Síða 3

Hafís gæti færst nær landi

Hafískort byggt á VIIRS-gervitunglamyndum. Ísjaðarinn er næst landi um 65 SML út af Straumnesi. Vestan- og suðvestanáttir næstu daga geta borið borgarís að landi, einkum á Vestfjörðum, Ströndum, Húnaflóa og Skaga.

Á sunnudag mátti sjá borgarísjakar á gervitunglamynd Sentinel um 2,5 sjómílur N frá Kögri. 66°30N 22°53’V; 11 sjómílur frá Körgi: 66°39’N 22°55’V; og 12 sjómílur V af Galtarvita: 66°15’N og 24°02V.

Atvinnuvegaráðherra ætlar að tryggja 48 daga strandveiðar með reglugerð

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra sagði í morgun í viðtali við Ríkisútvarpið að nýtt frumvarp um strandveiðar muni ekki nást fyrir sumarið. Hún ætli hins vegar að tryggja 48 daga strandveiðar í sumar með reglugerð.

Ráðherrann segir að frumvarpið sem lagt verður fram á næstu mánuðum muni tryggja utanumhald og eftirlit með strandveiðum.

„Við erum að tryggja ákveðinn fyrirsjáanleika með það hvenær þarf að sækja um leyfið. Við erum að tryggja að sá sem veiðir eigi 51 prósent eða meira í bátnum til þess að tryggja eins og við getum að þetta skilji eftir í heimahöfn eða heimabyggð eins og ætlunin er.“ sagði ráðherrann í viðtalinu.

Húsafriðunarsjóður: 24 styrkir til Vestfjarða

Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson á Flateyri var ein af mörgum byggingum á Vestfjörðum sem fékk styrk úr Húsafriðingarsjóði í ár.

Úthlutað hefur verið úr Húsafriðunarsjóði fyrir þetta ár 2025. Minjastofnun Íslands bárust alls 242 umsóknir um styrki samtals að upphæð 1.243.927.679 kr. Styrkir eru veittir til 178 verkefna, samtals að upphæð 265.500.000 kr.

friðlýstar kirkjur

Í flokknum friðlýstar kirkjur voru veittir styrkir að fjárhæð 75,3 m.kr. Fimm kirkjur á Vestfjörðum fengu styrk að þessu sinni. Það voru:

Eyrarkirkja , Seyðisfirði 1,5 m.kr.

Árneskirkja eldri, Trékyllisvík, Ströndum 2,4 m.kr.

Staðarkirkja, Aðalvík 1,4 m.kr.

Súðavíkurkirkja 0,9 m.kr.

Sæbólskirkja, Ingjaldssandi, Önundarfirði 0,7 m.kr.

friðuð hús og mannvirki

Í flokknum friðuð hús og mannvirki fóru 14 styrkir til Vestfjarða.

Árós, Strandgata 3b, Hnífsdal 0,4 m.kr.

Gamli spítalinn, Aðalstræti 69, Patreksfirði 0,8 m.kr.

Gramsverslun, Vallargata 1, Þingeyri 0,9 m.kr.

Hafnarstræti 3, Þingeyri 2,0 m.kr.

Herkastalinn, Mánagata 4, Ísafjarðarkaupstað 1,0 m.kr.

Hesteyri, skólahús, Jökulfjörðum 2,3 m.kr.

Holtastígur 9, Bolungarvík 1,3 m.kr.

Karlsbúð, Silfurgata 2, Ísafjarðarkaupstað 1,0 m.kr.

Rauða húsið, Suðurgata 10, Ísafjarðarkaupstað 0,2 m.kr.

Sjóarhús, Suðureyri, Tálknafirði 0,5 m.kr.

Sveinseyri, gamli bærinn, Tálknafirði 0,7 m.kr.

Sveinseyri ytri, Steinhús, Tálknafirði 1,0 m.kr.

Verslunin Bræðurnir Eyjólfsson (Gamla bókabúðin) Flateyri 1,8 m.kr.

Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar, Þingeyri 1,5 m.kr.

önnur hús og mannvirki

Í flokknum önnur hús og mannvirki voru veittir fimm styrkir til Vestfjarða.

Eysteinseyri, hjallurinn, Tálknafirði 0,4 m.kr.

Síldarverksmiðjan Eyri, Ingólfsfirði 0,9 m.kr.

Síldarverksmiðjan Djúpavík, Ströndum 0,9 m.kr.

Sæbólsskóli, Aðalvík 1,0 m.kr.

Veðramæti, Aðalstræti 77a, Patreksfirði 0,5 m.kr.

Kalkþörungaverksmiðjan Bíldudal: áfrýjar dómi til Landsréttar

Verksmiðja Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal.

Íslenska kalkþörungaverksmiðjan hf hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um endurákvörðun skatta fyrir 5 ára tímabil, 2016 – 2020, til Landsréttar. Ríkisskattstjóraembættið og yfirskattanefnd höfðu hækkað tekjur fyrirtækisins um 488 m.kr. með þeim rökum að móðurfélagið Marigot Ltd. hefði stýrt afkomu samstæðu félagana með þeim hætti að enginn skattskyldur hagnaður yrði til hjá íslenska kalkþörungafélagini á Bíldudal.

Félagið skaut málinu til dómstóla og Héraðsdómur staðfesti ákvörðun yfirskattanefndar og Ríkisskattstjóra.

Halldór Halldórsson, forstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að félagið væri ósammála dómnum í öllum atriðum. Tveir dómkvaddir matsmenn hefðu verið fengnir til þess að gera greiningu á verðlagningunni og bera saman við sambærileg fyrirtæki í Evrópu og hefðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að útreikningar íslenska kalkþörungafélagisins væri réttir. Héraðsdómur hefði hins vegar vísað áliti þeirra frá.

Halldór sagði að ekkert félag gæti lifað við dóminn, það væri ekki hægt að greiða skatta af tekjum sem ekki væru til.

3

hagnaður yrði til hjá

stefn

anda á Íslandi

.

Endurnýjun á björgunarskipinu Gísla Jóns framundan

Framundan er endurnýjun á björgunarskipinu Gísla Jóns en skipið er smíðað árið 1990 í Noregi. Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur nú fyrir endurnýjun björgunarskipa hringinn í kringum landið og er röðin komin að Gísla Jóns.

Á Ísafirði hefur verið rekið björgunarskip frá árinu 1988 þegar björgunarsveitin Skutull og Tindar keyptu Daníel Sigmundsson, nýjan björgunarbát frá Noregi.  Var tilkoma Daníels mikil breyting í björgunargetu á svæðinu og nú, tæplega 40 árum seinna stendur til að ráðast í nýsmíði að nýju en undanfarnir björgunarbátar hafa verið keyptir notaðir frá Þýskalandi, Bretlandi og Noregi.

Björgunarskipin hafa oft á tíðum skipt sköpum þegar kemur að því að tryggja öryggi sjómanna við strendur landsins. Á hverju ári fara björgunarskip félagsins í 130-150 útköll, allt frá aðstoð við vélarvana báta, strönduð skip eða til að sækja slasaða sjófarendur svo eitthvað sé nefnt. Skipið á Ísafirði sinnir einnig flutningi á sjúkum eða slösuðum ferðamönnum og sumaríbúum í Jökulfjörðum og Hornströndum og er jafnvel stjórnstöð í leitum á þessum svæðum. Skipið gegnir einnig mikilvægu öryggishlutverki þar sem erfitt getur verið með samgöngur á landi, eins og hér á norðanverðum Vestfjörðum. Meðalfjöldi útkalla síðustu ár hjá Gísla Jóns hafa verið um 25 útköll á ári

Þetta er stærsta einstaka fjáröflunaverkefnið sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur ráðist í og um leið samfélagslega mikilvægt verkefni. Heildarkostnaðaráætlun við endurnýjunina eru 4,4 milljarðar. Íslenska ríkið leggur til 50% vegna fyrstu 10 skipanna og viðræður standa yfir um aðkomu ríkisins um fjármögnun síðustu þriggja skipanna.

Verkefnið hefur farið vel af stað og nú eru komin til landsins 4 ný skip og von er á tveimur á þessu ári, afhending á nýjum Gísla Jóns er áætluð í lok október. Það sem kemur í hlut heimamana að leggja til allt að 25% af smíðaverði skipanna og því er nú að hefjast söfnun fyrir hlut Björgunarbátasjóðsins sem rekur skipið.

Helstu upplýsingar um nýtt skip:

Lengd: 16.9 metrar
Breidd 4.5 metrar
Vélar: 2x551kw
Hámarksganghraði: 30 mílur
Farsvið: 200 mílur
Sjálfréttandi
Ásamt öllum helstu björgunartækjum

Nánari upplýsingar um söfnunina gefur stjórn Björgunarbátasjóðsins: Gauti Geirsson 8441718, Ragnar Kristinsson 8920660,  Eggert Stefánsson 8933895 og Guðmundur Sigurlaugsson 8919888.

Háskólasetur Vestfjarða á tímamótum

Þegar staldrað er við á tímamótum eins og 20 ára afmæli Háskólaseturs Vestfjarða er áhugavert að líta yfir farinn veg og rifja ýmislegt upp.

Þó svo að efnahagslegur uppgangur hafi almennt ríkt á Íslandi á tímabilinu fyrir 20 til 30 árum síðan, gætti hans ekki mikils á Vestfjörðum. Einhæft atvinnulíf, breytingar í atvinnulífi og þá sérstaklega samdráttur í fisk- og rækjuveiðum hafði mikil áhrif þar á. Stöðug fólksfækkun yfir margra ára tímabil hafði neikvæð áhrif á efnahag og ímynd Vestfjarða.

Fyrir tveimur til þremur áratugum síðan velti maður fyrir sér hvernig hægt yrði að snúa þessari neikvæðu þróun við? Í mínum huga þurfti sú vinna að byggjast á þekkingu. Aukin verðmætasköpun úr sjávarafla yrði byggð upp með meiri þekkingu og auknu þekkingarstigi svæðisins. Sama ætti við um nýtingu ýmissa náttúruauðlinda svæðisins, hvort sem um væri að ræða innan fiskeldis, ferðaþjónustu eða annarrar nýsköpunar eins og hátæknivinnslu afurða úr sjávarfangi sem Kerecis er besta dæmið um.

Til viðbótar við hið hefðbundna iðn- og menntaskólanám þyrfti aukna þekkingu á háskólastigi sem gæti orðið hornsteinn að bættri þekkingaruppbyggingu sem svæðið þurfti nauðsynlega með til að neikvæðri þróun yrði snúið við. 

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað 12. mars 2005 með viðhöfn á Ísafirði. Það voru um 42 stofnfélagar sem undirrituðu stofnskrána en fomleg starfsemi hófst í janúar 2006. Ljóst var að markmið flestra sem að stofnuninni stóðu var að með starfseminni yrði lagður grunnur að háskólastafsemi á Ísafirði. Til að tryggja nauðsynlega breidd í nemendahópinn á sama tíma og lagður yrði grunnur að „akademísku“ umhverfi fyrir háskólanema var ákveðið að bjóða strax upp á góða aðstöðu fyrir nemendur í fjarnámi sem seinna var yfirtekið af Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Eftir aðeins rúmlega árs starfsemi höfðu um 150 nemendur við nánast alla íslensku háskólana sótt nám í gegnum Háskólasetrið.

Þeir tveir megin þættir sem einkenna starfsemi háskólastofnana eru annars vegar kennsla og hins vegar rannsóknastarfsemi. Á sama tíma og unnið var að uppbyggingu rannsóknastarfsemi á Ísafirði með skírskotun til atvinnulífs og náttúru svæðisins var einnig unnið að undirbúningi staðbundinnar kennslu á háskólastigi í Háskólasetri Vestfjarða í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla.

Til þess að háskólastarfsemi hér á svæðinu næði að vaxa og dafna var mikilvægt að stofnun og þróun Háskólaseturs yrði í sátt og samlyndi við íbúa svæðisins því þannig myndu nást sem mest margfeldisáhrif út í atvinnulífið og samfélagið á Vestfjörðum. Það myndi jafnframt styrkja háskólaumhverfið að tengjast náttúru og kjarnastarfsemi á svæðinu sem er sérstök á margan hátt.

Það er ánægjulegt í dag að líta um öxl og sjá hversu vel hefur til tekist og sú sýn og markmið sem hér að framan er lýst hefur gengið eftir. Öflugt meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun og Byggðafræðum eru með skýra skírskotun til svæðisins og eru báðar námsleiðirnar alþjóðlegar og þverfræðilegar sem gerir það að verkum að þær laða að nemendur hingað til Vestfjaða víða úr heiminum. Framan af voru það fyrst og fremst rannsóknir meistaranema sem stóðu fyrir rannsóknahluta háskólastarfsins en síðar jókst rannsóknahlutinn þegar gert var ráð fyrir að kennarar setursins sinntu þeim hluta jafnframt öðrum störfum.

Ljóst er í mínum huga að upphafleg markmið með stofnun háskólasetursins hafi að stórum hluta gengið eftir. Fjölmörg rannsóknaverkefni meistaranema hafa nýst víða í atvinnulífi á Vestfjörðum, meðal annars beint í uppbyggingu fiskeldis, ferðaþjónustu og víðar. Það er staðreynd að með styrkara atvinnulífi styrkjast forsendur byggðar. Ein mælistikan á þróun byggðar er þróun íbúatölu en eftir áratuga fækkun má nú sjá skýra fjölgun íbúa. Önnur mælistika getur verið þróun íbúðaverðs en þar má jafnframt sjá jákvæða þróun með hækkandi fasteignaverði. Erlendir nemar setursins taka margir hverjir virkan þátt í samfélaginu, gera það fjölbreyttara og sterkara fyrir vikið bæði fyrirtækjum og fólki til góða. Þó ekki sé hægt að benda á einn ákveðinn þátt sem snéri framangreindri neikvæði þróun við er í mínum huga ljóst að starfsemi Háskólaseturs Vestfjarða hefur lagt sín lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.

Því ber að þakka þeim góða hópi starfsmanna Háskólaseturs Vestfjarða undir styrkri forystu Dr. Peters Weiss fyrir þá faglegu og góðu vinnu sem þau hafa lagt fram síðastliðin 20 ár, ekki bara samfélaginu okkar hér á Vestfjörðum til góða heldur einnig öllu Íslandi.

Til hamingju öll með tímamótin!

Kristján G. Jóakimsson

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: Ísafjarðarbær fagnar frv.

Frá Patreksfirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar framkomnu frumvarpi um Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna sem hefur það að markmiði að stuðla að markvissri og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þá áherslu sem birtist í tillögunum um markvissa jöfnun, og að jöfnunarkerfið styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum og þeim sveitarfélögum sem hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og flóknar útgjaldaþarfir. Bendir bæjarráðið á að aðstæður fjölkjarnasveitarfélaga eru misjafnar m.t.t. samganga. Í sumum er eingöngu um láglendisvegi milli byggðarkjarna að ræða en annars staðar eru fjallvegir á milli kjarnanna.

Ísafjarðarbær er dæmi um svonefnt fjölkjarnasveitarfélaga, en það hefur orðið til úr sameiningu nokkurra sveitarfélaga og hefur nokkur byggðarlög eða þéttbýli innan sinna vébanda og Vesturbyggð er annað dæmi á Vestfjörðum.

Í umsögn Ísafjarðarbæjar er vikið að þeirri nýjung að veita Reykjavíkurborg og Akureyri sérstakt höfuðstaðarálag og segir þar að önnur sveitarfélög utan Akureyrar og Reykjavíkurborgar séu í dag einnig að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem taka mætti tillit til.

Vesturbyggð: erfiðar samgöngur milli byggðarlaga

Í umsögn Vesturbyggðar er vikið að erfiðum samgöngum milli byggðarlaga innan Vesturbyggðar sem geri það að verkum að ekki sé unnt að hagræða sem skyldi. Því sitji Vesturbyggð ekki við sama borð og önnur fjölkjarnasveitarfélaga og beri að taka tillit til þess við ráðstöfun fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Samkvæmt tillögum frumvarpsdraganna munu fram sjóðsins til Ísafjarðarbæjar aukast verulega eða um 191 m.kr. en óveruleg breyting verður á fjárhæð framlaga til Vesturbyggðar.

Sundatangi: Verkhaf bauð lægst

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Þrjú tilboð bárust í burðarlag og lagnir í tveimur götum Hrafnatanga og Skarfatanga á Sundatanga. Um er að ræða gerð nýrrar götu með fráveitu- og vatnslögnum, niðurföllum, kjarnafyllingu, styrktar- og burðarlagi undir malbik.

Verkhaf ehf bauð lægst 49 m.kr. sem eru 80,3% af kostnaðaráætlun sem er 61 m.kr. Keyrt og mokað ehf bauð 54,3 m.kr. og Grjótverk ehf 74,7 m.kr.

Bæjarráð samþykkti að semja við Verkhaf ehf. á grundvelli tilboðsins.

Aðalfundur og opið hús

Aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða verður haldinn n.k. föstudag, 14.03.2025 kl. 13:00. Fundurinn er opinn gestum.

Samkvæmt skipulagsskrá Háskólaseturs þarf aðalfundurinn að vera haldinn seinast í maí ár hvert og hingað til hefur hann alltaf verið haldinn í maí. Í tilefni afmælisársins var ákveðið að halda aðalfund sem næst upprunalega stofndeginum og heiðra um leið stofnaðilana og það djarfa framtak að stofna sjálfseignarstofnunina Háskólasetur Vestfjarða.

Í beinu framhaldi af aðalfundinum, um kl. 14:30, verður opið hús í Vestrahúsinu þar sem stofnanir og fyrirtæki kynna sig og eru með ýmsar uppákomur og því geta bæjarbúar nýtt tækifærið og séð þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í Vestrahúsi.

Einnig er 20 metra afmæliskaka í undirbúningi og einhverjar stofnanir ætla að bjóða upp á veitingar og/eða leiki og verður það auglýst síðar.

Stjórn Háskólaseturs setur afmælishátíð með ávarpi kl. 15:00. 

Dagskrá:
14:30 – Húsið opnar fyrir gestum
15:00 – Ávörp í tilefni 20 ára afmælis Háskólaseturs og 20 metra afmæliskaka
16:00 – Tónlistaratriði
16:15 – 17:00 – Á Vestfjarðastofu: Frá verstöð til aflstöðvar þekkingar – hver eru næstu skref? Spjallborð um uppbyggingu menntunar á Vestfjörðum.
17:00 – Nemendur kynna námið og lífið á Ísafirði

Auk þessa munu verða ýmiskonar kynningar í stofum Háskólaseturs, s.s. á rannsóknum og ráðstefnum, myndasýningar og kynningar á afurðum nemenda. Einnig munu Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands mæta og kynna sína starfsemi.

Mikil eftirspurn eftir hlutdeildarlánum

Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir marsmánuð. Hægt er að sækja um til og með 20. mars. Um er að ræða fyrstu úthlutun ársins, en HMS mun einnig opna fyrir umsóknir í apríl.

Mikil eftirspurn er eftir hlutdeildarlánum og fyrir helgi höfðu borist umsóknir að fjárhæð 416,7 millj.kr. en til úthlutunar eru 350 millj.kr.

Dugi fjármagn ekki sem er til úthlutunar er dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjanda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána í samræmi við forgangsreglur. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og eru ætluð fyrstu kaupendum, sem og þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Markmið lánanna er að aðstoða fyrstu kaupendur í að komast inn á húsnæðismarkaðinn með því að brúa bilið við fasteignakaup.

Nýjustu fréttir