Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 36

Nýr samn­ingur um samþætta heima­þjón­ustu undirritaður

Heil­brigð­is­stofnun Vest­fjarða og Vest­ur­byggð hafa gengið til samn­inga um rekstur samþættrar heima­þjón­ustu í sveit­ar­fé­laginu.

Samn­ing­urinn er hluti af verk­efninu Gott að eldast, aðgerða­áætlun stjórn­valda í málefnum eldra fólks.

Heilbrigðisstofnun mun taka að sér rekstur heimastuðnings í samstarfi við sveitarfélagið. Lögð verður áhersla á persónumiðaða nálgun þar sem fagmenn vinna saman í teymisvinnu. Þjónustugátt verður ein, sem þýðir að allar beiðnir um þjónustu fara í gegnum eitt kerfi og mat á þeim verður sameiginlegt verkefni félags- og heilbrigðisstarfsfólks.

Markmiðið með verkefninu er að auka gæði þjónustu fyrir eldra fólk, minnka líkur á að fólk falli á milli þjónustukerfa og fækka innlögnum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Með samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan verði í einu flæði og að brugðist sé fljótt við breyttum þörfum notenda.

Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í átt að betri og skilvirkari þjónustu við eldra fólk í Vesturbyggð, þar sem hámarks nýting fjármuna er tryggð án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Vonir standa til um að þessi samþætta heimaþjónusta muni leiða til betri lífsgæða fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.

Örnukeppnin – hjólreiðakeppni á Vestfjörðum í næstu viku

Þann 24. júlí munu 40 hjólreiðakappar víðs vegar að úr heiminum taka þátt í hjólreiðakeppni sem nú er haldin í þriðja sinn: þeir munu á fimm dögum hjóla 956 kílómetra leið um Vestfirði, í sumarbirtu allan sólarhringinn. Keppnin hefst á Silfurtorgi á Ísafirði klukkan 7:00 að morgni.

Keppnin nefnist Arna Westfjords Way Challenge og ArcticFish Midnight Special 2024.

Keppnin tekur fimm daga og er sú fyrsta sinnar tegundar segir í fréttatilkynningu. Keppninni er ætlað að tengja samfélag og þátttakendur. Hjólreiðakappar eru hvattir (og skyldaðir) til að koma við á „menningarlegum viðkomustöðum“ svo sem heitum laugum, kaffihúsum eða söfnum, líta upp og njóta aðeins og á þann hátt berst fjörið í keppnis vikunni um allt svæðið! Á meðan stöðvast tímatakan.

Hjólreiðafólkið kemur við á yfir 20 menningarlegum viðkomustöðum í vikunni, meðal annars kaffihúsinu í Litlabæ, fjölskyldureknum dýragarði að Hólum í Búðardal, heitum laugum svo sem Reykjafjarðarlaug og Dynjanda og Svalvoga þar sem vegurinn liggur í flæðarmálinu. Keppninni lýkur fyrir framan Edinborg (Pollgötumegin) þar sem verðlaunaafhending fer fram innandyra, afrekum verður fagnað fram eftir kvöldi.

Stærsti styrktaraðili keppninnar er Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur og dregur keppnin nafn sitt af þeim. ArcticFish styrkir keppnina einnig rausnarlega og ber lokakeppnin nafn þeirra ArcticFish Midnight Special. Aðrir styrktaraðilar eru Reiðhjólaverslunin Berlín, Hótel Ísafjörður,Borea Adventures, Kaffitár, Corsa, Oddi, Collab Hydro og Grainy Foods.

Frekari upplýsingar koma fram á cyclingwestfjords.com, Facebook og Instagram.

Listahátíð Samúels um helgina

Listahátíð Samúels verður haldin að Brautarholti í Selárdal í Arnarfirði á vegum Félags um listasafn Samúels helgina 19.-21. júlí. Guðni Rúnar Agnarsson verður með athöfn í kirkjunni á föstudagskvöldinu og Elfar Logi Hannesson verður þá með leiðsögn að Uppsölum. Margir listamenn munu taka þátt. Krummi Björgvins,
Skúli mennski og fleiri tónlistarmenn koma fram í kirkjunni auk þess sem Einar Már Guðmundsson verður með sögustund og Kraftgalli verður með dj-sett. Loji Höskuldsson og Þorvaldur Jónsson opna sýninguna Á leiðarenda í listasafninu. 

Á þessu ári eru 140 ár frá fæðingu Samúels og verða lesnar upp nokkrar sögur  sem birtast í bókinni Steyptum draumum sem fjallar um líf og list Samúels. Sýnd verður samnefnd kvikmynd Kára G. Schram og Ólafs J. Engilbertssonar. 

Boðið verður upp á leiðsögn um verk Samúels, bæði höggmyndir og málverk  og Gerhard König segir frá viðgerðum á verkunum. 

Á laugardagskvöldinu verður brekkusöngur við ströndina. Boðið verður upp á gönguferðir með leiðsögn í Verdali og Vatnahvilft. Flugdrekasmiðja fyrir fjölskyldur verður einnig í boði. Aðgangur er kr. 12.000 og er innifalin súpa á föstudagskvöldinu og ljúffengur kvöldverður á laugardagskvöldinu. 

Miðasala er á tix.is.

Drangsnes: 20. bryggjuhátíðin um helgina

Bryggjuhátíðin á Drangsnesi verður um helgina og hefst á föstudaginn og stendur fram á sunnudag. Er þetta 20. hátíðin og er haldin nú eftir nokkurt hlé.

Aðaldagskráin verður á laugardaginn. Meðal dagskrárliða er hið vinsæla sjávarréttarsmakk sem kvenfélagið Snót býður upp á og hefst það kl 12. Markaðsstemming verður við Aðalbrautina, markaðstjald, hamborgarabúlla, hoppukastali o.fl. tónlistaratriði og Strandahestar verða á svæðinu.

Boðið verður upp á siglingu út í Grímsey, ljósmyndasýning í Grunnskólanum, Skíðafélag Strandamanna býður upp á skotfimi og svo verður landsleikur í knattspyrnu milli Drangsness og Hólmavíkur.

Kvöldskemmtun verðu í samkomuhúsinu Baldri og hefst hún kl 20:30 og brekkusöngur að henni lokinni sem Ragnar Torfason leiðir. Ball verður að því loknu og hljómsveitin Meginstreymi leikur fyrir dansi.

Vikuviðtalið: Bragi Þór Thoroddsen

Ég heiti Bragi Þór Thoroddsen og er fæddur í Reykjavík 7. október 1971. Ég er einn fjögurra bræðra, sonur hjónanna Úlfars B. Thoroddsen frá Patreksfirði og Helgu Bjarnadóttur frá Litlu-Eyri, Bíldudal. Ég er giftur Selmu Guðmundsdóttur, sem er menntaður leikskólakennari sem starfar sem listamaður. Við eigum tvo syni, Guðmund Agnar ´01og Úlfar ´06, en ég fyrir Jóhann Úlfar ´92 sem við eigum þó að jöfnu.

Ég bjó fyrstu æviárin í Reykjavík en flutti með fjölskyldu minni til Patreksfjarðar að ég held 1974 eða 1975. Fyrstu árin á Patreksfirði bjuggum við á neðri hæðinni í Urðargötu 23 sem stendur beint fyrir ofan höfnina, sem hafði snemma aðdráttarafl fyrir strák í sjávarþorpi. Á þessum tíma var fjöldi stórra vertíðabáta og á tíma tveir togarar auk líflegrar smábátaútgerðar sem hefur einkennt Patreksfjörð lengi. Það var fram að tíma Verbúðarinnar. Með fyrstu minningum mínum á Patró er frá róló (sem síðar varð leikskólinn Araklettur) en þar vann Helga mamma mín stóran hluta ævistarfs síns.

Fyrstu skólaárin mín var óvenju stór árgangur á Patreksfirði, árgangur´71. Okkur var skipt upp í tvo bekki fram á efstu árin í grunnskóla, en við vorum 33 eða 34 þegar best lét. Ég var hlérægur og frekar feiminn sem barn og skólinn var oft áskorun, enda gekk sitthvað á í okkar ágæta þorpi. Áhugaverðir krakkar, kennarar og starfsfólk í skólanum sem jafnan hafa áhrif á það hvert leið okkar liggur í lífinu. Og minningarnar eru flestar ljúfar frá þessum tíma þó annað hafi markað á annan hátt. En mér gekk alltaf vel í námi þó áhuginn væri út og suður. Ég var dundari, teiknaði og las, en hafði auk þess áhuga á öllu náttúrutengdu og ekki síst veiðiskap. Eyddi drjúgum hluta af uppvaxtarárunum með veiðistöng um allar fjörur Patreksfjarðar og þar sem því var við komið. Það er eitthvað sem hefur lítið elst af mér þó auðvitað sinni ég því minna í dag. Við vorum sannkallaðir púkar á Patró, enda vinahópurinn kannski á tíðum full uppátækjasamur og frjór í hugsun. Sumt fyrirgefið, annað fyrnt, en sjaldnast illa meint.

Og þar sem mamma var frá Litlu-Eyri í Bíldudal og enn var stundaður búskapur fram á 9. áratuginn fór ég talsvert “norður” til ömmu, Vigdísar Guðrúnar Finnbogadóttur. Lærði þar flest sem tengist bústörfum og var alveg til í að verða bóndi. Í kring um fermingu hafði ég til nokkurra ára ekið dráttarvélum og fleiri ökutækjum, stundað veiðar með byssu og aflífað skepnur, sprautað, markað, slegið og hirt dún og annað sem tengist búskap. Og jafnvel skroppið á grásleppu örskotsstund frá sauðburði enda skipti ekki öllu hvort var dagur eða nótt. Eftirmynnilegast er sennilega eggjaferð upp í stóra gilið í Byltunni í Bíldudal með móðurbróður mínum. Hef oft velt þessu fyrir mér þegar ég horfi á þetta tignarlega fjall.

Eftir grunnskóla fór ég í Menntaskólann á Akureyri enda tókum við þar sameiginlega ákvörðun, ég og æskuvinur minn frá Urðargötu 23. Við vorum þó meira uppteknir af öðru en skóla eins og hendir. Ég ákvað að skipta um gír og fór í Fjölbrautaskólann á Akranesi. Ég útskrifaðist ekki þaðan en árið 1992 fæddist elsti sonur minn. Þetta sama ár kynntist ég eiginkonu minni og gaf henni einn strák í forgjöf. Við ákváðum fljótlega að fara vestur á Patreksfjörð þar sem ég fór að starfa við fiskeldi í Tálknafirði. Selma var þá í námi í KHÍ (áður Leikskólaskor). Þar bjuggum við, fyrst á Patreksfirði, en síðar í Tálknafirði. Ég hafði mikinn áhuga á eldinu og þeirri atvinnugrein sem var þá í þróun, aðallega í landeldi. Hafði m.a. með höndum að klekja út, að ég held, fyrsta árgangi af norskum stofni eldislax. Þetta voru alls 87 lítrar af hrognum sem mættu á Sveinseyri í frauðkössum og skiluðu 480 000 seiðum ef ég man rétt. En saga fiskeldis á þessum árum var meira tímabundin, enda fóru flest þessara fyrirtækja í þrot og sá ég ekki framtíð í því að mennta mig frekar í fræðunum.

Næst lá leiðin á höfnina á Patró þar sem ég starfaði við fiskmarkað, en ég hafði á unglingsárum starfað í saltfiskverkun í flestum húsum við höfnina. Af bryggjunni ákvað ég að halda til hafs… réð mig á línubeitningarvél á Tjaldi SH-270 frá Rifi í maí 1998 og fluttum við Selma að Ásbraut í Kópavogi sama ár. Var lögskráður á skipið rétt um 300 daga á ári frá 1998 – 2001 og var því afar lítið heima. Mér fannst þetta minn vettvangur enda úrvals áhöfn og mikill hasar inn á milli. Fékk þó þá flugu í höfuðið að fara og ljúka námi enda sá ég ekki fyrir mér að verða 67 ára á línubeitningarvél enda vinnutíminn að jafnaði 360 klst. fyrir 30 daga á línunni. Kláraði stúdent frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla og skráði mig í lagadeild HÍ sama haust og eldri sonur okkar Selmu fæddist. Þetta var nokkuð harður tími, enda var ég á sjó og vann aðra vinnu meðfram laganáminu. Ég útskrifaðist úr lagadeildinni 2009.

Í Kópavogi er gott að búa líkt og fyrrum bæjarstjóri gerði ódauðlegt. Og það eru orð að sönnu enda er þetta frábært bæjarfélag. Ég lét til leiðast að taka að mér nefndarstörf í Kópavogi eftir að hafa haft afskipti af skólamálum og var þar skipaður sem formaður skólanefndar og sem formaður barnaverndar í Kópavogi og sinnti í nokkur ár. Fékk talsverða innsýn í stjórnsýslu og pólitík og var það mikil reynsla fyrir nýútskrifaðan lögfræðing. Samhliða þessu var ég lögfræðingur hjá Sjúkratryggingum Íslands og síðar Útlendingastofnun. Báðir staðir hafa mótað mig mikið í starfi, enda nokkuð þungir vinnustaðir báðir. Samhliða starfi hjá Sjúkratryggingum var ég að vinna lögfræðistörf með lögmannsstofum á höfuðborgarsvæðinu og öðlaðist, að ég held, ómetanlega reynslu af margs konar verkefnum. Ég sagði mig frá formennsku í barnaverndinni þegar ég hóf störf fyrir Útlendingastofnun 2016 til að fyrirbyggja faglega árekstra.

Ég hef alla tíð haft taugar til bæði Patreksfjarðar og Bíldudals og finnst ég heima á báðum stöðum. Og til þess að setja í samhengi bjó ég og starfaði líka í Tálknafirði í nokkur ár. Vann þá við fiskeldi á Sveinseyri eftir að hafa tekið ákvörðun árið 1992 að hætta námi, enda fæddist elsti sonur minn það ár. Alla tíð þótti mér erfið umræðan um Vestfirði og vandræðagang framkvæmdasýslu og fjárveitingarvalds í því að halda byggðinni tengdri við rafmagn, fjarskipti og í samgöngum og ekki síður varðandi veitingu heilbrigðisþjónustu. Hef alltaf verið meðvirkur með Vestfjörðum þegar á móti blæs. Lét til leiðast og hafði afskipti með öðrum af endalausri Teigskógsdeilunni svo eitthvað sé nefnt, þá búsettur í Kópavogi. Um svipað leyti gerjaðist hjá mér áhugi á því að leggja þessum landshluta eitthvað lið og sá helst grundvöll í því gegnum starf sveitar- eða bæjarstjóri. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2018 fór ég að sækja um stöðu á Vestfjörðum á þessum vettvangi. En mitt hlutskipti var að verða í 2. sæti umsækjenda í þremur af þessum (þá 9) sveitarfélögum; Reykhólahreppi, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi (já, sem betur fer er til betra fólk en ég). Eftir áskorun ágætrar manneskju sótti ég um starf sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, en þangað hafði ég komið einu sinni. Eftirleikurinn er sá að ég var ráðinn til starfa og hef verið sveitarstjóri Súðavíkurhrepps frá maí 2019.

Einn af styrkleikum mínum og jafnframt veikleikum er að helga sig starfi nokkuð djúpt. Ég hef haft áhuga á sveitarstjórnarmálum frá því ég komst til einhvers vits, enda gegndi Úlfar faðir minn slíku starfi til 16 ára á Patreksfirði og auk þess í 4 ár sem forseti bæjarstjórnar. Ég hef áhuga á fólki þó ég geti verið ansi “introvert”. Ég brenn fyrir því að koma einhverju til leiðar og hafa afskipti af málum þar sem mér finnst réttlæti víkja fyrir skilningsleysi og skrifræði og jafnvel embættismannaræði. Mér hefur lærst í starfi sem lögfræðingur í stjórnsýslu (og á tíðum með aðkomu að dómsmálum) að virðing fyrir viðfangsefni og ekki síst persónum og leikendum er lykillinn að því að ganga sáttur frá borði. Sumt af þessari ástríðu minni endurspeglaðist í því að hrinda áformum ráðuneyta á að þvinga sveitarfélög til sameiningar með lagasetningu. Ólög eru alltaf til vansa og rétt er alltaf rétt, rangt er rangt og þetta ögraði öllu því sem ég stend fyrir og er. Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Þetta eru orð að sönnu og sígild.

Þegar ég er ekki að vinna þykir mér vænst um samveru með fjölskyldunni minni og passlegri útivist og hreyfingu. Ég er mikill hundamaður og virði þessar ferfættu elskur meira en margt í jarðlífinu. Bestu stundir við veiðar voru með hund sem ég átti sem fór með mér til rjúpna, í gæs og andarveiðar og hélt mér sem betri manni. Ég er ennþá litli strákurinn með veiðistöngina vestur á fjörðum þegar ég á þess kost, fer í gönguferðir og reyni að veiða mér og mínum eitthvað af villbráð. Úr slíkum ferðum er einnig dýrmæt samvera við fólk sem deilir með þér skoðun á þeim vettvangi eða öðrum. Ég hef að sjálfsögðu lesti líkt og að telja mig vita allt best og nálgast viðfangsefni af hroka, en vonandi hefur mér eitthvað lærst í þeim efnum. Og þegar svo ber undir, það er allt vel meint, ég er bara ekki fullkomnari en þetta þó ég … viti betur. En ég er vel giftur og skynsemi fæ ég stundum að láni frá mínum betri helmingi þegar ég er að fara út af sporinu.

Veruleiki okkar er fjölmenning og innsýn í þau efni er ómetanleg frá sjónarhorni Útlendingastofnunar. Fjöldi hælisleitenda og flóttafólks upplýsir takmörkun okkar á innviðum og getu til inngildingar fólks sem við tökum á móti á þessum vettvangi. Og ekki síst þegar kemur að tungumálinu okkar og samskiptum. Við getum gert svo miklu betur, getum veitt fólki betra líf sem hér auðgar okkar mannlíf og mætum þeim stolt með tungumál og menningu sem vert er að deila. Ég brenn fyrir úrbótum og einföldum á leikreglum í málaflokknum sem er orðið frekar aðkallandi á þessu herrans ári.

Fyrirgefið langlokuna, en þetta er einn af mínum löstum.

Hafró: almennt fáir strokulaxar ganga í ár nema í fyrra

Í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um vöktun á áhrifum sjókvíaeldis á íslenska laxastofna árið 2023 kemur fram að almennt eru það fáir strokulaxar sem ganga upp í ár miðað við mörg undanfarin ár en að árið 2023 varð mikil aukning vegna sleppingar á eldislöxum úr kví í Patreksfirði þar sem um 35% laxanna voru kynþroska. Um 420 laxar úr því stroki veiddust um haustið.

Á tímabilinu 2017-2022 höfðu um 47 laxar af áætluðum 110 þúsund strokufiskum veiðst í ám og borist Hafrannsóknastofnun sem er aðeins 0,04%, en haustið 2023 veiddust 421 fiskar í ám með uppruna úr Kvígindisdal eða um 12% af áætluðu stroki.

Á árabilinu 2014 til 2022 bárust Hafrannsóknastofnun (Veiðimálastofnun 2014-2016) 134 strokulaxar, að meðaltali tæplega 15 árlega. Flestir bárust árið 2014 (67 eldislaxar skv. nýjum og eldri erfðarannsóknum, 71 ef litið er til útlitsþátta), næst flestir árið 2022 (28), færri önnur ár og enginn árið 2016. Í tveimur af níu árum á þessu tímabili bárust fleiri en 10 strokulaxar til greiningar.

Í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar fyrir erfðablöndun kemur fram að gert er ráð fyrir að svonefndur göngustuðull, það er fjöldi strokufiska sem ganga í ár fyrir hver 1000 tonn sem framleidd eru. sé 2,2. Það þýðir til dæmis að fyrir 45 þúsund tonna ársframleiðslu megi búast við 99 strokufiskum upp í ár. Í Noregi er þetta hlutfall talið vera 14,4 eða rúmlega sexfalt hærra en hér á landi.

Að frátöldu síðasta ári hefur göngustuðullinn frá 2014 verið langt undir þessu mati.

Birtar eru upplýsingar um fjölda eldisfiska í einstakar ár á síðasta hausti. Í Laugardalsá komu 6 eldislaxar en 197 villtir laxar. Hrygningarstofninn er sagður vera 128 fiskar. Af eldislöxunum voru 2 drepnir. Í ána gengu þá 4 eldislaxar sem eru 2% af hrygningarstofninum. Hafrannsóknarstofnun undirstrikar í áhættumatinu um erfðablöndun að erfðablöndun verði mun lægri þar sem hrygningargeta eldislaxa sé mun minni en hjá villtum laxi.

Í Langadalsá gaf teljari upp 62 villta laxa sem gengu upp í ána í fyrra og 10 eldislaxa. Af þeim voru 4 drepnir. Ekki eru gefnar upplýsingar um stærð hrygningarstofnsins.

Í báðum þessum ám eru teljarar og hægt að loka fyrir uppgöngu eldislaxa, sem var gert og voru þeir fangaðir ýmist í fiskvegum eða neðan þeirra.

Hafrannsóknarstofnun segir að talsverður árangur hafi náðst með mótvægisaðgerðum sem voru til þess að fjarlægja eldislaxa úr ám í haust. Aðgerðirnar fólust í heimild til handa veiðifélögum til veiða sem beindist að eldislöxum þótt komið væri fram yfir lok veiðitíma, ásamt því að fiskvegum var í sumum tilfellum lokað. Auk þess voru fengnir sérfræðingar í yfirborðsköfun frá Noregi sem leituðu uppi eldislaxa og fjarlægðu úr ám.

4% seiða blönduð

Einnig kemur fram í skýrslunni að árið 2021 hafi verið tekin 3.194 laxasýnum úr 64 ám hringinn í kringum landið. Greinst hafi ný erfðablöndun hjá 51 seiði í 12 ám og og eldri erfðablöndun hjá 79 seiðum í 16 ám.

Samtals eru þetta 130 sýni með blöndun af 3.194 eða 4% sýnanna.

Á Vestfjörðum greindist ný erfðablöndun í nokkrum ám þar sem hún hafði áður greinst; í Botnsá í Tálknafirði, Sunndalsá í Arnarfirði, Hraundalsá í Ísafjarðardjúpi og Staðará í Steingrímsfirði. Ný erfðablöndum greindist einnig í ám þar sem slík blöndun hafði ekki áður greinst; í Dynjandisá og Mjólká í Arnarfirði, Botnsá í Dýrafirði og í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir: 1.725 m.kr. úr ríkissjóði

Grunnskólinn á Ísafirði.

Kynnt hefur verið minnisblað frá sambandi íslenskra sveitarfélaga um kostnað við gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Framlag úr ríkissjóði í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga til sveitarfélaga fyrir tímabilið ágúst til desember í ár er 1.725 m.kr.

Fjárhæðin er ekki fastsett í lögum heldur verður hún ákvörðuð í fjárlögum ár hvert 2024 til og með 2027. Lögin má rekja til sameiginlegrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. mars sl. sem hafði það að markmiði að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði.

Í lögum um rekstur grunnskóla segir að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við næringarráðleggingar Embættis landlæknis (áður kallað opinber manneldismarkmið). Þá er sveitarfélögum
heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja og hafa flest sveitarfélög nýtt sér þá heimild og innheimt gjald sem að meðaltali hefur staðið undir 40% hluta af kostnaði fyrir framleiðslu máltíða fyrir grunnskólabörn.

Samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnar og Sambandsins á framlag ríkisins að meðaltali að jafngilda 75% af því sem foreldrar hefðu áður greitt. Mismuninn greiðir svo sveitarfélagið.

Fyrirkomulagið verður þannig að framlagið skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka skólaárs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert.

Samkvæmt skiptingunni fær Ísafjarðarbær 17,5 m.kr. á þessu tímabili og sveitarfélögin á Vestfjörðum um 30 m.kr.

Spænska – tungumál, matur og menning

Þann 2. september hefst hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða hagnýtt, hvetjandi og skemmtilegt námskeið ætlað fólki sem hefur einhvern grunn í spænsku, t.d. farið á byrjendanámskeið. Kennslan fer fram á spænsku og ensku. 

Á námskeiðinu er bæði bókleg og verkleg kennsla þar sem áhersla er lögð á að skapa spænskt andrúmsloft með spænskum kennara. Í kennslunni verða meðal annars notuð:

  • Spænsk lög þar sem áherslan er á hlustun, lestur, dans, orðaforða o.fl.
  • Tapasréttir með undirbúningi í kennslustofunni hvað varðar orðaforða fyrir t.d. innihaldsefni, áhöld, borðbúnað o.fl.
  • Hlutverkaleikir í kringum mat og borðhald eins og tilfinningar eftir smökkun o.s.frv.
  • Að vita svolítið um vín., t.d. myndbönd um „Bodegas“,  þekkja orðaforða, mögulega vínsmökkun o.s.frv.

Kennari á námskeiðinu er Nieves Gómez frá Logroño í La Rioja héraðinu á Spáni. Hún hefur áratuga reynslu af því að kenna bæði börnum og fullorðnum spænsku. Nieves var með spænskunámskeið hjá Fræðslumiðstöðinni s.l. haust við góðan orðstýr. Meðal þess sem nemendur höfðu að segja um námskeiðið þá var: 

  • Góður kennari 
  • Frábært framtak að fá Nieves til að kenna 
  • Mjög skemmtilegt námskeið og frábært að hafa spænskan kennara. 
  • Gaman væri að fara á framhaldsnámskeið hjá Nieves 
  • Mjög skemmtilegt námskeið, Nieves er frábær

Sjöundá og Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson

Sunnudaginn 21. júlí mun landvörður Umhverfisstofnunar leiða göngu að Sjöundá á Rauðasandi.

Gangan hefst við tjaldstæðið á Melanesi og verður gengið sem leið liggur að tóftum bæjarins.

Gangan er innblásin af sögunni Svartfugl, sem fjallar um atburðina á Sjöundá árið 1802.

Við förum aftur í tímann og skoðum þann heim sem sagan sprettur uppúr. Gunnar sagði sjálfur að hann hefði ekki skrifað söguna eins og hún gerðist heldur eins og hún hefði getað gerst og þau orð verða höfð að leiðarljósi.

Landvörður leiðir gönguna og les vel valda kafla úr bókinni sem gefa innsýn í bæði lífið á Sjöundá og tilfinningalíf persónanna sem sagan hverfist um.

Matti saga af drengnum með breiða nefið

Söguleg saga um bernsku Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði er síðar varð klerkur og skáld, þjóðskáld.

Það var ekki bara að pilturinn Matti hafi verið kallaður drengurinn með breiða nefið, heldur og drengurinn í gráa klútnum. Eða drengurinn í skinnsokknum eða jafnvel drengurinn með breiða nefið. Sjálfur kallaði hann sig bara Matta, Matta Skratta, bætti hann gjarnan við og hló við.

Inn í söguna fléttast fjölmargar persónur úr sagnaarfi Matta. Af þeim nægir að nefna hans þekktasta fír Skugga-Svein, einnig koma við sögu Galdra-Héðinn, Gudda, Jón sterki og meira að segja Ketill Skrækur.


Höfundar bókarinnar eru listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir. Elfar skapar textann en Marsibil myndirnar. Þetta er önnur barnabók þeirra hjóna en fyrri bókin er einnig sótt í bernskuævi listamanns fyrir vestn. Þar er um að ræða bernsku Guðmundar Thorsteinssonar sem var kallaður Muggur. Enda heitir bókverkið Muggur saga af strák.

Nýjustu fréttir