Miðvikudagur 15. janúar 2025
Síða 3

Vegagerðin: nýr vegur fyrir Kambsnes ekki á dagskrá

Eyri í Seyðisfirði. Kambsnes er þar fyrir utan og ofan bæinn.

Það var búið að gera frumdrög að þessari leið um Seyðisfjörð og fyrir Kambsnes yfir í Álftafjörð í Ísafjaðardjúpi árið 2011 og var kaflinn Leiti – Eyri framkvæmdur útfra þeirri hönnun og voru verkmörk í þeirri framkvæmd miðuð við framhaldið Eyri – Kambsnes sem væri c.a. 4,5 km langur nýr vegur.

Þetta kemur fram í svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

„Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvenær verður farið af stað í framhaldið og því ekki tímabært að fara af stað í samtal og samninga við landeigendur ekki liggur fyrir uppfærð kostnaðar áætlun fyrir framkvæmdina“ segir í svarinu.

Þungatakmarkanir á sunnanverðum Vestfjörðum

Kjalkafjörður nú í morgun. Myndavél: Vegagerðin.

Vegna slitlagsskemmda verður viðauki felldur úr gildi og ásþungi takmarkaður við 10 tonn á Vestfjarðavegi 60 frá Djúpvegi 61 við Þröskulda að Flókalundi, Reykhólavegi 606, á Barðastrandarvegi 62, Flókalundur – Patreksfjörður sem og á Bíldudalsvegi 63, Patreksfjörður – Bíldudalur.

Gildir takmörkunin frá kl: 12:00 mánudaginn 13. janúar 2025.

Súðavík : minningarathöfn á fimmtudaginn – 30 ár frá snjóflóðunum

Minnisvarðinn í Súðavík um þá sem létust í flóðunum. Mynd: visir.is

Fimmtudaginn 16. janúar verða rétt 30 ár liðin frá snjóflóðunum mannskæðu í Súðavík. Flóðin féllu úr Súðavíkurhlíð og Traðargili á 18 íbúðarhús og létust 14 manns.

Minningarathöfn verður þennan dag og er ráðgert að safnast saman við samkomuhúsið og leggja þaðan af stað í blysför kl 16:40 og ganga að minnisvarðanum.

Að því loknu verður athöfn í Súðavíkurkirkju kl 17:00 þar sem sóknarprestur fer með bæn og kveikt verður á kertum.

Kaffiveitingar verða síðan í búðinni í Álftaveri.

Skotís: 14 verðlaun og eitt Íslandsmet á tveimur mótum um helgina

Félagar í Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar gerðu það gott á mótum helgarinnar. Haldnar voru tvær landskeppnir Skotíþróttasambands Íslands á Ísafirði. Á laugardaginn var Vestfjarðamóti í 50 skotum af riffli í liggjandi stöðu og í gær, sunnudag, var Vestfjarðamót í þrístöðu.

Fyrri daginn voru úrslit eftirfarandi:

Liðakeppni: Lið Skotís setti Íslandsmet 1838 ,5 stig og í fyrstu 3 sætunum voru félagar úr Skotís. Einnig var B lið Skotís í 3. sæti í liðakeppni. Fyrra Íslandsmet var sett 26.apríl 2015 = 1.836,9 stig, var það lið Skotfélags Kópavogs.

Einstaklingskeppni: félagar úr Skotís voru í þremur efstu sætunum:

1. sæti Valur Richter Skotís með 618,1 stig

2. sæti Leifur Bremnes Skotís með 611,7 stig

3. sæti Guðmundur Valdimarsson Skotís með 608,7 stig

A – Lið Skotís ( Valur Richter . Guðmundur Valdimarsson og Leifur Bremnes )

B lið Skotís ( Ívar Már Valsson, Karen Rós Valsdóttir, Helena Þóra Sigurbjörnsdóttir )

2. sæti í unglingaflokki  Karen Rós Valsdóttir.

Í gær var opið vestfjarðarmót í þrístöðu:

1 sæti  Valur Richter Skotís   með 533 stig

2 sæti Leifur Bremnes  Skotís með 521 stig

2 sæti liðakepppni lið Skotís með 1491 stig.

Keppt var í aðstöðu Skotíþróttafélagsins á Torfnesi.

Sigríður Júlía : hvernig var fyrsta vikan í starfi?

Sigríður Júlía flytur ávarp í gær þegar tilkynnt var um val á íþróttamanni ársins 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir tók við starfi bæjastjóra í síðustu viku. Bæjarins besta innti hana eftir því hvernig fyrsta vikan hefði verið. Eftirfarandi svar barst:

Mín fyrsta vika í starfi byrjaði eins og ég bjóst við, vel!

Að taka til starfa á nýjum vinnustað á þriðjudegi gætu margir litið á sem áskorun en mér finnst það bara fínt, segir kannski að ég er ekki mjög hjátrúafull.  Fyrstu klukkutímarnir fóru í setja upp ýmislegt í tölvunni og þá tók við fundur með sviðsstjórum, mannauðsstjóra, fjármálastjóra og upplýsingafulltrúa. Ég hitti Jón Pál bæjarstjóra í Bolungarvík og Braga sveitarstjóra í Súðavík á stjórnarfundi Byggðasafnsins en Jóna Símonía forstöðumaður bauð okkur til fundar í Faktorshúsi og hún klikkaði ekki á veitingunum hún Jóna. Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að því að selja ýmsar húseignir og skrifaði ég undir minn fyrsta kaupsamning f.h. bæjarins í vikunni. Ég er búin að setja mér það markmið að heimsækja allar stofnanir bæjarins sem fyrst og það er svona verið að púsla því saman. Fór í heimsókn á hafnarskrifstofuna ásamt Tinnu upplýsingafulltrúa, þar var Jóna Símonía mætt, með köku, jú föstudagsmorgun var sérstaklega valinn í þessa heimsókn. Ég fór yfir bókanir bæjarráðs síðustu mánuði til að ná utan um verkefnin mín og er því komin með langan verkefnalista, sem ég reikna með að muni bætast á, jafnt og þétt, en það er gaman. Ég þrífst best ef ég hef nóg að gera.

Ég kíkti uppá Seljalandsdal á laugardaginn en þar fór fram bikarmót í skíðagöngu um helgina en þrátt fyrir hlýindi var hægt að halda mótið. Í dag var sannkölluð uppskeruhátíð íþróttahreyfingarinnar þegar Dagur Benediktsson skíðagöngumaður var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024 við glæsilega athöfn á Logni, þá var efnilegasti íþróttamaðurinn útnefndur en hann er Eyþór Freyr Árnason skíðagöngumaður. Meistaraflokkur kvenna knattspyrnudeildar Vestra hlaut hvatningarverðlaun en þær hafa staðið sig frábærlega og eru miklar fyrirmyndir. Þá vil ég þakka sérstaklega fyrir glæsilegt kökuhlaðborð sem stelpurnar sáu um við þessa athöfn.

Við eigum að vera stolt af íþróttafólkinu okkar og öllum þeim sjálfboðaliðum sem koma að því fjölbreytta og glæsilega íþróttastarfi sem hér fer fram. Ég þreytist ekki á að nefna að besta forvörnin er þátttaka í uppbyggjandi frístundastarfi og þar eru íþróttir stór þáttur. Foreldrar og forráðamenn unga fólksins okkar eiga einnig hrós skilið fyrir að stuðla að íþróttaiðkun og styðja unga fólkið okkar.

Í lokin langar mig til að segja frá því að ég fór nokkrum sinnum í sund í vikunni, mér finnst það svo hressandi en þar hittir maður allskonar fólk, spjall um daginn og veginn, slökun í pottinum eða synda, allt alveg frábært. Ég heyrði einhversstaðar sagt að sundlaugar á Íslandi væru okkar torg samanber torg á hlýrri stöðum erlendis, mér finnst það góð samlíking. Því langar mig til að minna íbúa á sundlaugarnar okkar, og hvet fólk til að skella sér í sund!

Stækkum vestfirska listheiminn

Oft finnst manni upphafið vera það besta í raun á öllum sviðum tilverunnar. Enda upphöfin mörg og víða. Nú er t.d. nýhafið ár. Fátt er betra en hefja lestur á nýrri bók er leyndist jafnvel í einum jólapakkanna. Að horfa á fyrsta þáttinn í einhvurri sjónvarpsseríu hvar maður fær að kynnast persónum og leikendum. Að horfa á nýja íslenska bíómynd. Að sjá nýtt leikrit. Að byrja á nýjum vinnustað. Upphafið er víða og tilhlökkunin eftir því og þá ekki síst því sem koma skal. Allt svo spennandi allt svo ferskt.

Það var einmitt á fyrstu dögum hins ný byrjaða árs sem ég fór að huxa, kemur stundum fyrir, hvernig getum við eflt listheiminn á Vestfjörðum? Afhverju nefni ég bara Vestfirði jú það er nú bara vegna þess að ég bý þar og starfa. Já, pæliði hve ég er lánsamur að geta starfað að list minni í heimahéraði, það er lúxus en þó eigi sjálfgefið. Gengið er vissulega einsog í hvurju öðru apparati stundum gengur og stundum gengur aðeins hægar. Stundum fær maður útborgað stundum minna og stundum eru bara fiskibollur um mánaðarmótinn. En það er allt í lagi því mér finnst þær svo góðar, sérlega með bláberjasultu.

Þar sem ég er ekkert mjög skarpur í kollinum kannski frekar soldið einfaldur, enda finnst mér best að leika einn. Þar með er komin skýringin á því að ég hef helgað mitt leiklíf einleiknum. Bæði með því að setja upp einleiki í Kómedíuleikhúsinu og standa fyrir einleikjahátíðinni Act alone. Því tel ég það vera eitt besta og einfaldasta ráðið við að efla listheiminn á Vestfjörðum að við einfaldlega mætum á sem allra flesta listviðburði vestfirska á þessu nýja frábæra ári. Tökum ónefndan Skagstrending til fyrirmyndar er mætti eitt sinn á barnaleiksýningu hjá Kómedíuleikhúsinu á Skagaströnd, kom bara einn ekki með neitt barn með sér og var sjálfur kominn á eftirlaun. Kom svo að lokinni sýningu og þakkaði okkur fyrir og sagði svo: Ég mæti á alla listviðburði hér á Skagastönd? Og svaraði meira segja líka með því að segja: Nú ef ég mæti ekki þá hættið þið listafólkið að koma til okkar.

Ég get bara ekki orðað þetta betur en bæti við og fæ enn aðstoð annarra, enda er ég ekki klár í kolli einsog áður gat. Myndlistarkonan Helena Margrét Jónsdóttir mælti nefnilega svo réttilega í blaðaviðtali um daginn um það hvað listin gjörir: Listin á að stækka heiminn svo skilningur fólks á hlutunum færist í nýjar víddir.

Elfar Logi Hannesson, leikari og blekbóndi Þingeyri

Dagur Benediktsson íþróttamaður Ísafjarðarbæjar

Íþróttamennirnir sem voru tilnefndir með viðurkenningaskjöl sín.

Gönguskíðamaðurinn Dagur Benediktsson frá SFÍ var í dag útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024 við hátúðega athöfn á veitingastaðnum Logni á Hótel Ísafirði.

það er skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjaðarbæjar sem stendur að valinu. Nanný Arna Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi er formaður nefndarinnar.

Annar skíðamaður, Eyþór Freyr Árnason SFÍ, var útnefndur efnilegasti íþróttamaðurinn.

Hvatningarverðlaun hlaut meistaraflokkur kvenna knattspyrnudeildar Vestra.

Eftirtalin voru tilnefnd í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar

  • Angelica Orobio Rodriguez, blakdeild Vestra
  • Birkir Eydal, knattspyrnudeild Harðar
  • Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísfirðinga
  • Elmar Atli Garðarsson, knattspyrnudeild Vestra
  • Elmar Breki Baldursson, körfuknattleiksdeild Vestra
  • Julo Thor Rafnsson, Golfklúbbur Ísafjarðar
  • Karen Rós Valsdóttir, skotíþróttafélag Ísfirðinga
  • Óli Björn Vilhjálmsson, Handknattleiksdeild Harðar
  • Pétur Örn Sigurðsson, blakdeild Vestra
  • Sigrún Betanía Kristjánsdóttir, knattspyrnudeild Vestra

Eftirtalin voru tilnefnd í kjörinu um efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar

  • Albert Ingi Jóhannsson, knattspyrnudeild Vestra
  • Axel Vilji Bragason, Handknattleiksdeild Harðar
  • Bríet Emma Freysdóttir, Skíðafélagi Ísfirðinga, alpagrein
  • Dagný Emma Kristinsdóttir, körfuknattleiksdeild Vestra
  • Eyþór Freyr Árnason, Skíðafélag Ísfirðinga, skíðaganga
  • Haukur Fjölnisson, körfuknattleiksdeild Vestra
  • Hjálmar Helgi Jakobsson, Golfklúbbur Ísafjarðar
  • Kacper Tyszkiewicz, blakdeild Vestra
  • Kristjana Rögn Andersen, skotíþróttafélag Ísfirðinga
  • Margrét Embla Viktorsdóttir, blakdeild Vestra
  • María Sigurðardóttir, Hestamannafélagið Hending
  • Una Proppé Hjaltadóttir, knattspyrnudeild Vestra

Sigríðu Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri ávarpaði samkomuna.

Vel á annað hundrað gesta voru á Logni í dag.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson

Úrgangsráð Vestfjarða

Frá Fjórðungsþingi í október sl.

Í framhaldi af samþykki allra sveitarfélaga á Vestfjörðum á Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vestfjörðum er nauðsynlegt að skipa Úrgangsráð Vestfjarða.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga fjallaði um málið á fundi sínum í desember sl.

Ákveðið var að senda sveitarfélögunum bréf og að það komi fram eftirfarandi um val á fulltrúum í ráðið:

„Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga vekur athygli sveitarfélaga á að úrgangsráðið er vinnuhópur og hefur ekki umboð til að taka bindandi ákvarðanir fyrir sveitarfélögin eða samstarf þeirra. Því vill stjórn Fjórðungssambandsins beina því til sveitarfélaga að í hópinn veljist fulltrúar sem treysta má að geti fylgt málum eftir í sínu sveitarfélagi og hafi umboð til að tala máli sveitarfélagsins í úrgangsmálum innan Úrgangsráðs Vestfjarða.“

Á fundinum var staðfest að áheyrnarfulltrúi Árneshrepps í stjórn FV er Arinbjörn Bernharðsson og að Matthías Sævar Lýðsson er áheyrarfulltrúi Strandabyggðar.

Súðavík: áform um aukið gistirými

Melrakkasetur Íslands í Súðavík.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt umsókn Melrakka gistingar ehf um deiliskipulagsbeytingu sem heimilar að byggja sex smáhýsi auk þjónustuhúss á lóð Eyrardals 7 innan og ofan til við Melrakkasetrið.

Markmiðið er að auka framboð af heilsárs gistirýmum fyrir ferðamenn í Súðavík.

Ísafjarðarbær : Jafnlaunakerfi stenst staðal

Æðstu stjórnendur Ísafjarðarbæjar hafa rýnt árangur jafnlaunakerfis sveitarfélagsins og komist að þeirri niðurstöðu að kerfið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar. Ekki er þörf á aðgerðum.

Að niðurstöðunni standa bæjarstjóri, mannauðsstjóri og fjórir sviðsstjórar.

Launagreining gerð á launum októbermánaðar leiddi i ljós að launamunur er 0,96% konum í vil sem er vel innan markmiða um 3,5% mun.

Vakin er athygli á því að kynjahlutfall sé mjög skakkt hjá Ísafjarðarbæ og huga þurfi að því hvernig megi jafna það.

Malið var lagt fyrir bæjarráð á mánudaginn og bókað að

„Með hliðsjón af viðhaldsúttekt iCert, innri úttekt, launagreiningu og rýni stjórnenda á jafnlaunakerfi Ísafjarðarbæjar, auk þess að Jafnlaunastofa hefur gefið út nýja heimild til að nota jafnlaunamerkið til 22.06.2026, er ályktað að Jafnlaunakerfi Ísafjarðarbæjar standist kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012.“

Nýjustu fréttir