og ekki tækt til að takast á við þær breytingar sem eru hafnar og eru fram undan í orkukerfinu. Uppfæra þarf viðskiptakerfið, þannig að það sé gagnsærra og tryggi orkuöryggi þjóðarinnar og heimilanna betur ásamt því að tryggja hagkvæmasta orkuverð á hverjum tíma.

“Núverandi orkumarkaður getur ekki tekist á við breytingarnar sem eru byrjaðar og eru fram undan í orkumálum. Lítil hvatning er til nýsköpunar og orkunýtni í núverandi markaðsumhverfi. Það þarf að taka upp kerfi sem nýtir orkuna sem við framleiðum og flytjum, því það er ekki einungis hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga, heldur er það einnig ein besta umhverfisaðgerð sem við getum ráðist í.”

Vertíðarskrína

Þessa vertíðarskrínu átti Ásgeir Guðjón Ingvarsson á Ísafirði (1857-1897), sem fórst í sjóróðri með Elíasi Halldórssyni í Hnífsdal 4. nóvember 1897.

Eftir að Ásgeir Guðjón drukknaði fór sonur hans Ingvar Ásgeirsson (1886-1956) að Skjaldfönn á Langadalsströnd og var þar næstu árin. Hann hafði grænmálaða skrínuna með sér þangað og varðveitti hana alla tíð vel í búi sínu, lengst af á Lyngholti á Snæfjallaströnd.

Eftir að ekkja Ingvars, Salbjörg Jóhannsdóttir (1896-1991) flutti frá Lyngholti 1987 var skrínan varðveitt á Hólmavík þar til hún var aftur flutt að Lyngholti 2012.

Af sarpur.is

Tangi frá Vestri-Reyni  „Besta naut árgangs 2018“ 

Viðurkenninguna hlaut Tangi frá Vestri-Reyni undir Akrafjalli

Nautastöð Bændasamtaka Íslands veitti viðurkenningu fyrir „Besta naut árgangs 2018“ á deildarfundi Nautgripabænda, þann 27. febrúar sl.

Var þetta í 41. skipti sem viðurkenningin var veitt en um er að ræða æðstu verðlaun íslenskrar nautgriparæktar.

Fagráð í nautgriparækt sér um valið en eftir innleiðingu erfðamengisúrvals eru verðlaunin veitt á grunni erfðamats og afkvæmaprófunar.


Ræktendur Tanga eru þau Haraldur Benediktsson og Lilja Guðrún Eyþórsdóttir og tóku þau á móti verðlaununum.

Tangi er rauðbrandskjöldóttur, kollóttur. Er hann undan Lúðri (10067) frá Brúnastöðum í Flóa og var móðurfaðir hans Kambur (06022) frá Skollagróf í Hrunamannahreppi. Í umsögn um dætur Tanga kemur fram að dætur Tanga eru nokkuð mjólkurlagnar með hátt hlutfall verðefna í mjólk. Dæturnar eru heldur yfir meðallagi að stærð, meðalháfættar, boldjúpar og útlögumiklar með bein yfirlínu. Malirnar eru breiðar, beinar og þaklaga. Fótstaða er sterkleg og meðalgleið. Júgurgerðin er góð, júgurfesta mikil og júgrin vel borin en júgurband lítt áberandi. Spenar eru hæfilegir að lengd, frekar þykkir og vel settir. Mjaltir eru meðalgóðar og lítið um mjaltagalla. Skap er meðalgott og skapgallaðir gripir fáir í dætrahópnum.

Blak: Samningur við Juan Escalona endurnýjaður

Blakdeild Vestra hefur samið við þjálfarann Juan Manuel Escalona Rojas um tveggja ára framlengingu á samningi hans við félagið.

Juan kom sem leikmaður til Vestra haustið 2019, en frá haustinu 2020 hefur hann verið aðalþjálfari félagsins og hefur náð eftirtektarverðum árangri, ekki síst meistaraflokksliði karla.

Meistaraflokkur karla er kominn í fremstu röð blakliða á Íslandi og hefur á undanförnum árum m.a. komist í úrslitaleik bikarkeppninnar og undanúrslit Íslandsmótsins. Þá hafa yngri flokkar Vestra unnið Íslands- og bikarmeistaratitla, auk deildarmeistaratitla í neðri deildum.

Allmargir leikmenn Vestra hafa einnig verið valdir í landslið Íslands, bæði ungmennalandslið og A landslið karla.

Sjálfur hefur Juan tvisvar sinnum verið kosinn þjálfari ársins af Blaksambandi Íslands.

Stóru upplestrarkeppninni lauk í gær

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram á Ísafirði í gær og tóku nemendur frá Grunnskólanum á Ísafirði, Grunnskóla Bolungarvíkur, Grunnskólanum á Þingeyri og Grunnskólanum á Suðureyri þátt. Nemendurnir lásu upp úr bókinni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson, ljóð úr bókinni Allt fram streymir og ljóð að eigin vali.

Freyja Dís Hjaltadóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri varð í fyrsta sæti. Í öðru sæti var Iðunn Ósk Bragadóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði og í þriðja sæti Anna Ásgerður Hálfdánsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði.

Hinrik Elí Ómarsson, nemandi í Grunnskólanum á Ísafirði var með tónlistaratriði.

Keppnin var mjög spennandi og nemendurnir stóðu sig allir vel. Hafdís Gunnarsdóttir var kynnir keppninnar. Dómarar keppninnar voru Heiðrún Tryggvadóttir, Tinna Ólafsdóttir, Jóhanna Ása Einarsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl og Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.

Penninn/Eymundsson og Landsbankinn gáfu verðlaunin að þessu sinni.

Ísafjörður: Innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngum

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. mynd: isafjordur.is

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti bókun um innanlandsflug á fundi sínum í gær. Var það í tilefni þess að Icelandair hefur ákveðið að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar haustið 2026.

„Í ljósi þeirrar ákvörðunar Icelandair að leggja af áætlunarflug til Ísafjarðar í lok sumars 2026 lýsir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ánægju með þann skýra vilja sem komið hefur frá yfirvöldum samgöngumála, þingmönnum og nágrannasveitarfélögum um að finna varanlega og hágæða lausn á flugsamgöngum milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Flugið er nauðsyn fyrir íbúa, fyrirtæki, stofnanir og ferðaþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum. Innanlandsflug er hluti af almenningssamgöngum og sem slíkt á ábyrgð ríkisins. Ríkið þarf að vera reiðubúið, ef þarf, að styðja flugið með sértækum hætti þar sem um er að ræða stórt byggðamál. Tíminn er naumur. Bæjarstjórn hvetur stjórnvöld til þess að tryggja að þessa sjáist merki í fjármálaáætlun sem lögð verður fram fljótlega.“

Bjóðum íslenskuna fram 

Við Íslendingar höfum ávallt verið talin gestrisin þjóð, tökum vel á móti fólki og leggjum okkur fram við að sýna okkar bestu hliðar og draga fram úr búrinu þau bestu föng sem völ er á. Það fáum við að heyra frá þeim sem sækja okkur heim, erlendir gestir flykkjast hingað og dásama þjóð og land.   

Nýlega fór íbúatalan hér á landi yfir 400 þúsund og þar af eru 80 þúsund með erlent ríkisfang eða um 20%. Um síðustu aldarmót bjuggu á Íslandi 280 þúsund manns og aðeins örfá prósent af erlendu þjóðerni. Við getum með sanni sagt að Ísland hafi aðdráttarafl og sé samkeppnishæft land sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu. Það er ánægjuefni enda erum við þjóð meðal þjóða og viljum búa í frjálsu landi og teljum að fjölmenning auðgi bæði mannlíf og atvinnulíf hér á landi. 

Það sem við höfum upp á að bjóða er fallegt land, heilbrigt samfélag, öflugt velferðar- og menntakerfi, falleg náttúra og svo er það íslenskan. 

Berum íslenskuna á borð 

Það að flytja til annars lands í nýtt málumhverfi er áskorun. Að læra nýtt tungumál ásamt því að aðlaga sig breyttu umhverfi er áskorun. Íslendingar hafa upp til hópa viljað halda í gestrisni þjóðarsálarinnar og verið fljótir að svara gestum og nýbúum á ensku, jafnvel þrátt fyrir að viðkomandi sé alls ekki enskumælandi, en enskan má heita útbreitt tungumál. Við virðumst vera svo sannfærð um að það sé svo erfitt að læra málið að það sé ókurteisi að bjóða það fram.  

Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Það er á ábyrgð stjórnvalda og okkar að unnt sé að nota hana á öllum sviðum íslensks samfélags. Íslenskan gegnir veigamiklu samfélagslegu hlutverki og því mikilvægt að allir íbúar landsins hafi tækifæri til að geta tjáð sig á henni, því umræða og þjóðmál eru að mestu leyti á íslensku. Það er því á ábyrgð okkar sem kunnum tungumálið og okkar sem lifum í þessu málumhverfi að miðla málinu til nýbúa sem eru að fóta sig í samfélaginu.  

Almannakennari 

Við verðum að axla ábyrgð, við erum öll almennakennarar. Tungumál lærist með því að iðka það. Nú búum við í breyttum veruleika og fólk með annað móðurmál en íslensku er nú stór hluti samfélagsins. Við gerumst almannakennarar með því að tala íslensku, sýna þolinmæli, hlusta og endurtaka. Það er líka okkar að auka meðvitund og virkni samfélagsins við að hjálpa fólki við máltileinkun íslenskunnar. Áfram er það réttur fólks að geta nýtt sitt móðurmál þegar það er að ná fram persónulegum réttindum til að mynda í heilbrigðiskerfinu og í samskiptum við stofnanir.  

Gefum íslensku séns ! 

Halla Signý Kristjánsdóttir 

Verkefnastjóri Gefum íslensku séns Ísafirði 

Nýjustu fréttir