Síða 34

Þorskur og þjóðarhagur

Í kjölfar stefnu nýrrar ríkisstjórnar um aukningu strandveiða og aukna skattlagningu á sjávarútveg er umræða um greinina að manni finnst hrokkin talsvert aftur í tímann.  Lítill skilningur virðist vera á því hvað starfsemi greinarinnar skilar til þjóðarinnar og meðan önnur höndin vill rukka meira fyrir minnkandi sneið af kökunni gefur hin aðra stækkandi sneið með sanngirnisrökin að vopni.  Grunlaus hélt maður að meiri skilningur og þar með sátt væri sífellt að skapast um þennan grunnatvinnuveg og þau skilyrði sem hann þarf að búa við.  Það er talsvert áhyggjuefni ef skortir á skilning á mikilvægi stöðugleika í sjávarútvegi hjá stjórnvöldum.

Ýmsir eru til þess að leggja orð í belg, ekki laust við að gert sé lítið úr mikilvægi öflugustu fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi.  Gert lítið úr mikilvægi þeirra heilsársstarfa sem þar eru, unnin af fólki  með áratugalanga reynslu og/eða sértæka menntun ekki einungis varðandi veiðar, heldur einnig við úrvinnslu, markaðssetningu og nýsköpun.   Af umræðunni má ætla að fyrirtækin hafi fengið allt upp í hendurnar og eins og ekkert mál sé að stokka spilin og gefa að nýju.  Raunveruleikinn er sá að arðsemi í sjávarútvegi hefur skapast að hluta til með því stjórnkerfi sem hefur verið við líði og þróast undangengina áratugi, vegna samþjöppun veiðiheimilda og ekki síst framsýni eiganda og drifkrafts starfsfólks fyrirtækjanna.

Það er ekki síður áhyggjuefni ef skilning skortir á stöðu ýmissa smærri byggðalaga.  Myndin af einyrkjanum á smábátnum getur verið nógu rómantísk, en ábyrg stjórnvöld geta ekki horft fram hjá skaðanum sem hlýst ef standa á við kosningaloforð Flokks fólksins.  Loforð um að auka við strandveiðar án þess að koma fram með nein haldbær rök eða skoða áhrif þess á aðra sem í sjávarútvegi starfa.  Nú er ljóst að þessa aukningu á að sækja á kostnað annarra úrræða innan 5,3% kerfisins samkvæmt viðtali við forsætisráðherra í Kastljósi.  Gera þarf kröfu til stjórnvalda að það sé markviss byggðastefna í gangi og rýnt í hvaða aðgerðir henti á hvaða stað sem raunverulega munar um fyrir byggðalög í mestum vanda.

Í þessari grein vil ég í fyrstu aðeins koma inn á þróun í tíð kvótakerfis, þar sem sífellt er sótt að þeim fyrirtækjum sem eru hryggjastykkið í íslenskum sjávarútvegi og forsenda fyrir nýtingu auðlindarinnar með þjóðhagslega hagkvæmum hætti.  Ég er ekki viss um að almennt átti fólk sig á hve það hefur verið umfangsmikil skerðing.  Hins vegar langar mig að tjá mig um skynsamlega ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ákveðið er að taka til úthlutunar í byggðasjónarmiði.

Kvótakerfi í 40 ár

Frá því að takmörkun á veiðum var tekin upp með aflamarki árið 1983 og þá horft til veiðireynslu skipa áranna á undan, hefur margt breyst.  Meðal annars stóð smábátaflotinn utan takmarkana um tíma og stækkaði og jók sína hlutdeild umtalsvert eftir að veiðar voru kvótasettar hjá stærri skipum.  Árið 1983 var hlutdeild smábáta í þorskafla rúm 2% en er í dag um 23 % í öllum kerfum, þ.e. aflamarki, krókaaflamarki og strandveiðum.  Flestir smábátar eru innan krókaaflamarkskerfis og sú aflahlutdeild er varin framsali til stærri skipa þar sem ekki er hægt að flytja þær varanlega yfir í aflamarkskerfi, en aftur á móti eru engar takmarkanir á því að kaupa aflahlutdeild í aflamarkskerfinu og flytja í krókaaflamarkskerfið.  Hlutdeild togara og stærri aflamarksskipa í heildarafla þorsks hefur því minnkað mjög mikið í tíð kvótakerfis og útgerðarfyrirtæki hafa þurft að kaupa til sín aflaheimildir í því skyni að ná fram hagræðingu í veiðum.  Nú eiga sömu fyrirtæki að fá á sig aukna skattheimtu vegna þeirrar arðsemi sem þau hafa skapað með fjárfestingum og hagræðingu.

Byggðaþróun og sjávarútvegur

Með framsali hefur vissulega orðið tilfærsla á aflaheimildum milli byggðarlaga.  Framsalið hefur reynst nauðsynlegt til að ná fram hagkvæmari rekstri í sjávarútvegi en áður var.  Það að smærri byggðalög hafi orðið undir í samkeppni í búsetuvali fólks er þó ekki vegna tilfærslu á aflaheimildum.  Þjóðfélagið hefur breyst og sú þróun að vinnsla í fiski var haldið uppi af farandverkafólki, fyrst íslendingum í verbúðum og síðar erlendu vinnuafli, er vel þekkt.  Mönnun á minni stöðum var því og hefur verið vandamál.  Það að ýmis byggðalög á landsbyggðinni hafi verið með viðvarandi fækkun íbúa um langan tíma er ekki hægt að beintengja við uppbyggingu fiskveiðistjórnunarkerfis eða samþjöppun veiðiheimilda.  Þar koma margir aðrir hlutir til.  Það er fjarstæða að halda að viðsnúningur á þessari þróun náist með tilkomu farandsjómanna í verbúð yfir sumartímann, með enga skuldbindingu við þau byggðalög sem þeir gera út frá.

Kvóti í byggðarsjónarmiði

En er rétt að nýta aflaheimildir í byggðaaðgerðir ?  Ég hugsa að flestir séu nú sáttir við það að einhverju marki og stjórnvöld hafa í talsverðum mæli nýtt sér fiskveiðiheimildir til stuðnings við landsbyggðirnar.  Það er samt vandmeðfarið hvernig það er útfært og spurning hvort slíkt ætti ekki frekar að vera tímabundnar aðgerðir fremur en að festa ákveðna aflahlutdeild til framtíðar í þessu skyni.  Það virðist vera auðveld leið fyrir stjórnmálamenn að nýta þetta til að setja dúsu upp í háværar raddir eða með loforðum í atkvæðakaupum fyrir kosningar, algjörlega órökstutt.  En berum þá saman þær leiðir innan 5.3% pottsins sem ætlaður er í stuðningsaðgerðir.  Ég sleppi hér umfjöllun um skel- og rækjubætur og línuívilnun, en langar aðeins að bregða ljósi á mismunandi útdeilingu í gegnum samninga Byggðastofnunar á sértæku aflamarki, almennum byggðakvóta og síðan strandveiðum.

Sértækar aflaheimildir:  Með samningum Byggðastofnunar eru gerðir samningar til nokkurra ára um aflamark.  Gerð er krafa um vinnsluskyldu innan atvinnusóknarsvæðis og því hefur oftar en ekki þurft að stofna nýjar fiskvinnslur þar sem samningar eru gerðir.  Þetta úrræði er ætlað í ákveðinn tíma í byggðalögum sem orðið hafa fyrir áfalli í atvinnulegu tilliti og áætlun sett upp um sköpun starfa.  Það er það úrræði sem mér finnst markvissast af þessu þrennu og líklegast að skila af sér mestum ávinningi fyrir viðkomandi byggðarlög.  Hægt er að gera áætlanir og taka ákvarðanir út frá magni, tímalengd og markmiðum sem bundin eru í samningi.  Vanda þarf vel til þess að velja byggðalög þar sem þetta úrræði er talið að geti gagnast, en jafnframt þarf að vera til önnur úrræði utan sjávarútvegskerfins til að styðja við byggðalög þar sem þetta ekki hentar.  Það að hverfa frá vinnsluskyldu við úthlutun þessara heimilda, eins og nýlega var gert fyrir útgerðir í Grímsey, er ekki réttlætanlegt.

Almennur byggðakvóti:  Úthlutun almenns byggðakvóta er mun ómarkvissari og nýtist síður sem byggðastuðningur og til sköpunar starfa.  Reglur um skiptingu úthlutunar eru fremur flóknar, í ár úthlutast almennur byggðakvóti til 42 byggðarlaga og er meðalúhlutun um 90 þorskígildi, minnsta magnið er 15 tonn sem fer til 11 byggðarlaga.  Þrátt fyrir vinnsluskyldu er oftar en ekki fallist á undanþágur að ósk sveitarfélaga, enda úthlutun engan vegin nægjanleg til að byggja starfsemi vinnslu á, ef hún er ekki þegar til staðar.

Strandveiðar:  Strandveiðar eru síðan einungis stundaðar að sumarlagi með handfæri.  Landanir eru ekki bundnar ákveðnum byggðalögum, né heldur krafist vinnsluskyldu sem myndi vera til þess fallið að byggja undir frekari atvinnuuppbyggingu.  Niðurstaðan er líka sú ef rýnt er í útflutningstölur þessa mánuði sem strandveiðar standa að hærra hlutfall þorskafla fer þá óunnin (heill og hausaður) úr landi en aðra mánuði ársins.  Nær eingöngu er um þorskafla að ræða og auðvitað þar tekið af öðrum og nýting ýmissa annarra botnfisktegunda þannig gerð erfiðari.  Strandveiðar einar og sér eru ekki til þess fallnar að styðja við uppbyggingu heilsársstarfa í sjávarútvegi í byggðarlögum sem þurfa stuðning.

Sanngirnisrökin

Forsætisráðherra orðaði það svo að aukning í veiði strandveiðibáta væri sanngirnismál út frá byggðasjónarmiði.  Ekkert er fjær sanni en að þetta sé skynsamleg ráðstöfun innan 5,3% pottsins, öðru nær.  Þetta bitnar ekki síst á smærri útgerðum og vinnslum sem eru þó að skapa heilsársstörf.  Ég vil hér nefna dæmi þar sem ég þekki vel til.

Á síðasta ári var gerður samningur með víðtækri þátttöku útgerðaraðila á Hólmavík við Byggðastofnun um “allt að” 500 tonna árlegt aflamark í þorskígildum talið.  Rétt er að taka fram að þar eru m.a. þátttakendur strandveiðiútgerðir á staðnum og hafa skuldbundið sig til að styðja við það verkefni með löndun á afla til vinnslunnar í staðinn fyrir aflaheimildir eftir að strandveiðum líkur.   Er það vel, en alger undanteking er varðar þessar veiðar.  Vinnsla byrjaði í upphafi júlí 2024 og þegar eru nú 23 aðilar sem starfa í um 20 stöðugildum í Vilja fiskverkun ehf, auk afleiddra starfa við beitingu, sjómennsku, flutninga o.fl.

Hjá aðstandendum fyrirtækisins er fullur skilningur á því að samningur við Byggðastofnun um aflaheimildir er tímabundið úrræði og huga þurfi að því hvernig skjóta megi varanlegum stoðum undir þessi störf þegar samningurinn rennur sitt skeið.   Í vissu um að þetta væri þó að lágmarki 6 ára samningur var lagst í nauðsynlegar fjárfestingar og skuldbindingar.  Þegar í upphafi þessa samnings er niðurstaðan samt sú að stofnunin þurfti að skerða magn niður í 464 tonn í þorskígildum talið fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.  Miðað við áform um auknar strandveiðar (þorskveiðar eingöngu) og yfirlýsingu forsætisráðherra hvaðan eigi að taka þá aukningu, er varla að vænta að staðið verði við samningsmagn af hálfu yfirvalda það sem eftir lifir samnings.  Í raun er ekki við öðru að búast en að samningsforsendur Byggðastofnunar og þessa nýstofnaða fyrirtækis bresti og þau störf sem nýlega hafa verið sköpuð verði fljótt í uppnámi vegna ákvarðana nýrra stjórnvalda.  Er þetta skynsamlegt og sanngjarnt út frá byggðarsjónarmiði ?  Nei, enda skortir alla byggðastefnu frá nýrri ríkisstjórn, bara unnið að því að uppfylla óskynsamleg kosningaloforð í blindni.

Það er ástæða til að hvetja nýja ríkisstjórn til að vanda til verka og skoða allar hliðar málsins áður er endanleg ákvörðun er tekin varðandi aukningu á afla strandveiðibáta.  Ákvörðun sem til þess er fallin að vera bæði greininni í heild íþyngjandi og ekki stuðningur við byggðir sem mest þurfa á viðsnúningi að halda.  Tryggja þarf að þær veiðiheimildir sem veittar eru af “sanngirni í byggðasjónarmiði” nýtist sem best í þeim tilgangi.  Sértækar aflaheimildir Byggðastofnunar til valinna byggðarlaga í tilgreindan tíma er sú leið sem er vænlegust til árangurs í byggðasjónarmiði.  Það er það úrræði sem ætti að verja og styrkja fremur en strandveiðar.

Gunnlaugur Sighvatsson

Sjálfstætt starfandi sjávarútvegsfræðingur

og í stjórn Vilja fiskverkunar ehf.

220 manns á Stútung

Stútungsnefndin brá á leik og dansaði fyrir blótsgesti.

Þorrablót Flateyringa, Stútungur var haldinn á laugardaginn. Að sögn Fanndísar Fjólar Hávarðar voru um 220 manns á blótinu, sem fram fór í íþróttahúsinu. Undanfarin ár hafa verið 200 – 250 manns á Stútung, sem verður að teljast nokkuð gott í byggðarlagi þar sem ibúafjöldinn 1.1. 2024 var 189 manns.

Blótið er vel sótt af heimamönnum og brottfluttum, auk þess sem það er opið fyrir utansveitarfólki.

Skipuð er á hverju blóti sérstök þorrablótsnefnd sem heldur næsta blót og og eru 12 – 13 manns í hverri nefnd. Sé nefndin um allan undirbúning og annast skemmtiatriðin. Stútungsnefndin nýtir sér tæknina og eru skemmtiatriðin að mestu leyti tekin upp fyrirfram og sýnd á stóru tjaldi á blótinu. Mikið var lagt í skemmtunina og gerðu blótsgestir góðan róm að framlagi nefndarinnar.

Í næstu Stútungsnefnd verða á annan tug manns, þar á meðal má nefna Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Dag Sigurðsson, handboltaþjálfara Króata og Brynhildi Einarsdóttur Odds Kristjánssonar frá Sólbakka.

Blótsgestir í biðröð við þorramatinn.

Skemmtuninni lauk með því að sungnar eru nefndarvísur, en þær fjalla um fráfarandi Stútungsnefnd.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vesturbyggð: tryggð verði ofanflóðavöktun á Raknadalshlíð og Kleifaheiði

Heimastjórn Patreksfjarðar fagnar því að Veðurstofan hafi loksins hafið vöktun með snjóflóðahættu á Raknadalshlíð og að nú séu send út sms til vegfarendur ef óvissuástand er á hlíðinni vegna ofanflóðahættu. Heimastjórnin bendir þó á að slíkri vöktun sé ekki til að dreifa á Kleifaheiði og þar hafa komið upp erfiðar aðstæður vegna ofanflóða m.a. á síðustu vikum.

Fjölmörg snjóflóð hafa fallið á vegina síðustu vikur.

bæta þarf fjarskiptasamband

Þá hefur heimastjórnin miklar áhyggjur af því að enn hefur ekki verið bætt fjarskiptasamband á Raknadalshlíð og á Kleifaheiði. Um mikilvægt öryggisatriði er að ræða, sérstaklega á þessum árstíma og nauðsynlegt að bætt verði úr því sem allra fyrst til að tryggja öryggi vegfarenda.

Mikil umferð er á þessum vegköflum, en daglega fara leik- og grunnskólabörn frá Barðaströnd um veginn yfir vetrartímann. Það ætti því að vera, að mati heimastjónarinnar, algjört forgangsmál Vegagerðar, Almannavarna og Fjarskiptastofu að tryggja öryggi vegfarenda með því að fjarskiptasamband á þessari leið sé fullnægjandi.

tryggja öryggi til framtíðar

Þá segir í bókun heimastjórnainnar:

„Sveitarfélagið Vesturbyggð hefur áður skorað á Vegagerðina að fundin verði framtíðarlausn til að verja vegfarendur sem aka um Raknadalshlíð.
Heimastjórn Patreksfjarðar skorar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að nú þegar verði hafin vinna við að tryggja öryggi vegfarenda um Raknadalshlíð til framtíðar, hvort sem er með nýju vegstæði eða öðrum lausnum sem eru til þess fallnar að tryggja í eitt skipti fyrir öll, öryggi vegfarenda sem fara um Raknadalshlíð. Fram að þeim tíma verði tryggð fullnægjandi ofanflóðavöktun á Raknadalshlíð og á Kleifaheiði. Þá verði ofanflóðaspár fyrir Raknadalshlíð og á Kleifaheiði unnar og útgefnar með reglulegum hætti eins og gert er á öðrum svæðum um landið þar sem mikil hætta er á ofanflóðum.“

Ísafjarðarbær styrkir hátíðina Aldrei fór ég suður um 10 m.kr.

Í gær var undirritaður samningur milli Ísafjarðarbæjar og Aldrei fór ég suður og styrkir Ísafjarðarbær hátíðina með 10 m.kr. árlegu framlagi sem fengið er úr styrktarsjóði Hafna Ísafjarðarbæjar, sem settur var á fót árið 2024.

Kristján Freyr Halldósson, rokkstjóri segir „Þetta eru vissulega stórir peningar sem gera okkur kleift að standa að hátíðinni með sóma sem aldrei fyrr. Aldrei fór ég suður er ekki hagnaðardrifin hátíð að neinu leyti og mun þessi fjárhæð skila sér rakleiðis en í samfélagið hér vestra.“

Sveitarfélagið skuldbindur sig einnig til að leggja sig fram við að halda viðburði á svæðinu á páskum og hvetja um leið alla aðila í verslun og þjónustu að gera slíkt hið sama, til að stuðla að fjölda og fjölbreytni viðburða á þeim tíma sem hátíðin er haldin.

Samningurinn gildi fyrir næstu þjá hátíðir 2025 til 2027.

Kerecis og innviðauppbygging

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Nýleg sala hugverkaréttinda Kerecis til móðurfélagsins Coloplast fyrir um 1.300 milljónir dala (rúmlega 180 milljarða króna) hefur vakið verðskuldaða athygli. Þessi sala, sem skilar íslenska ríkissjóðnum um 40 milljörðum króna í skatttekjur, er skýr áminning um mikilvægi nýsköpunar og hugverkaiðnaðar fyrir íslenskt efnahagslíf. Hún varpar einnig ljósi á mikilvægi Vestfjarða fyrir þjóðarbúið og nauðsyn þess að styðja við innviðauppbyggingu á svæðinu.

Vestfirðir í forgrunni verðmætasköpunar

Kerecis, sem hefur verið í fremstu röð líftæknifyrirtækja vil ég segja á heimsvísu, er skýrt dæmi um hvernig nýsköpun getur skapað umtalsverð verðmæti fyrir samfélagið. Fyrirtækið hefur skapað hundruð starfa og aflað gríðarlegra tekna í íslenskt hagkerfi. Þess ber að geta að af 130 starfsmönnum Kerecis á Íslandi starfa 80 á Ísafirði. Þessi starfsemi sýnir skýrt að Vestfirðir geta verið lykilþáttur í þróun hugverka- og líftækniiðnaðar á Íslandi.

Þegar sala Kerecis til Coloplast fór fram árið 2023 runnu 22 milljarðar króna til hluthafa á Vestfjörðum, sem undirstrikar þann mikla efnahagslega ávinning sem svæðið getur veitt landsmönnum öllum. Ef litið er til skattteknanna sem ríkið fær af þessari einstöku sölu og þær settar í samhengi við það fjármagn sem þarf til nauðsynlegrar innviðauppbyggingar á Vestfjörðum þá er það næstum fjórðungur af því þeirri upphæð. En gróft mat á þeim samgöngubótum er um 84 milljarðar króna. Þessar framkvæmdir eru grunnurinn í nýjum samgöngusáttmála fyrir Vestfirði, Vestfjarðalínu.

Innviðauppbygging er grunnur að frekari verðmætasköpun

Vestfirðir eru fjórðungur mikilla tækifæra og atvinnusköpunar sjávarútvegi, fiskeldi,  ferðaþjónustu og hvers kyns nýsköpun. Hins vegar hefur innviðaskortur staðið í vegi fyrir frekari uppbyggingu og efnahagslegri þróun, og tækifæri hafa glatast. Samgöngur eru sérstaklega veikur hlekkur, þar sem vegakerfið er ekki í samræmi við þarfir nútíma atvinnulífs.

Það er því skoðunarvert að líta til þessara nýju skatttekna sem hluta mögulegs fjármögnunar fyrir nauðsynlega vegabætur og aðra innviðauppbyggingu á Vestfjörðum. Síðustu ár hafa myndast gríðarleg verðmæti í fjölmörgum atvinnugreinum á Vestfjörðum og hefur uppgangur síðustu ára aukið skattspor Vestfjarða verulega. Samkvæmt greiningum sem KPMG gerði fyrir Innviðafélag Vestfjarða þá skilaði atvinnulífið á Vestfjörðum 40 milljörðum á árunum 2019-2022 í sameiginlega sjóði landsmanna sem er dágott fyrir ekki stærri landshluta þar sem 2% þjóðarinnar býr.

Nýsköpun sem burðarás íslensks hagkerfis

Saga Kerecis sýnir að hugverkaiðnaður getur skapað gífurleg verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Það skiptir máli að styðja við og efla nýsköpun á Íslandi, og búa til góða vaxtarumgjörð fyrir nýsköpunarfyrirtæki.

Góður árangur Kerecis undirstrikar hversu mikilvægt er að styðja við fyrirtæki sem byggja á nýsköpun, bæði með beinum fjárfestingum í rannsóknum og þróun, en ekki síður með innviðauppbyggingu sem gerir svæðum eins og Vestfjörðum kleift að blómstra.

Vestfirðir eru og geta áfram verið mikilvægur hluti íslensks efnahagslífs, en til þess að svo verði þarf markvissa uppbyggingu innviða. Saga Kerecis er frábært dæmi um það hvernig nýsköpun getur skilað þjóðarbúinu gríðarlegum tekjum, en hún sýnir einnig að til þess að slík verðmætasköpun eigi sér stað, þurfa að vera til staðar góðar aðstæður fyrir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu.  

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Reykjavík: meirihlutinn fallinn

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.

RUV hefur greint frá því að meirihlutinn í borgarstjórn sé fallinn. Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins hafi slitið meirihlutasamstarfinu.

Hann ætlar að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins.

Hann gerir ráð fyrir því að gera kröfu um að verða borgarstjóri í nýjum meirihluta.

Meðal málefna sem ágreiningur hafi verið um innan meirihlutans sé Reykjavíkurflugvöllur. Tryggja verði hann í sessi og að ekki megi stefna sjúkraflugi í hættu.

„Ég hef átt óformleg samtöl við fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins og ætla að bjóða til meirihlutaviðræðna fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Viðreisnar.“ segir Einar.

Sigurvilji frumsýnd 8. febrúar

Laugardaginn 8. febrúar verður heimilidarmyndin Sigurvilji frumsýnd. Myndin fjallar um Sigurbjörn Bárðarson tamningameistara og landsliðsþjálfara.

Sigurbjörn er þjóðsagnapersóna í lifanda lífi og einn verðlaunaðasti íþróttamaður íslenskrar íþróttasögu. Hann hóf ferilinn ungur með tvær hendur tómar en var fljótur að læra af hestamönnum og bílabröskurum hvernig hann ætti að ná árangri og komast á toppinn. Sigurvilji varpar ljósi á mikinn sigurvegara, dýravin og baráttumann sem hefur áratugum saman verið í fremstu röð af eigin verðleikum.

Saga Sigurbjörns er stórbrotin og hefur veitt mörgum innblástur til að láta ekki deigan síga og gefast ekki upp þótt á móti blási. Í myndinni er farið yfir sögu þessa merka íþróttamanns og rýnt í persónueinkennin. Þá er einnig skyggnst bak við tjöldin í þeim verkefnum sem hann glímir við í dag. Á áttræðisaldri er hann enn í fremstu röð hestaíþróttamanna og gefur þeim yngri ekkert eftir með keppnisskapið logandi í brjósti.

Sigurbjörn hefur oftar orðið Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari á íslenskum hestum en nokkur annar. Hann var kjörinn íþróttamaður ársins árið 1993 og var tekinn inn í heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í ársbyrjun 2025.

Myndin verður frumsýnd laugardaginn 8. febrúar í Laugarásbíói. Myndin fer í kjölfarið í almennar sýningar.

Janúarveðrið á Ströndum

Litla-Ávík

Samkvæmt venju hefur Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður í Litlu-Ávík sett inn á vefinn litlihjalli.is eftirfarandi yfirlit yfir veðrið í Árneshreppi í janúar

Úrkoman mældist 85,3 mm. (í janúar 2024: 40,9 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 3 daga.

Þurrir dagar voru 9.

Mestur hiti mældist þann 15:+9,9 stig.

Mest frost mældist þann 1:-8,4 stig.

Meðalhiti mánaðarins var -0,5 stig. (í janúar 2024: 0,0 stig.)

Meðalhiti við jörð var -3,7 stig. (í janúar 2024: -3,4 stig.)

Alhvít jörð var í 26 daga.

Flekkótt jörð var í 5 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 27: 24 CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Fyrstu 2 daga ársins var hægviðri með breytilegum áttum og úrkomulausu veðri. En síðan var ANA gola þann 3. Frá 4 og fram til 8 voru norðlægar vindáttir, kaldi, stinníngskaldi og smá úrkomuvottur. Síðan var SV fram til 11. 12 og 13 voru breytilegar áttir, með rigningu súld frostúða, snjókoma, þokuloft. Þann 14 var suðlæg vindátt með rigningu eða skúrum. Þann 15 var N og NV með slyddu og síðan mikilli snjókomu, síðan SV með skúrum. Síðan voru áframhaldandi umhleypingar með snjókomu eða éljum. Frá 21 og fram til 23 var hægviðri og úrkomulaust. 24 til 26 var NA og ANA með slyddu eða snjókoma. Síðan var umhleypingasamt út mánuðinn með snjókomu eða slyddu.

Milljarður í húsnæðisstuðning í janúar

Þann 31. janúar 2025 greiddi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um 1.038 milljónir króna í húsnæðisstuðning til leigjenda vegna leigu í janúar.

Þessar greiðslur styðja þúsundir heimila víðs vegar um landið og miða að því að draga úr húsnæðiskostnaði efnaminni leigjenda og auka húsnæðisöryggi þeirra.

Húsnæðisbætur, sem eru stór hluti þessa stuðnings, er ætlað að lækka húsnæðiskostnað tekju- og eignalægri leigjenda til að styðja þá við að standa straum af leigugreiðslum. HMS greiddi rúmar 918 milljónir króna til um 17.100 umsækjanda í almennar húsnæðisbætur vegna leigu í janúarmánuði.

HMS greiðir einnig sérstakan húsnæðisstuðning fyrir sveitarfélögin Skagafjörð og Kópavog sem hluti af tilraunaverkefni stjórnvalda. Sérstakur húsnæðisstuðningur er á forræði sveitarfélaganna og felur í sér aukinn stuðning við þá sem sökum fjárhagslegra- eða félagslegra aðstæðna eiga erfitt með að standa straum af húsnæðiskostnaði. Greiddar voru alls um 23 milljónir króna til um 925 umsækjenda í Kópavogi og 80 umsækjenda í Skagafirði.

Ísafjörður: Tangi hlýtur Orðsporið 2025

Frá athöfninni í gær. Mynd Ágúst Atlason.

Leikskólinn Tangi á Ísafirði hlýtur Orðsporið 2025, viðurkenningu Kennarasamands Íslands, á Degi leikskólans fyrir að vera leiðandi leikskóli á Íslandi í útinámi.

Orðsporið, hvatningarverðlaun leikskólans eru veitt árlega á Degi leikskólans, 6. febrúar. Sjötti febrúar er merkisdagur í sögu leikskólans en á þeim degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara með sér sín fyrstu samtök.

Í ár kemur Orðsporið í hlut leikskólans Tanga, leikskóla fyrir fimm ára börn á Ísafirði sem er leiðandi í útinámi, en verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi skólastarf eða umbætur og þróun í menntamálum eða í kennsluháttum á leikskólastiginu. 

Guðrún Birgisdóttir, skóla- og sérkennslufulltrúi hjá Ísafjarðarbæ, veitti Jónu Lind Kristjánsdóttur, skólastjóra Tanga, viðurkenninguna fyrir hönd aðstandenda Orðsporsins, sem komust ekki vestur vegna veðurofsa. Upphaflega stóð til að athöfnin færi fram á torgi bæjarins þar sem leikskólinn býður bæjarbúum reglulega í kakó og kynnir útistarf sitt. Vegna veðurs var þó ákveðið að færa herlegheitin yfir á útisvæði leikskólans þar sem hægt var að kveikja varðeld og njóta.

Nýjustu fréttir