Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 31

Hraðskákmót Reykjavíkur: Tveir Bolvíkingar efstir

Bárður Ön Birkisson að tafli á mótinu. Mynd: skak.is

Hraðskákmót Reykjavíkur var haldið í fyrradag. Margir af sterkustu skákmönnum þjóðarinnar tóku þátt, þ.á.m. Vignir Vatnar Stefánsson, stórmeistari, sem er líklega langfremsti skákmaður landsmanna í dag. En það dugði ekki til sigurs. Bolvíkingar skipuðu sér í tvö efstu sætin. Umræddir Bolvíkingar eru auk þess náfrændur, ættaðir frá Hóli í Bolungavík. 

Efstur varð Bárður Örn Birkisson, Bárðasonar Guðmundssonar dýralæknis með 8 vinninga. Í öðru sæti með 7,5 vinning varð Magnús Pálmi Örnólfsson Guðmundssonar, bróður Bárðar.

Keppendur voru 32 og fyrnefndur Vignir Vatnar varð fjórði í skákmótinu.

Magnús Pálmi Örnólfsson hefur eignast æskuheimili bræðranna Bárðar og Örnólfs á Hóli og vinnu að því að gera það upp. Þar verður teflt segir Magnús Pálmi. Meðal skákmanna gengur Hóll nú undir nafninu „Skáksetrið“ í Bolungavík.

Við þurfum raunverulegt nýtt upphaf

Vel heppnaður og fjölmennur fundur fór fram í Salnum í Kópavogi á laugardaginn þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, lýsti yfir framboði sínu til formennsku í flokknum á landsfundi hans um næstu mánaðarmót. Fólk bæði alls staðar að af landinu og alls staðar úr Sjálfstæðisflokknum mætti á staðinn og féll ræða Guðrúnar ljóslega í afar góðan jarðveg hjá viðstöddum sem klöppuðu ákaft og ítrekað á meðan á henni stóð.

Ég hitti fyrir gamla félaga í Sambandi ungra sjálfstæðismanna á fundinum sem bæði voru samherjar mínir á þeim vettvangi í den og í hinu liðinu. Við sjálfstæðismenn höfum í gegnum tíðina eytt alltof mikilli orku í átök innan flokksins. Þó sjálfsagt sé að takast á um málefni getur slíkt gengið of langt og orðið skaðlegt. Guðrún er ekki í neinu liði innan Sjálfstæðisflokksins ólíkt til dæmis Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem einnig gefur kost á sér. Guðrún er einfaldlega sjálfstæðismaður.

Meðal þeirra sem unnið hafa með Guðrúnu er hún þekkt fyrir það að virkja fólk til samvinnu, láta verkin tala og ná árangri. Guðrún kemur úr atvinnulífinu, úr heimi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, þar sem slíkt skiptir öllu og skilur á milli feigs og ófeigs. Ekki er nóg að segja réttu hlutina, það eru verkin sem gilda. Þá nálgun vantar tilfinnanlega í stjórnmálin. Ekki sízt þar sem ríkrar tilhneigingar gætir til þess að sætta sig við það að hlutirnir gerist hægt – gerist þeir á annað borð.

Hvað fund Guðrúnar að öðru leyti varðar vakti einnig athygli að bæði íslenzki fáninn og fálkinn, merki Sjálfstæðisflokksins, voru í öndvegi. Fánaborg var þannig við innganginn á Salnum og fálkinn áberandi bæði á ræðupúltinu og til hliðar við það. Var haft á orði að þetta væri annað en á framboðsfundi Áslaugar Örnu á dögunum þar sem hvorugt var sjáanlegt. Þess í stað bauð Áslaug upp á nýtt merki og svaraði ekki með afgerandi hætti aðspurð hvort það ætti að koma í stað fálkans.

Fleira vakti athygli fólks. Hluti þingflokks sjálfstæðismanna mætti á fundinn en talsvert var fjallað um það í fjölmiðlum þegar fundur Áslaugar fór fram að enginn úr þingflokknum fyrir utan hana sjálfa skyldi láta sjá sig. Voru ýmsar vangaveltur uppi um það hvað skýrði þetta. Meðal annars að þingmennirnir vildu mögulega halda sig til hlés vegna stöðu sinnar. Það kom þó ekki í veg fyrir að þingmenn mættu á fund Guðrúnar. Virtist málið hið vandræðalegasta fyrir framboð Áslaugar.

Við sjálfstæðismenn þurfum ekki meira af því sama eftir það sem á undan er gengið. Vandséð er hvernig formaður, sem sat í fimm ár við ríkisstjórnarborðið með Vinstri grænum þar sem teknar voru þær ófáu ákvarðanir sem valdið hafa megnri óánægju í röðum okkar sjálfstæðismanna, fóru gegn grunngildum Sjálfstæðisflokksins og hafa í seinni tíð átt stærstan þátt í þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir, getur talizt trúverðug endurnýjun. Við þurfum raunverulegt nýtt upphaf.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Guðrún Hafsteinsdóttir á Vestfjörðum

Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrv. ráðherra og alþm. verður á ferð um Vestfirði á morgun og miðvikudag til fundar við Sjálfstæðismenn þar.

Guðrún tilkynnti framboð sitt til formanns í Sjálfstæðisflokknum á laugardaginn s.l. í Salnum í Kópavogi að viðstöddum um 600 stuðningsmönnum. Í lok ræðu sinnar sagði hún að hún hyggðist taka samtal við flokksmenn í aðdraganda landsfundar, og það samtal hófst í dag er hún lagði af stað á Snæfellsnes. 

Fyrstu fundirnir eru á Snæfellsnesi í kvöld, og svo kvöldfundir á Ísafirði og Bolungarvík annað kvöld og á Bíldudal og Patreksfirði fyrri part miðvikudags. Þaðan liggur leiðin svo til Norðurlands og þaðan austur og Guðrún lokar svo hringnum á Suðurlandi. 

Póstnúmer

Póstnúmer hafa í raun þann eina tilgang samkvæmt lögum um póstþjónustu, að veita starfsfólki og flokkunarvélum upplýsingar um hvert eigi að senda viðkomandi póstsendingu þannig að henni verði dreift til rétts viðtakanda. Hlutverk póstnúmera er því aðeins að styðja við skilvirka dreifingu póstsendinga. 

Hins vegar hafa, fyrirtæki og yfirvöld, í gegnum tíðina notað  póstnúmer í öðrum tilgangi, t.d. til ýmiss konar flokkunar varðandi réttindi og skyldur borgaranna. Sérhver önnur notkun á póstnúmerum er á ábyrgð þess aðila sem notar póstnúmer til einhvers konar aðgreiningar í sinni þjónustu.  

Samkvæmt 15. gr. laga um póstþjónustu er það Byggðastofnun sem ákvarðar landfræðileg mörk póstnúmera og gefur út póstnúmeraskrá. Samkvæmt skilgreiningu á póstnúmeri og ákvæði laganna er tilgangur póstnúmers eingöngu til landfræðilegrar afmörkunar, til að staðsetja viðtakanda og þar með auðvelda dreifingu á póstsendingum.  

Við breytingar á póstnúmerakerfinu er kveðið á um að Byggðastofnun skuli hafa samráð við Þjóðskrá Íslands. Í greinargerð er jafnframt vikið að því að Byggðastofnun sé heimilt að hafa samráð við aðra hagsmunaaðila.  

Að mati Byggðastofnunar er nauðsynlegt að ákveðinn stöðugleiki og fyrirsjáanleiki sé þegar um póstnúmer er að ræða og að þeim sé ekki breytt nema að vandlega athuguðu máli og í sátt við þá póstrekendur sem nota póstnúmer til að auðvelda flokkun og dreifingu póstsendinga.  

Einungis póstrekendur, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta gert kröfu um að póstnúmerum og/eða landfræðilegri þekju verði breytt. Tillögum að breytingum skal fylgja rökstuðningur. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á póstfangaskránni verða að öðru jöfnu miðaðar við áramót. 

 

Þorbjörn tekur við af Örnu Láru í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Sex efstu frambjóðendur á Í-listanum árið 2022. Nanný Arna Guðmundsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir fyrir aftan og Gylfi Ólafsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Magnús Einar Magnússon og Þorbjörn Halldór Jóhannesson fyrir framan.

Þorbjörn Halldór Jóhannesson hefur tekið sæti Örnu Láru Jónsdóttur í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar en Arna Lára tók nýverið sæti á Alþingi fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag tillögu bæjarstjóra um að veita Örnu Láru lausn frá störfum sínum í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að hennar eigin ósk, til loka kjörtímabils.

Arna Lára tók fyrst sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Í-listann þann 15. júní árið 2006 og hefur verið bæjarfulltrúi allar götur síðan. Í bréfi hennar til bæjarstjórnar segir: 

„Það hefur verið mér sannur heiður að fá að starfa sem bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar í 19 ár að fjölbreyttum verkefnum og vera treyst fyrir mikilvægum störfum fyrir hönd sveitarfélagsins. Ég er þakklát fyrir allt góða samstarfsfólkið sem ég hef fengið að starfa með í gegnum árin og vil þakka fyrir samstarfið af heilum hug.“ segir Arna Lára

Starfshópur skilar áfangaskýrslu

Starfshópur um öryggi ferðamanna skilaði sinni fyrstu áfangaskýrslu til ráðherra í desember síðastliðnum. Starfsemi hans er liður í framkvæmd aðgerðaáætlunar með ferðamálastefnu til 2030. Samkvæmt aðgerð E.7. Bætt öryggi ferðamanna er markmið hennar að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt.

Hlutverk starfshópsins er að koma með tillögur að úrbótum á sviði öryggismála í ferðaþjónustu, tryggja samráð á milli hlutaðeigandi ráðuneyti, stofnana og atvinnugreinarinnar, auk þess að stuðla að framgangi verkefna sem hafa það að markmiði að bæta öryggi ferðamanna þvert á hið opinbera og atvinnulíf.

Starfshópinn skipa:

  • Dagbjartur Brynjarsson, Ferðamálastofu, formaður.
  • Ágúst Elvar Bjarnason, SAF.
  • Elín Sigurveig Sigurðardóttir, Icelandia, tilnefnd af SAF.
  • Gauti Daðason, innviðaráðuneyti.
  • Guðný Hrafnkelsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Haukur Herbertsson, Mountaineers of Iceland, tilnefndur af SAF.
  • Helga Harðardóttir, heilbrigðisráðuneyti.
  • Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, Vatnajökulsþjóðgarði, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
  • Kjartan Jón Björgvinsson, dómsmálaráðuneyti.

Nýliðar geta fengið aflamark í grásleppu

 Á vef Fiski­stofu hefur verið opnað fyr­ir um­sókn­ir um nýliðakvóta í grá­sleppu.

 Sam­hliða laga­breyt­ing­unni sem fól í sér kvóta­setn­ingu teg­und­ar­inn­ar var álveðið að sá hluti kvót­ans sem hefðbundið fell­ur í hlut rík­is­ins og er ætlað að út­hluta sem byggða- og at­vinnu­kvóta, s.s. 5,3% grá­sleppu­kvót­ans, mun vera ráðstafað sem sér­stök­um nýliðakvóta.

Nýliði er sá sem á skip sem ekki hefur skráða aflahlutdeild og hefur ekki fengið úthlutað aflahlutdeild eða átti rétt á aflahlutdeild í grásleppu vegna fiskveiðiársins 2024/2025. 

Ísafjarðarbær: vill aukna vetrarþjónustu á Dynjandisheiði

Frá Dynjandisheiði. Nýi vegurinn er glæsilegur. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum í morgun um vetrarþjónustu á Dynjandisheiði. Samkvæmt reglum Vegageðainnar er svonefnd C regla í gildi fyrir Dynjandisheiðina og þjónusta er 5 daga vikunnar. Ekki er þjónusta um helgar og hina daga lýkur henni um kl 17:00.

Bókað var á fundinum og óskað eftir því að auka þjónustuna:

Miklar vegabætur hafa orðið á sunnanverðum Vestfjörðum og yfir Dynjandisheiði á síðustu árum. Er nú svo komið að vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu til allra þéttbýlisstaða innan Ísafjarðarbæjar, sérstaklega Þingeyrar og Flateyrar, er talsvert styttri þá leiðina heldur en um Djúp. Ekki er vetrarþjónusta á nýjum vegi yfir Dynjandisheiði eftir klukkan 5 á virkum dögum eða um helgar. Þá hefur borið á því að heiðinni sé lokað fljótt þegar veður breytast. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar beinir því til samgönguyfirvalda að gera bragarbót á þessu svo fjárfestingin nýtist betur.

Fasteignasala Vestfjarða flutt í Stjórnsýsluhúsið

Guðmundur Óli Tryggvason tók á móti gestum.

Fasteignasala Vestfjarða flutti á föstudaginn sig um set á Ísafirði. Fasteigansalan flutti sig úr húsnæði Landsbankans að Hafnarstæti 1 yfir í Stjórnsýsluhúsið. Fasteignasala Vestfjarða var stofnuð árið 2006, en áður hafði Lögfræðistofa Tryggva Guðmundssonar sinnt fasteignasölu á Vestfjörðum frá árinu 1976.

Segja má að Fasteignasalan sé komin að nýju á gamlan stað en fyrir 19 árum flutti hún úr stjórnsýsluhúsinu. Fasteignasalan verður á 3. hæðinni þar sem áður var lögreglustjórinn á Vestfjörðum. Það embætti hefur flutt sig niður á fyrstu hæðina og skrifstofur lögreglustjórans eru nú þar sem áðu var Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Guðmundur Óli Tryggvason, framkvæmdastjóri Fasteignasölunnar tók á móti gestum og gangandi á föstudaginn og bauð upp á veitingar til að fagna þessum áfanga.

Guðmundur Óli Tryggvason og gestir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Heimastjórn Patreksfjarðar: gerir alvarlega athugasemd við að auglýsa ekki stöðu hjá Vestfjarðastofu

Heimastjórn Patreksfjarðar gerir alvarlega athugasemd við þá ákvörðun Vestfjarðastofu að auglýsa ekki stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum lausa til umsóknar og beinir því til stjórnar Vestfjarðastofu að tryggt verði að öll störf Vestfjarðastofu séu auglýst, hvort sem um er að ræða störf sem eru staðbundin eða óháð staðsetningu.

Heimastjórnin sendi fyrirspurn til stjórnar Vestfjarðastofu um mögulegar breytingar á stöðugildum hjá Vestfjarðastofu og hvort stæði til að auglýsa lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum. Í bókun stjórnar Vestfjarðastofu kemur fram að stjórnin hafi ekki tekið ákvörðun um að fækka stöðugildum hjá Vestfjarðastofu en fjöldi stöðugilda sé háður verkefnastöðu hverju sinni. Fjöldi starfsmanna á hverri starfstöð geti einnig verið mismunandi. Þó sé stefnt að því að ekki séu færri en tveir verkefnastjórar
starfandi á sunnanverðum Vestfjörðum og tveir á Ströndum/Reykhólum hverju sinni.

Að fengnum svörum stjórnar Vestfjarðastofu bókaði heimastjórn Patreksfjarðar að með vísan til svarsins standi ekki til að auglýsa til umsóknar lausa stöðu verkefnastjóra á sunnanverðum Vestfjörðum og gerir alvalega athugasemdir við það.

Hins vegar er því fagnað því að gengið hafi verið frá ráðningu verkefnastjóra farsældar og ítrekað mikilvægi þess að ávallt sé tryggt að tveir starfsmenn Vestfjarðastofu séu jafnan á hverju svæði innan starfssvæðis Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu.

Nýjustu fréttir