Síða 37

Dynjandisheiði lokuð – óvissustig á öðrum fjallvegum

Dynjandisheiði er lokuð í dag samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og veður hún ekki opnuð í dag. Á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum er óvissustig  til kl. 08:00 á morgun 6. febrúar og getur vegurinn því lokast með stuttum fyrirvara.

Hálka eða snjóþekja með skafrenningi og éljagangi er á flestum leiðum. En eitthvað er um þæfingsfærð.

Veðurspáin er ekki góð næsta sólarhringinn. Veðurstofan birtir þetta um horfurnar:

Vaxandi sunnanátt, 20-30 m/s seint í dag og hviður yfir 40 m/s. Talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hlýnar í veðri, hiti 2 til 9 stig í kvöld. Hægari um tíma í nótt. Sunnan 23-30 í fyrramálið og talsverð rigning, en mun hægari og snjókoma á Vestfjörðum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun, fyrst vestantil. Suðvestan 10-18 annað kvöld, él og hiti nálægt frostmarki.

Sterkar Strandir – Síðasti fundurinn

Lokaíbúafundur Sterkra Stranda verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 20. febrúar nk. kl. 18:00. Ráðgert er að fundi verði slitið um kl 20:40. Fundarstjóri verður Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum. 

Á fundinum verður farið yfir það helsta í verkefninu. Verkefnisstjórn Sterkra Stranda hvetur íbúa til góðrar mætingu á fundinum. 

Rétt er einnig að benda á að Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur undanfarna daga haft samband við íbúa Strandabyggðar vegna könnunar um viðhorf íbúa til verkefnisins.

Mikilvægt er að ná sem mestu svarhlutfalli í könnuninni til að varpa ljósi á stöðu byggðarlagsins í lok verkefnis að mati íbúa. Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.

Ef það er ekki búið að hafa samband við þig en þú vilt taka þátt þá má hafa samband við Helgu Einarsdóttur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Vitundarvakning Krafts – fjáröflun

Nú stendur yfir til 12. febrúar átakið – Lífið er núna húfa 2025 – á vegum Krafts, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Fjáröflun er með sölu á veglegum húfum sem sækja innblástur í hönnun listakonunnar Tótu Van Helzing. Tóta var félagsmaður í Krafti. Hún er þekktust fyrir peysurnar sínar sem liggja á mörkum tísku, handverks og listar þar sem blandað er saman mismunandi áferðum í prjóni og garntegundum eins og segir í kynningu.

Húfan er fáanleg í tveimur útgáfum, appelsínugul með fallegu prjónamynstri og svört með hvítu munstri.

Húfurnar eru úr 50% ull og 50% endurunnu nylon.

Húfurnar fást einnig í völdum verslunum Krónunnar, Hagkaups og Rammagerðarinnar.

Hér má panta Lífið er núna húfa 2025 – Kraftur

Verð 5.900 kr.

Allur ágóði af sölu rennur beint í starfsemi Krafts.

Birnir Snær í u15 landsliðið í körfu

Birnir Snær á vellinum. Mynd: aðsend.

Fimm yngri landslið Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, munu koma til æfinga í febrúar. Eru það U15 ára og U16 ára stúlkna og drengja sem og U18 ára lið drengja. 

Dino Stipcic þjálfari U15 karla hefur valið Birnir Snær Heiðarsson leikmann Vestra í 24 manna úrtakshóp U15 landslið karla hjá KKÍ en 12 leikmanna lokahópur mun taka þátt í Norðurlandanótinu í Finnlandi í ágúst nk.

Lífshlaupið ræst í dag

Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands vekur athygli á að Lífshlaupið heilsu- og hvatningarverkefnið verður ræst í átjánda sinn, miðvikudaginn, 5. febrúar kl. 12:30 í Hringsalnum á Landspítalanum við Hringbraut.

Þessir aðilar munu ávarpa á setningunni:

  • Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ 
  • Alma Möller, heilbrigðisráðherra
  • Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra
  • Guðrún Aspelund, settur landlæknir
  • Eygló Fanndal Sturludóttir, afreksíþróttakona í lyftingum og læknanemi

Kynning á heilsueflandi efni heilsuteymis LSH

  • Guðrún Día Hjaltested, starfsmannasjúkraþjálfari

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna. Markmið þess er að hvetja landsmenn til að gera hreyfingu að föstum lið í sínu lífi, hvort sem er í frítímanum, í vinnunni, í skólanum eða við val á ferðamáta. Lífshlaupið er góður vettvangur fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig, skrá hreyfinguna, hafa yfirlit og setja sér markmið. Að auki þá getur verkefnið skapað  skemmtilega stemningu á vinnustöðum og í skólum sem keppa sín á milli og innan vinnustaða. Aðalmarkmiðið er að fá sem flesta til að hreyfa sig sem oftast á meðan á keppninni stendur. Stuðst er við ráðleggingar um hreyfingu frá embætti landlæknis. 

Lífshlaupið skiptist í fjóra keppnisflokka í keppninni:

  • Vinnustaðakeppni frá 5. – 25. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • Framhaldsskólakeppni frá 5. – 18. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (tvær vikur)
  • Grunnskólakeppni frá 5. – 18. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • Hreystihópar 67+ (nýr keppnisflokkur) frá 5. – 25. febrúar (þrjár vikur)

Til þess að taka þátt í keppninni þarf að skrá sig til leiks á heimasíðu Lífshlaupsins, www.lifshlaupid.is og skrá hreyfinguna.
Samstarfsaðilar Lífshlaupsins eru embætti landlæknis, mennta- og barnamálaráðuneytið og RÁS2.
Þau fyrirtæki sem gefa vinninga eru: Móðir Náttúra, Mjólkursamsalan, Primal Iceland, Skautahöllin í Laugardal, World Class, Klifurhúsið, Lemon og Unbroken.

Alþingi: Ellert Schram minnst

Minningarorð

starfsaldursforseta Alþingis, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur,

á þingsetningarfundi 4. febrúar 2025 um

Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismann


Ellert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, lést aðfaranótt 24. janúar, 85 ára að aldri. Hann var fæddur í Reykjavík 10. október 1939, sonur hjónanna Björgvins Schram, stórkaupmanns, og Aldísar Brynjólfsdóttur, húsmóður.

Að loknu stúdentsprófi var Ellert við nám í Lundúnum um eins árs skeið en sneri sér síðan að laganámi við Háskóla Íslands og lauk því árið 1966.

Ellert var fyrst kjörinn á Alþingi 31 árs gamall við þingkosningar 1971, sem mörkuðu viss þáttaskil í stjórnmálum, og var þá yngstur þingmanna. Hann hvarf síðast úr sölum Alþingis í janúar 2019 sem varaþingmaður, á áttugasta aldursári, elstur þeirra sem setið hafa á þingi. Á því tímabili sat hann sem aðalmaður á 16 þingum; 1971–1979, 1984–1987 og 2007–2009, og á þrem þingum sem varamaður.

Ellert gekk ungur til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, var forustumaður í ungliðahreyfingu flokksins og naut stuðnings hennar til setu á framboðslistanum í Reykjavík. Ellert lét talsvert að sér kveða í þingsölum en eftir þingkosningar 1983 taldi hann sig ekki fá það traust til forystustarfa sem sanngjarnt væri og varð þá smám saman viðskila við flokk sinn, hætti þingmennsku og gekk síðar í raðir Samfylkingarinnar. Á hennar vegum var hann kosinn þingmaður á ný 2007.

Ellert B. Schram varð landskunnur á yngri árum sem knattspyrnumaður í KR og landsliði Íslands. Hann var vinsæll samherji jafnt sem mótherji, snjall íþróttamaður og prúðmenni á velli. Síðar á ævinni var hann forseti Knattspyrnusambands Íslands í 16 ár og Íþróttasambands Íslands í önnur 16 ár. Eru þá ótalin margvísleg félagsmálastörf hans, í námi, í starfi og á öðrum vettvangi.

Á skólaárum vann Ellert við blaðamennsku og ýmis störf en varð eftir lagapróf skrifstofustjóri borgarverkfræðings fram að því að hann settist á þing. Árið 1980 varð hann ritstjóri Vísis og síðar DV fram til 1996. Ellert ritaði margt og eftir hann liggja bækur, bókarkaflar og fjöldi greina um ólík málefni. Hann gat sér gott orð hvar sem hann kom að verki, enda var Ellert kappsamur og ráðagóður, sanngjarn og velviljaður.

Dynjandisheiði: veglína óklár í Vatnsfirði

Kort af mögulegum veglínum. Vegageðin mælir með F eða F3 í þveuninni.

Í svörum frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að ekki er búið að velja endanlega veglínu í Vatnsfirði við Breiðafjörð. Fyrir liggja valkostirnir sem voru kynntir í umhverfismati en ekki er búið að taka endanlega afstöðu til veglínu og var því frestað svo það myndi ekki tefja framkvæmdir yfir Dynjandisheiði.   Vegagerðin reiknar með að skoða þetta mál á árinu.

Vegagerðin lagði til að þverað yrði yfir Vatnsfjörðinn í stað þess að fara fyrir fjörðinn eins og núverandi vegur liggur.

Við það myndi Vestfjarðavegur styttast um 3,7 km. Það er mat Vegagerðarinnar að þverunin myndi auka öryggi vegfarenda en vera kostnaðarsamari en endurbygging vegarins fyrir Vatnsfjörð. Þá segir Vegagerðin að ekki sé mögulegt „að nota núverandi veg óbreyttan nema tímabundið, því fyrr eða síðar kemur að því að breikka þurfi veginn og byggja nýjar brýr á Þingmannaá, Vatnsdalsá og Pennu. Einnig þarf að ráðast í öryggisaðgerðir við Hótel Flókalund.“

Sveitarfélagið Vesturbyggð lagðist gegn þverun Vatnsfjarðar og taldi hana myndi rýra gildi friðlýsingar Vatnsfjarðar og skerða ásýnd svæðisins. Núverandi veglína ásamt úrbótum við Flókalund væri hagkvæmari og skynsamari kostur. Ávinningur af þverun væri lítill.

Samgöngufélagið gekkst á árinu 2021 fyrir könnun um þverun Vatnsfjarðar. Tæplega 400 manns tóku þátt í könnuninni og reyndist þátttakendur fremur hlynntir þverun Vatnsfjarðar.

Vegagerðin leggur fram tillögu til sveitarfélaganna um veglínuna en sveitarfélögin hafa skipulagsvaldið.

Gallup: óbreytt í Norðvesturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í nýjustu könnun Gallup í Norðvesturkjördæmi.

Í könnun Gallup í janúar fyrir Ríkisútvarpið um fylgi við stjórnmálaflokkana er engin breyting á skiptingu kjördæmakjörinna þingmannatölu frá því sem var í Alþingiskosningunum 30. nóvember 2024. Sex flokkar fá eitt þingsæti hver. Þá fékk Flokkur fólksins jöfnunarsæti kjördæmisins en í Gallup könnuninni er ekki gefið upp hvaða flokkur myndi fá það, en þó ljóst að það yrði ekki Flokkur fólksins.

Flokkur fólksins missir 5,5%

Helstu breytingar á fylgi flokkannna frá kosningum eru þær að Flokkur fólksins missi 5,5% fylgi og mælist með 11,2% í stað 16,7%. Miðflokkurinn tapar einnig fylgi og fær 12,8% sem er 2% minna en í alþingiskosningunum.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur, hann bætir við sig 2,3% og mælist með 20,3%. Sósíalistaflokkurinn fær 6,7% fylgi í Gallup könnuninni en fékk 3,4% í alþingiskosningunum.

Að öðru leyti eru litlar breytingar.

Gallup könnunin er byggð á svörum frá 4.450 manns í janúar, þar af eru 354 svör í Norðvesturkjördæmi. RUV hefur sent Bæjarins besta niðurstöðu könnunarinnar sundurliðað eftir kjördæmum.

Auðunn ÍS 110

Auðunn ÍS 110 ex Arney KE 50. Ljósmynd Olgeir Sigurðsson

Auðunn ÍS 110 hét áður Arney KE 50 og var keyptur til Ísafjarða síðla árs 1992.

Upphaflega hét báturinn Ársæll Sigurðsson GK 320 og var með heimahöfn í Hafnarfirði. Smíðaður í Brattavogi í Noregi árið 1966 fyrir Ársæl s/f í Hafnarfirði. 

Festi hf. í Grindavík keypti bátinn árið 1970 en sjö árum síðar kaupa Óskar Þórhallsson og Dagur Ingimundarson og nefna Arney KE 50.

Báturinn var yfirbyggður og skipt um brú á Akureyri 1982.

Eins og áður segir var Arney seld til Ísafjarðar og kaupandi var Eiríkur Böðvarsson og fjölskylda.

Vorið 1996 keypti Bakki í Bolungarvík bátinn sem fékk nafnið Nansen ÍS 16 en um haustið sama ár var báturinn seldur austur á Hornafjörð.

Þar fékk hann nafnið Steinunn SF 10 og kaupandi Skinney hf. þar í bæ.

Sumarið 2001 keypti Sólborg ehf. í Stykkishólmi Steinunni og fékk báturinn nafnið Ársæll SH 88

Í ársbyrjun 2006 kaupir Fiskvinnslan Kamur ehf. á Flateyri Ársæl og fékk hann nafnið Dúi ÍS 41. Um haustið sama ár var báturinn seldur til Þorlákshafnar þar sem hann fékk nafnið Ársæll ÁR 66.

Þar var hann næstu tíu árin, fyrst gerður út af Humarvinnslunni, síðar Atlantshumri ehf, og að lokum Auðbjörgu ehf.

Eftir að Skinney – Þinganes keypti Auðbjörgu árið 2016 fór Ársæll ÁR 66 í brotajárn ásamt Arnari ÁR 55 í ágúst 2017.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Fuglainflúensa í ref

Mórauður geldsteggur í Miðdal í Hornbjargi sumarið 2022, með leifar af vetrarfeldi á skotti og síðum. – Ljósm. Ester Rut Unnsteinsdóttir

Í síðustu viku bárust Matvælastofnun niðurstöður rannsókna Tilraunastöðvar HÍ að Keldum á sýnum sem tekin voru úr ref sem aflífaður var í Skagafirði fyrr í vikunni.

Íbúi sá refinn og tók eftir að hann var augljóslega veikur; mjög slappur, hreyfði sig lítið og var valtur á fótunum.

Tilkynnt var um refinn til Matvælastofnunar, reyndar refaskyttur voru fengnar til að aflífa hann, hræið sent til rannsókna á Keldum og greindist hann með fuglainflúensu af gerðinni H5N5. Í ljósi þessa vill Matvælastofnun biðja fólk að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum eða óeðlilegri hegðun í refum og láta stofnunina vita ef það verður vart við veika eða dauða refi.

Rétt er að benda á að fleiri spendýr, svo sem rottur og mýs, geta líka smitast af fuglainflúensu, þótt veiran hafi ekki greinst hingað til í þessum dýrategundum hér á landi. 

Nýjustu fréttir