Laugardagur 31. ágúst 2024
Síða 3

Reykhólahreppur: vill frekari upplýsingar um áhrif af vindorkugarði

Sveitarstjórn Reykhólahrepps segir í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar um vindorkugarð í Garpsdal að ágætlega sé gerð fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og helstu umhverfisáhrifum þeirra í umhverfismatsskýrslu. Jafnframt telur sveitarfélagið að framkvæmdin komi almennt til með að hafa jákvæð áhrif á samfélagið vegna atvinnu og atvinnutækifæra. Þó sé ljóst að jafnumfangsmiklar framkvæmdir munu hafa neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og er þar helst tiltekið áhrif á ásýnd, landslag og gróðurfar.

Sveitarstjórnin segir að áformuð framkvæmd sé í grundvallaratriðum í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins.

Bent er á að efnisþörf úr Garpsdalsmel sé meiri en aðalskipulag geri ráð fyrir. Því sé ljóst að breyta þurfi aðalskipulagi sveitarfélagsins m.t.t. efnistökusvæða. „Mikilvægt er að fram komi ítarlegri lýsing á afmörkun efnistökusvæðis, á loftmynd og ásýndarmynd, þannig að skýrara verði hvert sé umfang efnistöku vegna framkvæmda.“

Þá er í umhverfismatsskýrslunni er fjallað um nokkra valkosti um legu jarðstrengs frá orkuvinnslusvæði að
tengivirki í Geiradal, en ekki tilgreindur aðalvalkostur framkvæmdaraðila eða samræmi valkosta við
Aðalskipulag Reykhólahrepps 2022-2034. Vill sveitarstjórnin láta bera saman helstu umhverfisáhrif jarðstrengs og loftlínu m.t.t. staðhátta, eins og boðað var í matsáætlun, m.a. þar sem ný raflína mun líklega fara um grannsvæði vatnsverndar.

Það skortir á umfjöllun um möguleg áhrif jarðstrengs á vatnafar og einnig sémikilvægt að gera grein fyrir fyrirkomulagi jarðstrengsþverunar yfir Bakkaá.

Um gróðurfar segir að Reykhólahreppur telur mikilvægt að það komi fram mat á heildarraski á vistgerðir með hátt og mjög hátt verndargildi. Sveitarfélagið óskar eftir því að birtar verði flatarmálstölur um rask. Auk þess þurfi að koma fram hvert sé heildarrask á votlendi vegna framkvæmda.

Reykhólahreppur telur mikilvægt að gerð verði grein fyrir áhrifum á ásýnd vegna vegagerðar, jarðstrengslagnar og efnistöku.

Bolungavík: 125 tonn í Drimlu á einum degi

Drymla, laxavinnsla í Bolungarvík.

Í gegnum laxasláturhúsið Drimlu í Boungavík fóru í fyrradag fóru um 125 tonn í gegnum húsið á einni vakt sem er í raun meira en húsið er hannað fyrir segir í frétt Arctic Fish.

Í þessari viku fara meira en 600 tonn af slægðum fiski sem duga í um 1,6 milljónir máltíða. Fiskurinn fer út um allan heim. Mest til Rotterdam og þaðan áfram um alla Evrópu. En einnig til Ameríku. Þá kemur fram að Arctic Fish er á lokametrunum að fá útflutningsleyfi til Kína og Ástralíu og getur því farið að flytja fisk þangað innan tíðar.

„Það er áhugavert að hugsa til þess að þessi vinnustaður var ekki til fyrir rúmu ári síðan. Í dag vinna þarna um 35 manns í rúmlega 40 stöðugildum (yfirvinna innifalin). Við getum sannarlega verið stolt af þessu.“

Drymla, laxavinnsla í Bolungarvík.

Nýtt slitlag í Dölum

Nýtt burðarlag á veginn vestan Fellsenda. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þessa dagana vinnur Vegagerðin að því að leggja nýtt slitlag á Vestfjarðaveg í Dölunum, þar sem fyrr á þessu ári brugðið var á það ráð að eyða gömlu slitlagi og breyta því í malarveg að nýju. Í gær var unnið að lagningu á kaflanum milli Fellsenda og Erpsstaða.

Búið er að leggja á nokkra kafla þaðan og til Búðardals. Mikið steinkast fylgir þessum framkvæmdum og eru ökumenn minntir á að hægja ferðina þegar farið er yfir þessa vegarkafla. Búist er við að unnið verði áfram út vikuna við útlögn á nýju slitlagi.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Hvalárvirkjun: 350 ársverk

Í kynningargögnum Vesturverks ehf um Hvalárvirkjun kemur fram að ársverkin yfir verktímann eru áætluð 350. Gert er ráð fyrir um 70 manns á svæðinu að vetri til og að sumarlagi verða allt að 200 manns á svæðinu. Á hluta framkvæmdatímans bætast við verktakar og starfsfólk Landsnets.

Framkvæmdir hefjast að vori og gert ráð fyrir að það verði 2026. Við stíflugerð og mannvirki á yfirborði verður eingöngu unnið yfir sumarið.

Að hausti, tveimur og hálfu ári frá upphafi framkvæmda, er stefnt að því að gangsetja virkjunina. Eftir gangsetningu verður Eyvindarveita byggð og verklok áætluð að hausti, þremur og hálfu ári frá upphafi framkvæmda.

Áætlunin miðast við að undirbúningsframkvæmdir hefjist strax á næsta ári. Lagfæra þarf aðkomuvegi og leggja slóða eða vegi að stíflustæðum og undirbúa svæði fyrir vinnubúðir. Gera þarf rannsóknir með jarðvegsborunum í eða við áætluð stíflumannvirki og könnun á lausum jarðefnum og efnum í steinsteypu uk þess að brúa Hvalá og leggja rafmagnsstofn frá dreifikerfi OV til Ófeigsfjarðar, ásamt ljósleiðara.

Vinnubúðir verða reistar í námunda við munna aðkomuganga og væntanlega verða einnig minni búðir uppi á heiðinni.
Í endanlegum vinnubúðunum verður svefnaðstaða fyrir um 200 manns, hreinlætisaðstaða, mötuneyti, verkstæði, geymslur, lagersvæði og skrifstofur.

Þegar virkjunin verður komin í rekstur er gert ráð fyrir að einn starfsmaður sinni eftirliti og minni háttar
viðhaldi.

Kampi: þriðjungsaukning á afköstum

Kampi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Breytingar sem gerðar voru í sumar á rækjuverksmiðjunni auka afköst verksmiðjunnar verulega, en frystikerfi verksmiðjunnar og hluti framleiðslunnar voru uppfærð. Stefnt er að því að verksmiðjan geti pillað yfir 10.000 tonn af rækju á ári. Kristján Jón Guðmundsson skrifstofustjóri Kampa segir að síðustu ár hafi verið unnið um 7.500 tonn af rækju á ári svo aukningin er um þriðjungur. Hann segir að enginn vafi sé á því að tilkoma Polar Seafood og Brim og þar með meiri rækja til vinnslu styrki rekstur fyrirtækisins.

Rækjuverksmiðjum hefur fækkað mikið á undanförnum árum og eru t.d. aðeins þrjár eða fjórar starfandi hér á landi. Vel veiðist af rækju og er gott framboð af henni. Kristján Jón telur að Kampi muni eiga góðar birgðir af óunninni rækju um næstu áramót. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er aðgengi að rækjuverksmiðju er orðinn helsti takmarkandi þáttur í framleiðslunni sem gerir vel búna verksmiðju eins og Kampa eftirsótta.

Samkvæmt ársreikningi Kampa fyrir 2023 varð hagnaður af rekstrinum 19 m.kr. Tekjur félagsins voru 1.138 m.kr. Eignir eru bókfærðar á 895 m.kr. og þar af eru 380 m.kr. eigið fé eða 42%. Laun og tengd gjöld voru 437 m.kr. og jukust um 21% milli ára. Ársverkin voru 38.

Fram kemur í skýrslu stjórnar að meginhluti framleiðslunnar er seldur erlendis. Mest er selt til Bretlands, Danmerkur og annarra Evrópulanda. Heildarframleiðsla árið 2023 var samtals um 2.600 tonn af afurðum samanborið við 2.200 tonn árið áður. Framleiðsluaukning á milli ára í magni er um 18%.

Stærstu eigendur eru Vestri ehf og Tjaldtangi ehf hvor með 25,5% og Birnir ehf með 14,4%. Ekki hefur verið gefið út hvað nýju eigendurnir eignast mikið í fyrirtækinu.

Tré ársins 2024 í Varmahlíð Skagafirði

Tré ársins 2023 á Seyðisfirði. MYND skog.is

Í tilefni útnefningar Tré ársins 2024 verður viðburður í Varmahlíð í Skagafirði sunnudaginn nk. 8. september kl. 16:00.

Athöfnin fer fram í skógarlundi í Varmahlíð sunnan við Mánaþúfu. Lundurinn er í eigu Skógræktarfélags Skagfirðinga. Er þetta í fyrsta skipti sem Tré ársins er valið í Skagafirði og því um stórviðburð að ræða. 

Tónlist verður leikin af fingrum fram, ávörp og kaffiveitingar í boði Skógræktarfélags Íslands á Hótel Varmahlíð.

Tré ársins 2023 var sitkagreni (Picea sitchensis) á Seyðisfirði, ofan við Hafnargötu 32. Á vef Skógræktarfélags Íslands segir að  hjónin Haraldur Aðalsteinsson og Sigurbjörg Björnsdóttir gróðursettu tréð árið 1975, en þau bjuggu í húsinu Sandfelli, sem nú er horfið.

Atvinnuleysi 2,6% í júlí

Í júlí 2024 voru 6.200 atvinnulausir samkvæmt árstíðaleiðréttum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar.

Árstíðaleiðrétt hlutfall atvinnulausra var 2,6%. Hlutfall starfandi var 80,7% og atvinnuþátttaka var 82,9%.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi minnkaði um 0,3 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi jókst um 1,3 prósentustig og atvinnuþátttaka jókst um 1,1 stig.

Á meðfylgjandi mynd hér fyrir neðan má sjá atvinnuleysi eftir landshlutum í júní og júlí samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar

Fjögur útköll á einum sólarhring

Mynd: Lloyd Horgan

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var í fjórum útköllum á einum sólahring.

Snemma í gærmorgun var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna bráðra veikinda um borð í skemmtiferðaskipi sem var statt djúpt norður af Vestfjörðum og á meðan verið var að sinna því barst beiðni um útkall vegna veikinda í Grundarfirði. 

Tvær þyrlur voru því samtímis að annast útköll í gærmorgun.

Í fyrradag annaðist þyrlusveitin einnig tvö útköll, vegna bráðra veikinda á Hvammstanga og á Hornbjargi. Sveitin sinnti því fjórum útköllum á einum sólarhring.

Alls hefur þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annast 160 útköll frá 1. maí til dagsins í dag sem nokkur aukning miðað við sama tímabili í fyrra en þá var sett met í fjölda útkalla þyrlusveitarinnar.

Fjölbreytt nám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Dagskrá haustannar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er óðum að taka á sig mynd og að venju kennir ýmissa grasa; tungumál, tölvur, fjármál, matur, myndlist og fleira.

Fólk er hvatt til að kynna sér dagskrána og skrá sig sem fyrst ef það sér eitthvað sem vekur áhuga.

Eftir frekar rysjótt sumar verður suðræn stemming í Fræðslumiðstöðinni í september. Í byrjun mánaðarins verður spænskunámskeið á Ísafirði þar sem nemendur kynnast spænskum mat og menningu samhliða því að þjálfa sig í tungumálinu. Um miðjan mánuðinn verður flamenco og salsa námskeið á Patreksfirði og seint í september verður eldaður mexíkóskur matur á námskeiði á Ísafirði. Seinna í haust gefst svo íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum kostur á að læra spænsku á námskeiði sem byrjar í nóvember.

Fyrir listelskandi og skapandi fólk er tilvalið að skoða myndlistarnámskeið með Söru Vilbergs sem fyrirhugað er á Ísafirði í september.

Í september verður einnig námskeið um samningatækniá Ísafirði þar sem markmiðið er að auka hæfni þátttakenda til að leysa úr ágreiningi og ná hagstæðum niðurstöðum í samningum.

Boðið verður upp á byrjendanámskeið í pólsku bæði á Ísafirði og Patreksfirði. Tilvalin námskeið fyrir þau sem eiga samskipti við pólskumælandi fólk, vinnuveitendur, starfsfólk opinberra stofnana og þjónustufyrirtækja og aðra áhugasama.

Að venju eru nokkur íslenskunámskeið komin á dagskrá, á Ísafirði, Patreksfirði og fjarkennt námskeið. Ef áhugi er fyrir íslenskukennslu á fleiri stöðum er um að gera að hafa samband við Fræðslumiðstöðina og við skoðum hvað hægt er að gera í því.

Þrjú tölvunámskeið eru komin á dagskrá; grunnn’amskei[ ‘i Teams, annað ætlað fólki sem hefur notað Teams en vill bæta við sig og svo námskeið um gervigreind. Þá verða tvö námskeið um fjármál, annað um persónuleg fjármál og hitt um lífeyrismál og starfslok. Þessi námskeið eru öll fjarkennd og getur því fólk sótt þau hvar sem það er statt.

Nokkur námskeið eru fyrir fólk sem er í atvinnuleit, ýmist staðkennd eða fjarkennd, á íslensku og ensku.

Svo má nefna smáskipanám, bæði vélstjórn og skipstjórn. Skipstjórnarnámskeiðið er þegar orðið fullt en tekið er við skráningum á biðlista. Nokkur pláss eru enn laus á vélstjórnarnámskeiðið en þau gætu fyllst fljótt.

Áskorun gegn netsölu áfengis

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félag lýðheilsufræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Ljósmæðrafélag Íslands, Læknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa, SÁÁ, Fræðsla og forvarnir-félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu, Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, IOGT á Íslandi og SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum hafa sent frá meðfylgjandi áskorun. Þau:

  • taka undir orð heilbrigðisráðherra um þá yfirstandandi ógn sem nú steðjar að
    grundvallarmarkmiðum lýðheilsu vegna meintrar ólöglegrar netsölu áfengis, sem
    fram komu í opinberu bréfi ráðherra þann 5. júní sl.
  • Í tilefni þess að rótgróin íslensk verslanakeðja, Hagkaup, áætlar að hefja áfengissölu
    til neytenda á næstu dögum skora félögin á yfirvöld að kveða strax upp úr um hvort
    slík sala sé lögleg. Yfirvöld geta ekki horft aðgerðarlaus á þá lýðheilsuógn sem nú
    steðjar að vegna stóraukinnar netsölu áfengis á Íslandi.
  • Í samþykktri stefnu Alþingis um lýðheilsustefnu til ársins 2030 segir að Íslendingar
    verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og
    reynslu og að stjórnvöld skuli hafa lýðheilsu að leiðarljósi við alla áætlanagerð og
    stefnumótun. Í lögum um verslun með áfengi og tóbak segir að starfrækja skuli ÁTVR
    og að markmið laganna sé að skilgreina umgjörð um smásölu áfengis og heildsölu
    tóbaks sem byggist á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð, að takmarka og stýra
    aðgengi að áfengi og tóbaki og draga þannig úr skaðlegum áhrifum áfengis- og
    tóbaksneyslu, og að vernda ungt fólk gegn neyslu áfengis og tóbaks og takmarka
    framboð á óæskilegum vörum.
  • Félögin skora á yfirvöld að hvika í engu frá samþykktri lýðheilsustefnu til ársins 2030
    og markmiðum gildandi laga um um einkasölu ÁTVR á áfengi.

Nýjustu fréttir