Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 34

Ísafjarðarbæ: Arna Lára hætt í bæjarstjórn

Arna Lára Jónsdóttir, alþm.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gær var lögð fram ósk Örnu Láru Jónsdóttur, fyrrv. bæjarstjóra um lausn frá stöfum í bæjarstjón sem bæjarfulltrúi. Var erindið samþykkt.

Arna Lára tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2006 og hefur síðan setið þar fyrir Í listann.

Í færslu á facebook í gærkvöldi segi Arna Lára: „Það er mjög gefandi og lærdómsríkt að taka þátt í sveitarstjórnarmálum og fá tækifæri til að móta og þróa þjónustu við íbúa. Ég hef kynnst svo mikið af skemmtilegu fólki og fengið að vaxa og þroskast með heimabænum mínum. Takk fyrir mig Ísafjarðarbær! Nú fylgist ég bara með á hliðarlínunni (og reyni að skipta mér ekki of mikið af málum) og vinn að hagsmunum Ísafjarðarbæjar á öðrum vettvangi.“

Í alþingiskosningunum 30. nóvember sl. var Arna Lára kjörin alþingismaður fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi.

Sæti hennar í bæjarstjórn tekur Þorbjörn H. Jóhannesson, sem skipar 6. sætið á Í listanum.

Suðureyri: gera upp gamlan bát

Frá undirritun samningsins um viðgerð á bátnum.

Hollvinasamtök Ágústu ÍS 65 á Suðureyri, sem er á lóð leikskólans á Suðureyri undirituðu á sunnudaginn samning við Trésmið ehf um viðgerð á bátnum. Magnús Alfreðsson mun sjá um smíðavinnuna. Skrifað var undir samninginn í Hæstakaupstaðarhúsinu á Ísafirði en hjónin Magnús og Áslaug hafa gert það upp af miklum myndarskap og er húsið mikil bæjarprýði fyrir Ísafjörð segir í færslu Hollvinasamtakanna.

Áætlað er að hefja vinnuna við viðgerðir á bátnum sem fyrst og að verkinu verði lokið ekki seinna en 1.júlí 2025. Í framhaldinu verður báturinn málaður og sjálfboðaliðar fengnir í það verk.

Hollvinasamtökin fengu í desember síðastliðnum styrk frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða til að setja upp sögu- og myndaskilti á leikvallarvegginn þar sem sögu bátsins og leikvallarins á Suðureyri eru gerð skil. Verkefnið fékk nafnið HAF OG HAMINGJA. Styrkurinn er 500.000 kr.

Ágústa ÍS 65 með jólaskreytinguna.

Myndir: Hollvinasamtökin.

Sala Kerecis skilar 40 milljörðum í ríkiskassann

Guðmundur Fertam Sigurjónsson.

Í desember síðastliðnum seldi Kerecis hugverkaréttindi félagsins til móðurfélagsins Coloplast. Í tilkynningu frá Kerecis segir að salan sé til samræmis við þá stefnu Coloplast að hugverkaréttindi samstæðunnar séu í eigu móðurfélagsins. Um er að ræða hátt í 200 einkaleyfi í eigu Kerecis sem varða uppfinningar Guðmundar Fertrams og samstarfsmanna hans í Kerecis.

Söluandvirði nam um 1.300 milljónum dollara eða ígildi um 180 milljarða íslenskra króna m.v. núverandi gengi gjaldmiðla. Salan er að fullu leyti skattskyld á Íslandi og eru áætlaðar skattgreiðslur hátt í 40 ma. kr. Skv. Íslenskum skattareglum er mögulegt að dreifa skattgreiðslunni yfir sjö ára tímabil.

Kerecis var selt árið 2023 fyrir um 180 milljarða kr. og runnu 113 milljarðar kr. til íslenskra hluthafa og þar af 22 milljarðar kr. til hluthafa á Vestfjörðum.

Verðmætasköpun Kerecis í formi sölutekna á heimsvísu á árunum 2013 til 2025 nemur um 90 ma. kr. sem er 125 sinnum meira en fyrirtækið hefur þegið í styrkisamkvæmt því sem fram kemur í tilynningunni. 130 manns starfa hjá fyrirtækinu á Íslandi, 80 á Ísafirði og 50 í Reykjavík. 

Kerecis var stofnað sem ráðgjafafyrirtæki undir nafninu FnF 2007 af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni en fljótlega var nafninu breytt í Kerecis og frá árinu 2010 hefur fyrirtækið einblínt á þróun sáraroðsins, sem framleitt er í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Ísafirði.

Flutningur á eignarhaldi hugverkanna hefur engin áhrif á starfsemi Kerecis á Íslandi sem helst óbreytt, og höfuðstðvar Kerecis verða áfram á Íslandi. Talsverður vöxtur hefur verið í starfsmannahaldi og umsvifum Kerecis á íslandi síðan að félagið var selt til Coloplast.

„Það er afskaplega góð tilfinning að sjá núna svart á hvítu þau verðmæti sem stafsmenn Kerecis hafa skapað undanfarin ár. Hér er um háar upphæðir að ræða sem sannanlega sýna að nýsköpun, frumkvöðlastarf og hvetjandi starfsskilyrði knýja verðmætasköpun, fjölbreytni og velsæld fyrir okkur öll á Íslandi“.

Arctic Fish : 1,3 milljarða kr. fjárfesting í fóðurpamma og öðrum búnaði

Actic Fish og Scale AQ hafa undirritað samning um kaup Arctic Fish á nýjum fóðurpramma og ýmsum búnaði fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirði. Jafnframt hefur Arctic Fish undirritað samning við Fjord Marintime um rafhlöðu sem fer um borð í prammann sem dregur úr notkun á jarðefnaeldsneyti um allt að 70%. Einnig hefur félagið samið um kaup á eldisbúnaði við Morenot og Fiizk. Í tilkynningu frá Arctic Fish kemu fram að allur þessi búnaður styðji við stefnu félagsins um aukið öryggi starfsfólks, betri dýravelferð og minna álags á umhverfið. Heildarfjárfesting vegna þessa er um 1300 milljónir króna.

Fóðurprammi með rafhlöðum

Fóðurpramminn sem um ræðir er úr Aasgard línu Scale AQ og er sá fyrsti af þessari stærð sem félagið framleiðir. Hann getur tekið allt að 750 tonn af fóðri og getur fóðrað 8 kvíar samtímis. Pramminn er búinn allri nýjustu tækni til að stýra fóðrun og Fjord maritime mun setja í hann rafhlöður sem ljósavélar framleiða rafmagn inn á sem nýtt er til að keyra prammann. Með því að hafa rafhlöður minnkar keyrslutími ljósavélanna sem eykur endingu þeirra, dregur úr viðhaldi og eldsneytisnotkun um allt að 70%.

stærri kvíar

Samhliða þessu keypti Arctic Fish einnig ýmsan eldisbúnað fyrir starfsemi félagsins. Allur þessi búnaður eykur öryggi starfsfólks, bætir fiskivelferð og dregur enn frekar úr umhverfisáhrifum af starfseminni. Félagið festi kaup á níu 200 metra kvíjum og kerfisfestingum fyrir eldisstöðina í Hvannadal í Tálknafirði. Þær koma einnig frá Scale AQ. Félagið hefur um nokkurt skeið haft þessa tegund af kvíum í notkun. Með því að fara úr kvíum sem eru 160 metrar í ummál í 200 metra fær fiskurinn enn meira pláss sem er mikilvægt í þeim veðrum sem geta komið á Vestfjörðum.

nýir netpokar án ásætuvarna – Hampiðjan Ísafirði stækkar

Samið var við Morenot dótturfélag Hampiðjunnar um kaup á fjórða tug HDPE netapoka sem er mun sterkara efni en félagið hefur áður notað. Þessir netapokar eru úr efni sem ekki eru notaðar ásætuvarnir á og eru því enn umhverfisvænni en fyrri tegundir. Þeir þola enn meira álag en fyrri gerðir sem dregur úr líkum á stroki. Samhliða þessu er félagið í nánu samstarfi við Hamiðjuna á Ísafirði um viðhald á netapokum og öðrum búnaði félagsins. Hampiðjan hefur meðal annars á grundvelli þessa samnings stóreflt þjónustu sína í nýrri þjónustumiðstöð félagsins á Ísafirði á síðustu árum en þar starfa nú hátt í 30 manns.

40 lúsapils

Félagið hefur einnig fest kaup á um fjörtíu lúsapilsum en það eru segl sem sett eru í efsta hluta kvíar og draga úr ágangi laxa- og fiskilúsar inn í kvíarnar. Pilsin eru keypt frá Fiizk. Félagið hefur notað lúsapils með góðum árangri síðast liðin ár sem vörn við ágangi lúsar á laxinn í kvíunum en með þessu gengur fyrirtækið enn lengra í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn lúsinni en áður.

Samgönguráðherra: ríkisstjórnin einhuga um að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er

Eyjólfur Ármannsson, alþm og samgönguáðherra.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði rétt áðan á fundi Flugmálafélags Íslands um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem nú stendur yfir, að ríkisstjórnin væri einhuga um að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll á núverandi stað í Vatnsmýrinni. Skýrar verður ekki kveðið að orði um framtíð flugvallarins.

Ráðherrann sagði að flugvöllurinn skipti miklu máli fyrir alla landsmenn og yrði að vera áfram í Reykjavík. Þá vísaði ráðherrann til nýlegra ummæla Einars Þorsteinssonar, borgarstjóra þess efnis að flugvöllurinn færi ekki fet næstu áratugina og fagnaði þeim.

Fækkum sjálfsvígum

Sjálfsvíg eru alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Árangursrík aðgerðaáætlun er því mikilvæg til að stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Starfshópur skipaður af fyrrum heilbrigðisráðherra vann tillögur að nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi, fyrir árin 2025 – 2030.

Tillögurnar í aðgerðaáætluninni 2025 – 2030, styðja við aðrar núgildandi stefnur og áætlanir á sviði geðheilbrigðis, lýðheilsu og áfengis- og vímuvörnum. Stuðst er við gagnreynda þekkingu á sjálfsvígforvörnum, bæði innan– og utanlands. Horft var til leiðbeininga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, klínískra leiðbeininga og árangursríkra áhersluatriða í sjálfsvígsforvörnum á alþjóðavísu.

Í áætluninni eru 26 aðgerðir sem snúa að öllum stigum sjálfsvígsforvarna; forvörnum, íhlutunum og stuðningi eftir sjálfsvíg. Aðgerðaáætlunin byggir á eftirfarandi sjö efnisflokkum:

1. Samhæfing og skipulag

2. Stuðningur og meðferð

3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum

4. Vitundarvakning og fræðsla

5. Forvarnir og heilsueflingarstarf

6. Gæðaeftirlit og sérfræðiþekking

7. Stuðningur við eftirlifendur

Hægt er að kynna sér áætlunina og senda inn umsögn til 4. mars.

Aflamarki í grásleppu hefur verið úthlutað

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki í grásleppu og því geta skip með almennt veiðileyfi ásamt hlutdeild og aflamarki í grásleppu hafið veiðar.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um úthlutunina á vef Fiskistofu og ýmsar gagnlegar upplýsingar tengdar veiðunum má finna í grein tileinkuðum grásleppuveiðum.

Þar kemur fram að lutdeild og aflamark grásleppu er bundið við það veiðisvæði sem heimahöfn skips tilheyrir samkvæmt skipaskrá Samgöngustofu við úthlutun.

Sé skip fært um heimahöfn sem ekki er innan sama veiðisvæðis og skip var á við úthlutun, fellur aflahlutdeild skipsins í grásleppu niður.

Staðbundin veiðisvæði grásleppu eru:

  1. Suðurland – Faxaflói, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V.
  2. Breiðafjörður – Vestfirðir, svæði frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V að línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V.
  3. Húnaflói, frá línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V að línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V.
  4. Norðurland, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V.
  5. Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V að línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V.

SFS gagnrýna strandveiðar

Í samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að ljóst megi vera að upphafleg markmið stjórnvalda með strandveiðum um nýliðun og aukna byggðafestu hafa ekki náðst.

Strandveiðar eru fyrst og síðast búbót fyrir aðila sem fyrir eru í kerfinu eða þá sem hafa selt sig út úr öðrum kerfum fyrir verulegar fjárhæðir.

Þá segir einnig að meðalaldur strandveiðisjómanna sé 59 ár. Þessar staðreyndir renna sannanlega ekki stoðum undir sjónarmið um nýliðun.

Þá hafa verulegar aflaheimildir verið teknar í gegnum tíðina af fyrirtækjum sem skapa örugg og vel launuð heilsársstörf fyrir sjómenn og landverkafólk um allt land.

Þar sem strandveiðar eru umfangsmestar, á Vestfjörðum og Vesturlandi, er um helmingur strandveiðisjómanna búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

Störf hafa þannig verið tekin frá landsbyggð og færð til höfuðborgarinnar, þvert á upphafleg markmið. 

Margt annað er tíundað í samantekt SFS

Hver fær Kuðunginn

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári eru þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2024. Kuðungurinn er veittur fyrir heildarframmistöðu fyrirtækis í umhverfismálum á liðnu ári, ekki fyrir eitt stakt verkefni.

Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við Dag umhverfisins og hefur sú breyting verið gerð á að tilnefningaflokkarnir eru nú tveir, fyrir stærri og minni fyrirtæki.

Óskað er eftir því að greinargerð fylgi með tilnefningunni, en við mat á viðurkenningarhöfum er horft til eftirfarandi þátta: Umhverfisstjórnunar, innleiðingar nýjunga í umhverfisvernd, losun gróðurhúsalofttegunda, minni efnanotkunar, lágmörkunar úrgangs, mengunarvarna, umhverfisvænni þróun á vöru eða þjónustu, framlags til umhverfismála, samstarfs í umhverfismálum og vinnuumhverfis.

Fyrirtæki og stofnanir geta bæði tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Tillögur skulu berast umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu eigi síðar en 10. mars nk.

Á síðasta ári hlutu fyrirtækin Sorpa og Bambahús viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu 2023.

Lýsa áhyggjum af áfengissölu og neyslu á íþróttaviðburðum

Frá leik í knattspyrnu á Torfnesi í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) hefur sent frá sé ályktun og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum á Íslandi.

FÍÆT bendir á að áfengissala á íþróttaviðburðum stuðli að aukinni hættu á óviðeigandi hegðun áhorfenda, neikvæðum áhrifum á fjölskylduvænt umhverfi og grafi undan þeim gildum sem íþróttir standa fyrir, svo sem jákvæðum félagsþroska og heilbrigðum lífsstíl. Fyrirmyndir barna og ungmenna eru bæði innan vallar en líka í stúkunni og mikilvægt er að fyrirmyndir í stúkunni séu líka til fyrirmyndar.

FÍÆT leggur áherslu á að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir öll sem taka þátt í íþróttastarfi á Íslandi. Að þessu sögðu, skorar FÍÆT á stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasérsambönd, íþróttafélög og skipuleggjendur íþróttaviðburða að standa vörð um gildi íþróttahreyfingarinnar og tryggja að ekki verði selt áfengi á íþróttaviðburðum.

Ályktunin var lögð fram og rædd á fundi skóla-, íþrótta- og tómstundanefnda Ísafjarðarbæjar.

Nefndin bókaði að hún taki undir áhyggjur Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi varðandi áfengisneyslu og sölu á íþróttaviðburðum.

Nýjustu fréttir