Þriðjudagur 3. september 2024
Síða 29

Vestri: 2. sigurinn hjá kvennaliðinu

Kvennalið Vestra á æfingu. Mynd: Vestri.

Kvennalið Vestra, sem tekur þátt í 2. deild í knattspyrnu, sótti sinn annan sigur í deildinni í gær þegar þær lögði Einherja frá Vopnafirði að velli 2:1 á Kerecis vellinum á Ísafirði. Austfirðingarnir tefla fram sterku liði og er það í 4. sæti í deildinni. Þær byrjuðu betur og tóku forystuna snemma leiks. Í síðari hálfleik jöfnuðu Vestra stúlkurnar með marki frá Láru Ósk Albertsdóttur og skömmu fyrir leikslok gerði Dagmar Pálsdóttir sigurmarkið fyrir Vestra.

Júlímánuður hefur verið góður fyrir Vestra, fyrsti sigurinn kom á Kerecis vellinum fyrir hálfum mánuði og var það gegn Álftanesi og svo jafntefli við Völsung frá Húsavík.

Vestri er nú í 12. sæti með 8 stig og hafa þau öll unnist á heimavelli. Eftir strembna byrjun er Vestri komið upp úr botnsætinu og í hóp fjögurra liða og gæti þær með einum sigri skotist upp í 9. sætið nú þegar mótið er hálfnað.

Tap hjá körlunum

Vestri karlalið lék einnig á Kerecis vellinum í Bestu deildinni og fékk FH í heimsókn. Hafnfirðingarnir eru í 4. sæti í deildinni og eitt af toppliðunum. Engu að síður áttu Vestfirðingarnir í fullu tré við FH, sérstaklega í fyrri hálfleik. Undir lok leiksins náðu Hafnfirðingarnir að gera tvö mörk og fóru með sigur af hólmi. Eftir að FH hafði tekið forystuna átti Vestri gott skot að marki og hefði jafnað leikinn en markvörður Hafnfirðinganna átti góða markvörslu og kom í veg fyrir það.

Það er frekar súrt í brotið fyrir Vestra að vera tómhentir eftir þennan leik.

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra sagði eftir leikinn í viðtali við fótbolti.net að fyrri hálfleikur hefði verið einn besti hálfleikur Vestra í sumar og heilt yfir mjög góður leikur hjá liðinu. Hann sagði að stundum falli hlutirnir ekki með Vestra og sagði markvörslu FH í lokin hafa verið á heimsmælikvarða.

Vestri er áfram í 11. sæti með 12 stig í Bestu deildinni.

Andmæla tillögum um að færa heilbrigðiseftirlit til ríkisins

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða er í Bolungavík.

Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi andmæla tillögum umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins og matvælaráðuneytisins um að leggja niður heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga í núverandi mynd og flytja málaflokkinn frá sveitarfélögum til ríkisins.

Ráðuneytin hafa sett á laggirnar stýrihóp í framhaldi af Skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum, útg. ágúst 2023 sem hefur það hlutverk „að fylgja eftir tillögum starfshópsins og undirbúa innleiðingu á nýju eftirlitskerfi“.

Í bréfi samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, SHÍ, til sveitarfélaganna frá því í júní er vakin athygli á þessum áformum.

SHÍ gerir alvarlegar athugsemdir við skýrslu starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum
og mengunarvörnum og matvælum og telur rökstuðning vanta fyrir niðurstöðu hópsins um að heppilegast sé að flytja heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga til ríkisins.

Helstu röksemdir í skýrslunni, skv. bréfi SHÍ, eru þær að skortur sé á samræmingu heilbrigðiseftirlits á landinu, núverandi fyrirkomulag hafi í för með sér of mikið flækjustig og kostnað fyrir atvinnurekendur, og að ESA hafi í sínum úttektum gert athugasemdir við núverandi fyrirkomulag matvælaeftirlits vegna
orðsporshættu.

SHÍ telur að flækjustig muni ekki minnka, heldur aukast, við flutning eftirlits til ríkisins þar sem leyfisveitingar sem eru í höndum heilbrigðiseftirlita í dag mun skiptast á tvær stofnanir, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. „Flutningur á verkefnum frá sveitarfélögum til ríkisins hefur yfirleitt haft í för með sér aukinn kostnað fyrir rekstraraðila og samfélagið, en ekki þá lækkun í kostnaði sem stefnt er að.“

Einnig bendir SHÍ á að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga er rekið af sértekjum allt að 70% þannig að sveitarfélögin leggja til um 30% af kostnaði að jafnaði. Tillögur ofangreindrar skýrslu snúast um að taka yfir þau verkefni sem eru rekin af sértekjum en hin verkefnin, s.s. tiltekt á lóðum og lendum, vöktun á loftgæðum, vatngæðum og strandsjó, umsagnir og ráðgjöf, munu liggja áfram hjá sveitarfélögunum.

SHÍ bendir einnig á að athugasemdir ESA snúa ekki nema að takmörkuðu leyti að matvælaeftirliti heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga heldur að stærstum hluta að matvælaeftirliti sem rekið er af ríkinu sjálfu.

Að mati SHÍ er niðurstaða skýrslunnar byggð á veikum grunni, rökstuðning vantar og samráði við hagaðila, þ.m.t. heilbrigðiseftirlitin og sveitarfélögin, verulega ábótavant.

Minning: síra Einar Guðni Jónsson

f. 13. apríl 1941- d. 4. apríl 2020.

Jarðsunginn frá Fossvogskapellu 16. apríl 2020.

Langafi sr. Einars var Jón háyfirdómari, sonur þess góðfræga prófasts sr. Péturs á Víðivöllum Péturssonar og konu hans frú Þóru Brynjólfsdóttur gullsmiðs Halldórssonar biskups á Hólum Brynjólfssonar. Kona háyfirdómarans var Jóhanna Soffía Bogadóttir stúdents og fræðimanns á Staðarfelli höfundar Sýslumannaæva ættföður Staðarfellsættar. Háyfirdómarinn var bróðir Brynjólfs Fjölnismanns og Péturs biskups en faðir sr. Péturs á Kálfafellsstað föður sr. Jóns, föður sr. Einars. Tvíburabróðir sr. Péturs á Kálfafellsstað var sr. Brynjólfur á Ólafsvöllum á Skeiðum.

Frú Þóra móðir sr. Einars var dóttir Einars verkstjóra Jónssonar á Akranesi og Guðbjargar Kristjánsdóttur frá Bár í Eyrarsveit. Jón föðurafi frú Þóru var bróðir sr. Hjörleifs á Undornfelli Einarssonar föður Einars H. Kvaran rithöfundar. Móðir Jóns var Þóra Jónsdóttir Schjöld bónda á Kórreksstöðum Þorsteinssonar ættföður Vefaraættarinnar sem rakin verður til sr. Hjörleifs prófasts Þórðarsonar á Valþjófsstað.

Sú hneigð í fari sr. Einars og gætti frá unglingsárum var löngun til að leika á hljóðfæri, teikna og mála. Hann var í prédikun sinni ljós og gagnorður án orðaprjáls og tilgerðar. Meðfram stundaði hann kennslustörf og var ástsæll meðal nemenda svo ríkulega sem hann var búinn spauggreind og fullkomlega laus við smámunasemi.

Það er varla að taka of djúpt í árinni þótt sagt sé, að alla ævi hafi músík verið líf hans og yndi. Ungur lærði hann á píanó og efldi með sér tónlistarskyn. Bar frá hve leikinn hann var að spila eftir eyranu sem kallað er; þar voru ekki á ferð nein vinnukonugrip eða klökkir hljómar heldur ævinlega þeir kórréttu. Var unun að horfa á sr. Einar við hljóðfærið; hann hafði slíka ánægju af íþróttinni að hann brosti með öllu andlitinu.

Sr. Einar hélt fast við þann sið gömlu prestanna að taka hús hver á öðrum þegar þeir voru á ferðinni, þiggja beina, dveljast nætursakir. Þau frú Sigrún voru líka að sínu leyti viðbrigða gestrisin. Hann var ekki skrafinn og fyrirleit slúður. En hann var eldfljótur að taka við sér í ávarpi og var þó stundum hlustandi að hófi; ef til vill var hann uppgefinn á tali í fólki og kann að hafa verið orsök þess að það fór stundum að ymja í honum á meðan misvitrir viðmælendur létu dæluna ganga.

Frændrækinn var sr. Einar og svo frábærlega sinnti hann frú Betu móðursystur sinni að sjaldgæft er; óþreytandi að vitja hennar og voru þeir dagar færri að hann næði ekki fundi þeirra sr. Fjalars eða hefði tal af öðru hvoru þeirra hjóna og ekki síður eftir að frú Beta lagðist veik á spítala.

Þótt sr. Einar nyti sín uppi á pallinum var hann frábitinn því að trana sér fram. Oft fór hann með latneskt máltæki við mig: Bene vixit, qui bene latuit (sá lifði vel sem leyndist). Hann var ljúfmenni og ég hygg að hann hafi „viljað að allir færu fegnir af hans fundi“ eins og Eysteinn konungur forðum. Hafi hann þökk og veri kært kvaddur. Ástvinum innileg samúð. Guð blessi minningu góðs drengs.

Gunnar Björnsson,

pastor emeritus.

Stangveiðin í Djúpinu : 465 ár að ná einu ári í laxeldinu

Fyrirstöðuþrep í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Teljarinn er staðsettur í hólfinu ofan við þrepið. Mynd: Hafrannsóknarstofnun.

Hafrannsóknarstofnun hefur ákveðið að takmarka eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpinu við 12.000 tonn á ári þrátt fyrir að burðarþolsmatið heimili 30.000 tonn.

Útflutningsverðmæti á 18.000 tonna framleiðslu af eldislaxi árlega er um 20 milljarðar króna. Þessum tekjum er fórnað til þess að vernda laxastofnana í Laugardalsá og Langadalsá að viðbættri Hvannadalsá.

Um þessa ráðstöfnun má margt segja, hún er ekki byggð á merkilegri fiskifræði. Fyrir það fyrsta er laxeldið ekki hættulegt umræddum stofnum. Svo er búið að loka fyrir aðkomu óæskilegra fiska upp í árnar með svokölluðum árvökum. Ef lagt er í að hafa mann á vakt við búnaðinn þessa daga sem lax gengur upp í árnar er það alveg öruggt. Þá er hnúðlaxinn líklega meiri skaðvaldur, þótt hann blandist ekki Atlantshafslaxinum, þar sem hann hrygnir í ánum og tekur pláss og hver veit nema hann spilli hrygningu villta laxins. En árvakinn dugar líka sem vörn fyrir hnúðlaxinum.

Lítum aðeins á efnahagslegu áhrifin. Töpuðu tekjurnar liggja fyrir, þær eru um 20 milljarðar króna á hverju ári.

Hverjar eru tekjurnar af stangveiðinni, sem er verið að verja með þessari ákvörðum Hafrannsóknarstofnunar? Um það fást ekki upplýsingar hjá þeim sem hafa árnar á leigu og selja veiðileyfi í þær. Hvorki Stangveiðifélag Reykjavíkur né Starir ehf veita upplýsingar um tekjurnar. Þá eru engar upplýsingar að hafa hjá Hagstofu Íslands um stangveiðina, hvorki í Ísafjarðardjúpi né á landsvísu. Stofnunin skilar auðu þegar spurst er fyrir um þessa atvinnugrein, tekjur og gjöld.

Allt frá siðaskiptum árið 1550

En það er hægt að nálgast mögulegar tekjur með því að skoða auglýst verð á stöng í ánum. Í því mati getur verið töluverð ónákvæmni , þar sem matið verður ekki betra en upplýsingarnar sem byggt er á.

Samkvæmt fyrrliggjandi upplýsingum er selt veiðileyfi í árnar um 90 daga hverja fyrir sig. Á vefnum Veiðiheimum kemur fram að í Langadalsá eru 88 veiðidagar og 4 stangir leyfðar. Hvannadalsá er með 97 veiðidaga og 2 stangir og í Laugardalsá eru 93 veiðidagar og 2-3 stangir.

Verðið sem er auglýst í Langadalsá samsvarar 60.000 – 80.000 kr. á hverja stöng pr. dag. Samkvæmt því eru mögulegar tekjur yfir sumarið 22 – 29 m.kr. Í Hvannadalsá eru verðin um helmingur þess sem er í Langadalsá. Tekjur þar gætu því verið 5 – 7 m.kr. Loks er það Laugardalsá. Þar eru nú auglýst til sölu leyfi fyrir 3 daga á 137.500 kr. pr. stöng. Miðað við það gætu sumartekjurnar verið um 12 m.kr.

Samtals eru því ætlaðar tekjur af stangveiðinni í Ísafjarðardjúpi 39 – 48 m.kr. Meðaltalið er um 43 m.kr.

Berum því saman þessar stærðir. Til þess að verja 43 m.kr. sumartekjur er fórnað 20.000 m.kr. – á hverju einasta ári!

Stangveiðin er samkvæmt þessum áætlunum 465 ár að skila sömu tekjum og laxeldið myndi skila á hverju ári.

Ef við leikum okkur aðeins með þessar tölur. Þá hefði stangveiðin þurft að skila 43 m.kr. á hverju ári frá siðaskiptum sem voru um árið 1550 til þess að vera jafngilt einu ári af því laxeldi sem fórnað er á hverju ári í Djúpinu stangveiðinni til varnar.

Árið er 1550 – sama ár og Jón Arason var hálshöggvinn.

Er ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?

Það má alveg segja það.

-k

Nýr bátur til Drangsness

Nýi Skúli siglir inn í höfnina.

Nýr bátur kom til heimahafnar á Drangsnesi á fimmtudaginn. Báturinn er 15 tonna Kleopatra með beitningavél. Útgerðarfélagið Skúli ehf. á Drangsnesi á bátinn og gerir hann út.

Haraldur Ingólfsson verður skipsstjóri á bátnum.

Óskar Torfason er framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Skúla og er með 10 starfsmenn.

Útgerðarfélagið tók á móti bátnum með viðhöfn og bauð viðstöddum í veitingar.

Haraldur Ingólfsson skipstjóri ásamt föður sínum Ingólfi Andréssyni.

Myndir: Óskar Albert Torfason.

Stuttnefja

Stuttnefja er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Kynin eru eins.

Fluglag og hegðun eru í grundvallaratriðum eins og hjá langvíu. Stuttnefja er best greind frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli og á veturna á hvítum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.

Stuttnefja kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.

Af vefsíðunni fuglavefur.is

Þingeyringar fengu lax frá Arctic Fish

Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish sem ásamt dótturfyrirtækjunum Arctic Smolt, Arctic Sea Farm og Arctic Odda starfar vítt og breytt um Vestfirði segir frá því á facebooksíðu sinni í gær að það hafi gefið Dýrfirðingum lax sem þeir hafi kunnað vel að meta.

„Matvælastofnun hefur ýmiskonar eftirlit með eldisfyrirtækjum. Eitt af því sem að þau vilja kanna er kynþroskastig fiskins okkar.

Til að til að kanna kynþroska verður að aflífa fiska, taka út kynkirtla og vega þá. Í gær fór þessi rannsókn fram og stýrðu starfsmenn Blás Akurs aðgerðinni. Tekin voru sýni af 133 fiskum með meðalþyngd um 4kg sem er fyrirtaks matfiskur.

Ekki vildum við láta þá fara til spillis og starfsfólkið okkar í Dýrafirði tók sig til og bauð Þingeyringum upp á þessi flottu laxaflök sem að Rafal okkar hafði flakað.

Þetta virðist hafa farið vel í íbúana og má sjá á samfélagsmiðlum myndir af gómsætum laxaréttum sem voru á boðstólum á Þingeyri í gær.“

Ólöglegt bleikiefni í hveiti og framleiðslugalli á safa

Matvælastofnun vill upplýsa neytendur um innköllun á tveimur tegundum af United flour hveiti frá Thailandi sem fyrirtækin Fiska.is og Dai Phat flytur inn vegna þess að það inniheldur ólöglegt aukefni benzólý peroxíð. Fyrirtækin hafa í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað vöruna.

Tilkynningarnar bárust til Matvælastofnunar í gegnum RASFF evrópska hraðviðvörunarkerfið. 

Innköllunin á við allar dagsetningar og framleiðslulotur.

Neytendur sem keypt hafa vöruna er bent að neyta hennar ekki, farga eða fara með hana í verslunina og fá endurgreitt.

Þá segir Matvælastofnun einnig frá því að Innnes ehf. hafi að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur stöðvað sölu og innkallað frá viðskiptavinum Beutelsbacher Epla- og Gulrótarsafa (750 ml) þar sem galli við framleiðslu veldur vexti mjólkursýrubaktería þannig að drykkurinn gerjast.
Innköllunin einskorðast við þær vörur sem merktar eru með dagsetningunni 01.03.26. 

Guðni Th sæmdur gullmerki á tindi Glissu í Árneshreppi

Guðni Th. Jó­hann­es­son for­seti Íslands var sæmd­ur gull­merki Ferðafé­lag Íslands fyr­ir fram­lag sitt til mál­efna vegna lýðheilsu og úti­vist­ar í heimsókn sinni í Árneshrepp fyrr í þessum mánuði.

For­set­inn hef­ur tekið þátt í mörg­um viðburðum Ferðafé­lags Íslands á embætt­istíð sinni og lagt sitt lóð á vog­ar­skál­arn­ar til að auka áhuga þjóðar sinn­ar á heil­brigðum lífs­hátt­um og úti­vist er sagt í til­kynn­ing­unni Ferðafélagsins.

Páll Guðmunds­son fram­kvæmda­stjóri FÍ sæmdi Guðna merk­inu á tindi Glissu í Árnes­hreppi.

Tónleikar í Gallerí Úthverfu í dag

Föstudaginn 26. júlí kl. 16 – 17 verða haldnir tónleikar á sýningu Spessa – FAUK – í Úthverfu, Aðalstræti 22. Tilvalið að kíkja við á milli tveggja viðburða: markaðsdags í Dokkunni og opnunar á sýningunni TVEIR VITAR í Edinborg.

Morjane Ténéré er söngkona og lagasmiður innblásinn af þjóðlagatónlist, blús, tónlist frumbyggja Ameríku or þjóðlegri tónlist frá Norður-Afríku. Hún hefur haldið yfir tvöhundruð tónleika um alla Evrópu. Nafnið hennar, Ténéré, þýðir eyðimörk á máli Túarega. Frumefnin – vatn, eldur, jörð og loft – eru rauði þráðurinn í lögunum hennar og tónlistin ber keim af helgisiðum, hún er bæði ferðalag og upphaf. Rödd hennar mun fá þig til að gráta.

Með henni spilar fransk-íslenski tónlistarmaðurinn Christian Helgi á trommur, gítar og píano

Nýjustu fréttir