Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 31

FÍ: Grunnavík – Flæðareyri á laugardaginn

2 skór — laugardaginn 27. júlí

Skráning í ferð: ferdafelag.isfirdinga@gmail.com

Fararstjórn: Emil Ingi Emilsson.
Mæting við Sundahöfn á Ísafirði kl. 9:00.

Jökulfjarðaferð sem hefst á siglingu frá Sundahöfn á Ísafirði yfir í Grunnavík og þá vonandi í dásamlegu veðri og því sem næst spegilsléttum sjó. Í Grunnavík verður byggðin skoðuð og svo gengið upp að kirkjunni að Stað í Grunnavík. Frá Staðarkirkju verður gengið eftir vegi sem var lagður á síðustu árum byggðar í hreppnum. Farið verður upp á Staðarheiði eftir veginum og niður hjá Höfðaströnd. Hópurinn gengur svo út að eyðibýlinu Kollsá áður en haldið verður áfram inn að Flæðareyri. Frá mörgu að segja þegar kemur að byggðinni í Grunnavík og á Höfðaströnd. Þátttakendur geta um leið notið útivistar í fagurri náttúru Jökulfjarða. Alls ekki of strembin gönguleið.

Vegalengd: 19 km, áætlaður göngutími: 8-9 klst., hækkun upp í 173 m hæð.

Skógarbændur á Vestfjörðum: breytingar á stjórn

Þetta lerkitré í Skrúð í Dýrafirði var útnefnt tré ársins 1996 hjá Skógræktarfélagi Íslands.

Félag skógarbænda á Vestfjörðum hélt aðalfund sinn í Króksfjarðarnessi í lok júní. Samþykkt var að árgjald haldist óbreytt, 1500 kr. á jörð og 500 kr. á einstakling. Lagður var fram ársreikningur félagsins og voru tekjur 113 þúsund krónur, skuldir engar og eignir inneign í banka 1.012 þúsund krónur.

Breytingar urðu á skipan stjórnar, tveir stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér áfram og voru Lilja Magnúsdóttir og Dagbjartur Bjarnason kosin í þeirra stað. Þriðji stjórnarmaðurinn er Arnlín Óladóttir. Í varastjórn voru kosin áfram Hallfríður F. Sigurðardóttir, Oddný Elínborg Bergsdóttir og Sæmundur Kr. Þorvaldsson.

Fráfarandi stjórnarmenn eru Naomi Bos og Marta Guðrún.

Rætt var um dagskrá árshátíðar og málþings skógræktarbænda sem fara mun fram þann 12. október nk. að Laugum í Sælingsdal. Lagt var til að formenn og eða stjórnarmenn svæðisfélaga skógarbænda kæmu saman með það fyrir augum að sameina krafta skógarbænda og taka ákvörðun um sameiginlega framtíðarsýn. Fleira rætt er varðar samstarf og framtíð félaganna.

Líflegar umræður urðu um skógrækt og sauðfjárbúskap, málefni sem fundarmenn voru sammála að þurfi að finna farsæla lausn á.

Umhverfisstofnun kærir leyfi til laxavinnslu á Vestfjörðum

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Umhverfisstofnun hefur kært til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins starfsleyfi sem Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur gefið út til Drimlu laxasláturhúss í Bolungavík. Telur Umhverfisstofnun að það heyri undir stofnunina að gefa út starfsleyfið vegna umfangs starfseminnar. Telur Umhverfisstofnun að Drimla sé með ógilt starfsleyfi í höndunum.

Þessu er Heilbrigðisnefnd Vestfjarða ósammála. Í Drimlu fari ekki fram meðferð eða vinnsla á fiski. Fiskurinn sé undirbúinn undir flutning, hann kældur, tekið innan úr honum, stærðarflokkaður og ísaður í kassa til flutnings.

Í fundargerð nefndarinnar frá síðustu viku segir að þessi túlkun á lögum 7/1998 sé nýmæli hjá Umhverfisstofnun, því hingað til „hafa allar fiskvinnslur og aðrar ótaldar fiskvinnslur verið undir eftirliti heilbrigðisnefnda og vinna samkvæmt starfsleyfum og skráningum.“

Jafnframt segir í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins til ráðuneytisins vegna kærunnar að heill fiskur ísaður í kassa teljist ekki vera vinnsla. Í skilningi matvælareglugerðar EB sé meðferð og vinnsla þegar verið er að flaka, fletja, salta, reykja, þurrka, frysta o.s.frv., þ.e. búa til eitthvað úr hráefninu sem er heill fiskur.

Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis hefur gefið út tvö starfsleyfi vegna slátrunar og pökkunar á laxi. Annars vegar vegna til Arnarlax ehf á Bíldudal og hinsvegar til Arctic Oddi Drimla í Bolungarvík, bæði með vísan í starfsleyfisskilyrði fyrir fiskvinnslur. Starfsleyfið til Arnarlax var fyrst gefið út 2015 og seinna leyfið í febrúar 2023.

Bæði starfsleyfin fyrir Arnarlax ehf og Drimlu í Bolungarvík voru auglýst á heimasíðu heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og engar athugasemdir bárust.

Lax: hrygningarstofn 20 þúsund – drepnir 16 þúsund laxar í fyrra

Úr skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um veiðina 2023.

Hafrannsóknarstofnun telur að hrygningarstofn villta laxsins við Íslands hafi verið í haust um 20 þúsund laxar að afloknum veiðitíma. Það er einn minnsti hrygn­ing­ar­stofn sem mælst hef­ur og tölu­vert und­ir meðaltali aft­ur til árs­ins 1971, sem er tæplega fjöru­tíu þúsund lax­ar. Stofn­un­in kynnti þetta mat sitt á aðal­fundi Lands­sam­bands veiðifé­laga sem hald­inn var í Húsa­felli síðari hluta apr­íl­mánaðar á þessu ári. Morgunblaðið greindi frá þessu 13. maí sl.

Þrátt fyrir þetta mat stofnunarinnar gerir hún ekki neinar tillögur um veiðar eða veiðiálag.

Í yfirliti yfir lax- og silungsveiði fyrir 2023, sem er að finna á vef Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að alls veiddust 36.538 laxar á síðasta ári. Á stöng veiddust 32.726 og 3.812 voru veiddir í net. Alls var 20.557 löxum sleppt aftur en 15.981 laxar voru skráðir sem afli, þ.e. voru drepnir.

Fjöldi laxa sem sleppt var jafngildir öllum hrygningarstofninum og fjöldinn sem kom á land er jafngildir um 80% af hrygningarstofninum.

Fiskeldi stangveiðimanna skilar 22% laxanna

Athygli vekur að hafbeit, sem er árangur af fiskeldi í tilteknum ám og veiðin byggir á sleppingum gönguseiða, skilar 7.061 lax af alls 32.726 löxum veiddum á stöng. Það gerir um 22% af fjöldanum.

Mismunurinn, sem er 25.665 laxar eru villtir laxar veiddir á stöng.

Ekki eru gefnar frekari upplýsingar um laxanna sem veiddir voru í net annað en að nær allir voru veiddir í Þjórsá, Ölfusá og Hvítá. Ef gert er ráð fyrir að þeir hafi allir verið villtir þá veiddust 29.447 villtir laxar á síðasta ári. Ljóst er að veiði á villtum laxi var rúmlega hrygningarstofninn og jafnvel allt að 150% af stærð stofnsins.

16 þúsund laxar drepnir

Fram kemur einnig í yfirliti Hafrannsóknarstofnunar um veiðina í fyrra að samtals var 15.981 lax drepinn. Það sundurliðast þannig að 7.417 lax eru skráðir villtur lax, 4.752 laxar voru hafbeitarlaxar og svo 3.812 laxar veiddir í net. Að því gefnu að netaveiddu laxarnir hafi verið villtir laxar þá voru 11.229 villtir laxar drepnir sem er um 55% af metinni stærð hrygningarstofnsins.

Met­inn hrygn­ing­ar­stofn villta lax­ins er græna lína. Síðastliðið haust um 20 þúsund fisk­ar. Meðaltal ár­anna er sýnt með brotnu lín­un­um. Bláa lín­an er heild­ar ganga og sú app­el­sínu­gula afli. Línu­rit/​Haf­rann­sókna­stofn­un

Volvo dráttarvél – T 21

Dráttarvélin er árgerð 1949 smíðuð hjá Volvo í Svíþjóð, sem árið eftir gekk til samstarfs við BM (Bolinder-Munktell). Volvo dráttarvélarnar voru fluttar inn á vegum fyrirtækisins Björnsson & Ásgeirsson. Aðeins munu 11 vélar hafa komið til landsins

Vélin kom árið 1949 og varð þá sameign bændanna Björgmunds á Kirkjubóli og Gunnars á Þorfinnsstöðum í Valþjófsdal. Eignuðust þeir vélin í gegnum kynni Gunnars við Ágeirs Guðnason, kaupmanns á Flateyri, en sonur hans, Gunnar, átti þá fyrirtæki með Sveini Björnssyni, Sveinn Björnsson & Ásgeirsson, er m.a. flutti inn Volvó.

Á þessum árum keyptu flestir Farmal og síðar Ferguson, en hins vegar var örðugt með útvegun fjárfestingaleyfis vegna kaupanna. Ásgeir mun hafa átt leyfi og það olli því að svo auðvelt var fyrir Dalsbúa að eiga kaup við hann, og það sparaði þeim stúss við útvegun leyfis. Sláttuvél af gerðinni Westeråsmaskiner kom á traktorinn árið eftir.

Björgmundur mun hafa ekið vélinni þegar hún var flutt út fyrir Ófæru. Farinn var gamli vegurinn, dálítill slóði sem var hið mesta torleiði.

Af sarpur.is

Sögurölt í Saurbæ

Fimmtudaginn 25. júlí kl. 19 verður fjórða sögurölt safnanna í Dölum og á Ströndum, nú í Saurbæ í Dölum. Gengið verður frá Múlarétt að eyðibýlinu Belgsdal og síðan í Kiðhólsrétt.

Til að komast að Múlarétt er keyrt að Staðarhólskirkju og farið fram Staðarhólsdal. Eftir að komið er framhjá Þurranesi er beygt til vinstri að Múlabæjum. Keyrt er framhjá Múlabæjum þar til komið er að Múlarétt. Þar er hægt að leggja bílum, en þó ekki í afleggjarann að túnunum.

Fyrsti hlutinn er eftir vegslóða og nokkur hækkun á þeirri leið. Aðrir hlutar röltsins er nokkuð á jafnsléttu eða niður í móti. Gæta þarf varúðar við rústir í Belgsdal. Valdís Einarsdóttir héraðsskjalavörður og safnstjóri er með leiðsögn og að vanda með aðstoð heimamanna. Röltið með sögum tekur tæpa tvo tíma.

Söguröltin einkennast af því að gönguleiðin er oft stutt og fremur auðveld, en áhersla lögð á sögur og fróðleik. Enginn aðgangseyrir er í söguröltin og eru öll hjartanlega velkomin.

Það eru Byggðasafn Dalamanna, Sauðfjársetur á Ströndum, Héraðsskjalasafn Dalasýslu, Náttúrubarnaskólinn og Þjóðfræðistofa sem standa fyrir söguröltunum

Hvati styrktarsjóður

Hvati er sjóður sem útdeilir styrkjum á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðherra. Sjóðurinn veitir minni styrki til verkefna sem eiga síður möguleika á að sækja í aðra sjóði á vegum ráðuneytisins.

Málefnasvið ráðuneytisins ná meðal annars yfir menningarmál, skapandi greinar, málefni íslenskrar tungu, neytenda- og samkeppnismál, fjölmiðla, almenn viðskiptamál og ferðaþjónustu.

Styrkjum skal úthlutað til ákveðinna verkefna á vegum félaga og samtaka til eins árs í senn. Verkefnin skulu ekki njóta lögbundins stuðnings eða falla undir sjóði eða sérstaka samninga. Þá eru hvorki veittir styrkir til nefndarsetu eða styrkir til BA/BS-, eða meistaraprófsverkefna.

Samkvæmt úthlutunarreglum mun matshópur skipaður af ráðherra meta umsóknir en horft verður til ýmissa þátta við úthlutunina, m.a. hvort verkefnin þyki hafa gildi og mikilvægi fyrir stefnu viðkomandi málaflokks, og hvort markmið og árangursmælikvarðar séu skýrir.

Við síðustu úthlutun fékk Sögusetur íslenska hestsins hæsta styrkinn 3,000,000 kr.

Nánar má lesa um sjóðinn á hér.

Sögusetur íslenska hestsins

Sögusetur íslenska hestsins, sem staðsett er á Hólum í Hjaltadal, opnaði dyr sínar fyrir gestum um miðjan júní síðastliðinn. Setrinu var lokað fyrir um tveimur árum og ráðist í stefnumótunarstarf.

Hægt er að skoða sýningar safnsins fram í miðjan ágúst en opnunartími þess er frá kl. 11-17 alla daga.

Í kynningu Sögusetursins segir að sjá megi þar sýninguna Íslenski hesturinn, þar sem í boði er lifandi leiðsögn.

Um sýninguna segir meðal annars:

„Íslenski hesturinn er talinn að mestu hafa komið með landnámsmönnunum fyrir um 1150 árum síðan. Hann er oftast sagður eiga rætur sínar að rekja til Noregs og alla leið til Mongólíu en þó eru skiptar skoðanir um hvaðan hann kemur, en eðlilegt ber að teljast að hestar fá öðrum svæðum hafi blandast við þá sem komu frá Noregi.

Fyrir tæplega þúsund árum gerist það hins vegar að höfðingjar landsins ákváðu að stöðva allan frekari innflutning á hestum. Þeir sáu ofsjónum yfir að hvaða kotbóndi sem var gæti ræktað upp og eignast afburða góðan reiðhest. Góðir reiðhestar og það að vera þess umkominn að halda mikið stóð hrossa var stöðutákn á þessum tíma og að mati höfðingjanna eingöngu fyrir þá sjálfa. Þannig að þeir einfaldlega ákváðu að ekki skyldi flytja inn fleiri hesta, þeir væru jú orðnir nógu margir í landinu og þeir einfaldlega bönnuðu frekari innflutning.“

Tölum endilega íslensku, takk

Um þessar mundir eiga sér íslenskunámskeið Háskólaseturs Vestfjarða stað á Ísafirði. Námskeið í íslensku sem annað mál eins og gefur að skilja. Árlegur viðburður. Íbúar Ísafjarðar ættu orðið að þekkja það íslenskuþyrsta fólk sem námskeiðin sækir. Fólk sem oft og tíðum auðnast að læra ansi skaplega íslensku á mjög skömmum tíma og leiðir okkur fyrir sjónir að það er ALLS ENGINN ógjörningur að læra málið ef maður fær tækifæri til þess og leggur sig fram. Það tekur samt vissulega tíma og kostar nokkra fyrirhöfn að læra tungumál. Öll tungumál. Það er ekki hrist fram úr erminni. Er ágætt að því sé haldið til haga.

Raunar er eitt námskeið, byrjendanámskeið, þegar um garð gengið. Gekk það með ágætum. Sérstaklega voru nemendurnir, sem komu víðsvegar að, búsettir erlendis sem og á Íslandi, ánægðir með þá staðreynd að hægt var að ganga að íslensku vísri. Meira og minna. Það er nefnilega deginum ljósara að ef ekki gefst tækifæri til að nota það sem maður lærir í kennslustund er til lítils að læra nokkuð hvað tungumál áhrærir. Ísafjörður er nefnilega íslenskuvænn staður. Allavega í samanburði við margan staðinn.

Illu heilli geta nefnilega margir þeir sem læra íslensku sem annað mál, hvort sem þeir búa erlendis eða hérlendis, ekki alltaf gengið að tækifærum til að brúka málið sem vísum. Mismikið er og lagt upp úr því að íslenska sé samskiptamálið enda þarf ákveðna færni (færni sem vissulega má æfa) til að notast við málið undir sem flestum kringumstæðum ef markmiðið er að gera sig skiljanlegan og að stuðla að notkun málsins hjá þeim sem það læra. Oft þarf að leggja sig í líma við að nota málið með öllum tiltækum ráðum (taka ekki auðveldu leiðina, ensku). Þetta er óendanlega mikilvægt þegar kemur að máltileinkun fólks og skapar hvata og setur pressu á fólk að nota málið. Já, það er í lagi að setja pressu, það er í lagi að gera kröfu um íslenskunotkun svo framarlega sem það sé ekki gert með fasistakveðju á lofti heldur brosið að vopni og með það að markmiði að hjálpa fólki að ná tökum á málinu.

Athugum einnig að þetta á ekki síst við þjónustustörf. Það er mjög mikilvægt að þar sé íslenska notuð. Það er ekki endilega mikilvægt fyrir þá sem hafa íslensku að móðurmáli, þótt auðvitað sé það raunalegt þegar íslenska er ekki í boði á veitingahúsum, kaffihúsum eða bakaríum o.s.frv. Móðurmálshafar geta líkast til bjargað sér í þeim efnum. Það er verra fyrir þá sem læra málið því oft og tíðum eru þessir staðir eina tækifæri fólks til að æfa sig í daglegri notkun málsins. Og þegar það tækifæri er ekki til staðar er illt í efni og fer þá lítið fyrir daglegum hvata og málörvun. Tungumál á að lærast í samfélaginu, tólin fá fólk í kennslustund, en æfingin þarf að fara fram úti við.

En hvað um það. Í þessum skrifuðu orðum eru tvö námskeið í gangi, byrjendanámskeið og námskeið fyrir lengra komna. Í næstu viku hefjast tvö námskeið fyrir lengra komna. 12. ágúst byrjar svo byrjendanámskeið sem varir í viku. Mikið í gangi, fullt af íslenskuþyrstu fólki.

Og við hjá Háskólasetri Vestfjarða viljum endilega hvetja ykkur öll til að taka vel á móti því fólki sem hingað er komið til að tileinka sér íslensku. Það gerum við best með því að tala við það íslensku og gera allt sem í okkar valdi stendur til að gera það skilmerkilega. Ætti það auðvitað barasta að gilda alment séð og hvar sem er á Íslandi.

Kannski er svo málið ekki alltaf hvað sé sagt, heldur hvernig.   

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða og Gefum íslensku séns

Var neyðarþjónusta Landhelgisgæslunnar misnotuð?

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í neyðarflug í gær til þess að sækja erlendan ferðamann í Jökulfjörðum. Maðurinn var fluttur til Ísafjarðar til frekari skoðunar.

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða staðfestir í samtali við Bæjarins besta að stofnunin hafi enga aðkomu að þessu máli, maðurinn hafi ekki komið þangað.

Hreggviður Sím­on­ar­son, starfsmaður á bakvakt aðgerðarsviðs Land­helg­is­gæsl­unn­ar segir Bæjarins besta að Landhelgisgæslan hafi skilað manninum í sjúkrabíl á Ísafirði og að hann hafi ekki hafi verið stórvægilega slasaður.

Samkvæmt heimildum Bæjarins besta ók maðurinn í burtu frá flugvellinum í bíl sem hann geymdi þar. Það hefur ekki fengist staðfest.

Nýjustu fréttir