Síða 39

Fuglainflúensa í ref

Mórauður geldsteggur í Miðdal í Hornbjargi sumarið 2022, með leifar af vetrarfeldi á skotti og síðum. – Ljósm. Ester Rut Unnsteinsdóttir

Í síðustu viku bárust Matvælastofnun niðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á sýnum sem tekin voru úr ref sem aflífaður var í Skagafirði fyrr í vikunni.

Íbúi sá refinn og tók eftir að hann var augljóslega veikur; mjög slappur, hreyfði sig lítið og var valtur á fótunum.

Tilkynnt var um refinn til Matvælastofnunar, reyndar refaskyttur voru fengnar til að aflífa hann, hræið sent til rannsókna á Keldum og greindist hann með fuglainflúensu af gerðinni H5N5. Í ljósi þessa vill Matvælastofnun biðja fólk að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum eða óeðlilegri hegðun í refum og láta stofnunina vita ef það verður vart við veika eða dauða refi.

Rétt er að benda á að fleiri spendýr, svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu, þótt veiran hafi ekki greinst hingað til í þessum dýrategundum hér á landi. 

Albert Ingi æfir með Bröndby og er í úrtakshóp U16

Albert Ingi Jóhannsson leikmaður Vestra fór í síðustu viku til danska stórliðsins Bröndby að æfa í knattspyrnuakademíu félagins.

Albert Ingi er fæddur 2009 og hefur verið í æfingahóp meistaraflokks karla hjá Vestra frá því í haust.  Á dögunum lék hann sína fyrstu leiki með meistaraflokki Vestra gegn FH og Stjörnunni.

Þá hefur Lúðvík Gunnarsson, landsliðsþjálfari U16 karla valið Albert Inga í úrtakshóp U16 karla og mun hópurinn hittast um miðjan febrúar.

Veður versnar í kvöld og enn meira á morgun

Í dag er í gildi gul veðurviðvörun fyrir vestanvert landið eftir klukkan 19 í kvöld.

Á morgun, miðvikudag versnar veður til muna. Þá tekur við appelsínugul viðvörun eftir hádegi og stendur fram eftir degi á fimmtudaginn.

Spáð er sunnan- og suðvestan 23-30 m/s og hviður yfir 35 m/s, en heldur hægari um tíma um kvöldið. Rigning, talsverð um tíma. Foktjón líklegt og útlit fyrir vatnavexti og búast má við samgöngutruflunum

Þeir sem hyggja á ferðir milli bygðalaga og landshluta eru hvattir til þess að afla sér upplýsinga um veður og færð.

Reykhólahreppur styrkir Skíðafélag Strandamanna

Nýi snjótroðari Skíðafélagsins.

Sveitarstjórn Reykhólahepps samþykkti á síðasta fundi sínum að styrkja Skíðafélag Strandamanna um 400.000 krónur vegna kaupa félagsins á snjótroðara.

Skíðafélag Strandamanna festi nýlega kaup á snjótroðara. Troðarinn er af tegundinni Pisten Bully 100, árgerð 2015.. Troðarinn var fluttur inn frá Austurríki.

Kaupverð troðarans er 17.856.000 kr. Skíðafélagið átti til rúmar 5 milljónir upp í kaupverðið.

Vesturbyggð: leggja til styttingu frístundar

Grunnskólinn á Patreksskóli.

Fjölskylduráð Vestubyggðar leggur til að stytta opnunartíma frístundar um tvo tíma á föstudögum þannig að hún lokið kl.14. Er það til þess að mæta styttingu vinnuviku ófaglærðs starfsfólks í frístund úr 40 stundum í 36 stundir.

Meta þurfi hvort taka eigi upp skráningu milli kl 14-16 á föstudögum sambærilega við það sem gert er í leikskólanum Araklett. Samhliða þessum breytingum þarf að fara fram skoðun á gjaldskrá frístundar.

Tillagan var lögð fyrir bæjaráð í síðustu viku og var sviðstjóra fjölskyldusviðs falið að kalla eftir frekari gögnum varðandi ástundun í frístund og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

Eyrarhlíð: Vegagerðin skoðar færslu vegarins

Innan Vegagerðarinnar er til skoðunar að færa veginn um Eyrarhlíð í Skutulsfirði. Er það í framhaldi af skriðuföllunum í nóvember og þá með umferðaröryggi í huga.

Samkvæmt mynd frá Vegagerðinni er færslan á um 500 metra löngum kafla og yrði þá vegurinn færður út í sjó á þeim kafla. Á þessum kafla féllu aurskriður fyrr í vetur og lokuðu veginum.

Ekki er til skoðunar að færa veginn út í Prestabugtina og láta hann koma að Sólgötunni og taka þannig af beygjuna við Íshúsfélagshúsið.

Í svörum Vegagerðarinnar er tekið fram að ekki sé búið að taka neinar ákvarðanir né er komið fjármagn til framkvæmda.

Ísafjörður: samningur um viðbyggingu ofan á áhorfendastúku á Torfnesi

Viðbyggingin verður ofan á byggingu skotís. Mynd: skotís.

Ísafjarðarbær og Knattspyrnudeild Vestra yngri, hafa gert með sér samning um byggingu viðbyggingar við áhorfendastúku á Torfnesvelli, og afnot hennar í kjölfar byggingar.

Ætlunin er auka þjónustu við áhorfendur á Torfnesvelli og bæta rekstrargrundvöll Knattspyrnudeildar Vestra yngri, með því að útbúa aðstöðu til sölu á veitingum og/eða varningi til fjáröflunar fyrir knattspyrnudeildina þegar fótboltaleikir eru á vellinum, eða aðrir viðburðir á svæðinu.

Um er að ræða 68,9 m2 viðbyggingu sem stendur ofan á þeim hluta stúkunnar er Skotíþróttafélag Ísafjarðar nýtir, þ.e. suðurenda stúkunnar.

Knattspyrnudeild Vestra yngri fjármagnar alla framkvæmd vegna byggingar mannvirkisins og greiðir byggingarkostnað og annan kostnað vegna framkvæmdanna, sem ekki er sérstaklega nefndur til greiðslu af Ísafjarðarbæ.

Ísafjarðarbær skal greiða gatnagerðargjöld af mannvirkinu og byggingarleyfisgjöld, og byggingarstjórn, en ber að öðru leyti hvorki fjárhagslega né tæknilega ábyrgð á byggingu þess.

Ísafjarðarbær er skráður eigandi mannvirkisins.

Ísafjarðarbær greiðir kostnað vegna hita og rafmagns í mannvirkinu, auk húseiganda- og brunatrygginga. Knattspyrnudeild Vestra yngri skal greiða allan annan rekstrarkostnað sem hlýst af notkun mannvirkisins, svo sem kostnað vegna netþjónustu, símasambands, rekstrartrygginga og starfsleyfa eftir atvikum.

Ísafjarðarbær, sem eigandi mannvirkisins, skal sjá um allt meiriháttar viðhald á mannvirkinu, þ.m.t. viðgerðir á burðarvirki, þaki, gluggum, lagnakerfi, hita- og vatnsveitu og öðrum fastabúnaði, sem nauðsynlegur er til að tryggja nothæfi og öryggi mannvirkisins.

Samningurinn var lagður fram í bæjaráði í gær og var vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.

HHF: mikil gróska í íþróttastarfinu

Bogfimi er ný íþrótt innan Harðar á Patreksfiði.

Mikil gróska er á sunnanverðum Vestfjörðum í íþróttastarfinu en í lok ársins 2024 voru stofnaðar tvær nýjar deildir innan aðildarfélaga HHF. Mikil ánægja er með aukið framboð í íþróttastarfi á svæðinu og eykur það líkur á að börn og unglingar finni sér íþrótt við hæfi.

Íþróttafélag Bílddælinga stofnaði Rafíþróttadeild ÍFB og í desember var haldið kynningarnámskeið en æfingar byrjuðu svo af fullum krafti í janúarmánuði. Mikil ánægja er með aukna starfsemi og framboð fyrir börn á Bíldudal. Samtals hefur verið safnað fyrir 6 stöðvum og mikill áhugi er fyrir starfseminni, það verður gaman að fylgjast með deildinni í framtíðinni vaxa og dafna.

Einnig var stofnuð Bogfimideild ÍH hjá Íþróttafélaginu Herði á Patreksfirði í samstarfi við Bogfimisamband Íslands. Boðið var upp á kynningarnámskeið í desember þar sem tveir aðilar frá Bogfimisambandinu komu og kynntu íþróttina fyrir íbúum bæjarins. Námskeiðið var virkilega vel sótt og mikill áhugi hefur skapast á svæðinu. Æfingar hófust í janúarbyrjun og er aðsóknin framar vonum, en alls hafa 38 einstaklingar, bæði börn og fullorðnir, skráð sig á æfingar. Svo mikil er aðsóknin að allir tímar eru fullir og lokað hefur verið fyrir skráningu og byrjað að skrá á biðlista.

Í báðum tilvikum fengu íþróttafélögin góða styrki til þess að koma nýjum deildum á laggirnar, og vilja íþróttafélögin þakka kærlega fyrir veittan styrk til uppbyggingar íþróttastarfs á sunnanverðum Vestfjörðum.

Bina Hannesdóttir, formaður HHF

Rafíþróttadeild innan HHF var stofnuð í fyrra.

Ágæti samgönguráðherra, hvenær klippir þú á borðann?

“Þegar ég var lögfræðingur Skipulagsstofnunar árin 2000–2006 var Teigsskógur á mínu borði og það er alveg klárt mál að það er gríðarlega mikilvægt að framkvæmdir við Vestfjarðaveg um Gufudalssveit tefjist ekki frekar. Það er þegar búið að bíða í rúm 20 ár eftir þessi vegur klárist.”

Þessi frómu orð lét núverandi Samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólfur Ármannsson, 2. þingmaður Norðvesturkjördæmis, falla  þann 10. október 2023 í umræðum á Alþingi um tillögu að Samgönguáætlun. Segja má að þessi ummæli hafi orðið að áhrínisorðum og meirihluti fjárlaganefndar rammaði þessa hugsun inn í nefndarálit sitt með þessum hætti:

    “Fyrir liggur forgangsröðun í gildandi samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 sem dregist hefur að ljúka. Þar liggja fyrir tillögur um framkvæmdir varðandi vegi, flugvelli og hafnir. Þar að auki liggur fyrir langtímasamgönguáætlun til ársins 2034. Ekkert er því til fyrirstöðu að Vegagerðin, í samráði við innviðaráðuneyti, geti gert samninga við verktaka eins og í hefðbundnu árferði. Heildarframlög til nýframkvæmda á vegakerfinu hækka milli ára og nema 27,4 ma.kr. á næsta ári. Veigamestu framkvæmdir verða á Vestfjörðum, m.a. á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit, á Reykjanesbraut og á hringvegi um Hornafjarðarfljót. Í áætlunum er gert ráð fyrir því að þeim framkvæmdum ljúki að mestu árið 2025 og því verði aukið svigrúm til nýrra verkefna árið 2026. Nefndin gerir ráð fyrir því að þá liggi fyrir samþykkt samgönguáætlun til fimm ára.”

“Meira að segja í myrkri”

Þetta var býsna skýrt og í samræmi við málflutning núverandi samgönguráðherra. Það eru út af fyrir sig ekki sérstök tíðindi. Ég leyfi mér amk að fullyrða að mikill stuðningur er við að lúka  framkvæmdum í Gufudalssveitinni, svo fljótt sem tæknilega megi. Segja má að okkar nýi samgönguráðherra hafi undirstrikað þetta þann 30. janúar sl. í viðtali við Kristján Má Unnarsson á Stöð 2, þegar hann sagði:

„Aðalatriðið er að klára Dynjandisheiði, klára Gufudalssveitina. Þetta eru stórhættulegir vegir og ég hef keyrt þetta margoft sjálfur, meira að segja í myrkri.” – Þessum orðum ber sannarlega að fagna og eru þau algjörlega í samræmi við við framangreindar yfirlýsingar við afgreiðslu fjárlaga.

En hvenær lýkur framkvæmdunum?

Það jók bjartsýni okkar margra að fregna þau tíðindi af Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins að í næsta mánuði, verði boðnar út framkvæmdir við tvær brýr í Gufudalssveitinni; annars vegar 130 metra brú í Gufufirði og 58 metra brú í Djúpafirði. Ennfremur að ætlunin sé að fara í útboð á 230 til 260 metra brú í Djúpafirði, auk fleiri verkefna eins og þar sagði. Það skyggir hins vegar talsvert á gleðina, að þetta útboð er ekki fyrirhugað fyrr en á haustdögum, sem veldur áhyggjum um að verklok verði seint og um síðir. – Enda er það svo að margföld reynsla er af því að hugtakið “haust” getur verið ansi loðið og teygjanlegt þegar svo ber undir !!

Þess vegna er mikilvægt að upplýst sé hið fyrsta um hvenær ætla megi að þessum ofangreindu framkvæmdum ljúki. Í ljósi sögunnar og þeirra dæmalausu tafa sem hafa orðið á framkvæmdum á þessari leið, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdahraðinn sé eins mikill og frekast er tæknilega unnt.

Með skírskotun til þeirra  ummæli sem samgönguráðherra lét  falla í ræðu sinni um Samgönguáætlun og fyrr er til vitnað langar mig að beina spurningum til hans í mikilli vinsemd.  Enda treysti ég  því, með skírskotun til fyrri orða hans, sbr hér að ofan,  að hann muni  einskis láta ófreistað svo að lokið verði við þessar framkvæmdir svo fljótt sem verða má af tæknilegum ástæðum.

Þrjár einfaldar spurningar

Því leyfi ég mér ágæti Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra að spyrja þig einfaldra spurninga og veit að þú munt svara þeim af einurð og hreinskilni:

  1. Er lagt upp með við útboð framkvæmdanna í Gufudalssveitinni að þeim verði lokið jafn skjótt og tæknilega telst unnt ?
  2. Hvenær má þess vænta að unnt verði að aka ofangreinda leið yfir Gufufjörð og Djúpafjörð?
  3. Sum sé, kæri samgönguráðherra: Hvenær kemur þú vestur, mundar skærin, klippir á borðann og lýsir því yfir að langþráðum framkvæmdum við þennan umtalaða veg sé lokið?

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Norðvesturkjördæmis

Vestfirðir: ófærir vegir eða óvissa um færð

Vont veður er á Vestfjöðum og vindur mikill. Vegir eru lokaðir yfir Kleifaheiði og Dynjandisheiði og vegurinn í Súgandafirði er lokaður. Þá er vegurinn lokaður á Kambsnesi milli Álftafjarðar og Seyðisfjarða í Ísafjarðardjúpi vegna flutningabíls sem þverar veginn.

Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði. Víða er óvissa um færð vegna veðurs. Það á við um Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda, Hálfdán, Mikladal og Klettsháls. Getur því þar komið til lokana með stuttum fyrirvara.

Nýjustu fréttir