Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 32

Var neyðarþjónusta Landhelgisgæslunnar misnotuð?

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í neyðarflug í gær til þess að sækja erlendan ferðamann í Jökulfjörðum. Maðurinn var fluttur til Ísafjarðar til frekari skoðunar.

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða staðfestir í samtali við Bæjarins besta að stofnunin hafi enga aðkomu að þessu máli, maðurinn hafi ekki komið þangað.

Hreggviður Sím­on­ar­son, starfsmaður á bakvakt aðgerðarsviðs Land­helg­is­gæsl­unn­ar segir Bæjarins besta að Landhelgisgæslan hafi skilað manninum í sjúkrabíl á Ísafirði og að hann hafi ekki hafi verið stórvægilega slasaður.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta ók maðurinn í burtu frá flugvellinum í bíl sem hann geymdi þar. Það hefur ekki fengist staðfest.

Bíldudalsskóli: 20% aukning nemenda

Vesturbyggð hefur ákveðið að byggja nýjan skóla á Bíldudal í stað byggingarinnar að Dalbraut 2 sem er á hættusvæði. Samkomulag var gert í vor við ríkið um að Vesturbyggð fengi 137 m.kr. greiðslu gegn því að færa starfsemi grunnskólans af hættusvæði og finna henni annan viðeigandi stað.

Nýr Bíldudalsskóli við Hafnarbraut 5 verður samrekinn leik – og grunnskóli fyrir u.þ.b. 36 nemendur, ásamt frístund. Nýbyggingin verður reist með það fyrir augum að nýtast á marga vegu og þjóna samfélaginu á Bíldudal. Um ræðir áfanga eitt þar sem framtíðaráform eru um að byggja við skólann samhliða aukningu nemenda.

Áfangi eitt gerir ráð fyrir 20 % aukningu nemenda. Áætlaður fjöldi nemenda á leikskóla er 12-13 nemendur, áætlaður fjöldi grunnskólanemenda er 24 nemendur, 8 á hverju stigi. Áætlaður fjöldi starfsmanna er 12 -15. Byggingin ber fleiri fjölda gunnskólanemenda eða allt að 50 nemendur á grunnskólastigi, alls 18 manns í hverju kennslurými miðað við núverandi skipulag.

Byggingin verður 550 fermetrar og er hefðbundin timburgrinda bygging á einni hæð.

Heimastjórn Arnarfjarðar tók málið fyrir á fyrsta fundi sínum sem var 10. júlí sl.

Heimastjórnin lýsti áhyggjum sínum af því að rými fyrir leikskóla væri ekki nóg eins og það er sett fram á teikningunum. Eins hefur heimastjórnin áhyggjur af því að bygging áfanga 2 dragist á langinn og þangað til verði þrengt að aðstöðu leikskólans.

Heimastjórnin óskar eftir rökum fyrir því að ekki verði farið í byggingu á áfanga tvö strax þar sem útlit er fyrir að aðstaða leikskóla sé lítil og ekki hentug fyrir slíka starfsemi eftir því sem hægt er að lesa úr teikningunum.

Heimastjórn Arnarfjarðar hvetur til að verkefnið verði skoðað með tilliti til þessara ábendinga og að tryggt verði að rými í nýjum skóla rúmi alla þá starfsemi sem þar er ætlast til að sé staðsett. Brýnt er að horfa til þess strax að hægt sé að koma til móts við þá þörf sem mun skapast fjölgi börnum á Bíldudal.

Af hverju finnst ritstjóra BB framandleg hugmynd að fólk beri ábyrgð á verkum sínum?

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með hversu framandleg hugmynd það virðist vera fyrir ritstjóra BB að fólk beri ábyrgð á verkum sínum. 

Í tilefni af því að Matvælastofnun (MAST) ákvað í júní að gefa út rekstrarleyfi fyrir þrjú sjókvíaeldissvæði í Ísafjarðardjúpi í andstöðu við afgerandi mat Samgöngustofu um að óheimilt væri að veita leyfi á tveimur eldiissvæðanna með tilliti til siglingaöryggis, var bent á eftirfarandi í fréttaviðtali við Vísi síðustu viku:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Ofbeldi og hótanir?

Um þessa einföldu ábendingu skrifaði ritstjóri BB pistil undir fyrirsögninni „IWF: haft í hótunum við embættismenn“. 

Orðin hótun og ofbeldi koma níu sinnum fyrir í stuttri grein ritstjórans auk þess sem hann telur að með ábendingunni sé „vegið að“ og „ráðist að“ embættismönnum.

Líklega þarf ritsjórinn að fá sér orðabók og fletta upp merkingu orðanna „hótun“ og „ofbeldi“. Notkun hans á þeim bendir til þess að næmni hans fyrir blæbrigðum íslenskrar tungu gæti verið betri.

Hitt er þó athyglisverðara að honum finnst þessar vangaveltur, um að fólk eigi að bera ábyrgð á því sem það gerir í vinnu sinni, svona fráleitar. 

Ástæða þótti árið 2007 til að skerpa á refsiábyrgð starfsmanna félaga í samkeppnislögum. Fram að lagabreytingunum var meginreglan sú að félög bæru ábyrgð á samráðsbrotum en ekki þeir sem tóku ákvörðun um brotin. Þetta þótti óviðunandi. Eftir breytingarnar getur sá sem ber ábyrgð á samráðsbrotum átt von á sektum eða þurfa að sitja í fangelsi allt að sex árum.

Skaðabótaábyrgð starfsmanna er samkvæmt lögum mismunandi eftir því hvaða störfum þeir sinna, hver staða þeirra og hvert er rekstrarform viðkomandi starfsemi. Meginreglan í skaðabótalögunum er að starfsmaður ber ekki ábyrgð á því tjóni sem hann veldur. Ábyrgð verður hins vegar felld á starfsmann hafi hann sýnt af sér stórfellt gáleysi eða ásetning sem veldur tjóni. 

Að lögin séu svona særir líklega ekki réttlætiskennd margra annarra en ritstjóra BB.

Ítrekuð brot 

Fullkomlega eðlilegt er að velta fyrir sér hver ábyrgð þeirra hjá MAST er ef slys verða vegna staðsetningu sjókvía á svæðum þar sem þær ógna siglingaöryggi samkvæmt  Samgöngustofu. Í því felast hvorki „hótanir“ né „ofbeldi“.

En léttúð starfsfólks MAST gagnvart siglingaöryggi er ekki eina tilefnið til að velta fyrir sér hvernig stjórnendur stofnunarinnar kjósa að haga störfum hennar. 

Í núgildandi lögum um fiskeldi er til dæmis kveðið skýrt á um að Matvælastofnun er heimilt að afturkalla rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi „þegar eldisfiskur sleppur ítrekað frá fiskeldisstöð“ (sjá 16. gr. Afturköllun rekstrarleyfis}.

Af einhverjum sökum hafa stjórnendur MAST ekki nýtt þessa heimild stofnunarinnar. Hafa þó eldislaxar sloppið ítrekað úr sjókvíum við landið. 

Óumdeilt er að erfðablöndun við eldislax skaðar villta laxastofna. Sinnuleysi starfsfólks MAST við að stöðva rekstur sjókvíeldisfyrirtækja sem láta eldisfisk sleppa ítrekað úr sjókvíum hefur nú þegar valdið þeim tjóni sem hafa hlunnindi af sjálfbærum laxveiðum. 

Mikill kostnaður hefur fallið til við að hreinsa, einsog mögulegt var, eldislax sem gekk í ár víða um land í fyrra. Enn er óvíst hversu umfangsmikill skaðinn er af staðfestri erfðablöndun. 

Hlutverk Hafrannsóknastofnunar

Í þessu samhengi þarf ekki aðeins að skoða hlutverk MAST. Ábyrgð Hafrannsóknastofnunar og starfsmanna hennar er einnig mikil. 

Hafrannsóknastofnun hefur það hlutverk að ákveða hversu mikið umfang sjókvíaeldis á laxi við landið á að vera.Með svokölluðu áhættumati erfðablöndunar stofnunarinnar er reynt að meta hversu mörg tonn er leyfilegt að hafa i sjókvíum án þess að villtir nytjastofnar skaðist.

Síðasta áhættumatið var gefið út vorið 2020. Var framleiðsluþakið þá sett við 106.500 tonn. Ljóst er að þetta reiknimódel Hafrannsóknastofnunar er kolfallið. Þó að framleiðslan sé enn vel innan við helmingur af framleiðsluþakinu hefur útbreidd erfðablöndun verið staðfest í villtum laxastofnum Íslands og á síðasta ári var ágengnin (hversu mikið af eldislaxi gengur í veiðiár) langt yfir mörkum matsins. Þetta bendir til að alvarleg mistök hafi verið gerð við útgáfu síðasta áhættumats. 

Sérstakt rannsóknarefni er að skoða hvað brást í þeirri vinnu starfsmanna stofnunarinnar. 

Auðvitað hljóta þær opinberu stofnanir og starfsfólk þeirra, sem eiga lögum samkvæmt að koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna, að bera ábyrgð á þessari stöðu. Og um það þarf að ræða.

Fyrir hönd Íslenska náttúruverndarsjóðsins, sem er sjálfseignarstofnun og er ekki rekinn í ágóðaskyni (non-profit). Sjóðurinn aflar sér fjármuna til verkefna sinna með frjálsum framlögum frá tugum einstaklinga og fyrirtækja.

Jón Kaldal

Arctic Fish: myndavélar meta eldisfisk í kvíum

Myndirnar eru af fiskum sem eru í Haukadalsbót í Dýrafirði og teknar voru á síðasta sólahring. Fiskurinn í þessari kví er að meðaltali 2570 grömm. 99,5% er án sára og hann óx um 18 g að meðaltali síðasta sólahring.

Arctic Fuish hefur tekið í notkun myndavélarnar frá Optoscale sem eru útbúnar gervigreind til að meta fiskinn í kvíunum. Vélarnar taka þúsundir mynda á sólahring og þannig er hægt að fylgjast með í hverri kví þar sem vélarnar eru vöxt og heilsufar fiska.

Greint er frá þessu á facebook síðu fyrirtækisins. Til dæmis sýnir kerfið hversu hve mikil meðalvöxtur er á sólahring í grömmum. Einnig hvort sár séu á fiskinum og hvort þau eru að gróa eða aukast. Upplýsingar fást um þyngd fiskskins og frávik þyngdar, t.d ef meðalþyngdin er 3 kg. sést hversu hátt hlutfall fiskanna er 1-2 kg, 2-3 kg, 3-4 kg, 4-5 kg og svo framvegis.

Einnig telur myndavélakerfið lýs og greinir þroskastig og tegund lúsarinnar. Með innleiðingu á þessum vélum fæst enn betri yfirsýn yfir það sem gerist undir sjávarmáli á eldisstöðvunum. Einnig er í þróun greiningartól sem metur kynþroskastig fisksins.

„Við erum alltaf að leita leiða til að gera betur og þetta er sannalega eitt af þeim tækjum sem aðstoðar okkur í því“ segir í rilkynningunni.

Myndirnar hér að neðan eru af fiskum sem eru á Haukadalsbót í Dýrafirði og teknar voru á síðasta sólahring. Fiskurinn í þessari kví er að meðaltali 2570 grömm. 99,5% er án sára og hann óx um 18 g að meðaltali síðasta sólahring.

Kaupmannssonur sem varð klerkur

Örn Bárður Jónsson sem er kaupmannssonur frá Ísafirði en gerðist þjónn kirkjunnar ræðir um lífið og tilveruna á samkomu í Ísafjarðakirkju í kvöld miðvikukudaginn 24. júlí kl. 20:00.

Hann segir frá bernsku sinni og uppvexti á Ísafirði á árunum eftir miðja síðustu öld.

Hann ræðir einnig kenningar geðlæknisins, Iain McGilchrist, um heilahvelin tvö og hvernig þau virka í okkur.

Einig ræðir hann gildagrunn vestrænna þjóða, heimsmálin og trúna í heimi framfara eða eigum við að segja fram-af-fara?


Tónlistarflutningur.
Allir velkomnir.

Alaskalúpína

Alaskalúpína – Ljósm. Erling Ólafsson

Alaskalúpína finnst í öllum landshlutum og hefur náð sér víða á strik í kringum þéttbýli. Lúpínan setur oftar en ekki mikinn svip á landslag og gróður og verður gjarnan ríkjandi tegund í gróðurfari.

Alaskalúpína vex villt í Norður‐Ameríku og er talin hafa verið flutt hingað til lands árið 1895 sem garðaplanta.

Um miðbik síðustu aldar flutti Hákon Bjarnarson fyrrum skógræktarstjóri hingað til lands fræ og rætur af tegundinni frá Alaska og var þá byrjað að nýta hana til landgræðslu. Lengi vel var útbreiðsla tegundarinnar takmörkuð en einkum eftir 1990 jókst útbreiðslan og er alaskalúpína nú útbreidd um land allt. Þessar breytingar má rekja til ýmissa breytinga svo sem minni sauðfjárbeitar eftir 1980 og aukinnar notkunar alaskalúpinu til landgræðslu og skógræktar. Tegundin er nú við allmarga þéttbýlisstaði og á skógræktar- og landgræðslusvæðum en einnig þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Alaskalúpína hefur víða breiðst inn á hálf- eða vel gróið land og finnst einnig til fjalla og inni á hálendinu.

Tegundin er stórvaxin og ná stönglar sums staðar ríflega 1,2 m hæð. Fræframleiðsla er mikil og geta fræ lifað í jarðvegi í nokkur ár en einnig eru dæmi um að alaskalúpina fjölgi sér með rótarskotum. Talið er að æviskeið plantna geti verið allt að 30 ár.

Alaskalúpína er af ertublómaætt og getur bundið köfnunarefni (N) úr andrúmslofti sem hún nýtir sér til vaxtar en skilar því einnig til jarðvegsins þegar plöntuhlutar hennar brotna niður og eykur þannig frjósemi jarðvegs.

Þessi eiginleiki gerir henni mögulegt að dafna þar sem jarðvegur er rýr og aðrar plöntutegundir eiga erfitt uppdráttar. Vegna þessara eiginleika er alaskalúpínan öflug landgræðslujurt en á sama tíma er hún ráðandi tegund. Kjörlendi tegundarinnar eru melar, áreyrar og rýrt mólendi.

Af vefsíðunni ni.is

Takmörkun á umferð gangandi við Dynjanda

Loftmyndin sýnir takmörkun á gönguleið neðan rauða striksins

Í tengslum við framkvæmdir við uppsetningu útsýnispalla og lagfæringar á hluta göngustígs við náttúruvættið Dynjanda er ráðgert að þyrluflutningar fari fram í lok yfirstandandi viku.

Samkvæmt veðurspám mun þá opnast samfelldur veðurgluggi í 2-3 daga en undanfarið hefur reynst örðugt að stilla saman slíkum gluggum við önnur verkefni flugmanna.

Ef spár ganga eftir mun flugið hefjast á fimmtudagsmorgunn 25. júlí nk. og gert er ráð fyrir að því verði lokið í síðasta lagi um miðjan laugardag 27. júlí. Flogið verður með efni í um 240 ferðum frá Dynjandisheiði að fossaröðinni í Dynjandisá.

Til að tryggja öryggi gesta hins friðlýsta svæðis verður gönguleið meðfram Dynjandisá lokuð ofan Göngumannafoss (við útsýnispall 2) á meðan á fluginu stendur.

Annað aðgengi að svæðinu verður að mestu óbreytt, þ.m.t. aðgengi að bílastæðum, salernum og áningarsvæði á flötinni neðan fossanna.

Almyrkvi á sólu 2026 – Vesturbyggð skipar starfshóp

Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sjáan­legur á Íslandi í fyrsta skipti frá 1954. Almyrkvinn mun sjást lengst frá Látra­bjargi, í tvær mínútur og 13 sekúndur.

Búast má við talsverðum fjölda gesta í Vesturbyggð, sérstaklega á Látrabjarg, að því tilefni. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 9. júlí síðastliðinn að skipa starfshóp um undirbúning vegna sólmyrkvans. Starfshópinn skipa:

  • Páll Vilhjálmsson – formaður bæjarráðs
  • Tryggvi B. Baldursson – formaður skipulags- og framkvæmdaráðs
  • Freyja Pedersen – formaður umhverfis og loftlagsráðs
  • Elín Eyjólfsdóttir – formaður heimastjórnar fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
  • Edda Kristín Eiríksdóttir – heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
  • Maggý Hjördís Keransdóttir – fulltrúi bæjarstjórnar í heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps

Almyrkvi á sólu er þegar tunglið gengur milli sólarinnar og jarðar og skyggir á sólu að fullu, þannig að dagsbirtan hverfur tímabundið. Almyrkvi er aðeins þegar 100% sólar er myrkvuð. Erfitt er að lýsa hughrifunum og upplifuninni af þessu stórkostlega náttúruundri. Nánari upplýsingar um allt sem viðkemur sólmyrkvanum má lesa á heimasíðunni solmyrkvi2026.is.

Hærra brautskráningarhlutfall í framhaldsskólum

Rúm 64% nýnema á framhaldsskólastigi árið 2018 höfðu útskrifast árið 2022 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Brautskráningarhlutfallið, þ.e. hlutfall nýnema sem hefur útskrifast, hefur ekki mælst hærra í tölum Hagstofunnar sem ná aftur til nýnema ársins 1995.

Brotthvarf úr námi hefur verið nálægt 20% síðustu þrjú ár en 20,3% nýnema haustið 2018 höfðu hætt námi fjórum árum síðar. Rúmlega 15% nýnema haustsins 2018 voru enn í námi án þess að hafa útskrifast fjórum árum síðar og hefur það hlutfall ekki verið lægra.


Brautskráningarhlutfall var hæst á meðal nemenda sem fæddir eru erlendis og eiga foreldra sem báðir eru fæddir á Íslandi en rúm 80% þeirra sem hófu nám haustið 2018 höfðu útskrifast árið 2022.

Alls höfðu 67% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn útskrifast og rúm 64% þeirra sem fæddust erlendis og eiga eitt foreldri sem fætt er erlendis. Þá höfðu tæp 61% þeirra sem eru fæddir á Íslandi en eiga foreldra sem báðir eru fæddir erlendis útskrifast og 57% þeirra sem fæddust á Íslandi og eiga eitt foreldri fætt erlendis.

Lægst var brautskráningarhlutfallið á meðal innflytjenda, þ.e. þeirra sem fæddust erlendis og eiga báða foreldra fædda erlendis, en tæplega 41% þeirra höfðu útskrifast fjórum árum eftir upphaf náms. Brautskráningarhlutfall hefur farið hækkandi á meðal innflytjenda en það er enn mun lægra en á meðal nýnema með íslenskan bakgrunn.

707 m.kr. til tónlistarnáms og jöfnunar aðstöðu

Á Ísafirði er öflugur tónlistarskóli. Mynd: Tónís.

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra hefur staðfest tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að úthlutun framlaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda skólaárið 2024-2025.

Úthlutunin, sem nemur 707,1 milljónum króna, fer fram á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglna um framlög vegna hljóðfæranáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi.

Ekki kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins skiptingin á framlögunum milli eflingu tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðu nemenda en helmingur fjárins 355 m.kr. rennur til Reykjavíkurborgar og aðrar 148 m.kr. til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Utan höfuðborgarsvæðsins fer mest til Akureyrar eða 85 m.kr. Næst koma Árborg og Akranes með 11 m.kr. hvort sveitarfélag.

Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fá úthlutun. Ísafjarðarbæ fær 9 m.kr. vegna 9 nemenda og Bolungavíkurkaupstað er ætlað 266 þúsund krónur, tæplega þó.

Nýjustu fréttir