Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 31

Halla Signý  verkefnastjóri hjá Gefum íslensku séns

Frá byrjun febrúar voru mannabreytingar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þegar Halla Signý Kristjánsdóttir tók við verkefnastjórn Gefum íslensku séns af Ólafi Guðsteini Kristjánssyni.

Halla Signý starfaði áður m.a. sem fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og frá 2017-2024 var hún alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

„Um leið og ég býð Höllu Signýju velkomna til starfa vil ég þakka Ólafi fyrir samstarfið í tengslum við Gefum íslensku séns. Ólafur hefur síðustu ár leitt þróun verkefnisins af miklum eldmóð og gert ótal skemmtilegar tilraunir með það að markmiði að virkja samfélagið til þátttöku í íslenskunámi fólks af erlendum uppruna.“ segir Sædís María Jónatansdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

24% vinnuafls með erlendan bakgrunn

Yfir landið sem heild hefur orðið fjölgun í hlutfalli vinnuafls með erlendan bakgrunn og árið 2024 var hlutfall starfandi með erlendan bakgrunn 24% fyrir landið allt.

Hér skera Suðurnesin sig einnig úr en þar voru um 37% allra starfandi með erlendan bakgrunn á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Lægst var hlutfallið á Norðurlandi en þar voru innflytjendur
einungis um 15% allra starfandi árið 2024 og þónokkuð undir landsmeðaltali.

Á Vestfjörðum var um 27% vinnuaflsins árið 2024 með erlendan bakgrunn. Var það næsthæsta hlutfallið á landinu. Á Suðurlandi og Austurlandi var hlutfallið um 25% og hærra en landsmeðaltalið.

Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um íslenskan vinnumarkað árið 2024.

Vinnuaflið, þ.e.a.s. allir starfandi og atvinnulausir, voru um 237.300 manns að meðaltali árið 2024 og fjölgaði um rúmlega 10.000 manns frá fyrra ári samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Það var fjölgun um 4,5% milli ára sem er umfram fjölgun mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára) yfir tímabilið.

Aðförinni að Reykjavíkurflugvelli verður að linna

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Langvarandi aðför að Reykjavíkurflugvelli hefur leitt til þess að lokað hefur verið annarri af tveimur flugbrautum vallarins. Fyrir vikið skerðist notagildi flugvallarins verulega og er vegið alvarlega að öryggisþættinum. Sjúkraflug er í nokkru uppnámi og þeir sem því sinna kalla á tafarlausar aðgerðir til úrbóta.

Þessi staða er afleiðing margra ára markvissrar stefnu pólitíska afla í borgarstjórn Reykjavíkur sem vilja flugvöllinn burt. Þau vilja byggja húsnæði á svæði vallarins og fá af því ríflega tekjur í borgarsjóð. Ríkið á hins vegar að kosta háum fjárhæðum til þess að byggja nýjan flugvöll einhvers staðar lengra frá eina stóra sjúkrahúsi landsmanna en nú er. Lífsnauðsynlegur greiður aðgangur að sjúkrahúsi, meðal annars fyrir íbúa landsbyggðarinnar, er látið víkja í þessum hráskinnaleik fyrir tekjum borgarinnar af sölu byggingaréttar.

Síðastliðið haust ákvað þáverandi Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir að færa skyldi girðingu við flugvöllinn og minnka svæði hans. Það þrengir að starfsemi flugvallarins. Ætlunin er að byggja íbúðahverfi í Skerjafirðinum og á fundi Flugmálafélags Íslands, sagði framkvæmdastjóri innanlandsflugs Isavia að það væri hreinlega galin hugmynd. Tekist er á um þetta enn og núverandi samgönguráðherra er þessu andvígur. Hvort takist að stöðva þessi áform er óvíst. Í borgarstjórninni eru nokkrir flokkar að vinna að þessum byggingaráformum enda vilja þeir völlinn burt.

Uppbygging íbúahverfis á Hlíðarenda hafa þrengt að flugvellinum og skapað vanda fyrir flugið um hann, hvort sem er áætlunarflug eða sjúkraflug. Búarsmíði frá Kársnesi í Skerjafjörð með tilheyrandi umferð er ekki til bóta.

Nú er tekist á um það hvort flugvöllurinn verði í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar næstu árin eða ekki.

Það er löngu ljóst að fella þarf tré í Öskjuhlíðinni sem hafa vaxið það hátt að þau hindra öruggt aðflug. Engu að síður hefur Reykjavíkurborg þráast við og gripið til vífillenginga og tafaaðgera með þeim fyrirjáanlegum afleiðingum að loka varð neyðarflugbrautinni. Um er að ræða skipulagðar og markvissar aðgerðir til þess eins að skaða notagildi flugvallarins.

Nú er nóg komið. Þessari aðför að Reykjavíkurflugvelli verður að linna. Ríkisstjórnin og borgastjórn Reykjavíkur verða að taka af skarið og gefa það út að flugvöllurinn verði áfram. Ekki bara fyrst um sinn heldur til langrar framtíðar. Flugvöllurinn er ekkert að fara neitt, það er ekki til neitt annað flugvallarstæði og það eru ekki til á annað hundrað milljarðar króna til þess að ráðstafa í nýjan flugvöll. Það er til nóg byggingaland á höfuðborgarsvæðinu og flugvöllurinn getur verið áfram þar sem hann er. Og það sem mestu máli skiptir fyrst var ákveðið að byggja nýjan Landspítala á þessu svæði við flugvöllinn þá verður völlurinn ekki færður.

Staðan er óviðunandi. Notagildi vallarins er skert með hverri aðgerðinni og nú er svo komið að ef ekki verðu bætt úr þá er notagildi vallarins og sérstaklega öryggisþátturinn alvarlega skert. Innan fárra ára verðu flugvöllurinn að óbreyttu farinn.

En vilji andstæðingar Reykjavíkurflugvallar halda áfram að vinna að því að bola vellinum burt þá er rétt að benda á að það mun hafa afleiðingar. Án Reykjavíkurflugvallar verður krafist meiri uppbyggingar á heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Sjúkrahúsið á Ísafirði verður að vera einhvers megnugt ef aðgengi að Landspítalanum er torveldað. Stjórnsýsla landsmanna getur ekki verið öll í Reykjavík ef þarf að fljúga fyrst til Keflavíkur. Reykjavík getur ekki verið höfuðborg landsins. Það eru skilaboðin sem ríkisstjórnin og borgarstjórnin þurfa að átta sig á.

-k

Bolungavíkurhöfn: 1.396 tonna afli í janúar

Bolungavík í fallegu vetrarveðri í janúar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað tæplega 1.400 tonnum af botnfiski í Bolungavíkurhöfn í janúarmánuði. Er það fyrir utan eldislax.

Aflahæst varð togarinn Sirrý ÍS með 611 tonn eftir 8 veiðiferðir. Tveir aðrir togarar lönduðu í janúar. Frosti ÞH frá Grenivík landaði einu sinni og var með 46 tonn. Annar togari frá Eyjafirði, Harðbakur EA landaði einnig einu sinni og var með 71 tonn.

Tveir bátar voru á snurvoð. Ásdís ÍS aflaði 118 tonn í 17 veiðiferðum og Þorlákur ÍS va með 24 tonn eftir 4 veiðiferðir.

Þrír línubátar voru á veiðum í mánuðinum. Fríða Dagmar ÍS fór 22 róðra og kom með 249 tonn. Jónína Brynja ÍS fór 23 róðra og landaði 259 tonn. Þá landaði Indiði Kristins BA tvisvar, samtals 19 tonn.

11.2 dagurinn

Í tilefni af því að 11.2 dagurinn er í dag langar mig að koma á framfæri smá hugleiðingu.

Við mæðgur, Ebba Þórunn og ég fengum útnefningu til skyldihjálparmanns ársins 2024. Það er okkur sannur heiður að vera útnefndar þó það sé að sjálfsögðu ekki að eigin vali að við komumst í þessi úrslit. Það er nokkuð sem enginn vill lenda í að þurfa að halda lífi í sínum nánustu þangað til viðbragsaðilar koma.

Við þessi tímamót langar mig fyrir okkar hönd, að þakka fyrir þá frábæru vinnu sem Rauði krossinn vítt og breitt um landið leggur fram við að halda úti námskeiðum í skyndihjálp fyrir allan almenning og hvetja alla til þess að fara á þessi námskeið. Ef einhver hefði spurt mig fyrir atburðinn  erfiða síðastliðið sumar þegar maðurinn minn fór í hjartastopp heima hjá okkur um miðja nótt, hvort ég kynni skyndihjálp hefði ég verið í vafa. Jú ég hef á undanförnum 40 árum þrisvar farið á stutt námskeið, prófað að hnoða og blása en kann ekkert mikið, hefði verið svarið.  Ebba var á námskeiði í Menntaskólanum síðasta vetur og hafði því líka grunnþekkingu.  En þegar á hólminn var komið var þessi kunnátta þarna og með aðstoð starfsmanns neyðarlínunnar tókst okkur að halda sjó þar til yndislegir viðbragsaðilar komu frá Ísafirði.

Höldum áfram að einbeita okkur að því að skyndihjálparkennsla sé aðgengileg öllum og hlúum að þeirri kennslu, Það sýndi sig í okkar tilfelli að grunnnámskeið í skyldihjálp bjargaði mannslífi.

Að lokum eru hjörtu okkar full þakklætis til allra þeirra sem komu að okkar máli, viðbragsaðilar bæði fyrir vestan, sunnan og norðan (sjúkraflugvél), starfsfólk sjúkrahúsa, vinir og fjölskylda án ykkar allra værum við ekki í svona góðum málum í dag.

Takk

Herdís A. Jónsdóttir

Hraðskákmót Reykjavíkur: Tveir Bolvíkingar efstir

Bárður Ön Birkisson að tafli á mótinu. Mynd: skak.is

Hraðskákmót Reykjavíkur var haldið í fyrradag. Margir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar tóku þátt, þ.á.m. Vignir Vatnar Stefánsson, stórmeistari, sem er líklega langfremsti skákmaður landsmanna í dag. En það dugði ekki til sigurs. Bolvíkingar skipuðu sér í tvö efstu sætin. Umræddir Bolvíkingar eru auk þess náfrændur, ættaðir frá Hóli í Bolungavík. 

Efstur varð Bárður Örn Birkisson, Bárðasonar Guðmundssonar dýralæknis með 8 vinninga. Í öðru sæti með 7,5 vinning varð Magnús Pálmi Örnólfsson Guðmundssonar, bróður Bárðar.

Keppendur voru 32 og fyrnefndur Vignir Vatnar varð fjórði í skákmótinu.

Magnús Pálmi Örnólfsson hefur eignast æskuheimili bræðranna Bárðar og Örnólfs á Hóli og vinnu að því að gera það upp. Þar verður teflt segir Magnús Pálmi. Meðal skákmanna gengur Hóll nú undir nafninu „Skáksetrið“ í Bolungavík.

Við þurfum raunverulegt nýtt upphaf

Vel heppnaður og fjölmennur fundur fór fram í Salnum í Kópavogi á laugardaginn þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, lýsti yfir framboði sínu til formennsku í flokknum á landsfundi hans um næstu mánaðarmót. Fólk bæði alls staðar að af landinu og alls staðar úr Sjálfstæðisflokknum mætti á staðinn og féll ræða Guðrúnar ljóslega í afar góðan jarðveg hjá viðstöddum sem klöppuðu ákaft og ítrekað á meðan á henni stóð.

Ég hitti fyrir gamla félaga í Sambandi ungra sjálfstæðismanna á fundinum sem bæði voru samherjar mínir á þeim vettvangi í den og í hinu liðinu. Við sjálfstæðismenn höfum í gegnum tíðina eytt alltof mikilli orku í átök innan flokksins. Þó sjálfsagt sé að takast á um málefni getur slíkt gengið of langt og orðið skaðlegt. Guðrún er ekki í neinu liði innan Sjálfstæðisflokksins ólíkt til dæmis Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem einnig gefur kost á sér. Guðrún er einfaldlega sjálfstæðismaður.

Meðal þeirra sem unnið hafa með Guðrúnu er hún þekkt fyrir það að virkja fólk til samvinnu, láta verkin tala og ná árangri. Guðrún kemur úr atvinnulífinu, úr heimi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þar sem slíkt skiptir öllu og skilur á milli feigs og ófeigs. Ekki er nóg að segja réttu hlutina, það eru verkin sem gilda. Þá nálgun vantar tilfinnanlega í stjórnmálin. Ekki sízt þar sem ríkrar tilhneigingar gætir til þess að sætta sig við það að hlutirnir gerist hægt – gerist þeir á annað borð.

Hvað fund Guðrúnar að öðru leyti varðar vakti einnig athygli að bæði íslenzki fáninn og fálkinn, merki Sjálfstæðisflokksins, voru í öndvegi. Fánaborg var þannig við innganginn á Salnum og fálkinn áberandi bæði á ræðupúltinu og til hliðar við það. Var haft á orði að þetta væri annað en á framboðsfundi Áslaugar Örnu á dögunum þar sem hvorugt var sjáanlegt. Þess í stað bauð Áslaug upp á nýtt merki og svaraði ekki með afgerandi hætti aðspurð hvort það ætti að koma í stað fálkans.

Fleira vakti athygli fólks. Hluti þingflokks sjálfstæðismanna mætti á fundinn en talsvert var fjallað um það í fjölmiðlum þegar fundur Áslaugar fór fram að enginn úr þingflokknum fyrir utan hana sjálfa skyldi láta sjá sig. Voru ýmsar vangaveltur uppi um það hvað skýrði þetta. Meðal annars að þingmennirnir vildu mögulega halda sig til hlés vegna stöðu sinnar. Það kom þó ekki í veg fyrir að þingmenn mættu á fund Guðrúnar. Virtist málið hið vandræðalegasta fyrir framboð Áslaugar.

Við sjálfstæðismenn þurfum ekki meira af því sama eftir það sem á undan er gengið. Vandséð er hvernig formaður, sem sat í fimm ár við ríkisstjórnarborðið með Vinstri grænum þar sem teknar voru þær ófáu ákvarðanir sem valdið hafa megnri óánægju í röðum okkar sjálfstæðismanna, fóru gegn grunngildum Sjálfstæðisflokksins og hafa í seinni tíð átt stærstan þátt í þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir, getur talizt trúverðug endurnýjun. Við þurfum raunverulegt nýtt upphaf.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Guðrún Hafsteinsdóttir á Vestfjörðum

Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrv. ráðherra og alþm. verður á ferð um Vestfirði á morgun og miðvikudag til fundar við Sjálfstæðismenn þar.

Guðrún tilkynnti framboð sitt til formanns í Sjálfstæðisflokknum á laugardaginn s.l. í Salnum í Kópavogi að viðstöddum um 600 stuðningsmönnum. Í lok ræðu sinnar sagði hún að hún hyggðist taka samtal við flokksmenn í aðdraganda landsfundar, og það samtal hófst í dag er hún lagði af stað á Snæfellsnes. 

Fyrstu fundirnir eru á Snæfellsnesi í kvöld, og svo kvöldfundir á Ísafirði og Bolungarvík annað kvöld og á Bíldudal og Patreksfirði fyrri part miðvikudags. Þaðan liggur leiðin svo til Norðurlands og þaðan austur og Guðrún lokar svo hringnum á Suðurlandi. 

Póstnúmer

Póstnúmer hafa í raun þann eina tilgang samkvæmt lögum um póstþjónustu, að veita starfsfólki og flokkunarvélum upplýsingar um hvert eigi að senda viðkomandi póstsendingu þannig að henni verði dreift til rétts viðtakanda. Hlutverk póstnúmera er því aðeins að styðja við skilvirka dreifingu póstsendinga. 

Hins vegar hafa, fyrirtæki og yfirvöld, í gegnum tíðina notað  póstnúmer í öðrum tilgangi, t.d. til ýmiss konar flokkunar varðandi réttindi og skyldur borgaranna. Sérhver önnur notkun á póstnúmerum er á ábyrgð þess aðila sem notar póstnúmer til einhvers konar aðgreiningar í sinni þjónustu.  

Samkvæmt 15. gr. laga um póstþjónustu er það Byggðastofnun sem ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá. Samkvæmt skilgreiningu á póstnúmeri og ákvæði laganna er tilgangur póstnúmers eingöngu til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og þar með auðvelda dreifingu á póstsendingum.  

Við breytingar á póstnúmerakerfinu er kveðið á um að Byggðastofnun skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð er jafnframt vikið að því að Byggðastofnun sé heimilt að hafa samráð við aðra hagsmunaaðila.  

Að mati Byggðastofnunar er nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé þegar um póstnúmer er að ræða og að þeim sé ekki breytt nema að vandlega athuguðu máli og í sátt við þá póstrekendur sem nota póstnúmer til að auðvelda flokkun og dreifingu póstsendinga.  

Einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta gert kröfu um að póstnúmerum og/eða landfræðilegri þekju verði breytt. Tillögum að breytingum skal fylgja rökstuðningur. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á póstfangaskránni verða að öðru jöfnu miðaðar við áramót. 

 

Þorbjörn tekur við af Örnu Láru í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Sex efstu frambjóðendur á Í-listanum árið 2022. Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir fyrir aftan og Gylfi Ólafsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Magnús Einar Magnússon og Þorbjörn Halldór Jóhannesson fyrir framan.

Þorbjörn Halldór Jóhannesson hefur tekið sæti Örnu Láru Jónsdóttur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar en Arna Lára tók nýverið sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag tillögu bæjarstjóra um að veita Örnu Láru lausn frá störfum sínum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hennar eigin ósk, til loka kjörtímabils.

Arna Lára tók fyrst sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann þann 15. júní árið 2006 og hefur verið bæjarfulltrúi allar götur síðan. Í bréfi hennar til bæjarstjórnar segir: 

„Það hefur verið mér sannur heiður að fá að starfa sem bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar í 19 ár að fjölbreyttum verkefnum og vera treyst fyrir mikilvægum störfum fyrir hönd sveitarfélagsins. Ég er þakklát fyrir allt góða samstarfsfólkið sem ég hef fengið að starfa með í gegnum árin og vil þakka fyrir samstarfið af heilum hug.“ segir Arna Lára

Nýjustu fréttir