Miðvikudagur 19. mars 2025
Síða 30

Sagan öll: Kortið í Háskólasetrinu

Kortið á göngum Háskólasetursins.

Háskólasetur Vestfjarða á stórafmæli í ár. Á tuttugu árum hefur margt gerst sem skrifað hefur verið í ársskýrslur og tíundað á vefsíðu, samfélagsmiðlum og Bæjarins Besta. En sumt hefur aldrei verið sagt. Sögur sem ekki þótti þess virði að skrifa niður. Sögur sem eru einum of mannlegar. Það ólýsanlega fyndna í hinni alvarlegu akademísku starfsemi. Sagan sem er ómögulega alvarlega takandi. Undir yfirskriftinni „Sagan öll“ eru teknar saman og birtar á vef Háskólasetursins nokkrar af þeim með þeim orðum að það þarf ekki að taka þær alvarlega, það er bara viðeigandi að rifja upp skemmtilegar sögur á afmælishátíðum.

Hér kemur fyrsta sagan.

Hnöttur er aldrei á hvolfi
Árið 2008 var ákveðið að kaupa heimskort til að láta hanga frammi, nemendur koma frá öllum heimshornum og heimskort á gangi Háskólaseturs gerði þessi margvíslegu tengsl áþreifanleg. Hið besta mál. Sigurður Arnfjörð, sem þá vann í Háskólasetri, keypti kort í IKEA, á hagstæðu verði, sem meira að segja smellpassaði í litapallettu Háskólaseturs, grænbrúnblágrátt. Stærðin, litir, allt passaði.

Nema kortið er falskt. Jafnvel svikult. Laumusvikult. En meira um það seinna. 

Það tók ekki langan tíma þar til kortinu hafði verið snúið við. Af hverju er kortið á hvolfi!? Hver snéri kortinu við!? Enginn gaf sig fram. Einhver rétti það við, einhver snéri því aftur við, og svona gekk þetta ár eftir ár. Ekki var vitað hver snéri því í hvaða átt, en hnötturinn var greinilega á stöðugum snúningi.

Margir gestir voru undrandi. Jafnvel forsætisráðherra (sá þar síðasti), spurði af hverju kortið væri á hvolfi. Forstöðumaður var auðvitað með svör á reiðum höndum, enda margoft þulið upp: „Hnöttur getur aldrei verið á hvolfi, eða hvað.“ Forsætisráðherra hrekkur við, hér var greinilega um hitamál að ræða, og lyftir höndum til að friðþægja, vön því úr sinni ríkisstjórn, en lexían var ekki búin: Enda kortið galið, falskt, svikult: Grænland er í raun jafn stórt og Alsír, en á kortinu (eins og reyndar á mörgum kortum) er það jafn stórt og öll Afríka. Indland er varla sjáanlegt, um það bil jafn stórt og stórasta landið í heiminum. Kortið nær í norðri til 90. breiddargráðu, en í suðri bara að 70. breiddargráðu, tæplega, og klippir þar með eitt af viðfangsefnum Háskólaseturs af, haf, haf og meira haf. Ekki nóg með það, Evrópa er auðvitað í miðjunni.

Jú jú jú , jú jú jú, alveg rétt, alveg rétt.

Og, að auki: Eiga háskólar ekki að víkka út sjóndeildarhring nemenda og allra sem þar fara um? Opna augu þeirra, gera þau næm fyrir nýrri heimssýn, brjóta upp gamlar venjur, sjá á bak við tjöldin, gera það ómeðvitaða meðvitað…

Þá var forsætisráðherra kominn á flótta, þó lexían héldi áfram.

Ætli forsætisráðherra þessi sitji ekki á árinu 2025 og skrifi sakamálasögu um forsætisráðherra sem reynir að stýra stórasta landi í heimi, í heimi þar sem Indland er varla til og allt hitt er á hvolfi? Kepler stjórnar Nató, Kopernikus Evrópusambandinu, Tyho Brahe er konungur Danmerkur, Galileo Galilei orðinn páfi og hver myrti eiginlega Isaac Newton?

Og svo snýst reyndar allt um sólina nema öll virðumst við snúast um okkur sjálf. Kortið í Háskólasetri heldur áfram að snúast af ósýnilegri hendi. Eins og sólkerfið.

Ísafjarðarbær: opinn fundur um byggðakvótann

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjastjóri.

Föstudaginn 14. febrúar boðar Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri til opins fundar og umræðu um væntanlega afgreiðslu Ísafjarðarbæjar á tillögum vegna sérstakra skilyrða (sérreglna) um byggðarkvóta á fiskveiðiárinu 2024/2025. Fundurinn fer fram í fundarsal bæjarstjórnar, 2. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 12. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta og ræða sjónarmið sín.

Bæjarstjórn Ísafjarðabæjar frestaði því í síðustu viku að afgreiða sérreglurnar um úthlutun byggðakvóta. Fyrir fundinum lá tillaga um að hafa reglurnar óbreytta fá síðasta ári sem skv. þeim er nóg að landa byggðakvótanum einhvers staðar innan sveitarfélagsins en hann þarf að fara til vinnslu í sveitarfélaginu. En fram kom breytingartillaga frá Kristjáni Þór Kristjánssyni sem vildi að veiddum byggðakvóta sem merktur væri tilteknu byggðarlagi innan Ísafjarðarbæjar yrði landað til vinnslu í því sama byggðarlagi.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri segir að ástæða þess að hún boði þennan fund sé t.a.m. sú „að eftir bæjarráðsfundinn í síðustu viku sem og bæjarstjórnarfundinn þar sem afgreiðslu á sérreglum var frestað hef ég orðið þess áskynja að sjónarmið hagsmunaaðila eru misjöfn. Það er nauðsynlegt fyrir mig og kjörna fulltrúa að heyra þau sjónarmið.“

löndunarskylda í byggðarlagi en ekki vinnsluskylda

Hún segir að þetta snúi einkum að því hvort sett verði inní sérreglurnar að það sé löndunarskylda þess afla sem telst til byggðakvóta innan byggðarlags eða innan sveitarfélags. Sigríður Júlía nefni ekki að sett verði vinnsluskylda á aflanum eins og Kristján Þór lagði til.

Í næstu viku  verða þessar reglur teknar til afgreiðslu í bæjarstjórn og í framhaldi verða þær sendar til ráðuneytisins en frestur til þess er 21.febrúar n.k.

Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður hefur beitt sér fyrir því að byggðakvótinn á Flateyri verði bundinn löndunarskyldu en sagði í samtali við Bæjarins besta að hann gerði ekki kröfu um vinnsluskyldu. Það væri ekki raunhæft. Hins vegar myndi muna um það fyrir höfnina og löndunarþjónustu ef löndunarskyldan væri sett.

Gulllax

Gulllax er langvaxinn og hausstór fiskur með lítinn kjaft. Augun eru mjög stór og þvermál þeirra meira en trjónulengdin. Bolurinn er mjög langur, en stirtlan stutt og sterkleg. Bakuggi er stuttur og góðan spöl aftan hans er veiðiuggi andspænis raufarugga. Eyruggar eru lágstæðir og frekar litlir og kviðuggar eru bolstæðir undir eða aftan við aftari rætur bakugga. Sporður er djúpsýldur. Hreistrið er mjög stórt og laust í roðinu. Gulllax getur náð allt að 70 cm lengd en algeng stærð er 40- 50 cm.

Heimkynni gulllaxins eru í Norður-Atlantshafi við Ísland og Færeyjar, frá Norður-Noregi suður í Skagerak og í norðan- verðum Norðursjó, vestan og norðan Bretlandseyja og suður í Biskajaflóa. Þá er hann einnig við Austur- og Vestur-Grænland og frá Labrador til Nýfundnalands og Bandaríkjanna.

Hér við land er gulllax algengastur frá Rósagarði undan Suðausturlandi og undan suður- og einkum suðvesturströndinni og undan vesturströndinni allt norður á móts við Halamið. Hann er hins vegar sjaldséðari undan Norður- og Austurlandi.

Gulllax er miðsævis- og botn- fiskur á leir- og sandbotni á 150-1400 m dýpi en er algengastur á 300-600 m dýpi og í 5-7°C heitum sjó. Stærstu fiskarnir halda sig dýpra en þeir minni. Gulllax er einkum nálægt botni á daginn en syndir upp um sjó á nóttunni. Á veturna dýpkar hann á sér en gengur nær landi á sumrin.

Fæða gulllax er alls konar smákrabbadýr eins og Ijósáta og marflær en einnig pílormar, smokkfiskar, marglyttur, kambhveljur og smáfiskar af berhausa-, gelgju- og laxsíldaættum.

Hrygning gulllax hér við land fer sennilega fram allt árið um kring með hámarki í maí-júlí og nóvember-desember. Hrygningin á sér stað á miklu dýpi og víða á útbreiðslusvæðinu en einkum við Reykjaneshrygg. Egg og seiði eru sviflæg á 400- 500 m dýpi. Eggin eru 3-3,5 mm í þvermál og 10-40 þúsund. Seiði eru um 7,5-8 mm við klak. Um 6 cm á lengd eru þau orðin eins og foreldrarnir í útliti. Vöxtur er í meðallagi og verður gulllax kynþroska 30- 40 cm langur og 5-10 ára gamall. Á Íslandsmiðum 8-9 ára. Hann getur orðið meira en 30 ára gamall.

Gulllax er sums staðar veiddur í botnvörpu til bræðslu og hefur það verið reynt hér. Einnig er hann dálítið nýttur til manneldis en þó frekar í dýrafóður. Tilraunaveiðar á gulllaxi hófust hér við land á níunda áratug 20. aldar en annars hefur hann veiðst mest sem aukaafli við karfaveiðar og verið hent.

Gulllaxaflinn á Íslandsmiðum varð árið 1998 tæp 13.400 tonn.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Riða greindist ekki á árinu 2024

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hefur Tilraunastöð HÍ að Keldum nú lokið rannsóknum á öllum heilasýnum sem tekin voru á árinu 2024.

Klassísk riða fannst ekki í neinu sýni.

Tvö sýni, sitt frá hvorum bænum, reyndust jákvæð vegna afbrigðilegrar riðu (NOR98) en slík greining kallar ekki á aðgerðir.

Riðuveiki er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur.

Á Íslandi hefur riðuveiki eingöngu greinst í sauðfé, en víða í Evrópu finnst sjúkdómurinn ekki síður í geitum. Sjúkdómurinn veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem sýna einkenni eru 1½-5 ára.

Eftirlit með uppkomu riðu er framkvæmt með sýnatökum, bæði úr heila og í sumum tilfellum eitlum, úr kindum sem drepast eða eru felldar heima á bæjum og úr ákveðnum fjölda sláturdýra.

Opið fyrir umsóknir um styrki til atvinnumála kvenna

Nú er opið fyrir styrki til atvinnumála kvenna og er umsóknarfrestur til og með 14. mars.

Hægt er að sækja um styrki til vöruþróunar, markaðssetningar og vegna launakostnaðar (fyrir nýlega stofnuð fyrirtæki), Hámarksstyrkur er 4 m.kr. og er hægt að sækja um styrki fyrir helmingi kostnaðar. Einnig er hægt að sækja um styrki til gerðar viðskiptáætlana að upphæð kr. 600.000.

Skilyrði fyrir styrkveitingum er að það sé nýnæmi í hugmyndinni/verkefninu, að það sé í meirihlutaeigu kvenna (51%) og að verkefnið leiði til atvinnusköpunar. Ennfremur að umsóknir séu vel útfylltar en ekki er tekið á móti umsóknum í tölvupósti. Styrkir verða afgreiddir í byrjun mai og úthlutun um miðjan maí.

Eins og undanfarin tvö ár verður boðið þeim sem fá samþykkta styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, að taka þátt í hraðli þar sem hægt er að vinna til verðlauna, en tilhögun þess verður kynnt nánar þegar þar að kemur.

Hægt er að senda fyrirspurnir um styrki til verkefnastjóra á netfangið asdis.gudmundsdottir@vmst.is.

Halla Signý  verkefnastjóri hjá Gefum íslensku séns

Frá byrjun febrúar voru mannabreytingar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða þegar Halla Signý Kristjánsdóttir tók við verkefnastjórn Gefum íslensku séns af Ólafi Guðsteini Kristjánssyni.

Halla Signý starfaði áður m.a. sem fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og frá 2017-2024 var hún alþingismaður Norðvesturkjördæmis.

„Um leið og ég býð Höllu Signýju velkomna til starfa vil ég þakka Ólafi fyrir samstarfið í tengslum við Gefum íslensku séns. Ólafur hefur síðustu ár leitt þróun verkefnisins af miklum eldmóð og gert ótal skemmtilegar tilraunir með það að markmiði að virkja samfélagið til þátttöku í íslenskunámi fólks af erlendum uppruna.“ segir Sædís María Jónatansdóttir forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða

24% vinnuafls með erlendan bakgrunn

Yfir landið sem heild hefur orðið fjölgun í hlutfalli vinnuafls með erlendan bakgrunn og árið 2024 var hlutfall starfandi með erlendan bakgrunn 24% fyrir landið allt.

Hér skera Suðurnesin sig einnig úr en þar voru um 37% allra starfandi með erlendan bakgrunn á síðasta ári samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Lægst var hlutfallið á Norðurlandi en þar voru innflytjendur
einungis um 15% allra starfandi árið 2024 og þónokkuð undir landsmeðaltali.

Á Vestfjörðum var um 27% vinnuaflsins árið 2024 með erlendan bakgrunn. Var það næsthæsta hlutfallið á landinu. Á Suðurlandi og Austurlandi var hlutfallið um 25% og hærra en landsmeðaltalið.

Þetta kemur fram í skýrslu Vinnumálastofnunar um íslenskan vinnumarkað árið 2024.

Vinnuaflið, þ.e.a.s. allir starfandi og atvinnulausir, voru um 237.300 manns að meðaltali árið 2024 og fjölgaði um rúmlega 10.000 manns frá fyrra ári samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands. Það var fjölgun um 4,5% milli ára sem er umfram fjölgun mannfjölda á vinnualdri (16-74 ára) yfir tímabilið.

Aðförinni að Reykjavíkurflugvelli verður að linna

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Langvarandi aðför að Reykjavíkurflugvelli hefur leitt til þess að lokað hefur verið annarri af tveimur flugbrautum vallarins. Fyrir vikið skerðist notagildi flugvallarins verulega og er vegið alvarlega að öryggisþættinum. Sjúkraflug er í nokkru uppnámi og þeir sem því sinna kalla á tafarlausar aðgerðir til úrbóta.

Þessi staða er afleiðing margra ára markvissrar stefnu pólitíska afla í borgarstjórn Reykjavíkur sem vilja flugvöllinn burt. Þau vilja byggja húsnæði á svæði vallarins og fá af því ríflega tekjur í borgarsjóð. Ríkið á hins vegar að kosta háum fjárhæðum til þess að byggja nýjan flugvöll einhvers staðar lengra frá eina stóra sjúkrahúsi landsmanna en nú er. Lífsnauðsynlegur greiður aðgangur að sjúkrahúsi, meðal annars fyrir íbúa landsbyggðarinnar, er látið víkja í þessum hráskinnaleik fyrir tekjum borgarinnar af sölu byggingaréttar.

Síðastliðið haust ákvað þáverandi Innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir að færa skyldi girðingu við flugvöllinn og minnka svæði hans. Það þrengir að starfsemi flugvallarins. Ætlunin er að byggja íbúðahverfi í Skerjafirðinum og á fundi Flugmálafélags Íslands, sagði framkvæmdastjóri innanlandsflugs Isavia að það væri hreinlega galin hugmynd. Tekist er á um þetta enn og núverandi samgönguráðherra er þessu andvígur. Hvort takist að stöðva þessi áform er óvíst. Í borgarstjórninni eru nokkrir flokkar að vinna að þessum byggingaráformum enda vilja þeir völlinn burt.

Uppbygging íbúahverfis á Hlíðarenda hafa þrengt að flugvellinum og skapað vanda fyrir flugið um hann, hvort sem er áætlunarflug eða sjúkraflug. Búarsmíði frá Kársnesi í Skerjafjörð með tilheyrandi umferð er ekki til bóta.

Nú er tekist á um það hvort flugvöllurinn verði í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar næstu árin eða ekki.

Það er löngu ljóst að fella þarf tré í Öskjuhlíðinni sem hafa vaxið það hátt að þau hindra öruggt aðflug. Engu að síður hefur Reykjavíkurborg þráast við og gripið til vífillenginga og tafaaðgera með þeim fyrirjáanlegum afleiðingum að loka varð neyðarflugbrautinni. Um er að ræða skipulagðar og markvissar aðgerðir til þess eins að skaða notagildi flugvallarins.

Nú er nóg komið. Þessari aðför að Reykjavíkurflugvelli verður að linna. Ríkisstjórnin og borgastjórn Reykjavíkur verða að taka af skarið og gefa það út að flugvöllurinn verði áfram. Ekki bara fyrst um sinn heldur til langrar framtíðar. Flugvöllurinn er ekkert að fara neitt, það er ekki til neitt annað flugvallarstæði og það eru ekki til á annað hundrað milljarðar króna til þess að ráðstafa í nýjan flugvöll. Það er til nóg byggingaland á höfuðborgarsvæðinu og flugvöllurinn getur verið áfram þar sem hann er. Og það sem mestu máli skiptir fyrst var ákveðið að byggja nýjan Landspítala á þessu svæði við flugvöllinn þá verður völlurinn ekki færður.

Staðan er óviðunandi. Notagildi vallarins er skert með hverri aðgerðinni og nú er svo komið að ef ekki verðu bætt úr þá er notagildi vallarins og sérstaklega öryggisþátturinn alvarlega skert. Innan fárra ára verðu flugvöllurinn að óbreyttu farinn.

En vilji andstæðingar Reykjavíkurflugvallar halda áfram að vinna að því að bola vellinum burt þá er rétt að benda á að það mun hafa afleiðingar. Án Reykjavíkurflugvallar verður krafist meiri uppbyggingar á heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Sjúkrahúsið á Ísafirði verður að vera einhvers megnugt ef aðgengi að Landspítalanum er torveldað. Stjórnsýsla landsmanna getur ekki verið öll í Reykjavík ef þarf að fljúga fyrst til Keflavíkur. Reykjavík getur ekki verið höfuðborg landsins. Það eru skilaboðin sem ríkisstjórnin og borgarstjórnin þurfa að átta sig á.

-k

Bolungavíkurhöfn: 1.396 tonna afli í janúar

Bolungavík í fallegu vetrarveðri í janúar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað tæplega 1.400 tonnum af botnfiski í Bolungavíkurhöfn í janúarmánuði. Er það fyrir utan eldislax.

Aflahæst varð togarinn Sirrý ÍS með 611 tonn eftir 8 veiðiferðir. Tveir aðrir togarar lönduðu í janúar. Frosti ÞH frá Grenivík landaði einu sinni og var með 46 tonn. Annar togari frá Eyjafirði, Harðbakur EA landaði einnig einu sinni og var með 71 tonn.

Tveir bátar voru á snurvoð. Ásdís ÍS aflaði 118 tonn í 17 veiðiferðum og Þorlákur ÍS va með 24 tonn eftir 4 veiðiferðir.

Þrír línubátar voru á veiðum í mánuðinum. Fríða Dagmar ÍS fór 22 róðra og kom með 249 tonn. Jónína Brynja ÍS fór 23 róðra og landaði 259 tonn. Þá landaði Indiði Kristins BA tvisvar, samtals 19 tonn.

11.2 dagurinn

Í tilefni af því að 11.2 dagurinn er í dag langar mig að koma á framfæri smá hugleiðingu.

Við mæðgur, Ebba Þórunn og ég fengum útnefningu til skyldihjálparmanns ársins 2024. Það er okkur sannur heiður að vera útnefndar þó það sé að sjálfsögðu ekki að eigin vali að við komumst í þessi úrslit. Það er nokkuð sem enginn vill lenda í að þurfa að halda lífi í sínum nánustu þangað til viðbragsaðilar koma.

Við þessi tímamót langar mig fyrir okkar hönd, að þakka fyrir þá frábæru vinnu sem Rauði krossinn vítt og breitt um landið leggur fram við að halda úti námskeiðum í skyndihjálp fyrir allan almenning og hvetja alla til þess að fara á þessi námskeið. Ef einhver hefði spurt mig fyrir atburðinn  erfiða síðastliðið sumar þegar maðurinn minn fór í hjartastopp heima hjá okkur um miðja nótt, hvort ég kynni skyndihjálp hefði ég verið í vafa. Jú ég hef á undanförnum 40 árum þrisvar farið á stutt námskeið, prófað að hnoða og blása en kann ekkert mikið, hefði verið svarið.  Ebba var á námskeiði í Menntaskólanum síðasta vetur og hafði því líka grunnþekkingu.  En þegar á hólminn var komið var þessi kunnátta þarna og með aðstoð starfsmanns neyðarlínunnar tókst okkur að halda sjó þar til yndislegir viðbragsaðilar komu frá Ísafirði.

Höldum áfram að einbeita okkur að því að skyndihjálparkennsla sé aðgengileg öllum og hlúum að þeirri kennslu, Það sýndi sig í okkar tilfelli að grunnnámskeið í skyldihjálp bjargaði mannslífi.

Að lokum eru hjörtu okkar full þakklætis til allra þeirra sem komu að okkar máli, viðbragsaðilar bæði fyrir vestan, sunnan og norðan (sjúkraflugvél), starfsfólk sjúkrahúsa, vinir og fjölskylda án ykkar allra værum við ekki í svona góðum málum í dag.

Takk

Herdís A. Jónsdóttir

Nýjustu fréttir