Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 32

Póstnúmer

Póstnúmer hafa í raun þann eina tilgang samkvæmt lögum um póstþjónustu, að veita starfsfólki og flokkunarvélum upplýsingar um hvert eigi að senda viðkomandi póstsendingu þannig að henni verði dreift til rétts viðtakanda. Hlutverk póstnúmera er því aðeins að styðja við skilvirka dreifingu póstsendinga. 

Hins vegar hafa, fyrirtæki og yfirvöld, í gegnum tíðina notað  póstnúmer í öðrum tilgangi, t.d. til ýmiss konar flokkunar varðandi réttindi og skyldur borgaranna. Sérhver önnur notkun á póstnúmerum er á ábyrgð þess aðila sem notar póstnúmer til einhvers konar aðgreiningar í sinni þjónustu.  

Samkvæmt 15. gr. laga um póstþjónustu er það Byggðastofnun sem ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá. Samkvæmt skilgreiningu á póstnúmeri og ákvæði laganna er tilgangur póstnúmers eingöngu til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og þar með auðvelda dreifingu á póstsendingum.  

Við breytingar á póstnúmerakerfinu er kveðið á um að Byggðastofnun skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð er jafnframt vikið að því að Byggðastofnun sé heimilt að hafa samráð við aðra hagsmunaaðila.  

Að mati Byggðastofnunar er nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé þegar um póstnúmer er að ræða og að þeim sé ekki breytt nema að vandlega athuguðu máli og í sátt við þá póstrekendur sem nota póstnúmer til að auðvelda flokkun og dreifingu póstsendinga.  

Einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta gert kröfu um að póstnúmerum og/eða landfræðilegri þekju verði breytt. Tillögum að breytingum skal fylgja rökstuðningur. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á póstfangaskránni verða að öðru jöfnu miðaðar við áramót. 

 

Þorbjörn tekur við af Örnu Láru í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Sex efstu frambjóðendur á Í-listanum árið 2022. Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir fyrir aftan og Gylfi Ólafsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Magnús Einar Magnússon og Þorbjörn Halldór Jóhannesson fyrir framan.

Þorbjörn Halldór Jóhannesson hefur tekið sæti Örnu Láru Jónsdóttur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar en Arna Lára tók nýverið sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag tillögu bæjarstjóra um að veita Örnu Láru lausn frá störfum sínum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hennar eigin ósk, til loka kjörtímabils.

Arna Lára tók fyrst sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann þann 15. júní árið 2006 og hefur verið bæjarfulltrúi allar götur síðan. Í bréfi hennar til bæjarstjórnar segir: 

„Það hefur verið mér sannur heiður að fá að starfa sem bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar í 19 ár að fjölbreyttum verkefnum og vera treyst fyrir mikilvægum störfum fyrir hönd sveitarfélagsins. Ég er þakklát fyrir allt góða samstarfsfólkið sem ég hef fengið að starfa með í gegnum árin og vil þakka fyrir samstarfið af heilum hug.“ segir Arna Lára

Starfshópur skilar áfangaskýrslu

Starfshópur um öryggi ferðamanna skilaði sinni fyrstu áfangaskýrslu til ráðherra í desember síðastliðnum. Starfsemi hans er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar með ferðamálastefnu til 2030. Samkvæmt aðgerð E.7. Bætt öryggi ferðamanna er markmið hennar að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt.

Hlutverk starfshópsins er að koma með tillögur að úrbótum á sviði öryggismála í ferðaþjónustu, tryggja samráð á milli hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnana og atvinnugreinarinnar, auk þess að stuðla að framgangi verkefna sem hafa það að markmiði að bæta öryggi ferðamanna þvert á hið opinbera og atvinnulíf.

Starfshópinn skipa:

  • Dagbjartur Brynjarsson, Ferðamálastofu, formaður.
  • Ágúst Elvar Bjarnason, SAF.
  • Elín Sigurveig Sigurðardóttir, Icelandia, tilnefnd af SAF.
  • Gauti Daðason, innviðaráðuneyti.
  • Guðný Hrafnkelsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Haukur Herbertsson, Mountaineers of Iceland, tilnefndur af SAF.
  • Helga Harðardóttir, heilbrigðisráðuneyti.
  • Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, Vatnajökulsþjóðgarði, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
  • Kjartan Jón Björgvinsson, dómsmálaráðuneyti.

Nýliðar geta fengið aflamark í grásleppu

 Á vef Fiski­stofu hefur verið opnað fyr­ir um­sókn­ir um nýliðakvóta í grá­sleppu.

 Sam­hliða laga­breyt­ing­unni sem fól í sér kvóta­setn­ingu teg­und­ar­inn­ar var álveðið að sá hluti kvót­ans sem hefðbundið fell­ur í hlut rík­is­ins og er ætlað að út­hluta sem byggða- og at­vinnu­kvóta, s.s. 5,3% grá­sleppu­kvót­ans, mun vera ráðstafað sem sér­stök­um nýliðakvóta.

Nýliði er sá sem á skip sem ekki hefur skráða aflahlutdeild og hefur ekki fengið úthlutað aflahlutdeild eða átti rétt á aflahlutdeild í grásleppu vegna fiskveiðiársins 2024/2025. 

Ísafjarðarbær: vill aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiði

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum í morgun um vetrarþjónustu á Dynjandisheiði. Samkvæmt reglum Vegageðainnar er svonefnd C regla í gildi fyrir Dynjandisheiðina og þjónusta er 5 daga vikunnar. Ekki er þjónusta um helgar og hina daga lýkur henni um kl 17:00.

Bókað var á fundinum og óskað eftir því að auka þjónustuna:

Miklar vegabætur hafa orðið á sunnanverðum Vestfjörðum og yfir Dynjandisheiði á síðustu árum. Er nú svo komið að vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu til allra þéttbýlisstaða innan Ísafjarðarbæjar, sérstaklega Þingeyrar og Flateyrar, er talsvert styttri þá leiðina heldur en um Djúp. Ekki er vetrarþjónusta á nýjum vegi yfir Dynjandisheiði eftir klukkan 5 á virkum dögum eða um helgar. Þá hefur borið á því að heiðinni sé lokað fljótt þegar veður breytast. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar beinir því til samgönguyfirvalda að gera bragarbót á þessu svo fjárfestingin nýtist betur.

Fasteignasala Vestfjarða flutt í Stjórnsýsluhúsið

Guðmundur Óli Tryggvason tók á móti gestum.

Fasteignasala Vestfjarða flutti á föstudaginn sig um set á Ísafirði. Fasteigansalan flutti sig úr húsnæði Landsbankans að Hafnarstæti 1 yfir í Stjórnsýsluhúsið. Fasteignasala Vestfjarða var stofnuð árið 2006, en áður hafði Lögfræðistofa Tryggva Guðmundssonar sinnt fasteignasölu á Vestfjörðum frá árinu 1976.

Segja má að Fasteignasalan sé komin að nýju á gamlan stað en fyrir 19 árum flutti hún úr stjórnsýsluhúsinu. Fasteignasalan verður á 3. hæðinni þar sem áður var lögreglustjórinn á Vestfjörðum. Það embætti hefur flutt sig niður á fyrstu hæðina og skrifstofur lögreglustjórans eru nú þar sem áðu var Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Guðmundur Óli Tryggvason, framkvæmdastjóri Fasteignasölunnar tók á móti gestum og gangandi á föstudaginn og bauð upp á veitingar til að fagna þessum áfanga.

Guðmundur Óli Tryggvason og gestir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Heimastjórn Patreksfjarðar: gerir alvarlega athugasemd við að auglýsa ekki stöðu hjá Vestfjarðastofu

Heimastjórn Patreksfjarðar gerir alvarlega athugasemd við þá ákvörðun Vestfjarðastofu að auglýsa ekki stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum lausa til umsóknar og beinir því til stjórnar Vestfjarðastofu að tryggt verði að öll störf Vestfjarðastofu séu auglýst, hvort sem um er að ræða störf sem eru staðbundin eða óháð staðsetningu.

Heimastjórnin sendi fyrirspurn til stjórnar Vestfjarðastofu um mögulegar breytingar á stöðugildum hjá Vestfjarðastofu og hvort stæði til að auglýsa lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum. Í bókun stjórnar Vestfjarðastofu kemur fram að stjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um að fækka stöðugildum hjá Vestfjarðastofu en fjöldi stöðugilda sé háður verkefnastöðu hverju sinni. Fjöldi starfsmanna á hverri starfstöð geti einnig verið mismunandi. Þó sé stefnt að því að ekki séu færri en tveir verkefnastjórar
starfandi á sunnanverðum Vestfjörðum og tveir á Ströndum/Reykhólum hverju sinni.

Að fengnum svörum stjórnar Vestfjarðastofu bókaði heimastjórn Patreksfjarðar að með vísan til svarsins standi ekki til að auglýsa til umsóknar lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum og gerir alvalega athugasemdir við það.

Hins vegar er því fagnað því að gengið hafi verið frá ráðningu verkefnastjóra farsældar og ítrekað mikilvægi þess að ávallt sé tryggt að tveir starfsmenn Vestfjarðastofu séu jafnan á hverju svæði innan starfssvæðis Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu.

Þungatakmörkun í dag við 10 tonna ásþunga

Vetrarveður á Kletthálsi. Nú er hiti yfir frostmarki og hálkublettir.

Vegagerðin hefur tilkynnt að í dag kl 14 taki gildi takmörkun á ásþunga við 10 tonn vegna hættu á slitlagsskemmdum.

Á Vestfjörðum gildir takmökunin á eftirfarandi vegum:

Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni, að Djúpvegi 61 í Skutulsfirði

Djúpvegi 61 frá Vestfjarðavegi 60 í Króksfirði til Súðavíkur.

Þingeyrarvegi 622

Flateyrarvegi 64

Súgandafjarðarvegi 65

Barðastrandarvegi 62

Bíldudalsvegi 63

Tálknafjarðarvegi 617

Laxárdalsvegi 59

Innstrandavegi 68

Uppfært kl 10:31. Vegagerðin hefur bætt við að frá kl 16 gildi þungatakmörkunin einnig á Djúpvegi 61 frá Súðavík að Flugvallarvegi 631 Skutulsfirði.

Uppfært kl 17:00. Bætt hefur við ásþungatakmörkun frá kl 16 á þessum vegum:

Reykhólasveitarvegi 607.

Strandavegi 643 frá Djúpvegi 61 og um 645 að Drangsnesi.

Ísafjarðarbær: frestað að afgreiða reglur um byggðakvóta

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrir bæjastjórn Ísafjarðarbæjar var lögð í síðustu viku sú tillaga að reglur um úthlutun byggðakóta verði óbreyttar frá síðasta ári. Um er að ræða 947 tonna þorskígildiskvóta auk 169 tonn sem ónotuð voru frá fyrra ári sem skiptast á fjögur byggðarlög innan sveitarfélagsins, Ísafjörð, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Að þessu sinni kemur enginn byggðakvóti í hlut Hnífsdals.

Ágreiningur kom fram í bæjarstjórninni varðandi skilmála úthlutunarinnar. Lagt var til að sem fyrr væri nægjanlegt að landa byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins en Kristján Þór Kristjánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins bar fram breytingartillögu á þann veg að byggðakvótann yrði að nýta til vinnslu í sama byggðarlagi og kvótinn væri merktur, en ekki einhvers staðar innan sveitarfélagsins.

Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður, ritaði grein á Bæjarins besta í síðustu viku og segir þar að nokkur störf hjá Walvis Ehf sem séð hefur um löndun og slægingu á Flateyri hafi tapast vegna hráefnisskorts. Byggðakvóti Flateyrar hefur verið úthlutað til Íslandssögu ehf á Suðureyri. Gísli Jón segir að nú sé engin starfandi fiskvinnsla á Flateyri og engin löndunar þjónusta og að þessar sérreglur valdi því.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frestaði afgreiðslu reglanna um byggðakvóta til næsta fundar.

 

Þorskur og þjóðarhagur

Í kjölfar stefnu nýrrar ríkisstjórnar um aukningu strandveiða og aukna skattlagningu á sjávarútveg er umræða um greinina að manni finnst hrokkin talsvert aftur í tímann.  Lítill skilningur virðist vera á því hvað starfsemi greinarinnar skilar til þjóðarinnar og meðan önnur höndin vill rukka meira fyrir minnkandi sneið af kökunni gefur hin aðra stækkandi sneið með sanngirnisrökin að vopni.  Grunlaus hélt maður að meiri skilningur og þar með sátt væri sífellt að skapast um þennan grunnatvinnuveg og þau skilyrði sem hann þarf að búa við.  Það er talsvert áhyggjuefni ef skortir á skilning á mikilvægi stöðugleika í sjávarútvegi hjá stjórnvöldum.

Ýmsir eru til þess að leggja orð í belg, ekki laust við að gert sé lítið úr mikilvægi öflugustu fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi.  Gert lítið úr mikilvægi þeirra heilsársstarfa sem þar eru, unnin af fólki  með áratugalanga reynslu og/eða sértæka menntun ekki einungis varðandi veiðar, heldur einnig við úrvinnslu, markaðssetningu og nýsköpun.   Af umræðunni má ætla að fyrirtækin hafi fengið allt upp í hendurnar og eins og ekkert mál sé að stokka spilin og gefa að nýju.  Raunveruleikinn er sá að arðsemi í sjávarútvegi hefur skapast að hluta til með því stjórnkerfi sem hefur verið við líði og þróast undangengina áratugi, vegna samþjöppun veiðiheimilda og ekki síst framsýni eiganda og drifkrafts starfsfólks fyrirtækjanna.

Það er ekki síður áhyggjuefni ef skilning skortir á stöðu ýmissa smærri byggðalaga.  Myndin af einyrkjanum á smábátnum getur verið nógu rómantísk, en ábyrg stjórnvöld geta ekki horft fram hjá skaðanum sem hlýst ef standa á við kosningaloforð Flokks fólksins.  Loforð um að auka við strandveiðar án þess að koma fram með nein haldbær rök eða skoða áhrif þess á aðra sem í sjávarútvegi starfa.  Nú er ljóst að þessa aukningu á að sækja á kostnað annarra úrræða innan 5,3% kerfisins samkvæmt viðtali við forsætisráðherra í Kastljósi.  Gera þarf kröfu til stjórnvalda að það sé markviss byggðastefna í gangi og rýnt í hvaða aðgerðir henti á hvaða stað sem raunverulega munar um fyrir byggðalög í mestum vanda.

Í þessari grein vil ég í fyrstu aðeins koma inn á þróun í tíð kvótakerfis, þar sem sífellt er sótt að þeim fyrirtækjum sem eru hryggjastykkið í íslenskum sjávarútvegi og forsenda fyrir nýtingu auðlindarinnar með þjóðhagslega hagkvæmum hætti.  Ég er ekki viss um að almennt átti fólk sig á hve það hefur verið umfangsmikil skerðing.  Hins vegar langar mig að tjá mig um skynsamlega ráðstöfun þeirra aflaheimilda sem ákveðið er að taka til úthlutunar í byggðasjónarmiði.

Kvótakerfi í 40 ár

Frá því að takmörkun á veiðum var tekin upp með aflamarki árið 1983 og þá horft til veiðireynslu skipa áranna á undan, hefur margt breyst.  Meðal annars stóð smábátaflotinn utan takmarkana um tíma og stækkaði og jók sína hlutdeild umtalsvert eftir að veiðar voru kvótasettar hjá stærri skipum.  Árið 1983 var hlutdeild smábáta í þorskafla rúm 2% en er í dag um 23 % í öllum kerfum, þ.e. aflamarki, krókaaflamarki og strandveiðum.  Flestir smábátar eru innan krókaaflamarkskerfis og sú aflahlutdeild er varin framsali til stærri skipa þar sem ekki er hægt að flytja þær varanlega yfir í aflamarkskerfi, en aftur á móti eru engar takmarkanir á því að kaupa aflahlutdeild í aflamarkskerfinu og flytja í krókaaflamarkskerfið.  Hlutdeild togara og stærri aflamarksskipa í heildarafla þorsks hefur því minnkað mjög mikið í tíð kvótakerfis og útgerðarfyrirtæki hafa þurft að kaupa til sín aflaheimildir í því skyni að ná fram hagræðingu í veiðum.  Nú eiga sömu fyrirtæki að fá á sig aukna skattheimtu vegna þeirrar arðsemi sem þau hafa skapað með fjárfestingum og hagræðingu.

Byggðaþróun og sjávarútvegur

Með framsali hefur vissulega orðið tilfærsla á aflaheimildum milli byggðarlaga.  Framsalið hefur reynst nauðsynlegt til að ná fram hagkvæmari rekstri í sjávarútvegi en áður var.  Það að smærri byggðalög hafi orðið undir í samkeppni í búsetuvali fólks er þó ekki vegna tilfærslu á aflaheimildum.  Þjóðfélagið hefur breyst og sú þróun að vinnsla í fiski var haldið uppi af farandverkafólki, fyrst íslendingum í verbúðum og síðar erlendu vinnuafli, er vel þekkt.  Mönnun á minni stöðum var því og hefur verið vandamál.  Það að ýmis byggðalög á landsbyggðinni hafi verið með viðvarandi fækkun íbúa um langan tíma er ekki hægt að beintengja við uppbyggingu fiskveiðistjórnunarkerfis eða samþjöppun veiðiheimilda.  Þar koma margir aðrir hlutir til.  Það er fjarstæða að halda að viðsnúningur á þessari þróun náist með tilkomu farandsjómanna í verbúð yfir sumartímann, með enga skuldbindingu við þau byggðalög sem þeir gera út frá.

Kvóti í byggðarsjónarmiði

En er rétt að nýta aflaheimildir í byggðaaðgerðir ?  Ég hugsa að flestir séu nú sáttir við það að einhverju marki og stjórnvöld hafa í talsverðum mæli nýtt sér fiskveiðiheimildir til stuðnings við landsbyggðirnar.  Það er samt vandmeðfarið hvernig það er útfært og spurning hvort slíkt ætti ekki frekar að vera tímabundnar aðgerðir fremur en að festa ákveðna aflahlutdeild til framtíðar í þessu skyni.  Það virðist vera auðveld leið fyrir stjórnmálamenn að nýta þetta til að setja dúsu upp í háværar raddir eða með loforðum í atkvæðakaupum fyrir kosningar, algjörlega órökstutt.  En berum þá saman þær leiðir innan 5.3% pottsins sem ætlaður er í stuðningsaðgerðir.  Ég sleppi hér umfjöllun um skel- og rækjubætur og línuívilnun, en langar aðeins að bregða ljósi á mismunandi útdeilingu í gegnum samninga Byggðastofnunar á sértæku aflamarki, almennum byggðakvóta og síðan strandveiðum.

Sértækar aflaheimildir:  Með samningum Byggðastofnunar eru gerðir samningar til nokkurra ára um aflamark.  Gerð er krafa um vinnsluskyldu innan atvinnusóknarsvæðis og því hefur oftar en ekki þurft að stofna nýjar fiskvinnslur þar sem samningar eru gerðir.  Þetta úrræði er ætlað í ákveðinn tíma í byggðalögum sem orðið hafa fyrir áfalli í atvinnulegu tilliti og áætlun sett upp um sköpun starfa.  Það er það úrræði sem mér finnst markvissast af þessu þrennu og líklegast að skila af sér mestum ávinningi fyrir viðkomandi byggðarlög.  Hægt er að gera áætlanir og taka ákvarðanir út frá magni, tímalengd og markmiðum sem bundin eru í samningi.  Vanda þarf vel til þess að velja byggðalög þar sem þetta úrræði er talið að geti gagnast, en jafnframt þarf að vera til önnur úrræði utan sjávarútvegskerfins til að styðja við byggðalög þar sem þetta ekki hentar.  Það að hverfa frá vinnsluskyldu við úthlutun þessara heimilda, eins og nýlega var gert fyrir útgerðir í Grímsey, er ekki réttlætanlegt.

Almennur byggðakvóti:  Úthlutun almenns byggðakvóta er mun ómarkvissari og nýtist síður sem byggðastuðningur og til sköpunar starfa.  Reglur um skiptingu úthlutunar eru fremur flóknar, í ár úthlutast almennur byggðakvóti til 42 byggðarlaga og er meðalúhlutun um 90 þorskígildi, minnsta magnið er 15 tonn sem fer til 11 byggðarlaga.  Þrátt fyrir vinnsluskyldu er oftar en ekki fallist á undanþágur að ósk sveitarfélaga, enda úthlutun engan vegin nægjanleg til að byggja starfsemi vinnslu á, ef hún er ekki þegar til staðar.

Strandveiðar:  Strandveiðar eru síðan einungis stundaðar að sumarlagi með handfæri.  Landanir eru ekki bundnar ákveðnum byggðalögum, né heldur krafist vinnsluskyldu sem myndi vera til þess fallið að byggja undir frekari atvinnuuppbyggingu.  Niðurstaðan er líka sú ef rýnt er í útflutningstölur þessa mánuði sem strandveiðar standa að hærra hlutfall þorskafla fer þá óunnin (heill og hausaður) úr landi en aðra mánuði ársins.  Nær eingöngu er um þorskafla að ræða og auðvitað þar tekið af öðrum og nýting ýmissa annarra botnfisktegunda þannig gerð erfiðari.  Strandveiðar einar og sér eru ekki til þess fallnar að styðja við uppbyggingu heilsársstarfa í sjávarútvegi í byggðarlögum sem þurfa stuðning.

Sanngirnisrökin

Forsætisráðherra orðaði það svo að aukning í veiði strandveiðibáta væri sanngirnismál út frá byggðasjónarmiði.  Ekkert er fjær sanni en að þetta sé skynsamleg ráðstöfun innan 5,3% pottsins, öðru nær.  Þetta bitnar ekki síst á smærri útgerðum og vinnslum sem eru þó að skapa heilsársstörf.  Ég vil hér nefna dæmi þar sem ég þekki vel til.

Á síðasta ári var gerður samningur með víðtækri þátttöku útgerðaraðila á Hólmavík við Byggðastofnun um “allt að” 500 tonna árlegt aflamark í þorskígildum talið.  Rétt er að taka fram að þar eru m.a. þátttakendur strandveiðiútgerðir á staðnum og hafa skuldbundið sig til að styðja við það verkefni með löndun á afla til vinnslunnar í staðinn fyrir aflaheimildir eftir að strandveiðum líkur.   Er það vel, en alger undanteking er varðar þessar veiðar.  Vinnsla byrjaði í upphafi júlí 2024 og þegar eru nú 23 aðilar sem starfa í um 20 stöðugildum í Vilja fiskverkun ehf, auk afleiddra starfa við beitingu, sjómennsku, flutninga o.fl.

Hjá aðstandendum fyrirtækisins er fullur skilningur á því að samningur við Byggðastofnun um aflaheimildir er tímabundið úrræði og huga þurfi að því hvernig skjóta megi varanlegum stoðum undir þessi störf þegar samningurinn rennur sitt skeið.   Í vissu um að þetta væri þó að lágmarki 6 ára samningur var lagst í nauðsynlegar fjárfestingar og skuldbindingar.  Þegar í upphafi þessa samnings er niðurstaðan samt sú að stofnunin þurfti að skerða magn niður í 464 tonn í þorskígildum talið fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.  Miðað við áform um auknar strandveiðar (þorskveiðar eingöngu) og yfirlýsingu forsætisráðherra hvaðan eigi að taka þá aukningu, er varla að vænta að staðið verði við samningsmagn af hálfu yfirvalda það sem eftir lifir samnings.  Í raun er ekki við öðru að búast en að samningsforsendur Byggðastofnunar og þessa nýstofnaða fyrirtækis bresti og þau störf sem nýlega hafa verið sköpuð verði fljótt í uppnámi vegna ákvarðana nýrra stjórnvalda.  Er þetta skynsamlegt og sanngjarnt út frá byggðarsjónarmiði ?  Nei, enda skortir alla byggðastefnu frá nýrri ríkisstjórn, bara unnið að því að uppfylla óskynsamleg kosningaloforð í blindni.

Það er ástæða til að hvetja nýja ríkisstjórn til að vanda til verka og skoða allar hliðar málsins áður er endanleg ákvörðun er tekin varðandi aukningu á afla strandveiðibáta.  Ákvörðun sem til þess er fallin að vera bæði greininni í heild íþyngjandi og ekki stuðningur við byggðir sem mest þurfa á viðsnúningi að halda.  Tryggja þarf að þær veiðiheimildir sem veittar eru af “sanngirni í byggðasjónarmiði” nýtist sem best í þeim tilgangi.  Sértækar aflaheimildir Byggðastofnunar til valinna byggðarlaga í tilgreindan tíma er sú leið sem er vænlegust til árangurs í byggðasjónarmiði.  Það er það úrræði sem ætti að verja og styrkja fremur en strandveiðar.

Gunnlaugur Sighvatsson

Sjálfstætt starfandi sjávarútvegsfræðingur

og í stjórn Vilja fiskverkunar ehf.

Nýjustu fréttir