Laugardagur 2. nóvember 2024
Síða 33

Ísafjarðarbær: frestað að ákveða að fara í nýja slökkvistöð

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var tekin fyrir í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tillaga frá skipulags- og mannvirkjanefnd um að farið verði í hönnun á nýrri slökkvistöð á Ísafirði á árinu 2025.

Sigríðir Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar lagði fram breytingartillögu og vildi þess í stað vísa tillögunni til fjárhagsáætlunargerðar fyrir 2025. Þannig verði lagt heildstætt mat á framkvæmdaáætlun og -þörf sveitarfélagsins í einu lagi.

Var breytingartillagan samþykkt og því ekki ákveðið að sinni að fara í hönnun á nýrri slökkvistöð.

Samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs er heildarrýmisþörf fyrir nýja slökkvistöð áætluð um 650-785 fermetrar til að mæta þeim kröfum sem starfsemin hefur á núverandi stigi og byggingarkostnaður 299 m.kr. til 361.1 m.kr.

5,5 m.kr. í fiskeldisgjald af einni slátrun

Laxasláturhúsið Drimla og Novatrans við Brjótinn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ríkissjóður fékk um 5,5 m.kr. í fiskeldisgjald af stóru slátruninni í Drimlu á sunnudaginn. Þá fóru 150 tonn af eldislaxi í gegnum laxasláturhúsið. Fiskeldisgjaldið er 37,80 kr fyrir hvert kg svo ætla má að það skili 5.670.000 kr. í fiskeldisgjald.

Þá fær hafnarsjóður Bolungavíkur góðar tekjur af umvifum sunnudagsins í aflagjöld og önnur hafnargjöld. Jónn Páll Hreinsson, bæjarstjóri taldi aðspurði telja að tekjurnar séu á bilinu 600 – 700 þúsund krónur.

Ullaræði 2

Ullaræði 2 er afar litrík og fjölbreytt prjónabók þar sem íslenski lopinn er uppistaðan í uppskriftunum.

Finnski hönnuðurinn Heli Nikula, sem hannar undir nafninu Villahullu, sló í gegn fyrir nokkrum árum með peysuuppskrift úr íslenskum lopa. Í kjölfarið fylgdu fleiri gríðarvinsælar uppskriftir og síðan bók, Villahullu eða Ullaræði, sem hefur notið mikillar hylli hérlendis sem annars staðar.

Hér er loksins komin ný og ekki síður skemmtileg bók sem inniheldur á þriðja tug uppskrifta, flestar að heilum peysum en einnig að sokkum, húfum, vettlingum og fleiri minni verkefnum.

Guðrún Hannele Henttinen þýddi.

Fundu ekki hvítabirni

Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar fór í könn­un­ar­flug yfir Vest­f­irði í morgun þar sem leitað var að hvíta­björn­um en í síðustu viku gekk hvíta­björn á land á Höfðaströnd í Jök­ul­fjörðum þar sem hann var felld­ur.

Þyrl­an fór af stað klukk­an 10 í morg­un og sótti lög­reglu­mann á Ísafjörð og fór svo í leit í Grunnavík, Jökulfjörðum og um Hornstrandir allt að Bjarnarfirði til að ganga úr skugga um að ekki væru fleiri hvítabirnir á ferðinni og reyndist svo ekki vera.

Rúmar 500 milljónir til kaupa á hreinorku vörubifreiðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að veita 510  milljónum króna í styrki til kaupa á hreinorku vörubifreiðum á þessu ári.

Þetta er í annað sinn sem slíkir styrkir eru veittir, en áætlað er að um rúmlega 600 þúsund lítrar af olíu sparist árlega með notkun hreinorku vörubifreiðanna sem hljóta styrk að þessu sinni. Hvert tæki sem kemst á hreina orku vegur þungt í orkuskiptum, þar sem hvert tæki notar margfalt meiri olíu á við venjulega fólksbifreið.

Allar 55 umsóknirnar sem bárust voru samþykktar með upphæðum samkvæmt samrýmdum viðmiðum. Sótt var um 621 milljónir kr. og komu 510 milljónir kr. til úthlutunar. Umsóknirnar sem bárust að þessu sinni eru um helmingi fleiri en í fyrra og vegna fleiri gerða hreinorku vöruflutningabíla. Ljóst er að framboð slíkra bíla er að aukast verulega.

Flestar voru umsóknirnar að þessu sinni vegna kaupa á stærri sendibílum eða pallbílum með stórum rafhlöðum, en einnig var talsvert um umsóknir vegna stærri vörubifreiða með enn stærri og öflugri rafhlöðum.

Háskólasetur Vestfjarða hluti af “Green Meets Blue” verkefninu

Háskólasetur Vestfjarða er hluti af verkefninu „Green Meets Blue“, sem er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt.

Verkefnið verður undir forystu Nordregio og eru Háskólasetur Vestfjarða og Háskóli Hálanda og eyja í Skotlandi samstarfsaðilar í verkefninu.

Matthias Kokorsch, fagstjóri hjá Háskólasetri er verkefnisstjóri fyrir íslenska hluta verkefnisins. Aðstoðarmenn eru Rebecca og Tabea, sem báðar eru meistaranemar við Háskólasetur, ásamt Maria Wilke sem er fyrrverandi meistaranemi og kennari við Háskólasetur Vestfjarða og skrifaði doktorsverkefni um hafskipulag.

Norrænu löndin hafa sett sér metnaðarfull markmið um loftslags- og orkumál, þar sem endurnýjanleg orka á hafi úti gegnir lykilhlutverki í grænu umskiptunum en henni fylgja einnig áskoranir, þar með talið skörun við aðrar atvinnugreinar eins og sjávarútveg og fiskeldi. 

Fást engin svör

Margítrekaðar tilraunir til þess að reyna að fá skýringar á því hvers vegna stjórnvöld ákváðu skyndilega að hætta að halda uppi vörnum gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem hefur krafizt þess að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn gangi framar innlendri lagasetningu, hafa engan árangur borið. Vörnum var haldið uppi í áratug þar til því var allt í einu hætt fyrir um tveimur árum síðan. Eina skýringin virðist vera sú að nýr utanríkisráðherra tók við embætti, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Fjölmiðlar hafa til að mynda kallað eftir skýringum frá utanríkisráðuneytinu án þess að þær hafi fengizt. Tilraun var gerð til þess af hálfu utanríkisráðherra að keyra í gegnum Alþingi frumvarp um málið, sem kennt hefur verið við bókun 35 við EES-samninginn, fyrir um einu og hálfu ári síðan með það fyrir augum að umræða um það yrði sem minnst og það fengi fyrir vikið sem minnsta athygli en varð ekki kápan úr því klæðinu. Nú á að gera aðra tilraun til þess en að þessu sinni er veðjað á upphaf þingvetrar fremur en undir lok hans.

Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar gilda um almenna lagasetningu, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Ástæðan er fyrst og fremst sú að löggjöf sambandsins nýtur forgangs gagnvart löggjöf ríkja þess og krafan sú að það sama gildi um Ísland vegna aðildarinnar að samningnum.

Felur í sér algeran forsendubrest

Fullyrða má svo gott sem að Ísland hefði ekki orðið aðili að EES-samningnum fyrir 30 árum síðan ef litið hefði verið svo á að innleiða þyrfti bókun 35 við samninginn eins og reynt hefur verið af hálfu stjórnvalda og enn á að reyna. Bæði sé horft til umræðna á vettvangi stjórnmálanna á þeim tíma sem og í röðum lögspekinga. Hvernig staðið var að málum í upphafi var í raun ein helzta forsenda þess að af aðildinni varð. Krafan um forgang löggjafar Evrópusambandsins felur þannig í raun í sér algeran forsendubrest hvað það varðar.

Frumvarpið felur þannig í sér fullkomna uppgjöf gagnvart kröfu ESA um forgang regluverks Evrópusambandsins sem stjórnvöld höfðu áður alfarið og margítrekað hafnað. Málið hófst árið 2012 þegar ESA fór fram á það að íslenzk stjórnvöld útskýrðu með hvaða hætti bókun 35 hefði verið innleidd hér á landi. Tæpum tveimur áratugum eftir að EES-samningurinn kom til sögunnar. Fram að því höfðu engar athugasemdir verið gerðar í þeim efnum en hlutverk stofnunarinnar er einkum að hafa eftirlit með réttri framkvæmd samningsins.

Mikil samskipti áttu sér stað við ESA á þeim rúma áratug sem liðinn er síðan málið kom upp þar sem stjórnvöld vörðu þá leið sem farin var varðandi bókun 35 og höfnuðu alfarið og ítrekað kröfu ESA þegar hún kom fram fimm árum síðar. Meðal annars og ekki sízt á þeim forsendum að stofnunin hefði engar athugasemdir gert vegna málsins í um tvo áratugi og að óásættanlegt hefði verið að standa að því með öðrum hætti en gert hafi verið. Frumvarp Þórdísar var síðan lagt fram í marz 2023 þvert á fyrri málflutning stjórnvalda.

Hversu trúverðugt getur það talizt?

Fullyrt hefur verið af stjórnvöldum að ekkert sé að óttast í þessum efnum. Með orðalaginu „nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað“ í frumvarpinu sé áréttað að þingið geti ávallt sett lög sem fari gegn innleiddu regluverki frá Evrópusambandinu. Hitt er svo annað mál að kæmi til þess myndi það kalla á sömu viðbrögð frá ESA og þau sem stjórnvöld hafa nú kosið að gefast upp gagnvart. Með öðrum orðum ætla þau ekki að standa í fæturnar núna en segjast þó mögulega gera það næst. Getur það á einhvern mælikvarða talizt trúverðugt?

Versta staðan sem gæti komið upp, næði frumvarp Þórdísar ekki fram að ganga og málið færi hugsanlega í framhaldinu fyrir EFTA-dómstólinn, væri sú að komizt yrði að þeirri niðurstöðu að stjórnvöldum bæri samkvæmt EES-samningnum að verða við kröfu ESA. Með öðrum orðum einfaldlega það sem frumvarp hennar felur í sér! Ekki er aðeins um uppgjöf að ræða heldur fyrirfram uppgjöf án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyrir dómi. Fyrir vikið minnir málið að ýmsu leyti óþægilega á Icesave-málið á sínum tíma.

Til að mynda hafði ESA í Icesave-málinu líkt og nú enga athugasemd gert við innleiðingu á viðkomandi regluverki Evrópusambandsins hér á landi um langt árabil þegar stofnunin gerði mál út af því. Þá átti líkt og nú að gefast upp fyrirfram í stað þess að láta fyrst reyna á málið fyrir EFTA-dómstólnum. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í málinu sem snerist þó einungis um eina tiltekna löggjöf sambandsins. Frumvarp Þórdísar varðar hins vegar alla löggjöf sem hefur verið og mun verða tekin upp hér á landi í gegnum EES-samninginn.

Málið fari fyrir EFTA-dómstólinn

Fyrir liggur að frumvarpið er eðli málsins samkvæmt afar umdeilt innan Sjálfstæðisflokksins og víðar. Fyrir vikið er skiljanlegt að Þórdís vilji að sem minnst umræða fari fram um málið. Ekki sízt í röðum okkar sjálfstæðismanna. Hins vegar er vitanlega ekki um mjög ærlega framgöngu að ræða auk þess sem hún er ekki beinlínis til marks um mikla sannfæringu ráðherrans og annarra í forystu flokksins fyrir málstaðnum. Ekki sízt eftir að hafa hafnað þessum sama málstað í áratug áður en alger og óútskýrður viðsnúningur átti sér stað.

Helzt mætti ætla að forysta Sjálfstæðisflokksins teldi að hann mætti við því að missa meira fylgi. Hvers vegna fórna á flokknum á altari þessa máls er vitanlega óskiljanlegt. Málið hefur þegar skaðað flokkinn nóg. Hins vegar er í boði lausn sem þýddi að hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né ríkisstjórnin þyrftu að hafa frekari forgöngu um að innleidd löggjöf frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn verði lögum samkvæmt gert æðra innlendri lagasetningu. Einfaldlega að fara dómstólaleiðina. Málið fari fyrir EFTA-dómstólinn.

Dómstólaleiðin þýddi að möguleiki væri á því að dæmt yrði okkur í vil. Einkum að sjálfsögðu ef tekið yrði til ítrustu varna fyrir Ísland. Líkt og í Icesave-málinu. Hins vegar er sá möguleiki að engu gerður ef gefast á upp fyrir fram eins og frumvarp Þórdísar felur í sér. Staðan verður ekki verri en sem því nemur sem fyrr segir enda krafa ESA þar með algerlega uppfyllt. Væri svo ekki kallaði það eðli málsins samkvæmt á frekari aðgerðir af hálfu stofnunarinnar. Ekki sízt ef fyrir lægi að stjórnvöld hefðu þegar gefizt upp fyrir fram.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Innheimtustofnun: rannsókn langt komin

Ólafur Hauksson héaðssaksóknari segir að rannsókn á störfum tveggja fyrrverandi starfsmanna Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé ennþá í rannsókn en hún sé tiltölulega langt komin.

Í desember 2021 sagði þáverandi stjórn af sér og ný stjórn sendi tvo starfsmenn í í tímabundið leyfi til þess „að ný stjórn geti farið yfir stöðuna og Ríkisendurskoðun geti lokið úttekt á verkefnum og starfsemi Innheimtustofnunar“ eins og sagði í fréttatilkynningu frá stofnuninni. Stjórnendurnir sem um er að ræða eru forstjórinn Jón Ingvar Pálsson og forstöðumaður útibúsins á Ísafirði Bragi Axelsson.

Í apríl 2022 var Héraðssaksóknari er í aðgerðum fyrir vestan vegna rannsóknarinnar. Tíu lögreglumenn og sérfræðingar á vegum embættisins voru að störfum við skýrslutökur og húsleit. Stjórn stofnunarinnar hafði þá nýlega rift samningi við Braga og Jón Ingvar vegna alvarlegra brota í starfi og vanefnda á samningi vegna trúnaðarbrots. 

Fram kom í fréttum RÚV að Jón Ingvar hefði samið við lögmannsstofu Braga á Ísafirði um að taka að sér innheimtuverkefni fyrir stofnunina. Stofnunin sá þá um að innheimta meðlag og var með skrifstofur í Reykjavík og á Ísafirði. 

Lögum um stofnunina hefur síðan verið breytt og innheimtuverkefnin flutt til ríkisins.

Besta deildin: jafntefli við KR í vesturbænum

Leikmenn Vestra þakka áhorfendum í leikslok fyrir stuðninginn eftir sigur á KR fyrr í sumar. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Karlalið Vestra sýndi mikila baráttu í leik sínum í gær gegn KR í Kaplaskjólinu í vesturbæ Reykjavíkur og gerði jafntefl 2:2 í jöfnum og spennandi leik. KR tók tvisvar forystu en jafnoft náði Vestri að jafna leikinn. Mörk Vestra gerðu Andri Rúnar Bjarnason  og Gustav Kjeldsen. Undir lok leiksins munaði minnstu að Andri Rúnar næði að skora sigurmark en skot hans var varið.

Eftir þessu úrslit er fallbaráttan en tvísýn og hörð. Vestri er í 11. sæti og fallsæti með 19 stig. Fylkir sem tapað í gær fyrir Fram er í 12. sæti og því neðsta með 17 stig. HK er sæti ofan en Vestri með 20 stig og leikur við KA á miðvikudaginn og KR er í 9. sæti með 22 stig.

Þessu fjögur lið eru í mikilli baráttu við að forðast fall úr deildinni. Tvö þeirra munu bjarga sér og hlutskipti tveggja verður að leika næsta ár í Lengjudeildinni.

Liðin eiga eftir að leika fjóra leiki og því 12 stig enn möguleg. Vestri á enn góða möguleika á að forðast fall. Liðið fær HK í heimsókn næsta laugardag og síðan koma tveir útileikir, gegn KA og Fram. Síðasti leikur tímabilsins verður svo 26. október á Kerecis vellinum á Ísafirði gegn Fylki.

Takist Vestra að vinna báða heimaleikina verður staða liðsins nokkuð vænleg.

Staða í neðri hluta Bestu deildarinnar eftir leik Vestra og KR. Fylkir tapaði fyrir Fram og á eftir að uppfæra töfluna með þeim úrslitum.

Litlibær: 10 – 15 þúsund gestir

Enn er opið í Litlabæ í Skötufirði. Töluverður erill var í gær þegar Bæjarins besta kom í heimsókn, einkum erlendir ferðamenn akandi á bíleigubílum.

Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir frá Hvítanesi sagði að veitingasalan hefði verið opin frá því í byrjum maí og verður opið út september. Hún sagði að mikið hafi verið að gera í allt sumar en hafði ekki tiltækar nákvæmar tölur um fjölda ferðamanna en sagði svo 10 til 15 þúsund gestir.

Gestir stoppa í Hvítanesi til þess að skoða selina og fá sér svo kaffi og meðlæti í Litlabæ. Það mátti sjá á bandarískum gestum í gær að þeim þótti mikil upplifun að koma í bæinn í Litlabæ sem lýsir vel aðbúnaði á Íslandi fyrir löngu síðan. Bærinn er lítill og lágt til lofts en engu að síður snyrtilegur og vandað til innanstokks.

Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir.

Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýjustu fréttir