Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 36

Hvítabjörn í Jökulfjörðum

Horf yfir í Jökulfirði. Grunnavíkin og Maríuhornið blasa við. Höfðaströndin er þar norður af. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan á Vestfjörðum greindi frá því fyrir stundu að hún hafi fengið tilkynningu um að hvítabjörn hafi gengið á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur, að höfðu samráði við Umhverfisstofnun, kallað út þyrlu LHG ásamt því að björgunarbáturinn Kobbi Láka er nú þegar farinn af stað með tvo lögreglumenn frá Ísafirði.

Ætlunin er að tryggja öryggi þess fólks sem kann að vera á svæðinu.

Fólk sem er á svæðinu er hvatt til þess að halda sig innandyra og hafa varann á sér þar til lögreglan gefur út frekari tilkynningar.

Fyrsta raðhúsið af þremur að rísa á Reykhólum

Á Reykhólavefnum er sagt frá því að starfsmenn Tekta ehf. séu að reisa nýtt fjögurra íbúða raðhús á Reykhólum.

Þeir hófust handa þann 17. september og komin er upp önnur hliðin, allir skilveggir milli íbúða, hálfir gaflarnir og fyrsta einingin í seinni hliðina. Stefnt er að því að húsið verði komið undir þak um helgina.

Veggeiningarnar eru með klæðningu að utan, einangrun og frágengnum gluggum og hurðum. Í þakeiningunum er burðarvirki og einangrun en bárujárnið og þakpappinn er sett á þegar allt er komið upp.

Það er Tekta ehf. í Borgarnesi sem byggir þetta hús, Reykhólahreppur mun svo kaupa það þegar það er tilbúið undir tréverk. Eins og áður segir eru 4 íbúðir í húsinu, 55 mhver.

Lokasprettur strandhreinsiátaks

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti í gær breytingar á reglum um styrkveitingar til verkefna sem felast í hreinsun strandlengju Íslands.

Styrkirnir eru liður í aðgerðaáætlun ráðuneytisins í plastmálefnum, en haustið 2021 var sett af stað fimm ára átak til hreinsunar strandlengjunnar.

Hreinleiki sjávar er Íslandi afar mikilvægur og strandhreinsanir gegna þar veigamiklu hlutverki.

Fjölmargar strendur hafa verið hreinsaðar fyrir úthlutaða styrki á árunum 2021, 2022 og 2023 og góður árangur náðst.

Nú hefur verið ákveðið að skerpa, fyrir lokasprett átaksins, á því að meginmarkmiðið með styrkveitingunum sé að hreinsa strandlengjuna með skipulegum hætti. Við mat á umsóknum um styrki er því lögð aukin áhersla á umfang hreinsana, með vísan til meginmarkmiðs styrkveitinganna. 

Áfram verður þó einnig horft til þess markmiðs að hreinsuðum ströndum verði haldið við, áframhaldandi vitundarvakningar almennings um mikilvægi strandhreinsana og virkjunar áhugasamra aðila til þátttöku í átaki um hreinsun strandlengjunnar.

Nánari upplýsingar um átakið má finna á vefsíðunni strandhreinsun.is

Strandabyggð: kostnaður við grunnskóla hækkar um 24,1 m.kr.

Grunnskólinn á Hólmavík. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar hækkaði fjárveitingar til framkvæmda við Grunnskóla Hólmavíkur úr 190 m.kr. í 214,1 m.kr. Hækkunin nemur 24.150.000kr.

Í ágúst var fjárveitingin hækkuð úr 125 m.kr. í 190 m.kr. en sveitarstjórnin segir nú að ljóst er að sú tala er of lág. Framkvæmdir við grunnskólann, þ.e þessi verkhluti, er mjög langt kominn og lokakaflinn og frágangur eftir. Erfitt hefur reynst að áætla suma kostnaðarliði, segir í bókun, en heilt yfir má segja að framkvæmdir hafi gengið vel og engin alvarleg frávik komið upp.

Þá segir að ljóst sé að frekari fjármögnunar er þörf þar sem heildarframkvæmdir ársins við fara úr tæpum 230 milljónum í tæpar 400 milljónir. Kemur þar til að nokkrum verkþáttum í grunnskóla eins og loftræstikerfi, varmadælu og “sprinkler” kerfi var flýtt í stað þess að vinnast á næstu 2-3árum.

Sveitarstjórnarmenn A-lista lögðu fram bókun og óskuðu eftir að á næsta fundi sveitarstjórnar geri endurskoðandi sveitarfélagsins grein fyrir áhrifum af auknum lántökum og útgjaldaauka á fjárhagsstöðu, skuldahlutfalli og möguleikum á framkvæmdum á næstu árum.   

Matvælaráðherra boðar hækkun veiðigjalda

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra boðaði hækkun veiðigjalda í opnunarávarpi íslensku sjávarútvegssýningarinnar sem hún flutti í gær.

„Í vetur mun ég leggja fram frumvarp um hækkun veiðigjalda. Endurskoðun þeirra er lykilskref í að tryggja sanngjarna hlutdeild samfélagsins í auðlindarentu sjávarútvegsins. Með hækkun veiðigjalda á tilgreindar uppsjávartegundir, stefnum við í átt að aukinni sanngirni og ábyrgð. Veiðigjöld eru jákvæð fyrir þjóðarbúið — þau stuðla að sanngirni, sjálfbærni og ábyrgri auðlindanýtingu. Þau tryggja að arðurinn af sameiginlegri auðlind renni til þjóðarinnar, styrkja opinbera þjónustu og hvetja til betri og sjálfbærari nýtingar. Þetta mál eins og önnur sem ég hyggst leggja fram í vetur byggir undir traust og ábyrgð í sjávarútvegi“

Í ávarpinu fagnaði ráðherrann einnig góðum árangri í auðlindanýtingu:

„Okkur hefur tekist að koma á ágætu jafnvægi á milli nýtingar og verndar fiskistofna. Í sögulegu samhengi er þetta mikilvægt, því að ósjálfbærar veiðar voru stórt vandamál hér á árum áður. Með tilkomu kvótakerfisins náðum við tökum á ofnýtingu fiskistofna hér við land, en óhætt er að segja að við höfum að einhverju leyti tapað trausti almennings með tilkomu framsalsins“.

Sjávarútvegssýningin fagnar nú stórafmæli en 40 ár eru síðan fyrsta sýningin var haldin árið 1984. Í ár mæta rúmlega 400 sýnendur til leiks og koma þeir frá 22 löndum til að sýna allt það nýjasta og besta í sjávarútvegi.

Bolvíkingafélagið: Messa í Bústaðakirkju

Bústaðakirkja.

Bolvíkingafélagið stendur fyrir messu sunnudaginn 6. október kl. 13 í Bústaðarkirkju í Reykjavík.

Eftir messu verður boðið upp á kaffi og meðlæti í safnaðarheimilinu.

Gaman væri að sjá sem flesta !!!

Stjórn Bolvíkingafélagsins

Bolungavík: tvöföldun Vestfjarðaganga sem fyrst

Vestfjarðagöng. Munninn í Breiðadal.

Bæjarráð Bolungavíkurkaupstaðar ræddi rútubrunann í Tuungudal á föstudaginn á fundi sínum á þriðjudaginn.

Bæjarráð Bolungavíkur lýsti miklum áhyggjum yfir stöðu öryggis í samgöngumálum á Vestfjörðum í kjölfar hættuástands sem átti sér stað vegna bruna í langferðabíl rétt utan við gangnamuna Vestfjarðargangna.

„Staðan í jarðgangnamálum á Vestfjörðum er óboðleg og lýsir bæjarráð Bolungarvíkur yfir þeirri afstöðu sinni að hraða þurfi uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum, þ.m.t. tvöföldum Vestfjarðagangna sem allra fyrst.“

Patreksfirðingar keppa á stærstu götubitahátíð í heimi

Atli Snær á KOMO ásamt fjölskyldu.

Þrír Patreksfirðingar munu keppa í næsta mánuði um European Street Food Awards eða Evrópsku götubitaverðlaunin. Um er að ræða stærstu slíka hátíð í heiminum. Það er fyrirtækið Komo sem er skráð til leiks en þremenningarnir keppa fyrir það.

Keppnin sjálf fer fram í Saarbrucken í Þýskalandi dagana 4. – 6. október og mun Komo keppa við 18 aðrar Evrópu þjóðir um titilinn „Besti Götubitinn í Evrópu“.

Atli Snær Rafnsson matreiðslumeistari og eigandi Komo hefur unnið til fjölda verðlauna á Götubitahátíðinni hér heima og hefur hann samtals unnið til 9 verðlauna. Í ár sigraði hann í flokkunum um „besti smábitinn“ og „besti grænmetisbitinn“ með thai melónusalat og í fyrra sigraði hann sem „besti smábitinn“ með „Korean fried tiger balls“ en þetta eru einmitt réttirnir sem verða á boðstólum á hátíðinni.

Með honum verða í för sonur hans Styrmir Karvel Atlason og Magnús Örn Friðriksson.

Hægt verður að fylgjast með ferðalaginu á eftirfarandi samfélagsmiðlum Komo:

Facebook: @komorvk

Instagram: @komorvk

Skýrsla um þjóðgarð: ekki afstaða stjórnar Vestfjarðastofu

Titilblað skýrslunnar.

Í skýrslu Vestfjarðastofu um þjóðgarða, sem nýlega var birt , segir að ef orðið yrði við erindi Orkubús Vestfjarða um afnám friðunarskilmála á hluta af landi í Vatnsfirði „vegna virkjanahagsmuna myndi það setja ákvarðanatökukerfi íslenska ríkisins í orku- og landnýtingarmálum, fyrrnefnda Rammaáætlun, í ákveðið uppnám.“ og einnig segir :

neikvæð umræða og ólíklega jákvæðar breytingar

„Það verður því alltaf mjög stór pólitísk ákvörðun hjá ráðherra að taka og líklegt að hagsmunaaðilar í náttúruvernd myndu berjast gegn henni í fjölmiðlum og fyrir dómstólum með tilheyrandi neikvæðri umræðu fyrir Vestfirði.“

Þá er að finna þessa afstöðu til nýlegrar lagabreytingar á Alþingi sem umhverfis- orku og loftslagsráðherra beitti sér fyrir og fékk samþykkta: „Í nýjum lögum um Náttúruverndarstofnun nr. 111/2024, færist hlutverk Umhverfisstofnunar til nýrrar Náttúruverndarstofnunar, en þó er ólíklegt að það muni hafa jákvæðar breytingar í för með sér.“

Skýrslan er að mestu unnin af Hjörleifi Finnssyni verkefnastjóra en var lesin yfir af öðrum sérfræðingum Vestfjarðastofu sem og utanaðkomandi ráðgjafa.

ekki afstaða stjórnar

Stjórn Vestfjarðastofu samþykkti á fundi sínum 28. ágúst að birta skýrsluna með þeim fyrirvörum sem ræddir voru á fundinum.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að skýrslan sé sérfræðiálit sem er unnin fyrir Vestfjarðastofu og er innlegg til upplýsinga m.a. í vinnu við svæðisskipulag. „Ekki er um að ræða stefnuskjal stjórnar Vestfjarðastofu sem tekur ekki afstöðu til innihaldsins.“

Aðspurð um fyrirvarana segir hún að þeir hafi verið um heimildir bak við skýrsluna og að fengnum skýringum var skýrslan birt.

 

Athugasemdir vegna greinar Sigurjóns Þórðarsonar varaþingmanns Flokks Fólksins

Á árinu 2020 var fyrirtækið Vestfiskur Flateyri stofnað til þess að búa til störf fyrir samfélagið í Ísafjarðarbæ, fyrirtækið er staðsett á Flateyri með alla sína starfsemi. Nýta átti Aflamark Byggðastofnunar til þess að styðja við verkefnið, ef næðust samningar við Byggðastofnun um það. Samningur við Byggðastofnun er háður ákveðnum skilyrðum sem þarf að uppfylla hvað varðar starfsmannafjölda og fleiri þætti og fer endurskoðun fram árlega áður en til endurnýjunar á úthlutun getur farið fram. Vestfiskur Flateyri hefur frá upphafi fengið áframhaldandi úthlutun enda staðið við þau skilyrði sem sett voru í samningnum við Byggðastofnun. Þeir aðilar sem stóðu að stofnun Vestfisks ehf voru valdir til samninga en samnngur VF hljóðar uppá 400 þíg á hverju ári í 6 ár. Búið er að úthluta 5 sinnum og er nú endurskoðunartími áður en til sjöttu og síðustu úthlutunar kemur. Vonandi stöndumst við þá skoðun.

Í upphafi var lagt af stað með að þrjár stoðir yrðu undir rekstrinum, þurrkun á roði til gæludýrafóðurs, vinnslu á sæbjúgum (þurrkun) til útflutnings til Kína og síðan veiðar á sæbjúgum og þeim bolfiski sem til úthlutunar kæmi úr samningi Byggðastofnunar ásamt þeirri hlutdeild í almenna byggðakvótanum sem kæmi til VF í gegnum veiðarnar. Allir sitja við sama borð þar, en skilyrðin þau að Flateyri þarf að vera heimahöfn viðkomandi. Það má segja að frá upphafi hafi þurrkun á roði gengið ágætlega og að sú vara muni skila okkur góðum tekjum í framtíðinni. Sæbjúgna vinnslan var andvana fædd þar sem að markaðsaðstæður í Kína vorur erfiðar, en VF var stofnað þegar Covid gekk yfir og markaði það djúp spor í framvinduna fyrstu 2 árin. Þetta þýddi að vinnsla og veiðar á sæbjúgum voru ekki arðbærar og að lokum fór svo að útgerðarhlutinn tók til sín meira en hann aflaði og gengur það ekki til langs tíma. Þegar ljóst var að ekki gengi að veiða og þurrka sæbjúgu var brugðið á það ráð að finna nýja stoð, tókst það með því að farið var að þurrka lambahorn, en öll lambahorn sem falla til á Íslandi eru þurrkuð á Flateyri og gengur sú vinnsla vel og hefur gert frá fyrsta degi. Þegar ljóst var að útgerðarþátturinn væri erfiður var ákveðið að ganga til liðs við tvö útgerðarfyrirtæki á Suðureyri sem myndu sjá um veiðar á því aflamarki sem til úthlutunar var og um leið tryggja VF tekjur af því, það var því sett undir þann leka sem myndaðist í útgerðinni. Þetta eru fyrirtækin Norðureyri ehf. og Flugalda ehf.

Í upphafi voru hluthafar VF 5 en eru í dag 4, aðilar sem komu að útgerðarþættinum drógu sig út úr samstarfinu á árinu 2023. Búið er að setja í félagið 359,5 mkr. í hlutafé og hefur það verið gert í áföngum,nú síðast á árinu 2024. 294,5 mkr. koma frá fyrirtækjum á Suðureyri, Klofningi og Fiskvinnslunni Íslandssögu, en rúmar 60 milljónir frá aðilum sem reka lifrarvinnslu suður með sjó. Samstarfið við þá aðila hefur verið afar farsælt.

Á árinu 2020 störfuðu 7 manns hjá VF en á þeim tíma var mikil uppbygging í húsakosti keyptar voru eignir á Hafnarbakka á Flateyri ásamt vélum og tækjum. Á árinu 2021 störfuðu 24, á árinu 2022 voru 23 starfsmenn og á árinu 2023 voru starfsmenn 17. Að jafnaði á árinu 2024 hafa starfsmenn verið 18. Þessi störf voru ekki til á Flateyri þegar VF hóf starfsemi sína.

Í grein Sigurjóns Þórðarsonar Varaþingamanns á þeim tíma sem umræddir samningar voru gerðir kemur fram að hann telji að misfarið sé með þá fjármuni sem aðilum eru afhentir, það eru þung orð að sitja undir. Það er rétt hjá Sigurjóni að um er að ræða fjármuni sem gæta skal að að farið sé vel með. Sigurjón hefur haft tækifæri til þess að rýna þær úttektir sem gerðar hafa verið vegna endurúthlutunar aflamarks Byggðastofnunar. Við höfum ekki fengið símtal frá honum, eða heyrt úr hans ranni einhverjar athugasemdir vegna málsins. Samhliða því að útgerðarþættinum hjá VF lauk var gerð tilraun til þess að flaka steinbít yfir steinbítsvertíðina til þess að hengja upp fyrir innanlandsmarkað.  Samið var við Walvis (Togga) um að sjá um þá vinnslu fyrir okkur í húsnæði sem hann ræður yfir. Ekki fékkst nægjanlegt starfsfólk til þeirrar starfsemi tímabundið, þannig að sú tilraun endaði með því að starfsfólk Fiskvinnslunnar Íslandssögu var flutt á milli Flateyrar og Suðureyrar.

Þá hefur Sigurjón hnýtt í það að úthlutunin sé ekki gegnsæ. Þvert á móti er hún það, við reynum að vinna í því kerfi sem okkur er ætlað að vinna í með þeim kostum og göllum sem því fylgja, tvær síðustu úthlutanir hafa farið á skip í Bolungarvík þar sem að skipt er á heimildum í aflamarki og krókaflamarki, þorskur, ýsa og steinbitur kemur til baka og síðan er skipt á öðrum tegundum. Karfa og ufsa tegundir sem ekki kemur mikið af í krókaflamarkinu og fengnar þær tegundir sem nýtast þar svo sem ýsa, steinbítur, langa og keila. Allt uppi á borðinu og skriflegir samningar við aðila.

Ég vill hvetja Sigurjón Þórðarson til þess að kynna sér hvernig hlutirnir ganga fyrir sig áður en hann fer að saka menn um óheiðarleika við meðhöndlun á samningum við Byggðastofnun um aflamark. Það er okkar skoðun að almenni byggðakvótinn ætti að vera í svipuðum samningum, þar gæti verið um að ræða samninga við strandveiðisjómenn um veiðar á einhverjum heimildum með skilyrðum um hvenær það skal veitt og þess háttar. Til þess að tryggja það að allir fái hlut úr þessum verðmætum, ekki bara útgerðin, heldur líka almennt starfsfólk sem býr á þessum stöðum þar sem að byggðakvóta er úthlutað, með því gæti heildin búið til meiri verðmæti til hagsbóta fyrir það samfélag sem við kjósum að búa í og lifa, með þeim kostum og göllum sem að því fylgja. Slíkir samningar tryggja líka lengra tímabil til veiða fyrir amk hluta strandveiðisjómanna og meiri fyrirsjáanleika. Hornsteinninn í samningum við Byggðastofnun er að tryggja byggðafestu til hagsbóta fyrir alla sem lifa í viðkomandi samfélagi ekki bara einn hluta þeirra.

Óðinn Gestsson,

framkvæmdastjóri Íslandssögu.


 

Nýjustu fréttir