Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 37

Skýrsla um þjóðgarð: ekki afstaða stjórnar Vestfjarðastofu

Titilblað skýrslunnar.

Í skýrslu Vestfjarðastofu um þjóðgarða, sem nýlega var birt , segir að ef orðið yrði við erindi Orkubús Vestfjarða um afnám friðunarskilmála á hluta af landi í Vatnsfirði „vegna virkjanahagsmuna myndi það setja ákvarðanatökukerfi íslenska ríkisins í orku- og landnýtingarmálum, fyrrnefnda Rammaáætlun, í ákveðið uppnám.“ og einnig segir :

neikvæð umræða og ólíklega jákvæðar breytingar

„Það verður því alltaf mjög stór pólitísk ákvörðun hjá ráðherra að taka og líklegt að hagsmunaaðilar í náttúruvernd myndu berjast gegn henni í fjölmiðlum og fyrir dómstólum með tilheyrandi neikvæðri umræðu fyrir Vestfirði.“

Þá er að finna þessa afstöðu til nýlegrar lagabreytingar á Alþingi sem umhverfis- orku og loftslagsráðherra beitti sér fyrir og fékk samþykkta: „Í nýjum lögum um Náttúruverndarstofnun nr. 111/2024, færist hlutverk Umhverfisstofnunar til nýrrar Náttúruverndarstofnunar, en þó er ólíklegt að það muni hafa jákvæðar breytingar í för með sér.“

Skýrslan er að mestu unnin af Hjörleifi Finnssyni verkefnastjóra en var lesin yfir af öðrum sérfræðingum Vestfjarðastofu sem og utanaðkomandi ráðgjafa.

ekki afstaða stjórnar

Stjórn Vestfjarðastofu samþykkti á fundi sínum 28. ágúst að birta skýrsluna með þeim fyrirvörum sem ræddir voru á fundinum.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að skýrslan sé sérfræðiálit sem er unnin fyrir Vestfjarðastofu og er innlegg til upplýsinga m.a. í vinnu við svæðisskipulag. „Ekki er um að ræða stefnuskjal stjórnar Vestfjarðastofu sem tekur ekki afstöðu til innihaldsins.“

Aðspurð um fyrirvarana segir hún að þeir hafi verið um heimildir bak við skýrsluna og að fengnum skýringum var skýrslan birt.

 

Athugasemdir vegna greinar Sigurjóns Þórðarsonar varaþingmanns Flokks Fólksins

Á árinu 2020 var fyrirtækið Vestfiskur Flateyri stofnað til þess að búa til störf fyrir samfélagið í Ísafjarðarbæ, fyrirtækið er staðsett á Flateyri með alla sína starfsemi. Nýta átti Aflamark Byggðastofnunar til þess að styðja við verkefnið, ef næðust samningar við Byggðastofnun um það. Samningur við Byggðastofnun er háður ákveðnum skilyrðum sem þarf að uppfylla hvað varðar starfsmannafjölda og fleiri þætti og fer endurskoðun fram árlega áður en til endurnýjunar á úthlutun getur farið fram. Vestfiskur Flateyri hefur frá upphafi fengið áframhaldandi úthlutun enda staðið við þau skilyrði sem sett voru í samningnum við Byggðastofnun. Þeir aðilar sem stóðu að stofnun Vestfisks ehf voru valdir til samninga en samnngur VF hljóðar uppá 400 þíg á hverju ári í 6 ár. Búið er að úthluta 5 sinnum og er nú endurskoðunartími áður en til sjöttu og síðustu úthlutunar kemur. Vonandi stöndumst við þá skoðun.

Í upphafi var lagt af stað með að þrjár stoðir yrðu undir rekstrinum, þurrkun á roði til gæludýrafóðurs, vinnslu á sæbjúgum (þurrkun) til útflutnings til Kína og síðan veiðar á sæbjúgum og þeim bolfiski sem til úthlutunar kæmi úr samningi Byggðastofnunar ásamt þeirri hlutdeild í almenna byggðakvótanum sem kæmi til VF í gegnum veiðarnar. Allir sitja við sama borð þar, en skilyrðin þau að Flateyri þarf að vera heimahöfn viðkomandi. Það má segja að frá upphafi hafi þurrkun á roði gengið ágætlega og að sú vara muni skila okkur góðum tekjum í framtíðinni. Sæbjúgna vinnslan var andvana fædd þar sem að markaðsaðstæður í Kína vorur erfiðar, en VF var stofnað þegar Covid gekk yfir og markaði það djúp spor í framvinduna fyrstu 2 árin. Þetta þýddi að vinnsla og veiðar á sæbjúgum voru ekki arðbærar og að lokum fór svo að útgerðarhlutinn tók til sín meira en hann aflaði og gengur það ekki til langs tíma. Þegar ljóst var að ekki gengi að veiða og þurrka sæbjúgu var brugðið á það ráð að finna nýja stoð, tókst það með því að farið var að þurrka lambahorn, en öll lambahorn sem falla til á Íslandi eru þurrkuð á Flateyri og gengur sú vinnsla vel og hefur gert frá fyrsta degi. Þegar ljóst var að útgerðarþátturinn væri erfiður var ákveðið að ganga til liðs við tvö útgerðarfyrirtæki á Suðureyri sem myndu sjá um veiðar á því aflamarki sem til úthlutunar var og um leið tryggja VF tekjur af því, það var því sett undir þann leka sem myndaðist í útgerðinni. Þetta eru fyrirtækin Norðureyri ehf. og Flugalda ehf.

Í upphafi voru hluthafar VF 5 en eru í dag 4, aðilar sem komu að útgerðarþættinum drógu sig út úr samstarfinu á árinu 2023. Búið er að setja í félagið 359,5 mkr. í hlutafé og hefur það verið gert í áföngum,nú síðast á árinu 2024. 294,5 mkr. koma frá fyrirtækjum á Suðureyri, Klofningi og Fiskvinnslunni Íslandssögu, en rúmar 60 milljónir frá aðilum sem reka lifrarvinnslu suður með sjó. Samstarfið við þá aðila hefur verið afar farsælt.

Á árinu 2020 störfuðu 7 manns hjá VF en á þeim tíma var mikil uppbygging í húsakosti keyptar voru eignir á Hafnarbakka á Flateyri ásamt vélum og tækjum. Á árinu 2021 störfuðu 24, á árinu 2022 voru 23 starfsmenn og á árinu 2023 voru starfsmenn 17. Að jafnaði á árinu 2024 hafa starfsmenn verið 18. Þessi störf voru ekki til á Flateyri þegar VF hóf starfsemi sína.

Í grein Sigurjóns Þórðarsonar Varaþingamanns á þeim tíma sem umræddir samningar voru gerðir kemur fram að hann telji að misfarið sé með þá fjármuni sem aðilum eru afhentir, það eru þung orð að sitja undir. Það er rétt hjá Sigurjóni að um er að ræða fjármuni sem gæta skal að að farið sé vel með. Sigurjón hefur haft tækifæri til þess að rýna þær úttektir sem gerðar hafa verið vegna endurúthlutunar aflamarks Byggðastofnunar. Við höfum ekki fengið símtal frá honum, eða heyrt úr hans ranni einhverjar athugasemdir vegna málsins. Samhliða því að útgerðarþættinum hjá VF lauk var gerð tilraun til þess að flaka steinbít yfir steinbítsvertíðina til þess að hengja upp fyrir innanlandsmarkað.  Samið var við Walvis (Togga) um að sjá um þá vinnslu fyrir okkur í húsnæði sem hann ræður yfir. Ekki fékkst nægjanlegt starfsfólk til þeirrar starfsemi tímabundið, þannig að sú tilraun endaði með því að starfsfólk Fiskvinnslunnar Íslandssögu var flutt á milli Flateyrar og Suðureyrar.

Þá hefur Sigurjón hnýtt í það að úthlutunin sé ekki gegnsæ. Þvert á móti er hún það, við reynum að vinna í því kerfi sem okkur er ætlað að vinna í með þeim kostum og göllum sem því fylgja, tvær síðustu úthlutanir hafa farið á skip í Bolungarvík þar sem að skipt er á heimildum í aflamarki og krókaflamarki, þorskur, ýsa og steinbitur kemur til baka og síðan er skipt á öðrum tegundum. Karfa og ufsa tegundir sem ekki kemur mikið af í krókaflamarkinu og fengnar þær tegundir sem nýtast þar svo sem ýsa, steinbítur, langa og keila. Allt uppi á borðinu og skriflegir samningar við aðila.

Ég vill hvetja Sigurjón Þórðarson til þess að kynna sér hvernig hlutirnir ganga fyrir sig áður en hann fer að saka menn um óheiðarleika við meðhöndlun á samningum við Byggðastofnun um aflamark. Það er okkar skoðun að almenni byggðakvótinn ætti að vera í svipuðum samningum, þar gæti verið um að ræða samninga við strandveiðisjómenn um veiðar á einhverjum heimildum með skilyrðum um hvenær það skal veitt og þess háttar. Til þess að tryggja það að allir fái hlut úr þessum verðmætum, ekki bara útgerðin, heldur líka almennt starfsfólk sem býr á þessum stöðum þar sem að byggðakvóta er úthlutað, með því gæti heildin búið til meiri verðmæti til hagsbóta fyrir það samfélag sem við kjósum að búa í og lifa, með þeim kostum og göllum sem að því fylgja. Slíkir samningar tryggja líka lengra tímabil til veiða fyrir amk hluta strandveiðisjómanna og meiri fyrirsjáanleika. Hornsteinninn í samningum við Byggðastofnun er að tryggja byggðafestu til hagsbóta fyrir alla sem lifa í viðkomandi samfélagi ekki bara einn hluta þeirra.

Óðinn Gestsson,

framkvæmdastjóri Íslandssögu.


 

Bangsi MB 23

Ljósmyndari: Ólafur Árnason

Þessi bátur hét upphaflega Ketill Hængur NS 312 og var smíðaður úr furu í Noregi árið 1918.

Veturinn 1932 var hann seldur til Seltjarnaness og fékk nafnið Bangsi GK 75. Sumarið 1937 var hann seldur Ólafi B. Björnssyni á Akranesi, hélt nafninu en fékk einkennisstafina MB 23. Báturinn var lengdur árið 1940, og kannski er þessi mynd tekin þá?

Einar Guðfinnsson í Bolungarvík keypti Bangsa í nóvember árið 1943 og þá fékk hann einkennisstafina ÍS 80.

Bangsi fórst út af Rit í ofsaveðri 15. janúar 1952 og með honum tveir menn. Þremur mönnum var bjargað af björgunarskipinu Maríu Júlíu. (Heimild: Íslensk skip e. Jón Björnsson, 2. bindi).

Af vefsíðu Ljósmyndasafns Akranes

Tillaga um Húnavallaleið lögð fram á Alþingi

Þingmennirnir Njáll Trausti Friðbertsson og Ásmundur Friðriksson hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um Húnavallaleið.

Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að fá Vegagerðinni það hlutverk að uppfæra forsendur fyrir uppbyggingu Húnavallaleiðar og hefja samtal við Húnabyggð um hvort Húnavallaleið verði bætt við sem nýframkvæmd í samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038.

Jafnframt á að meta hvort heppilegt sé að Húnavallaleið verði samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila í samræmi við lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, nr. 80/2020

Tillagan var lögð fram á 154. löggjafarþingi (302. mál) en var ekki afgreidd.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: „Markmiðið með lagningu nýs vegar væri, ásamt vegabótum, að stytta núverandi leið milli Reykjavíkur og Akureyrar. Umferðaröryggi myndi batna verulega vegna betri hæðar- og planlegu auk þess sem tengingum myndi fækka til muna. Núverandi vegur er 30,4 km langur og liggur frá Brekkukoti í Þingi, norður í gegnum Blönduós og að stað skammt austan við heimreið að bænum Skriðulandi í Langadal. Kaflinn frá Brekkukoti í Þingi og um Blönduós er ágætur. Aftur á móti er kaflinn frá Blönduósi og um norðanverðan Langadal mjór og hlykkjóttur, uppfyllir ekki kröfur um sjónlengdir samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og er einn hættulegasti vegarkaflinn milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fjöldi vegtenginga og vegamóta (a.m.k. 26 talsins, auk tenginga inn á tún) liggur að veginum og er slysatíðni há. . . .   

Talið er að Húnavallaleið sé ein arðsamasta framkvæmd í vegagerð sem mætti ráðast í á Íslandi. Hringvegurinn yrði styttur um 14 km. Um 1.000 ökutæki fara þarna um á degi hverjum og vegfarendur kæmust leiðar sinnar á nýjum og öruggum 17 km vegi í stað rúmlega 30 km á núverandi hringvegi sem er ekki mjög breiður og liggur í gegnum þéttbýli.“

Fullur salur á Haustdegi Gott að eldast

Haustdagur Gott að eldast fór fram á dögunum en þar kom saman fólk héðan og þaðan af landinu sem tekur þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu. 

Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög voru í fyrra valin til þátttöku í verkefnunum og á haustdeginum hittist fólk af öllum svæðunum í fyrsta skipti.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og sveitarfélögin Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Vesturbyggð var eitt þessara sex svæða sem valið var til þátttöku

Með aðgerðaáætluninni Gott að eldast taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Ein meginaðgerð áætlunarinnar er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.

Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir hvað þetta varðar og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Öll þjónusta fyrir eldra fólk í heimahúsum er þá á hendi eins aðila.

Haustdagurinn var fyrir starfsfólk þeirra svæða sem taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta þjónustu og kynnti það hvert fyrir öðru hvernig gengið hefði og hvað væri fram undan í vetur.

Refarannsóknir kynntar í Melrakkasetri

Ester Rut Unnsteinsdóttir Ph.D. í spendýravistfræði og refagengið ICEFOX (rannsóknarhópur) verða með áhugaverða kynningu á Melrakkasetrinu í Súðavík mánudaginn 30. september 2024 kl. 20-22.

Ester Rut er spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og kom að stofnun Melrakkasetursins og sat í stjórn félagsins um árabil og hefur sinnt refarannsóknum á Hornströndum með meiru.

Rannsóknin sem sagt verður frá hefur það markmiði að vinna stofnlíkan sem lýsir stofnvistfræði tegundarinnar á mismunandi landsvæðum.

Unnið hefur verið með veiðigögn (veiðitölur) og úrvinnslugögn (hræ frá veiðimönnum) ásamt því að fylgjast með ferðum dýra með senditæki.
Áhersla er lögð á þrjú landsvæði, N-Ísafjarðarsýslu, N-Múlasýslu og Árnessýslu og hittist hópurinn árlega einu þessara svæða til fundar og samstarfs. Nú mun hópurinn hittast á Vestfjörðum til að vinna saman í niðurstöðum og greinaskrifum.
Fulltrúa sveitastjórna, og veiðimenn, sem eru lykilaðilar vegna fyrirkomulags refaveiða og vöktunar refastofnsins ættu ekki að láta þennan fund fram hjá sér fara.

Náttúrufræðistofnun leiðir rannsóknarverkefni sem styrk er af Rannís og kallast ICEFOX en það fjallar um stofngerð íslenska refsins. Samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Moncton fylki í Kanada.

Klettháls: samið um snjómokstur til þriggja ára

Klettháls í dag frá myndavél Vegagerðarinnar. Séð til suðurs.

Vegagerðin gekk í síðasta mánuði frá samningi við Flakkarann ehf á Brjánslæk um vetrarþjónustu, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir með vörubifreið, á Vestursvæði, á leiðinni Dynjandi – Klettsháls. Samningurinn er til þriggja ára með heimild um framlengingar til tveggja ára, eitt ár í senn og nær til þjónustu bæði á Dynjandisheiði og frá Flókalundi að Kletthálsi austanverðum.

Þjónustan er með vörubíl með tönn, bíllinn á að vera staðsettur skv. gögnum í Flókalundi. Akstur vörubifreiða á snjómokstursleiðum er áætlaður 18.000 km á ári.

Tilboð voru opnuð í mars sl. og bárust tvö tilboð. Flakkarinn ehf bauð 73.860.000 kr. og Þotan ehf 115.950.000 kr.

Áætlaður verktakakostnaður var 98.665.185 kr. fyrir öll þrjú árin.

Á Klettháls er vetrarþjónustan til kl 17:30 og segir í svörum Vegagerðarinnar að þjónustutíminn miðist við að vörubíllinn sé í Flókalundi.

Uppfært 19.9. kl 08:49. Um var að ræða eitt útboð fyrir Dynjandisheiði og að Klettháls samkv. svörum Vegagerðarinnar.

Krosseyri: deiliskipulagstillaga að heilsusetri samþykkt

Heimastjórn Arnarfjarðar hefur samþykkt  tillögu að deiliskipulagi á Krosseyri í Geirþjófsfirði og að málsmeðferð verði samkvæmt 42. grein skipulagslaga nr. 123/2010. Það þýðir að sveitarfélagið mun senda Skipulagsstofnun hið samþykkta deiliskipulag samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær.  Telji Skipulagsstofnun að form- eða efnisgallar séu á deiliskipulagi sem henni er sent skal hún tilkynna sveitarstjórn um að stofnunin taki það til athugunar.Sveitarstjórn skal taka athugasemdirnar til umræðu og gera nauðsynlegar breytingar hvað varðar athugasemdir um form deiliskipulags. Fallist sveitarstjórn ekki á athugasemdir Skipulagsstofnunar um efni deiliskipulags skal hún gera rökstudda grein fyrir ástæðum þess. Birta skal auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda innan árs.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti deiliskipulagið í mars sl. en fram komu athugasemdir frá Náttúrurfræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun og voru gerðar breytingar á deiliskipulagstillögunni til þess að koma til móts við þær.

Bætt var við ákvæðum um að svæðið verður þjónustað sjóleiðina s.s. með efni til bygginga, mat og vistir o.fl. Sorp og annar úrgangur verður einnig fluttur sjóleiðina frá staðnum. Einnig ákvæði um að ekki er gert ráð fyrir að tengja svæðið við rafveitu heldur verða sólarsellur nýttar til að afla rafmagns. Raflýsingu á svæðinu skal halda í lágmarki, en beina henni niður þar sem hún er. Ennfremur var bætt við að ýtrustu umhverfissjónarmiðum skuli fylgt á svæðinu og skulu vatnsveitu-, fráveitu- og úrgangsmál vera í samræmi við lög og reglugerðir.

Þá var að kröfu Umhverfisstofnunar bætt við ákvæði sem gerir skylt er að óska framkvæmdarleyfis, eða eftir atvikum byggingaleyfis, vegna allra framkvæmda. Sérstaklega sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort framangreint skilyrði sé uppfyllt.

Jarðareigendur hafa hug á að nýta sér sérstöðu kyrrðar og friðsældar í þessu einangraða og sérstaka umhverfi. og reisa á jörðinni heilsusetur, þar sem fólk getur komist frá því ysi og þysi sem er í nútímasamfélagi. Geirþjófsfjörður er ekki í vegasambandi en hægt er að komast í Trostansfjörð, sem er næsti fjörður við Geirþjófsfjörð. Ofan af veginum á Dynjandisheiði má sjá í Geirþjófsfjörð og ganga þaðan niður.

Krosseyri fór í eyði árið 1945 en var lengi nytjuð frá Bíldudal.

Deiliskipulagssvæðið er um 4.2 ha að stærð og er staðsett á Krosseyri við Geirþjófsfjörð og upp hlíðina frá henni. Á jörðinni er skráð 77,4 fm íbúðarhús byggt 1936.

Innviðaráðherra: forgangsröðun breikkunar í Vestfjarðagöngum tók tillit til áhættu á bruna í einbreiðum göngum

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. Mynd: visir.is

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra sagði á Alþingi á mánudaginn í svari við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþm. að forgangsröðun jarðganga sem ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi á síðasta þingi hefði tekið mið af mati á áhættu á eldsvoða í bíl í einbreiðum göngum. Í tillögunni er breikkun Breiðadalshluta Vestfjarðaganga sett í 6. sæti á forgangslistanum sem tók til 10 jarðganga.

Ráðherrann viðurkenndi hins vegar að ekki væri til sérstök áætlun um varaleiðir vegna bruna en í flestum tilfellum væri um slíka leið að ræða. Það væri svo fjallað í áhættumats- og viðbragðsáætlun hverra ganga um þörf á varaleiðum.

Í svörum ráðherra kom fram að viðbragðsáætlun hefði verið gerð fyrir hver göng þegar þau voru tekin í notkun og að áætlunin væri uppfærð á fimm ára fresti. Ábyrgð á því að slökkviliðsæfingar séu haldnar liggi hjá sveitarfélögum og slökkvilið á hverjum stað beri ábyrgð á því að móta brunavarnaráætlun þar sem m.a. er tekið á brunavörnum í jarðgöngum, þar með talið búnaði og þjálfun slökkviliðsmanna. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur eftirlit með og samþykkir brunavarnaráætlun. Stofnunin tók út öll slökkvilið landsins árið 2022 og gaf út skýrslu um það.

Ferðafélag Ísfirðinga: Arnarnúpur – 2 skór

Sunnudaginn 22. september

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið frá Sveinseyrarvatni sem leið liggur upp Sveinseyrarhvilftina, upp á Arnarnúpinn, hæð 558 m. Gengið meðfram fjallsbrúnum og notið stórfenglegs útsýnis, m.a. yfir hinn undurfagra Keldudal.
Vegalengd: u.þ.b. 8 km, göngutími: 5 klst., hækkun: 550 m.

Nýjustu fréttir