Miðvikudagur 12. mars 2025
Síða 3

Aðalfundur og opið hús

Aðalfundur Háskólaseturs Vestfjarða verður haldinn n.k. föstudag, 14.03.2025 kl. 13:00. Fundurinn er opinn gestum.

Samkvæmt skipulagsskrá Háskólaseturs þarf aðalfundurinn að vera haldinn seinast í maí ár hvert og hingað til hefur hann alltaf verið haldinn í maí. Í tilefni afmælisársins var ákveðið að halda aðalfund sem næst upprunalega stofndeginum og heiðra um leið stofnaðilana og það djarfa framtak að stofna sjálfseignarstofnunina Háskólasetur Vestfjarða.

Í beinu framhaldi af aðalfundinum, um kl. 14:30, verður opið hús í Vestrahúsinu þar sem stofnanir og fyrirtæki kynna sig og eru með ýmsar uppákomur og því geta bæjarbúar nýtt tækifærið og séð þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í Vestrahúsi.

Einnig er 20 metra afmæliskaka í undirbúningi og einhverjar stofnanir ætla að bjóða upp á veitingar og/eða leiki og verður það auglýst síðar.

Stjórn Háskólaseturs setur afmælishátíð með ávarpi kl. 15:00. 

Dagskrá:
14:30 – Húsið opnar fyrir gestum
15:00 – Ávörp í tilefni 20 ára afmælis Háskólaseturs og 20 metra afmæliskaka
16:00 – Tónlistaratriði
16:15 – 17:00 – Á Vestfjarðastofu: Frá verstöð til aflstöðvar þekkingar – hver eru næstu skref? Spjallborð um uppbyggingu menntunar á Vestfjörðum.
17:00 – Nemendur kynna námið og lífið á Ísafirði

Auk þessa munu verða ýmiskonar kynningar í stofum Háskólaseturs, s.s. á rannsóknum og ráðstefnum, myndasýningar og kynningar á afurðum nemenda. Einnig munu Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands mæta og kynna sína starfsemi.

Mikil eftirspurn eftir hlutdeildarlánum

Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur opnað fyrir umsóknir um hlutdeildarlán fyrir marsmánuð. Hægt er að sækja um til og með 20. mars. Um er að ræða fyrstu úthlutun ársins, en HMS mun einnig opna fyrir umsóknir í apríl.

Mikil eftirspurn er eftir hlutdeildarlánum og fyrir helgi höfðu borist umsóknir að fjárhæð 416,7 millj.kr. en til úthlutunar eru 350 millj.kr.

Dugi fjármagn ekki sem er til úthlutunar er dregið af handahófi úr umsóknum þeirra umsækjanda sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána í samræmi við forgangsreglur. Í forgangi eru umsóknir þar sem staðfest kauptilboð liggur fyrir, auk þess sem miða skal við að á hverju ári verði að minnsta kosti 20% veittra hlutdeildarlána veitt til kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og eru ætluð fyrstu kaupendum, sem og þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu fimm ár og eru undir tilteknum tekjumörkum. Markmið lánanna er að aðstoða fyrstu kaupendur í að komast inn á húsnæðismarkaðinn með því að brúa bilið við fasteignakaup.

Skíðaskotfimimót 10. mars á Ströndum

Skíðaskotfimi er íþrótt sem blandar saman skíðagöngu og skotfimi. Keppt verður 10. mars, daginn eftir Strandagönguna.

Mótið er samstarfsverkefni Skíðasambands Íslands og Skíðafélags Strandamanna til kynningar á íþróttinni.

Umframtekjur skotfimimótsins fara í að kaupa búnað.

Gengnir verða 3 x 2,5 km hringir og skotið tvisvar á skotmörk með skíðaskotfimirifflum, fyrst liggjandi og síðan í standandi stöðu. Á skotsvæðunum er skotið fimm skotum í senn en fyrir hvert feilskot þarf að fara einn refsihring. Refsihringur er stuttur hringur til hliðar við brautina.

Sá keppandi sigrar sem lýkur keppni með stystan heildartíma.

Aldursflokkar í karla- og kvennaflokki:

  • 11-15 ára laser rifflar
  • 16-35 ára .22 kalibera rifflar
  • 36 ára og eldri .22 kalibera rifflar

Skráningu lýkur fimmtudaginn 7. mars.

Færri skemmtiferðaskip til Flateyjar

Á Reykhólavefnum er greint frá því að í fyrra hafi komið 14 skemmtiferðaskip til Flateyjar með alls 2.115 gesti.

Árið 2023 komu 9 skip með 1.220 farþega og árið 2022 komu 14 skip með 1.893 farþega.

Aðeins 6 skipakomur eru skráðar á þessu ári, en  leiða má líkur að því að breytingar á tollfrelsi skemmtiferðaskipa hafi eitthvað með það að segja, en mörg skip afbókuðu ferðir fyrir síðustu áramót þegar útlit var fyrir að tollafrelsið yrði afnumið um áramótin.

Nú liggur fyrir að tollafrelsi er framlengt til 1. janúar 2026.

Hrun í bókun skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar

Skemmtiferðaskipið Oceanic við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bókunum skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 hefur fækkað um helming frá því sem var á síðasta ári og eru í dag aðeins 84 skipakomur bókaðar. Til samanburðar voru um 150 skip bókuð í fyrra á sama tíma fyrir 2026.

Hilmar K. Lyngmo, hafnastjóri segir í minnisblaði sem lagt var fram í hafnastjórn í síðustu viku að staðan fyrir árið 2027 hljóti að teljast áhyggjuefni.

Í sumar eru 197 skip bókuð hjá höfnum Ísafjarðar og á næsta ári 2026 eru bókaðar 176 komur.

Í minnisblaðinu kemur fram að varðandi árið 2027 þá munu skipafélögin bíða með frekari bókanir þar til í ljós kemur hvort framkvæmd innviðagjaldsins verði breytt. Það sem félögin eru fyrst og fremst að kalla eftir er fyrirsjáanleiki varðandi starfsumhverfið. Ef hann vantar er erfitt að halda uppi ferðum til Íslands. Hilmar segir að skilaboðin frá skipafélögunum séu skýr, ef ekki verði búið að breyta álagningu innviðagjaldsins fyrir næstu mánaðamót muni skipafélögin finna sér aðrar hafnir en hér á landi.

Hins vegar munu skipafélögin standa við þær ferðir sem búið var að selja hingað árin 2025 og 2026.

Óánægjan stafar af því að innviðagjaldið 2.500 kr á hvern farþega fyrir hvern sólarhring var sett á með lögum fyrir áramótin og verða skipafélögin að greiða gjaldið þar sem farþegarnir voru búnir að kaupa ferðirnar og greiða þær. Falla þannig háar fjárhæðir á skipafélögin.

Málið var rætt á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun og samþykkti bæjarráðið eftirrfarandi bókun þar sem farið er fram á endurskoðun málsins:

„Bæjarráð telur að skattlagning á gesti skemmtiferðarskipa hafi komið of hratt til framkvæmda og að upphæðin sé í engu samræmi við aðra skattlagningu á gesti sem koma til landsins. Með þessu er verið að fórna talsvert meiri hagsunum fyrir minni. Bæjarráð beinir því til yfirvalda að endurskoða upphæðir og auka fyrirsjáanleika.“

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: 191 m.kr. aukning til Ísafjarðarbæjar – en mikil skerðing hjá öðrum

Ísafjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem ætlað er að  „stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, einfalda skipulag sjóðsins og stuðla að því að hann fylgi þróun sveitarfélagagerðarinnar.“

Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda til kynningar frá 10. mars 2023 til 30. mars 2023 og var lagt fyrir 154. löggjafarþing Alþingis 2023-2024 en náði ekki fram að ganga. Ráðherra fól ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í janúar sl. að ganga frá endanlegum tillögum um breytingar á starfsemi og regluverki sjóðsins og er nú áformað er að leggja frumvarpið aftur fram með nokkrum breytingum.

Lögð er nú aukin áhersla á að líkanið styðji við sveitarfélög sem hafa stór þjónustusóknarsvæði og fjölbreytt byggðamynstur og hafa af þeim sökum miklar og flóknar útgjaldaþarfir. Þá er stefnt að því að dregið sé úr neikvæðum hvötum til sameininga. Enn fremur eru lagðar til aðrar breytingar á líkaninu sem hafa m.a. það markmið að koma í veg fyrir að líkanið hamli sameiningu mjög stórra sveitarfélaga og að líkanið styðji betur við sveitarfélög með stór þjónustusvæði og fjölbreytt byggðamynstur.

2,4 milljarðar króna til Vestfjarða

Samkvæmt töflu um breytingar á úthlutun sjóðsins til einstakra sveitarfélaga myndu renna um 2.360 m.kr. til sveitarfélaganna á Vestfjörðum eftir breytingar sem er nánast sama fjárhæð og er samkvæmt gildandi úthlutunarreglum. Hins vegar verða verulegar breytingar á úthlutun einstakra sveitarfélaga. Framlög til Ísafjarðarbæjar munu aukast um 191 m.kr. og um 31 m.kr. til Bolungavíkur. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur, sem nú hafa sameinast, munu fá samtals óbreytt framlag. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum munu tapa á breytingunum.

Reykhólahreppur fær 70 m.kr. minna en nú, Súðavík 63 m.kr. minna og Strandabyggð 49 m.kr. lægri framlög eins og sést í töflunni að neðan.

höfuðstaðaálag

Meðal nýmæla í frumvarpsdrögunum er að greitt verði framlag vegna sérstakra áskorana vegna höfuðstaðarálags, sem úthlutað skal til Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar, og skulu nema allt að 2,5% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 2. gr.,. Framlagið skiptist þannig að einu prósentustigi þess skal skipta
jafnt á milli sveitarfélaganna tveggja og 1,5 prósentustigi skal skipta eftir fjölda íbúa þeirra 1. janúar ár hvert.

Fær Reykjavíkurborg 400 m.kr. í aukin framlög vegna þessa og Akureyri 157 m.kr. Hingað til hefur Reykjavíkurborg fengið óveruleg framlög úr Jöfnunarsjóðnum enda ekki talin þörf á því.

Vestfirðir: íbúum fjölgaði um 10,4% á fjórum árum

Frá Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Frá 1.desember 2020 til 1. mars 2025 fjölgaði íbúum á Vestfjörðum úr 6.830 í 7.541 eða um 10,4%. Á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 9,9%. Á þessum rúmum fjórum árum varð því ívið meiri íbúafjölgun á Vestfjörðum en á landsvísu. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði á sama tíma um 10,2%, sem er aðeins minni fjölgun en varð á Vestfjörðum.

Lítil fjölgun síðustu þrjá mánuði

Síðustu þrjá mánuði hefur verið lítil íbúafjölgun á landinu, aðeins 698 manns sem er 0,2%. Hefur hægt mikið á fjölguninni sem verið hefur síðustu ár. Umtalsverð fækkun varð á Suðurnesjum og Austurlandi og einng varð fækkun á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Fjölgun varð á Suðurlandi um 0,4% og höfuðborgarsvæðinu um 0,3%.

Óbreytt staða var á Vestfjörðum. Fækkun varð í Ísafjarðarbæ um 29 manns, en fjölgun í Vesturbyggð um 14 og um 6 í Súðavík.

Eldislax: metútflutningur til Bandaríkjanna í janúar

Aldrei áður hefur eins mikið af eldisafurðum verið flutt út til Bandaríkjanna í einum mánuði og í janúar í ár. Laxaafurðir eru um 95% af útflutningnum þangað. Verðmætið nam 2,3 milljörðum króna og er það langtum meira en í janúar 2024. 

Bandaríkin eru þar stærst í útflutningi á eldisafuðum á þessu ári en næst mest af eldisafurðum var selt til Hollands eða fyrir um 1,6 milljarða króna. Því næst kemur Danmörk með um 900 milljónir króna. Athygli vekur að útflutningur til Þýskalands vex stórum og slagar hann nú í hálfan milljarð. Þetta má lesa úr tölum Hagstofunnar sem nýlega voru birtar.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

14,6 milljarða króna í janúar og febrúar

Útflutningsverðmæti eldisafurða fystu tvo mánuði þessa árs námu 14,6 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri. Í fyrra var flutt út fyrir 13,1 milljarð króna reiknað á föstu verðlagi. Árið 2019 voru útflutningsverðmæti 4,7 milljarðar króna. Aukingin frá þeim tíma er liðlega þreföldun eða nákvæmlega 211%.

Ef litið er nokkur ár aftur í tímann, til ársins 2019, kemur í ljós að hlutfall eldisafurða af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða í janúar og febrúar hefur aukist umtalsvert, úr 10% í 26%. Bara frá árinu 2022 hefur það rúmlega tvöfaldast.

Bíldudalur: Varnargarður beytti engu um snjóflóðahættu

Kort sem sýni fyrirhugaðan varnargarð. Þverlínan A sýnir mörkin við Litlu Eyri.

Vesturbyggð hefur stytt varnargarð ofan og innan við byggðina á Bíldudal úr 1000 metrum í 800 metra þar sem ekki náðist samkomulag við landeigendur um að garðurinn nái inn á land Litlu Eyrar. Landeigendu benda á að garðurinn hefði haft óveruleg áhrif á snjóflóðahættu og því ekki breytt hættumati á þessu svæði. Veðurstofan segir á að einungis megi reisa íbúðarhús neðan A línu og garðurinn hafi því ekki áhrif á mögulega landnýtingu svæðisins.

Fulltrúi landeigenda segir að hefði garðurinn verið ætlaður til varnar snjóflóðum og byggð hefði verið sjálfsagt að heimila hann. En ekki sé vilji til þess að láta land undir garð með afar takmörkuðum notum sem spillir verulega ásýnd hlíðarinnar upp af túninu (ofan þjóðvegarins – Dalsbrautar) og skerðir búsetusvæði margra fuglategunda, gæsa, anda, stelka, jaðrakana og mófugla.

Í bréfi Veðurstofunnar kemur fram að varnargarðurinn gagnist fyrst og fremst sem vörn fyrir aurskriður, grjóthrun, vatnsflóð og lítil krapaflóð og dragi úr óþægindum og tjóni sem slíkt kynni að valda.

Úr bréfi Veðurstofunnar 19. desember 2024 til Umhverfis-, orku- ogloftlagsráðuneytisins.

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Nú eru það engin ný sannindi að oft er erfitt að fá þjónustu í íslensku; einkum innan veitingahúsageirans og innan ferðamannaiðnaðarins (örugglega fleiri staðir). Margir álíta það ekki vandamál fyrir sig. Þeir séu svo forframaðir og sigldir að þeir geti vel notast við engilsaxnesku enda svo sem ekki beint náðarsamlegt gustukaverk að panta eins og einn kaffi á ensku. Slíkt má örugglega til sanns vegar færa. Það er ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan á ensku hvað þetta varðar. Það væri meira að segja ekkert stórkostlega erfitt að gera sig skiljanlegan undir þessum kringumstæðum þótt viðkomandi væri í landi þar sem þjónustuaðilinn talar enga ensku (já, þau lönd fyrirfinnast á kúlunni). Kaffiþyrstur maður eða svangur finnur alltaf leið. Því er manni spurn hví má ekki nálgast slíkar aðstæður með svipuðu hugarfari, bara með öfugum formerkjum á Íslandi hafi maður íslensku að móðurmáli eða kunni íslensku einkar vel og noti hana almennt í íslensku samfélagi. En það er önnur saga og ekki beint það sem koma skal inn á hér.

Aðalvandamálið þegar þjónusta á íslensku er ekki í boði!

Meginvandkvæðin eru nefnilega ekki skortur á íslensku fyrir þann sem kann hana, þrautin þunga er ekki, eða ætti ekki endilega að vera málhafans megin, þótt hann kunni að ergja sig yfir því að mál hans sé ekki brúkað þegar hann vill panta sér eitthvað. Má þó vel hafa skilning á kergjunni sem kann að myndast. Auðvitað! Stóra vandamálið er að þá geta þeir sem læra málið, eru kannski að byrja að læra það, ekki notað þá grunníslensku sem þeir hafa tileinkað sér. Því einhvers staðar þarf maður að byrja og ef skilaboðin eru sínkt og heilagt: Sorry I don´t speak any Icelandic þá er erfitt að sjá fyrir sér að sá aðili fái á tilfinninguna að hann þurfi mikið á íslensku að halda og alveg örugglega ekki til þess hvetjandi að spreyta sig á erfiðari hlutum. Viðkomandi fær þá ekki þá nauðsynlegu æfingu sem til þarf til að læra málið skref fyrir skref og þá alls ekki þá árangurstengdu tilfinningu (frammistöðugleði) sem oftlega hlýst af því að hafa gert sig skiljanlegan á markmálinu.

Þetta er vandamál sem þarf að tækla sé vilji fyrir því að fólk komist inn í íslenskt (mál)samfélag. Þetta er vandamál sem yfirvaldið á að tækla en einnig getur almenningur vissulega lagt sín lóð á vogarskálina. Það er einfaldast með því að tala bara íslensku, vandaða og skiljanlega. Það er alltént ekki úr vegi að hafa þetta í huga gott fólk.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Höfundur kennir íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands

Nýjustu fréttir