Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 30

Patreksfjörður: nýr vegarkafli á Örlygshafnarvegi

Teikning af fyrirhuguðu vegarstæði.

Vegagerðin hefur sótt um framkvæmdaleyfi fyrir nýjum 4,0 km löngum vegarkafla á Örlygshafnarvegi frá frá Hvalskeri að Sauðlauksdal. Erindinu fylgir samþykki landeigenda Hvalskers en auk þess liggur nýi kaflinn um land Sauðlauksdals. Umsóknin er dagsett í mars síðastliðnum og segir Vegagerðin þá að fyrirhugað sé að framkvæmdir hefjist vorið 2024 og verði lokið að fullu 1. október 2025.

Nýi vegurinn kemur til með að vera 6,5 metra breiður og verður með bundnu slitlagi. Ársdagsumferðin um veginn 2023 var um 170 bílar/sólarhring, þar sem sumarumferðin var um 415 bílar en vetrarumferðin aðeins 18 bílar á sólarhring.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar tók málið fyrir í vikunni og leggur til við heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandshrepps að erindið verði samþykkt og að skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd um Örlygshafnarveg: Hvalsker – Sauðlauksdalur þegar jákvæð umsögn Minjastofnunar og Umhverfisstofnunar liggur fyrir.

Melrakkasetrið: kynningarfundur um refarannsóknir – ICEFOX

Mánudaginn 30. september verður í Melrakkasetrinu í Súðavík kynningarfundur um rannsóknarverkefni um stofngerð íslenska refisins.

Það er Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun sem leiðir starf rannsóknarhóps um verkefnið.

Náttúrufræðistofnun leiðir rannsóknarverkefnið sem styrkt er af Rannís og kallast ICEFOX en það fjallar um stofngerð íslenska refsins. Samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands og Háskólinn í Moncton fylki í Kanada. Í verkefninu vinna auk þess tveir doktorsnemar og tveir meistaranemar ásamt þremur öðrum nemendum sem eru í starfsþjálfun (Internship) hér á landi.
Rannsóknin hefur það að markmiði að vinna stofnlíkan sem lýsir stofnvistfræði tegundarinnar á mismunandi landsvæðum. Við vinnum með veiðigögn (veiðitölur) og úrvinnslugögn (hræ frá veiðimönnum) ásamt því að fylgjast með ferðum dýra með senditæki.
Áhersla er lögð á þrjú landsvæði, N-Ísafjarðarsýslu, N-Múlasýslu og Árnessýslu og hittist hópurinn árlega einu þessara svæða til fundar og samstarfs. Nú mun hópurinn hittast á Vestfjörðum til að vinna saman í niðurstöðum og greinaskrifum (workshop) í byrjun október.

Óskeð er eftir því að fulltrúar sveitarstjórna og veiðimenn, sem eru lykilaðilar vegna fyrirkomulags refaveiða og vöktunar refastofnsins verði á kynningarfundinum. Auk .ess er fundurinn opinn fyrir almenning.

Fundurinn verður í Melrakkasetrinu í Súðavík, mánudaginn 30 september kl. 20.00.

Bolungavík: Brák yfirtekur leiguíbúðir

Vitastígur 1 og 3. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Brák íbúðafélag hefur með samningi við Skýli hses yfirtekið 14 leiguíbúðir á Vitastíg 1 -3 í Bolungavík. Bæjarráð Bolungavíkur hefur heimilað þessa tilfærslu. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ríkisins þarf jafnframt að heimila sölunni á hliðstæðan hátt.

Á sínum tíma lögðu Bolungavíkurkaupstaður og ríkið fram 30% í stofnframlag þegar ákveðið var að breyta húsnæðinu í leiguíbúðir.

Brák íbúðafélag hses. er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Stofnendur Brákar eru nú orðnir 31 sveitarfélag. Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri segir að hans mat sé að þetta skref sé „jákvætt fyrir Bolungarvík og gefur okkur fleiri tækifæri til að hlúa að uppbyggingar á fasteignamarkaði í Bolungarvík í framtíðinni. Uppbygging fasteignamarkaðar í Bolungarvík er mikilvægt verkefni sem bæjarstjórn Bolungarvíkur er einhuga í að styðja við með öllum mögulegum ráðum.“

Ný störf á Vestfjörðum í íþróttahreyfingunni

Guðbjörg Ebba og Birna Friðbjört.

Mennta- og barnamálaráðuneytið setti fram stefnumótun í íþróttamálum til ársins 2030 þar sem markmið voru meðal annars að efla starfsemi og skipulag íþróttahreyfingarinnar.​ ÍSÍ og UMFÍ skrifuðu svo undir samning við ráðuneytið í lok árs 2023 þar sem fjármagn var fengið til að setja á laggirnar 8 svæðisstöðvar um land allt. ​Skipulag íþróttahéraða er lykilhluti af svarinu við því hvernig íþróttahreyfingin getur náð markmiðum um að vera skilvirk og samræmd hreyfing í takt við kröfur nútímans. Svæðisstöðvunum er ætlað að styðja við íþróttahéruð landsins við að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með sérstaka áherslu á: Þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og  barna af erlendum uppruna. Með þessu fyrirkomulagi má ná markmiðum sem stjórnvöld hafa sett með lögum um farsæld barna, íþróttalögum, íþróttastefnu ríkisins ásamt byggðaáætlun stjórnvalda.

Markmið svæðisstöðvanna er:

  • Efla íþróttastarf á landsvísu með því að þjónusta íþróttahéruð á viðkomandi svæðum og félög innan þeirra með samræmdum hætti.
  • Nýta mannauð betur, auka stuðning við einstaka íþróttafélög og bæta þjónusta til iðkenda.
  • Að sem flestir hafi tækifæri til að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur að markmiði.

Tvö störf á Vestfjörðum

Í Vestfjarðateyminu starfa saman Guðbjörg Ebba Högnadóttir, staðsett í húsnæði Regus á Ísafirði og Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, staðsett í Ólafshúsi á Patreksfirði. Netföngin þeirra eru ebba@siu.is og birna@siu.is og eru áhugasamir um íþróttastarf að hafa samband við svæðisfulltrúana sem aðstoða eða leiðbeina um allt er varðar íþróttastarf. 

Íþróttavika á Ströndum

Frá starfi Héraðssambands Strandamanna, HSS.

Nú stendur yfir íþróttavika á Ströndum. Er hún liður í íþróttaviku Evrópu (European Week of Sport) sem er haldin á hverju ári frá 23.–30. september í yfir 30 Evrópulöndum.

Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna þannig gegn auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. 

Í tilefni af Íþróttaviku Evrópu taka íþrótta- og sveitarfélögin á Ströndum þátt, auk einstaklinga og býður Kaldrananeshreppur íbúum hreppsins frítt í Sundlaugina á Drangsnesi & Gvendarlaug hins góða í Bjarnarfirði. Strandabyggð býður íbúum frítt í sundlaugina á Hólmavík og í íþróttahúsið.

Skíðafélagið og Geislinn bjóða öllum að koma og prófa æfingar þessa vikuna.

Dagskrá Íþróttaviku Evrópu á Ströndum má nálgast á Facebook síðu Héraðssambands Strandamanna hér.

Reykhólar: Fjögurra íbúa raðhús reist

Tekta ehf er að byggja fjögurra íbúða raðhús á Reykhólum. Hver íbúð er 55 fermetrar að stærð og var húsið sett saman og reist á aðeins fjórum dögum. Byggt er úr sjálfbærum efnum til að draga úr umhverfisáhrifum.

Það er Reykhólahreppur sem er kaupandi og um er að ræða almenn húsnæði sem verður leigt út. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti segir að mikill skortur sé á húsnæði í sveitarfélaginu og að fretari íbúðabyggingar séu framundan.

Nýja raðhúsið.

Myndir: Tekta hef.

Háafell: 6.000 tonn úr Vigurál

Brunnbáturinn Novatrans, að sækja lax í Vigurál . Mynd: Háafell.

Síðustu 11 mánuði hefur verið slátrað rétt rúmlega 6.000 tonnum af vænum laxi úr kvíum Háafells í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða uppskeru úr fyrstu laxaútsetningu Háafells sem fór út í sjókvíar árið 2022 en seiðin komu bæði frá seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri og seiðaeldisstöð Arctic Fish í Norðurbotni. Laxinn hefur verið unnin í Drimlu í Bolungarvík.

Fiskurinn var á bilinu 17-24 mánuði í sjó allt eftir því hvenær hann var settur út en hann var að jafnaði 200 grömm við útsetningu. Afföll úr þeim 8 kvíum sem hafa verið tæmdar eru einungis um 2.42% og eru það afar ánægjulegar niðurstöður segir í frétt Háafells.

Gæðahlutfall laxins er einnig mjög gott eða um 97.2% af magninu var fyrsta flokks eða af ,,superior” gæðum.

Ætla má að útflutningsverðmætið sé um 7 milljarðar króna.

Åse Vikse: Ég er þetta hús

 

Sýning í Edinborgarhúsinu 
26.9 – 29.9 2024  

Fimmtudaginn 26. september kl. 17-19 opnar norska listakonan Åse Vikse sem dvalið hefur í gestavinnustofum ArtsIceland undanfarnar vikur sýningu í Edinborgarhúsinu. Boðið verður upp á léttar veitingar og spjall. Sýningin stendur til sunnudagsins 29. september.

Á sýningunni er nokkur af þeim verkum sem Vikse hefur þróað á mánaðarlangri dvöl sinni hjá ArtsIceland. Verkin eru unnin á vinnustofu hennar í Aðalstræti 22 og víðar um Ísafjörð með yfirskriftinni „kortlagning Ísa“. 

Í þessu verkefni hefur Vikse kannað hvernig er að snúa aftur á stað og hugmyndina um hið stöðuga og hið breytilega. Þetta er sjötta heimsókn Vikse til Vestfjarða samhliða því að 30 ár eru liðin frá fyrstu kynnum hennar við þetta tignarlega og kraftmikla landslag. Fjölskylda systur hennar í Súðavík er ástæðan fyrir því að hún hefur heimsótt svæðið á mismunandi stigum lífs síns. Allt frá forvitnilegri og saklausri sýn unglings á stórkostlegt landslag, sem kemur fram í ljósmyndum af ótömdum hestum og bröttum fjallshryggjum, í gegnum fjölskyldubönd sem eru fléttuð saman, til listamanns sem snýr aftur til að skapa, fylgjast með og átta sig á því að allt og allir breytast óhjákvæmilega og að skynjun okkar á því sem er varanlegt getur verið óljós.   

Á meðan á dvölinni hefur staðið hefur Vikse hefur ráfað, fylgst með, kynnst, rekið aftur, gert tilraunir og skapað. Hún hefur rekist á sögur af Guggunni, Fal bátasmið og Slunkaríki sem vísað er til í verkum hennar, ofið saman við fólkið, húsin, hið stöðuga rek og því sem stendur enn.

Åse Vikse er þverfaglegur grafíklistamaður sem býr og starfar í Vestur-Noregi. Hún hefur listmenntun sína frá Bretlandi. Vikse talar um sjálfa sig sem ,,ráfandi” listamann og verk hennar byggja á rannsóknum með sterka áherslu á ferlistýrða vinnu. Hún dregst að landslaginu, sögu þess og íbúum, sem hún notar oft á virkan hátt í verkum sínum. Sem prentsmiður vinnur hún bæði með hefðbundna tækni eins og tréskurð, sem og nútímalegri einþrykk. Hið síðarnefnda tekur oft á sig mynd ,,listamannakorta“ sem spretta fram þegar listaverkið og listamaðurinn drekka saman í sig umhverfið.

www.asevikse.com

Tröllaskagagöng – í stað Öxnadalsheiði

Stefán Vagn Stefánsson, alþm og fyrsti flutningsmaður að þingsályktunartillögu, sem 15 þingmenn flytja, um Tröllskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar segir að hugmyndin sé sú að göng undir Tröllaskaga komi í stað fyrir göng undir Öxnadalsheiði. „Markmiðið er að tengja betur saman Norðurland vestra og Norðurland eystra, stytta leiðina frá Blönduósi og Sauðárkrók til Akureyrar. Með þessu móti geta íbúar á NV landi nýtt betur þá þjónustu sem þar er s.s. heilbrigðisþjónustu og aðgengi að Háskólanum á Akureyri.“

Öxnadalsgöng eru 10. í röðinni á forgangsröðun yfir næstu jarðgöng á landinu og telja flutningsmenn mjög mikilvægt að göng um Öxnadalsheiði fari ofar á forgangslista samgönguáætlunarinnar.

Tillagan var einnig flutt á síðasta þingi. Í umsögn Vegagerðarinnar þá segir að jarðgöng milli Hjaltadals og Hörgárdals undir Hjaltadalsheiði yrðu um 18 km eða 22 km löng með gangamunnum í 300-350 m hæð yfir sjávarmáli.
Jarðgöng frá Kolbeinsdal til Skíðadals yrðu tvenn göng sem eru hvor um 13 km löng með gangamunnum í um 300 m hæð yfir sjávarmáli.
Jarðgöng undir Heljardalsheiði er um 11 km löng með gangamunnum í um 220-240 m y.s. Þau göng stytta ekki Leið milli Skagafjarðar og Akureyrar en stytta hins vegar Leið mili Skagafjarðar og Dalvíkur.

Vegagerðin gerir ráð fyrir að jarðgöng í gegnum Öxnadalsheiði yrðu 11 km löng.

Yfirlýsing 7 stéttarfélaga: Mikið um alvarleg brot gagnvart launafólki

Sjö stéttarfélög, þar af tvö á Vestfjörðum, sendu í gær frá sér fréttatilkynningu í tilefni af fréttaskýringaþætti Kveiks á mánudagskvöldið þar sem fjallað var um aðbúnað verkafólks, misneytingu og vinnumansal.

Segir í tilkynningunni að félögin telji ástæðu til að árétta að mál af þeim toga sem fjallað var um í þættinum varðandi launaþjófnað og slæman aðbúnað verkafólks koma reglulega á borð félaganna. Mikið sé um alvarleg brot gagnvart verkafólki og er erlent verkafólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Algengt sé að laun og kjör séu undir lágmarkskjörum og of oft gangi erfiðlega að fá laun greidd. Brot gegn húsaleigulögum eru algeng, oft eru vistarverur óboðlegar, gjald fyrir húsnæði óeðlilega hátt og framkoma gegn starfsfólki slæm.

„Félögin vilja árétta að mikið skortir á eftirlit af hálfu opinberra aðila hérlendis. Afleiðingar af brotum gegn réttindum launafólks af hálfu hins opinbera eru af skornum skammti. Þá er rétt að árétta sérstaklega að líkt og fram kom í þættinum gera opinberir aðilar samninga við fyrirtæki án þess að hafa nokkuð eftirliti með kjörum eða aðbúnaði starfsfólks þess aðila sem samið er við. Félögin skora á stjórnvöld að herða eftirlit og setja vinnu og fjármagn í þennan málaflokk þegar í stað enda núverandi staða landinu til skammar.“

Undir þetta rita:

Finnbogi Sveinbjörnsson
Bergvin Eyþórsson
Verkalýðsfélag Vestfirðinga
Þórarinn Guðni Sverrisson
Aldan, stéttarfélag
Hrund Karlsdóttir
Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungavíkur
Guðrún Elín Pálsdóttir
Verkalýðsfélag Suðurlands
Vignir Smári Maríasson
Verkalýðsfélag Snæfellinga
Halldóra Sigríður Sveinsdóttir
Báran, stéttarfélag
Magnús Sigfús Magnússon
Verkalýðs og sjómannafélag
Sandgerðis

Nýjustu fréttir