Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 35

Skýrsla Ofanflóðanefndar komin út

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur gefið út skýrslu um starfsemi Ofanflóðanefndar vegna tímabilsins 2022-2023. Skýrslan er sú sjötta í röðinni um starfsemi nefndarinnar frá því að hún hóf störf í ársbyrjun 1996.

Í skýrslunni má finna yfirlit um verkefni nefndarinnar.

Á árunum 2025 – 2028 eru eftirtalin verk á áætlun á Vestfjörðum:

Patreksfjörður: Fyrirhugað að ljúka við hönnun varna í Stekkagili, ofan Sigtúnssvæðisins og í og við Litladalsá. Einnig er fyrirhugað að framkvæmdir við varnir verði boðnar út og framkvæmdir fari af stað.

Tálknafjörður: Fyrirhugað er að ljúka við mat á umhverfisáhrifum og hönnun varna.

Bolungarvík: Fyrirhugað er að unnið verði að matsfyrirspurn og hönnun mannvirkja til að draga úr vindáhrifum neðan varnargarða.

Flateyri: Fyrirhugað að ljúka framkvæmdum við endurbættar varnir.

Hnífsdalur: Ljúka við hönnun varna og að bjóða út framkvæmdir við þær.

Íþróttavika Evrópu í Ísafjarðarbæ

Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin víðsvegar um álfuna í september ár hvert. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. 

Dagskrá vikunnar í Ísafjarðarbær er fjölbreytt og eru allir hvattir til að taka þátt.

Það fara fram tveir mikilvægir fyrirlestrar þessa vikuna.

Mánudaginn 23. september

Kl. 18:00 á 4. hæð í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði

Viðar Halldórsson fjallar um það félagslega afl sem myndast í samskiptum fólks og stuðlar að vellíðan þess, gerir hóp að liði, og samfélag að samfélagi. Þetta afl, sem í formi félagslegra töfra, myndar dýrmætan félagsauð sem reynist fólki ómetanlegur í dagsins önn. Í fyrirlestrinum verður þetta félagslega afl sem jafnan er erfitt að sjá með berum augum gert sýnilegra og mikilvægi þess fyrir einstaklinga og samfélags reifað. Fyrirlesturinn hentar öllum sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera gott samfélag enn betra, fyrir sig og sína.
Frekari upplýsingar um Viðar og efni fyrirlestursins má finna á heimasíðunni www.felagslegirtofrar.is.

Kl. 16:30 á 4. hæð í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði

Salome Elín Ingólfsdóttir fræðir ungmenni um mikilvægi næringar, hvað er góð orka og hvernig er best að huga að hann fyrir krefjandi daga. Góð næring eykur úthald og hjálpar til við að ná betri árangri. Foreldrar eru velkomnir með sínum ungmennum á fyrirlesturinn.

Vegagerðin: nýtt áhættumat fyrir Vestfjarðagöng unnið í vetur

Bergþóra Kristinsdóttir. Mynd: visir.is

Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdatjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar segir að í vetur verði unnið nýtt áhættumat fyrir Vestfjarðagöng. Verið sé að vinna að þessu fyrir jarðgöng landsins og lokið sé endurmati fyrir Bolungavíkurgöng og Héðinsfjarðargöng. Næst verði skoðuð Strákagöng, Múlagöng og svo Vestfjarðagöng. Ráðinn er aðkeyptur ráðgjafi við verkið.

Gildandi áhættumat sé gamalt og þörf á uppfærslu. Setja þurfi nýjar upplýsingar um umferð og þungaflutninga sem dæmi sé tekið. Bergþóra vill að þróun umferðarspár verði skoðuð.

Í áhættumati séu m.a. metnar líkur á atburði og við það mat sé breidd ganga og stærð útskota atriði sem skipti máli. Í dag sé það eingöngu tvíbreið göng sem séu boruð, enda gefi þau meira öryggi, t.d. á þann veg að fólksbifreiðar geta snúið við í göngunum.

Þá segir Bergþóra að skoða þurfi viðvörunarbúnað í jarðgöngum.

Vesturbyggð: bæjarstjórn lýsir áhyggjum yfir stöðu vegaframkvæmda

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tók fyrir vegamál á fundi sínum á miðvikudaginn. Lögð var fram ályktanun bæjarráðs sem Bæjarins besta hefur áður gert grein fyrir.

Bæjarstjórnin  tekur heilshugar undir bókun bæjarráð og lýsir yfir áhyggjum sínum af stöðu vegaframkvæmda á svæðinu. Bæjarstjórn fól bæjarstjóra að óska eftir fundi við Innviðaráðherra og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Í ályktun bæjarráðs er lýst yfir „áhyggjum af því að ekki sé útlit fyrir það að samfella verði í framkvæmdum á Dynjandisheiði. Heilsárssamgöngur milli norður og suður svæðis Vestfjarða eru mikilvægar fyrir bæði íbúa og atvinnulíf og munu koma til með að gjörbreyta möguleikum Vestfirðinga og annarra landsmanna til þessa að fara um svæðið á ársgrundvelli.“

Þá er jafnframt lýst yfir áhyggjum af mögulegum drætti á útboði lokaáfanga á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit. Framkvæmd sem beðið hefur verið eftir til fjölda ára og mikið áhyggjuefni ef frekari tafir verða á.

Í álytuninni segir að mikilvægt er að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum um Bíldudalsveg 63 niður Trostansfjörð þar sem sú framkvæmd er gríðarlega mikilvægur hlekkur í vegasamgöngum svæðisins.

Bæjarstjórnin tók einnig undir bókanir heimastjórna Patreksfjarðar, Tálknafjarðar og Arnarfjarðar um Suðurfjarðagöng, tvenn jarðgöng milli Arnarfjarðar, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, og ítrekar mikilvægi þess að tengja saman þéttbýli í nýsameinuðu sveitarfélagi. Bæjarstjórnin mun beita sér fyrir því að undirbúningi og nauðsynlegum rannsóknum vegna Suðurfjarðaganga verði flýtt í samgönguáætlun.

Vikuviðtalið: Óðinn Gestsson

Ég er framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu hf, Norðureyrar ehf sem að er útgerðarfélag staðsett á Suðureyri, ásamt því að ég sé um rekstur Vestfisks í Súðavík sem er harðfiskþurrkun. Það má segja að rekstur fiskvinnslu og útgerðar séu að miklu leyti mitt áhugamál, en ég hef starfað í þessum geira frá því að ég byrjaði á vinnumarkaði. Í þessum fyrirtækjum sem að ég stýri starfa um 50 manns af mörgum þjóðernum, því má segja að maður lifi og hrærist í alþjóðlegu umhverfi.

Fiskvinnslan Íslandssaga hf var stofnuð 6. desember 1999 og fagnar því á þessu ári 25 ára afmæli. Ég hóf hins vegar störf hér á Suðureyri eftir að hafa verið í burtu um skeið í árslok 1990, þá voru erfiðir tímar í útgerð og vinnslu, fyrstu árin sá ég um útgerðarmálin en síðar gerðist ég framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Freyju, sem rann inní Básafell í frægum sameiningum sem áttu sér stað á 10. áratug síðustu aldar, vinnslan á Suðureyri rann svo útúr Básafelli og til varð Fiskvinnslan Íslandssaga hf.

Ég fæddist á Suðureyri 1959 og sleit barnsskónum þar gekk í skóla fram að unglingastigi, en fór þá í Héraðsskólann á Laugarvatni, eftir það lá leiðin í Stýrimannaskólann og lauk ég prófi þaðan 1980, árið sem að myntbreytingin var og allir áttu fullt af peningum, skattlausa árið þegar staðgreiðslan var tekin upp. Ég hóf stýrimannaferilinn í Þorlákshöfn og var þar í nokkur ár en fór síðan á skip frá Keflavík, bæði sem stýrimaður og skipstjóri. Sjómannsferillinn endaði svo á Akureyri á frystitogara sem seldur var þangað af Suðurnesjunum. Fékk svo símtal frá Guðna Einarssyni félaga mínum sem bauð mér að koma til starfa við útgerðina á Suðureyri og hér er ég enn.

Ég er giftur Pálínu Pálsdóttur leikskólastarfmanni og eigum við þrjár dætur. Við eigum í dag 10 barnabörn og finnst það bara nokkuð gott. Það má segja að áhugamálin utan vinnunnar séu samvistir við fjölskylduna og fluguveiðar, undanfarin ár hef ég unnið í því að sameina þessa ástríðu mína að veiða við samvistir með fjölskyldunni, mér finnst það hafa tekist afar vel, í sumar hef ég eingöngu veitt með fjölskyldumeðlimum mörgum saman eða einum í einu, það er mjög gaman að eiga minningarnar um fyrsta laxinn hjá unga fólkinu og að geta sameinast í því sem öllum líkar. En auðvitað er áhuginn misjafn eins og í öðrum áhugamálum, en ég kvarta ekki.

Ég hef setið í stjórnum margra fyrirtækja á leiðinni, þá hef ég verið virkur í pólitísku starfi í gegnum lífið og fundist það gefandi, ég hef reynt að láta gott af mér leiða í íþróttastarfinu og lagt töluverða vinnu í það í gegnum tíðina. Það yrði of langt mál að telja allt upp, það myndi engin nenna að lesa það. Ég er venjulegur Vestfirðingur sem brenn fyrir samfélagið sem að ég bý í á hverjum tíma og reyni að láta gott af mér leiða.

Þó verður ekki undan því vikist að nefna einn hóp sem að ég tilheyri, „Karlahreysti“ þetta er hópur manna ungir og eldri sem koma saman þrisvar í viku í öllum mánuðum sem eru með R innanborðs og ganga sér til heilsubótar segja sögur af sjálfum sér og öðrum misgóðar margar sannar en flestar lognar á einn eða annan hátt. Þessi hópur er undir dyggri stjórn Árna Ívarssonar og á hann miklar þakkir skyldar fyrir það. Þetta er sá félagsskapur sem hefur gefið mér mest og er þó af mörgu að taka.

Innviðafélag Vestfjarða mótmælir harðlega stöðvun framkvæmda á Dynjandisheiði

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Innviðafélag Vestfjarða lýsir mjög miklum vonbrigðum og furðu yfir fréttum af stöðu framkvæmda á Dynjandisheiði, nú þegar aðeins sjö kílómetra vantar upp á að bundið slitlag verði yfir heiðina alla. Vegagerðin svarar því einu að fjármagn skorti og ekkert verði aðhafst í bili.

Nú er verið að ljúka við annan áfanga á Dynjandisheiði. Þar með er komið bundið slitlag á um 24 af 31 kílómetra og því er einungis eftir þriðji áfangi, um sjö kílómetra kafli. Að því loknu verður loksins komið bundið slitlag milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða. Gera má ráð fyrir að kostnaður við þennan síðasta kafla sé um 1,5 milljarðar króna.

Innviðafélagið bendir á að árið 2020 hafi Alþingi samþykkt samhljóða Samgönguáætlun 2020-2034 þar sem gert var ráð fyrir að ljúka við vegagerð á heiðinni árið 2024. Um þetta hafi verið eining og þar fólst loforð til Vestfirðinga að vegi yfir Dynjandisheiði yrði loks komið í betra horf með bundnu slitlagi.

Í tilkynningu frá Innviðafélaginu segir að það sé með miklum ólíkindum að ekki eigi að standa við ákvörðun Alþingis og ljúka við þessa örfáu kílómetra sem eru eftir á Dynjandisheiði líkt og lofað var.

„Innviðafélag Vestfjarða kallar eftir því við Innviðaráðherra sem og þingmenn kjördæmisins að þeir skýri hverju sæti þessi verkótti og framkvæmdaleysi“, segir Unnar Hermannsson, sem er stjórnarmaður í Innviðafélaginu. „Við skorum á stjórnvöld að girða sig í brók og klári að leggja bundið slitlag á Dynjandisheiði. Annað er ófært.“

Vestri karfa: 12 leikmenn skrifa undir samning

Vestri haustið 2024. Mynd: Baldur Ingi Jónasson.

Það hafa 12 leikmenn skrifað undir samning hjá KKD Vestra fyrir komandi tímabil.  Það er ánægjulegt að 10 af þessum leikmönnum koma úr yngri flokka starfi félagsins.  Í hópnum eru einnig 2 eldri reynsluboltar sem hafa reynslu frá KFÍ tímanum einnig bæst í hópinn og verða þeir með eftir bestu getu, en það eru þeir Helgi Dan Stefánsson og Gunnlaugur Gunnlaugsson.   Það eru þrír ungir og efnilegir leikmenn sem spila í 11. flokki félagsins komnir inn í æfingahópinn, þeir Stefán Albertsson, Árni Árnason og Haukur Fjölnisson og voru þeir að skrifa undir sínu fyrstu leikmanna samninga við félagið.  Litlu eldri eru Hjálmar Jakobsson, Frosti Gunnarsson, Jón Shiransson, Elmar Baldursson og Magnús Birgisson. Þá fluttist til svæðisins Kjartan Þorsteinsson frá Þorlákshöfn og er hann í Menntaskólanum á Ísfirði. Egill Fjölnisson hefur svo tekið fram skóna á ný eftir nokkurra ára hlé frá körfubolta.

Reinis Vilks, fyrrum atvinnumaður í körfuknattleik, sem var íþróttakennari á Patreksfirði flutti til Ísafjarðar, og kennir nú íþróttir á Þingeyri, þjálfar 11. flokk félagsins og er þjálfari í íþróttavali í menntaskólanum verður einnig leikmaður meistaraflokksins. Það er mikilvæg fyrir ungan kjarna að hafa reynslubolta til að styðja við liðið.

Birgir Örn Birgisson mun þjálfa liðið.   Hann hefur unnið gott starf með stórum kjarnahópi af liðinu og þekkir leikmenn liðsins talsvert vel, enda unnið gott starf í yngri flokka þjálfun hjá félaginu um ára bil.

Liðið var í efsta sæti í 2. deildinni í fyrra en tapaði í úrslitaeinvíginu.   

Fyrsti leikur er föstudaginn 20. September kl 20.00 á móti Laugdælum.

Haförn ÞH 26 áður Þorsteinn BA 1

Haförn ÞH 26 ex Þorsteinn BA 1. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2024

Dragnótabáturinn Haförn ÞH 26 kemur hér að landi á Húsavík síðdegis þann 16. september.

Það er Uggi fiskverkun ehf. sem á Haförninn og gerir út en fyrirtækið keypti bátinn árið 2010.

Haförn ÞH 26 hét áður Þorsteinn BA 1 frá Patreksfirði og smíðaður var í Garðabær árið 1989. 

Upphaflega Faxafell GK 110, því næst Blíðfari GK 275, Mundi SF 1 og Þorsteinn BA 1.

Báturinn, sem er búinn 450 hestafla aðalvél frá árinu 2001, var lengdur 1993 og mælist 71 brúttótonn (29,9 brúttórúmlestir) að stærð.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Hvítabjörninn felldur – hættan liðin hjá

Nú fyrir örfáum mínútum síðan var hvítabjörn, sem gekk hafði á land á Höfðaströnd í Jökulfjörðum aflífaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum.

Tveir lögreglumenn frá Ísafirði, sem fluttir voru með björgunarbátnum Kobba Láka úr Bolungarvík og liðsmenn séraðgerðasviðs LHG, sem fluttir voru með þyrlu LHG önnuðust verkefnið.

Dýrið fannst í fjörunni skammt frá sumarhúsinu Höfða á Höfðaströnd, hvar ein manneskja hélt til. En hún hafði séð dýrið fyrir utan húsið fyrr í dag.

Þyrla LHG mun fljúga yfir svæðið og tryggja að engin önnur bjarndýr séu á svæðinu.

Lögreglan á Vestfjörðum og Landhelgisgæslan telur að öll hætta sé liðin hjá vegna landgöngu hvítabjarna á svæðinu.

Um 80,000 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi

Alls voru 79.992 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. september sl. og fjölgaði þeim um 5.569 einstaklinga frá 1. desember 2023 eða um 7,5%.

Samtals eru búsettir erlendir ríkisborgarar frá rúmlega 170 löndum á Íslandi

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði um 744 eða 18,9% og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 231 eða 42,9%.

Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um 941 og eru nú 26.553 pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 1.393 einstaklinga eða um 0,4%.

Nýjustu fréttir