Vegagerðin hefur gengið frá samningi við Vestfjarðaleið á Ísafirði um þjónustu við flugfarþega. Flugrútan mun vera áfram næsta árið. Sóphus Magnússon, eigandi Vestfjarðaleiðar sagði í samtali við Bæjarins besta að í samningnum fælist að rútan gengur þegar áætlunarflug er til Ísafjarðar og er milli Bolungavíkur og flugvallarins með viðkomu á Ísafirði. Greitt er fyrir hvert flug en þegar flug fellur niður er engin greiðsla. Sophus sagði að auk þess að flytja farþega til og frá flugi þá séu vörur sóttar í flug eða farið með þær í flug og bæði farþegar og vörur séu fluttar heim.
Frá Vegagerðinni fengust þær upplýsingar að verðmæti samningsins væru um það bil 8,4 m.kr. Um tíma í haust var enginn samningur en nýr var gerður í byrjun september.
Hálka og hálkublettir eru víða á fjallvegum á Vestfjörðum segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Það á einnig við Vestfjarðagöngin í Súgandafirði en bifreið fór þar útaf veginum í morgun. Ekki urðu slys á fólki.
Ísfirðingurinn Rúnar Helgi Vignisson hefur sent frá sér bókina Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu
Aðalpersónan í þessari sannsögu er höfundurinn sjálfur á ýmsum þroskastigum.
Í kjölfar #metoo og eigin tilvistarglímu ákvað hann að takast á við kynjaumræðu samtímans. Úr varð þetta rit þar sem hann teflir nýjustu rannsóknum gegn aldagömlu tregðulögmáli í samfélaginu en þó kannski ekki síst í honum sjálfum.
Höfundur gerir hér upp karlmennskuhugmyndir mótunaráranna um leið og hann mátar sjálfsmynd sína við þær áherslur sem nú eru efstar á baugi þegar kemur að karlmönnum, karlmennsku og samskiptum kynjanna.
Heildareignir einstaklinga á Íslandi árið 2023 námu 12.284 milljörðum króna og jukust um 14,5% eða úr 10.728 milljörðum króna árið 2022. Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar.
Sé leiðrétt miðað við verðlag ársins 2023 var aukningin 5,3%. Hlutur fasteigna í heildareignum taldi 9.659 milljarða króna og hækkaði að nafnverði um 15,5% á milli ára.
Heildarskuldir töldu 3.150 milljarða króna árið 2023 en árið 2022 voru skuldir 2.980 milljarðar króna. Er þetta aukning um 5,7% en raunlækkun um 2,8% sé verðlagsleiðrétt.
Meðaltal eigna var 48,4 milljónir króna á framteljanda og miðgildi 9,9 milljónir á meðan meðalskuldir töldu 12,4 milljónir króna og miðgildi var 600 þúsund krónur. Eigið fé jókst úr 7.748 milljörðum árið 2022 í 9.134 milljarða árið 2023 en aukning skýrist á aukinni hækkun eigna umfram skulda.
Eignir teljast sem allar eignir fjölskyldu, þ.m.t. fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. Verðmæti fasteigna miðast við fasteignamat og hlutabréf eru á nafnvirði.
Mjólkurfernurnar frá Örnu hafa nú fengið nýtt útlit en fernurnar hafa haldið sama útliti frá árinu 2016. Innblásturinn af útliti fernanna er Bolungarvík og fjöllin þar
Á nýmjólkinni er teikning af Óshyrnu, en Óshyrnan stendur í mynni Bolungarvíkur við Ísafjarðardjúp.
Á léttmjólkinni er teikning af Óshlíðinni, veginum sem liggur á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og var lengi vel eina akstursleiðin til Bolungarvíkur, eða þar til Bolungarvíkurgöng leystu veginn af hólmi árið 2010.
Teikningarnar eru eftir listakonuna og leikarann Berglindi Höllu Elíasdóttur, sem er uppalin í Bolungarvík og hefur verið rödd Örnu síðastliðin ár.
Í frétt á vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) er sagt frá því að á meira en 30 áfangastöðum ferðamanna víða um land eru að jafnaði rukkaðar 1.000 kr. fyrir að leggja bíl.
Ef ekki er gengið frá greiðslu samdægurs fær bíleigandinn senda kröfu um 4.500 kr. vangreiðslugjald til viðbótar. Á flestum þessara staða er nýlega byrjað að rukka fyrir bílastæði sem áður voru gjaldfrjáls, án þess að nokkuð hafi breyst sem útskýrir eða réttlætir gjaldtökuna.
FÍB hefur fengið fjölmargar kvartanir vegna bílastæðainnheimtunnar. Kvartað er undan þeim skamma tíma sem ferðarfólki er gefinn til að greiða fyrir bílastæði, ruglingshættu milli bílastæða, einokun á greiðsluleiðum og óútskýrðum háum vangreiðslukröfum.
Kvartað er undan því að á óskipulögðum malarstæðum er sama 1.000 kr. gjald tekið og á þeim örfáu bílastæðum sem eru til fyrirmyndar og bjóða upp á salernisaðstöðu.
Að mati FÍB er gjaldtaka á bílastæðum á ferðamannastöðum gengin út í öfgar, ekki síst með háum vangreiðslugjöldum. Tala má um rányrkju í ljósi þessara ósanngjörnu viðskiptahátta.
Þarna eru lóðarhafar, landeigendur og bílastæðafyrirtæki að fénýta sér aðkomu að náttúrperlum. Einatt er fullyrt að fjármunirnir fari í uppbyggingu aðstöðu. Svo virðist vera í einstaka tilfellum, en víðast hvar er meint uppbygging í engu samræmi við gjaldtökuna.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps ákvað á síðasta fundi sínum breytingar á starfsemi mötuneytis. Miðlægt mötuneyti verður lagt niður og þess í stað verða tvö sjálfstætt starfandi mötuneyti sett á laggirnar. Hjúkrunarheimilið mun reka eigið mötuneyti með matráð sem sinnir innkaupum, skipuleggur matseðla og sér um allt almennt skipulag mötuneytisins. Leikskóli og skóli mun sömuleiðis reka eigið mötuneyti, ráða til sín matráð sem gegnir sambærilegu starfi og matráður hjúkrunarheimilis.
Sveitarstjórnin segir í bókun að með þessari breytingu á skipulagi mötuneytis skapist skýrari grundvöllur fyrir skilgreiningu starfa og hægt verði að mæta þörfum beggja stofnannna með betri hætti og sú þjónusta sem mötuneytin eiga að veita verði tryggð frekar.
Tildrög málsins eru að Reykhólahreppur óskaði eftir aðstoð Attentus- mannauður og ráðgjöf ehf., vegna samskiptavanda á milli Mötuneytis Reykhólahrepps og þeirra stofnana sem mötuneytið þjónustar. Attentus framkvæmdi úttekt á starfsemi og samskiptum með því að taka viðtöl við starfsfólk mötuneytisins og stjórnendur sem nýta sér þjónustu þess. Í kjölfarið fór fram greining á starfsemi og lagðar voru fram tvær tillögur til úrbóta og aukinnar skilvirkni í rekstri. Tillaga tvö er nánar skýrð og útfærð í minnisblaði dags. 10. september 2024 sem Attentus tók saman fyrir fund sveitarstjórnar.
Framkvæmdaráð Earth check umhverfisvottunarinnar, sem skipað er fulltrúum allar sveitarfélaganna á Vestfjörðum samþykkti í vor að hætta þáttöku í EarthCheck kerfinu og skoða aðra valkosti fyrir fjórðungsþing haustið 2024.
Ráðið segir að EarthCheck kerfið hafi aldrei virkað sem stjórntæki sveitarfélaganna í ákvarðanatöku sinni og því aldrei virkað sem umhverfisstjórnunarkerfi eins og því var ætlað.
Mikil gerjun sé í umhverfismálum hjá sveitarfélögum á Íslandi og á Vestfjörðum sem endurspeglast í gerð svæðisáætlunar um úrgang og gerð loftslags- og orkuskiptaáætlana (loftlagsstefna). Þessi gerjun bjóði upp á ný tækfæri í rafrænu grænu bókhaldi og öðrum tækjum til umhverfisstjórnunar sem mögulegt væri að innleiða einfaldari og áhrifaríkari hátt en EarthCheck.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga samþykkti að taka undir tillögu framkvæmdaráðs Earth Check og fól starfsmönnum og framkvæmdaráði að hefja undirbúning að nýju umhverfisstjórnunarkerfi í samráði við sveitarfélögin á Vestfjörðum.
Sveitarfélögin hafa síðan verið að taka þessar tillögur fyrir. Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að hætta í verkefninu Earth Check.
Fjórtán alþingismenn hafa lagt fram tillögu til þingsályktunar um ný jarðgöng á Tröllaskaga milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Vilja flutningsmenn láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Tillagan er lögð fram í þriðja sinni. Með Tröllaskagagöngum er einkum rætt um tvo valkosti, segir í greinargerð með tillögunni, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng, fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði.
Flutningsmenn vilja að hratt verði unnið og að ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. febrúar 2025.
Í rökstuðningi segir að jarðgöng á Tröllaskaga séu enn meðal helstu áhersluverkefna samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í samgöngumálum og vísað til þess fjallvegurinn um Öxnadalsheiði getur verið verulegur farartálmi yfir vetrarmánuðina. Göngin myndi hafa í för með sér með öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Flutningsmenn telja mjög mikilvægt að göng um Öxnadalsheiði fari ofar á forgangslista samgönguáætlunarinnar því „göng undir Tröllaskaga myndu fela í sér gríðarlega samgöngubót fyrir íbúa Norðurlands og aðra sem þar fara um.“
Í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar um jarðgöng eru þrenn göng á Tröllaskaga: Siglufjarðarskarðsgöng milli Siglufjarðar og Fljóta, ný Múlagöng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og svo Öxnadalsheiðargöng.
Í umsögn Vegagerðarinnar um tillöguna frá 2020, þegar málið fyrst var lagt fram, segir að göngin verði um 20 km löng og kostnaður af stærðargráðunni 50 – 70 milljarðar króna.
Bæjarins besta innti nokkra flutningsmenn eftir því hvort Tröllaskagagöng kæmu í stað Öxnadalsheiðarganga eða til viðbótar. Engin þeirra hefur svarað því.
Þá voru þeir inntir eftir því hvar þeir vildu að Öxnadalsheiðargöngin væru á forgangslistanum en þau eru neðst á listanum eða í 10. sæti á lista ríkisstjórnarinnar. Aðeins Halla Signý Kristjánsdóttir (B) hefur svarið þeirri spurningu og segir hún í svarinu að „Það er ekki nein ósk um hversu ofarlega þetta fari á listann, en ljóst er að þessi göng eru ekki í forgangi en verið að vekja athygli á þeim“ að öðru leyti vísaði hún á fyrsta flutningsmann tillögunnar Stefán Vagn Stefánsson.
Björn Leví Gunnarsson (P) segir í sínu svari eftirfarandi:
„Við teljum almennt sé að það sé ekki Alþingi að forgangsraða þessum verkefnum. Það er hlutverk þeirra sem búa á þessum svæðum að setja upp forgangsröðunina en Alþingis að sjá um fjármögnunina. Um leið og Alþingi fer að skipta sér af forgangsröðun sem heimamenn eru almennt sáttir við að þá fer allt í klessu. Þá er verið að beita valdi ofan frá til þess að íhlutast í sátt nærsamfélagsins.“
Tillaga ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í fyrra um jarðgangaáætlun. Ef Öxnadalsheiði verður færð ofar á forgangslistanum blasir við að einhverjir jarðgangakostir á Vestfjörðum verða færðir neðar, örugglega Klettsháls og ef til vill Miklidalur og Hálfdán, kannski fleiri.
Tröllaskagagöng eru ekki á forgangslistanum né á lista yfir göng til síðari skoðunar.
Ladies Circle var stofnað í Englandi árið 1936. Fyrsti LC klúbburinn var í Bournemouth og var hann stofnaður af eiginkonum Round Table manna. Þaðan breiddist félagsskapurinn út til Svíþjóðar og Danmerkur. Í dag eru félögin starfandi í 40 löndum og félagskonur um 13.000.
Ladies Circle Ísland (LC 1) var stofnað 28. apríl 1988 á Akureyri. Í framhaldinu voru stofnaðir tveir klúbbar í Reykjavík, LC 2 árið 1990 og LC 3 1994 og þá var fyrsta landsstjórn LCÍ mynduð 8. júní 1994. Á norðanverðum Vestfjörðum var stofnað félag sem var nr 17 í röðinni og því heitir það Ladies circle 17. Formaður þess er Vigdís Pála Halldórsdóttir.
Það var Petra Rut Jónsdóttir sem sá um kynninguna í Edinborgarhúsinu. Hún sagði að nú væri 23 félög á Íslandi og í LC 17 væru 15 konur. Vetrarstarfið er að byrja og verður kynningarfundur á morgun, miðvikudag kl 20 á Ísafirði og þær konur sem hafa áhuga geta sent skilaboð á netfangið lc17iceland@gmail.com.
Á heimasíðu samtakanna er að finna frekari upplýsingar um starfið www.ladiescircle.is