Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 38

Ferðafélag Ísfirðinga: Arnarnúpur – 2 skór

Sunnudaginn 22. september

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið frá Sveinseyrarvatni sem leið liggur upp Sveinseyrarhvilftina, upp á Arnarnúpinn, hæð 558 m. Gengið meðfram fjallsbrúnum og notið stórfenglegs útsýnis, m.a. yfir hinn undurfagra Keldudal.
Vegalengd: u.þ.b. 8 km, göngutími: 5 klst., hækkun: 550 m.

Góðan daginn, ég ætla að fá … ENGLISH PLEASE!

Nú eru það engin ný tíðindi að ekki sé alltaf hægt að ganga að þjónustu á íslensku sem vísri. Það eitt og sér er auðvitað mjög miður. Það er leitt að þeir sem vilja notast við íslensku, eins annkannalega og það hljómar í landi þar sem íslenska er opinbert mál, geti ekki alltaf fengið þjónustu á íslensku, fái ekki alltaf tækifæri til að brúka málið. Það er einkar leitt að ekki sé hægt að ábyrgjast grunníslensku alls staðar, að rekstraraðilar, atvinnurekendur, yfirvaldið telji sig ekki geta það, nenna því kannski ekki, vilja það ekki, telja það ekki svara kostnaði, telja íslensku halló, telja íslensku óþarfa og þar fram eftir götunum. Allar þessar ástæður eru álíka hryggilegar. Hvað svo sem kann að liggja að baki er ástandið óviðunandi. En aðalspurningin er hvort ekki beri að gera eitthvað í málunum, láta í sér heyra. Nú eða leitast við að leggja sitt af mörkum til að færa málin til betri vegar.

Já, sumum kann að þykja þetta ástand hvimleitt svo ekki sé meira sagt. Sumir eru bálreiðir og blóta ástandinu í sand og ösku. Sumir yppta öxlum og láta sig þetta litlu varða, pæla ekkert í þessu. Og svo eru sumir óttaslegnir þess vegna, þeir kvíða fyrir að versla, fara á kaffihús eða veitingastaði af ótta við að skilja ekki þjónustuaðilana eða af því þeir treysta sér ekki til að tala ensku, eða gera það ekki, kunna það ekki. Ófáum blöskrar ástandið en segja ekki neitt, kvarta í hljóði eða í fjölskylduboðum og vilja meina að ástandið sé ólíðandi, að ekki sé hægt að nota eigið mál, að manni líði eins og túrhesti í eigin landi. Þeir hinir sömu sjá þó oft ekki ástæðu til að kvarta upphátt, í riti eða ræðu, undan íslenskuleysi, sjá ekki ástæðu til að láta óánægju sína í ljós. Og svo eru það þeir sem læra, vilja endilega læra íslensku og æfa. Þeir hinir sömu eru rændir tækifærum til að nota málið sé íslenska ekki alls staðar í boði. Viðkomandi getur vart æft sína grunníslensku sé hún ekki einu sinni í boði, sé viðkvæðið bara: English, please. Þeir segja þá bara: there is no chance learning and practicing Icelandic in Iceland. Undarlegur andskoti það.

Sannlega má segja yður! Það er kominn tími til að tala tæpitungulaust! Þetta ástand er argasta bull og vitleysa! Það er kominn tími til að láta óánægju sína í ljós og beina óánægjunni að réttum aðila, þeim sem leggur línurnar og það er næsta víst ekki sá í framlínustarfinu. Ekki viljum við vera fólkið sem fokkaði upp málinu sem sleit samfelldan þráð málsins sem nær aftur í aldir, sem rauf tenginguna sem málið skapar við fortíðina, ekki viljum við vera það fólk sem rústaði íslensku, kom henni undir græna torfu. Þangað stefnum við næsta víst og þetta tiltekna mál er bara einn naglinn.

Það verður að teljast ólíklegt að nokkur sé beinlínis ánægður með ástandið. Og vissulega má kvarta og kveina í hljóði og vona að ástandið batni af sjálfu sér. Ólíklegt er þó að nokkuð batni við það. Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir eins og sagt er. Þetta erum við hjá Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag meðvituð um. Við vitum að það stoðar lítt að kvarta bara og kveina og brynna músum í koddann sinn. Það verður að benda á það sem miður er og bjóða upp í dans hafi maður tök þar á og sé sæmilegur dansherra. Raunar ættu allir sem tala íslensku að geta boðið upp í íslenskudans og ættu að gera það. Hið eins sem þarf til þess er að tala íslensku og gera allt sem í manns valdi stendur til að gera sig skiljanlegan. Kristaltært er alltént að íslenska lærist ekki sé einvörðungu töluð enska. Það liggur jafnt í augum uppi sem úti.

Gefum íslensku séns- íslenskuvænt samfélag leitast nefnilega við að bjóða upp á hugsanlegar lausnir. Við höfum staðið að einu og öðru í gegnum tíðina og fræðast má um það að hluta á FB-síðu átaksins svo og heimasíðu þess. Eitt er það þó sem draga má fram og það eru svokölluð framlínunámskeið sem hafa það að markmiði að kenna, með þátttöku móðurmálshafa, grunníslensku, íslensku sem nýtist í starfi og þá einkum og sér í lagi í þjónustugeiranum. Þá hefir starfsfólk eitthvað til að byggja á enda er ljóst að búi starfsfólk að engri íslenskukunnáttu hefir það ekkert til að byggja á, engan grunn og því ólíklegt að annað mál verði notað en enska. Þannig lærist engin íslenska. Engar töfralausnir eru í boði.

Við höfum því sent línu á aðila á Ísafirði og nágrenni (Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag er átak á Vestfjörðum) sem eru ekki þekktir fyrir að leggja mikið upp úr því að starfsfólk sitt kunni skil á íslensku og boðið þeim upp á námskeið, boðið upp á liðsinni okkar og það að kostnaðarlausu. Það er nefnilega alls ekki svo flókið að færa þetta til betri vegar sé vilji til þess atarna. Fyrsta skrefið er auðvitað einbeittur vilji. Annað skrefið er að leggja línurnar og finna leið til að blanda saman vinnu og þessum grunnlærdómi. Slíku má örugglega fá áorkað í góðu samstarfi.

Stofnað var til Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag á sínum tíma af því ástandið er fjarri því að verðskulda húrrahróp. Eitthvað þarf að aðhafast, eitthvað þarf að breytast. Það sem þarf einkum og sér í lagi að breytast er viðhorfið. Við höfum reynt að láta til okkar taka og hafa áhrif, einkum á Vestfjörðum. En telji einhver það sem við höfum staðið að til eftirbreytni má sannlega taka okkar hugmyndir frjálsri hendi og hvetjum við auk þess til að fólk láti almennt í sér heyra sé það ekki sátt. Annars breytist jú ekkert.

Málið er að eitthvað þarf að gera og ekki stoðar að stinga hausnum í sandinn. Ekki stoðar að vera meðvirkur. Þá breytist ekki rass í bala. Er því ekki best að reyna að tækla þetta mál?

PS. Það hefir og reynst ágætlega að horfa skilningsvana en með bros á vör á fólk í þjónustugeiranum og láta eins og viðkomandi hafa talað á kínversku eða máli sem við kunnum ekki skil á og endurtaka svo það sem viðkomandi vil á íslensku. Þannig fær hluteigandi starfsmaður óumbeðna íslenskukennslu. Enn hefir engum sem þessari aðferð beitir verið hent út okkur best vitandi enda væri hjákátlegt að henda einhverjum út eða neita að þjónusta einhvern fyrir að tala íslensku á Íslandi.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Höfundur er verkefnastjóri átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag sem á heimili sitt á Ísafirði.

Slökkviliðsstjóri: mælir með breikkun einbreiðra ganga

Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri í Ísafjarðarbæ segir aðspurður um búnað slökkviliðsins til þess að ráða við eld í jarðgöngum að slökkvilið hafi yfir að ráða sérútbúnum bíl til að fara inní reyk, svokallaðan jarðgangabíll. „Hann getur athafnað sig í reyk og þeir slökkviliðmenn sem eru inní bílnum eru tengdir við loftbanka í bílnum.“

Sigurður segir að viðbragðsáætlun segi til um að jarðgöngunum skuli lokað frá öllum stöðum og tæmd þegar eldur kemur upp. „Slökkvilið fer inn og slekkur eldinn, það er verklagið sem er í gildi í dag.“

Sigurður var spurður að því hvort nauðsynlegt væri að tvöfalda Vestfjarðagöngin.

„Slökkvilið mælir eindregið með breikkun á þessum einbreiða legg, það bætir öryggi mikið og bætir umferðaflæði í gegnum göngin.“  

Frítt í lands­byggðar­strætó á bíllausa daginn

Leiðarkerfi landsbyggðarstrætós en frítt verður í strætó á bíllausa daginn 22. september.

Vegagerðin tekur virkan þátt í Evrópsku samgönguvikunni, meðal annars með því að hafa frítt í landsbyggðarstrætó á bíllausa daginn, sunnudaginn 22. september. 

Borgir og bæir á Íslandi hafa tekið þátt í Evrópsku samgönguvikunni frá árinu 2002. Samgönguvikan er samstillt átak sveitarfélaga í Evrópu sem er ætlað að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Umhverfis, – orku- og loftslagsráðuneytið hefur umsjón með átakinu á Íslandi. 

Evrópska Samgönguvikan er haldin 16. – 22. september ár hvert.

Markmið hennar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. 

Þema vikunnar í ár er Almannarými – virkir ferðamátar

Samdráttur í verðmæti sjávarafurða

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam tæplega 25 milljörðum króna í ágúst samkvæmt fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í síðustu viku. Það er um 8% samdráttur í krónum talið miðað við ágúst í fyrra.

Heildarafli íslenskra skipa var rúmlega 80 þúsund tonn í ágúst 2024 sem er 31% minna en í ágúst á síðasta ári. Botnfiskafli var álíka og í fyrra eða 32 þúsund tonn. Uppsjávarafli dróst saman um 43%, úr tæpum 80 þúsund tonnum í ágúst 2023 í rúm 45 þúsund tonn í ágúst á þessu ári.

Á fiskveiðiárinu frá september 2023 til ágúst 2024 var heildaraflinn 1.021 þúsund tonn sem er 30% samdráttur frá fyrra fiskveiðiári. Botnfiskafli jókst um 4% á fiskveiðiárinu 2023-2024 miðað við fyrra fiskveiðiár. Uppsjávarafli dróst hins vegar saman um 44% en loðnubrestur árið 2024 hafði þar mikil áhrif.

Geðlestin kemur á Patreksfjörð

Í tilefni af Gulum september ætla landssamtökin Geðhjálp að ferðast um landið og bjóða upp á samtal um geðrækt og geðheilsu í bland við tónlist og gleði.

Geðlestin er heiti verkefnisins en það hefur áður farið um landið en þá var áherslan á börn og ungmenni en núna er ætlunin að hitta sveitarstjórnir, félags- og skólamálayfirvöld annars vegar og almenning hins vegar. Við hittum sveitarstjórnir og félags- og skólayfirvöld í hádeginu en almenning á kvöldfundum.

Kvölddagskrá verður í safnaðarheimilinu á Patreksfirði kl 20:00 mánudaginn 30 september hefst dagskráin á stuttri kynningu á Geðhjálp og starfi samtakanna.

Eftir það verður farið yfir mikilvægi reglulegrar geðræktar út lífið og ýmsar leiðir þar nefndar.

Þá mun einstaklingur segja frá sinni reynslu af geðrænum áskorunum og hvernig bata var náð og hvaða verkfæri hafa reynst best. Eftir reynslusöguna verða umræður/samtal.

Í lokin stíga þeir félagar Emmsjé Gauti og Þormóður á svið og leika nokkur lög til að árétta að geðrækt er líka gleði og skemmtun.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir

Eiríkur Rögnvaldsson í Vísindaporti á föstudag

Eiríkur Rögnvaldsson uppgjafaprófessor og einn helsti forvígismaður íslenskunar verður í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða (kaffistofan) föstudaginn 20.9. kl. 12:10 á vegum Gefum íslensku séns-íslenskuvænt samfélag.

Þar mun hann tala um íslenskuna og ferðaþjónustuna og hér er lýsing á erindi hans:

Í upphafi verður rætt stuttlega um þá goðsögn að íslenska sé sérstaklega erfitt tungumál – hvernig hún sé tilkomin og hvað til sé í henni.

Einnig er lögð áhersla á mikilvægi þess að kenna íslensku sem annað mál og hverjar afleiðingarnar gætu orðið verði því ekki sinnt.

Meginefni erindisins er þó staða íslenskunnar í ferðaþjónustunni en ný könnun sýnir að mikill meirihluti fólks hefur áhyggjur af henni. Lagt verður út þessari könnun sem og þremur nýlegum skýrslum Háskólans á Hólum og Árnastofnunar sem staðfesta bága stöðu íslensku í ferðaþjónustunni. Fjallað verður um lagaskyldur ríkis og sveitarfélaga gagnvart íslenskunni og nýja þingsályktun um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030.

Að lokum verða lagðar fram tillögur um tíu brýnar aðgerðir til að bæta stöðu íslensku í ferðaþjónustunni.

Vesturbyggð: heimastjórnir vilja Suðurfjarðagöng

Mynd úr jarðgangaskýrslu Vegagerðarinnar frá júní 2023.

Heimastjórnir Tálknafjarðar og Arnarfjarðar taka báðar undir ályktun heimastjórnar Patreksfjarðar frá 04.09.2024 og ítreka nauðsyn þess að farið verði í rannsóknir og undirbúning Suðurfjarðaganga sem allra fyrst. „Brýnt er að tryggja öruggar samgöngur milli byggðakjarna i sveitarfélaginu allt árið um kring þar sem um eitt vinnusóknarsvæði er að ræða og umferð mikil um gamla og illafarna fjallvegi.“ segir heimastjórn Tálknafjarðar.

Heimastjórn Arnarfjarðar segir í sinni ályktun að íbúar „á Bíldudal búi við verulegar takmarkanir á samgöngum yfir vetrartímann þar sem yfir 530 metra háan fjallveg er að fara á Hálfdán og oft erfið færð þar en sækja þarf alla neyðarþjónustu læknis og annarra viðbragðsaðila svo sem sjúkrabíls og slökkviliðs yfir þann fjallveg. Í því sambandi má benda á að sjúkrabílar í Vesturbyggð eru staðsettir á Patreksfirði og við bestu aðstæður tekur lágmark 30 mín. að komast til Bíldudals.Auk þess ítrekar heimastjórn Arnarfjarðar nauðsyn þess að tryggja öruggt aðgengi að sjúkraflugi á Bíldudalsflugvelli sem er sjúkraflugvöllur svæðisins.“

Opið fyrir umsóknir í Hafsjó af hugmyndum

Hafsjór af hugmyndum auglýsir styrki til háskólanema vegna lokaverkefna. Styrkupphæð getur numið allt að einni milljón króna fyrir verkefni sem hafa það að markmiði að skapa aukin verðmæti úr sjávarauðlindum eða efla atvinnulíf á Vestfjörðum. Það er sjávarútvegsklasi Vestfjarða sem stendur að baki Hafsjó af hugmyndum og fer Vestfjarðastofa með umsýslu verkefnisins. Sjóðurinn hefur úthlutað styrkjum frá árinu 2020 og hafa mörg spennandi lokaverkefni komið til framkvæmda.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir og er umsóknarfrestur til 21. október. Háskólanemar á grunn- eða framhaldsstigi geta sótt um og hægt er að vinna verkefnin út frá tveimur útgangspunktum. Annað hvort koma sjálf með hugmynd eða vinna að fyrirfram mótuðum hugmyndum frá fyrirtækjum í sjávarútvegsklasa Vestfjarða. Fjölmörg fyrirtæki mynda klasann og auk styrksins er hægt að leita til þeirra um þátttöku, hvort sem hún er fólgin í upplýsingagjöf, hráefnisöflun eða aðstöðu.

Markmiðið með styrkveitingunum er að hvetja til nýsköpunar og skapa tengsl háskólanema og fyrirtækja í gegnum samstarf. Auk þess er verkefnunum ætlað að skapa ný og eftirsóknarverð störf í sjávarútvegi eða tengdum greinum á Vestfjörðum og afla þekkingar um sjávarbyggðir Vestfjarða

Lokaverkefnin geta snúið að verkefnum í náttúru- og tæknigreinum, sem og í viðskipta- og félagsvísindum í tengslum við sjávarútveg. Þau geta því verið unnin á breiðum fræðilegum grunni og innan ólíkra sviða. Styrkirnir eru hugsaðir til að greiða fyrir rannsóknarkostnað, hvort sem það er vegna sýnatöku, mælinga, viðtala eða annars sem viðkemur rannsókninni með beinum hætti.

Hafsjó af hugmyndum má kynna sér betur á vefsíðu Vestfjarðastofu og þar er einnig að finna umsóknarform á íslensku og ensku.

Útsýnisskilti á Ennishöfða

Í sumar voru sett upp útsýnisskilti á Ennishöfða milli Bitrufjarðar og Kollafjarðar  í Strandabyggð. Skiltin eru staðsett á háhálsinum skammt frá þjóðveginum. Um er að ræða tvö skilti, annað til norð vesturs og hitt til suðvesturs staðsett ca 150 m frá þjóðveginum á háhálsinum. Gott bílaplan er og ágætis slóði frá því að skiltunum. Kostnaður er eithvað á aðra milljón kr.

Hönnuður af skiltunum er Árni Tryggvason hönnuður og framkvæmdaaðili Ísak Pétur Lárusson.

Styrktar aðilar að verkefninu með einum eða öðru hætti eru  Arion banki, Andrés G Jónsson , Ágúst Sigurðsson í Stóra Fjarðarhorni, Átthagafélag Strandamanna, Bílaglerið ehf, Broddanes Hostel, Eignatorg ehf, Fiskvinnslan Drangur, Fjallakofinn ehf, GR verk ehf,  Húsalagnir ehf, Ingunn Einarsdóttir, Kaldrananeshreppur, Ljósver ehf, Lúmex ehf, MGhús ehf , Rafport ehf, Reykjafell ehf, Sparisjóður Strandamanna, Torfi Halldórsson á Broddadalsá, Varpland ehf og Þelamörk ehf  auk landeigenda á Broddadalsá og Skriðinsenni er leggja til landið.

Nærmynd af öðru skiltinu.

Útsýnisstaðurinn og horft til norðurs.

Nýjustu fréttir