Síða 31

COVID-19: Fimm árum síðar

Fyrir rúmum fimm árum var tilkynnt um fyrstu tilfelli lungnabólgu af óþekktum orsökum í Wuhan í Kína. Þetta markaði upphaf heimsfaraldurs sem átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á heilsufar, efnahag og velferð í heiminum.

Í lok janúar og í febrúar 2020 barst veiran til Evrópu og fyrstu tilfelli voru staðfest á Ítalíu, í Frakklandi og Þýskalandi. Fyrsta staðfesta tilfellið í Bandaríkjunum var greint í Washington fylki.

Eftir faraldur í Lombardy og Veneto varð Ítalía miðpunktur faraldursins í Evrópu. Veiran dreifðist hratt um álfuna vegna ferðalaga og töfum á að gripið var til aðgerða.
Fyrsta tilfellið á Íslandi var greint 28. febrúar 2020 hjá íslenskum karlmanni á miðjum aldri sem kom frá skíðasvæði í Norður-Ítalíu. Hann var með væg einkenni en var settur í einangrun á sjúkrahúsi til öryggis. Fyrsta innanlandssmitið var svo greint 6. mars 2020.
Veikindi af COVID-19 voru alvarleg og sum ríki Evrópu gripu til ýmissa aðgerða í mars 2020 til að sporna við dreifingu smita, m.a. lokana og ferðatakmarkana. Stórir faraldrar brutust á sama tíma út í mörgum stórborgum Bandaríkjanna.

Þegar mest var árið 2021 bárust Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) tilkynningar um 100,000 COVID-19 tengd dauðsföll í hverri viku. Fjöldi tilkynntra tilfella á viku náði hins vegar hámarki rúmlega 20 milljónum snemma árs 2022 með tilkomu Omicron afbrigðis. Frá árinu 2020 hafa að minnsta kosti 7 milljón COVID-19 andlát verið tilkynnt til WHO, þó að raunverulegur fjöldi dauðsfalla sé að minnsta kosti þrisvar sinnum hærri að því er kemur fram í samantekt Sóttvarnalæknis.

Enn eiga öll áhrif heimsfaraldursins eftir að koma í ljós. Hins vegar er mikilvægt að draga lærdóm af þessari reynslu og tryggja að við séum betur undirbúin fyrir heimsfaraldra í framtíðinni.

Verðlag hækkar og sælgæti mest

Verð á dagvöru fer hækkandi og hefur dagvöruvísitala verðlagseftirlitsins hækkað um 0,22% milli mánaða. Sú vísitala skoðar verðlagshækkun miðað við meðalverð hvers mánaðar.

Hækkun dagvöruverði í Krónunni og Bónus skýrist af verðhækkun á um 7% af vöruúrvalinu. Í janúar nam hlutfall hækkana 8% en að jafnaði hækkaði verð á í kringum 5% af vöruúrvali í mánuði hverjum á fyrri helmingi síðasta árs.

Auk tilbúinna rétta og kjúklings hækkar verðlag í einum veigamiklum flokki til viðbótar; sælgæti.

Þar er vagninn dreginn af Kólus, en Þrista-stubbar hækka um 17% í Krónunni og Bónus og Þrista-kúlur um 14% bæði í Bónus og Krónunni. Kúlu-súkk hækkar um tæp 16% í Bónus og Krónunni.

Freyju rískubbar hækka í annað skipti á árinu í Krónunni og hafa hækkað um rúman fjórðung í verði frá áramótum. Ýmsar vörur frá Góu-Lindu hækka í Bónus og Krónunni um 4-11%.

Þyrlusveit kölluð út vegna veikinda norður af Hornströndum

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna veikinda um borð í íslensku skipi sem statt var um 60 sjómílur norður af Hornströndum í gærmorgun. 

Áhöfnin á TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli á níunda tímanum en þegar farið er í útköll sem þessi er önnur þyrluáhöfn sett í viðbragðsstöðu í Reykjavík, til að gæta fyllsta öryggis. Laust fyrir klukkan tíu var þyrla Landhelgisgæslunnar komin að hlið skipsins. 

Áhöfn þyrlunnar byrjaði á að slaka tengilínu niður til áhafnar skipsins og sigmaður seig því næst um borð svo unnt væri að undirbúa sjúklinginn undir að vera hífður um borð í þyrluna.

Hífingin gekk vel og skipverjinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Gæsl­unni. 

Vesturbyggð: vill aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiði

Nýr vegur á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi í gær um vetrarþjónustu á Dynjandisheiðinni. Í bókun þess segir að bæjaráð Vesturbyggðar „hvetur stjórnvöld til þess að taka til endurskoðunar reglur um vetrarþjónustu á vegum en margt hefur breyst á Vestfjörðum á síðustu árum en þjónustan ekki í takt við það. Gríðarlega mikilvægt er að vetrarþjónusta verði bætt til muna þannig að hún verði í takt við það sem gerist í öðrum landshlutum.“

Bæjarráð Ísafjaðarbæja ályktað um málið fyrir skömmu og vildi aukna vetrarþjónustu og tekur bæjarráð Vesturbyggðar undir bókun þess og bætir því við að leiðin um Dynjandisheiði er mikilvæg fyrir íbúa og fyrirtæki í Vesturbyggð og brýnt að bætt sé úr þjónustu á veginum þannig að nýr vegur um Dynjandisheiði nýtist sem skyldi.

Alþingi: þjóðaratkvæðagreiðsla um Reykjavíkurflugvöll

Reykjavíkurflugvöllur. Mynd: guide.Is

Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fam á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Er þetta í áttunda sinn sem tillagan er flutt.

Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson. Aðrir flutningsmenn eru Guðrún Hafsteinsdóttir, Ólafur Adolfsson og Vilhjálmur Árnason.

Í tillögunni segir að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar?
    ❏ Já.
    ❏ Nei.“

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir: „Með því fær þjóðin tækifæri til þess að segja hug sinn og hafa áhrif á það hvar flugvöllurinn og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verða í fyrirsjáanlegri framtíð, m.a. með tilliti til þjóðhagslegra hagsmuna og þjóðaröryggis. Ríkir almannahagsmunir felast í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins og miðstöðvar innanlandsflugs hefur afar mikla þýðingu í því samhengi. Flugvöllurinn gegnir mjög mikilvægu öryggishlutverki fyrir almenning í landinu vegna sjúkra- og neyðarflugs, svo og sem varaflugvöllur. „

Á fyrri stigum málsins hafa borist umsagnir frá ýmsum aðilum. Tuttugu og ein umsögn barst um málið og var yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga sem sendu umsögn um málið fylgjandi því að landsmenn fengju að hafa skoðun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Aðeins Reykjavíkurborg var því mótfallin. 

Brattabrekka: hættustig vegna bikblæðinga

Mynd af dekki þakið olíumöl, eða blæðingu. Myndin var tekin á Bröttubrekku.

Vegagerðin hefu sent út viðvörun til vegfarenda vegna bikblæðinga á nokkum vegum. Segir í tilkynningunni að hættustig sé á eftirfarandi vegum:

á Bröttubrekku(60), í gengum Dalina(60), yfir Svínadal(60) og út Hvolsdal(60) en einnig á veginum yfir Vatnaleið á Snæfellsnesi(56), undir Hafursfelli(54) og að Heydalsafleggjara(54).

Vestri: lokahóf hjólreiðadeildar fyrir 2024

Hópurinn með Þorgils þjálfara og stjórnarmönnunum Viðari Kristinssyni og Atla Jakobssyni.

Á sunnudaginn hélt hjólreiðadeild Vestra skemmtilegt lokahóf fyrir félagsmenn til að fagna frábærum árangri á árinu 2024, en alls lönduðu yngri hjólarar félagsins þremur Íslandsmeistaratitlum.

Samkoman var haldin í félagsaðstöðu Vestra í vallarhúsinu og hófst á því að þeir Viðar Kristinsson, formaður deildarinnar og Þorgils Óttar Erlingsson þjálfari veittu iðkendum viðurkenningar fyrir árangur, ástundun og framfarir á árinu. Að því búnu var slegið upp pitsuveislu og hópurinn horfið saman á fjallabrunkeppni sem fram fór í Tasmaníu á helginni.

Þetta var góð byrjun á nýju hjólaári en mikið stendur til þegar vorar og verður blásið til æfinga strax í maí undir handleiðslu Þorgils Óttars. Æfingarnar verða auglýstar nánar þegar nær dregur en skráning mun fara fram á Sportabler líkt og á síðasta ári.

Frá þessu er greint á vefsíðu Vesta og þar segir að allir áhugasamir krakka séu hvött til að prófa þessa skemmtilegu íþrótt. Ýmsar upplýsingar um starfsemi hjólreiðadeildarinnar má finna í Facebook hópnum Vestri hjólreiðar, spjall félagsmannaFacebook síðunni okkar og Instagram @vestrihjol en einnig bendum við á vefsíðuna www.mtbisafjordur.is.

Viðar og Þorgils fara yfir hjólaárið 2024.

Myndir: vestri.is

Ísafjarðabær: selur íbúðir og afkoma batnar um 220 m.kr.

Íbúðir við Túngötu á Suðureyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur fyrir bæjarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun ársins um áhrif af sölu Fasteigna Ísafjarðarbæjar ehf á íbúðum á Þingeyri og Suðureyri til Brákar íbúðafélags í Reykjavík.

Afhendingardagur eignanna miðar við 1.3.2025 og áætlaður dagur afsals er 1.4.2025.

Söluverð íbúðanna er 301,8 m.kr. Söluhagnaður er áætlaður 213,6 m.kr. Auk þess lækka skuldir sveitarfélagsins sem lækkar fjármagnskotnað um 6,3 m.kr. Samtals batnar afkoma Ísafjarðarbæjar um 220 m.k. vegna sölu íbúðanna.

Söluverð eignanna á Suðureyri er kr. 185.800.000 og á Þingeyri kr. 116.000.000, samtals 301,8 m.kr.

Salan var lögð fyrir stjórn Fasteigna Ísafjarðarbæjar þann 3. febrúar síðastliðinn.

 

Sagan öll: Kortið í Háskólasetrinu

Kortið á göngum Háskólasetursins.

Háskólasetur Vestfjarða á stórafmæli í ár. Á tuttugu árum hefur margt gerst sem skrifað hefur verið í ársskýrslur og tíundað á vefsíðu, samfélagsmiðlum og Bæjarins Besta. En sumt hefur aldrei verið sagt. Sögur sem ekki þótti þess virði að skrifa niður. Sögur sem eru einum of mannlegar. Það ólýsanlega fyndna í hinni alvarlegu akademísku starfsemi. Sagan sem er ómögulega alvarlega takandi. Undir yfirskriftinni „Sagan öll“ eru teknar saman og birtar á vef Háskólasetursins nokkrar af þeim með þeim orðum að það þarf ekki að taka þær alvarlega, það er bara viðeigandi að rifja upp skemmtilegar sögur á afmælishátíðum.

Hér kemur fyrsta sagan.

Hnöttur er aldrei á hvolfi
Árið 2008 var ákveðið að kaupa heimskort til að láta hanga frammi, nemendur koma frá öllum heimshornum og heimskort á gangi Háskólaseturs gerði þessi margvíslegu tengsl áþreifanleg. Hið besta mál. Sigurður Arnfjörð, sem þá vann í Háskólasetri, keypti kort í IKEA, á hagstæðu verði, sem meira að segja smellpassaði í litapallettu Háskólaseturs, grænbrúnblágrátt. Stærðin, litir, allt passaði.

Nema kortið er falskt. Jafnvel svikult. Laumusvikult. En meira um það seinna. 

Það tók ekki langan tíma þar til kortinu hafði verið snúið við. Af hverju er kortið á hvolfi!? Hver snéri kortinu við!? Enginn gaf sig fram. Einhver rétti það við, einhver snéri því aftur við, og svona gekk þetta ár eftir ár. Ekki var vitað hver snéri því í hvaða átt, en hnötturinn var greinilega á stöðugum snúningi.

Margir gestir voru undrandi. Jafnvel forsætisráðherra (sá þar síðasti), spurði af hverju kortið væri á hvolfi. Forstöðumaður var auðvitað með svör á reiðum höndum, enda margoft þulið upp: „Hnöttur getur aldrei verið á hvolfi, eða hvað.“ Forsætisráðherra hrekkur við, hér var greinilega um hitamál að ræða, og lyftir höndum til að friðþægja, vön því úr sinni ríkisstjórn, en lexían var ekki búin: Enda kortið galið, falskt, svikult: Grænland er í raun jafn stórt og Alsír, en á kortinu (eins og reyndar á mörgum kortum) er það jafn stórt og öll Afríka. Indland er varla sjáanlegt, um það bil jafn stórt og stórasta landið í heiminum. Kortið nær í norðri til 90. breiddargráðu, en í suðri bara að 70. breiddargráðu, tæplega, og klippir þar með eitt af viðfangsefnum Háskólaseturs af, haf, haf og meira haf. Ekki nóg með það, Evrópa er auðvitað í miðjunni.

Jú jú jú , jú jú jú, alveg rétt, alveg rétt.

Og, að auki: Eiga háskólar ekki að víkka út sjóndeildarhring nemenda og allra sem þar fara um? Opna augu þeirra, gera þau næm fyrir nýrri heimssýn, brjóta upp gamlar venjur, sjá á bak við tjöldin, gera það ómeðvitaða meðvitað…

Þá var forsætisráðherra kominn á flótta, þó lexían héldi áfram.

Ætli forsætisráðherra þessi sitji ekki á árinu 2025 og skrifi sakamálasögu um forsætisráðherra sem reynir að stýra stórasta landi í heimi, í heimi þar sem Indland er varla til og allt hitt er á hvolfi? Kepler stjórnar Nató, Kopernikus Evrópusambandinu, Tyho Brahe er konungur Danmerkur, Galileo Galilei orðinn páfi og hver myrti eiginlega Isaac Newton?

Og svo snýst reyndar allt um sólina nema öll virðumst við snúast um okkur sjálf. Kortið í Háskólasetri heldur áfram að snúast af ósýnilegri hendi. Eins og sólkerfið.

Ísafjarðarbær: opinn fundur um byggðakvótann

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjastjóri.

Föstudaginn 14. febrúar boðar Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri til opins fundar og umræðu um væntanlega afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á tillögum vegna sérstakra skilyrða (sérreglna) um byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025. Fundurinn fer fram í fundarsal bæjarstjórnar, 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 12. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og ræða sjónarmið sín.

Bæjarstjórn Ísafjarðabæjar frestaði því í síðustu viku að afgreiða sérreglurnar um úthlutun byggðakvóta. Fyrir fundinum lá tillaga um að hafa reglurnar óbreytta fá síðasta ári sem skv. þeim er nóg að landa byggðakvótanum einhvers staðar innan sveitarfélagsins en hann þarf að fara til vinnslu í sveitarfélaginu. En fram kom breytingartillaga frá Kristjáni Þór Kristjánssyni sem vildi að veiddum byggðakvóta sem merktur væri tilteknu byggðarlagi innan Ísafjarðarbæjar yrði landað til vinnslu í því sama byggðarlagi.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri segir að ástæða þess að hún boði þennan fund sé t.a.m. sú „að eftir bæjarráðsfundinn í síðustu viku sem og bæjarstjórnarfundinn þar sem afgreiðslu á sérreglum var frestað hef ég orðið þess áskynja að sjónarmið hagsmunaaðila eru misjöfn. Það er nauðsynlegt fyrir mig og kjörna fulltrúa að heyra þau sjónarmið.“

löndunarskylda í byggðarlagi en ekki vinnsluskylda

Hún segir að þetta snúi einkum að því hvort sett verði inní sérreglurnar að það sé löndunarskylda þess afla sem telst til byggðakvóta innan byggðarlags eða innan sveitarfélags. Sigríður Júlía nefni ekki að sett verði vinnsluskylda á aflanum eins og Kristján Þór lagði til.

Í næstu viku  verða þessar reglur teknar til afgreiðslu í bæjarstjórn og í framhaldi verða þær sendar til ráðuneytisins en frestur til þess er 21.febrúar n.k.

Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður hefur beitt sér fyrir því að byggðakvótinn á Flateyri verði bundinn löndunarskyldu en sagði í samtali við Bæjarins besta að hann gerði ekki kröfu um vinnsluskyldu. Það væri ekki raunhæft. Hins vegar myndi muna um það fyrir höfnina og löndunarþjónustu ef löndunarskyldan væri sett.

Nýjustu fréttir