Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 37

Matti saga af drengnum með breiða nefið

Söguleg saga um bernsku Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði er síðar varð klerkur og skáld, þjóðskáld.

Það var ekki bara að pilturinn Matti hafi verið kallaður drengurinn með breiða nefið, heldur og drengurinn í gráa klútnum. Eða drengurinn í skinnsokknum eða jafnvel drengurinn með breiða nefið. Sjálfur kallaði hann sig bara Matta, Matta Skratta, bætti hann gjarnan við og hló við.

Inn í söguna fléttast fjölmargar persónur úr sagnaarfi Matta. Af þeim nægir að nefna hans þekktasta fír Skugga-Svein, einnig koma við sögu Galdra-Héðinn, Gudda, Jón sterki og meira að segja Ketill Skrækur.


Höfundar bókarinnar eru listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir. Elfar skapar textann en Marsibil myndirnar. Þetta er önnur barnabók þeirra hjóna en fyrri bókin er einnig sótt í bernskuævi listamanns fyrir vestn. Þar er um að ræða bernsku Guðmundar Thorsteinssonar sem var kallaður Muggur. Enda heitir bókverkið Muggur saga af strák.

Eldislax næstur á eftir þorski í útflutningstekjum

Eldislaxi hefur á undanförnum fimm árum skilað næstmestum útflutningstekjum af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi.

Þorskurinn er í fyrsta sæti, loðnan hefur skilað næstmestum útflutningstekjum af öllum fisktegundum á þessari öld.

Síðustu fimm ár hefur laxinn þó tekið fram úr loðnunni.

Þetta kemur fram í skýrslu Radarsins sem er upplýsingasíða um sjávarútveg. Þorskurinn skilar enn sem fyrr langmestum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið og ber raunar höfuð og herðar yfir aðrar fisktegundir í þeim efnum.

Á myndinni hér að ofan sjást útflutningsverðmæti þeirra tíu fisktegunda sem hafa skilað mestum gjaldeyristekjum síðustu fimm árin.

Riddarakross fyrir Selárdal

Forseti Íslands Guðni Th Jóhamesson hefur sæmt Gerhard König myndlistarmann riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu varðveislu íslenskrar menningarsögu.

Gerhard er frá Þýskalandi og hefur í yfir aldarfjórðung unnið að endurreisn Listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal í Arnarfirði. Gerhard kom fyrst í Selárdal sem ferðamaður árið 1997 og varð þegar hugfanginn af staðnum. Í kjölfarið gerðist hann stofnfélagi í Félagi Listasafns Samúels Jónssonar, ásamt hópi Íslendinga. Sama ár hóf hann viðgerðir á listaverkum Samúels og húsum sem hann hefur síðan unnið ötullega að í yfir 70 ferðum vestur. Stendur verkefnið enn yfir.

Með Gerhard í för við athöfnina voru samverkamenn hans í verkefninu, Ólafur Jóhann Engilbertsson, Kári Schram, Ríkharður Kristjánsson og Sigurgeir Þorbjörnsson sem kynnti hann fyrst fyrir Selárdal.

Myndir: forseti.is.

Ný íslensk heimildar-bíómynd sýnd í bókasafninu í Súðavík

Sunnudaginn 4. ágúst n.k. verður sýning á nýrri íslenskri heimildar-bíómynd í bókasafninu á Súðavík, kl: 20:00.

Myndin heitir;  „Draumar, Konur & Brauð“  og fjallar um konur sem reka kaffihús á landsbyggðinni, drauma, þeirra líf og rekstur. Hún var frumsýnd í Bíó Paradís 20. apríl sl.

Myndin var tekin upp í sumarbyrjun 2023, þar sem farin var hringferð um landið í tveim hlutum, en undirbúningur hafði þá staðið yfir í þrjú ár.

Mæðgurnar Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir og Sigríður Hafliðadóttir í Kaffi Litlabæ í Skötufirði, eru fulltrúar Vestfjarða í myndinni.

Frásagnarmátinn er í anda „töfra raunsæis“ og er skrifaður söguþráður, sem bindur saman 5 stuttar heimildamyndir um konurnar.

Tvær ólíkar konur úr Reykjavík,  ferðast saman um landið, hvor með sitt erindi, önnur listakona, hin vísindakona. Þær heimsækja kaffihúsin og í gengum það ferðalag kynnumst við konunum sem þau reka. Þá er kona, sem ætlar að vinna kökukeppni á Sólstöðuhátíð sveitarinnar og spákonu sem fylgist með öllu. Þjóðsögur og minni koma við sögu og tónlist spilar stóran þátt.

Tökur á einu söngatriði fóru fram á Ísafirði 7. Júní 2023 og fram koma þar í mynd, tveir Ísfirðingar;  Torfi Einarsson og Aðalheiður Jóhannsdóttir, sem hér má sjá.

Önnur kaffihús, sem komið var við á eru; Gamla Fjós undir Eyjafjöllum – Heiða Björg Scheving, Kaffi Nesbær í Neskaupstað – Sigríður Þórbjörg Vilhjálmsdóttir, Frida Chocolate á Siglufirði – Fríða Björk Gylfadóttir og Samkomuhúsið á Arnarstapa – Ólína Gunnlaugsdóttir. Fjöldi annarra kemur fram, s.s. Kvennakórinn Ljósbrá, Eygló Scheving söngkona, Steinunn Jónsdóttir söngkona, Erla Ósk Arnardóttir listakona, Þorbjörg á Hala í Suðursveit,  Júlía Hannam leikkona, Juan Camilo, gestir, íbúar sveitafélaganna og fjölskyldur þátttakenda.

Fulltrúar aðstandenda verkefnisins, verða á staðnum og segja frá tildrögum og úrvinnslu verksins í stuttu máli og verða til viðtals á eftir sýningu ef vill.

Það eru þær; Sigrún Vala Valgeirsdóttir og Svanlaug Jóhannsdóttir sem skrifa og leikstýra myndinni ( og leika eining ) ásamt Agnes Eydal, sem leikur eining aðalhlutverk.

Í tilkynningu frá þeim segir að þær hlakki til að sjá sem flesta en aðgangur er án endurgjalds.

Hér er linkur á kitlu: https://vimeo.com/741626470/94764f2154

Samfélagsmiðla: https://www.facebook.com/, https://www.instagram.com/gant_rouge_films/

Vefsíðu: https://gantrougefilms.com/

Um 180 manns á Sturluhátíð

Frá hátíðinni að Laugum

Sturluhátíðin, kennd við sagnaritarann Sturlu Þórðarson var haldin síðasta laugardag í Dölunum. Þrátt fyrir gular veðurviðvaranir, vatnselg, rok og rigningu komu um 180 manns á hátíðina í íþróttahúsinu að Laugum í Sælingsdal.

Fyrr um daginn var afhjúpað söguskilti á Staðarhóli, Saurbæ í Dölum, þar sem sagnaritarinn bjó á sinni tíð. Þau Guðrún Nordal, Sverrir Jakobsson og Óttar Guðmundsson fluttu erindi. Tónlistarflutningur var í höndum Ómars Guðjónssonar og Tómasar Ragnars Einarssonar sem og lestur hins síðarnefnda úr minningarbók sinni.

Að góðum íslenskum sið voru veglegar kaffiveitingar.

Næstu Sturluhátíðar verður að ári að Laugum og væntanlega Staðarhóli líka, laugardaginn 12 júlí 2025.

Formaður Sturlufélagsins er Einar K. Guðfinnsson fyrrv. ráðherra og forseti Alþingis.

Söguskilti afhjúpað.

Guðrún Nordal flytur erindi sitt.

Myndir: aðsendar.

Ísafjarðarkirkja: samkoma með Erni Bárði Jónssyni 24. júlí

Sr. Örn Bárður Jónsson hefur verið settur prestur í Ísafjarðarprestakalli út júlímánuð. Sími sr. Arnar Bárðar er 854-2311 og netfangið er ornbard@gmail.com.

Samkoma verður í Ísafjarðarkirkju miðvikukudaginn 24. júlí kl. 20 með Erni Bárði Jónssyni:

Kaupmannssonur sem varð klerkur, ræðir um lífið og tilveruna, segir frá bernsku sinni og uppvexti á Ísafirði, ræðir kenningar geðlæknisins, Iain McGilchrist, um heilahvelin tvö og hvernig þau virka í okkur; ennfremur gildagrunn Vestrænna þjóða, heimsmálin og trúna í heimi framfara eða eigum við að segja fram-af-fara?

Tónlistarflutningur.

Allir velkomnir.

Forstjóri Mast: rangfærsla að fiskeldi ógni siglingaöryggi

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segir það sé í besta falli rangfærsla að fiskeldi ógni siglingaöryggi í Ísafjarðardjúpi. Ásakanir um slíkt falli um sjálft sig þar sem skilyrði rekstrarleyfisins séu þannig að öryggið sé tryggt.

Þá segir hún alvarlega vegið að heiðri starfsmanna stofnunarinnar með ásökunum um mútuþægni.

Svör Hrannar í heild:

„Í leyfi sem var gefið út varðandi fiskeldi við Eyjahlíð og Óshlíð voru sett ströng skilyrði sem fyrirtækið verður að uppfylla til að tryggja öryggi siglingaleiða. Til að mynda þá er leyfið gefið út með þeim fyrirvara að jaðar sjókvíaeldisstöðvanna skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljós en 50 m í Eyjahlíð og 200 m í Óshlíð eða þá að aðrar mótvægisaðgerðir verða til þess að eldið séu utan hvíts geisla. Á meðan ekki er búið að breyta leiðsögukerfi siglinga um Ísafjarðardjúp, þá er það fyrirtækisins að vinna út úr því hvernig þeir geti nýtt leyfið. Það er því í besta falli rangfærsla að halda því fram að fiskeldi muni ógna siglingaröryggi eða að Matvælastofnun sé að vinna að hagsmunum fiskeldisfyrirtækja fram yfir öryggi og lagaramma.

Til að svara ásökunum um mútuþægni starfsmanna Matvælastofnunar þá tel ég alvarlega vegið að heiðri starfamanna stofnunarinnar þar sem skýrt er að hlutverk stofnunarinnar er að gefa út rekstrarleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum til fiskeldisfyrirtækja. Með þeim skilyrðum sem hafa verið sett í viðkomandi leyfi, þá erum við vissulega að tryggja það að það sé fylgt eftir öllum öryggisþáttum.

Varðandi athugasemd um persónulega ábyrgð starfsmanna Matvælastofnunar, þá er það ávallt á ábyrgð fyrirtækisins að tryggja það að þeirra starfsemi sé innan þess ramma sem þeim er sett og búið er að setja ströng skilyrði inn í leyfin er varðar siglingaröryggi. Að því má því áætla að það fara aldrei út kvíar í sjó sem myndu á einhverjum tíma ógna siglingaröryggi á þessum stað. Því fellur þetta um sjálft sig að mínu mati.“

Landsnet kaupir nýjan sæstreng yfir Arnarfjörð

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets hefur skrifað undir samning við fulltrúa frá Hengtong Submarine Cable um kaup og lagningu á 38,8 km af sæstrengjum. Um er að ræða tvo nýja Vestmannaeyjastrengi og nýjan streng yfir Arnarfjörðinn.  

Lagningarskip kemur til landsins sumarið 2025 og mun leggja alla strengina. Nýju strengirnir  munu bæta afhendingaröryggið á svæðunum til muna. 

Mjólkarárlína 2

Framkvæmdin felst í lagningu nýs 66 kV jarðstrengs  2,4 km frá Bíldudal með fram sunnanverðum Bíldudalsvogi að Haganesi. Nýr 66 kV sæstrengur 11,8 km verður lagður yfir Arnarfjörð fyrir Langanes að Hrafnseyri. Að lokum verður svo lagður 66 kV jarðstrengur frá Mjólká og þangað sem sæstrengurinn kemur í land við  Hrafnseyri.

FRJÓSEMI ALDREI MINNI

Fjöldi lifandi fæddra barna á Íslandi árið 2023 var 4.315 sem er fækkun frá árinu 2022 þegar 4.382 börn fæddust.

Alls fæddust 2.257 drengir og 2.058 stúlkur en það jafngildir 1.097 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Árið 2023 var frjósemi íslenskra kvenna 1,59 og hefur hún aldrei verið minni frá því að mælingar hófust árið 1853.

Árið 2022 var frjósemi 1,67 en það er næst minnsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi. Frjósemi hefur ekki farið upp fyrir 2,0 hér á landi síðan árið 2012 þegar hún var 2,1.

Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,9 ár í

Ný rétt í Kollafirði á Ströndum

Strandabyggð hefur ákveðið að nýrri rétt skuli komið upp í Kollafirði í landi Litla Fjarðarhorns.

Réttin skal vera sömu gerðar og Staðardalsrétt og er stuðst við teikningar og magnskrár úr þeirri framkvæmd. Gerð er krafa um að trésmíðameistari vinni vekið eða að það sé unnið undir stjórn hans.  


Verklýsing sem byggir á ráðleggingum bænda er eftirfarandi:

  • Fjárfjöldi: Varlega áætlað munu koma 4500 -6000 fjár í réttina
  • Gerð réttar: Sundurrekstrargangur með dilkum. Eingöngu fastar grindur í úthring. Það á einnig við um úthringi hvers og eins dilks og úthringi sundurrekstrargangs. Úthringur og allar milligerðir þurfa að vera fastar og ófjarlægjanlegar til að notagildi haldist.  Réttin sé smíðuð úr efni sem gripum stendur ekki hætta af hvorki eitrunarhætta né slysahætta.  Setja þarf upp réttargirðingu.
  • Fjöldi dilka:  9 – 11
  • Hönnun og útfærsla: Öll nánari hönnun og útfærsla réttarinnar skal unnin í samráði við bændur og fulltrúa sveitarfélagsins.  Stuðst verður við teikningar af Staðardalsrétt rétt sem eru aðgengilegar á skrifstofu Strandabyggðar.

Verkinu skal lokið og réttinni fullbúinni og tilbúinni fyrir notkun, 9. september 2024, kl 17.00.

Nýjustu fréttir