Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 35

Vestfirðir: allt að 85% í hvalaskoðun frá skemmtiferðaskipum

Einn laugardaginn í júlí voru þrjú erlend skemmtiferðaskip á Ísafirði, þar af tvö við Sundabakka og svo laxaþjónustuskip við Mánabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Cruise Iceland segir að ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi njóti mörg aukinna tekna vegna heimsókna skemmtiferðaskipa til landsins. Þar sem skipin leggist að bryggju skapist tækifæri fyrir staðbundna atvinnuþróun og efnahagsvöxt, eins og sýndi sig í skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var í samstarfi við Faxaflóahafnir og aðra hagaðila. Skýrslan leiddi í ljós öflug efnahagsáhrif skemmtiferðaskipa og að þeir sem ferðast með þeim eyða töluvert hærri fjárhæðum í landi yfir styttri tímabil en áður var talið.

Fyrir skömmu birtist frétt á Akureyri.net þar sem Sara Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri Whale Watching, greinir frá því að sumarið hafi verið gjöfult hjá fyrirtækinu. Innan fréttar er sérstaklega minnst á að þegar skemmtiferðaskipin koma til landsins er þörf á að fjölga ferðum hjá fyrirtækinu og telur framkvæmdastjórinn að rúmlega helmingur viðskiptavina þeirra í sumar komi af skemmtiferðarskipunum, sem er gríðarleg tekjuaukning fyrir hvalaskoðunarfyrirtækin.

Jón Auðun Auðunarson, framkvæmdastjóri Vesturferða, aðildarfélags Cruise Iceland, tekur undir það sem fram kemur í fréttinni:
“Þetta er okkar upplifun líka. Örugglega 85% af farþegum í hvalaskoðun koma frá skemmtiferðaskipum. Ég set ekki einu sinni inn brottför í hvalaskoðun þegar það er ekki skip í höfn. Það svarar ekki kostnaði að fara af stað með 2-4 farþega sem koma keyrandi til Ísafjarðar,“ segir Jón Auðunn og vísar þar í hversu mikil hagkvæmni felst í að einblína á þjónustu við þennan ferðamannahóp.

Ferðaþjónustan á Ísafirði er háð farþegum skemmtiferðaskipa
Jón Auðun telur ferðaþjónustuna á Ísafirði vera mjög háða skemmtiferðaskipum þar sem Ísafjörður er ekki á þjóðvegi 1 og keyrandi ferðamenn skauta oftast framhjá Vestfjörðum, sem sé auðvitað miður því landshlutinn hafi upp á mikið upp á að bjóða. Hann segir jafnframt að fyrirtækið eigi erfitt með að vera með reglulegar brottfarir í hvalaskoðunum yfir sumarið, enda séu þær núna sérsniðnar eftir komu og brottfaratíma skipa. Þetta fyrirkomulag reynist töluvert betur eins og áður sagði. Jón Auðunn bætir við: „Framkvæmdastjóri hjá Eldingu á Akureyri áætlaði að hlutfallið væri í kringum 50% í hvalaskoðun. Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvæg skemmtiferðaskip eru fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Skipin skilja eftir miklar tekjur fyrir samfélagið – Það er bara staðreynd þótt að margir reyna að halda öðru fram.“

Minning: Einar Hjaltason, læknir

F.22. apríl 1945 – D. 6. september 2021. 

Útför hans fór fram 20. september 2021.

Sá kunningsskapur er jafnan hlýjastur, sem bundinn er snemma á ævi, af því að hann byggist oftast á því, að menn fella skap saman.  Það fór vel um tuttugu og fjögur stúdentsefni Verslunarskólans uppi á hanabjálka hússins við Grundarstíg.  Lærifeðurnir hver öðrum ágætari og gott að minnast þeirra.

Skólastjórinn, dr. Jón Gíslason, sá viðbrigðasnjalli kennari, gerði okkur nemendum sínum að læra utanbókar 20 endursagnir á þýsku.  Þessar sprettilræður áttu eftir að koma mörgum manninum vel heldur en ekki, síðar á ævi.

Ein var á þá leið, að auðmaður amrískur réði hinn góðfræga ítalska tenór Enrico Caruso sem þá var í söngferð um Bandaríkin, til þess að halda fyrir sig húskonsert og hét honum himinhárri fjárhæð að launum.  Söngvarinn  stóðst ekki mátið, kom á vettvang á tilsettum tíma og tók með sér píanóleikara.  En honum til mikillar undrunar voru engir viðstaddir í viðhafnarstofu  auðkýfingsins, þar sem flygill var til reiðu, aðrir en húsbóndinn sjálfur og svolítill kjölturakki hans.  Og ekki hafði upphafið að íðilfagurri aríu fyrr farið að hljóma en héppi tók að spangóla ámátlega (jämmerlich zu heulen begann). “Látið þér þetta duga, góði,” sagði þá  milljónarinn og rétti hinum rómaða söngmanni ávísun, “ég ætlaði bara að vita hvort hundurinn minn ýlfrar líka, þegar Caruso syngur!”

            Í löngu frímínútunum kl. 10.40 til 11.00 var plagsiður nemenda að hlaupa út  í húsið nr. 37 við Bergstaðastræti, þar sem var verslunin “Síld og fiskur”, steinsnar frá skólanum, og kaupa af Þorvaldi nýbakaða flatköku og salat.  Kaupmaður hafði farið ofan um morguninn í rauðabítið að hnoða saman þetta dýrindis bakkelsi úr rúgmjöli, heilhveiti, sykri og mjólk, en auk þess hrært eggjarauður, grænar baunir, gulrætur og safa úr sítrónu saman við olíusósu, svo að úr varð lostæti, sem hét ítalskt salat. Þessu dengdi hann ótæpilega ofan á flatkökuna, sem við brutum saman, hvomuðum í okkur og kneyfuðum maltöl við.

            Skólabúðina, sem rekin var til þess að afla fjár fyrir útskriftarferð til Ítalíu, skiptust skólasystkinin á að annast, tvö og tvö saman. Samviskusemi og nákvæmni Einars fór ekki fram hjá stallbróður, sem var svo heppinn að starfa með honum að þessu.

            Um vorið var svo haldið utan í skemmtiferð og komið til Róms og Pompeii, borgarinnar sem eldfjallið Vesúvíus gróf undir hraun árið 79 e. Kr. Elstu íbúðarhúsin höfðu verið reist á 4. öldinni fyrir Krists burð.  Ævintýralegur uppgröftur hófst árið 1709 og leiddi í ljós svo jarðneskar leifar íbúanna sem húsakynni þeirra, eldhúsáhöld, mubblur og baðhús.

            Eftir að læknar hættu að ganga sig með töskuna sína heim til fólks og urðu síðar nærri því óínáanlegir, var alveg ómetanlegt að eiga Einar að.

            Góð kveðja er flutt frá samstúdentum frá VÍ ‘65.

            Með þökk og í bæn um blessun Guðs er kær skólabróðir og vinur, Einar Hjaltason, kvaddur.    Guð varðveiti minningu hans og ástvinina alla.

            Gunnar Björnsson,

            pastor emeritus.

Tólf lyklar – bók fyrir fólk af erlendum uppruna

Næsta fimtudag, 25. júlí klukkan 14:45 verður Kristín Guðmundsdóttir höfundur bókarinnar Tólf lykar með bókakynningu á Háskólasetri Vestfjarða. Bókin er fyrir fólk af erlendum uppruna sem er búið með grunninn í íslensku.

Þetta er fimmta bók Kristínar fyrir fólk af erlendum uppruna. Þær bækur sem hún hefur gefið út eru: Nýjar slóðir 2020, Óvænt ferðalag 2021, Leiðin að nýjum heimi 2022,  Birtir af degi 2023 og Tólf lyklar 2024.

 Ástæða þess að hún fór að gefa þessar bækur út af eigin frumkvæði var að vinkona hennar, sem kom til landsins árið 1995, sagði að það var skortur á góðu lestrarefni fyrir fólk af erlendum uppruna.

Bókarkynningin er liður í átakinu Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag.

Þar eru margir dagskrárliðir í sumar.

Hús segja sögu verður 30. júlí, klukkan 14:45 í Háskólasetri Vestfjarða, Ísafirði. Vaida Bražiūnaitė segir frá húsinu hennar Dísu, Albertshúsi.

Mörg hús á Ísafirði eru með mikla og flotta sögu. Húsið hennar Dísu á bökkunum, Albertshús, hefur verið fastur punktur í götumynd Ísfirðinga í tæp 130 ár. Árið 2016 tóku barnabarnabarnabarn Dísu og fjölskyldan hans, við húsinu og byrjuðu að endurbyggja það. Margar gersemar fundust og áhugaverð saga af húsi verður kynnt. Við ferðumst um bæinn í gegnum myndir og hressum upp á sögu nokkurra áhugaverðra húsa á Ísafirði.

Míla eykur bandvídd á Vestfjörðum

Míla hefur uppfært fyrirliggjandi stofnnet til að styðja aukna bandvídd með nýjum
bylgjulengdarbúnaði. Í tilkynningu frá Mílu segir að stofnnet Mílu hafi verið uppfært í 200 gígabita á sekúndu bandvídd.

„Aukin bandvídd kemur til með að nýtast öllum íbúum, stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu og opnar á aukna möguleika. Þessi uppfærsla tryggir að Míla geti annað bandvíddareftirspurn á svæðinu næstu áratugi og opnar á frekari aukningu með auðveldum hætti. Hver bylgja býður upp á 200-400 gígabita á sekúndu og pláss er fyrir 50-100 bylgjur.“

„Það er gaman að sjá 30 ára ljósleiðaraþræði fá endurnýjun lífdaga með 200 gígabita uppfærslu með nýrri bylgjulengdartækni. Vestfirðir fá þarna góða innspýtingu af bandvídd sem kemur til að nýtast íbúum, stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu.“ segir Daði Sigurðarson framkvæmdastjóri tæknisviðs Mílu. „Við eigum svo inni að bæta við fleiri bylgjum til að auka bandvídd enn frekar.“

Mast: hafnar ásökunum um mútuþægni – skoða rétt starfsmanna

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segist í svari við fyrirspurn Bæjarins besta hafna alfarið ásökunum Esterar Hilmarsdóttir um mútuþægni starfsmanna stofnunarinnar. Í aðsendri grein á Vísi síðasta þriðjudag segir Ester eftirfarandi:

 „En þrátt fyrir þessar niðurstöður skakar starfsfólk MAST sér í skrifstofustólunum svo skrjáfar í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafa stungið í vasa þeirra, um leið og þau skrifa upp á rekstrarleyfið þvert á mat Samgöngustofu og þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar.“

Ennfremur segir Hrönn:

„Við erum jafnframt að skoða rétt okkar og hvort höfundur hafi með þessum ásökunum brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga varðandi að saka opinbera starfsmenn um refsiverða háttsemi. Við tökum þessu máli mjög alvarlega.“

Unaðsdalskirkja 

Fyrrun mun hafa verið bænhús með kirkjugarði í Unaðsdal og kirkjuvegur langur út að Snæfjöllum, yzta bæ a Snæfjallaströnd. Þaðan var kirkjan flutt í Unaðsdal árið 1867 og sóknin lögð til Kirkjubólþinga með lögum árið 1880 og þjónað þaðan til 1908. Þá tók Vigurprestur við í 10 ár unz Staðarprestur í Grunnavík bætti öðrum 10 við.

Eftir 1928 hefur Unaðsdalskirkja verið útkirkja frá Vatnsfirði, eins og lögin frá 1907 kváðu á um. Um aldamótin 1900 voru 350 manns skráðir í sókninni en aðeins 150 árið 1907. Kirkjan, sem nú stendur í Unaðsdal, var byggð 1897. Hún er úr timbri með lofti og turni og stendur á sléttri eyri við ósa Dalsár. Fyrri kirkja stóð á gamla bænhússgrunninum í kirkjugarði allmiklu ofar og neðst í túni.

Forn koparhjálmur úr Snæfjallakirkju er meðal góðra gripa og einnig altaristafla eftir Anker Lund (Kristur að lækna Bartimeus blinda) og Guðmundur „bíldur” Pálsson (†1888) skar út stóra krossinn vinstra megin í kórnum. Kirkjan á einnig gamla ljósahjálma og altarisstjaka og tvær stórar klukkur í turni, önnur þeirra frá 1791.

Af vefsíðunni is.nat.is

Fánaberar Íslands á ÓL í París

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur valið fánabera Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna í París 2024.

Frá 2020 hefur Alþjóðaólympíunefndin lagt áherslu á að frá öllum löndum séu tilnefndir tveir fánaberar, bæði karl og kona.

Fánaberar Íslands verða þau Guðlaug Edda Hannesdóttir sem keppir í þríþraut og Hákon Þór Svavarsson sem keppir í haglabyssuskotfimi. Þau eru bæði að keppa í fyrsta sinn á Ólympíuleikum og fá þennan heiður samhliða frumraun sinni. Jafnframt verður þetta í fyrsta sinn sem keppandi í skotíþróttum og þríþraut er fánaberi Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna.

Að þessu sinni verður verður ekki hefðbundin innganga á setningarhátíð heldur sigla fulltrúar allra landa á bátum eftir ánni Signu í hjarta Parísarborgar. Setningarhátíðin er sú stærsta sem haldin hefur verið í sögu Ólympíuleikanna.

Íslands á fimm keppendur á Ólympíuleikunum í París, þau Guðlaugu Eddu Hannesdóttur í þríþraut, Hákon Þór Svavarsson í skotíþróttum, Anton Svein McKee og Snæfríði Sól Jórunnardóttur í sundi og Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur í frjálsíþróttum. Það verður spennandi og skemmtilegt að fylgjast með þeirra vegferð á leikunum.

OPNUN: VITAR

OPNUN: VITAR (Afmælissýning og útgáfuhóf)
Jón Sigurpálsson (1954 – 2023) 
Slunkaríki í Edinborgarhúsinu býður gesti velkomna á opnun afmælissýningar og útgáfuhófs kverinu „Vitar“ í tilefni af því að myndlistarmaðurinn og fyrrum stjórnarformaður Edinborgarhússins, Jón Sigurpálsson, hefði orðið sjötugur 2. ágúst n.k.. 
 
Fjölskylda Jóns hefur undanfarna mánuði tekið saman verk Jóns sem finna má í almannarýmum hér á landi og erlendis. Kverið er hannað af Einari Viðari Guðmundssyni Thoroddsen með textum eftir Halldór Björn Runólfsson, Björn Vigni Sigurpálsson og Kristínu Hagalín Ólafsdóttur. 
 
Á sýningunni verða prentverk, ljósmyndaverk, veggverk og skúlptúrar eftir Jón ásamt skissum af listaverkum sem bæði urðu og urðu ekki að veruleika. 
 
Viðburðurinn verður föstudaginn, 26. júlí kl.17.00 í Bryggjusal Edinborgarhússins, Ísafirði. Boðið verður upp á léttar veitingar. 
 

 
Jón Sigurpálsson (1954 – 2023) fæddist í Reykjavík 1954. Eftir sex ára myndlistarnám í Hollandi settist hann að, ásamt eiginkonu sinni Margréti Gunnarsdóttur, á Ísafirði þar sem hann bjó og starfaði ævina út. Jón sýndi bæði hér á landi og erlendis um áratuga skeið og eftir hann eru fjölmörg útilistaverk. Jón hefur í gegnum tíðina komið að ýmsu í þágu myndlistar s.s. reksturs á galleríi Slunkaríki á Ísafirði og setu í stjórn Myndhöggvarafélags Reykjavíkur.
 
Aðgangur ókeypis
Sýningin hlýtur stuðning úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæja og uppbyggingarsjóði. 

Nýr samn­ingur um samþætta heima­þjón­ustu undirritaður

Heil­brigð­is­stofnun Vest­fjarða og Vest­ur­byggð hafa gengið til samn­inga um rekstur samþættrar heima­þjón­ustu í sveit­ar­fé­laginu.

Samn­ing­urinn er hluti af verk­efninu Gott að eldast, aðgerða­áætlun stjórn­valda í málefnum eldra fólks.

Heilbrigðisstofnun mun taka að sér rekstur heimastuðnings í samstarfi við sveitarfélagið. Lögð verður áhersla á persónumiðaða nálgun þar sem fagmenn vinna saman í teymisvinnu. Þjónustugátt verður ein, sem þýðir að allar beiðnir um þjónustu fara í gegnum eitt kerfi og mat á þeim verður sameiginlegt verkefni félags- og heilbrigðisstarfsfólks.

Markmiðið með verkefninu er að auka gæði þjónustu fyrir eldra fólk, minnka líkur á að fólk falli á milli þjónustukerfa og fækka innlögnum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Með samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan verði í einu flæði og að brugðist sé fljótt við breyttum þörfum notenda.

Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í átt að betri og skilvirkari þjónustu við eldra fólk í Vesturbyggð, þar sem hámarks nýting fjármuna er tryggð án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Vonir standa til um að þessi samþætta heimaþjónusta muni leiða til betri lífsgæða fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.

Örnukeppnin – hjólreiðakeppni á Vestfjörðum í næstu viku

Þann 24. júlí munu 40 hjólreiðakappar víðs vegar að úr heiminum taka þátt í hjólreiðakeppni sem nú er haldin í þriðja sinn: þeir munu á fimm dögum hjóla 956 kílómetra leið um Vestfirði, í sumarbirtu allan sólarhringinn. Keppnin hefst á Silfurtorgi á Ísafirði klukkan 7:00 að morgni.

Keppnin nefnist Arna Westfjords Way Challenge og ArcticFish Midnight Special 2024.

Keppnin tekur fimm daga og er sú fyrsta sinnar tegundar segir í fréttatilkynningu. Keppninni er ætlað að tengja samfélag og þátttakendur. Hjólreiðakappar eru hvattir (og skyldaðir) til að koma við á „menningarlegum viðkomustöðum“ svo sem heitum laugum, kaffihúsum eða söfnum, líta upp og njóta aðeins og á þann hátt berst fjörið í keppnis vikunni um allt svæðið! Á meðan stöðvast tímatakan.

Hjólreiðafólkið kemur við á yfir 20 menningarlegum viðkomustöðum í vikunni, meðal annars kaffihúsinu í Litlabæ, fjölskyldureknum dýragarði að Hólum í Búðardal, heitum laugum svo sem Reykjafjarðarlaug og Dynjanda og Svalvoga þar sem vegurinn liggur í flæðarmálinu. Keppninni lýkur fyrir framan Edinborg (Pollgötumegin) þar sem verðlaunaafhending fer fram innandyra, afrekum verður fagnað fram eftir kvöldi.

Stærsti styrktaraðili keppninnar er Mjólkurvinnslan Arna í Bolungarvík sem framleiðir laktósafríar mjólkurvörur og dregur keppnin nafn sitt af þeim. ArcticFish styrkir keppnina einnig rausnarlega og ber lokakeppnin nafn þeirra ArcticFish Midnight Special. Aðrir styrktaraðilar eru Reiðhjólaverslunin Berlín, Hótel Ísafjörður,Borea Adventures, Kaffitár, Corsa, Oddi, Collab Hydro og Grainy Foods.

Frekari upplýsingar koma fram á cyclingwestfjords.com, Facebook og Instagram.

Nýjustu fréttir