Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 34

Sigur í fyrsta leik hjá körfuknattleiksdeild Vestra

Það var spenna í loftinu Jakanum á föstudagskvöldið.  Fyrsti heimaleikurinn hjá Körfuknattleiksdeild Vestra á nýju tímabili, nýr (en samt gamalreyndur) þjálfari og breytt ásjóna á liðinu. Fjölmargir áhorfendur voru mætti en yfir 200 áhorfendur voru á leiknum.

Laugdælir mættu seint í upphitun, voru lengur á leiðinni þar sem bíll hjá þeim bilaði. Strax í upphafi leiks var ljóst að það var talsverður munur á liðunum.  Vestra strákarnir komust strax í þægilega forystu og juku hana jafnt og þétt.

Liðsheildin var nokkuð góð í sóknarleiknum, Elmar og Hjálmar leikstjórnendur voru duglegir að finna opna menn sem nýttu færi sín vel.  Reinis var drjúgur í vörn og sókn og varði körfuna vel fyrir sóknaraðgerðum andstæðinganna og varði fjölmörg skot.

Leikurinn endaði með þó nokkuð öruggum sigri 89-61 fyrir Vestra og fengu allir leikmenn að spreyta sig í leiknum. 

Reinis var stigahæstur með 23 stig og fjöldann allan af fráköstum og fráköstum.  Jón Gunnar var næst stigahæstur með 14 stig, hitti vel úr sínum þriggja stiga skotum og sótti líka vel á körfuna.  Hjálmar nýtti sín færi vel og var með 11 stig.  Elmar var góður að stýra leik liðsins og var með ríflega 10 stoðsendingar og 9 stig, ekki amaleg frammistaða.  Egill (7 Stig)  var góður í fráköstum og kemur með baráttu inn í liðið og hann er líklegur til að vaxa sem leikmaður eftir nokkurra ára hlé frá körfubolta.  Magnús (5 stig) var líka drjúgur í fráköstum og kláraði færi sín vel undir körfunni. Haukur, sem var búinn að fá að kynnast því að spila með meistaraflokknum í fyrra var 6 stig og er ungur og efnilegur leikmaður sem vert verður að fylgjast með á komandi árum.   Frosti var með 7 stig. Hinn síungi Gunnlaugur (6 stig) smellti tveimur þristum og fiskaði ruðninga eins og hann var vanur þegar hann var upp á sitt besta.  Annar ungur efnilegur leikmaður Árni komst líka á blað með 2 stig.  Kjartan og Stefán komust ekki á blað en fengu góð færi.

Heilt yfir var þetta sigur liðsheildarinnar, þrátt fyrir að liðið væri að spila sinn fyrsta leik þá þekkja þessi strákar hvorn annan vel og sást það vel á góðu samspili á köflum.  Vörn og fráköst má alltaf bæta, en að mestu leyti var liðsvörnin góð.

Næsti leikur er útileikur á móti Fjölni B.  29. september kl. 15:15.  Við hvetjum alla Vestramenn suður í Reykjavík að mæta í Dalhús og styðja við strákana.

Drimla: metslátrun í gær – 150 tonn – útflutningsverðmæti 150 – 180 m.kr.

Kubbur Ísafirði sér um flutninga á laxinum í skip og bílar fyrirtækisins eru merktir þessari fallegu ynd af Óshyrnunni og klettinum Þuríði. Mynd: Baldur Smári Einarsson.

Met var slegið í laxasláturhúsinu Drimlu í Bolungavík í gær. Starfsmenn Arctic Fish tóku á móti 150 tonnum til slátrunar og kláruðu það fyrir kvöldmat. Kristján Rúnar Kristjánsson framkvæmdastjóri Drimlu sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta væri það mesta sem farið hefði í gegnum sláturhúsið á einum degi og að starfsfólkið hefði staðið sig með miklum ágætum.

Laxinn er pakkaður heill og slægður í frauðplastkassa og fluttur þannig frá sláturhúsinu. Það þarf 7 – 8 vöruflutningabíla með trailer til þess að flytja laxinn. Langmest fer í skip á erlendan markað frá Þorlákshöfn og Reykjavík. Mest fer til Bandaríkjanna að sögn Kristjáns. Laxinn sem slátrað var í gær var keyrður suður í gær og í dag og fer í skip á þriðjudaginn. Eitthvað af laxinum fer einnig til vinnsluaðila innanlands sem framleiða til sölu í verslunum.

Miðað við verð á eldislaxinum á erlendum mörkuðum má ætla að útflutningsverðmætið á framleiðslunni þennan eina dag sé 150 -180 milljónir króna.

Frá opnun Drymlu í Bolungarvík.

Vel heppnuð kynning á félagsstarfi á norðanverðum Vestfjörðum

Horft yfir salinn.

Þrjátíu félög kynntu starf sitt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær. Ísafjarðarbær, Bolungavíkurkaupstaður og Vestfjarðastofu efndu til kynningar félagsstarfi á norðanverðum Vestfjörðum. Félagasamtök og íþróttafélög kynntu starf sitt.

Þar mátti finna björgunarsveitir, kvenfélög, félag eldri borgara, karlakór, leikfélag, ferðafélag, slysavarnarfélag og íþróttafélög svo nokkuð sé nefnt.

Viðburðurinn var fjölsóttur og gestir sýndu kynningarefni mikinn áhuga.

Dagný Finnbjörnsdóttir, íþrótta- og æskulýsðsfulltrúi hjá Ísafjarðarbæ var ánægð með hvernig til tókst. Hún sagði að aðsóknin hefði verið mjög góð, hefði raunar farið fram úr björtustu vonum. „Það var gaman að sjá hvað var mikill metnaður hjá einstökum félögum sem sýndi m.a. með ýtarlegu og vel unnu kynningarefni.“

Dagný kvaðst gera ráð fyrir að kynningin yrði endurtekin að ári en síðan yrði þetta á tveggja ára fresti. Það voru nokkur félög sem ekki voru með núna en Dagný bjóst við að mörg þeirra yrðu með á næsta ári.

Karlakórinn Ernir var með kynningarbás og fulltrúar kórsins klæddu sig upp.

Björgunarfélag Ísafjarðar lét sitt ekki eftir liggja.

Litli leikklúbburinn .

Íþróttafélagið Ívar.

Félag eldri borgara á Ísafirði.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Minning: Haukur Guðlaugsson

Mynd: Þjóðkirkjan.

F. 5. apríl 1931-D. 1. september 2024.

            Jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í Reykjavík 20. september.

            Greftrun fór fram á Eyrarbakka 21. september.

Verundin verður fráleitt söm að Hauki, virktavini okkar Guðlaugssyni, gengnum.  Nú verður til dæmis ekki lengur unnt að hringja og furða sig á því, að kirkjuorganistar margir skuli snúa baki við hljóðfæri sínu, en klimpra í staðinn á píanó við guðsþjónustur.

Lagsbróðir hans á Eyrarbakka sagði svo frá, að drengur hefði Haukur  stundað fingraæfingar á grjótgörðum og grindverkum í þorpinu. Eljan entist honum langa ævi, en próf. Förstermann í Hamborg sagði við þennan aðsætna nemanda sinn:  “Üben Sie nicht zu viel, Herr Gudlaugsson!” 

Í formála að Kennslubók sinni í orgelleik, skrifaði Haukur: “Sumir reyna að spara orkuna á öllum sviðum áður en til tónleika kemur.  Til dæmis að fara helmingi hægar að öllu, ganga hægar.  Þetta hefur slökun í för með sér og undirbýr þann sem á þá  einbeitingu í vændum sem tónleikahaldi fylgir.”

            Einhverjir komu auga á Hauk, þar sem hann dróst upp Bakarabrekkuna í Reykjavík. Varð naumast sagt, að hann kæmist úr sporunum; hann fór eins hægt og kostur var,  án þess þó að standa alveg  kyrr. Ályktuðu menn, að nú væru hljómleikar  skammt undan.

Barn að aldri vildi Haukur verða listmálari og lét koma trönur og liti úr höndluninni syðra.  En Guðlaugur faðir hans, kaupmaður á Eyrarbakka, hafði ótrú á því að unnt væri að lifa af þessu.

            Haukur byrjaði því að læra á orgel hjá móðurbróður sínum Kristni Jónassyni, sem var organisti á Eyrarbakka.  Seinna útskrifaðist hann með láði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og hélt stálpaður til Hamborgar í framhaldsnám ásamt Mána Sigurjónssyni.   Á skipsfjöl hittu þeir félagar stúlku, sem spurði þá forviða hvers vegna svo ungir menn ætluðu að fara að læra á orgel og opinberaði þar með það álit Íslendinga löngum, að organistar gætu þeir einir verið, sem komnir væru að fótum fram.

            Stundum hefur verið látið að því liggja, að Haukur söngmálastjóri hefði gefið sig enn meira við organslættinum, ef hann hefði ekki  verið svo önnum kafinn að halda frið við músíkalska organista uppi í sveit.  Hann braut sig í mola fyrir mesta byrjandann í tónlistinni, enda hringdu skjólstæðingar hann hiklaust upp í símann á hvaða tíma sólarhrings sem var.  Engin fyrirhöfn var of mikil, engir þeir framkrókar að hann legði sig ekki í þá, ef lánast kynni að koma því til leiðar, að í hugskoti reynds organista kviknaði meira ljós.  Eins lagði Haukur nótt við dag ef takast mætti að nudda einkennilegum unglingi til þess að fara að pota ögn á orgel. Af sjálfu leiddi, að organistanámskeið hans í Skálholti tókust vel, enda varla nokkur svo kaldgeðja að særa þetta velviljaða, brosmilda og bónþæga prúðmenni með því að leggja sig ekki fram. Efnisskráin var við allra hæfi, bæði tilaðmynda “Aus tiefer Not”, “Sjá þann hinn mikla flokk sem fjöll” og “Yesterday”.  Enginn var svo harðbrjósta að vaka ekki heldur nótt að glöggva sig á svörtu nótunum en að óhlýðnast Hauki.  Hann fann öllum kirkjusöngvurum Íslands gistirými í Skálholti, en svaf sjálfur úti í hlöðu.

            Með öðlingnum Hauki Guðlaugssyni höfum við misst einn okkar allra besta vin.  Guð blessi minningu drengsins góða, hins holla velgerðamanns kirkju og kristni á Íslandi.  Guð huggi,  styrki og verndi ástvini hans alla.

            Gunnar Björnsson,

            pastor emeritus.

Þetta er ekki allt að koma með fjárlagafrumvarpinu

Fjár­laga­frum­varp næsta árs var lagt fram á Alþingi í sl. viku. Fjár­málaráðherra kynnti það und­ir yf­ir­skrift­inni „Þetta er allt að koma“. Af frum­varp­inu má ráða að við eig­um að bíða frek­ari áhrifa stýri­vaxta Seðlabank­ans og vona að verðbólgu­mark­miði bank­ans um 2,5% ár­lega verðbólgu verði náð sem er óvíst. Rík­is­fjár­mál­un­um er ekki beitt mark­visst til að ná niður verðbólgu, hvorki til að draga úr þenslu og pen­inga­magni í um­ferð né til að mæta mik­illi eft­ir­spurn eft­ir hús­næði á viðráðan­legu verði á tím­um for­dæma­lausr­ar íbúa­fjölg­un­ar.

Tekj­ur rík­is­sjóðs eru áætlaðar 1.448 ma.kr. á næsta ári eða 29,6% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF). Heild­ar­út­gjöld rík­is­sjóðs eru áætluð 1.552 ma.kr, sem er 61 ma.kr. hækk­un. Vaxta­gjöld, fjórði hæsti út­gjaldaliður­inn, eru 98 ma.kr. og sam­svara 300 þús.kr. á íbúa. Skuld­ir rík­is­sjóðs verða 1.906 ma.kr. á næsta ári eða 39% af VLF, hafa ein­ung­is minnkað um eitt pró­sent á ári sl. ár þrátt fyr­ir árlega 100 millj­örðum betri af­komu en áætlað var þrjú ár í röð. Þessa betri afkomu má að stórum hluta rekja til verðbólgu, t.d. hærri virðisaukaskatti með hærra vöruverði og fjármagnstekjuskatti af verðbótum. 

Verðbólg­an mæl­ist nú 6%, en án hús­næðisliðar­ins er hún um 3,6% eða við vik­mörk verðbólgu­mark­miðs. Seðlabank­an­um ber að gera rík­is­stjórn­inni grein fyr­ir ástæðum þess víki verðbólg­an meira en 1,5% frá 2% verðbólgu­mark­miði. Rík­is­stjórn­in get­ur þá brugðist við en í stefnu­leysi sínu hef­ur hún ekki gert það, ein­ung­is sagst styðja við stefnu Seðlabank­ans sem er ekki gert í halla­rekstri.

Drif­kraft­ar verðbólg­unn­ar eru þrír; hnökr­ar á fram­boðshlið í hag­kerf­inu, mik­il eft­ir­spurn og verðbólgu­vænt­ing­ar sem geta verið sjálf­nær­andi og viðhaldið henni um langt skeið.

Í fjár­laga­frum­varp­inu seg­ir að markvert aðhald sem hlut­fall af VLF muni minnka árið 2025. Meðaltal þriggja mæli­kv­arða aðhalds sýn­ir að markvert aðhald fer úr 1,6% af VLF 2024 í 0,9% af VLF 2025. Aukn­um út­gjöld­um vegna Grinda­vík­ur, hæl­is­leit­enda og kjara­samn­ingspakka er ekki mætt með sér­stök­um tekj­um.  Halli rík­is­sjóðs verður 41 ma.kr. eða 0,8% af VLF. Allt eykur þetta verðbólguvæntingar.

Það er rétt sem seg­ir í fjár­laga­frum­varp­inu að stærsta áskor­un sam­fé­lags­ins í hús­næðismál­um á næstu árum snýr að því að tryggja nægt fram­boð á hús­næði. Hér er átt við hús­næði á viðráðan­legu verði til að mæta þörf­um lág- og milli­tekju­fólks og fyrstu kaup­enda, ekki lúxus­í­búðir fyr­ir efna­fólk á rán­dýr­um lóðum í miðborg Reykja­vík­ur.

Íbúa­fjölg­un á Íslandi hef­ur verið um 15% frá 2017. Vegna nátt­úru­ham­fara hurfu um 1.200 íbúðir í Grinda­vík af hús­næðismarkaði. Gríðarleg fjölg­un hæl­is­leit­enda sl. ár hef­ur aukið eft­ir­spurn eft­ir hús­næði. Um­sókn­ir þeirra hér á landi hafa verið hlut­falls­lega marg­falt fleiri en ann­ars staðar á Norður­lönd­um og í þriðja sæti yfir hlut­falls­lega flest­ar um­sókn­ir í Evr­ópu.

Í frum­varp­inu seg­ir að hæg­ar hafi gengið að vinda ofan af verðbólgu en von­ir stóðu til. Baga­leg­asta birt­ing­ar­mynd þess sé hátt vaxta­stig og meiri vaxta­byrði heim­ila og fyr­ir­tækja en geti gengið til lengd­ar.

Heim­ili og fyr­ir­tæki geta ekki búið við vaxta­byrði sem bygg­ist á 9,25% stýri­vöxt­um. Frá áramótum hafa alvarleg vanskil heimilanna vaxið um 20,1% frá áramótum samkvæmt upplýsingum frá milliinnheimtufyrirtækinu Motus.

Setja á 7,3 ma.kr. í stofn­fram­lög til að styðja við bygg­ingu 1.000 íbúða. Sá fjöldi íbúða nær ekki þeim fjölda íbúða sem hurfu í Grinda­vík, vant­ar þar 200 íbúðir. Rík­is­stjórn­in er ekki að tryggja nægt fram­boð á hús­næði á viðráðan­legu verði. Hús­næðisliður­inn verður því áfram helsti drif­kraft­ur verðbólg­unn­ar á næsta ári. Fjár­laga­frum­varpið breyt­ir því ekki.

Sam­kvæmt þjóðhags­spá verður verðbólga rúm­lega 5% í lok þessa árs og 4% í árs­lok 2025. Íbúum Íslands fækk­ar ekki og hús­næðisliður­inn gæti orðið helm­ing­ur verðbólgu í árs­lok.

Skuld­sett heim­ili bera byrðar verðbólgu í hærra vöru­verði og stór­kost­leg­um hækk­un­um af­borg­ana hús­næðislána, sem lík­ist skatti á lág- og milli­tekju­fólk og ungt fólk. Fjár­magnseig­end­ur og skuld­laust eigna­fólk er hins veg­ar varið og nýt­ur hins háa vaxta­stigs. Byrðum bar­átt­unn­ar við verðbólg­una er mjög mis­skipt og fela í sér gríðarlega eigna­til­færslu.

Skuld­sett heim­ili flýja háar lána­af­borg­an­ir vaxta­stigs­ins með töku verðtryggðra lána og til­heyr­andi höfuðstóls­hækk­un­um. Það dreg­ur úr virkni stýri­vaxta og á þátt í hærri stýri­vöxt­um en ella. Ástæður eru fyr­ir því að stýri­vext­ir á Íslandi eru 9,25% en 4,5% í Nor­egi, svo tekið sé dæmi.

Það er ekki bara ríkið sem fær auknar tekjur á verðbólgutímum. Fasteignagjöld sveitarfélaga hækkuðu um 12,7% að meðaltali milli ára, en þau byggja á fasteignamati og gagnverði fasteigna. Á höfuðborgarsvæðinu nam meðaltalshækkunin 10%. Undanfarinn áratug hefur meðaltal fasteignagjalda fyrir viðmiðunareign farið úr 314 þúsund krónum árið 2014 í 437 þúsund í ár, sem er 39% hækkun á landinu öllu. Lóðaskortur í borginni sl. ár hefur verið stórfurðulegur. Þétting byggðar leysir hann ekki og brjóta þarf nýtt land undir ný hverfi.

Draga má í efa þörf á að meta neyslu­út­gjöld vegna eig­in hús­næðis í vísi­tölu neyslu­verðs. Inn­an ESB er þess­um lið sleppt í sam­ræmdri neyslu­verðsvísi­tölu, sem er notuð til sam­an­b­urðar inn­an ESB. Ef­ast má um gæði gagna um þróun leigu­verðs á Íslandi. Kost­ur fyrri aðferðar var að ekki var þörf á að safna gögn­um um leigu­markaðinn því sú aðferð bygg­ist ekki á að til staðar sé virk­ur leigu­markaður. Verðbólga á Íslandi og stýri­vext­ir eru alltaf skoðaðir í sam­an­b­urði við innri markað EES og ná­granna­rík­in.

Ljóst er að fjár­laga­frum­varpið tekur ekki á rót­um verðbólg­unn­ar, markvert aðhald minnk­ar og halla­rekst­ur dreg­ur ekki úr verðbólgu. Rík­is­fjár­mál­un­um er ekki beitt til að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um, eft­ir­spurn og fram­boðsskorti á hús­næði fyr­ir venju­legt fólk.

Þetta er ekki allt að koma í bar­átt­unni við verðbólg­una með fjár­laga­frum­varp­inu. Við höld­um áfram að bíða og fylgj­umst með áhrif­um hæstu stýri­vaxta á Vest­ur­lönd­um. Það sem er að koma og sam­fé­lagið bíður eft­ir eru kosn­ing­ar.

Eyjólfur Ármannsson

Höf­und­ur er þingmaður fyrir Flokk fólks­ins og 2. vara­formaður fjár­laga­nefnd­ar.

eyjolfur.armannsson@althingi.is

Ísafjörður: Olíudreifing fær lóð á Mávagarði

Afstöðumynd af lóðunum. Lóðin er merkt E á myndinni.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur staðfest úthlutun lóðar E2 á Mávagarði til Olíudreifingar. Lóðin er við hlið núverandi lóðar fyrirtækisins. Lóðin er ætluð fyrir birgðatanka fyrir metanól og ammóníak. Er Olíudreifing að horfa til þess að útgerðin taki upp í náinni framtíð nýja orkugjafa til þess að minnka kolefnissporið og auka sjálfbærni í eldsneytisöflun.

Lóðarumsókn fellur úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

Staðreyndir málsins

Sigurjón Þórðarson.

Það er vert að  þakka Óðni Gestssyni fyrir ágæt svör við grein minni „Manngerðar hörmungar á Flateyri“ en honum líkt og okkur í Flokki fólksins er í mun að tryggja framtíð sjávarbyggðanna.

Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég hef fullan skilning á því að hann reyni að verja úthlutun sem kemur að stórum hluta til fyrirtækja hans sjálfs. Engu að síður er rétt að undirstrika að ef ekki verður róttæk breytingar á úthlutun Byggðastofnunar þá stefnir í heimildirnar fari sömu leið og rækju- og skelbæturnar þ.e. samningar Byggðastofnunar um aflaheimildir fari að ganga kaupum og sölu  

Nokkrar staðreyndir 

1) Flateyri hefur notið 900 tonna byggðakvóta árlega sl. ár, sem eru verðmæti sem meta má á allt að hálfan milljarð króna árlega.  

2) Ekki er einum sporði er af byggðakvótanum landað á Flateyri. 

3) Ekkert af aflanum fer til vinnslu á Flateyri. 

4) Ofangreint er réttlætt með því að þeir sem þiggja verðmætin hafi komið upp vinnslu á aukafurðum dýra að mest úr sauðfjárafurðum þ.e. þurrkuð lambahorn og síðan á roði til fóðurframleiðslu..

5) Ekki hefur verið gert upp við frumkvöðulinn Hönnu Þrúði Þórðardóttur sem var aflsvaki vinnslunnar á Flateyri.

Jafnræðið

Það er ekkert sem bendir til þess að öðrum útgerðarmönnum á Vestfjörðum standi til boða að veiða umræddan byggðakvóta en þeim sem fá honum úthlutað aðallega á grundvelli vinnslu á landbúnaðarafurðum! Efast má um að úthlutunin sé í samræmi við lög um stjórn fiskveiða en svo togaðar og teygðar eru forsendurnar að þær rúmast vart innan 8. og 10 gr. laganna.

Það er ekkert sem bendir til þess að öðrum atvinnurekendum á Flateyri t.d. líflega skemmtistaðnum Vagninum standi til boða einhver skerfur af gæðunum. Allir sem fá hundruð milljóna króna árleg í meðgjöf geta bætt við sig fólki. Tilgangur byggðakvóta er að styrkja útgerð á svæðinu, en ekki óskylda starfsemi.

Hvað vill Flokkur fólksins?

Í fyrsta lagi þá þarf að gangast við því augljósa þ.e. að núverandi stjórnun hefur algerlega brugðist og ekki aðeins sjávarþorpunum, en afli í nánast hverri og einni einustu fisktegund sem hefur verið sett í kvóta er mun minni en áður.

Flokkur fólksins vill auka frelsi til veiða en ekki er nokkur lifandi leið að ofveiða fiskistofna með handfærum og því er rétt að gefa þær veiðar frjálsar.

  1. Koma  á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum.
  1. Allur fiskur taki verð á frjálsum markaði, þó þannig að 20% af andvirðinu renni til uppbyggingarsjóðs í viðkomandi byggðarlagi.    

Með þessu er stuðlað að jafnræði íbúa og þeim sem vilja gera út í brothættri byggð. Í stað þess að byggðakvótinn renni í heilu lagi til aðila með sterka samningsstöðu sem jafnvel eru ekki með neinar tengingar við byggðina. 

  1. Fiskvinnslur í viðkomandi sveitarfélagi hafi forgang að aflanum á 15% afslætti af meðalverði á markaði, en þá færi aðeins 5% til uppbyggingarsjóðs í byggðarlaginu.   

Með þessu er búinn til raunverulegur hvati til þess að byggja upp arðsaman atvinnurekstur og komist hjá því að verið sé að setja upp hálfgerða leikmynd til þess að fá gríðarleg verðmæti í formi byggðakvótans.

  1. Skipting á milli báta í hverju byggðarlagi verði þannig að helmingur veiðiheimilda skiptist jafnt á milli báta og hinum helmingnum yrði úthlutað í samræmi við landaðan afla á síðasta ári, en jafnframt yrði gerð krafa um að meirihluti áhafnarmeðlima verði með lögheimili í sjávarbyggðinni.

Eins og að fyrr greinir þá erum við Óðinn sammála um markmiðið þ.e. að efla og treysta öflugan sjávarútveg hringinn í kringum landið.

Sigurjón Þórðarson

varaþingmaður Flokks fólksins

Rekstur Breiða­fjarðar­ferju 2025-2028 boðinn út

Vegagerðin býður hér með út rekstur Breiðafjarðarferju 2025-2028 – Sérleyfi fyrir Vegagerðina á ferjuleiðum (F1) og (F2) sem hér segir:
• Ferjuleið (F1): Stykkishólmur – Brjánslækur – Stykkishólmur
• Ferjuleið (F2): Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur
þ.e. að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar (F1) og milli Stykkishólms og Brjánslækjar með viðkomu í Flatey (F2).

Bjóðandi skal nota ferjuna m/s Baldur sem er í eigu Vegagerðarinnar.

Samningstími er 3 ár, frá 9. maí 2025 og til og með 30. apríl 2028, með möguleika á framlengingu tvisvar sinnum um eitt ár í senn.

Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu  TendSign  frá og með þriðjudeginum 17. september 2024 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 19. nóvember 2024.

Ekki verður haldinn sérstakur opnunarfundur en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda í útboðinu og heildartilboðsupphæð.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu

Ljúka á ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra staðfestu í gær samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026.

Lengi hefur ríkt óvissa um hvort, og þá hvenær, mörg þúsund lögheimili í þéttbýli um land allt munu eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða.

Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi.

Fulltrúar 17 sveitarfélaga af þeim 25 sem taka þátt í verkefninu voru viðstödd undirritunina í dag, sem fram fór í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Sveitarfélögin 25 eru: Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Grundarfjarðarbær, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Ísafjarðarbær, Langanesbyggð, Mosfellsbær, Múlaþing, Norðurþing, Reykhólahreppur, Snæfellsbær, Strandabyggð, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Stykkishólmur og Vesturbyggð.

Í góðum félagsskap á Vestfjörðum

Opinn kynningardagur á félagsstarfi á norðanverðum Vestfjörðum!
Ísafjarðarbær og Bolungarvíkurkaupstaður í samstarfi við Vestfjarðastofu halda opna kynningu á félagsstarfi á svæðinu.

Kynningin fer fram laugardaginn 21. september frá klukkan 14:00-16:00 í Edinborgarhúsinu. Fjölmörg félagasamtök og íþróttafélög verða þar með bása og kynna starfsemi sína.

Á sunn­an­verðum Vest­fjörðum verður tómstunda­dagur Vest­ur­byggðar verður haldinn í þriðja skiptið laug­ar­daginn 21. sept­ember, í íþrótta­húsinu á Tálkna­firði kl. 14-16.

Á tómstundadeginum býðst félögum, klúbbum og öðrum hópum til boða að vera með bás og kynna sína starfsemi á opnu húsi.

Félagsstarfsemi í Vesturbyggð er fjölbreytt og allir íbúar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Laug­ar­daginn 21. sept­ember ætlar svo U.M.F.T. að vera með þríþraut og sund­laugarpartý. Mæting er kl. 11:00 við Íþróttamið­stöð Tálkna­fjarðar.

Nýjustu fréttir