Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 34

Unglingalandsmót UMFÍ verður í Borgarnesi

Mótið 2024 fer fram um verslunarmannahelgina í Borgarnesi.

Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram reglulega frá 1992 og árlega frá 2002 um verslunarmannahelgina.

Mótið er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Alls verður boðið upp á 18 mismunandi keppnisgreinar og því ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðu UMFÍ

FLÆÐILÍNA – Síðasta sýningarvika

Sýningin er í hlöðunni í Neðri – Tungu á Ísafirði , gengið inn um dyrnar sem snúa að golfvellinum. Sýningin er opin kl.10:00-20:00 frá 22-27 júlí.

Flæðilína er hluti af mastersverkefni Rannveigar Jónsdóttur frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð.

„Í janúar 2019 fór ég frá Ísafirði á nokkurra daga túr á frystitogara að nafni Páll Pálsson ÍS-102. Á sjó hélt ég úti dagbók, tók myndir og skrásetti hljóðheim skipsins. Ferðin einkenndist af sjóveiki, endurtekningu og einangrun.“ Umhverfishljóð tekin upp um borð í togaranum óma í 5 hljóðskúlptúrum á víð og dreif um rýmið og staðsetja áhorfandann huglægt um borð í skipinu á samt 9 skúlptúrum sem taka form sitt út frá formúlu sem skáldaðar voru út frá upplýsingum um veðurfar og staðsetningu togarans.

Rannveig Jónsdóttir (f. 1992) myndlistarmaður leggur áherslu á hljóð og skúlptúr og texta í verkum sínum sem birtast í prent- og hljóðverkum sem og efnislegum abstrakt formum.

Hún lauk námi frá sjónlistardeild Myndlistarskóla Reykjavíkur (2014), síðar BA námi frá Listaháskóla Íslands (2017) og MFA námi frá Listaháskólanum í Malmö (2019).

Rannveig býr og starfar á Ísafirði og hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis. Hún kennir nú við lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði og vinnur sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Listasafni Ísafjarðar.

Mikil úrkoma og hvassviðri á Strönd­um og Norð­ur­landi

Gul viðvörun hefur verið í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra vegna mikillar úrkomu og hvassviðris, og á Norðurlandi eystra vegna vestanstrekkings og snarpra vindhviða.

Mikið hefur rignt á norðanverðu landinu í nótt og í dag. Veðurstofan hefur fengið tilkynningar um skriður fjarri byggð.

Á tjaldsvæðunum í Fjallabyggð er fámennt en gestum í tjöldum hefur verið ráðlagt að leita skjóls innandyra ef þess þarf.

Viðvaranirnar verða í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra til klukkan 15 og á Norðurlandi eystra til klukkan 18.

Heilbrigðiseftirlit: 112 bílar sem á að fjarlægja

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í vor og sumarbyrjun hefur heilbrigðiseftirlit Vestfjarða lagt áherslu á umhverfiseftirlit. Í upplýsingum Antons Helgasonar, sem sendar voru til sveitarfélaga, kemur fram að númerslausir bílar og bílhræ sé sá úrgangur sem fólk skilur helst eftir á almannafæri.

„Við vitum ekki hvað er að – er þetta aðskilnaðarkvíði sem hrjáir fólk eða ofmat á eigin getu til viðgerða. Við límum rauða miða á þá bíla sem eru á lóðum sveitarfélaga og almannafæri en fyrst gulan og síðan rauðan á bíla á einkalóðum og lóðum fyrirtækja.“

Flestir eigendur bregðast við ábendingu heilbrigðiseftirlts og fjarlægja eða koma bílum í úrvinnslu eða förgun. En einstaka einstaklingar hafa verið með leiðindi við verktaka sem á að sjá um að fjarlægja, „það er illt til afspurnar ef leita þarf út fyrir svæðið að verktökum í þessi þrifaverk. Samtals erum við búnir að líma á 112 bíla nú í vor og sumarbyrjun.“

Bílaálímingar eftir þéttbýlisstöðum:
Ísafjörður 26
Patreksfjörður 6
Flateyri 31
Þingeyri 7
Strandabyggð 22
Bolungarvík 22
Hnífsdalur 4
Það er búið að líma á 112 bíla og af þeim eru 68 í Ísafjarðarbæ. Tekið er fram að verkefnið er rétt að byrja.

Drangsnes: um 700 manns á bryggjuhátíð

Um 700 manns mættu á 20. bryggjuhátíðina á Drangsnesi sem haldin var um helgina. Óskar Torfason, einn aðstandenda hátíðarinnar sagði að hátíðin hafi gengið vel og heimamenn væru mjög ánægðir með hvernig til hefði tekist.

Framhaldið er ekki að fullu ráðið að sögn Óskars, en rétt er um að halda hátíðina 2. eða 3. hvert ár. Á Drangsnesi búa um 70 manns og liðlega 100 manns í hreppnum öllum.

Strax um hádegið á laugardagnn voru hundruð manna mætt í sjávarréttarhlaðborðið sem heimamenn höfðu útbúið og buðu öllum gestum upp á og að sjálfsögðu ókeypis. Þar voru fjölmargir réttir sem hægt að að gæða sér á.

Hluti af veitingunum á sjávarréttarhlaðborðinu á Drangsnesi.

Hlaðborðin voru tvö og eins og sjá má gekk á veitingarnar em þá var bara bætt við.

Boðið var upp á skemmtun við Kerlinguna. Sirkus Ananas var með sýninguna Glappakast.

Keppt var í knattspyrnu og áttust við lið UMF Neista á Drangsnesi og UMF Geislans á Hólmavík. Mikið kapp var í leikmönnum beggja liða, sem voru af báðum kynjum og að breiðu aldursbili. Hólvíkingar byrjuðu betur og höfðu forystu í leikhléi 3:2, en í seinni hálfleik hertu Neistamenn, í rauðu og hvítu , skrúfurnar og unnu frækinn 7:5 sigur. Fegur þeir afhent í leikslok bikar að launum.

Tjaldsvæðið var þétt setið og auk þess bílar og húsvagnar o.fl. við hvert hús í þorpinu.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vestri: jafntefli í Kópavoginum

Frá síðasta leik á Kerecis vellinum sem var gegn KA frá Akureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra í Bestu deildinni atti kappi við HK í Kórnum í Kópavogi um helgina. Liðið átti ágætan leik og lauk leiknum með jafntefli 1:1 þar sem HK skoraði fyrst snemma í leiknum og Benedikt Warén svaraði fyrir Vestra með jöfnunarmarki 20 mínútum síðar.

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var í leikbanni og horfði á leikinn úr stúkunni. Hann sagði eftir leikinn í viðtali við fotbolti.net að varnarframmistaða liðsins hafi verið mjög góð þr sem liðið varðist vel og se ein heild. Hins vegar hafi skort á gæðin sóknarlega.

Eftir 15 umferðir er Vestri í 11. sæti með 12 stig og er tveimur stigum á eftir HK og KR.

Næsti leikur Vestra er á laugardaginn kl 14. Hann verður á Kerecis vellinum á Ísafirði og þar verða FH andstæðingarnir.

Ókeypis trúðanámskeið á Act alone

Hin einstaka leiklistar- og listhátíð Act alone verður haldin hátíðleg dagana 7. – 10. ágúst á Suðureyri. Hátíðin fagnar nú 20 ára afmæli, já svona líður tíminn einstaklega snöggt, og því verður margt einstakt og einleikið í boði. Já, einmitt í boði því það er frítt á alla viðburði á Act alone einsog reyndar verið hefur frá upphafi, 2004. Til gamans má geta þess að alls hefur verið boðið upp á um 350 ókeypis viðburði á Act alone í þessa tvo áratugi.

Að vanda verður boðið upp á veglega dagskrá fyrir börn og stórfjölskylduna. Má þar nefna brúðuleiksýninguna Búkolla og töfrasýningu Jóns Víðis. Einnig verður boðið upp á tvö námskeið. Á laugardeginum 10. ágúst leiðir hinn töfrandi Jón Víðis loftbelgjasmiðju og öll eru velkomin líka mamma og pabbi og afi og amma. En á miðvikudag 7. ágúst og fimmtudag 8. ágúst verður boðið upp á töfranámskeið. Kennari er engin önnur en trúðurinn Fransoise Simon. Trúðanámskeiðið er fyrir börn á aldrinum 6 til 10 ára og er vitanlega ókeypis. En mikilvægt er að skrá sig á netfangið komedia@komedia.is

Á trúðanámskeiðinu verður farið í einfaldar en skemmtilegar æfingar. Börnin munu uppgötva ánægjuna af því að leika með vingjarnlegum félögum,  en umfram allt að leika fyrir áhorfendur, af því að vera stolt af sjálfum sér og af því sem þau geta, ekki gefast upp, að reyna hluti sem þau hafa aldrei gert. Það ríkir engin keppni hjá trúðnum hver og einn gerir aðeins það sem hann getur best, ekkert meira þarf til.

Dagskrá Act alone má sjá á heimasíðunni www.actalone.net

Matvælaráðherra: vegið að starfsheiðri starfsfólks Mast – geigvænleg þróun

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra segir það sé geigvænleg þróun að draga starfsfólk opinberra stofnanna inn í umræðuna í nafni persónulegrar ábyrgðar gagnvart ákvörðunum þeirra stofnanna sem þau starfa fyrir. Þar sé starfsfólk jafnvel nafngreint, allt í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra og þar með þeirra verkefna sem þau sinna hverju sinni.

Bæjarins besta innti ráðherrann eftir svörun hans við ummælum Jóns Kaldal talsmanns IWF um ábyrgð starfsmanna á útgáfu rekstrarleyfis til laxeldis. En Jón sagði í viðtali á Vísi síðasta þriðjudag:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Í svari sínu vísar Matvælaráðherra til færslu á facebook síðu sinni á föstudaginn. Þar segir ráðherrann að umræðan um leyfisveitingu Matvælastofnunar til Arnarlax fyrir 10.000 tonna eldi á ófrjóum laxi hafi ekki aðeins staðið um efni máls heldur einnig um persónulega ábyrgð starfsfólks stofnunarinnar.

„Þetta er í takt við þá þróun sem við höfum séð víða erlendis þar sem starfsfólk opinberra stofnanna er dregið inn í umræðuna í nafni persónulegrar ábyrgðar gagnvart ákvörðunum þeirra stofnanna sem þau starfa fyrir. Starfsfólk er jafnvel nafngreint, allt í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika þeirra og þar með þeirra verkefna sem þau sinna hverju sinni. Á þennan hátt er nú vegið að starfsheiðri starfsfólks undirstofnunar matvælaráðuneytisins.“

Óábyrg umræða grefur undan trausti

Ráðherrann bætti við:

„Þetta er geigvænleg þróun sem er til þess eins fallin að skapa farveg fyrir óábyrga umræðu þar sem óstaðfestar fullyrðingar um meint óheilindi starfsfólks grassera og grafa undan trausti til opinberra stofnana og trausti í samfélaginu. Þau sem taka sér það ábyrgðarhlutverk að berjast fyrir hagsmunum almennings og veita hinu opinbera aðhald þurfa að fara með þá ábyrgð af kostgæfni. Í því felst að beina sjónum sínum að stjórnvöldum, að stofnunum og efni málsins en ekki að starfsfólki enda er ekkert sem gefur tilefni til tortryggni í garð starfsfólks Matvælastofnunar. Sú umræða á einfaldlega ekki rétt á sér.“

Vestfirðir: allt að 85% í hvalaskoðun frá skemmtiferðaskipum

Einn laugardaginn í júlí voru þrjú erlend skemmtiferðaskip á Ísafirði, þar af tvö við Sundabakka og svo laxaþjónustuskip við Mánabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Cruise Iceland segir að ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi njóti mörg aukinna tekna vegna heimsókna skemmtiferðaskipa til landsins. Þar sem skipin leggist að bryggju skapist tækifæri fyrir staðbundna atvinnuþróun og efnahagsvöxt, eins og sýndi sig í skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var í samstarfi við Faxaflóahafnir og aðra hagaðila. Skýrslan leiddi í ljós öflug efnahagsáhrif skemmtiferðaskipa og að þeir sem ferðast með þeim eyða töluvert hærri fjárhæðum í landi yfir styttri tímabil en áður var talið.

Fyrir skömmu birtist frétt á Akureyri.net þar sem Sara Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri Whale Watching, greinir frá því að sumarið hafi verið gjöfult hjá fyrirtækinu. Innan fréttar er sérstaklega minnst á að þegar skemmtiferðaskipin koma til landsins er þörf á að fjölga ferðum hjá fyrirtækinu og telur framkvæmdastjórinn að rúmlega helmingur viðskiptavina þeirra í sumar komi af skemmtiferðarskipunum, sem er gríðarleg tekjuaukning fyrir hvalaskoðunarfyrirtækin.

Jón Auðun Auðunarson, framkvæmdastjóri Vesturferða, aðildarfélags Cruise Iceland, tekur undir það sem fram kemur í fréttinni:
“Þetta er okkar upplifun líka. Örugglega 85% af farþegum í hvalaskoðun koma frá skemmtiferðaskipum. Ég set ekki einu sinni inn brottför í hvalaskoðun þegar það er ekki skip í höfn. Það svarar ekki kostnaði að fara af stað með 2-4 farþega sem koma keyrandi til Ísafjarðar,“ segir Jón Auðunn og vísar þar í hversu mikil hagkvæmni felst í að einblína á þjónustu við þennan ferðamannahóp.

Ferðaþjónustan á Ísafirði er háð farþegum skemmtiferðaskipa
Jón Auðun telur ferðaþjónustuna á Ísafirði vera mjög háða skemmtiferðaskipum þar sem Ísafjörður er ekki á þjóðvegi 1 og keyrandi ferðamenn skauta oftast framhjá Vestfjörðum, sem sé auðvitað miður því landshlutinn hafi upp á mikið upp á að bjóða. Hann segir jafnframt að fyrirtækið eigi erfitt með að vera með reglulegar brottfarir í hvalaskoðunum yfir sumarið, enda séu þær núna sérsniðnar eftir komu og brottfaratíma skipa. Þetta fyrirkomulag reynist töluvert betur eins og áður sagði. Jón Auðunn bætir við: „Framkvæmdastjóri hjá Eldingu á Akureyri áætlaði að hlutfallið væri í kringum 50% í hvalaskoðun. Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvæg skemmtiferðaskip eru fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Skipin skilja eftir miklar tekjur fyrir samfélagið – Það er bara staðreynd þótt að margir reyna að halda öðru fram.“

Minning: Einar Hjaltason, læknir

F.22. apríl 1945 – D. 6. september 2021. 

Útför hans fór fram 20. september 2021.

Sá kunningsskapur er jafnan hlýjastur, sem bundinn er snemma á ævi, af því að hann byggist oftast á því, að menn fella skap saman.  Það fór vel um tuttugu og fjögur stúdentsefni Verslunarskólans uppi á hanabjálka hússins við Grundarstíg.  Lærifeðurnir hver öðrum ágætari og gott að minnast þeirra.

Skólastjórinn, dr. Jón Gíslason, sá viðbrigðasnjalli kennari, gerði okkur nemendum sínum að læra utanbókar 20 endursagnir á þýsku.  Þessar sprettilræður áttu eftir að koma mörgum manninum vel heldur en ekki, síðar á ævi.

Ein var á þá leið, að auðmaður amrískur réði hinn góðfræga ítalska tenór Enrico Caruso sem þá var í söngferð um Bandaríkin, til þess að halda fyrir sig húskonsert og hét honum himinhárri fjárhæð að launum.  Söngvarinn  stóðst ekki mátið, kom á vettvang á tilsettum tíma og tók með sér píanóleikara.  En honum til mikillar undrunar voru engir viðstaddir í viðhafnarstofu  auðkýfingsins, þar sem flygill var til reiðu, aðrir en húsbóndinn sjálfur og svolítill kjölturakki hans.  Og ekki hafði upphafið að íðilfagurri aríu fyrr farið að hljóma en héppi tók að spangóla ámátlega (jämmerlich zu heulen begann). “Látið þér þetta duga, góði,” sagði þá  milljónarinn og rétti hinum rómaða söngmanni ávísun, “ég ætlaði bara að vita hvort hundurinn minn ýlfrar líka, þegar Caruso syngur!”

            Í löngu frímínútunum kl. 10.40 til 11.00 var plagsiður nemenda að hlaupa út  í húsið nr. 37 við Bergstaðastræti, þar sem var verslunin “Síld og fiskur”, steinsnar frá skólanum, og kaupa af Þorvaldi nýbakaða flatköku og salat.  Kaupmaður hafði farið ofan um morguninn í rauðabítið að hnoða saman þetta dýrindis bakkelsi úr rúgmjöli, heilhveiti, sykri og mjólk, en auk þess hrært eggjarauður, grænar baunir, gulrætur og safa úr sítrónu saman við olíusósu, svo að úr varð lostæti, sem hét ítalskt salat. Þessu dengdi hann ótæpilega ofan á flatkökuna, sem við brutum saman, hvomuðum í okkur og kneyfuðum maltöl við.

            Skólabúðina, sem rekin var til þess að afla fjár fyrir útskriftarferð til Ítalíu, skiptust skólasystkinin á að annast, tvö og tvö saman. Samviskusemi og nákvæmni Einars fór ekki fram hjá stallbróður, sem var svo heppinn að starfa með honum að þessu.

            Um vorið var svo haldið utan í skemmtiferð og komið til Róms og Pompeii, borgarinnar sem eldfjallið Vesúvíus gróf undir hraun árið 79 e. Kr. Elstu íbúðarhúsin höfðu verið reist á 4. öldinni fyrir Krists burð.  Ævintýralegur uppgröftur hófst árið 1709 og leiddi í ljós svo jarðneskar leifar íbúanna sem húsakynni þeirra, eldhúsáhöld, mubblur og baðhús.

            Eftir að læknar hættu að ganga sig með töskuna sína heim til fólks og urðu síðar nærri því óínáanlegir, var alveg ómetanlegt að eiga Einar að.

            Góð kveðja er flutt frá samstúdentum frá VÍ ‘65.

            Með þökk og í bæn um blessun Guðs er kær skólabróðir og vinur, Einar Hjaltason, kvaddur.    Guð varðveiti minningu hans og ástvinina alla.

            Gunnar Björnsson,

            pastor emeritus.

Nýjustu fréttir