Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 39

Hvaðan kemur verðbólgan?

Tveir helztu drifkraftar verðbólgunnar hér á landi undanfarin misseri hafa annars vegar verið kostnaður vegna húsnæðis og hins vegar innflutt verðbólga. Aðallega frá ríkjum Evrópusambandsins enda mest flutt inn þaðan. Verðbólga jókst þar ekki vegna aukinna umsvifa heldur fyrst og fremst vegna glórulausra ákvarðana evrópskra ráðamanna í orkumálum sem varð til þess að ófá ríki sambandsins urðu háð orku frá Rússlandi. Þegar loks var brugðist við í þeim efnum, þó enn sé flutt inn mikið af rússneskri orku, leiddi það til hærra orkuverðs, þar með hærri framleiðslukostnaðar og loks hærra vöruverðs sem síðan skilaði sér hingað.

Hækkandi húsnæðisverð hefur fyrst og fremst verið afleiðing skorts á húsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, en einnig meiri kostnaðar vegna innfluttra byggingavara. Aftur fyrst og fremst frá ríkjum Evrópusambandsins. Skortinn á húsnæði má síðan einkum rekja til samkomulags sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá 2015 um vaxtarmörk svæðisins sem kemur í veg fyrir vöxt þess umfram það sem þar er kveðið á um. Líkt og Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, benti á í grein nýverið voru forsendur samkomulagsins stórlega vanmetnar miðað við þróun fólksfjöldans. Hins vegar neitar Reykjavíkurborg alfarið að hvika frá þeim.

Húsnæðismarkaðurinn væri ekki vandamál ef eðlilegt framboð á húsnæði hefði verið til staðar. Þess í stað er uppsafnaður vandi orðinn slíkur að byggja þyrfti mörg þúsund nýjar íbúðir á ári til þess að vinna hann niður. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg situr hins vegar við sinn keip og tekur ekki í mál að ræða annað en þéttingu byggðar sem mun aldrei leysa nema lítinn hluta vandans. Allt of lítið er þannig hægt að byggja á þéttingarreitum og slíkar íbúðir eru iðulega byggðar á svæðum þar sem fasteignaverð er hátt. Fyrir vikið er til að mynda allajafna ekki um að ræða íbúðir á færi fyrstu kaupenda heldur fyrst og fremst vel stæðs fólks.

Verðbólga í boði Viðreisnar

Frá því áður en samkomulagið frá 2015 var gert hefur Samfylkingin farið fyrir meirihlutanum í Reykjavík. Píratar hafa að sama skapi verið hluti hans frá 2014 og Viðreisn undanfarin sex ár. Vel áður en verðbólgan fór á skrið. Með öðrum orðum er ljóst að verðbólgan er að miklu leyti annars vegar í boði meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur, þar á meðal og ekki sízt Viðreisnar, og Evrópusambandsins. Fyrir vikið er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að flokkurinn skuli kalla eftir því að Ísland gangi í sambandið, með öllu sem því fylgdi, til þess að bregðast við ástandi sem er að miklu leyti afleiðing ákvarðana ráðamanna í Brussel og hans sjálfs.

Málflutningur Viðreisnar snýst um það að ganga þurfi í Evrópusambandið til þess að lækka vexti. Vísað er í því sambandi ítrekað til lægri vaxta á evrusvæðinu. Hins vegar minnast forystumenn Viðreisnar svo gott sem aldrei á aðrar hagstærðir á svæðinu. Til að mynda tala þeir ekki um hagvöxt þar á bæ eða atvinnuleysi einfaldlega vegna þess að hagvöxtur hefur um langt árabil verið lítill eða enginn innan þess og atvinnuleysi allajafna mikið og viðvarandi. Lágu vextirnir eru þannig ekki birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands á evrusvæðinu heldur þvert á móti. Tilgangur lágra vaxta er jú iðulega sá að reyna að koma atvinnulífinu af stað.

Vandamálið var með öðrum orðum fyrst búið til og síðan er kallað eftir því að það verði leyst með því að fara úr öskunni í eldinn. Um leið er krónunni kennt um allt en evrunni ekkert. Við slíkar aðstæður þykir iðulega nauðsyn að finna blóraböggul. Ekki verra ef það er einhver sem ekki getur varið sig sjálfur. Hins vegar stenzt einfaldlega ekki skoðun að krónan sé vandamálið eins og meðal annars Ólafur Margeirsson hagfræðingur hefur bent á og fært gild rök fyrir. Á sama tíma hvílir evran á efnahagslegum brauðfótum eins og til að mynda Otmar Issing, fyrrverandi aðalhagfræðingur Seðlabanka Evrópusambandsins, hefur varað við.

Vissulega ákveðinn stöðugleiki

Hafa má þetta í huga þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og aðrir forystumenn flokksins halda því fram að krónan sé vandamálið án haldbærra raka og að smjör drjúpi af hverju strái innan Evrópusambandsins. Ekki þarf annað en að lesa skýrslur sem unnar hafa verið fyrir sambandið sjálft til þess að sjá í hversu hörmulegum aðstæðum það er efnahagslega. Nú síðast skýrsla sem samin var af Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópusambandsins, og birt var nýverið þar sem dregin er upp vægast sagt kolsvört mynd í þeim efnum. Mögulega les Þorgerður þó ekki gögn frá sambandinu.

Fyrir vikið er ef til vill ekki að furða að fylgi Viðreisnar standi í bezta falli í stað í skoðanakönnunum miðað við síðustu þingkosningar og fari helzt ekki yfir 10%. Þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu og þrátt fyrir hvatningu Þorgerðar til Evrópusambandssinna að ganga til liðs við flokkinn þar sem hann einn legði áherzlu á inngöngu í Evrópusambandið. Vissulega má segja að ákveðinni stöðugleiki felist í fylgi Viðreisnar, sami stöðugleiki og hefur undanfarna áratugi, nokkurn veginn frá því að evrusvæðið kom til sögunnar, einkennt efnahagslíf svæðisins líkt og lesa má til dæmis um í skýrslu Draghis og heitir réttu nafni efnahagsleg stöðnun.

Hins vegar kemur sú örvænting sem í vaxandi mæli einkennir málflutning Evrópusambandssinna, ekki sízt forystumanna Viðreisnar, ekki á óvart í ljósi þess að verðbólgan, sem líkt og fjallað er um hér að framan er að miklu leyti á ábyrgð flokksins og Evrópusambandsins, er smám saman á niðurleið. Sem væntanlega eru afar jákvæðar fréttir að mati flestra en sennilega ekki allra enda ljóst að ekki hefur tekizt nógu vel að hagnýta sér erfiðleika fólks vegna verðbólgunnar í þágu inngöngu í sambandið. Það er ástæða fyrir því að Viðreisn vill kosningar sem allra fyrst þrátt fyrir að fylgið sé ekki til þess að hrópa húrra yfir.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Lögreglan á Vestfjörðum: gríðarlega hættulegt ástand í einbreiðum göngum

Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum segir að eins og allir aðrir sjái lögreglan að það gæti skapast gríðarlega hættulegt ástand ef svona atvik ætti sér stað inni í einbreiðum jarðgöngum eins og varð á föstudaginn í Tungudal þegar kviknaði í farþegarútu.

„Við munum í framhaldinu senda erindi á þau stjórnvöld og stofnanir sem hafa með eldvarnir, samgöngumál og vegamál að gera og vekja athygli á þeirri hættu sem getur skapast við aðstæður sem þessar, ef vettvangurinn er inni í einbreiðum jarðgöngum. Þá munum við skora á viðkomandi stofnanir að gera það sem hægt er til þess að minnka þessa hættu.“

Aðspurður um það hvernig lögreglan væri í stakk búinn til þess að takast á við eld í Vestfjarðagöngum sagði Helgi að slökkvilið væri með búnað til að takast á við eldsvoða, en lögreglan væri almennt ekki í stakk búinn til þess að takast á við slíkar aðstæður.

Dynjandisheiði: engin ákvörðun um lokaútboð

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri greindi frá því á fundi bæjarráðs í gær að forstjóri Vegagerðarinnar hafi svarað fyrirspurn um stöðu mála á 3. áfanga vegagerðar yfir Dynjandisheiði þannig að ekki hafi verið tekin ákvörðun um tímasetningu útboðs á 3. áfanga Dynjandisheiðar. Fjárlög séu nýkomin út og nú standi yfir vinna hjá Vegagerðinni við að setja upp framkvæmdatöflu næsta árs miðað við þær forsendur sem verða aðgengilegar.

Bæjarráð lýsti yfir vonbrigðum með að ekki skuli liggja fyrir fjármögnun fyrir þriðja áfanga Dynjandisheiðar. „Bæjarráð bendir á að vegkaflinn er á fyrsta áfanga gildandi samgönguáætlunar 2020-2024. Miklar vegbætur hafa orðið á síðustu árum og því grátlegt að sjá þennan stubb standa eftir á þessari miklu samgönguframkvæmd.“

Ísafjarðarbær: vilja tvöfalda Vestfjarðagöngin

Rútan brennur. Mynd: aðsend.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fékk Sigurður Arnar Jónsson, slökkviliðsstjóra í Ísafjarðarbæ til fundar við sig í gærmorgun til þess að ræða hættuástand sem skapaðist síðastliðinn föstudag vegna elds í farþegarútu nálægt Vestfjarðagöngum.

Málsatvik rútubruna síðastliðinn föstudag voru rædd, svo og viðbúnaður slökkviliðs og verkaskipting gagnvart Vegagerð. Farið var yfir viðbragðsáætlun slökkviliðs kæmi til þess að eldur kæmi upp í göngunum sjálfum og mögulegar viðbætur í göngunum til að auka umferðaröryggi.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að óska eftir fundi með Vegagerðinni á næsta fundi bæjarráðs.

Bæjarráðið bókaði að það „lýsir yfir áhyggjum um að viðbragðsáætlanir hafi ekki verið uppfærðar, sérstaklega í ljósi vaxandi umferðarþunga stærri ökutækja og farþegaflutninga um göngin. Meðan beðið er eftir tvöföldun Vestfjarðaganga er mikilvægt að uppfæra öryggisatriði og koma m.a. á FM sambandi til að hægt sé að miðla upplýsingum.“

Aðspurður hvort bókunin þýddi að bæjarráðið vilji tvöfalda Vestfjarðagöngin, báða leggi eða bara Breiðadalslegginn svaraði Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs því til að „við viljum tvöfalda Vestfjarðagöngin, og ef það er ekki gert saman þá hljóti að vera best að byrja á Breiðadalsleggnum.“

Hann bætti við: „Þar sem þær framkvæmdir eru fyrirsjáanlega langt í framtíðinni er aðalmálið núna  að Vegagerðin svari því til hvaða aðgerða og fjárfestinga hún telur best að fara í núna til að tryggja öryggi í þessum jarðgöngum eins og öðrum göngum hringinn í kringum landið. Í tilviki Vestfjarðaganganna munu ýmsar öryggisráðstafanir einnig bæta upplifun og umferðartíma, til dæmis ef útvarpssendingar eru settar inn, farsímasamband bætt og umferðarstýringu er komið á.“

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs.

Samgöngunefnd Alþingis: ræðir á morgun öryggi og bættan viðbúnað í jarðgöngum

Vestfjarðagöng. Munninn í Breiðadal.

Bjarni Jónsson, alþm. og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur sett á dagskrá fundar nefndarinnar á morgun öryggismál og viðbúnað í veggöngum.

Bjarni segir mikilvægt að kalla eftir upplýsingum og öryggisúttekt, ekki síst á einbreiðum jarðgöngum vegna alvarlegra öryggisbresta, atvika og slysa, nú síðast við Vestfjarðagöng. Ekki síður mikilvægt að kalla eftir aðgerðaáætlun um hvernig öryggi vegfarenda um þessi göng verði betur tryggt, strax með nýjum og endurnýjuðum búnaði og góðri umhirðu. „En svo einnig setja meiri krafti í undirbúning og framkvæmdaáætlun fyrir breikkun hættulegra einbreiðra jarðgangna. Það á einnig við Súgandafjarðargöng og víðar þar sem hafa orðið alvarleg slys eða aðstæður bjóða þeirri hættu heim“ segir Bjarni.

10 aura vörupeningur frá Grams á Þingeyri

Þessi 10 aura vörupeningur var framleiddur fyrir verslun Niels Christian Grams á Þingeyri.

Mjög ólíklegt er að Grams-peningarnir hafi nokkru sinni farið í umferð, heldur verið endursendir til bræðslu hjá framleiðandanum í Þýskalandi.

Aðeins eitt eintak af peningum Niels hefur fundist hér á landi. Önnur eintök hafa fundist í Danmörku.   

Af sarpur.is

Ungir bændur njóta hagstæðra lánaskilmála hjá Byggðastofnun

Frá vinstri á myndinni eru: Jack William Bradley, Rebekka K. Björgvinsdóttir kaupandi jarðarinnar, Andri Þór Árnason sérfræðingur á fyrirtækjasviði Byggðastofnunar, Arnar Már Elíasson forstjóri og seljendur Hólmahjáleigu þau Rafn Bergsson og Majken Egumfeldt-Jörgensen.

Í lok júní veitti Byggðastofnun fyrsta lánið til nýliðunar í landbúnaði undir nýju samkomulagi við evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF).

Lánið var veitt til Rebekku K. Björgvinsdóttur sem festi kaup á jörðinni Hólmahjáleigu í Landeyjum en þar er kúabú í fullum rekstri.

Rebekka er fædd og uppalin í sveit en fluttist svo með foreldrum sínum til höfuðborgarsvæðisins. Aðspurð af hverju hún hafði tekið stökkið og keypt sér bújörð segir hún: „Foreldrar mínir hættu búrekstri þegar ég var barn og ég fór því í skóla í bænum en við vorum þó alltaf í sveitinni hjá afa og ömmu í öllum fríum og um allar helgar. Afi var með kindur alla mína æsku og fram á unglingsárin sem mér þótti ósköp gaman að, ég missti eiginlega af kúnnum en lærði á kindurnar. Í raun var það alltaf draumur að geta keypt jörð og flutt í sveitasæluna aftur“.

Jack William Bradley, kærasti Rebekku, féll fyrir landbúnaðarstörfum á Íslandi fyrir 10 árum og það var hann sem benti Rebekku á að jörðin Hólmahjáleiga í Landeyjum væri til sölu. „Jack kemur með þekkingu og reynslu inn í búskapinn og ég með fjármagnið sem gerir þetta að skemmtilegri samvinnu. Við gátum því hjálpað hvort öðru að láta drauma okkar rætast.“

Rebekka starfaði áður á fasteignasölu og kynntist lánamöguleikum Byggðastofnunar þar. Auk þess benti fasteignasalinn henni á lánamöguleika stofnunarinnar í kaupferlinu sem og bændur á svæðinu.

Nýtt skilti fyrir stærri bíla­stæði hreyfi­haml­aðra afhjúp­að – það fyrsta í heimi

Nýtt skilti fyrir stærri bíla­stæði hreyfi­haml­aðra afhjúp­að – það fyrsta í heimi

ÖBÍ réttindasamtök og Vegagerðin afhjúpuðu ásamt borgarstjóra nýtt umferðarmerki fyrir bílastæði hreyfihamlaðra við Laugardalslaug þann 11. september síðastliðinn.

Hið nýja merki, sem var á meðal þeirra sem tóku gildi í reglugerð í mars síðastliðnum, er sérstaklega ætlað fyrir stærstu bílastæði hreyfihamlaðra sem nýtast lyftubílum og var tekið í gildi að beiðni ÖBÍ réttindasamtaka. Umferðarmerkið er hvergi annars staðar í notkun í heiminum.

Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, mun hélt tölu um mikilvægi merkisins og afhjúpaði skiltið ásamt Einari Þorsteinssyni borgarstjóra. Þá hélt borgarstjóri halda stutta tölu áður en Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengishóps ÖBÍ, lagði í fyrsta sinn í stæði sem merkt er með þessum hætti.

Með þeim við afhjúpunina voru Einar Pálsson, forstöðumaður vegaþjónustudeildar Vegagerðarinnar, og aðgengishópur ÖBÍ réttindasamtaka.

„Aðgengishópurinn er búinn að berjast fyrir þessu síðan 2018. Ég hef það fyrir víst að þetta er eina svona skiltið sem til er í heiminum. Þetta er sérstaklega fyrir þessi stæði sem eru fyrir þau sem nota stóra bíla og eru með lyftu. Við erum mjög hamingjusöm með að hafa náð þessu í framkvæmd,“ sagði Alma Ýr, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, við afhjúpunina.

Aldrei fleiri viðvaranir gefnar út að sumarlagi

Samtals 77 veðurviðvaranir voru gefnar út í sumar, þar af átta appelsínugular.

Aldrei hafa fleiri viðvaranir verið gefnar út yfir sumartímann frá því að Veðurstofan tók upp nýtt viðvaranakerfi.  

Flestar viðvaranir voru gefnar út í júní, 26 gular og átta appelsínugular. Þær tengdust nær allar norðanóveðrinu  sem geisaði í byrjun mánaðarins. Þá gekk yfir landið norðan- og norðvestan hvassviðri eða stormur ásamt mikilli úrkomu á Norður- og Austurlandi. 18 viðvaranir voru gefnar út vegna hríðar og fimm vegna snjókomu, en 11 vegna vinds.

Júlí var nokkuð rólegri, þá voru 13 viðvaranir gefnar út. Óvenju blautt var á vestanverðu landinu, en sex rigningaviðvaranir voru gefnar út í júlí. Eftirstandandi viðvaranir voru vegna vinds.

30 viðvaranir voru gefnar út í ágúst, en þá var bæði úrkomusamt og hvasst í flestum landshlutum. Um verslunarmannahelgina var varað við hvassviðri á sunnan- og vestanverðu landinu. 22. til 24, ágúst rigndi mikið á norðurhelmingi landsins og við lok mánaðar gerði mikið vatnsveður sunnan- og vestanlands.

Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðausturlandi og Breiðafirði, tíu talsins, en fæstar á höfuðborgarsvæðinu, einungis tvær. Í aðdraganda norðanóveðursins í júní voru gefnar út tvær gular viðvaranir fyrir allt landið, ein vegna vinds og önnur vegna hríðar.

Vestfjarðaprófastdæmi: vilja fjölga prestum í Patreksfjarðarprestakalli

Patreksfjarðarkirkja. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldinn var í Holti við Önundarfjörð þann 8. september 2024 skorar á kirkjuyfirvöld að fjölga prestum á Vestfjörðum og hafa eftirleiðis tvo presta þjónandi í Patreksfjarðarprestakalli.

Eftirfarandi greinargerð fylgir með ályktuninni:

Um síðustu aldamót voru starfandi 14 prestar á Vestfjörðum.  Þá sat prestur í Árnesi á Ströndum, annar prestur á Hólmavík, sá þriðji á Prestsbakka, sá fjórði á Reykhólum, sá fimmti á Patreksfirði, sá sjötti á Tálknafirði og sá sjöundi á Bíldudal, sá áttundi á Þingeyri, sá níundi í Holti, sá tíundi á Suðureyri, sá ellefti í Bolungarvík, sá tólfti í Vatnsfirði og svo voru tveir prestar á Ísafirði.  Í dag eru einugis fimm prestar eftir á Vestfjörðum.

Vestfirðir skiptast í þrjú samstarfssvæði.  Á norðanverðum Vestfjörðum þjóna þrír prestar 5000 manns sem búa í sex þéttbýlissóknum og 7 sveitasóknum.  Á Patreksfjarðarsvæðinu þjónar einn prestur 1500 manns sem búa í þremur þéttbýlissóknum og 7 sveitasóknum.  Í Breiðafjarðar- og Strandaprestakalli þjónar einn prestur 900 manns, sem búa í þremur þéttbýlissóknum og 8 sveitasóknum.

Svo virðist sem kirkjuyfirvöld hafi einungis litið til mannfjöldatölunnar en ekki leitt hugann að því að grunneining kirkjunnar er sóknin.  Í hverri sókn er gert er ráð fyrir reglulegu helgihaldi.  Þá er ætlast til þess að prestar standi fyrir barnastarfi og öðru safnaðarstarfi í öllum þéttbýlissóknum.  Þetta þýðir að einn prestur getur þurft að standa fyrir barnastarfi og öðru safnaðarstarfi á þremur stöðum með tilheyrandi akstri.

Starfsskyldur presta felast í reglulegu helgihaldi.  Þegar einn prestur þjónar svona mörgum sóknum þá er dagljóst að viðkomandi prestur þarf að messa oft á stórhátíðum.  Sumir prestar á Vestfjörðum þurfa að messa þrisvar sinnum á aðfangadagskvöld.  Dæmi er um að einn prestur hafi messað alls 14 sinnum um jól og áramót.  Svo bætast við skírnir, giftingar og jarðarfarir í þessum sóknum og iðulega þurfa prestar að aka langan veg til að komast í þær sóknir, sem lengst eru frá starfsstöð þeirra.  Dæmi eru um að prestur hafi ekið alls 500 kílómetra til að sinna athöfn eða messu.

Samkvæmt 3. grein laga um þjóðkirkju Íslands (lög nr. 77/2021) þá ber þjóðkirkjunni að þjóna öllum landsmönnum óháð búsetu.  Réttur fólks til þjónustu er ekkert minni í hinum dreifðu byggðum heldur í þéttbýli borga og bæja.  Í 3. grein þessara laga segir svo:  “Þjóðkirkjunni ber að halda úti kirkjulegri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni.  Prestar og djáknar gegna vígðri þjónustu í þjóðkirkjunni.”  Eins og staðan er í dag þá njóta íbúar Vestfjarða ekki sömu þjónustu presta og djákna og íbúar til að mynda á höfuðborgarsvæðinu gera.

Þá eru afleysingar orðnar erfiðar vegna þess hversu fáir prestarnir eru.  Dæmi eru um að prestar hafi átt í efiðleikum með að komast í lögbundin sumarfrí vegna þess að vantað hafi afleysingu.  Einnig eru dæmi um að prestar hafi tekið þá ákvörðun að stytta sumarfrí sitt til að sinna viðkvæmri þjónustu í sinni heimabyggð.

Þá skal og vakin athygli á því að á tveimar samstarfssvæðanna á Vestfjörðum, það er í Patreksfjarðarprestakalli og í Breiðafjaðar- og Strandaprestakalli er einungis einn prestur þjónandi.  Þetta þýðir að viðkomandi prestur er alltaf á bakvakt, virka daga sem helgar, daga sem nætur.  Þetta fær ekki staðist.  Prestar hljóta líkt og annað vinnandi fólk á Íslandi að eiga sinn rétt á fríum án þess að vera alltaf á bakvakt og til taks.

Nýjustu fréttir