Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 33

Hærra brautskráningarhlutfall í framhaldsskólum

Rúm 64% nýnema á framhaldsskólastigi árið 2018 höfðu útskrifast árið 2022 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Brautskráningarhlutfallið, þ.e. hlutfall nýnema sem hefur útskrifast, hefur ekki mælst hærra í tölum Hagstofunnar sem ná aftur til nýnema ársins 1995.

Brotthvarf úr námi hefur verið nálægt 20% síðustu þrjú ár en 20,3% nýnema haustið 2018 höfðu hætt námi fjórum árum síðar. Rúmlega 15% nýnema haustsins 2018 voru enn í námi án þess að hafa útskrifast fjórum árum síðar og hefur það hlutfall ekki verið lægra.


Brautskráningarhlutfall var hæst á meðal nemenda sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir á Íslandi en rúm 80% þeirra sem hófu nám haustið 2018 höfðu útskrifast árið 2022.

Alls höfðu 67% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn útskrifast og rúm 64% þeirra sem fæddust erlendis og eiga eitt foreldri sem fætt er erlendis. Þá höfðu tæp 61% þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis útskrifast og 57% þeirra sem fæddust á Íslandi og eiga eitt foreldri fætt erlendis.

Lægst var brautskráningarhlutfallið á meðal innflytjenda, þ.e. þeirra sem fæddust erlendis og eiga báða foreldra fædda erlendis, en tæplega 41% þeirra höfðu útskrifast fjórum árum eftir upphaf náms. Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi á meðal innflytjenda en það er enn mun lægra en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn.

707 m.kr. til tónlistarnáms og jöfnunar aðstöðu

Á Ísafirði er öflugur tónlistarskóli. Mynd: Tónís.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra hefur staðfest tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að úthlutun framlaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda skólaárið 2024-2025.

Úthlutunin, sem nemur 707,1 milljónum króna, fer fram á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglna um framlög vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi.

Ekki kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins skiptingin á framlögunum milli eflingu tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda en helmingur fjárins 355 m.kr. rennur til Reykjavíkurborgar og aðrar 148 m.kr. til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Utan höfuðborgarsvæðsins fer mest til Akureyrar eða 85 m.kr. Næst koma Árborg og Akranes með 11 m.kr. hvort sveitarfélag.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fá úthlutun. Ísafjarðarbæ fær 9 m.kr. vegna 9 nemenda og Bolungavíkurkaupstað er ætlað 266 þúsund krónur, tæplega þó.

Strandabyggð: fjarlægja 22 bílhræ

Starfsmenn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fóru í lok maí í eftirlitsferð um Hólmavík. Límdar voru tilkynningar á númerslausa bíla, samtals 22 stk. Bílarnir eru staðsettir á lóðum Strandabyggðar og lóðum fyrirtækja og einstaklinga. Gefin var frestur til 12. júní í 2024 til að fjarlægja viðkomandi hlut. Límdir voru rauðir miðar sem tilkynna stjórnvaldsákvörðun um að bíllinn verði fjarlægður“.

Sveitarfélaginu hefur verið falið af heilbrigðisyfirvöldum, að „sjá um að fjarlægja númerslausar bifreiðar, þar sem eigendur þeirra hafa ekki sinnt tilmælum nefndarinnar“.

Fyrir tveimur vikum tilkynnti Strandabyggð að þeir bíleigendur sem eiga hlut að máli, mættu búast við því að bílar þeirra verði fjarlægðir af sveitarfélaginu á næstu dögum og vikum og geymdir í porti Sorpsamlagsins. 

Voru  bíleigendur hvattir til að hafa samband við sveitarstjóra eða starfsmenn Sorpsamlagsins sem fyrst.

Kynning á bókinni Tólf lyklar í Háskólasetrinu

Næstkomandi fimmtudag, 25. júlí stendur Gefum íslensku séns að bókarkynningu ásamt Kristínu Guðmundsdóttur. Bókin sem um ræðir heitir Tólf lyklar og er bók fyrir fólk af erlendum uppruna sem vill æfa sig í íslensku. Kynningin byrjar klukkan 15:15 (ekki 14:45 eins og áður var auglýst og á sér stað í Háskólasetri Vestfjarða.

Kynningin er tilvalin fyrir þá sem hafa hug almannakennarahlutverki, s.s. hvernig má leggja sín lóð á vogarskálina til að hjálpa fólki að læra íslensku. Á svæðinu verða nemendur tveggja námskeiða Háskólasetur Vestfjarða sem eiga sér stað um þessar mundir.

Frá höfundi:

(English below)

Eru sum orð og setningar erfið? Og hvergi hægt að finna hvað þau merkja? Talar fólk stundum hratt og óskýrt?
Ekki gefast upp! Hjálpin er handa við hornið.
Tólf lyklar er sérstaklega skrifuð fyrir fólk sem er með annað móðurmál en íslensku og búið er með grunninn í íslensku. Bókin inniheldur 12 smásögur af ýmsu tagi og til að gera lesturinn auðveldari. Erfið orð, setningar og orðasambönd eru útskýrð með tilvísunum á íslensku. Einnig er ein handteiknuð mynd með hverri sögu sem styður við tilvísanirnar.
Fyrsti yfirlesari sem kom með ábendingar er kona sem flutti til landsins árið 1995. Hún er myndlistamaður að mennt og segist hafa lært meira í íslensku við lestur bókarinnar. Auk þess sem kennarar aðstoðuðu við gerð bókarinnar.
Bókin kostar 3800kr.
Hægt er að panta í gegnum netfangið: bookskb20@gmail.com
www.facebook.com/Bók-fyrir-fólk-af-erlendum-uppruna-696197564146094

Are some words and sentences difficult? And you can’t find what they mean? Do people sometimes speak fast and slurred?
Do not give up! Help is around the corner.
Twelve keys are specially written for people whose mother tongue is not Icelandic and have a basic knowledge of Icelandic. The book contains 12 short stories of various kinds and to make reading easier. Difficult words, sentences and phrases are explained with references in Icelandic. There is also one hand-drawn picture with each story to support the references.
The first reader who came up with suggestions is a woman who moved to Iceland in 1995. She is a visual artist and says she learned more in Icelandic by reading the book. In addition, the teachers helped in the preparation of the book.
The book costs ISK 3800.
You can order through the email address: bookskb20@gmail.com
www.facebook.com/Bók-fyr-fólk-af-erlenden-uppruna-696197564146094

Hvaða gagn er að heimspeki?

Frá Þingeyri.

Hagnýt heimspeki verður á dagskrá í Skelinni á Þingeyri dagana 9.-10. ágúst undir yfirskriftinni Skelin Festival of Applied Philosophy. En hvað er hagnýt heimspeki og fyrir hver eru hún? Til að forvitnast um þetta fengum við Ketil Berg Magnússon, einn af gestgjöfunum í spjall. Ketill starfar sem mannauðsstjóri hjá Marel í Norður Evrópu og er stundakennari við Háskólann í Reykjavík. 

“Hagnýt heimspeki er aðferð til að ræða um og móta sér skoðun á mikilvægum spurningum í samfélaginu og í eigin lífi”, segir Ketill. Gagnrýnin hugsun, rökræða og siðfræði eru grunnurinn og gjarnan fer hagnýt heimspeki fram í samræðu tveggja eða fleiri aðila. Gott er að fá sjónarmið úr ólíkum fræðigreinum og þátttakendur vinna í sameiningu að því að finna besta svarið við spurningu sem sett er fram. Besta svarið er það sem stutt er bestu fáanlegum rökum. Í hagnýtri heimspeki segjum við gjarnan að við berum virðingu fyrir fólki, en ekki endilega fyrir skoðunum þeirra, sérstaklega ekki ef þær eru illa rökstuddar. 

En er ekki heimspeki bara spekúlasjón um lífið og tilveruna?

Hagnýt heimspeki er ólík fræðilegri heimspeki á þann hátt að spurningarnar tengjast raunverulegum áskorunum hér og nú, sem finna verður svar við til að geta haldið áfram. Oft erum við í tímapressu eða viljum einfaldlega halda áfram og taka ákvörðun um eitthvað sem okkur þykir mikilvægt. Fræðileg heimspeki er hins vegar oft ekki eins tímabundin og fjallar gjarnan um abstrakt hugtök og mikilvæg grundvallar málefni. Fræðilegur heimspekingur er ekki að flýta sér að finna lausn. Hann fussar gjarnan við kröfunni um hagnýtingu því ekki megi gefa afslátt af hreinni hugsun og leitinni að endanlegum sannleika. 

Hvenær nýtist hagnýt heimspeki?

Í vissum skilningi er hagnýt heimspeki afskaplega algeng og alþýðleg tegund hugsunar. Við tökum á hverjum degi ákvarðanir í okkar lífi og reynum að vega og meta valkostina sem við höfum á sem skynsamlegastan máta. Með upplýsingaflæðinu sem fylgir samfélagsmiðlum getur reynst erfitt að greina hvað er skynsamlegt og hvað ekki. Hagnýt heimspeki auðveldar okkur að vinsa úr vitleysuna frá því sem gagnlegt er og stutt með staðreyndum. Okkur tekst misvel upp. Stundum er svarið augljóst, við vitum hvað skal gera og við erum sátt við ákvörðun okkar eftir á, en stundum teljum við okkur hafa besta svarið en komumst svo að því þegar við skoðum málið betur að okkur sást yfir mikilvægar upplýsingar og því var niðurstaðan ekki góð. 

Getur þú nefnt dæmi?

Bóndi sem reynir að nýta jörð sína sem best og passa upp á velferð dýra sinna þarf að taka ákvarðanir á hverjum degi. “Á ég að slá í dag eða treysta að hann haldist þurr svo grasið spretti meira? Á ég að virkja bæjarlækinn og fá rafmagn eða á ég að leyfa fossinum að halda sér svo ég og mínir afkomendur geti haft þetta fallega útsýni af hlaðinu? Á ég að halda áfram að rækta sauðfé til manneldis eða þarf mannkynið ekki lengur kjöt? Bændur eru eflaust mismikið að spá í þessa hluti. Stundum eru ekki einföld svör og stundum þurfum við að lifa við að hlutirnir eru ekki svartir eða hvítir. Ég hef hitt marga sauðfjárbændur sem elska rollurnar sínar og gæla við lömbin og fyllast djúpri sorg í sláturtíðinni. Hagnýt heimspeki getur hjálpað þeim að sortera hugsanir sínar og tilfinningar og mögulega geta lifað í betri sátt við tilveru sína. 

Annað dæmi eru stórar spurningar eins og hvort fiskeldi sé gott fyrir Vestfirði. Það er auðvitað stór spurning sem fólk hefur ólíkar skoðanir á. Hagnýt heimspeki getur nýst fólki og samfélaginu til að hlusta á ólík sjónarmið og greina þau, ýta undir samkennd og virðingu milli fólks. Með gagnrýnni hugsun er hægt að koma auga á falsfréttir og fókusa á staðreyndir. Mögulega getur fólk orðið sammála en kannski verður niðurstaðan að fólk er ósammála um einhver atriði en getur samt lifað saman og borið virðingu fyrir hvort öðru. Hagnýt heimspeki getur spornað gegn skautun skoðana (pólaríseringu) sem er hættuleg því hún skapar gjá á milli fólks, sem getur leitt til andúðar og haturs. 

Hver verður fókusinn á Hátíð hagnýtrar heimspeki á Þingeyri í ágúst?

Já, Skelin, hátíð hagnýtrar heimspeki verður haldin í fyrsta skipti núna og við vonumst til að fá fólk með ólíkan bakgrunn til að taka þátt í nokkrum samræðum um samskipti fólks sem mynda hóp eða samfélög. Hátíðin fer fram á ensku og meðal umræðuefna verða „Vinalegur núningur / Philosophy of Friendly Friction“, „Siðfræðileg sérfræðiþekking / Moral Expertise“ og „Hvers vegna hjálpum við öðrum? / Why are we helpful?“

Heiðursgestur á hátíðinni verður Eyjólfur Kjalar Emilsson, prófessor emeritus við Háskólann í Ósló og leiðandi fræðimaður á heimsvísu í klassískri heimspeki. Hann er einnig myndlistarmaður og verða myndir eftir hann sýndar á hátíðinni. Erindi hans nefnist: Socrates and comrades on the self. 

Hver standa að hátíðinni?

Við erum þrjú sem skipuleggjum hátíðina. Auk mín, Salvör Nordal, umboðsmaður barna og prófessor við Háskóla Íslands og Öyvind Kvalnes, prófessor við BI viðskiptaháskólann í Osló. Við höfum unnið saman að ólíkum heimspekiverkefnum undanfarinn aldarfjórðung og finnst mjög spennandi að fagna heimspekinni og skoða hvernig hún getur gagnast fólki hér á Vestfjörðum. 

Nánari upplýsingar um Skelina – Hátíð hagnýtrar heimspeki og skráningarform má finna á vefsíðu hátíðarinnar. https://skelinphilosophy.com

Ketill Berg Magnússon

SFS: fiskeldi er framtíðin – 24 milljarðar króna útflutningsverðmæti á 6 mánuðum

Fram kemur í fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, að á fyrstu sex mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í rúma 24 milljarða króna. Verðmætin eru rúmlega 14% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og það hlutfall hefur aldrei áður verið hærra á tilgreindu tímabili. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í júní sem birtar voru fyrr í þessum mánuði. 

Útflutningsverðmæti eldisafurða sem hlutfall af verðmæti sjávarafurða aukist verulega undanfarinn áratug. Fyrir um áratugi síðan var hlutfallið innan við 3% en er nú nærri fimm sinnum hærra eða ríflega 14%.

Búist er við að hlutdeildin hækki enn frekar á komandi árum þar sem framleiðslan er enn innan við helmingur af útgefnum leyfum.



Eldi orðið meira en veiðar

Fram kemur  í nýrri og umfangsmikilli skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (FAO), um stöðu fiskveiða og lagareldis í heiminum  að heildarframleiðsla lagarafurða á heimsvísu hafi numið um 185 milljónir tonna á árinu 2022 og hefur hún aldrei verið meiri. Fyrir rúmum 40 árum var framleiðslan í heild í kringum 75 milljónir tonna og fyrir um 30 árum um 100 milljónir tonna. Langstærsti hluti þessarar aukningar hefur komið frá lagareldi, enda hefur afli frá fiskveiðum verið svo til stöðugur frá árinu 1990, eða í kringum 90 milljónir tonna.

Framleiðslan á lagarafurðum á árinu 2022 skiptist þannig að um 91 milljónir tonna komu frá hefðbundnum veiðum og 94,4 milljónir frá lagareldi, eða 49% á móti 51%. Þetta er í fyrsta sinn sem framleiðsla á eldisafurðum tekur fram úr því sem kemur frá hefðbundnum veiðum.

Vestfirskir feðgar á tveimur skipum Samherja lönduðu sama dag

Birkir Hreinsson og Hreinn Birkisson í brúnni á Harðbak / myndir Sigurður I. Gunnþórsson/samherji.is

Uppsjávarveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA 11 og togarinn Harðbakur EA 3 lönduðu í Neskaupstað í gær. Vilhelm Þorsteinsson kom til hafnar á miðnætti með um 1700 tonn af makríl og Harðbakur EA 3 kom svo til hafnar síðdegis með nærri fullfermi, aðallega ýsu. Afli Harðbaks verður unninn í vinnsluhúsi Samherja á Dalvík, þar hófst vinnsla í morgun eftir sumarleyfi starfsfólks. Afli Vilhelms Þorsteinssonar fer til vinnslu í Neskaupstað en skipið veiðir í samvinnu við önnur uppsjávarveiðiskip Samherja og Síldarvinnslunnar.

þetta kom fram á vefsíðu Samherja í gær.

Birkir Hreinsson er skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni en sonur hans, Hreinn Birkisson, fór sem skipstjóri á Harðbak. Hreinn var í sinni fyrstu veiðiferð sem skipstjóri.

Segja má með sanni að sjómennska sé í blóði feðganna, sem ættaðir eru frá Bolungarvík. Hreinn hefur verið fyrsti stýrimaður á togara Samherja, Björgu EA 7, um árabil en Birkir hefur verið skipstjóri á skipum Samherja í áratugi.

„Þetta bar nokkuð brátt að og ég stökk á tækifærið þegar það bauðst,“ segir Hreinn aðspurður um aðdragandann að fyrstu veiðiferðinni sem skipstjóri.

„Við vorum að veiðum í um tvo sólarhringa á Papagrunni, suður af Hornafirði. Aflabrögðin voru góð og við lönduðum í Neskaupsstað um 73 tonnum sem lætur nærri að 

Vilhelm Þorsteinsson og Harðbakur í Neskaupstað í gær

vera fullfermi. Þetta er góður fiskur, aðallega ýsa og slatti af þorski. Það segir sig sjálft að í svona veiðiferð reynir töluvert á mannskapinn, sem er góð blanda af reynslumiklum sjómönnum og strákum sem eru svo að segja að taka sín fyrstu skref í sjómennsku. Þetta er hörku mannskapur, valinn maður í hverju rúmi getum við sagt.“

Harðbakur fór strax til veiða eftir löndun og er Hreinn áfram skipstjóri.

Birkir Hreinsson, faðir Hreins, segir að afar ánægjulegt hafi verið að taka á móti syninum úr sínum fyrsta túr sem skipstjóri.  Eiginkona Birkis og móðir Hreins er Svala Jónsdóttir, sem einnig er Bolvíkingur. 

„ Við foreldrarnir erum auðvitað upp með okkur. Stjórnendur Samherja hafa alla tíð treyst ungu fólki til að leysa krefjandi verkefni, þannig að við vissum að einn góðan veðurdag kæmi að þessum tímamótum. Það var afskaplega notalegt að sjá Harðbak sigla inn Norðfjörðinn í gær með nærri fullfermi og soninn í brúnni. Þetta var góð byrjun hjá honum og við hjónin erum þess fullviss að Hreinn verður farsæll skipstjóri,“ segir Birkir.

Birkir tekur á móti endanum.

Bragðarefur

Háskólaútgáfan hefur gefið út bókina Bragðarefur eftir Guðrúnu Ingólfsdóttur.

Bókin er hræringur af textum með ólíka áferð og bragð á tungu. Í henni fara saman fróðleiks– og skemmtimolar í nokkurs konar bragðaref. Þeir eru tíndir saman úr margs konar handritum frá ýmsum tímum.

Ætlunin er að veita lesendum innsýn í fjölbreytt lesefni fólks á fyrri tíð. Allt eins mætti líkja bókinni við ærslabelg.

Textarnir eru litríkir eins og sönnum ærslabelg sæmir og þeyta manni inn í nýjar veraldir.

Unglingalandsmót UMFÍ verður í Borgarnesi

Mótið 2024 fer fram um verslunarmannahelgina í Borgarnesi.

Unglingalandsmót UMFÍ hafa farið fram reglulega frá 1992 og árlega frá 2002 um verslunarmannahelgina.

Mótið er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.

Alls verður boðið upp á 18 mismunandi keppnisgreinar og því ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðu UMFÍ

FLÆÐILÍNA – Síðasta sýningarvika

Sýningin er í hlöðunni í Neðri – Tungu á Ísafirði , gengið inn um dyrnar sem snúa að golfvellinum. Sýningin er opin kl.10:00-20:00 frá 22-27 júlí.

Flæðilína er hluti af mastersverkefni Rannveigar Jónsdóttur frá Listaháskólanum í Malmö, Svíþjóð.

„Í janúar 2019 fór ég frá Ísafirði á nokkurra daga túr á frystitogara að nafni Páll Pálsson ÍS-102. Á sjó hélt ég úti dagbók, tók myndir og skrásetti hljóðheim skipsins. Ferðin einkenndist af sjóveiki, endurtekningu og einangrun.“ Umhverfishljóð tekin upp um borð í togaranum óma í 5 hljóðskúlptúrum á víð og dreif um rýmið og staðsetja áhorfandann huglægt um borð í skipinu á samt 9 skúlptúrum sem taka form sitt út frá formúlu sem skáldaðar voru út frá upplýsingum um veðurfar og staðsetningu togarans.

Rannveig Jónsdóttir (f. 1992) myndlistarmaður leggur áherslu á hljóð og skúlptúr og texta í verkum sínum sem birtast í prent- og hljóðverkum sem og efnislegum abstrakt formum.

Hún lauk námi frá sjónlistardeild Myndlistarskóla Reykjavíkur (2014), síðar BA námi frá Listaháskóla Íslands (2017) og MFA námi frá Listaháskólanum í Malmö (2019).

Rannveig býr og starfar á Ísafirði og hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis. Hún kennir nú við lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði og vinnur sem sérfræðingur og verkefnastjóri hjá Listasafni Ísafjarðar.

Nýjustu fréttir