Síða 36

Þingeyri: flotbryggja losnaði

Björgunarsveitin Dýri á Þingeyri var kölluð út í nótt til þess að festa flotbryggju í höfninni sem hafði losnað og rak yfir á flotbryggjuna við hliðina. Ekki varð af alvarlegt tjón að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.

Ekki voru önnur útköll í nótt á Vestfjörðum. Af öryggisástæðum var veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað í gærkvöldi þegar snjóflóðahætta varð meiri. Tveir vegfarendur, á leið til Bolungarvíkur, urðu innlyksa í Súðavík rétt um miðnættið. Fulltrúar í sameiginlegri almannavarnanefnd Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar, skutu skjólshúsi yfir þá.

Frá aðgerðunum í nótt. Myndi: aðsendar.

Galdrafár á Ströndum í byrjun maí 

Búið er að opna fyrir sölu á miðum á menningar- og listahátíðina Galdrafár á Ströndum sem verður haldin á Hólmavík dagana 1.-4. maí. Meginþemað eru galdrar og fornnorræn menning. Dagskráin samanstendur af tónlistadagskrá, húðflúrráðstefnu, víkingaþorpi, vinnustofum, listviðburðum, fyrirlestrum og markaði. 

Það er fjölþjóðlegur hópur lista- og fræðifólks sem kemur að hátíðinni, en þátttakendur koma frá samtals 15 löndum. Sá sem kemur lengst að er húðflúrlistamaður frá Nýja-Sjálandi. Galdrafár var haldin í fyrsta sinn á Hólmavík í apríl 2024 og tókst frábærlega. Voru gestir þá í kringum 300 manns. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir húðflúrlistakona með meiru og Anna Björg Þórarinsdóttir framkvæmdastýra Galdrasýningar á Ströndum. Til að fræðast meira um hátíðina og kaupa miða er bent á heimasíðuna: https://www.sorceryfestival.is/

Frá skrúðgöngu og listagjörningi sem var á seinustu hátíð.

Ísafjarðarbær : 15 m.kr. í uppbyggingarsamninga

Golfíþróttin fær styrk frá Ísafjarðarbæ líkt og fleiri íþróttagreinar.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar fékk sex umsóknir frá aðildarfélögum HSV um uppbyggingarsamning fyrir 2025.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd leggur til við bæjarstjórn að gerðir verði uppbyggingarsamningar við félögin. Heildarupphæð úthlutunar er 15.000.000 kr.


Nefndin leggur til að upphæðin skiptist eftirfarandi:

Golfklúbburinn Gláma: Upphæð 895.748 kr. Bætt aðstaða, smíð á palli um húsið. Sótt var um 2 m.k. styrk.

Skotíþróttafélag Ísafjarðar: Upphæð 5.329.252kr. Skipta út ljósum, mála veggi og gólf með epoxy og endurnýja varmadælu. Sótt var um 6.871.452 kr.

Skíðafélag Ísfirðinga- Alpagreinar: Upphæð 1.500.000 kr. Aðstaða við Miðfellslyftu, innréttingar í nýja aðstöðu félagsins. Skíðafélagið sótti um 1,5 m.kr.

Skíðafélag Ísfirðinga sótti um 1,2 m.kr. vegna skíðagöngu: Upphæð 1.200.000 kr. Kaup á tromlu og spora fyrir snjósleða.

Knattspyrnudeild Vestra: Upphæð 2.575.000 kr. Fyrsti hluti sjoppubyggingar á stúku við Torfnes. Sótt var um 5.075.000 kr.

Golfklúbbur Ísafjarðar: Upphæð 3.500.000 kr. Lagfæra og bæta við stíga. Golfklúbburinn sótti um 6.000.000 kr.

Grammófónn

Grammófónn í brúnum viðarkassa. Inni í kassanum eru þrír pakkar af nálum og tvær hljómplötur.

Önnur hljómplatan er danska platan Polyphon, öðru megin er lagið Moonlight and shadows. Musik: Fr. Hollander – Text: Robin, Hallbjörg Bjarnadottir med Elo Magnussen Srygekvintet. Hinu megin er lagið Jeg har elset dig, saalænge jeg kan mindes. Musik: Kai Normann Andersen – Text: Mogens Dam, Hallbjörg Bjarnadóttir med Elo Magnussen Srygekvintet.

Hin hljómplatan er Cupol, öðru megin er lagið Flottarkarlek, visa (Hugo Lindh) ,,Snoddas,, Nordgren, Carl Julabos kvartett. Hinu megin er svo lagið Charlie Truck, Hum, visa (L. Dahlqvist – H. Iseborg) ,,Snoddas,, Nordgren, Carl Julabos kvartett.

Af sarpur.is

Íbúar Vestfjarða eru 7550

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 248 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2024 til 1. febrúar 2025 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 37 íbúa. Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 19 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fækkað um 21 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 59 íbúa.

Í Ísafjarðarbæ fækkaði um 18 og um 3 í Strandabyggð. Í Vesturbyggð fjölgaði um 10 um 6 í Súðavík 4 í Bolungarvík um 1 í Reykhólahreppi 2 í Árneshreppi og 4 í Kaldrananeshreppi.

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Kjósarhrepps fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2024 um 3,9% en íbúum þar fjölgaði um 12 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Árneshreppi og Kaldraneshreppi eða um 3,4%.  Af 62 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 24 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 38 sveitarfélögum. 

Íbúum Grindavíkurbæjar fækkar um 214 á tímabilinu eða um 15,2%.

Ỏskað eftir tilnefningum til landbúnaðarverðlauna 2025

Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Húnabyggð, fékk landbúnaðarverðlaunin árið 2022. Ljósmynd huni.is

Óskað er eftir tilnefningum til landbúnaðarverðlauna matvælaráðuneytisins sem atvinnuvegaráðherra veitir árlega í tengslum við Búnaðarþing.

Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar um bændabýli eða önnur landbúnaðarfyrirtæki og félög sem talin eru hafa verið til fyrirmyndar að einhverju leyti í íslenskum landbúnaði á síðasta ári.

Stutt greinargerð skal fylgja með tilnefningu þar sem fram koma helstu upplýsingar um starfsemi tilnefndra ásamt rökstuðningi fyrir tilnefningunni. Verðlaunahafar geta verið allt að þrír.

Við valið er litið til þátta eins og frumkvöðlastarfs, nýjunga í starfsháttum eða annars árangurs sem getur verið öðrum fyrirmynd í landbúnaði svo sem á sviði umhverfisstjórnunar, loftslagsmála, ræktunarstarfs eða annarra þátta í starfseminni.

Ráðherra landbúnaðarmála veitti landbúnaðarverðlaun fyrst 1997 og þau hafa verið veitt flest ár síðan eða alls í 26 skipti.

Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari hefur tekið að sér hönnun og gerð verðlaunanna sem verða afhent af Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra á Búnaðarþingi.

Frestur til að skila inn tillögum er til 3. mars næstkomandi.

Dynjandisheiði lokuð – óvissustig á öðrum fjallvegum

Dynjandisheiði er lokuð í dag samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar og veður hún ekki opnuð í dag. Á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum er óvissustig  til kl. 08:00 á morgun 6. febrúar og getur vegurinn því lokast með stuttum fyrirvara.

Hálka eða snjóþekja með skafrenningi og éljagangi er á flestum leiðum. En eitthvað er um þæfingsfærð.

Veðurspáin er ekki góð næsta sólarhringinn. Veðurstofan birtir þetta um horfurnar:

Vaxandi sunnanátt, 20-30 m/s seint í dag og hviður yfir 40 m/s. Talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hlýnar í veðri, hiti 2 til 9 stig í kvöld. Hægari um tíma í nótt. Sunnan 23-30 í fyrramálið og talsverð rigning, en mun hægari og snjókoma á Vestfjörðum. Dregur úr vindi og úrkomu síðdegis á morgun, fyrst vestantil. Suðvestan 10-18 annað kvöld, él og hiti nálægt frostmarki.

Sterkar Strandir – Síðasti fundurinn

Lokaíbúafundur Sterkra Stranda verður haldinn í Félagsheimilinu á Hólmavík fimmtudaginn 20. febrúar nk. kl. 18:00. Ráðgert er að fundi verði slitið um kl 20:40. Fundarstjóri verður Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðamála, hjá Vestfjarðastofu. Boðið verður upp á súpu, brauð og kaffi á fundinum. 

Á fundinum verður farið yfir það helsta í verkefninu. Verkefnisstjórn Sterkra Stranda hvetur íbúa til góðrar mætingu á fundinum. 

Rétt er einnig að benda á að Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur undanfarna daga haft samband við íbúa Strandabyggðar vegna könnunar um viðhorf íbúa til verkefnisins.

Mikilvægt er að ná sem mestu svarhlutfalli í könnuninni til að varpa ljósi á stöðu byggðarlagsins í lok verkefnis að mati íbúa. Ekki er hægt að rekja svör til einstaklinga.

Ef það er ekki búið að hafa samband við þig en þú vilt taka þátt þá má hafa samband við Helgu Einarsdóttur hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri.

Vitundarvakning Krafts – fjáröflun

Nú stendur yfir til 12. febrúar átakið – Lífið er núna húfa 2025 – á vegum Krafts, sem er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess.

Fjáröflun er með sölu á veglegum húfum sem sækja innblástur í hönnun listakonunnar Tótu Van Helzing. Tóta var félagsmaður í Krafti. Hún er þekktust fyrir peysurnar sínar sem liggja á mörkum tísku, handverks og listar þar sem blandað er saman mismunandi áferðum í prjóni og garntegundum eins og segir í kynningu.

Húfan er fáanleg í tveimur útgáfum, appelsínugul með fallegu prjónamynstri og svört með hvítu munstri.

Húfurnar eru úr 50% ull og 50% endurunnu nylon.

Húfurnar fást einnig í völdum verslunum Krónunnar, Hagkaups og Rammagerðarinnar.

Hér má panta Lífið er núna húfa 2025 – Kraftur

Verð 5.900 kr.

Allur ágóði af sölu rennur beint í starfsemi Krafts.

Birnir Snær í u15 landsliðið í körfu

Birnir Snær á vellinum. Mynd: aðsend.

Fimm yngri landslið Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, munu koma til æfinga í febrúar. Eru það U15 ára og U16 ára stúlkna og drengja sem og U18 ára lið drengja. 

Dino Stipcic þjálfari U15 karla hefur valið Birnir Snær Heiðarsson leikmann Vestra í 24 manna úrtakshóp U15 landslið karla hjá KKÍ en 12 leikmanna lokahópur mun taka þátt í Norðurlandanótinu í Finnlandi í ágúst nk.

Nýjustu fréttir