Á árinu 2020 var fyrirtækið Vestfiskur Flateyri stofnað til þess að búa til störf fyrir samfélagið í Ísafjarðarbæ, fyrirtækið er staðsett á Flateyri með alla sína starfsemi. Nýta átti Aflamark Byggðastofnunar til þess að styðja við verkefnið, ef næðust samningar við Byggðastofnun um það. Samningur við Byggðastofnun er háður ákveðnum skilyrðum sem þarf að uppfylla hvað varðar starfsmannafjölda og fleiri þætti og fer endurskoðun fram árlega áður en til endurnýjunar á úthlutun getur farið fram. Vestfiskur Flateyri hefur frá upphafi fengið áframhaldandi úthlutun enda staðið við þau skilyrði sem sett voru í samningnum við Byggðastofnun. Þeir aðilar sem stóðu að stofnun Vestfisks ehf voru valdir til samninga en samnngur VF hljóðar uppá 400 þíg á hverju ári í 6 ár. Búið er að úthluta 5 sinnum og er nú endurskoðunartími áður en til sjöttu og síðustu úthlutunar kemur. Vonandi stöndumst við þá skoðun.
Í upphafi var lagt af stað með að þrjár stoðir yrðu undir rekstrinum, þurrkun á roði til gæludýrafóðurs, vinnslu á sæbjúgum (þurrkun) til útflutnings til Kína og síðan veiðar á sæbjúgum og þeim bolfiski sem til úthlutunar kæmi úr samningi Byggðastofnunar ásamt þeirri hlutdeild í almenna byggðakvótanum sem kæmi til VF í gegnum veiðarnar. Allir sitja við sama borð þar, en skilyrðin þau að Flateyri þarf að vera heimahöfn viðkomandi. Það má segja að frá upphafi hafi þurrkun á roði gengið ágætlega og að sú vara muni skila okkur góðum tekjum í framtíðinni. Sæbjúgna vinnslan var andvana fædd þar sem að markaðsaðstæður í Kína vorur erfiðar, en VF var stofnað þegar Covid gekk yfir og markaði það djúp spor í framvinduna fyrstu 2 árin. Þetta þýddi að vinnsla og veiðar á sæbjúgum voru ekki arðbærar og að lokum fór svo að útgerðarhlutinn tók til sín meira en hann aflaði og gengur það ekki til langs tíma. Þegar ljóst var að ekki gengi að veiða og þurrka sæbjúgu var brugðið á það ráð að finna nýja stoð, tókst það með því að farið var að þurrka lambahorn, en öll lambahorn sem falla til á Íslandi eru þurrkuð á Flateyri og gengur sú vinnsla vel og hefur gert frá fyrsta degi. Þegar ljóst var að útgerðarþátturinn væri erfiður var ákveðið að ganga til liðs við tvö útgerðarfyrirtæki á Suðureyri sem myndu sjá um veiðar á því aflamarki sem til úthlutunar var og um leið tryggja VF tekjur af því, það var því sett undir þann leka sem myndaðist í útgerðinni. Þetta eru fyrirtækin Norðureyri ehf. og Flugalda ehf.
Í upphafi voru hluthafar VF 5 en eru í dag 4, aðilar sem komu að útgerðarþættinum drógu sig út úr samstarfinu á árinu 2023. Búið er að setja í félagið 359,5 mkr. í hlutafé og hefur það verið gert í áföngum,nú síðast á árinu 2024. 294,5 mkr. koma frá fyrirtækjum á Suðureyri, Klofningi og Fiskvinnslunni Íslandssögu, en rúmar 60 milljónir frá aðilum sem reka lifrarvinnslu suður með sjó. Samstarfið við þá aðila hefur verið afar farsælt.
Á árinu 2020 störfuðu 7 manns hjá VF en á þeim tíma var mikil uppbygging í húsakosti keyptar voru eignir á Hafnarbakka á Flateyri ásamt vélum og tækjum. Á árinu 2021 störfuðu 24, á árinu 2022 voru 23 starfsmenn og á árinu 2023 voru starfsmenn 17. Að jafnaði á árinu 2024 hafa starfsmenn verið 18. Þessi störf voru ekki til á Flateyri þegar VF hóf starfsemi sína.
Í grein Sigurjóns Þórðarsonar Varaþingamanns á þeim tíma sem umræddir samningar voru gerðir kemur fram að hann telji að misfarið sé með þá fjármuni sem aðilum eru afhentir, það eru þung orð að sitja undir. Það er rétt hjá Sigurjóni að um er að ræða fjármuni sem gæta skal að að farið sé vel með. Sigurjón hefur haft tækifæri til þess að rýna þær úttektir sem gerðar hafa verið vegna endurúthlutunar aflamarks Byggðastofnunar. Við höfum ekki fengið símtal frá honum, eða heyrt úr hans ranni einhverjar athugasemdir vegna málsins. Samhliða því að útgerðarþættinum hjá VF lauk var gerð tilraun til þess að flaka steinbít yfir steinbítsvertíðina til þess að hengja upp fyrir innanlandsmarkað. Samið var við Walvis (Togga) um að sjá um þá vinnslu fyrir okkur í húsnæði sem hann ræður yfir. Ekki fékkst nægjanlegt starfsfólk til þeirrar starfsemi tímabundið, þannig að sú tilraun endaði með því að starfsfólk Fiskvinnslunnar Íslandssögu var flutt á milli Flateyrar og Suðureyrar.
Þá hefur Sigurjón hnýtt í það að úthlutunin sé ekki gegnsæ. Þvert á móti er hún það, við reynum að vinna í því kerfi sem okkur er ætlað að vinna í með þeim kostum og göllum sem því fylgja, tvær síðustu úthlutanir hafa farið á skip í Bolungarvík þar sem að skipt er á heimildum í aflamarki og krókaflamarki, þorskur, ýsa og steinbitur kemur til baka og síðan er skipt á öðrum tegundum. Karfa og ufsa tegundir sem ekki kemur mikið af í krókaflamarkinu og fengnar þær tegundir sem nýtast þar svo sem ýsa, steinbítur, langa og keila. Allt uppi á borðinu og skriflegir samningar við aðila.
Ég vill hvetja Sigurjón Þórðarson til þess að kynna sér hvernig hlutirnir ganga fyrir sig áður en hann fer að saka menn um óheiðarleika við meðhöndlun á samningum við Byggðastofnun um aflamark. Það er okkar skoðun að almenni byggðakvótinn ætti að vera í svipuðum samningum, þar gæti verið um að ræða samninga við strandveiðisjómenn um veiðar á einhverjum heimildum með skilyrðum um hvenær það skal veitt og þess háttar. Til þess að tryggja það að allir fái hlut úr þessum verðmætum, ekki bara útgerðin, heldur líka almennt starfsfólk sem býr á þessum stöðum þar sem að byggðakvóta er úthlutað, með því gæti heildin búið til meiri verðmæti til hagsbóta fyrir það samfélag sem við kjósum að búa í og lifa, með þeim kostum og göllum sem að því fylgja. Slíkir samningar tryggja líka lengra tímabil til veiða fyrir amk hluta strandveiðisjómanna og meiri fyrirsjáanleika. Hornsteinninn í samningum við Byggðastofnun er að tryggja byggðafestu til hagsbóta fyrir alla sem lifa í viðkomandi samfélagi ekki bara einn hluta þeirra.
Óðinn Gestsson,
framkvæmdastjóri Íslandssögu.