Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 31

Styðjum Árneskirkju

Ný sóknarkirkja í Árnesi á Ströndum var vígð fyrir 33 árum síðan. Arkitekt kirkjunnar var Guðlaugur Gauti Jónsson en yfirsmiður var Arinbjörn Bernharðsson frá Norðurfirði.

Árneskirkja er stálgrindarhús á steyptum grunni, klædd hvítum Steni-plötum að utan en viðarþiljuð að innan. Þakið er járnklætt. Flatarmál kirkjunnar er um 150 fermetrar. Kirkjuskipið er ferningslaga og vísa horn kirkjuskipsins í höfuðáttirnar. Altarið er eins og vera ber í horninu mót austri. Góð lofthæð er yfir altari og hljómburður mjög góður enda steinn á gólfi en timbur í lofti. Útlit kirkjunnar tekur mið af Reykjaneshyrnu, sem sést frá kirkjunni.

Nú er svo komið að þetta einstaka og fallega guðshús þarfnast sárlega viðhalds. Járnið á þakinu er farið að ryðga vegna sjávarseltu, sem stormar hafsins feykja upp á land.  Söfnuðurinn er hins vegar fámennur og gjaldendur sóknargjalda eru einungis 35. Opnaður hefur verið söfnunarreikningur vegna viðgerða á þakinu. Öll þau, sem geta lagt Árneskirkju lið, eru hvött til að leggja aur inn á reikning nr. 1161 – 05 – 000096 undir kennitölunni 430169-1149. Öll framlög stór og smá eru vel þegin.

Ef gjöf til kirkjunnar er krónur tíu þúsund eða meira þá fæst skattaafsláttur því Árneskirkja er á Almannaheillaskrá hjá Skattinum. Stöndum saman og styðjum Árneskirkju.

Magnús Erlingsson, prófastur.

Árneskirkja.

Bolungavík: andlát vegna langvarandi veikinda

Lögreglan á Vestfjörðum segir í tilkynningu fyrr í dag að niðurstöðuskýrsla réttarmeinafræðings sem annaðist réttarkrufningu hinna látnu hafi borist.

Niðurstaða rannsóknar málsins er sú að andlát hjónanna er ekki talið hafa borið að með saknæmum hætti heldur var orsökin langvarandi veikindi þeirra beggja, sem ekki verður gerð frekari grein fyrir hér. Annar aðilanna hafði sést útivið nokkrum dögum áður en þau fundust látin á heimili sínu, en ekki var hægt að ákvarða nákvæman dánartíma.

Rannsókn málsins verður því hætt og það tilkynnt með venjubundnum hætti.

Dynjandisheiði seinkar um 2 ár

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á innvest.is, vefsíðu Innviðafélags Vestfjarða er rakin saga fjárveitinga til nýs vegar yfir Dynjandisheiði frá því að samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024 var samþykkt um mitt ár 2020.

Þá voru settar 5.800 m.kr. til verksins , 5.600 m.kr. á árunum 2020-2024 og 200 m.kr. lokagreiðslu á árinu 2025. Framan af gekk verkið vel og var frekar á undan áætlun fram til loka 2022. En á árinu 2023 verða breytingar og þá um haustið var lögð fram ný samgönguáætlun og þar kvað við annan tón varðandi Dynjandisheiði. Lagt var til að lækka fjárveitingu ársins 2023 um 650 m.kr. og lengt í framkvæmdatíma um tvö ár. Lokafjárveitingin 200 m.kr. var færð til 2027, sem er seinkun um 2 ár.

Nýja samgönguáætlunin var ekki samþykkt og dagaði uppi á Alþingi. Beðið er eftir því að ríkisstjórnin leggi fram að nýju samgönguáætlunina. Ekki er vitað hvort hún verði eins og sú í fyrra eða hvaða breytingum hún kann að taka. Ekki er útilokað að frekari seinkun verði á framkvæmdum.

Landbúnaður: áætlun um útrýmingu á riðu

Svarfaðardalur. Mynd: Matvælaráðuneytið.

Gefin hefur verið út aðgerðaáætlun í landbúnaði til fimm ára.

Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi í júní árið 2023. Stefnan inniheldur framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni. Meginmarkmið stefnunnar eru að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra segir „Það skiptir sköpum fyrir matvælaþjóð eins og Íslendinga að hafa skýra stefnu í landbúnaðarmálum“ sagði matvælaráðherra. „Við viljum sjá innlendan landbúnað vaxa og dafna, þessi aðgerðaáætlun er mikilvæg varða á þeirri leið“.

700 m.kr. gegn riðuveiki

Meðal aðgerða er ræktunaráætlun gegn riðu.

Aðgerðin felur í sér að riðuveiki verði útrýmt í íslensku sauðfé með ræktun verndandi og mögulega verndandi arfgerða, auk öflugar vöktunar- og söfnunarkerfis fyrir dýrahræ og smitvarnir.

Áætlunin gerir ráð fyrir umtalsverðri breytingu á nálgun við útrýmingu riðuveiki frá því sem verið hefur. Reiknað er með að verkefnið í heild taki 15-20 ár.

Aðgerðin er fjármögnuð að hluta. Í fjárlögum fyrir árið 2024 var veitt 110 m.kr. framlag til innleiðingar verndandi arfgerða í íslenska sauðfjárstofninn. Gert er ráð fyrir að það framlag haldist óbreytt til og með árinu 2025 en hækki svo í 120 m.kr. árið 2026, verði 90 m.kr. árið 2027 og lækki síðan í 60 m.kr. fyrir hvort árið 2028 og 2029. Eru fjárhæðirnar fyrir árin 2025-2029 settar með fyrirvara um breytingar sem mögulega kunna að verða með samþykkt fjárlaga fyrir þessi ár. Í fjárauka 2023 kom svo 58 m.kr. framlag til verkefnisins. Samtals eru þetta um 700 m.kr.

Hvert er framboð þjónustu í þínu nærumhverfi?

Byggðastofnun stendur fyrir könnun þar sem spurt er um þjónustusókn íbúa í landsbyggðunum og viðhorf til breytinga á þjónustu. Þó að sund og baðstöðum fjölgi víðs vegar á landinu þá búa margir íbúar úti á landi við þær aðstæður að þurfa að ferðast um langan veg til að komast til læknis, fara á pósthús eða með bílinn í bifreiðaskoðun svo fátt eitt sé nefnt. Er einhver þjónusta sem íbúar óttast að missa úr sinni heimabyggð?

Tilgangur þjónustukönnunarinnar er að skilgreina þjónustusvæði, greina hvort þjónustustig sé sambærilegt og fá mynd af viðhorfum íbúa mismunandi svæða til breytinga á þjónustu. „Sérstaklega er mikilvægt að fá svörun úr dreifðum byggðum landsins svo unnt verði að fá sem réttasta mynd af þjónustusókn íbúanna. Þar skiptir hvert svar gríðarlega miklu máli,“ segir Hanna Dóra Björnsdóttir, sérfræðingur á þróunarsviði hjá Byggðastofnun. Gögnin munu meðal annars nýtast vel í stefnumótunarvinnu en stefna stjórnvalda er að jafna aðgengi að þjónustu.

Hvaða þjónusta skiptir þig máli í þinni heimabyggð?

Að sögn Hönnu Dóru getur það haft mikil áhrif á byggðarlög og lífsgæði íbúa hvernig fyrirkomulagi þjónustu er háttað. Hvort heldur sem þjónustan er lögskyld þjónusta á forræði hins opinbera, eins og heilsugæslan og félags- og skólaþjónusta sveitarfélaga, eða ýmiskonar þjónusta veitt af einstaklingum og fyrirtækjum. Það hefur mikil áhrif á búsetugæði hvort nauðsynleg þjónusta er aðgengileg í nærumhverfi eða krefjist þess að íbúar ferðist um langan veg til að sækja hana. Fækkun fæðingarstaða á landsbyggðinni er til að mynda eitt dæmi um þjónustu sem enn kemur reglulega til umræðu.

Kæri íbúi, taktu þátt og hafðu áhrif!

Það er mikilvægt að íbúar úr öllum byggðum landsins gefi sér tíma til að svara. „Með þátttöku leggur fólk sitt af mörkum við að efla og bæta þjónustu byggðarlagsins og samfélagsins þar sem það býr. Okkur vantar fleiri svarendur af öllum Vestjörðum. Ég vil líka sérstaklega hvetja ungt fólk til að svara, íbúa af erlendum uppruna sem og að karlmenn gefi sér tíma til að svara. Þetta tekur um það bil 10 mínútur“ segir Hanna Dóra. Svör fólks og upplýsingarnar sem koma út úr könnuninni skipta verulega miklu máli. Allir íbúar utan höfuðborgarsvæðisins geta svarað könnuninni, það er allir íbúar á starfssvæði Byggðastofnunar. Hægt er að svara á íslensku, ensku og pólsku. Maskína sér um gagnaöflun og framkvæmd könnunarinnar. Þú finnur könnunina hér: www.maskina.is/byggdastofnun og allar nánari upplýsingar eru á vefsíðu Byggðastofnunar.

Innviðaráðherra: vill strandsiglingar

Brúarfoss. Mynd: Innviðaráðuneytið.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur falið Vegagerðinni að greina möguleika og móta aðgerðir til að efla vöruflutninga á sjó meðfram ströndum landsins í stað flutninga á þjóðvegum landsins

Í tilkynningu frá Innviðaráðuneytinu segir að langstærstur hluti vöruflutninga hér á landi fari fram með bifreiðum um þjóðvegi. „Álag á vegi hefur aukist hratt á undanliðnum árum, þ.m.t. umferð þungra bifreiða, með tilheyrandi fjárfestingum í viðhaldi vega. Vöruflutningar hafa einnig umtalsvert kolefnisspor og orkuskipti komin skemmra á veg í stærri biðreiðum.“

„Ég tel afskaplega mikilvægt að hraða vinnu við að skapa betri umgjörð fyrir vöruflutninga á sjó með strandsiglingum. Vöruflutningar með skipum er orkuhagkvæmari flutningaleið en á landi þar sem eldsneytisnotkun er talsvert minni með skipum en bifreiðum fyrir hvert tonn sem flutt er. Ég hef því farið þess á leit við Vegagerðina að hefja vinnu við að greina möguleika og móta forgangsraðaðar aðgerðir til að efla strandflutninga í góðu samráði við hagaðila á sviði vöruflutninga,“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Vegagerðin fer með veghald á þjóðvegum landsins og gegnir víðtæku hlutverki varðandi hafnir og siglingar. Stofnuninni er falið að skila niðurstöðum um greiningu á möguleikum til aukinna strandsiglinga við Ísland fyrir 15. desember nk.

Hjúkrunarheimilið Eyri sett á sölu

Hjúkrunarheimilið Eyri og Sjúkrahúsið á Ísafirði í bakgrunni

Ísafjarðarbær undirbýr að setja á sölu fasteignina Eyri , þar sem hjúrkunarheimilið er rekið. Málið var á dagskrá bæjarráðs á mánudaginn.

Kynnt voru drög að söluyfirliti og söluauglýsingu, en fyrirhugað er að auglýsa fasteignina til sölu á næstunni. Gögnin hafa vekki verið birt.

Bæjarráð áréttar að starfsemi hússins verði óbreytt þótt eigendaskipti verði á eigninni sjálfri.

Geðlestin í Gulum september – Safnaðarheimili Patreksfjarðarkirkju

Í tilefni af Gulum september ætla landssamtökin Geðhjálp að ferðast um landið og bjóða upp á samtal um geðrækt og geðheilsu í bland við tónlist og gleði. Geðlestin er heiti verkefnisins en það hefur áður farið um landið en þá var áherslan á börn og ungmenni en núna er ætlunin að hitta sveitarstjórnir, félags- og skólamálayfirvöld annars vegar og almenning hins vegar. Í tilkynningu samtakanna segir að þau hitti sveitarstjórnir og félags- og skólayfirvöld í hádeginu en almenning á kvöldfundum.

Mánudaginn 30. september verður Geðhjálp á ferðinni á Vestfjörðum. Í hádeginu með sveitarfélögum við Ísafjarðardjúp en um kvöldið kl. 20:00 á Pareksfirði í safnaðarheimili

Á hádegisfundinum kynnir Geðhjálp ýmsa geðheilsuvísa (mælikvarða), fjallar um mikilvægi geðræktar, hvernig draga megi úr fordómum og mögulegar leiðir til þess að efla forvarnir. Markmiðið er einnig að eiga samtal við heimafólk og hvað helst brennur á því í tengslum við geðrækt og geðheilbrigði. 

Kvölddagskrá er aðeins öðruvísi sett upp. Hún hefst á stuttri kynningu á Geðhjálp og starfi samtakanna. Eftir það verður farið yfir mikilvægi reglulegrar geðræktar út lífið og ýmsar leiðir þar nefndar. Þá mun einstaklingur segja frá sinni reynslu af geðrænum áskorunum og hvernig bata var náð og hvaða verkfæri hafa reynst best. Eftir reynslusöguna verða umræður/samtal. Í lokin stíga þeir félagar Emmsje Gauti og Þormóður á svið og leika nokkur lög til að árétta að geðrækt er líka gleði og skemmtun. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir. Gert er ráð fyrir að kvöldfundurinn standi í 80 til 90 mínútur.


Vilja banna sjókvíaeldi

Halldóra Mogesen, er fyrsti flutningmaður tillögunnar um bann við laxeldi í sjó.

Allir sex þingmenn Pírata hafa endurflutt tillögu sína frá síðasta vetri um bann við fiskeldi í sjókvíum. Ekki er um lagafrumvarp að ræða heldur tillögu um ályktun Alþingis svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Samhliða því skuli ríkisstjórnin efla nýsköpun og fjölbreytt og umhverfisvæn atvinnutækifæri í byggðarlögum sem byggja afkomu sína á fiskeldi í opnum sjókvíum.“

Tillagan er almenn yfirlýsing sem breytir engu um gildandi lög og verður Alþingi í framhaldinu að samþykkja sérstaka löggjöf um bannið til þess að það taki gildi.

Flutningsmönnum hefur fækkað um einn frá því málið var síðast flutt, en þá var varaþingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi einnig flutningsmaður.

Í greinargerð með tillögunni leggja flutningsmenn áherslu á dýravelferð og umhverfisáhrif og segja að nauðsynlegt sé að leyfa náttúrunni að njóta vafans. „S“á skaði sem nú þegar er orðinn er óafturkræfur. Hins vegar gæti hann enn orðið mun verri.“

Þá segja flutningsmenn tillögunnar að ef sjókvíaeldi verði bannað hafi það áhrif á atvinnuöryggi á þeim svæðum þar sem eldi hefur verið stundað. „Því er nauðsynlegt að ríkisstjórnin tryggi að atvinnuöryggi sé skapað með öðrum hætti á viðkomandi svæðum og að lögð verði sérstök áhersla á að efla græna atvinnuuppbyggingu, nýsköpun og aðrar lausnir til frambúðar.“ 

Breiðafjarðaferjan Baldur: kostnaður nærri fjórfaldast

Kostnaður Vegagerðarinnar vegna Breiðafjarðaferjunnar Baldurs hefur nærri fjórfaldast á síðustu sjö árum. Hann var 160 m.kr. árið 2017 en verður 611 m.kr. á þessu ári. Nemur hækkunin um 280%.

Í yfirliti frá Vegagerðinni fyrir síðustu 10 árin kemur frá að árin 2013 til og með 2017 var rekstrarkostnaðurinn sem Vegagerðin greiddi um 160 m.kr. Árið 2018 tók kostnaðurinn að hækka og var það ár 223 m.kr. og varð 336 m.kr. tveimur árum síðar 2020. Veruleg hækkun var á kostnaðinum með nýjum samningi sem tók gildi í fyrra 2023 og gildir til 2026. Árlegur kostnaður er 611 m.kr. Samningsfjárhæðin er tengd endanlegri mönnum skipsins og er miðuð við 10 manns.

Þá var keypt annað skip og kostaði það 3,5 milljónir evra. Heildarverð þess með breytingum var um 950 m.kr. samkvæmt upplýsingum sem fram koma í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Gildandi samningu við Sæferðir tók gildi 1. nóvember 2023 og gildir til 31. desember 2024 með möguleika á framlengingu til 30. apríl 2025. Vegagerðinni er heimilt að gera Sæferðum að sinna ferjusiglingum annars staðar í allt að þrjár vikur í septembermánuði.

Samkvæmt útboðsgögnum er miðað við 8 ferðir í viku milli Stykkishólms og Brjánslækjar og þar af minnst 3 sinnum i viku með viðkomu í Flatey. Þetta á við um tímabilið 1. sept. – 31. maí. Vegagerðin styrkir ekki ferðir yfir sumarmánuðina.

Nýjustu fréttir