Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 38

100 ár frá andláti lista­mannsins Guðmundar Thor­steins­sonar

Þann 26. júlí næst­kom­andi verða liðin 100 ár frá andláti lista­mannsins Guðmundar Thor­steins­sonar, jafnan betur þekktur undir nafninu Muggur.

Að því tilefni verður móttaka í gömlu smiðj­unni, sögu­ganga um Bíldudal og heitt á könn­unni í Muggsstofuá Bíldudal,

Gangan hefst á heimsókn í gömlu smiðjuna, Smiðjustíg 2, kl. 15:00. Þar mun Jói Öddu segja gestum frá sögu smiðjunnar og atvinnustarfsemi Péturs Thorsteinssonar, föður Muggs. Síðan tekur Jörundur Garðarsson við og leiðir hópinn um þorpið og segir frá sögu þess og Muggi. Gangan endar í Muggsstofu þar sem verður heitt kaffi á könnunni og opið hús.

Muggur var fæddur árið 1891 og því einingis 32 ára þegar hann lést úr berklum í Danmörku. Þrátt fyrir þennan unga aldur hafði list hans varanleg áhrif á íslenska listmenningu og listasögu.

Af verkum Muggs má nefna myndskreytta ævintýrið Sagan af Dimmalimm, klippimyndina Sjöundi dagur í Paradís og altaristöfluna Kristur læknar sjúka. Hann lék eitt af aðalhlutverkunum í fyrstu leiknu kvikmyndinni sem gerð var á Íslandi, Saga Borgarættarinnar, eftir sögu Gunnars Gunnarssonar.

Á Straumnesfjall og um Rekavík bak Látur 

— 2 skór —

Laugardaginn 20. júlí

Fararstjórn: Snorri Grímsson og Yngvi Snorrason.

Mæting kl. 7.00 við Sundahöfn á Ísafirði.

Siglt að Látrum. Sagt frá þorpinu sem þar stóð. Þar var skóli, útgerð, löggiltur verslunarstaður og fjölmennasta þéttbýli norðan Djúps; um 140 manns þegar mest lét á árunum 1920-1940. Eftir að byggð lagðist af var aftur ráðist þar í framkvæmdir. Það var í kringum byggingu ratstjárstöðvar bandaríska hersins uppi á Straumnesfjalli. Þangað var lagður vegur og eftir honum verður gengið. Víðsýnt er af þeirri leið. Rústir ratsjárstöðvarinnar verða skoðaðar og frá þeim sagt. Leiðin til baka liggur niður Öldudal. Það er erfiðasti hluti ferðarinnar; vegleysur og bratti en þó lítið um klungur og ekkert klifur. Stoppað í Rekavík og því næst gengið meðfram Rekavíkurvatni þar sem göngufærið er ýmist gott eða torfærara. Við enda vatnsins er fljótlega komið inn á vegslóða. Hann kemur upp á veginn sem liggur að Látrum. Þar endar ferðin.

Vegalengd: um 20 km, göngutími: 6-8 klst., hækkun: um 420 m.

Staður í Aðalvík.

Bjarni Snæbjörnsson í Dunhaga

Bjarni Snæbjörnsson leikari, söngvari og höfundur gaf nýverið út bókina Mennsku sem er sjálfsævisögulegt uppgjör. Bjarni er uppalinn á Tálknafirði og snýr nú í heimahagana til að eiga notalega stund með sveitungum sínum þar sem hann syngur nokkur lög, les úr bókinni og býður upp á spurningar og samtal um málefni hennar.

Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn. Athugið að hægt verður að kaupa áritað eintak af Mennsku beint af Bjarna.

Gestir eru hvattir til að gæða sér á frábærum mat í Dunhaga fyrir viðburðinn.

Mikið fjör á Náttúrubarnahátíð á Ströndum

Það var mikið um að vera á Sauðfjársetrinu í Sævangi um helgina en þar fór fram árviss Náttúrubarnahátíð á Ströndum. Þetta er í áttunda skipti sem hátíðin er haldin og var fjölbreytt og skemmtileg dagskrá sem einkenndist, líkt og áður, af útivist, náttúrutúlkun, fróðleik og fjöri.

Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur, er skipuleggjandi hátíðarinnar og segir allt hafa gengið vel: „Þetta var bara ótrúlega skemmtilegt, eins og alltaf. Veðrið hefði kannski mátt vera aðeins betra á laugardag, það rigndi aðeins á hátíðargesti, en það voru allir vel útbúnir“ Hátíðargestir eru vanir að framkvæma veðurgaldur á föstudeginum og Dagrún vill meina að hann hafi ekki brugðist frekar en fyrri daginn: „Það var ívið betra veður á Sauðfjársetrinu en í nágrenninu á laugardeginum, svo veit maður aldrei hvað hefði orðið, kannski afstýrðum við snjókomu“ segir hún hlægjandi.

Á dagskránni voru meðal annars margvíslegar smiðjur, til dæmis frá Arfistanum, Þykjó og Náttúruminjasafni Íslands sem var samstarfsaðili hátíðarinnar í ár. Þá var farið í náttúrujóga, á hestbak og kajak og boðið upp á brúðuleikhús, töfraskemmtun, vísindasýningu og stuðtónleika með Gunna og Felix.

„Það hafa svona á milli 300-400 manns litið við um helgina og stoppað mislengi við,“ segir Dagrún sem er ánægð með þátttökuna. Það hefur verið einkenni hátíðarinnar að það er frítt að taka þátt í öllum dagskrárliðum hennar. „Þetta er okkur ofboðslega mikilvægt, en væri ekki mögulegt nema með styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða, sem er grundvöllur þess að hægt sé að halda hátíðina eins og hún er.“ Hátíðin í ár var einnig styrkt af Orkubúi Vestfjarða, Ferðaþjónustunni á Kirkjubóli og Sláturfélagi Suðurlands og Dagrún er þakklát fyrir stuðning og aðstoð: „Raunar er þakklæti það sem er manni efst í huga eftir svona helgi, það eru svo ótrúlega margir sem koma að svona hátíð, starfsfólk og stjórn Sauðfjársetursins, hellingur af sjálfboðaliðum sem eru boðnir og búnir að hjálpa til við undirbúning og um helgina, allt listafólkið og skemmtikraftarnir og svo auðvitað gestirnir sem eru alveg frábærir,“ segir Dagrún að lokum.

Strandahestar.

Fjármagnstekjur næsthæstar í Árneshreppi

Búðin er í Álftaveri, þjónustumiðstöð Súðavíkur.
Fjármagnstekjur í Súðavík eru nálægt landsmeðaltalinu.

Hagstofa íslands hefur birt upplýsingar um fjármagnstekjur pr. framteljanda sundurliðað eftir sveitarfélögum á síðasta ári.

Langhæstar voru þær í Vestmannaeyjum liðlega 5 m.kr. En næsthæstar voru fjármagnstekjurnar í Árneshreppi 3.013 þúsund krónur. Í þriðja sæti var Seltjarnarnes með tæplega 3 m.kr. á hvern framteljanda.

Meðaltal á landinu öllu var 990 þús kr. og voru fjármagnstekjurnar í ölum sveitarfélögum á Vestfjörðum öðrum en í Árneshreppi undir landsmeðaltalinu.

Fjármagnstekjur eru skattlagðar með 22% fjármagsntekjuskatti sem rennur að öllu leyti til ríkisins.

Niðurstöður byggja á skattframtölum einstaklinga. Framtalsskyldir eru allir 16 ára og eldri sem eru skattskyldir á Íslandi. Byggt er á öllum framteljendum að undanskildum eftirfarandi: framteljendum sem eru með handreiknað framtal, fá áætlaðan skatt á viðkomandi tekjuári eða árinu á undan, létust á árinu eða eru búsettir erlendis samkvæmt þjóðskrá.

Tungumálatöfrar á Flateyri 6.-11. ágúst

Skráning er nú í fullum gangi á námskeið Tungumálatöfra sem verður haldið í sjöunda sinn þann 6.-11.ágúst og nú á Flateyri. Námskeið Tungumálatöfra eru ætluð börnum á aldrinum 5-14 ára og þá sérstaklega tvítyngdum og fjöltyngdum börnum. Kennt verður í Grunnskóla Önundarfjarðar, samkomuhúsinu og náttúrunni í kring.

Námskeiðið skiptist eins og fyrri ár í tvö námskeið: Tungumálatöfra fyrir 5-9 ára börn og Töfraútivist fyrir 10-14 ára börn.

Sú breyting er í ár að námskeiðið fyrir yngri börnin verður haldið á Flateyri, líkt og Töfraútivistin, enda að þessu sinni lögð áhersla á skapandi útivist, ásamt myndlist og tónlist.

Unnið verður með þema sem tengist hafinu þar sem börn nota hugmyndaflug sitt við listsköpun og leiki og æfa íslenskuna sína í leiðinni.

Kennarar á Tungumálatöfrum í ár verða eins og fyrri ár Dagný Arnalds og Jóngunnar Biering sem sjá um tónlistarhluta námskeiðsins. Myndlist þetta árið verður í höndum Gunnars Jónssonar sem áður hefur kennt við námskeiðið og skapandi útivist verður í höndum þeirra Kötlu Vigdísar og Baldurs Sverrissonar. Töfraútivist verður eins og fyrri ár í umsjón Sössu Eyþórsdóttur.

Í ár fer námskeiðið fram frá 6.-11 ágúst og er kennt frá 10-14 frá þriðjudegi til laugardags. Námskeiðinu lýkur sunnudaginn 11. ágúst með töfragöngu, lokahátíð og matarupplifun eins og síðustu ár en þá er fjölskyldum barnanna og öðrum gestum boðið að taka þátt.

Námskeiðið hentar bæði börnum sem búa erlendis og vilja styrkja sig í íslenskunni og tengsl sín við landið, sem og nýjum Íslendingum sem eiga annað tungumál að móðurmáli og vilja bæta íslenskukunnáttu sína. Einnig hefur undanfarin ár verið mjög góð þátttaka barna sem fædd og uppalin eru á svæðinu. Námskeiðið er þannig ekki síður mikilvægt fyrir félagsleg tengsl barna en til að læra íslenskuna. Þau öðlast sjálfstraust, styrkja sig í tungumálinu og hefur falleg vinátta orðið til sem hefur haldist í gegnum árin.

Forráðamenn eru hvattir til að sameinast um að keyra börn sín yfir til Flateyrar og nýta sér strætóferð til baka til Ísafjarðar frá Flateyri kl.15:00 virka daga. Boðið verður upp á gæslu milli kl. 14:00 og 15:00.

Eins og undanfarin ár styrkir Verk Vest sitt félagsfólk með því að niðurgreiða námskeiðsgjöldin. Eins styrkir Íslandssaga á Suðureyri sitt starfsfólk til þátttöku, líkt og Klofningur sem hefur jafnframt boðið upp á akstur á námskeiðið.

Skráning fer fram í gegnum heimasíðu Tungumálatöfra: https://tungumalatofrar.is/

Frekari upplýsingar veitir Anna Sigga verkefnastjóri í gegnum netfangið tungumalatofrar@gmail.com og í síma 6153378

Einnig er hægt að fylgjast með á facebook síðu: https://www.facebook.com/tungumalatofrarnamskeid

og á instagram: https://www.instagram.com/tungumalatofrar/

Sótt að Matvælastofnun – ásakanir um mútuþægni

Ester Hilmarsdóttir.

Andstæðingar laxeldis í Ísafjarðarsjúpi hafa beitt spjótum sínum síðustu daga að starfsfólki Matvælastofnunar, en stofnunin gaf út í síðasta mánuði leyfi til Arnarlax til eldis á 10.000 tonnum af ófrjóum laxi í Djúpinu.

Er sérstaklega gagnrýnt að siglingaöryggi við væntanleg eldissvæði sé ekki tryggt.

seðlar í vasa starfsfólks Mast

Í gær birti Ester Hilmarsdóttir grein á Vísi þar sem víkur að þessu atriði og skrifar svo: „En þrátt fyrir þessar niðurstöður skakar starfsfólk MAST sér í skrifstofustólunum svo skrjáfar í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafa stungið í vasa þeirra, um leið og þau skrifa upp á rekstrarleyfið þvert á mat Samgöngustofu og þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar.“

Þá segir hún landníðinga sölsa undir sig „náttúru Íslands og það með aðstoð ríkisvalds og eftirlitsstofnana á borð við MAST“.

Greini heitir af glyðrugangi eftirlitsstofnana.

Ester kynnir sig sem náttúruunnanda, landeiganda og bændadóttur sem er búsett í Þingeyjarsveit. 

starfsmenn persónulega ábyrgir

Í fyrradag spurði Jón Kaldal, talsmaður IWF, íslenska náttúruverndarsjóðsins í viðtali á Vísi um persónulega ábyrgð starfsmanna Mast á leyfisveitingunni og sagði orðrétt:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Jón Kaldal talsmaður IWF.

Katrín Oddsdóttir, lögmaður þeirra sem hafa kært rekstrarleyfið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál segir í sama viðtali að hún taki undir með Jóni sem bendir á að það sé fólk á bak við hverja ákvörðun og það eigi ekki á láta það viðgangast að gefa út leyfi í andstöðu við lög.

„Því ber einfaldlega skylda sem opinberir starfsmenn til að gera betur en svo.“ ef haft orðrétt eftir Katrínu.

Katrín Oddsdóttir.

Í leyfi Mast er sett skilyrði sem verður að uppfylla áður en unnt er að setja út eldisfisk í kvíar og er það samhljóða því sem sérfræðinganefnd setti fram í áhættumati um siglingaöryggi.  Skilyrðið er að jaðar sjókvíaeldisstöðvanna Drangsvíkur og Eyjahlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 50 m og jaðar sjókvíaeldisstöðvarinnar Óshlíðar skuli ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 200 m.

 

Ögurball: búast við 500 – 600 manns

Samkomuhúsið í Ögri í gær. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Stöugur straumur gesta í kaffi í Ögri var í góðviðrinu í gær. Starfsfólkið hafði í nógu að snúast við þjónustuna. Á boðstólum voru girnileg súpa og heimabökuðu brauði, grillaðar samlokur og dýrindis tertur af margvíslegu tagi.

Guðfinna Hreiðarsdóttir sagði að Ögurkaffi opnaði um miðjan júní og væri að jafnaði opin fram í miðja ágúst. Sumarið hefði til þessa verið gott og hún sá fram á að svo yrði áfram. Opið er daglega frá 10 – 18.

Um helgin verður hápunktur sumarsins. Á föstudaginn verður skötuveisla og brekkusöngur um kvöldið.

Á laugardaginn verður söguganga , messa í Ögurkirkju og um kvöldið Ögurballið víðfræga. Guðfinna sagðist búast við 500 – 600 manns um helgina að því gefnu að veðrið yrði gott. Ef ekki gott veður yrði færra, en þó ekki svo mjög.

Þesssar blómarósir voru að störfum í gær. Guðfinna Hreiðarsdóttir til hægri.

Nýr sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu

Viðar Ólason hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra veiðieftirlitssviðs sem auglýst var á dögunum, en Elín Björg fráfarandi sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs hefur tekið við starfi fiskistofustjóra.

Viðar er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur hann lokið námi frá Stýrimannaskólanum, II. stig og sótt fjölmörg námskeið á sviði stjórnunar og stjórnsýsluréttar.

Viðar hefur 20 ára reynslu af sjávarútvegi. Hann hefur starfað sem deildarstjóri sjóeftirlits hjá Fiskistofu frá árinu 2016 þar sem hann hefur stýrt sjóeftirliti. Auk þess hefur hann leyst af sem deildarstjóri landeftirlits. Viðar starfaði áður í tíu ár sem forritari hjá Advania og þar á undan sem stýrimaður og skipstjóri í 15 ár.

Í störfum sínum hjá Fiskistofu hefur Viðar gegnt ýmsum nefndarstörfum og verið í starfshópum skipuðum af fagráðuneyti sem og Fiskistofu auk þess sem hann hefur stýrt samráðsfundum með öðrum systurstofnunum. Þá hefur hann sinnt ýmsum erlendum verkefnum fyrir hönd Fiskistofu, verið í sendinefndum Íslands m.a. í tvíhliða samningum um sjávarútvegsmál við önnur ríki auk þess sem honum var falið að leiða alþjóðlega ráðstefnuröð sem tileinkuð er störfum eftirlitsmanna á sjó sem haldin verður í Hörpu í maí 2025.

Síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands

Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir
Forseti með íbúum Árneshrepps. Ljósmynd Una Sighvatsdóttir

Forseti Íslands fór í opinbera heimsókn í Árneshrepp á Ströndum og kynnir sér þar lífshætti íbúa og sögu. Ferðin stóð í þrjá daga og var þetta síðasta opinbera heimsókn forseta innanlands áður en hann lætur af embætti í lok júlí. Í embættistíð sinni hafa forsetahjónin farið að jafnaði í þrjár opinberar heimsóknir innanlands á ári og þannig heimsótt 22 sveitarfélög, auk tíðra ferða um landið allt af ýmsum öðrum tilefnum.

Árneshreppur er víðfeðmur en um leið eitt fámennasta sveitarfélag Íslands. Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti og hreppstjórnin buðu forseta velkominn á hreppamörkunum við fjallið Spena. Þaðan var ekið á sauðfjárbúið Mela í Trékyllisvík þar sem sauðfjárbændurnir Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Guðmundur Torfason tóku á móti forseta. Sauðfjárrækt hefur löngum verið helsti atvinnuvegur í Árneshreppi en á Melum er fjárhúsið einnig nýtt sem tónleikastaður á sumrin þegar tónlistarhátíðin Nábrókin er haldin þar.

Á föstudagskvöld bauð hreppstjórn til kvöldverðar til heiðurs forseta í félagsheimilinu í Trékyllisvík fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Í ávarpi til Árneshreppsbúa vakti forseti meðal annars máls á því að Árneshreppur hafi undanfarin ár talist til brothættra byggðarlaga, þar hafi yfir 500 manns búið um miðja síðustu öld en við síðustu áramót hafi skráðir íbúar verið 53 talsins.

Sagði forseti ljóst að mikill missir yrði af því ef byggð legðist af á þessum stórbrotna stað: „Öld fram af öld hafa Strandamenn eflt með sér dugnað og dirfsku, enda ekkert annað í boði á þessum slóðum, undir reginfjöllum fyrir opnu hafi.

Á laugardeginum slóst forseti í för með gönguhópi á vegum Ferðafélags Íslands. Haldið var á fjallið Glissu á mörkum Reykjarfjarðar og Ingólfsfjarðar. 

Að lokinni göngu var farið í sjósund fyrir botni Norðurfjarðar og loks í sund í Krossneslaug en 70 ára afmæli laugarinnar var fagnað nú í sumar. Að loknum kvöldverði á Kaffi Norðurfirði efndi Ferðafélag Íslands svo til tónleika í fjárhúsinu í Norðurfirði þar sem Helgi Björnsson kom fram.

Opinberri heimsókn forseta í Árneshrepp lauk í Djúpavík. Þar snæddi forseti hádegisverð í boði hreppstjórnar á Hótel Djúpavík og fékk leiðsögn um sögusýninguna í gömlu síldarverksmiðjunni þar. 

Nýjustu fréttir