Síða 34

Sigurvilji frumsýnd 8. febrúar

Laugardaginn 8. febrúar verður heimilidarmyndin Sigurvilji frumsýnd. Myndin fjallar um Sigurbjörn Bárðarson tamningameistara og landsliðsþjálfara.

Sigurbjörn er þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og einn verðlaunaðasti íþróttamaður íslenskrar íþróttasögu. Hann hóf ferilinn ungur með tvær hendur tómar en var fljótur að læra af hestamönnum og bílabröskurum hvernig hann ætti að ná árangri og komast á toppinn. Sigurvilji varpar ljósi á mikinn sigurvegara, dýravin og baráttumann sem hefur áratugum saman verið í fremstu röð af eigin verðleikum.

Saga Sigurbjörns er stórbrotin og hefur veitt mörgum innblástur til að láta ekki deigan síga og gefast ekki upp þótt á móti blási. Í myndinni er farið yfir sögu þessa merka íþróttamanns og rýnt í persónueinkennin. Þá er einnig skyggnst bak við tjöldin í þeim verkefnum sem hann glímir við í dag. Á áttræðisaldri er hann enn í fremstu röð hestaíþróttamanna og gefur þeim yngri ekkert eftir með keppnisskapið logandi í brjósti.

Sigurbjörn hefur oftar orðið Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari á íslenskum hestum en nokkur annar. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 og var tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í ársbyrjun 2025.

Myndin verður frumsýnd laugardaginn 8. febrúar í Laugarásbíói. Myndin fer í kjölfarið í almennar sýningar.

Janúarveðrið á Ströndum

Litla-Ávík

Samkvæmt venju hefur Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík sett inn á vefinn litlihjalli.is eftirfarandi yfirlit yfir veðrið í Árneshreppi í janúar

Úrkoman mældist 85,3 mm. (í janúar 2024: 40,9 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 3 daga.

Þurrir dagar voru 9.

Mestur hiti mældist þann 15:+9,9 stig.

Mest frost mældist þann 1:-8,4 stig.

Meðalhiti mánaðarins var -0,5 stig. (í janúar 2024: 0,0 stig.)

Meðalhiti við jörð var -3,7 stig. (í janúar 2024: -3,4 stig.)

Alhvít jörð var í 26 daga.

Flekkótt jörð var í 5 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 27: 24 CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Fyrstu 2 daga ársins var hægviðri með breytilegum áttum og úrkomulausu veðri. En síðan var ANA gola þann 3. Frá 4 og fram til 8 voru norðlægar vindáttir, kaldi, stinníngskaldi og smá úrkomuvottur. Síðan var SV fram til 11. 12 og 13 voru breytilegar áttir, með rigningu súld frostúða, snjókoma, þokuloft. Þann 14 var suðlæg vindátt með rigningu eða skúrum. Þann 15 var N og NV með slyddu og síðan mikilli snjókomu, síðan SV með skúrum. Síðan voru áframhaldandi umhleypingar með snjókomu eða éljum. Frá 21 og fram til 23 var hægviðri og úrkomulaust. 24 til 26 var NA og ANA með slyddu eða snjókoma. Síðan var umhleypingasamt út mánuðinn með snjókomu eða slyddu.

Milljarður í húsnæðisstuðning í janúar

Þann 31. janúar 2025 greiddi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um 1.038 milljónir króna í húsnæðisstuðning til leigjenda vegna leigu í janúar.

Þessar greiðslur styðja þúsundir heimila víðs vegar um landið og miða að því að draga úr húsnæðiskostnaði efnaminni leigjenda og auka húsnæðisöryggi þeirra.

Húsnæðisbætur, sem eru stór hluti þessa stuðnings, er ætlað að lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalægri leigjenda til að styðja þá við að standa straum af leigugreiðslum. HMS greiddi rúmar 918 milljónir króna til um 17.100 umsækjanda í almennar húsnæðisbætur vegna leigu í janúarmánuði.

HMS greiðir einnig sérstakan húsnæðisstuðning fyrir sveitarfélögin Skagafjörð og Kópavog sem hluti af tilraunaverkefni stjórnvalda. Sérstakur húsnæðisstuðningur er á forræði sveitarfélaganna og felur í sér aukinn stuðning við þá sem sökum fjárhagslegra- eða félagslegra aðstæðna eiga erfitt með að standa straum af húsnæðiskostnaði. Greiddar voru alls um 23 milljónir króna til um 925 umsækjenda í Kópavogi og 80 umsækjenda í Skagafirði.

Ísafjörður: Tangi hlýtur Orðsporið 2025

Frá athöfninni í gær. Mynd Ágúst Atlason.

Leikskólinn Tangi á Ísafirði hlýtur Orðsporið 2025, viðurkenningu Kennarasamands Íslands, á Degi leikskólans fyrir að vera leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi.

Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans eru veitt árlega á Degi leikskólans, 6. febrúar. Sjötti febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans en á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara með sér sín fyrstu samtök.

Í ár kemur Orðsporið í hlut leikskólans Tanga, leikskóla fyrir fimm ára börn á Ísafirði sem er leiðandi í útinámi, en verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur og þróun í menntamálum eða í kennsluháttum á leikskólastiginu. 

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, veitti Jónu Lind Kristjánsdóttur, skólastjóra Tanga, viðurkenninguna fyrir hönd aðstandenda Orðsporsins, sem komust ekki vestur vegna veðurofsa. Upphaflega stóð til að athöfnin færi fram á torgi bæjarins þar sem leikskólinn býður bæjarbúum reglulega í kakó og kynnir útistarf sitt. Vegna veðurs var þó ákveðið að færa herlegheitin yfir á útisvæði leikskólans þar sem hægt var að kveikja varðeld og njóta.

Ný rannsókn: þorskurinn var fjórðungi stærri á landnámsöld og allt að þrisvar sinnum eldri en nú er

Í gær var greint frá því á vef Háskóla Íslands að nýjar og byltingakenndar rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands varpi algerlega nýju ljósi á 1100 ára áhrif þorskveiða hér við land á tegundina.

Í þeim kemur fram að þorskur á 10., 11. og 12. öld hafi verið að meðaltali fjórðungi stærri og allt að þrisvar sinnum eldri en einstaklingar í nútíma. Þorskur á landnámsöld óx hinsvegar mun hægar en í nútíma en fjöldi einstaklinga í stofninum hafði veruleg áhrif á aðgengi að fæðu. Auknar veiðar á 14. öld höfðu strax áhrif á stærð stofnsins en margt bendir til að veiðar Evrópuþjóða á Íslandsmiðum fyrr á öldum hafi verið mun meiri en áður var talið.

Þetta kemur fram í grein sem vísindafólkið birtir í hinu virta tímariti Science Advances sem kom út í fyrradag. Tveir í hópnum eru starfandi við rannsóknarsetur H.Í í Bolungavík.

Hópurinn sem stóð að rannsókninni er þverfaglegur en Steven Campana, prófessor í sjávarlíffræði við HÍ, leiddi rannsóknina. Aðrir helstu rannsakendur innanlands eru Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík, Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við sama setur, og Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur hjá Stofnun Vigdísar Finnbogardóttur og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, og Einar Hjörleifsson hjá Hafrannsóknastofnun.

Veiðar hefjast fyrr en áður var talið 

Að mati vísindafólksins gefa þessar rannsóknaniðurstöður einstaka innsýn í náttúrulegan stofn áður en áhrif veiða koma til og sömuleiðis hvernig auknar veiðar höfðu áhrif á stofninn strax á 14. öld. Hægari vöxtur sýnir svo að dæmi sé tekið þéttleikaháð áhrif, þ.e. vegna gífurlegrar stærðar stofnsins á þessum tíma hefur verið meiri samkeppni einstaklinga um fæðu.

„Það kom nokkuð á óvart að breytingar á þorskstofninum hófust þegar á 14.-15. öld, en þá þegar aukast þorskveiðar til að mæta eftirspurn eftir skreið á Evrópumörkuðum. Þetta sést á því að dánartíðni í þorskstofninum hækkaði,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir líffræðingur við HÍ.

„Dánartíðnina er hægt að reikna út frá aldurssamsetningu stofnsins en í náttúrulegum stofni án veiðiálags eru mun fleiri eldri einstaklingar. Þetta er gífurlega mikilvæg niðurstaða bæði til að skilja umfang sögulegu veiðanna en líka þar sem náttúrleg dánartíðni þorskstofnsins er nauðsynleg við mat á stofninum í nútíma. Hingað til hefur verið ómögulegt að sannreyna hver dánartíðnin var áður en veiðar hófust.“

Upphafið í fornleifarannsókn í verstöðvum vestur á fjörðum 

Upphaf þessarar rannsóknar er afar áhugavert en verkefnið á sér langan aðdraganda. Það hófst með doktorsrannsókn Ragnars Edvardssonar fornleifafræðings á fornum verstöðvum á Íslandi, m.a. í Skálavík og í Breiðuvík. Rannsóknir Ragnars vöktu ekki einungis athygli á þorskveiðum fyrr á öldum heldur líka á þeim gífurlega mikilvæga líffræðilega efniviði sem fannst í þessum verstöðvum. 

„Það var augljóst með mínum rannsóknum að þróun íslensks samfélags og þorskstofnins var nátengd, að minnsta kosti frá seinni hluta 12. aldar,“ segir Ragnar þegar hann er spurður um sinn hlut í rannsókninni. 

„Því var nauðsynlegt að rannsaka stofnvistfræði þorsks frá upphafi landnáms til að meta áhrif hugsanlegra breytinga á þorskstofninum á íslenskt samfélag. Að auki var mikilvægt að reyna að fá hugmynd um umfang veiða erlendra þjóða við Ísland fyrr á öldum, en áhrif þeirra bæði á íslenskt samfélag og þorskstofninn sjálfan hafa lengi verið vanmetin.“

Ragna Edvardsson. Myndi: H.Í.

Tengill á frétt H. Í.

Ísafjarðarbæ: Arna Lára hætt í bæjarstjórn

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gær var lögð fram ósk Örnu Láru Jónsdóttur, fyrrv. bæjarstjóra um lausn frá stöfum í bæjarstjón sem bæjarfulltrúi. Var erindið samþykkt.

Arna Lára tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2006 og hefur síðan setið þar fyrir Í listann.

Í færslu á facebook í gærkvöldi segi Arna Lára: „Það er mjög gefandi og lærdómsríkt að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og fá tækifæri til að móta og þróa þjónustu við íbúa. Ég hef kynnst svo mikið af skemmtilegu fólki og fengið að vaxa og þroskast með heimabænum mínum. Takk fyrir mig Ísafjarðarbær! Nú fylgist ég bara með á hliðarlínunni (og reyni að skipta mér ekki of mikið af málum) og vinn að hagsmunum Ísafjarðarbæjar á öðrum vettvangi.“

Í alþingiskosningunum 30. nóvember sl. var Arna Lára kjörin alþingismaður fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi.

Sæti hennar í bæjarstjórn tekur Þorbjörn H. Jóhannesson, sem skipar 6. sætið á Í listanum.

Suðureyri: gera upp gamlan bát

Frá undirritun samningsins um viðgerð á bátnum.

Hollvinasamtök Ágústu ÍS 65 á Suðureyri, sem er á lóð leikskólans á Suðureyri undirituðu á sunnudaginn samning við Trésmið ehf um viðgerð á bátnum. Magnús Alfreðsson mun sjá um smíðavinnuna. Skrifað var undir samninginn í Hæstakaupstaðarhúsinu á Ísafirði en hjónin Magnús og Áslaug hafa gert það upp af miklum myndarskap og er húsið mikil bæjarprýði fyrir Ísafjörð segir í færslu Hollvinasamtakanna.

Áætlað er að hefja vinnuna við viðgerðir á bátnum sem fyrst og að verkinu verði lokið ekki seinna en 1.júlí 2025. Í framhaldinu verður báturinn málaður og sjálfboðaliðar fengnir í það verk.

Hollvinasamtökin fengu í desember síðastliðnum styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða til að setja upp sögu- og myndaskilti á leikvallarvegginn þar sem sögu bátsins og leikvallarins á Suðureyri eru gerð skil. Verkefnið fékk nafnið HAF OG HAMINGJA. Styrkurinn er 500.000 kr.

Ágústa ÍS 65 með jólaskreytinguna.

Myndir: Hollvinasamtökin.

Sala Kerecis skilar 40 milljörðum í ríkiskassann

Guðmundur Fertam Sigurjónsson.

Í desember síðastliðnum seldi Kerecis hugverkaréttindi félagsins til móðurfélagsins Coloplast. Í tilkynningu frá Kerecis segir að salan sé til samræmis við þá stefnu Coloplast að hugverkaréttindi samstæðunnar séu í eigu móðurfélagsins. Um er að ræða hátt í 200 einkaleyfi í eigu Kerecis sem varða uppfinningar Guðmundar Fertrams og samstarfsmanna hans í Kerecis.

Söluandvirði nam um 1.300 milljónum dollara eða ígildi um 180 milljarða íslenskra króna m.v. núverandi gengi gjaldmiðla. Salan er að fullu leyti skattskyld á Íslandi og eru áætlaðar skattgreiðslur hátt í 40 ma. kr. Skv. Íslenskum skattareglum er mögulegt að dreifa skattgreiðslunni yfir sjö ára tímabil.

Kerecis var selt árið 2023 fyrir um 180 milljarða kr. og runnu 113 milljarðar kr. til íslenskra hluthafa og þar af 22 milljarðar kr. til hluthafa á Vestfjörðum.

Verðmætasköpun Kerecis í formi sölutekna á heimsvísu á árunum 2013 til 2025 nemur um 90 ma. kr. sem er 125 sinnum meira en fyrirtækið hefur þegið í styrkisamkvæmt því sem fram kemur í tilynningunni. 130 manns starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi, 80 á Ísafirði og 50 í Reykjavík. 

Kerecis var stofnað sem ráðgjafafyrirtæki undir nafninu FnF 2007 af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni en fljótlega var nafninu breytt í Kerecis og frá árinu 2010 hefur fyrirtækið einblínt á þróun sáraroðsins, sem framleitt er í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Ísafirði.

Flutningur á eignarhaldi hugverkanna hefur engin áhrif á starfsemi Kerecis á Íslandi sem helst óbreytt, og höfuðstðvar Kerecis verða áfram á Íslandi. Talsverður vöxtur hefur verið í starfsmannahaldi og umsvifum Kerecis á íslandi síðan að félagið var selt til Coloplast.

„Það er afskaplega góð tilfinning að sjá núna svart á hvítu þau verðmæti sem stafsmenn Kerecis hafa skapað undanfarin ár. Hér er um háar upphæðir að ræða sem sannanlega sýna að nýsköpun, frumkvöðlastarf og hvetjandi starfsskilyrði knýja verðmætasköpun, fjölbreytni og velsæld fyrir okkur öll á Íslandi“.

Arctic Fish : 1,3 milljarða kr. fjárfesting í fóðurpamma og öðrum búnaði

Actic Fish og Scale AQ hafa undirritað samning um kaup Arctic Fish á nýjum fóðurpramma og ýmsum búnaði fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirði. Jafnframt hefur Arctic Fish undirritað samning við Fjord Marintime um rafhlöðu sem fer um borð í prammann sem dregur úr notkun á jarðefnaeldsneyti um allt að 70%. Einnig hefur félagið samið um kaup á eldisbúnaði við Morenot og Fiizk. Í tilkynningu frá Arctic Fish kemu fram að allur þessi búnaður styðji við stefnu félagsins um aukið öryggi starfsfólks, betri dýravelferð og minna álags á umhverfið. Heildarfjárfesting vegna þessa er um 1300 milljónir króna.

Fóðurprammi með rafhlöðum

Fóðurpramminn sem um ræðir er úr Aasgard línu Scale AQ og er sá fyrsti af þessari stærð sem félagið framleiðir. Hann getur tekið allt að 750 tonn af fóðri og getur fóðrað 8 kvíar samtímis. Pramminn er búinn allri nýjustu tækni til að stýra fóðrun og Fjord maritime mun setja í hann rafhlöður sem ljósavélar framleiða rafmagn inn á sem nýtt er til að keyra prammann. Með því að hafa rafhlöður minnkar keyrslutími ljósavélanna sem eykur endingu þeirra, dregur úr viðhaldi og eldsneytisnotkun um allt að 70%.

stærri kvíar

Samhliða þessu keypti Arctic Fish einnig ýmsan eldisbúnað fyrir starfsemi félagsins. Allur þessi búnaður eykur öryggi starfsfólks, bætir fiskivelferð og dregur enn frekar úr umhverfisáhrifum af starfseminni. Félagið festi kaup á níu 200 metra kvíjum og kerfisfestingum fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirði. Þær koma einnig frá Scale AQ. Félagið hefur um nokkurt skeið haft þessa tegund af kvíum í notkun. Með því að fara úr kvíum sem eru 160 metrar í ummál í 200 metra fær fiskurinn enn meira pláss sem er mikilvægt í þeim veðrum sem geta komið á Vestfjörðum.

nýir netpokar án ásætuvarna – Hampiðjan Ísafirði stækkar

Samið var við Morenot dótturfélag Hampiðjunnar um kaup á fjórða tug HDPE netapoka sem er mun sterkara efni en félagið hefur áður notað. Þessir netapokar eru úr efni sem ekki eru notaðar ásætuvarnir á og eru því enn umhverfisvænni en fyrri tegundir. Þeir þola enn meira álag en fyrri gerðir sem dregur úr líkum á stroki. Samhliða þessu er félagið í nánu samstarfi við Hamiðjuna á Ísafirði um viðhald á netapokum og öðrum búnaði félagsins. Hampiðjan hefur meðal annars á grundvelli þessa samnings stóreflt þjónustu sína í nýrri þjónustumiðstöð félagsins á Ísafirði á síðustu árum en þar starfa nú hátt í 30 manns.

40 lúsapils

Félagið hefur einnig fest kaup á um fjörtíu lúsapilsum en það eru segl sem sett eru í efsta hluta kvíar og draga úr ágangi laxa- og fiskilúsar inn í kvíarnar. Pilsin eru keypt frá Fiizk. Félagið hefur notað lúsapils með góðum árangri síðast liðin ár sem vörn við ágangi lúsar á laxinn í kvíunum en með þessu gengur fyrirtækið enn lengra í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn lúsinni en áður.

Samgönguráðherra: ríkisstjórnin einhuga um að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er

Eyjólfur Ármannsson, alþm og samgönguáðherra.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði rétt áðan á fundi Flugmálafélags Íslands um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem nú stendur yfir, að ríkisstjórnin væri einhuga um að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll á núverandi stað í Vatnsmýrinni. Skýrar verður ekki kveðið að orði um framtíð flugvallarins.

Ráðherrann sagði að flugvöllurinn skipti miklu máli fyrir alla landsmenn og yrði að vera áfram í Reykjavík. Þá vísaði ráðherrann til nýlegra ummæla Einars Þorsteinssonar, borgarstjóra þess efnis að flugvöllurinn færi ekki fet næstu áratugina og fagnaði þeim.

Nýjustu fréttir