Föstudagur 25. október 2024
Síða 3

Strandabyggð: miður að ekki var ákveðin forgangsröðun jarðganga á Fjórðungsþingi

Þorgeir Pálsson, oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar segir það miður að ekki náðist samstaða á Fjórðungsþingi Vestfirðinga um síðustu helgi um að taka af skarið í áralangri umræðu um forgangsröðun í gangagerð á Vestfjörðum.  Strandabyggð lagði fyrir þingið tillögu um að Álftafjarðargöng skuli vera næsta framkvæmd í gangamálum á Vestfjörðum. Einnig var tillaga frá Súðavíkurhrepp um Álftarfjarðargöng.

Þess í stað, segir Þorgeir, hafi verið samþykkt tillaga um svokallaða Vestfjarðalínu,en þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða í fjármögnun gangagerðar á Vestfjörðum og er einnig talið mikilvægt að stjórnvöld gangi til samstarfs við nýlega stofnað Innviðafélag Vestfirðinga, undir forystu Guðmundar Fertrams.

Þessi niðurstaða þýði að haldið er í ályktun frá síðasta Fjórðungsþingi, en þar er talað um að vinna samtímis að rannsóknum og hönnun á Álftafjarðargöngum og Suðurfjarðagöngum (um Mikladal og Hálfdán).

„Fjórðungsþing sker því ekki í gegn hvað forgangsröðun varðar og er það miður og að mínu mati veikleikamerki.  Það geta aldrei verið tvenn göng í fyrsta sæti.  Ákyktunin frá síðasta Fjórðungsþingi var málamiðlun þess tíma.“

Að lokum segir þorgeir Pálsson: „En, þetta er niðurstaðan og við lútum henni og munum taka virkan þátt í þeirri vinnu sem nú er framundan í samgöngumálum á Vestfjörðum.“

Háskólasetur Vestfjarða: Þróun hagkvæmrar snjókornamyndavélar fyrir rannsóknir, fræðslu og almannaöryggi

Í vísindaporti föstudaginn 25.október mun Aaron Kennedy halda erindi sem nefnist „Development of an Affordable Snowflake Camera for Research, Education, and Public Safety“  /  „Þróun hagkvæmrar snjókornamyndavélar fyrir rannsóknir, fræðslu og almannaöryggi“

Erindið mun veita yfirsýn yfir einn þátt í Fulbright verkefni Arons milli Bandaríkjanna og Íslands: uppsetningu og prófun snjókornamyndavéla í Bolungarvík. Hann mun fjalla um hvers vegna þessar myndavélar voru þróaðar og kynna þörfina fyrir hagkvæman, opinn búnað til að safna umhverfisgögnum. Hann mun sýna snjókornamyndir frá fyrri uppsetningum í Bandaríkjunum og kynna fyrstu myndirnar frá Íslandi. Fyrirlesturinn mun enda á umræðu um framtíðaráætlanir fyrir myndavélarnar hans.

Aaron Kennedy er dósent og forstöðumaður framhaldsnáms við veðurfræðideild Háskólans í Norður-Dakóta. Rannsóknir hans beinast að því að fylgjast með og skilja áhrifamikla veðuratburði eins og óveður og stórhríðir. Hann er nú starfandi á Íslandi sem Fulbright fræðimaður í samvinnu við Rannsóknarstofnun Norðurskautsþingsins (National Science Foundation Arctic Research Grant). Í samstarfi við Veðurstofu Íslands hefur hann sett upp mælitæki á Vestfjörðum til að fylgjast með fallandi og fjúkandi snjó, í þeirri von að bæta skilning okkar á snjóflóðum og hjálpa til við spárferlið.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á ensku.

Íþróttahúsið Torfnesi: ósanngjörn úthlutun tíma

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar á Ísafirði segir að úthlutun tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sé ósanngjörn í garð Harðar. Hún segir að lengi vel hafi erindum Harðar ekki verið svarað og að starfsmaður skóla- og tómstundasviðs sé ekki hlutlaus. Vigdís andmælir því að hafa sýnt af sér ógnandi hegðun heldur hafi hún bara bent á staðreyndir.

Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar.

HSV gagnrýnir úthlutunina

Sigurður Jón Hreinsson, formaður HSV segir í bréfi til bæjarstjóra og sviðsstjóra að stjórn HSV hafi ekki samþykkt tímatöfluna né hafi verið í samráði um úthlutun tíma og að engar skýringar hafi fengist á miklum breytingum sem urðu á tímatöflum á milli tímabila, né rökstuðningur fyrir úthlutun.

Úthlutuðum tímum fækki úr 234 í 204 sem skýrist að miklu leyti af því hver tími er lengdur úr 50 mínútum í 60 mínútur. Fækkunin komi misjafnt niður á íþróttagreinum. Handboltinn fer úr 71 tíma á viku í 61. Hjá körfuboltanum fækkar tímum úr 74 í 70, en tímum blaksins fjölgar úr 28 í 33.

Þá verði fækkun tíma hjá handknattleiknum hjá meistaraflokki úr 29 niður í 16, sem sé „ótrúleg breyting og ekki síst í ljósi þess að Hörður er nú með tvö meistaraflokkslið skráð á Íslandsmótinu, þar af annað í næst efstu deild.“

„Þessi mikla breyting á tímafjölda meistaraflokks handboltans hefur ekki fengist rökstudd með neinu móti af nokkrum manni“ segir formaður HSV í bréfinu.

Í niðurlagi bréfsins segir Sigurður: „Það er skýlaus krafa stjórnar HSV að tímatöflur í íþróttahúsunum verði unnar upp á nýtt með sanngjarnari hætti og með samanburði við töflur síðustu ára.  Þá þarf einnig að snúa til baka með lengd æfingatíma og færa þá aftur í 50 mínútur, til að fjölga tímum.“

Í samtali við Bæjarins besta sagði Sigurður að bréfum HSV hafi ekki verið svarað málefnalega né spurningum HSV. Hluti vandans væri að Herði væri úthlutað mörgum tímum milli kl 2 – 4 á daginn til unglingastarfsins en þá eiga iðkendurnir að vera í skólanum. Þessa tíma væru því vandasamt að nýta. Honum virtist sem það væri um 12% fækkun tíma í íþróttahúsinu frá síðasta vetri og að nánast öll fækkunin lenti á kvöldtímum handknattleiksins. Sigurður sagði að upphafið af deilunum væri að finna í tillögunni að tímaskiptingunni sem komið hefði frá starfsmönnum bæjarins. Í meginatriðum hefði tillagan ekki tekið breytingum og gagnrýni hafi ekki verið mætt.

Sigurður Jón Hreinsson formaður HSV

Þingeyri: samið um snjómokstur við Kjarnasögun

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samið verði við Kjarnasögun ehf um snjómokstur í Dýrafirði þar sem það sé hagkvæmasta tilboðið. Samningstímbilið er frá 1. október 2024 til 30. apríl 2027.

Þrjú tilboð bárust og bauð Kjarnasögun lægst tímagjald 11.935 kr. Einnig buðu Keyrt og mokað ehf sem bauð 20.161 kr. og Ragnar Örn Þórðarson, en tilboð hans var 14.500 kr.

Tilboðin voru einnig metin út frá moksturstæki og vélarafli þess og gefin stig fyrir hvern þátt. Kjarnasögn ehf var með flest stig 157 samtals. Ragnar Örn Þórðarson fékk 133 stig og Keyrt og mokað ehf 104 stig.

Gerður er fyrirvari um að tilboðsgjafinn uppfylli kröfur sem settar eru fram í útboðsgögnum.

Viðreisn: Flateyringurinn María Rut í efsta sæti

María Rut Kristinsdóttir.

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar var samþykktur á fundi landshlutaráðs flokksins í gærkvöldi með öllum greiddum atkvæðum.

María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, leiðir listann. Í öðru sæti er Edit Ómarsdóttir, deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Advania. Þriðja sætið skipar Ragnar Már Ragnarsson, byggingafulltrúi Snæfellsbæjar og í fjórða sæti er Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. 

Fimm Vestfirðingar á listanum

Fimm Vestfirðingar eru á framboðslistanum. Auk Maríu Rutar og Gylfa er í sjöunda sæti Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, Patreksfirði, Magnús Einar Magnússon Flateyri er í 8. sæti og í 10. sæti er Sigþór Snorrason, Ísafirði.

María Rut segist stolt af því að leiða lista Viðreisnar í kjördæminu. Hún hlakkar til komandi kosningabaráttu.

„Við teflum fram glæsilegum lista. Hann er stútfullur af reynslumiklu og björtu fólki sem þekkir hvern krók og kima kjördæmisins. Hjarta mitt slær fyrir Norðvesturkjördæmi og ég hlakka til að hitta fólk og heyra hvað það er sem því liggur á hjarta. Ég hef öðlast mikla reynslu á síðustu árum bæði sem aðstoðarmaður formanns Viðreisnar og sem varaþingmaður. Stóra verkefnið fram undan er að létta fólki róðurinn. Bæði hvað varðar efnahagsástandið en einnig þegar kemur að andlegri líðan. Í Norðvesturkjördæmi er einnig mikið ákall um bættar samgöngur, atvinnuuppbyggingu og þjónustu. Þar er verk að vinna og við erum svo sannarlega tilbúin að hefjast handa.“

Framboðslisti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi:

  1. María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns Viðreisnar. Flateyri
  2. Edit Ómarsdóttir, deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Advania. Akranesi
  3. Ragnar Már Ragnarsson, byggingafulltrúi Snæfellsbæjar. Stykkishólmi
  4. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Ísafirði
  5. Ragnheiður Ásta Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri fjárfestingaverkefna hjá Norðuráli. Akranesi
  6. Alexander Aron Guðjónsson, Lýsingahönnuður og rafvirki. Akranesi
  7. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri. Patreksfirði
  8. Magnús Einar Magnússon, stálsmíðameistari. Flateyri
  9. Maggý Hrönn Hermannsdóttir, kennari á eftirlaunum. Ólafsvík
  10. Sigþór Snorrason, kennari. Ísafirði
  11. Alma Dögg Guðmundsdóttir, forstöðumaður á heimili fatlaðs fólks. Blönduósi
  12. Gísli Karel Halldórsson, verkfræðingur. Borgarnesi
  13. Sunna Gylfadóttir, kennari. Varmahlíð
  14. Sigurbjörn Sveinsson, læknir. Reykjavík

Örnólfsdalsárbrú

Örnólfsdalsárbrú er elsta hengibrú landsins sem enn stendur. Hún var byggð árið 1899 en gerð upp af miklum myndugleik af Vegagerðinni árið 2011.

Nýverið voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.

Í lok 19. aldar lágu helstu leiðir í Borgarfirði sunnan Hvítár um brú hjá Kljáfossi og um Grjótháls yfir í Norðurárdal. Þá var Örnólfsdalsá, sem er dragá, brúarlaus og oft slæm torfæra á þessari mikilvægu póstleið. Það þóttu því nokkur tímamót þegar brúin yfir Örnólfsdalsá var byggð árið 1899 og vígð með viðhöfn 4. október sama ár. Brúin er 33 m löng og 2,74 m á breidd, byggð úr stáli, og er elsta uppistandandi hengibrú landsins.

Sex hengibrýr af sambærilegri gerð voru byggðar á Íslandi á árunum 1891 til 1905 og mörkuðu þær byltingu í samgöngum um landið. Fyrsta brúin var Ölfusá við Selfoss, byggð árið 1891. Þjórsá var brúuð árið 1895 og síðan Örnólfsdalsá. Fjórða brúin yfir Hörgá í Eyjafirði árið 1901 og árið 1905 sams konar brýr yfir Sog og Jökulsá í Öxarfirði.

Örnólfsdalsábrú var hönnuð og byggð vel fyrir bílaöld og því ekki gerð fyrir þá þungu umferð sem síðar kom á hana. Þrátt fyrir það var hún í fullri notkun fram til ársins 1966, eða í 67 ár, þar til ný steinsteypt brú neðar á ánni tók við hlutverki hennar.

Í upphafi þessarar aldar var ljóst að endurbyggingar væri þörf til að vernda þetta menningarverðmæti. Endurgerð brúarinnar, þar sem stál burðarvirki var endurbyggt, timburgólf endurnýjað og síðari tíma steypa hreinsuð utan af einstökum hlöðnum stöplunum, lauk árið 2011. Þá var aðkoman að norðan einnig færð í upprunalegt horf.

Í lok sumars voru sett upplýsingaskilti við brúna til að fræða gesti og gangandi um þetta merkilega samgöngumannvirki.

Af síðu Vegagerðarinnar vegagerdin.is

Ný bók – Kallaður var hann kvennamaður

Sigurður Breiðfjörð skáld og samtímamenn hans er viðfangsefni Óttars Guðmundssonar geðlæknis í þessari bók.

Sigurður fæddist í lok 18. aldar í Rifgirðingum í mynni Hvammsfjarðar. Hann var um árabil vinsælasta og mest lesna skáld þjóðarinnar.

Drykkjuskapur og kæruleysi spilltu þó mjög fyrir skáldinu.
Hann lenti í útistöðum við réttvísina vegna tvíkvænismáls sem lagði að lokum líf hans í rúst. Helsti andstæðingur Sigurðar var þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sem réðist harkalega gegn honum í Fjölni. Örlög Sigurðar og Jónasar eru samofin.

Báðir voru þeir undrabörn í skáldskap en dóu úr alkóhólisma og vesaldómi á besta aldri.

Rjúpnaveiðitímabilið hefst á föstudag

Rjúpnaveiðitímabilið hefst þann 25. október og er veiði heimil föstudaga til þriðjudaga (báðir dagar meðtaldir) innan veiðitímabils. Því er ekki heimilt að veiða miðvikudaga og fimmtudaga.

Veiðidagar eru heilir (það má veiða allan daginn). Hafa ber í huga að sala á rjúpu er bönnuð. Upphaf þessa tímabils mætti sennilega flokka sem byrjun á undirbúningi jólanna á einhverjum íslenskum heimilum þar sem Rjúpan er ómissandi partur að jólamatnum. 

Rétt er að taka fram að enginn má eignast eða nota skotvopn nema að fengnu skotvopnaleyfi. Jafnframt má enginn fara á veiðar nema hafa gilt skotvopnaleyfi og hafa meðferðis gilt veiðikort.

Þá eru skotveiðimenn einnig hvattir til að kynna sér vel aðstæður og mikilvægt að hafa í huga að enginn ætti að fara á fjall nema aðrir séu upplýstir um líklega tímaáætlun og ferðatilhögun.

Guðmundur Hrafn í framboð fyrir Sósíalista í Norðvesturkjördæmi

Bolvíkingurinn Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, verður oddviti Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi í þingkosningum í næsta mánuði.

Þessu greinir Guðmundur Hrafn frá í færslu á Facebook-síðu sinni.

„Það er gríðarleg deigla hjá sósíalistum sem hafa lagt fram trúverðuga stefnu í öllum helstu hagsmunamálum almennings. Það er mér heiður að fá tækifæri til þess að vinna henni fylgis,“ segir Guðmundur Hrafn í færslu sinni.

„Öryggi og velferð fyrir alla, en ekki ótta, örbirgð né frekari hnignun innviða.“

Kerecisvöllurinn Torfnesi: vilja byggja við stúku

Ísafjarðarbæ hefur borist erindi frá knattspyrnudeild Vestra, barna- og unglingastarfi, þar sem sem óskað er eftir samþykki og aðstoð við að koma af stað viðbyggingu ofan á viðbyggingu Skotís við áhorfendastúkuna á Kerecis knattspyrnuvellinum á Torfnesi.

Ekki er farið fram á fjárhagslegri aðstoð. Leki er vandamál í viðbyggingu Skotís og er vonast til þess að komast í veg fyrir það með þessari nýju byggingu.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók jákvætt í erindi fulltrúa Vestra varðandi viðbyggingu við stúku Ísafjarðarbæjar og fól bæjarstjóra að ræða við bréfritara um útfærslu verkefnisins.

Nýjustu fréttir